Sunnudagur 8. september 2024
Síða 97

Óskað eftir tilnefningum til bæjarlista­manns í sameinuðu sveitarfélagi

Tálknafjörður

Í fyrsta sinn er auglýst eftir tilnefn­ingum til bæjarlista­manns Sameinaðs sveit­ar­fé­lags Tálkna­fjarð­ar­hrepps og Vest­ur­byggðar. Bæjarlista­maður Vest­ur­byggðar hefur verið útnefndur frá árinu 2021.

 

Verðlaunin verða afhent þann 17. júní næstkomandi. Verðlaunin eru viðurkenning á góðum störfum í þágu listarinnar, þeim er ætlað að vekja athygli á verkum listamannsins og jafnframt verka sem hvatning til að koma starfi sínu á framfæri. Öll geta sent inn tilnefningar og tilnefna má listamenn úr öllum listgreinum, hvort sem það er úr hannyrðum, myndlist, ritlist, leiklist, tónlist eða öðru.

Í Vesturbyggð voru verðlaunin fyrst veitt Rannveigu Haraldsdóttur árið 2021, Signý Sverrisdóttir hlaut nafnbótina árið 2022 og síðast Guðný Gígja Skjaldardóttir árið 2023.

Tilnefningar og ábendingar berist í tölvupósti til menningar- og ferðafulltrúa í síðasta lagi mánudaginn 20. maí 2024. Tilnefningum má gjarnan fylgja rökstuðningur og upplýsingar um störf listamannsins en ekki er gerð krafa um slíkt. Sérstök valnefnd mun fara yfir innsendar tillögur.

Guðbjörg Halla Magnadóttir ráðin skólastjóri Grunnskólans á Ísafirði

Guðbjörg Halla Magnadóttir hefur verið ráðin skólastjóri við Grunnskólann á Ísafirði og mun hefja störf þann 1. ágúst næstkomandi.

Guðbjörg Halla lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja árið 1993. Árið 2003 lauk hún svo B.Ed. prófi til kennsluréttinda frá Kennaraháskóla Íslands. Árin 2016-2017 stundaði hún viðbótarnám fyrir stærðfræðikennara frá Háskóla Íslands og 2023 lauk hún svo MT-gráðu frá sama skóla.

Guðbjörg Halla er síður en svo ókunnug störfum í Grunnskólanum á Ísafirði. Hún hefur sautján ára reynslu sem stjórnandi við GÍ en frá árinu 2007 hefur hún starfað sem deildarstjóri á unglingastigi við skólann. Á tímabilinu hefur hún einnig sinnt kennslu á unglingastigi, einkum náttúru- og stærðfræði ásamt því að vinna að fjölbreyttum verkefnum í innleiðingu nýrra verkefna og verkferla.

Á árunum 1999 til 2007 starfaði Guðbjörg við textílkennslu og sem umsjónarkennari á miðstigi við GÍ. Guðbjörg býr yfir mikilli þekkingu á kennslu þar sem hún hefur kennt á öllum aldursbilum grunnskóla ásamt því að vera verkgreinakennari. Samhliða starfi hennar sem deildarstjóri hefur hún sótt fjölda námskeiða er snúa að stjórnun og mannauðsmálum, ásamt lögum og reglugerðum um grunnskóla.

Sashko Danylenko í Gallerí Úthverfa

Föstudaginn 10. maí kl. 16 verður opnuð sýningin Munkur – að búa til hreyfimyndir um ævintýri með verkum úkraínska listamannsins Sashko Danylenko í Úthverfu á Ísafirði.

Á sýningunni verður teiknimyndin Munkur / Monk (2018) sýnd auk skissuteikninga og vatnslitamynda sem veita innsýn í tilurð verksins. Listamaðurinn verður viðstaddur opnun sýningarinnar sem stendur til fimmtudagsins 30. maí.

Hverjum lyftir munkur glasi?
Fyrir hvern les hann bænir sínar?
Þegar sólin sest niður með ánni verður allt grátt og erfiðara er að greina á milli þess hvíta og svarta og mörkin þar á milli.
Munkurinn fer yfir þessa línu í leit að svarinu.

Sashko Danylenko (1989) er úkraínskur kvikmyndagerðarmaður, sjónrænn sagnamaður, teiknari og margmiðlunarlistamaður. Í verkum sínum sameinar hann þjóðlegan og nútímastíl, og blandar jafnframt saman vísindalegri og listrænni nálgun á viðfangsefnið. Sashko er með aðsetur í Bandaríkjunum um þessar mundir og vinnur að teiknuðum heimildarmyndaverkefnum fyrir TED Talks, The School of Life, TOPIC, The First Lady of Ukraine, Atlantic Council og margir fleiri.

Margar mynda Sashko Danylenko hafa náð víðtækri útbreiðslu á netinu; og fjölmargar þeirra hafa verið sýndar á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum. Myndskreytingarverk Sashko eru til sýnis á alþjóðlegum sýningum og viðburðum og hjálpa til við að afla fjár fyrir mannúðaraðstoð í heimalandi hans Úkraínu. Hann dvelur um þessar mundir í gestavinnustofum ArtsIceland á Ísafirði.

Framsókn: opinn fundur á Ísafirði á morgun

Framsókn í Ísafjarðarbæ stendur fyrir opnum fundi á morgun kl 11 í Skúrnum við Húsið.

Alþingismennirnir Halla Signý Kristjánsdóttir og Ágúst Bjarni Garðarsson verða gestir fundarins.

Af nógu er að taka þegar spurt er um umræðuefni fundarins og Ágúst Bjarni sagði að fyrir Vestfirðinga væru augljóslega meðal stóru málanna fiskeldi og samgöngumálin. Nú væri fyrir Alþingi stjórnarfrumvarp um lagareldi sem ætlað væri að festa sjókvíaeldið í sessi. Afstaða Framsóknar væri alveg skýr: fiskeldið væri komið til þess að vera og það væri þegar orðið mikilvæg atvinnugrein.

Varðandi samgöngumálin minnti Águst Bjarni á að í tíð Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins sem ráðherra málaflokksins hefði Dýrafjarðargöngin verið tekin í notkun og önnur stór verkefni nýr vegur um Dynjandisheiði og einnig um Gufudalssveit hefðu hafist og væri komin á lokastig. Hins vegar væru enn mörg mikilvæg verkefni óunnin á Vestfjörðum og að ríkisstjórnin hefði fullan hug á að halda áfram að bæta stöðu Vestfjarða.

Ríkið greiðir Vesturbyggð 137 m.kr. fyrir Bíldudalsskóla

Grunnskólinn á Bíldudal. Mynd: RUV.

Ríkissjóður og Vesturbyggð hafa undirritað samkomulag þar sem ríkið leggur sveitarfélaginu til kr.
136.926.900,- sem er fjárhæð sem tekur mið af markaðsverðmæti Dalbrautar 2 (húsnæði grunnskólans) og kostnaði við niðurrif eignarinnar.

Vesturbyggð ábyrgist að á grundvelli greiðslunnar frá ríkissjóði mun sveitarfélagið færa starfsemi grunnskólans af hættusvæði og finna henni annan viðeigandi stað.

Húsnæði skólans er á hættusvæði og fram kemur í samkomulaginu að áætlað er að varnargaður til að verja skólann fyrir ofanflóðum kosti 220 m.kr. og muni ekki gagnast til að verja aðrar eignir á svæðinu. Í gildandi fjárlögum er heimild fyrir ríkið til þess að ganga til samninga við Vesturbyggð um ráðstöfun á Bíldudalsskóla.

Heimilt verður að nýta eignina Dalbraut 2 til takmarkaðrar nýtingar (sumardvalar) með þeim skilyrðum að dvöl í henni sé óheimil á tímabilinu 1. nóvember til 30. apríl. Verði af einhverjum ástæðum ekki hægt að tryggja ofangreinda kvöð ber sveitarfélaginu að ráðast í niðurrif á eigninni og standa undir þeim kostnaði sem af því hlýst, ríkissjóði að kostnaðarlausu.

Endurnýjað leyfi Arctic Fish kært en stöðvunarkröfu hafnað

Matvælastofnun gaf út 21. mars sl. endurnýjað leyfi til Arctic Fish fyrir 7.800 tonna eldi í Tálknafirði og Patreksfirði. Í apríl kærðu Veiðifélag Blöndu og Svartár, Landssamband veiðifélaga og Veiðifélag Hrútafjarðarár og Síkár þá ákvörðun Matvælastofnunar til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál og er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Kærendur kröfðust þess jafnframt að framkvæmdir verði stöðvaðar eða réttaráhrifum ákvörðunar frestað á meðan málið er til meðferðar til fyrir úrskurðarnefndinni. Þessi krafa felur í sér að eldið fari ekki fram þá mánuði sem aðalkrafan er til meðferðar hjá nefndinni.

Stöðvunarkrafan var tekin fyrir á miðvikudaginn og var niðurstaðan að hafnað var kröfum kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar Matvælastofnunar.

Segir í úrskurðarorðum að það sé meginreglan í lögum um úrskurðarnefndina að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Heimildin til þess að  krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar sé undantekningarregla og beri nefndinni að líta til réttmætra hagsmuna allra aðila málsins auk þess sem horfa þurfi til þess hversu líklegt sé að ákvörðuninni verði breytt.

Krafan um frestun réttaráhrifa er byggð á því að „útgáfa hins kærða rekstrarleyfis hafi farið í bága við þær kröfur sem lög geri til starfsemi í sjókvíaeldi. Ekki hafi verið leitað umsagna viðeigandi stofnanna við undirbúning ákvörðunarinnar né liggi fyrir byggingarleyfi. Þá er einnig byggt á því að knýjandi nauðsyn standi til þess að koma í veg fyrir óafturkræf áhrif á náttúruna sem geti leitt af þeirri starfsemi sem leyfið heimili.“ Nefndin bendir á að í kærumáli þessu eru aðilar máls fleiri en einn og hafa þeir andstæðra hagsmuna að gæta og segir svo:

„Með hinu kærða leyfi eru ekki heimilaðar nýjar framkvæmdir heldur starfsemi sem leyfishafi hefur stundað í þónokkur ár. Í ljósi þess verður ekki álitið, með hliðsjón af því tjóni sem stöðvun framkvæmda myndi hafa í för með sér fyrir leyfishafa, svo og að teknu tilliti til þess að ekki verður talið að sú framkvæmd sem hér um ræðir sé óafturkræf, að skilyrði séu til þess að beita undantekningarheimild 5. gr. laga nr. 130/2011 og stöðva framkvæmdir á grundvelli hins kærða rekstrarleyfis.“

Glíman við hamingjuna og söguna í Bókasafninu á Ísafirði

Föstudaginn 10. maí kl. 17 kemur rithöfundinn og blaðamanninn Sigríði Hagalín Björnsdóttur í heimsókn og fjallar um bókina Hamingja þessa heims – sögulega skáldsögu sem gerist að miklu leyti á fimmtándu öld.

Fimmtánda öldin er öldin sem týndist í Íslandssögunni, þegar þjóðin lenti skyndilega í hringiðu evrópskra stjórnmála og viðskiptahagsmuna.

Höfundurinn ræðir m.a. muninn á skáldskap og sagnfræði, glímuna við heimildirnar og leitina að Ólöfu ríku Loftsdóttur, ríkustu og voldugustu konu Íslandssögunnar.


Sigríður Hagalín Björnsdóttir er rithöfundur og blaðamaður, fædd 1974.

Hún hefur gefið út fimm skáldsögur, sem hafa verið þýddar á meira en 10 tungumál. Þær eru Eyland (2016), Hið heilaga orð (2018), Eldarnir – ástin og aðrar hamfarir (2020), Hamingja þessa heims – riddarasaga (2022) og DEUS (2023).

Sigríður hefur starfað með hléum sem fréttamaður á Ríkisútvarpinu frá árinu 1999, og stýrir nú umræðuþættinum Silfrinu. Hún er menntaður sagnfræðingur og blaðamaður, hefur búið á Spáni, í Bandaríkjunum og Danmörku, en býr nú í Reykjavík.

Viðtalið: Gauti Geirsson

Ég er fæddur árið 1993 og ólst upp inní firði. Mér fannst frábært að alast upp á Ísafirði, æfði skíði, fótbolta og fiktaði við golf, lærði á píanó og bassa auk þess að hafa byrjað snemma að stússa í vélaútgerð og búskap með afa. Foreldrar mínir eru Geir Sigurðsson og Edda Björg Kristmundsdóttir og á ég tvær systur, sem reyndar hafa ekki ratað jafn greitt til baka á heimaslóðirnar og ég, Nína Guðrún sem býr í New York og Gerður sem býr í Stokkhólmi.

Unnusta mín er Elena Dís Víðisdóttir og saman eigum við tvö börn. Við héldum út til Noregs árið 2017 til þess að nema, ég lærði sjávarútvegsfræði og Elena orkuverkfræði. Við áttum þar frábær 5 ár en fluttum heim til Ísafjarðar fyrir tveimur árum, sumarið 2022. Við vorum svo heppinn að fá bæði vinnu við hæfi, Elena er að vinna hjá Orkubúi Vestfjarða á orkusviði en ég er framkvæmdastjóri Háafells.

Háafell er fiskeldisfyrirtæki í 100% eigu Hraðfrystihússins-Gunnvarar. Ég hef starfað hjá Háafelli frá árinu 2017 en verið framkvæmdastjóri frá árinu 2021. Undanfarið hefur fyrirtækið vaxið hratt, við byggjum á mikilli reynslu af eldi þar sem HG hóf þorskeldi árið 2001 og hefur nánast verið með samfellda starfsemi síðan en frá árinu 2022 hafa umsvifin aukist mikið bæði með uppbyggingu á seiðaeldisstöðinni á Nauteyri sem og með eldi á þremur staðsetningum í Ísafjarðardjúpi. Hjá fyrirtækinu starfa nú um 25 manns og er mikið um að vera. Við leggjum áherslu á að byggja upp í Djúpinu á ábyrgan hátt til þess að tryggja sem minnst umhverfisáhrif og velferð fiskanna. Á sama tíma verða til störf og verðmæti fyrir samfélagið. Það hefur gengið vel og er það okkur hvatning um að leggja mikið á okkur til þess að halda áfram á sömu braut.

Mín helstu áhugamál eru margþætt, frá því að ég var ungur var stefnan alltaf að koma heim aftur og taka þátt í að efla samfélagið hér ennfrekar. Við búum í stórbrotnu umhverfi og því skorar margskonar útivist ansi hátt í áhugamálunum. Ég er formaður stjórnar björgunarbátasjóðs Vestfjarða sem rekur björgunarbátinn Gísla Jóns, ég hef mikinn áhuga á skíðaiðkun hverskonar, á kind í félagsbúinu á Góustöðum auk þess að hafa staðið fyrir hreinsunum á Hornströndum undanfarin 10 ár undir merkjum Hreinni Hornstranda. Nánast allur laus tími núna fer hinsvegar í húsbyggingu okkar Elenu inní Holtahverfi sem fer nú að sjá fyrir endann á. Algengasta spurningin sem við fáum þessa dagana er, hvenær á að flytja inn? Allar dagsetningar sem ég hef nefnt hingað til hafa ekki staðist svo ég þori ekki að gefa það upp, skulum bara vona að það verði fyrir heyskapinn.

Steinunn Ólína: synjar lögum um staðfestingu sem varða auðlindir og náttúruna

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, forsetaframbjóðandi segir í tilkynningu að hún lofi þjóðinni, að synja þeim lögum staðfestingar er varða sameignina, auðlindir, náttúru og lífríki Íslands og framkalla þar með þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Með því tryggi ég að upplýst þjóð fái sjálf að ráða örlögum sínum með þjóðaratkvæðagreiðslu. Ísland er sameign okkar og dýrgripurinn mesti!“

Hún segir að forseti hafi ekki frumkvæðisvald. „Það magnaða vald hefur hann hinsvegar með athafnaleysi, að synja lögum staðfestingar. Að skrifa ekki undir ólög.“

Ennfremur segir Steinunn Ólína:

„Þegar manni liggur eitthvað á hjarta er best að segja hlutina beint út svo engum dyljist um hvað er rætt. Því ætla ég að gefa landsmönnum kost á skýrum valkosti í þessum forsetakosningum.

Þjóðin vill ekki selja eða gefa frá sér landið og miðin. Þjóðin hafnar stefnu stjórnvalda. Að selja hverja þúfu, hvert blóm, hvern læk, hvern foss, eyðileggja laxastofninn okkar, grafa sundur fjöllin, menga firðina og fyrir hvað? Fyrir peninga? Sumt verður ekki metið til fjár.

Og það skilja Íslendingar og allir sem elska landið okkar.

Ætlum við að skrifa sögur um þjóð sem allt var selt undan og var þar með gerð að þurfalingum í eigin landi? Við erum skapandi fólk og viljum hafa eitthvað um það að segja hver framtíð okkar verður.“

Sveitarstjórar fagna frumvarpi um lagareldi

Ráðhús Vesturbyggðar.

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð og Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri í Tálknafjarðarhreppi hafa sent til Alþingis sameiginlega umsögn í nafni sveitarfélaganna um frumvarp ríkisstjórnarinnar um lagareldi.

Þau fagna því að frumvarp að heildarlöggjöf um lagareldi sé komið fram með það markmið að skapa m.a. sjókvíaeldi skilyrði til aukinnar verðmætasköpunar með sjálfbærri nýtingu og með áherslu á að minnka neikvæð áhrif á vistkerfið. Segja þau að sveitarfélögin hafi um árabil kallað eftir stefnumótun og skýrari lagaramma um sjókvíaeldi og telja að með þessu lagafrumvarpi sé komið til móts við það ákall.

Sveitarfélögin séu fylgjandi áframhaldandi uppbyggingu sjókvíaeldis á Vestfjörðum og leggja áherslu á að hugað sé að samfélagslegum áhrifum einstakra greina frumvarpsins. Telja þau mikilvægt að aðilar í greininni axli ábyrgð á starfsemi sinni, en taka fram að þau samfélagslegu og efnahaglegu áhrif sem refsingar og takmarkanir á starfsemi fyrirtækja í greininni geta haft bæði á íbúa og sveitarfélög.

Því er fagnað að í frumvarpinu sé lögð áhersla á að fjármunir muni renna til sveitarfélaga í samræmi við umfang sjókvíaeldis og þar með þar sem þörf er fyrir innviðauppbyggingu.

Þau vara við mögulegum breytingum sem fyrirtækin gætu gripið til og segja mikilvægt að ráðuneytið fylgist vel með því hvort sveiflur verði á greiðslum til sveitarfélaganna, sem tengist ekki minnkuðum umsvifum. „Ákvarðanir fiskeldisfyrirtækjanna um breytt vinnulag sem gæti t.d. falist í ákvörðun um slátrun fisks með öðrum hætti en gert er í dag eða að aðeins verðir ráðnir verktakar til starfa eru meðal áhrifaþátta. Mikilvægt er að hægt verði að grípa hratt inn í ef forsendur tekjuskiptingarinnar endurspegla ekki umfang sjókvíaeldis í viðkomandi byggð.“

Í umsögninni er lögð áhersla á að ríkið nýti þær tekjur sem í ríkisjóð koma af framleiðslugjaldi fiskeldis til uppbyggingar þeirra innviða sem ríkið ber ábyrgð á. Segja þau óumdeilt að á Vestfjörðum sé mikil þörf á bæði uppbyggingu og viðhaldi á opinberum mannvirkjum og benda þar m.a. á vegakerfið.

Talið er óvarlegt að rekstrarleyfi til sjókvíaeldis verði ótímabundin eins og fram kemur í 33. grein frumvarpsins. „Vissulega þarf tímalengd leyfa að vera með þeim hætti að það borgi sig fyrir rekstraraðila að leggja í þann kostnað sem fylgir uppbyggingu og þróun atvinnugreinarinnar. Það á þó ekki að vera ávísun á ótímabundin leyfi“ segir í umsögninni.

Að lokum leggja umsagnaraðilar áherslu á að lagareldi sé byggt á vísindalegum grunni. Að vísindalegri nálgun sé beitt við ákvarðanir sem varða áhrif á umhverfi, vistkerfi, dýravelferð og sjúkdóma en ekki pólitískri nálgun þar sem þrýstingur hagsmunaaðila getur haft áhrifá ákvarðanir.

Nýjustu fréttir