Sunnudagur 8. september 2024
Síða 98

Fjallið

Mig dreymir um fjallsins dýrð á efstu tindum,

drottningu landsins í aldanna fumlausa tafli.

Þar skírist jörðin í himinsins hreinu lindum.

Hamrarnir syngja kliðmjúkt á organ í blænum.

Herðum það lyftir í blámann af öllu afli,

en eilífðin stendur kyrr í hlíðunum grænum.

Upphafna kyrrðin ríkir við fjallsins rætur

og ró og friður kennist í öllu þess fasi.

Býlin í dalnum auðmjúk gefa því gætur.

Í göfuga hugsun það hverfir fánýtu masi.

Þú leitar á andvaka hug minn á niðdimmri nóttu.

Nálægð þín finnst mjög glöggt í sortanum þunga.

Er raustirnar hljóðna og sofa á úrsvalri óttu,

alvald þitt vakir stórt yfir byggðinni smáu.

Jörðin er horfin. Þó breiðist þín jökulbunga

björt eins og lín móti stjörnuvegunum háu.

Þá talarðu kraftarins hljóða og máttuga máli,

sem megnar að sigra flest, er vér kennum við ótta,

og andann þú leiðir frá auðævum heimsins og prjáli

og áhyggjur hversdagsins margar þú rekur á flótta.

En veikara ertu í sambýli þínu við sjóinnn.

Í sífellu malar óvægið brim þínar rætur.

Og ofar rýfur hafáttin opinn móinn

með ólmum flaumi, kaldsaman snemmvetrardaginn.

Í örmum hafsins, öndvert við þína fætur,

aukast nú þangi, komnir í fangbrögð við sæinn

klettar, sem trónuðu áður traustir í hlíðum

með tignarfas, líkt og stoltir óðalsbændur,

og horfðu við djúpinu hreyknir, með svip svo blíðum,

hátignarlegir á snið eins og konungsfrændur.

Mislynt ertu í meira lagi á vetrum.

Mjöllin hleðst í sköflum á þínar kinnar.

Þá bólgnar þín ásýnd, svo skakkar mörgum metrum,  

mökkinn skefur í veðrum um allar hlíðar.

Þá lætur þú sterklega getið stórmennsku þinnar

og stefnir í byggðina harðviðri frosts og hríðar

og snjóskriður æða hvæsandi úr hvilftum og giljum

og kveða sér hljóðs á dimmum alfaraleiðum

og loka vegum með fannhvítum, þöglum þiljum

og þekja hvern troðning á fáförnum, afskekktum  heiðum.

Um vornótt ég sá þig ljúflega skipta liti.

Logandi gyllti miðnætursól þína tinda.

Þú sveipaðist fagurrauðu geislagliti

og gagnsæjum, heillandi, svifléttum töfrahjúpi.

Þá vildi ég heitasta draum minn við þig binda

og vonir míns hjarta leggja að þínum núpi.

Á þessari nóttu þú sefaðir hulda harminn, 

sem höfugur lifir og vakir í mínum óði,

en nóttleysa gældi svöl við svefnugan hvarm minn

og svæfði hvert angur með blíðu vögguljóði.

Í hverfulli veröld óbreytt og stöðugt þú stendur.

Styrkur þinn varir í trássi við smámuni dagsins.

Þótt skorti þig andlit og fætur, augu og hendur,

er ásýnd þín sífellt ný úr fjölmörgum áttum.

Þú tónar um daga afbrigði ósamda lagsins

og andar látlaust þöglasta sönginn á náttum.

Ljáðu mér afl þitt og æðruleysi í raunum,

ófeigi kraftur, sem hvorki dvín eða bilar.

Ég fæ þér hollustu mína og líf að launum,

uns loks mér um síðir í fang Hins almáttka skilar. 

sr. Gunnar Björnsson , pastor emeritus.

Alþingi: ellilífeyrir án skerðinga hefði orðið 66 milljörðum króna hærri í fyrra

Birt hefur verið svar félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Jóhanni Friðriki Friðrikssyni (B) um skerðingar ellilífeyris.

Greiðslur ársins 2017 hefðu orðið 36,5 milljörðum kr. hærri ef engar tekjuskerðingar hefðu verið á því ári. Þeir bótaflokkar sem koma til skoðunar í þessu sambandi eru ellilífeyrir, heimilisuppbót og orlofs- og desemberuppbætur.

Árið 2017 tóku gildi mjög umfangsmiklar breytingar á kerfi greiðslna ellilífeyris og tengdra greiðslna og voru þær sérstaklega afgerandi varðandi tekjuskerðingar, þ.m.t. þau frítekjumörk sem um er spurt. Meginbreytingin fólst í því að sameina þrjá bótaflokka (ellilífeyri, tekjutryggingu og sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu ellilífeyrisþega) í einn greiðsluflokk (ellilífeyri).

Samanlagt yfir sjö ára tímabil nemur munurinn 337 milljörðum króna vegna skerðinganna.

Frá árinu 2017 hefur almennt frítekjumark (vegna allra tekna) ellilífeyris verið 300.000 kr. á ári eða 25.000 kr. á mánuði og hefur haldist óbreytt. Frítekjumark atvinnutekna hefur verið eftirfarandi:
Árið 2017: 0 kr.
Árin 2018–2021: 1.200.000 kr. á ári (100.000 kr. á mánuði).
Frá árinu 2022: 2.400.000 kr. á ári (200.000 kr. á mánuði).

Strandveiði: 111 tonn á fjórum dögum í Bolungavík

Bolungavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Liðlega 50 strandveiðibátar hafa landað afla í Bolungavíkurhöfn þá fjóra daga sem heimilt hefur verið að vera á strandveiðum. Aflinn hefur verið frá 19 tonnum upp í 33 tonn á dag.

Landssamband smábátaeigenda hefur tekið saman tölur að loknum þriðja degi strandveiða og borið saman við sama tímabil á síðasta ári.  Alls 540 bátar hafa hafið veiðar, en það er 66 báta fjölgun. Þorskafli er kominn í 904 tonn, 11% meiri en fyrir ári. Bátum hefur fjölgað á öllum svæðum, hlutfallslega mest á svæði B um rúman fjórðung.  Þorskafli hverrar veiðiferðar eykst mest á svæði C, fer úr 618 kg í 706 kg – 14%.

Tafla frá landssambandi smábátaeigenda.

Matvælaráðherra: fiskeldi hefur fest sig í sessi

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, matvælaráðherra. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, matvælaráðherra sagði í gær á kynningarfundi um frumvarp til laga um lagareldi að fiskeldi hefði fest sig í sessi og væri í örum vexti. Vísaði hún til skýrslu Boston Consulting sem sagði gríðarleg tækifæri felast í uppbyggingu á lagareldi hér á landi en að styrkja þyrfti stjórnsýsluna. Markmið frumvarpsins væru að sögn ráðherrans sjálfbær uppbygging, verðmætasköpun, byggð í landinu og verndun villtra nytjastofna.

Fram kom í máli ráðherrans að í frumvarpinu væri gengið lengra í ýmsum aðgerðum en gert hefur verið hingað til í helstu samanburðarlöndum okkar, Noregi og Færeyjum. Meðal annarrar aðgerða væri að friða með lögum meginþorra fjarða landsins fyrir fiskeldi og ætlunin væri að bæta burðarþolsmatið og vöktun fjarðanna. Þá væri ætlunin að gera breytingar á áhættumati erfðablöndunar í þágu villtra laxastofna, gera strok laxa óheimilt og gera afföll refsiverð þannig að verði afföllin meiri en 10% komi til sektir og verði þau meiri en 20% hjá einni kynslóð leiði það til skerðingar á framleiðsluheimildum. Sama muni gilda um lúsasmit. Bjarkey lagði áherslu á sjálfbærni, vistkerfisnálgun og umhverfisvernd.

Fram kom á kynningarfundinum að sektir geta orðið 5 m.kr. fyrir hvern fisk sem sleppur og er fjárhæðin reiknuð út frá væntanlegu markaðsverði á ótímabundnum framleiðsluheimildum miðað við verð í Noregi. Þá er lagt til að breyta skilgreiningu laganna á villtum nytjastofnum og fjölga þeim ám sem teljast bera nytjastofn.

Auk ráðherra og embættismanna ráuneytisins töluðu fulltrúar frá Hafrannsóknarstofnun og Matvælastofnun.

Kynningarfundurinn var allveg sóttur. Fyrirspurnir voru ekki leyfðar en fjölmiðlum boðið upp á viðtal við ráðherra.

Glæra úr ávarpi ráðherra sem sýnir samanburð við Noreg og Færeyjar.

ÞREYTTAR HÚSMÆÐUR HLAUPA Í FORSETAHLAUPINU

Forsetahlaupið er stutt og gott hlaup fyrir allar skankastærðir og fer það fram á Álftanesi. Hlaupið fór þar fyrst fram árið 2022 en var svo haldið á Patreksfirði í fyrra. Þetta er því þriðja skiptið sem hlaupið fer fram. Þetta kemur fram á vefsíðu UMFÍ.

Forsetahlaupið er fimm kílómetra hlaup á jafnsléttu. Það hefst við íþróttamiðstöðina á Álftanesi og er hlaupið að Bessastöðum og víðar. Þetta gæti þess vegna verið ágæt upphitun fyrir forsetaframbjóðendur sem vilja máta sig við Bessastaði. 

Veðurstofan spáir 8 gráðu hita og hægri breytilegri átt, þurru og björtu veðri. 

„Þetta er fullkomið hlaup fyrir okkur, enda engar hlaupadrottningar og sumar okkar ætla að ganga,“ segir Bryndís Snorradóttir, forsprakki skokkhópsins Þreyttar húsmæður. Hópurinn samanstendur af fimmtán konum á fertugsaldri sem búsettar eru á höfuðborgarsvæðinu og hefur stór hluti hans skráð sig til þátttöku í Forsetahlaupi UMFÍ, sem fram fer á fimmtudag.

Spurð um ástæðu nafns hópsins svarar Bryndís:

„Erum við ekki alltaf eitthvað pínu þreyttar? Við eigum allar nokkur börn og í allkonar vinnum. Okkur vantaði hvatningu til að hittast og hreyfa okkur reglulega saman. Á þeim mánuði sem liðinn er síðan við stofnuðum skokkhópinn höfum við alltaf hist á mánudagskvöldum klukkan hálf átta, farið á Helgafell og í nokkrar stuttar fjallgöngur. Við þurftum viðeigandi nafn og þetta var það augljósasta,“ segir hún.  

Fæstir kjósendur í Norðvesturkjördæmi

Þjóðskrá hefur tekið saman tölulegar upplýsingar úr kjörskrá sem gerð hefur verið fyrir forsetakosningar sem fram fara laugardaginn 1. júní nk.

Heildarfjöldi kjósenda er 266.935, konur eru 133.868 en karlar eru heldur færri eða 132.921. Fjöldi aðila með hlutlausa kynskráningu eða kynsegin er 146.

Flesta kjósendur er að finna í suðvesturkjördæmi eða 77.967 og fæstir eru þeir í norðvesturkjördæmi eða 22.175.

Unnu alla sína leiki á Cheeriosmótinu

Stúlkurnar í 7. flokki Vestra fóru til Reykjavíkur um liðna helgi og tóku þátt í hinu árlega Cheeriosmóti Víkings.

Mótið var sem fyrr gríðarlega vel sótt og fór fram á æfinga og keppnissvæði Víkings í Fossvogi.

Stúlkurnar gerðu sér lítið fyrir og sigruðu alla leikina en þær hafa verið duglegar að æfa í vetur.

Þjálfarar stúlknanna þær Sigrún Betanía og Sólveig Amalía hafa haldið virkilega vel utan um hópinn og eiga hrós skilið.

Fleiri mót eru á dagskrá hjá stúlkunum í sumar og fara þær á Norðurálsmótið á Akranesi 21.-23. júní og Símamótið í Kópvagogi 11.-14. júlí.

Baskasetur opnað með sýningu, vinnustofu, málþingi og tónleikum

Dagana 6.-8. júní verður opnaður fyrri áfangi sýningar Baskaseturs í gömlu síldartönkunum á Djúpavík.

Af þessu tilefni verður dagskrá í Djúpavík tengd sögu Baska á Íslandi í samvinnu við samstafsaðila í Baskahéruðum Spánar og Frakklands. Albaola á Spáni og Haizebegi í Frakklandi standa ásamt Baskavinafélaginu á Íslandi að viðburðum í löndunum þremur, hylla baskneskan menningararf og stofna Baskasetur í Djúpavík.

Háskólasetur Vestfjarða kemur að verkefninu með áherslu á sambúð manns og sjávar og sjálfbærni. Baskavinafélagið á einnig í samstarfi við listasýninguna the Factory í Djúpavík og við Strandagaldur og Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofu.

Fimmtudaginn 6. júní verður opin vinnustofa í gerð hljóðfæra úr rusli í Djúpavík. Markmiðið er að stuðla að sjálfbærni og endurnýtingu meðfram því að tengja við baskneskan menningararf. Sjávarnytjar eru hluti af verkefninu. Intelligent Instruments Lab við Háskóla Íslands og Baskavinafélagið sjá um vinnustofuna í samstarfi við listasýninguna the Factory í Djúpavík. Intelligent Instruments Lab er þverfagleg rannsóknarstofa sem skoðar hlutverk gervigreindar í nýjum hljóðfærum og hefur unnið með hið baskneska hljóðfæri txalaparta og haldið vinnustofur á Ströndum í þeim hljóðfæraleik. Í lok dags verður eftirlíkingu af baskneskum léttabát, „txalupa“ komið fyrir á sýningunni í síldartankinum. Vinnustofa í smíði á léttabátnum verður dagana á undan hjá Iðunni fræðslusetri í Reykjavík.

Föstudaginn 7. júní og laugardaginn 8. júní verður málþing á ensku í Djúpavík um sögu Baska á Íslandi að viðstöddum Guillaume Bazard sendiherra Frakklands og José Carlos Esteso Lema sendifulltrúa Spánar. Markmið málþingsins er að stuðla að frekari þekkingu íslenskra vísindamanna og þeirra sem starfa í skapandi geirum á sögu Baska á Íslandi og tengja saman íslenskan og baskneskan menningararf.

Þingeyrarkirkja: guðsþjónusta og vísitasía biskups

A morgun uppstigningardag verður guðsþjónusta í Þingeyrarkirkju kl 11 þar sem biskup Íslands Agnes M Sigurðardóttir prédikar. Sr Hildur Inga Rúnarsdóttir Sóknarprestur í Ísafjarðarprestakalli þjónar fyrir altari.  Uppstigningardagur er dagur eldri borgara í kirkjunni og það er boðið upp á ókeypis sætaferðir frá Ísafirði öldrunarfulltrúi Ísafjarðarbæjar tekur við skráningu í rútuna í  síma 4508000 og á netfangið svanlaugm@isafjordur.is

I vetur var líka stofnaður kór eldri borgara í Ísafjarðarbæ og þau munu leiða sönginn í athöfninni undir stjórn Jónsgunnars Biering Margeirssonar. Mér vitanlega er þetta í fyrsta sinn sem þessi kór kemur opinberlega fram. 

Eftir messu verður kirkjugestum boðið í kaffihlaðborð sem kvenfélagið Von á Þingeyri sér um. 

Kaffihlaðborðið og rútan eru í boði héraðssjóðs Vestfjarðaprófastsdæmis.

Ísafjarðarbær: ferliþjónusta verður að öllu leyti í höndum sveitarfélagsins – engir verktakar lengur

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt tillögu sviðsstjóra velferðarsviðs  þess efnis að ferliþjónusta verði alfarið í höndum sveitarfélagsins og þar með horfið frá verktöku í þjónustunni.

Bæjarráðið samþykkti kaup á tveimur bifreiðum, sérútbúnum bíl fyrir ferliþjónustu og rafmagnsbifreið fyrir stuðningsþjónustu (heimaþjónustu aldraðra, dagdeild, matarþjónustu og akstursþjónustu aldraðra), auk uppsetningar á hleðslustöð eftir atvikum.

Kostnaður hefur ekki verið upplýstur en bæjarstjóri mun leggja fram í bæjarstjórn viðauka við fjárhagsáætlun 2024 til þess að mæta honum.

Nýjustu fréttir