Sunnudagur 8. september 2024
Síða 99

Heillandi Halla Hrund

Stefán Hilmarsson.

Forsetaframbjóðandinn Halla Hrund Logadóttir hefur á skömmum tíma látið mjög að sér kveða og fangað athygli fólks víða. Henni fylgir ferskur andblær sem sífellt fleiri kunna að meta, eins og kannanir undanfarið sýna.

         Ég hef þekkt Höllu Hrund um árabil og fáa, ef nokkurn, veit ég klárari og atorkusamari þegar kemur að verkefnum stórum og smáum, hvort sem það er að stýra fræðasviðum við háskóla beggja vegna Atlantsála eða harmonikuspili og hópsöng á kvöldvöku.

            Það kom mér í fyrstu nokkuð á óvart að hún hefði í hyggju að bjóða sig fram, því það er stór ákvörðun, með tilheyrandi álagi og áreiti. Hins vegar var ég eldfljótur að átta mig á því að fáir eru betur til þess fallnir að gegna þessu einstaka embætti.

            Ofan á dugnað og drift er hún viðkunnanleg og alþýðleg, auk þess sem ég þekki hana af því að vera innileg og hjálpfús. Þetta kann að virðast oflof, en satt er það engu að síður.

            Undanfarin ár hefur Halla Hrund látið mjög til sín taka á sviði auðlinda- og orkumála, sem leiddi m.a. til þess að hún var skipuð orkumálastjóri, nokkuð sem fæstum kom á óvart sem til hennar þekkja. Hún er enda vel menntuð og vel að sér um þau mál, eins og svo margt annað. Ferilskráin talar að öðru leyti sínu máli.

Hefur alla burði, en burðast ekki með pólitíska fortíð

Halla Hrund þekkir ágætlega pólitískt gangverk lýðveldisins og hefur einatt fylgst vel með stjórnmálum hér og erlendis. Hún kemur þó til leiks án þess að burðast með pólitískan klafa eða tilheyra svokallaðri „valdastétt“, sem er í mínum huga ótvíræður kostur þegar kemur að þessu embætti.

            Hún hefur í stuttu máli alla burði til þess að geta orðið „kona fólksins“ og sameiningartákn, sem er raunar það sem ég hygg að flestum finnist að forseti eigi að vera öðru fremur.

            Auðvitað veit Halla Hrund mætavel, eins og flestir, að forseti gæti við mjög sérstakar aðstæður þurft að vera n.k. öryggisventill, ef löggjafinn virtist í veigamiklu máli í andstöðu við hugi verulegs fjölda landsmanna. Ef til kæmi þá treysti ég henni fullkomlega til þess að meta stöðuna af yfirvegun og vera varnagli, ef svo ber undir, því hún hefur gott innsæi og sterkt bein í nefinu.

            Halla Hrund er uppfull af metnaði fyrir hönd þjóðarinnar og iðulega með augun á nútíðar- og framfaramálum. En jafnframt er hún sumpart gömul sál, sem ann íslenskri náttúru, menningu okkar og gildum af heilum hug og heitu hjarta.

            Víst er að ekki yrði Halla Hrund í vandræðum með að tengjast erlendum ræðismönnum eða erindrekum, ef til kæmi, því hún býr yfir góðri reynslu af samskiptum og návist við fólk af ýmsu þjóðerni.

            Það má segja að Halla Hrund sé í senn heimsmaður og heimasæta. Hrífandi og drífandi. Sjarmatröll og töffari. Hún getur sameinað bændur og bjúrókrata, sjómenn og showmenn, þernur og þjóðhöfðingja. Það er bjart yfir henni og ávallt jákvæð orka í kringum hana.

            Mest er þó um vert, að hún er góð og ærleg manneskja, sem þjóðin á skilið að fá sem næsta forseta.

Stefán Hilmarsson, tónlistarmaður

Garðar BA 64: slysagildra

Forsíðumynd ársskýrslunnar.

Í ársskýrslu Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða fyrir 2023 er vikið að Garðari BA 64 sem á sínum tíma var siglt upp í fjöru í Skápadal í Patreksfirði eftir að hafa verið dæmdur ónýtur og tekin af skrá 1981.

Þar hefur hann staðið síðan, gestum og gangandi til sýnis. Garðar BA er mikið ljósmyndaður og skráður sem einn af áfangastöðum Vestfjarða. Tímans tönn vinnur sitt verk þó eitthvað hafi verið lappað upp á bátinn 2001. Hann er nú gegnum ryðgaður og hættulegur þeim sem sækja hann heim. Einhver olía er enn um borð en olíupollur er við hliðina á skipinu.

Fyrirsögn þessa kafla skýrslunnar er: Söguleg menningarverðmæti eða slysagildra.

Mynd úr ársskýrslunni.

Kanada: vilja áframhaldandi laxeldi í sjó

Diane Lebouthillier sjávarútvegsráðherra og Justin Trudeau forsætisráðherra. Mynd: Diane Lebouthillier.

Hópur frumbyggja í Kanada sem nefnist First Nations for Finfish Stewardship Coalition hefur óskað eftir því við Justin Trudeau  forsætisráðherra að framlengja um sex ár leyfi fyrir sjókvíaeldi á norskum laxi í fylkinu Bresku Kólombíu á Kyrrahafsströnd Kanada.

Leyfin eru 66 og eiga að renna út í lok næsta mánuðar og eldið er á svæði sem frumbyggjarnir hafa yfirráð yfir.

Ríkisstjórn Trudeau ákvað 2019 að sjókvíaeldið myndi renna út árið 2025. Í frétt IntraFish.com á mánudaginn um málið segir að síðan hafi dregið verulega úr eldinu eða um 40% en um 500 manns starfa við eldið.

Í bréfi frumbyggjanna til forsætisráðherrans kemur fram að þeir styðji það eldi sem enn er starfandi og þeir vænti þess að stefna stjórnvalda taki mið af réttindum frumbyggja, sjálfsákvörðunarrétti þeirra og efnahagslegu sjálfstæði.

Í síðasta mánuði reitti leikarinn Leonardo DiCaprio frumbyggjana til reiði, skv. frétt á Fishfamingexpert vefnum, þegar hann skoraði á stjórnvöld að banna laxeldið, en hann hefur 62 milljón fylgjendur á Instragram. Frumbyggjaættbálkurinn Kitasoo Xai’xais svaraði DiCaprio og sagði hann ekki tala í þeirra nafni. Hafsvæðið sem um ræði væri í umsjón Kitasoo, sem væru ábyrgir laxabændur og hefðu gætt svæðisins um aldir. Var fræga fólkið gagnrýnt fyrir að fara með rangt mál og að það skildi ekki veruleika frumbyggja. Allt það sjókvíaeldi sem enn er til staðar í Bresku Kólombíu væri á yfirráðasvæði frumbyggja, það væri stundað með ábyrgum hætti og það væri þeirra að taka ákvarðanir um nýtingu þess, en hvorki stjórnvalda né Hollywood leikara.

Beðið er ákvörðunar ríkisstjórnar Kanada og viðbrögðum hennar við erindi frumbyggjanna.

Mynd: FishfarmingExpert.com.

Fiðlarinn á þakinu: athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins

Sýning Litla leikklúbbsins á Ísafirði á Fiðlaranum á þakinu hefur verið valin athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins af dómnefnd Þjóðleikhússins. Vala Fannell frá Þjóðleikhúsinu tilkynnti valið á hátíðarkvöldverði á aðalfundi Bandalagsins á laugardaginn.

Frá þessu er greint á Leiklistarvefnum.

Leikstjóri var Þórhildur Þorleifsdóttir. Tónlistarstjóri var Beáta Joó. Bergþór Pálsson lék mjólkurpóstinn Tevje og Hildur Halldórsdóttir lék Goldu konu hans. Fjöldi leikara og söngvara komu fram í sýningunni.

Vala var formaður dómnefndar Þjóðleikhússins en með henni sátu leikararnir Örn Árnason og Björn Thors. Umsögn dómnefndar um sýninguna:

„Það er samdóma álit dómnefndar að sýning Litla leikklúbbsins á Fiðlaranum á þakinu í leikstjórn Þórhildar Þorleifsdóttur skuli verða fyrir valinu sem athyglisverðasta áhugaleiksýning leikársins 2023-2024. Sýningin er unnin af gríðarlegum metnaði og hvergi slegið af kröfum við uppfærsluna. Frábært samstarf Litla leikklúbbsins og Tónlistarskólans á Ísafirði skilar ljómandi góðri útkomu.

Umgjörð sýningarinnar er einföld en vönduð og áhrifarík og vel tekst að fanga tíðaranda og kjarna verksins. Myndir sem varpað er upp gefa annars einfaldri leikmynd sterkan svip. Hljóð er vel unnið, sem og leikgervi og búningar. Hópsenurnar einstaklega vel útfærðar þrátt fyrir mikinn fjölda á sviðinu og sviðshreyfingar skemmtilegar.
Tónlistarflutningur í sýningunni er til fyrirmyndar og söngur til mikillar prýði. Leikhópurinn er samheldinn og sterkur. Hver og ein persóna fær sitt pláss. Leikararnir skila persónum sínum ljóslifandi og tvinna saman þessa átakanlegu og fallegu sögu og skila henni til áhorfenda af öryggi. Það má sjá sköpunargleði hvers og eins sem að sýningunni kemur skína í gegn og úr verður heildstæð og kraftmikil sýning.“

Þjóðleikhúsið hefur boðið Litla leikklúbbnum að koma og sýna verkið í leikhúsinu.

OV: brenndi 3,5 milljón lítrum sem kosta 550 m.kr.

Höfuðstöðvar Orkubús Vestfjarða á Stakkanesi.

Landsvirkjun tikynnti í gær að skerðingum á afhendingu raforku til stórnotenda hafi verið afnumdar. Það er um 3-5 vikum fyrr en reiknað var með um miðjan sl. mánuð segir í tilkynningu Landsvirkjunar. Staða í miðlunarlónum Landsvirkjunar batnar nokkuð ört og mikill snjór á hálendinu gefur fyrirheit um gott innstreymi í lónin á næstu vikum.

Skerðingar til fiskimjölsverksmiðja og fiskþurrkana, auk gagnavera sem stunda rafmyntagröft munu standa áfram „enda engin umframorka tiltæk þótt staðan fari batnandi.“ En skerðingum til fjarvarmaveitna hefur verið hætt og þar með til Orkubús Vestfjarða.

Hjá Orkubúinu fengust þau svör að á skerðingartímabilinu væri búnið að kaupa rúmlega 3,4 milljón lítra af olíu á olíutanka fjarvarmaveitnanna. „Við eigum eftir að fá reikninga fyrir nokkra daga svo þetta verður sennilega nær 3,5 milljón lítrum.“

Nettó olíukostnaður Orkubúsins í skerðingunni verður í kringum 550 milljónir króna.

Veðrið í Árneshreppi í apríl 2024.

Það var mikið eftir af sköflum þann 23

Yfirlit yfir veðrið í Litlu-Ávík í Árneshreppi í apríl tekið saman af Jóni G. Guðjónssyni veðurathugunarmanni.

Úrkoman mældist 21,9 mm. ( í apríl 2023: 49,6.mm.)

Úrkomu sem varð vart en mældist ekki var í 3 daga.

Þurrir dagar voru 14.

Mestur hiti mældist þann:21 +10,7 stig.

Mest frost mældist þann:19 -6,9 stig.

Meðalhiti mánaðarins var +0,7 stig. ( í apríl 2023:+2,6 stig.)

Meðalhiti við jörð var -2,2 stig.  ( í apríl 2023: -0,65 stig.)

Alhvít jörð var í 21 dag.

Flekkótt jörð var í 9 daga.

Auð jörð var því í 0 dag.

Mesta snjódýpt mældist þann 12: 54.CM.

Yfirlit dagar eða vikur:

Þann 6 um kvöldið var NA allhvasst og hvassviðri um tíma með miklum éljum og skafrenningi.

Og þann 7 og 8 var NNA allhvasst og él og skafrenningur. A kaldi og snjókoma um morguninn þann 9.

Þann 11 var NA kaldi og slydda, síðan N allhvass með snjókomu þann 12.

Það hlýnaði í veðri þann 20 með suðlægum vindáttum og snjó fór að taka upp.

Síðustu daga mánaðarins var oft þoka og eða súld og kalt í veðri.

Mjög snjóþungt var í mánuðinum.

HJÓLAÐ Í VINNUNA HEFST Á MORGUN

Frá árinu 2003 hefur Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands staðið myndarlega að því að efla hreyfingu og starfsanda á vinnustöðum með heilsu- og hvatningarverkefninu „Hjólað í vinnuna“.

Markmið verkefnisins er að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta. Þátttakendur eru hvattir til þess að hjóla, ganga, hlaupa eða nýta almenningssamgöngur til og frá vinnu í þrjár vikur í maí ár hvert.

Miðvikudaginn 8. maí hefst Hjólað í vinnuna í tuttugasta og annað sinn.


Allir þátttakendur Hjólað í vinnuna eru velkomnir að hjóla við á setningarhátíðina sem fer fram á veitingahúsinu Á Bístró í Elliðaárdalnum kl 8:30

Dagskráin er eftirfarandi:

-Þórey Edda Elísdóttir, varaforseti ÍSÍ býður gesti velkomna og stýrir dagskrá

Ávörp flytja:

-Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra  
-Alma Möller, landlæknir
-Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar
-Bjartur Guðmundsson, markþjálfi og peppari

Að ávörpunum loknum munu gestir og þátttakendur hjóla átakið formlega af stað.

Við minnum á að á meðan að átakið stendur yfir verða heppnir þátttakendur dregnir út í skráningarleik Hjólað í vinnuna alla virka daga í þættinum Hjartagosar á Rás 2. Hjólreiðaverslunin Örninn gefur glæsilega vinninga en einnig fá vinningshafar vörur frá Unbroken. Þann 28. maí er dregið út glæsilegt reiðhjól að verðmæti rúml.100.000kr. 
Myndaleikurinn er a sínum stað á Instagram, Facebook og á heimasíðunni þar sem myndasmiðir sem merkja myndina með #hjoladivinnuna fá glæsilegar vörur frá Erninum.

Allar upplýsingar um verkefnið er að finna á www.hjoladivinnuna.is en þar má einnig finna efni til að dreifa á vinnustöðum, svo sem reglur keppninnar, hvatningarbréf, veggspjöld og fleira.

Stofnmælingar botnfiska á Íslandsmiðum

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson HF 200 á miðunum úti fyrir Snæfellsnesi. Mynd: Svanhildur Egilsdóttir.

Hafrannsóknastofnun hefur gefið út skýrslu þar sem gerð er grein fyrir framkvæmd og helstu niðurstöðum stofnmælingar botnfiska á Íslandsmiðum sem fram fór dagana 28. febrúar til 20. mars 2024.

Niðurstöður eru bornar saman við fyrri ár en verkefnið hefur verið framkvæmt með sambærilegum hætti ár hvert frá 1985.

Stofnvísitala þorsks hækkaði nær samfellt árin 2007-2017, fyrst og fremst vegna aukins magns af stórum þorski. Eftir lækkun árin 2018-2020 hefur vísitalan hækkað aftur og hefur verið á svipuðu róli síðustu 4 árin.

Fyrsta mæling á þorskárgangi 2023 bendir til að hann sé nálægt meðaltali meðan árgangar 2020-2022 (2-4 ára) mælast allir undir meðaltali í fjölda. Meðalþyngd 1-7 ára þorsks mældist undir meðaltali en meðalþyngd annarra aldurshópa var um eða yfir meðaltali.

Undanfarinn áratug hefur meðal­þyngd þorsks 5 ára og yngri oftast verið undir meðaltali en meðalþyngd eldri þorsks hefur verið yfir meðaltali. Magafylli þorsks var almennt töluvert minni í ár og er ástæða þess að lítið var af loðnu í mögum samanborið við flest fyrri ár.

Stofnvísitala ýsu hefur hækkað frá árinu 2016 eftir að vera lág á árunum 2010-2016. Vísitalan í ár breyttist lítið frá fyrra ári og er svipuð og hún var á árunum 2001-2005 þegar hún var sú hæsta á rannsóknatímabilinu.

Árgangar frá 2022 og 2023 (1 og 2 ára) mælast undir meðaltali í fjölda meðan allir árgangar 2011-2021 (3-13 ára), fyrir utan 2018, mælast yfir meðaltali í fjölda.

Meðalþyngd 2 og 3 ára ýsu var undir meðaltali síðustu 3 ár en meðalþyngd 4 ára og eldri hefur verið um eða yfir meðaltali undanfarin 9-11 ár. Í ár lækkaði meðalþyngd allra aldursflokka 3 ára og eldri. Í ár var minna af loðnu í mögum hjá smárri og millistórri ýsu.

Stofnvísitala ufsa hefur lækkað frá árinu 2018 og er nú nálægt meðaltali. Vísitölur gullkarfa og keilu eru háar miðað við síðustu fjóra áratugi. Vísitala löngu mældist sú hæsta frá upphafi en vísitala steinbíts lækkaði frá í fyrra þó hún sé enn há í sögulegu samhengi.

Hitastig sjávar við botn mældist að meðaltali hátt líkt og undanfarin ár en þó má greina lækkun hitastigs á grunnslóð fyrir norðan og austan frá hámarkinu árið 2017.

Sr. Guðrún Karls Helgudóttir kjörin biskup Íslands

Síðari umferð biskupskosninganna lauk á hádegi í dag.

Sr. Guðrún Karls Helgudóttir hlaut flest atkvæði 1060 eða 52,19%

Sr. Guðmundur Karl Brynjarsson fékk 954 atkvæði eða 46,97%

Á kjörskrá voru 2286, 166 prestar og djáknar og 2119 leikmenn.

Kjörsókn var 88,85 %

Sr. Guðrún er fædd 27. apríl árið 1969 í Reykjavík.

Foreldrar hennar eru Karl Magnús Kristjánsson og Helga Einarsdóttir.

Guðrún var stúdent frá Fjölbrautarskólanum í Breiðholti árið 1992 og lauk B.A. í guðfræði frá Háskóla Íslands haustið 1998 og cand. theol. frá sama skóla árið 2000.

Guðrún hafði umsjón með barnastarfi við Árbæjarkirkju og var æskulýðsfulltrúi við Akraneskirkju og Grafarvogskirkju 1999-2000.

Auk þess sinnti hún ýmsum störfum í kirkjum á höfuðborgarsvæðinu með námi svo sem í Hjallakirkju og Seltjarnarneskirkju og sá um leikjanámskeið í Reykjavíkurprófastsdæmum og hafði umsjón með fermingarbarnanámskeiðum í Skálholti og Gautaborg.

Guðrún tók starfsnám í Gautaborgarstifti árin 2001-2003.

Hún var meðferðarfulltrúi í kvennaathvarfi í Gautaborg 2000-2001 og æskulýðsfulltrúi í Lunby söfnuði í Gautaborg.

Hún vígðist þann 11. janúar árið 2011 í Dómkirkjunni í Gautaborg og þjónaði í Näsets söfnuði 2004 – 2005 og í Lerums söfnuði árin 2005-2008.

Hún varð prestur í Grafarvogssöfnuði árið 2008 og hefur þjónað sem sóknarprestur í sama söfnuði frá árinu 2016.

Sr. Guðrún lauk framhaldsnámi í prédikunarfræðum frá The Lutheran School of Chicago árið 2016 og sat á kirkjujþingi í tvö kjörtímabil frá árinu 2014-2022.

Eiginmaður sr. Guðrúnar er Einar Örn Sveinbjörnsson og eiga þau tvær dætur og tvær dótturdætur.

Sr. Guðrún verður vígð í Hallgrímskirkju sunnudaginn 1. september.

Matvælastofnun afhenti þriðja aðila gögn um rannsókn á slysasleppingu

Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar.
Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar.

Matvælastofnun kærði í fyrra slysasleppinu úr kví Arctic Fish í Patreksfirði til lögreglustjórans á Vestfjörðum. Lögreglustjórinn lét málið niður falla að lokinni rannsókn og Matvælastofnun kærði þá ákvörðun til Ríkissaksóknara, sem ákvað að rannsókn skyldi haldið áfram.

Fram kemur í greinargerð Ríkissaksóknara frá 17. apríl að lögmaður forstjóra Artic Fish, Stein Ove Tveiten gerði athugasemd við að Matvælastofnun hafi afhent gögn málsins um rannsóknina til þriðja aðila. Ekki kemur fram hver fékk gögnin. Stein Ove hefur ekki svarað fyrirspurn Bæjarins besta um það hver hafi fengið gögnin. Hins vegar sagði Gunnar Örn Petersen framkvæmdastjóri Landssambands veiðifélaga í viðtali við Stöð 2 þann 4. janúar sl. að hann hefði séð gögn málsins.

Bæjarins besta innti forstjóra Matvælastofnunar eftir því hvort stofnunin hefði afhent gögnin til Gunnars og fékk þau svör að stofnunin hafi ekki afhent gögn úr þessu máli til þriðja aðila.

Nokkrum dögum síðar barst leiðrétting frá forstjóranum þar sem fram kemur að Gunnar Örn Petersen hafi fengið afhent þau gögn sem Matvælastofnun aflaði við rannsókn sína. Beiðnin hafi hins vegar verið lögð fram á grundvelli upplýsingalaga 5. gr. í þjónustugátt um annað mál sem var rannsókn á gati á sjókví hjá Arnarlaxi í Arnarfirði árið 2021.

Bæjarins besta óskaði 9. janúar sl. eftir gögnum rannsóknarinnar en beiðninni hefur ekki verið svarað.

Nýjustu fréttir