Sunnudagur 8. september 2024
Síða 96

STÆKKAÐU FRAMTÍÐINA

Verkefnið „Stækkaðu framtíðina“ tengir fólk af vinnumarkaði við skólastofur landsins

Verkefnið felst í að varpa ljósi á tækifæri framtíðarinnar og veita börnum og ungmennum innblástur til að verða það sem þau langar til, í samræmi við áhuga þeirra og styrkleika. Verkefnið tengir fjölbreytta sjálfboðaliða af vinnumarkaði við skólastofuna. Þar segja þau nemendum frá starfi sínu og hvernig nám þeirra hefur nýst þeim.

Menntaskólinn á Ísafirði tekur nú þátt í þessu spennandi verkefni.


Vilmundur Torfi Kristinsson húsasmiður, vélaverkfræðingur og starfsmaður Kerecis reið á vaðið og heimsótti skólann. Kynnti hann nám sitt og störf fyrir nemendum í verknámi. 

Vilborg Ása er skólastjóri Grunnskólans á Suðureyri

Vilborg Ása Bjarnadóttir hefur verið ráðin sem skólastjóri við Grunnskólann á Suðureyri. Vilborg hefur starfað sem skólastjóri við skólann á yfirstandandi skólaári þar sem hún leysti Hrönn Garðarsdóttur fyrrum skólastjóra af.

Vilborg Ása útskrifaðist af hárgreiðslubraut við Iðnskólann í Hafnarfirði árið 1990 og svo með meistararéttindi í háriðn við Iðnskólann í Reykjavík 1994. Hún lauk B.Ed. gráðu frá Háskólanum á Akureyri 2008 og öðlaðist í kjölfarið leyfisbréf til kennslu. Þá lauk hún M.Ed. gráðu í sérkennslufræði við Háskóla Íslands 2016.

Vilborg Ása hefur yfirgripsmikla kennslureynslu og er öllum hnútum kunnug í Grunnskólanum á Suðureyri. Hún hefur starfað við kennslustörf hjá Ísafjarðarbæ frá aldamótum, fyrst sem leiðbeinandi við leikskólann Tjarnarbæ 1997-1998 og 2001, svo sem leiðbeinandi/umsjónarkennari árin 2001-2008 í Grunnskólanum á Suðureyri og sem grunnskólakennari/umsjónarkennari frá 2008-2023. Þá vann hún sem sérkennari á tímabilinu 2012-2023 og á hluta þess tíma sinnti hún einnig hlutverki staðgengils skólastjóra

Vesturbyggð: Minjasafn Egils Ólafssonar fékk ekki styrki

Minjasafn Egils Ólafssonar að Hnjóti.

Menningar- og ferðamálaráð Vesturbyggðar tók til afgreiðslu á síðasta fundi umsóknir um styrki til annarrar úthlutunar á þessu ári.

Þrettán umsóknir voru teknar fyrir. Tveimur var hafnað og öðrum tveimur var frestað en níu styrkir voru veittir.

Minjasafn Egils Ólafssonar var með þrjár umsóknir. Var einni hafnað og tveimur frestað. Hafnað var styrkumsókn til að bæta ásýnd og aðbúnað safngripa á Minjasafninu á Hnjóti. Sótt var um 82.358 króna styrk. Þá var frestað að afgreiða umsókn um 150 þús kr. styrk til varðveislu og viðgerðar á bátnum Skúla Hjartarsyni BA 250 sem og 150 þús kr. styrk til varðveislu og viðgerðum á bátnum Mumma BA 21. Var menningar- og ferðamálafulltrúa falið að óska eftir gögnum um nýtingu síðasta styrks fyrir verkefninu.

Foreldrafélag Patreksskóla sótti um styrk fyrir fræðslu Siggu Daggar kynfræðings fyrir nemendur mið- og unglingastigs allra skóla á sunnanverðum Vestfjörðum auk foreldra. Sótt var um 150 þúsund króna styrk.

Menningar- og ferðamálaráð taldi umsóknina ekki samræmast reglum sjóðsins og hafnar styrkbeiðninni.

Arctic Fish: framlegð með besta móti

Kort úr uppjöri fyrsta ársfjórðungs sem sýnir starfsemi Arctic Fish.

Arctic Fish sendi frá sér á föstudaginn upplýsingar um afkomu og rekstur á fyrsta fjórðungi 2024. Fram kemur að slátrað var 2.500 tonnum af laxi og að horfur séu á því að framleiðsla ársins verði 10 þúsund tonn. Framlegðin, það er tekjur að frádregnum rekstrarkostnaði, varð 576 kr./kg. sem er það besta sem náðst hefur í rekstrinum hingað til. Varð framlegðin mun meiri nú en á sama tíma í fyrra þegar hún varð 321 kr./kg. Eldið hefur gengið vel í vetur og ástand fisksins er gott. Fjárfesting á fyrstu þremur mánuðum varð um 750 m.kr. einkum í búnaði fyrir nýtt kvíastæði.

Framleiðslan dróst verulega saman frá sama tíma í fyrra þegar slátrað var 4.866 tonnum og heildarframleiðslan síðasta árs var 11.900 tonn.

Heildarefnahagsreikningur fyrirtækisins er um 35 milljarðar króna og þar af eru 39% eigið fé.

Verð hluta er um 60 norskar krónur á hlut og hefur hækkað um 14% síðasta mánuðinn eftir verulega lækkun á síðasta ári, en er þó enn um þriðjungi lægra en var fyrir 12 mánuðum.

Fyrirtækið hefur leyfi fyrir 29.800 tonna lífmassa í 13 kvíastæðum í sex fjörðum á Vestfjörðum. Þar af eru 27.000 tonn leyfi fyrir frjóum eldislaxi. Nýlega var endurnýjað 7.800 tonna leyfi í Patreksfirði og Tálknafirði og nýtt leyfi fyrir 8.000 tonnum í Ísafjarðardjúpi.

Hreinni Hornstrandir

Frá hreinsunarstarfi í fyrri ferð.

Ellefta hreinsunarferð Hreinni Hornstranda verður farinn dagana 21.-22. júní en að þessu sinni verður farið í Barðsvík, en þar var síðast hreinsað árið 2019.

Siglt verður frá Ísafirði snemma á föstudagsmorguninn 21. júní og hreinsað þann dag áður en hópurinn kemur sér fyrir í tjöldum.

Laugardaginn 22. júní verður haldið áfram að hreinsa og flytja ruslið um borð í varðskip áður en siglt verður heim á leið og gætt sér á grillveislu. Áætluð er koma til Ísafjarðar um kvöldið.

Sem fyrr er leitað að öflugum sjálfboðaliðum sem eru til í hörku vinnu á einu fallegasta svæði landsins. Aðeins eru í boði 25 sæti í ferðina og því ljóst að ekki komast allir að sem vilja, en hvatt er til þess að sækja um á netfangið upplysingafulltrui@isafjordur.is.

Sauðfjársetrið: 500 manns á tveimur skemmtiferðaskipum

Skipin undan Kirkjubóli.

Í gær komu tvö skemmtiferðaskip í Steingrímsfjörð í Strandasýslu með um 500 ferðamenn. Það voru norsku skipin Fram og Nansen og sigldu þau að Kirkjubóli og settu farþega í land. Fengu þeir að sögn Jóns Jónssonar þjóðfræðings kaffi og kökur í Sævangi, leiðsögn um safnið , fjörugöngu, fuglaskoðun og gönguferð um Kirkjuból og nágrenni auk þess sem dóttir Jóns, Dagrún Ósk fór um borð í Fram og flutti þar fróðleik um héraðið. Fram fór svo til Hólmavíkur.

Að sögn munu fleiri skip koma í sumar og heimsækja Sauðfjársetrið.

Sævangur í Tungusveit.

Ferðamenn af skemmtifeðaskipi fluttir á land.

Myndir: Jón Jónsson.

Ísafjarðarbær: alger viðsnúningur á Vestfjörðum með sjókvíaeldinu

Frá Dýrafirði. Mynd: Arctic Fish.

Í umsögn Ísafjarðarbæjar til Alþingis um frumvarp um lagareldi segir að Ísafjarðarbær sé fylgjandi þeim markmiðum sem sett eru fram í frumvarpinu þar sem skapa á skilyrði til sjálfbærrar uppbyggingar lagareldis og efla þannig verðmætasköpun, atvinnulíf og byggð Í landinu.

Segir að sveitarfélög á Vestfjörðum hafi bent á til margra ára að styrkja þurfi stjórnsýslu greinarinnar og efla eftirlit með greininni, auk þess að tryggja að ávinningur greinarinnar skili sér nærsamfélaganna. Mikilvægt sé að sjókvíaeldið fái að þróast og að þekking á atvinnugreininni verði efld með auknum rannsóknum og menntun.

Þá segir í umsögninni: „Samfélög á Vestfjörðum eiga mikið undir að atvinnugreinin vaxi enda hefur orðið algjör viðsnúningur í atvinnulífi og byggðaþróun á Vestfjörðum sl. ár með tilkomu uppbyggingar sjókvíaeldis. Greinin er orðin mikilbæg stoð í efnahagslífi landsins.“

Ísafjarðarbær ásamt fleiri sveitarfélögum hafi barist fyrir því störf tengd rannsóknum, eftirliti og menntun verði efld og byggð upp í nærumhverfi atvinnugreinarinnar. Því sé fagnað þeim áhersum að fjölga stöfum við eftirlit og rannsóknir en gerð er krafa um að störfin verði í nærumhverfi greinarinnar.

Fagnað er nýjum Samfélagssjóði sjókvíaeldis sem hefur hlutverk að styrkja sjókvíaeldisbyggðir og þar með samfélög og stoðir atvinnulífs á þeim svæðum. Gríðarleg þörf sé fyrir innviðafjárfestingu og viðhaldsskuld hafa safnast upp í gegnum áratugi og Ijóst má vera að styrkja þurfi innviði þessara sveitarfélaga. Í sjóðinn á að renna þriðjungur tekna ríkissjóðs af fiskeldisgjaldi og er gerð athugasemd við þá skiptingu og að minnt á að sveitarfélögin á Vestfjörðum vilji fá stærri hlut.

Ísafjarðarbær lýsir yfir stuðningi við Umhverfissjóð og menntasjóð sjókvíaeldis. Mikilvægt sé að efla rannsóknir og menntun í greininni, svo hún fái að blómstra á sterkum grunni þekkingar og rannsókna.

Vesturbyggð: sett fé í innleiðingu heimastjórna

Tálknafjörður. Ein heimastjórnin er fyrir Tálknafjörð.

Bæjarráð Vesturbyggðar ræddi innleiðingu heimastjórna á fundi sínum í síðustu viku. Kosið var á laugardaginn í fjórar heimastjórnir í sveitarfélaginu nýja og munu þær fá afmörkuð verkefni sem tengjast einstökum hluta sveitarfélagsins. Verður ein fyrir Bíldudal, önnur fyrir Tálknafjörð, sú þriðja fyrir Patreksfjörð og sú fjórða fyrir Rauðasandshrepp og Barðastrandarhrepp.

Bæjarráð leggur áherslu á að innleiðingin gangi vel og haldið sé vel utan um verkefni heimastjórna ásamt því að samfella sé á verklagi hverrar heimastjórnar.
Samþykkt var að ráða inn ritara heimastjórna tímabundið í 50% starf til áramóta til að fylgja innleiðingunni eftir. Gert var ráð fyrir fjármagni til verkefnisins við gerðar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2024.

Strok laxa úr landeldisstöð Samherja

Eldisstöð Samherja í Öxarfirði. Mynd: Samherji.

Matvælastofnun barst tilkynning frá Samherja Fiskeldi á mánudaginn, þann 6. maí 2024 um óhapp sem gæti hafa leitt til stroks eldislax úr fiskeldisstöð þeirra í Silfurstjörnunni, Öxarfirði.

Matvælastofnun segir í tilkynningu um málið að strokið hafi uppgötvast við eftirlit starfsmanna 6. maí er seiði sáust í settjörn stöðvarinnar. Seiðin voru u.þ.b. 70-80 gr. og ósmoltuð. Ekki er hægt að útiloka að seiðin hafi smoltast í settjörninni og komist út í sjó. Samkvæmt upplýsingum frá rekstraraðila fundust 868 seiði utan kers en óljóst er á þessum tímapunkti hvers mörg seiði struku í heild og þ.a.l. óljóst hve mörg seiði bárust í settjörnina. Rekstrarleyfishafi vinnur að endurheimt fiska úr settjörn og nákvæmari talningu til þess að meta umfang stroksins.

Matvælastofnun hefur kallað eftir gögnum og upplýsingum er varða viðbrögð fyrirtækisins og er atvikið til rannsóknar hjá stofnuninni.

Samherji segir frá því í tilkynningu á vefsíðu sinni að við fyrstu athugun virðist kerfisbilun í nýju eldiskerfi seiðastöðvar hafa valdið því að seiði soguðust í frárennsliskassa á eldiskeri og út um frárennslisrör, yfir í millibrunn og þaðan í settjörn. Sleppivarnir eru á þremur stöðum í frárennsliskerfi seiðastöðvar; á hverri eldiseiningu, í millibrunni og settjörn. Sleppivarnir á frárennsliskassa og millibrunni virðast ekki hafa virkað sem skyldi en þær hafa þegar verið yfirfarnar og efldar segir í tilkynningunni.

Þá segir að Samherji fiskeldi hafi stundað landeldi í 25 ár án slíkra óhappa. Félagið vinni eftir ströngum verklagsreglum og gæðastöðlum og leggur það ríka áherslu á að stunda landeldi á sjálfbæran og öruggan hátt. Samherji fiskeldi harmar atvikið en strax var hafist handa við að rannsaka orsakir og hefja mögulegar úrbætur til að fyrirbyggja að slíkt endurtaki sig.

Karlakórinn Ernir: velheppnaðir tónleikar í Guðríðarkirkju í Reykjavík

Karlakórinn Ernir hélt velheppnaða tónleika í Guðríðarkirkju í Grafarholti í gærkvöldi. Aðsókn var góð, nokkuð á annað hundrað gestir komu til að hlýða á kórinn.

Söngdagskráin var svipuð og á tónleikum kórsins á norðanverðum Vestfjörðum í síðasta mánuði. Í kórnum voru 25 manns og auk þess stjórnandinn Jóngunnar Biereing Margeirsson og undirleikarinn Mikolaj Ólafur Frach. Kórnum tókst vel upp, raddir voru sterkar og hann virkaði öruggur í söngnum. Lagaval var fjölbreytt, allt frá Sigvalda Kaldalóns til Mugison.

Kórinn var að koma frá Vestmannaeyjum, en þangað var farið á fimmtudaginn og haldnir tónleikar með karlakór Vestmannaeyja. Voru gestir þar um 170 manns að sögn Guðjóns Torfa Sigurðssonar formanns kórsins.

Góð aðsókn var á tónleikana.

Nokkrir kórfélagar bíða eftir að tónleikarnir hefjist.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Nýjustu fréttir