Síða 2332

Léttskýjað og hægur vindur

Það viðrar vel til útivistar á Vestfjörðum í dag en Veðurstofa Íslands gerir ráð fyrir hægri austlægri eða breytilegri átt í fjórðungnum og yfirleitt verður léttskýjað. Frostið gæti þó kroppað eitthvað í kinn þar sem það verður að 10 stigum. Veður verður á svipuðum nótum fram á laugardag er Veðurstofan spáir áfram hægum austlægum eða breytilegum vindi yfir landinu og víða léttskýjuðu. Áfram verður kalt í veðri.

Á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja. Snjóþekja er á Þröskuldum og Steingrímsfjarðarheiði.

annska@bb.is

Bolvíkingar ósáttir við vinnubrögð Gísla Halldórs

Formaður bæjarráðs Bolungvíkurkaupstaðar gagnrýnir vinnubrögð Gísla Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, vegna hugmynda um sameiningu sveitarfélaga við Djúp. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að bjóða Súðavíkurhreppi til samstarfs um að kanna möguleika á sameiningu og verður sótt um fjárframlag frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til framkvæmdar slíkrar könnunar.

„Það kemur manni spánskt fyrir sjónir að þau tvö ætli að fara í einhverja sér vegferð. Það var búið að ákveða að funda þann 10. mars um samstarf sveitarfélaga við Djúp svo þetta kemur á óvart,“ segir Baldur Smári Einarsson, formaður bæjarráðs Bolungarvíkurkaupstaðar.

Arna Lára Jónsdóttir, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar, sagði í samtali við bb.is að Bolungarvíkurkaupstað hafi verið boðið að borðinu, en hafi hafnað því. „Okkur var ekki beinlínis boðið,“ segir Baldur Smári um orð Örnu Láru. „Á óformlegum fundi kynnir bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar ákveðið prójekt sem var fullmótað og við áttum að samþykkja. Þetta er verklag sem við getum engan veginn við sætt okkur við og er okkur algjörlega á móti skapi. Hvernig staðið var að þessu af hálfu bæjarstjórans á Ísafirði er sameiningu og auknu samstarfi ekki til framdráttar,“ segir Baldur Smári.

Hann segir að eftir þennan óformlega fund hafi verið ákveðið að setjast niður og ræða málin á ofangreindum fundi sem halda á þann 10. mars. „Ef mönnum er alvara með sameiningu og vilja vinna málin vel þá setjast bæjarfulltrúar niður og ræða um mögulega fleti á sameiningu áður en lengra væri haldið. Á þessum fundi var Gísli Halldór með allt tilbúið og við áttum einfaldlega að samþykkja það sem hann var búinn að gera.“

Baldur Smári segir að menn verði að horfa raunsætt á málin og átta sig á sínu lýðræðislega umboði. „Við vitum alveg hver hugur Bolvíkinga hefur verið til sameiningar, það er enginn í Bolungarvík að pressa á sameiningu og sameining yrði einfaldlega felld í kosningu að svo stöddu. Ég sé ekki tilganginn í því að fara í þessa vinnu þegar ég veit að þetta verður fellt. Þessi vinnubrögð bæjarstjórans eru ekki til þess fallin að skapa traust, en traust er það mikilvægasta í svona viðræðum,“ segir Baldur Smári sem er þó ekki afhuga sameiningu sveitarfélaganna. „Mín persónulega sýn er að einhvern tímann á næstur árum kemur sá dagur að við förum í að sameina sveitarfélögin, en menn verða að velja þann dag vandlega.“

smari@bb.is

Góður árangur Grunnskólans í Bolungarvík

Þátttakendur í Sound by sound step together verkefninu.

Í fimm ár hefur Grunnskóli Bolungarvíkur tekið þátt í eTwinningverkefnum af ýmsum toga, einu til fimm verkefnum á hverju ári. Yfir 10 kennarar sem starfa við skólann hafa lagt þar hönd á plóg.  Greinilegt er að Grunnskóli Bolungarvíkur hefur verið mjög heppinn með samstarfsskóla og staðið sig vel í verkefnunum. Verkefni skólans hafa nánast ár hvert fengið gæðavottun auk þess sem þau hafa unnið til stærri verðlauna. Árið 2015 var verkefnið Art connects us valið besta verkefni í Evrópu fyrir 6-13 ára. Á síðasta ári var verkefnið Sound by sound step together valið besta verkefnið á Íslandi og er Zofía Marciniac myndmenntakennari í Grunnskólnum í Bolungarvík þátttakandi í þessum báðum verkefnum. Núna í febrúar var verkefnið  Username: children Passwoord: right sem Elín Þóra Stefánsdóttir tók þátt í valið besta verkefnið í Þýskalandi fyrir 4-11 ára.

smari@bb.is

Saltkjöt og baunir, túkall!

Í dag er sprengidagur, en svo nefnist síðasti dagur fyrir lönguföstu, næstur á eftir bolludegi og á undan öskudegi í föstuinngangi. Á þessum degi tíðkast á að bjóða upp á saltkjöt og baunir á íslenskum heimilum og belgja sig út, þó ekki séu margir sem enn viðhaldi þeirri hefð að fasta í kjölfarið. Oftast er boðið upp á baunasúpu með grænmeti, kartöflum, rófum og gulrótum og jafnvel beikoni og saltað lambakjöt, ýmist elduðu sér eða soðnu í súpunni.

Þeim sem veikir eru fyrir hjarta ættu að fara sér varlega í saltkjötsátinu, en á sprengidag fjölgar þeim sem leita á Hjartagátt Landspítalans samkvæmt því sem Karl Andresen yfirlæknir þar sagði í viðtali við RÚV árið 2014. Sagði hann jafnframt að mikið saltaður matur eins og borðaður er á sprengidag sem og um jól og hátíðir getur verið varasamur fyrir þá sem eru veikir fyrir.

Lagstúfurinn „Saltkjöt og baunir, túkall“ er oft sunginn þegar sprengidagurinn fer að nálgast en er einnig oft sönglaður til merkis um að einhverju sé lokið, til dæmis skemmtiatriði. Það mun hafa verið skemmtikrafturinn Baldur Georgs sem var upphafsmaður þessa en lagstúfinn er að finna á plötu með Baldri og Konna frá 1954 og kann hann að hafa tekið þetta eftir bandarískum rakarakvartettum er segir á vef Wikipediu.

annska@bb.is

Lögreglan rak fólk upp úr lauginni

Aðfaranótt sunnudagsins 26. febrúar var lögreglunni á Vestfjörðum tilkynnt um að fólk væri inni á útisundlaugarsvæðinu í Bolungarvík. Þegar lögregluna bar að garði voru alls 8 ungmenni að fara af svæðinu eftir að hafa nýtt sér þessa aðstöðu. Vert er að minna á að stranglega bannað er að fara inn á þetta svæði utan opnunartíma, enda afmarkað með girðingu.

Tilkynnt var um þrjú umferðaróhöpp í liðinni viku. Eitt þeirra varð þann 24. febrúar þegar ökumaður missti stjórn á bifreið sinni í Mikladal með þeim afleiðingum að hún rann út af veginum og niður bratta hlíð, þó án þess að velta. Töluvert tjón varð á undirvagni bifreiðarinnar og ökumaður, sem var einn í bifreiðinni þegar atvikið átti sé stað, var færður undir læknishendur, þó ekki með alvarlega áverka. Þá rann önnur bifreið út af veginum í Vatnsfirði í Ísafjarðardjúpi þann 20. febrúar. Ekkert tjón varð á ökutækinu og engin meiðsl urðu á ökumanni eða farþegum. Þriðja óhappið varð þann sama dag, 20. febrúar í Vatnsfirði í Vesturbyggð en þá missti ökumaður stjórn á jeppabifreið sinni með þeim afleiðingum að bifreiðin rann út af veginum og valt eina veltu. Ökumaður og farþegi hlutu ekki alvarlega áverka. Ökumenn og farþegar í þessum óhöppum voru allir með öryggisbelti spennt og má telja víst að meiðsl hefðu orðið mun meiri ef svo hefði ekki verið. Rétt er að minna á mikilvægi þessa öryggisþáttar. Snjór og hálka var á yfirborði vega þegar þessi atvik urðu. Þá er rétt að minna ökumenn á að gæta sérstakrar varúðar þegar slíkar aðstæður eru fyrir hendi.

Tveir ökumenn voru kærðir fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða í vikunni. Báðir ökumennirnir voru stöðvaðir á Skutulsfjarðarbraut á Ísafirði, þar sem hámarkshraði er 60 km.

Lögreglan vill minna á varhugaverðar aðstæður sem geta skapast á vegum í umdæminu þegar yfirborð vega er þakið snjó og leysingar verða. Þá vill myndast krapi og oft á tíðum láta ökutæki illa að stjórn og renna til. Vert er að haga akstri, sem fyrr, miðað við aðstæður hverju sinni.

smari@bb.is

Ekki verið tekin afstaða til áfrýjunar

Friðaðað húsið við Aðalstræti 16 í Bolungarvík varð landsfrægt sumarið 2014.

Bolungarvíkurkaupstaður hefur ekki tekið afstöðu hvort dómi Héraðsdóms Vestfjarða yfir Valdimar Lúðvík Gíslasyni verði áfrýjað. Valdimar Lúðvík var dæmdur þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir stórfelld eignarspjöll á friðuðu húsi í Bolungarvík í júlí 2014. Húsið er í eigu Bolungarvíkurkaupstaðar. „Ég geri ráð fyrir að dómurinn verði lagður fyrir bæjarráð eða bæjarstjórn og ákvörðun tekin um næstu skref,“ segir Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík.

Bolungarvíkurkaupstaður gerði skaðabótakröfu upp á 5,5 milljónir króna en Héraðsdómur vísaði meirihluta kröfunnar frá dómi, eða 4,5 milljónum kr. Var það gert vegna þess að sá hluti kröfunnar studdist við greinargerð byggingarfulltrúa Bolungarvíkurkaupstaðar um kostnað við endurbætur á skemmdunum sem húsið varð fyrir. Dómurinn taldi  greinargerðina ekki fullnægjandi gagn og taldi kröfuna því vera vanreifaða. Dómurinn féllst hins vegar á bótakröfu Bolungarvíkurkaupstaðar upp á eina milljón kr. en þar lagði bótakrefjandi fram reikninga vegna bráðabirgðaviðgerðar á húsinu. Jón Páll segir að hann hafi ekki átt kost á að ræða við lögfræðing bæjarins um þetta atriði dómsins.

smari@bb.is

Vill skoða kosti sameiningar – Bolvíkingar ekki með

Aukið samstarf eða sameining í kortunum?

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að sækja um fjárframlag frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að kanna möguleika á sameiningu sveitarfélaga. Bæjarráð hefur ákveðið að óska eftir samstarfi við Súðavíkurhrepp þar sem kannaðir verði kostir og gallar á sameiningu og hvernig þróa megi ríkara samstarf sveitarfélaganna.

Það vekur óneitanlega athygli að Bolungarvíkurkaupstað er ekki boðið að borðinu. „Bolvíkingar vildu ekki vera með. Við hittumst á óformlegum fundi og þar kom í ljós að þeir eru til í frekara samstarf en ekki tilbúnir í að fara í þessa vinnu þar sem á að skoða grundvöll sameiningar,“ segir Arna Lára Jónsdóttir, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar.

Hún leggur áherslu á að það sé einungis verið að tala um að fara í könnun á kostum og göllum samstarfs og sameiningar. „Þessi tvö sveitarfélög eru opin fyrir frekara samstarfi og þessi vinna getur leitt tvennt af sér, aukið samstarf eða formlegar sameiningarviðræður,“ segir Arna Lára.

smari@bb.is

20 veiðidagar á grásleppunni

Fjöldi veiðidaga til bráðabirgða vegna hrogn­kelsisveiða verða 20 í ár. Þetta kem­ur fram í reglu­gerð sem gef­in er út af at­vinnu­vega- og ný­sköp­un­ar­ráðuneyt­inu. Þetta er sami fjöldi veiðidaga og áður, að því er kem­ur fram í til­kynn­ingu. Þar seg­ir að eng­ar breyt­ing­ar séu gerðar á reglu­gerðinni fyr­ir utan að ákvæði um upp­hafs- og loka­tíma veiða er breytt í sama horf og var 2015.

„Í byrj­un árs 2016 kom Haf­rann­sókna­stofn­un fram með ráðgjöf til ráðuneyt­is­ins um að svo virt­ist sem skipti máli að draga úr meðafla að veiðin hæf­ist seinna. Brugðist var við þess­um ábend­ing­um sbr. frétt á vef ráðuneyt­is,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

„Í bréfi Haf­rann­sókna­stofn­un­ar sem barst ráðuneyt­inu 24. mars kem­ur fram að reynsl­an af síðustu vertíð sýni ekki að þessi aðgerð hafi heppn­ast. Þvert á móti hefði skráður meðafli 2016 ekki verið meiri um ára­bil.“

Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir, sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra hvet­ur jafn­framt grá­sleppu­veiðimenn til að skrá all­an meðafla af ýtr­ustu ná­kvæmni á næstu vertíð.

smari@bb.is

Bryndís ráðin fjármálstjóri Heilbrigðisstofnunarinnar

Bryndís Sigurðardóttir hefur verið ráðin fjármálastjóri við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Hún er viðskiptafræðingur að mennt frá Háskólanum á Akureyri og hefur auk þess lokið markaðs- og útflutningsnámi frá Endurmenntun HÍ og kerfisfræði frá Tietgenskolen, Odense í Danmörku. Bryndís hefur víðtæka starfsreynslu að baki er snýr að stjórnun, rekstri, fjármálum og bókhaldi. Hún hefur verið ritstjóri og eigandi Bæjarins besta og bb.is frá 2015 og gegndi stöðu framkvæmdastjóra Arctic Odda ehf. og Vestfirðings ehf. og jafnframt stöðu fjármálastjóra Dýrfisks hf. og Arctic Fish ehf.  2013 – 2014. Þá stofnaði Bryndís og rak bókhaldsskrifstofuna Yfirlit ehf. á árunum 2003 – 2013.

Aðeins ein umsókn barst um stöðu fjármálastjóra HVest og uppfyllti Bryndís öll skilyrði auglýsingar. Áætlað er að hún hefji störf 1. apríl.

smari@bb.is

Mikið blakað um helgina

Einbeittir

Fjórir blakleikir fóru fram í 1. deild karla og kvenna á Torfnesi um helgina og var því sannkölluð blakveisla á Ísafirði.

Karlalið Vestra spilaði tvívegis á móti ungum og sprækum strákum í HK B. Fyrri leikurinn fór 3-1 fyrir Vestra. Vestramenn sýndu ekki sitt rétta andlit í fyrstu hrinunni og HK strákarnir gengu á lagið og unnu hana. Vestri vann síðan næstu þrjár hrinur nokkuð örugglega. Vestri vann svo allar þrjár hrinurnar í seinni leiknum, þar sem sáust góð tilþrif á báða bóga.

Kvennalið Vestra fékk liðin sem eru í efstu tveimur sætum deildarinnar í heimsókn. Á laugardeginum spiluðu Vestrastelpur við Aftureldingu B og töpuðu þeim leik 0-3. Fyrsta hrinan og þriðja hrinan voru jafnar og skemmtilegar en Afturelding vann aðra hrinu nokkuð afgerandi.  Á sunnudeginum spiluðu stelpurnar í Vestra á móti feiknasterku liði HK B sem eru í langefsta sæti 1. deildar. HK B höfðu keyrt langt fram á nótt vegna þess að HK var að keppa í úrvalsdeild á laugardagskvöldinu og sumir leikmanna HK B koma líka við sögu þar. Ekki sást mikil þreyta á HK stelpunum og unnu þær tvær fyrstu hrinurnar nokkuð örugglega. Vestrastelpur komu hinsvegar mjög ákveðnar í 3. hrinu og enduðu á því að vinna hana eftir gífurlega baráttu. Fjórða hrinan var einnig mjög spennandi og sýndu Vestrastelpur áfram sínar bestu hliðar, sem þó dugði ekki og HK vann nauman sigur og þar með leikinn 3-1.

Þetta kemur fram á heimasíðu Vestra.

Nýjustu fréttir