Svarar engu um flutning á starfi sviðsstjóra

Engin svör fást frá Hafrannsóknastofnun um hvenær starf sviðsstjóra fiskeldis flyst til Ísafjarðar. Þegar starfið var sett á laggirnar árið 2016 var sjávarútvegsráðuneytið búið að ákveða að efla starfstöð Hafrannsóknastofnunar á Ísafirði og sérstök áhersla lögð á störf tengd fiskeldi. Því kom það á óvart þegar stofnunin auglýsti starf sviðsstjóra fiskeldis með aðsetur í Reykjavík, sérstaklega í ljósi þess að um nýtt starf hjá stofnuninni var að ræða en ekki flutning á starfi sem var til staðar.

Skömmu síðar birtist á tilkynning á vef sjávarútvegsráðuneytisins um að frá árinu 2018 yrði sviðsstjóri fiskeldismála Hafrannsóknastofnunar staðsettur á Ísafirði.

Sigurður Guðjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar.

Fyrir viku síðan sendi bb.is fyrirspurn til Sigurðar Guðjónssonar forstjóra Hafrannsóknastofnunar. Fyrirspurnin er tveimur liðum. Annars vegar hvort að stofnunin væri byrjuð að undirbúa flutning sviðsins til Ísafjarðar og hins vegar hvenær á árinu hann ætti von á að sviðsstjórinn flytjist vestur.

Fyrirspurninni hefur ekki verið svarað þrátt fyrir að hún hafi verið ítrekuð og skilaboð lögð fyrir forstjórann símleiðis.

DEILA