Sunnudagur 8. september 2024
Síða 95

Fundað um vetrarferðaþjónustu 

Í gær var fundur um lengingu ferðatímabilsins á Vestfjörðum með áherslu á vetrarferðaþjónustu.

Fundurinn var vel sóttur en yfir tuttugu ferðaþjónustuaðilar frá Vestfjörðum og úr Dölum voru þá mættir til fundar í Flókalundi.

Markmið fundarins var að hvetja ferðaþjónustuaðila til að þróa ferðir og ferðapakka að vetrarlagi til að auka aðdráttarafl Vestfjarða utan hefðbundins ferðamannatímabils og einfalda gestum að sækja svæðið heim á þeim tíma.

Fundurinn sem þessi mikilvægt skref í að hvetja til aukinnar vetrarferðaþjónustu á Vestfjörðum og að stuðla að lengingu ferðatímabilsins á svæðinu.

Fyrirtæki sem eru með starfsemi á ársgrundvelli kynntu starfsemi sín á fundinum.

Fjórða læknaferðin endurgreidd

Síðustu mánuði hafa margar jákvæðar fréttir borist frá heilbrigðisráðuneytinu. Markvisst er unnið eftir stefnunni jafnt aðgengi, óháð efnahag og búsetu, um það ríkir samstaða í samfélaginu. Það er því fagnaðarefni að nú er verið að fjölga ferðum sem fást endurgreiddar frá Sjúkratryggingum vegna nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu sem sótt er utan heimabyggðar. Um síðustu áramót fjölgaði endurgreiddum ferðum úr tveimur í þrjár og nú styttist í að fjórða ferðin bætist við.

Jafnt aðgengi

Í fjáraukalögum sem nú eru til umfjöllunar á Alþingi er tillaga um sérstaka fjárveitingu til að mæta kostnaðinum við fjórðu ferðina og er það liður í aðgerðum stjórnvalda til að greiða fyrir kjarasamningum. Gert er ráð fyrir 50 milljónum kr. til þess að auka aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu með því að draga úr kostnaði einstaklinga við að sækja þjónustu fjarri heimabyggð. Það er og hefur verið stefna Framsóknar að lækka greiðsluþátttöku sjúkratryggðra. Fjölgun ferða innanlands sem fást endurgreiddar falla að þeim markmiðum og heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Þessi breyting er í samræmi og samhengi við samninga við sérfræðilækna sem gengið var frá síðastliðið sumar eftir samningsleysi allt frá árinu 2019.

Samningar bæta stöðu almennings

Meðan ekki voru til staðar samningar við sérfræðilækna var ekki hægt að segja að allir hefðu sama aðgang að heilbrigðisþjónustu. Samningsleysið dró fram ójafnræði í aðgengi. Með nýjum samningum við sérgreinalækna lækkaði greiðsluþátttaka einstaklinga en þjónusta sérfræðilækna hafði hækkað jafnt og þétt í samningsleysinu. Frá gildistöku samningsins 1. september síðastliðinn til febrúarloka hafa um 102 þúsund einstaklingar nýtt sér þjónustu þeirra. Þessir einstaklingar spöruðu sér nærri 1,3 milljarð króna í komugjöld á grundvelli hins nýja samnings.

Þróun heilbrigðisþjónustu

Þá styður samningurinn við framþróun í þjónustu með sérstakri áherslu á nýsköpun, stafræna þróun og fjarheilbrigðisþjónustu. Nú er til umfjöllunar á Alþingi frumvarp sem ætlað er að skýra umgjörð og nýtingarmöguleika fjarheilbrigðisþjónustu auk nokkurra frumvarpa sem styðja við stafræna þróun í heilbrigðiskerfinu. Hjá Sjúkratryggingum stendur svo yfir vinna við endurbætur á vef þannig að auðveldara sé að skila inn gögnum vegna ferðakostnaðar og nú er nóg að skila einu læknisvottorði með umsókn um endurgreiðslu. Þá er einnig mikilvægt að geta þess að í samningi við sérfræðilækna er sérstakt ákvæði um að leitað verði  leiða til að auka viðveru sérfræðilækna á landsbyggðinni. Þannig styður eitt verkefni annað til að ná fram umgjörð sem tryggir jafnara aðgengi.

Stöðugt er unnið að útfærslu stefnu stjórnvalda til að þjónustan nýtist fólkinu sem þarf á henni að halda.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar

Biskup vísiterar á Vestfjörðum

Frá heimsókninni á Hrafnseyri. Mynd: Safn Jóns Sigurðssonar.

Síðastliðinn föstudag vísiteraði biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir, Hrafnseyri. Með í för voru sr. Hildur Inga Rúnarsdóttir, prestur á Þingeyri og sr. Magnús Erlingsson, prófastur Vestfjarðaprófastsdæmis ásamt Elínu Elísabetu Jóhannsdóttur, fræðslustjóra Þjóðkirkjunnar. Ingi Björn Guðnason, staðarhaldari á Hrafnseyri tók á móti biskupi og fylgdarliði ásamt Hreini Þórðarsyni, bónda á Auðkúlu og formanni sóknarnefndar Hrafnseyrarsóknar.

Ingi Björn segir í færslu á facebook um heimsóknina að það hafi verið ánægjulegt að taka á mót frú Agnesi sem er þessa dagana að ljúka síðustu embættisverkum sínum áður en nýr biskup tekur við 1. september.

Hrafnseyri er forn kirkjustaður og má ætla að kirkja hafi verið byggða á staðnum á 11. öld. Tóftir miðaldakirkjunnar og kirkjugarðsins eru vel sýnilegar friðlýstar fornminjar sem standa sunnan við núverandi kirkju sem reist var árið 1886. Einnig er á staðnum kapella sem er hluti af aðalbyggingu staðarins. Oftast nær er messað tvisvar á ári á Hrafnseyri, í kapellunni á 17. júní og í kirkjunni síðsumars.

Ísafjarðarbær: þrjú tilboð í slátt á opnum svæðum

Flateyri.

Þrjú tilboð bárust í slátt á opnum svæðum í Ísafjarðarbæ en voru opnuð 29. apríl 2024.

Kjarnasögun ehf. bauð eitt í alla byggðarkjarnana og var tilboð fyrirtækisins lægst í öllum kjörnunum.

Samanlagt tilboð fyrirtækisins var 10.204.624 kr. en í fjárhagsáætlun 2024 er gert ráð fyrir 12.190.00 kr.

Ívar gröfumaður ehf bauð í slátt á Flateyri og Toppgarðar ehf bauð í slátt á Ísafirði, Hnífsdal og Flateyri.

Bæjarráðið samþykkti að leggja til við bæjarstjórn að taka tilboði Kjarnasögunar í slátt opinna svæða 2024.

Karl Sigurðsson 106 ára í dag

Karl Sigurðsson Ísafirði er 106 ára í dag 14. maí. Hann fæddist árið 1918 á Ísafirði, í húsi sem kallast Rómaborg og tilheyrir í dag Sundstræti. Á fyrsta ári Karls flutti fjölskyldan út í Hnífsdal og þar bjó hann stærstan hluta ævi sinnar. Eiginkona hans var Kristjana Hjartardóttir. Hún lést árið 2013. Kristjana átti fyrir einn dreng, Grétar. Saman áttu þau fimm börn að auki – Ásgeir Kristján, Guðrúnu, Hjördísi, Sigríði Ingibjörgu og Halldóru.

Karl átti farsælan skipstjórnarferil en lengstan tíma var hann á Mími eða alls 25 ár. Eftir að síldin fór breyttist margt í útgerð á Íslandi. Hanni hafði verið meðeigandi í útgerðarfyrirtæki Mímis en ákveðið var að leggja það niður. Hann fékk greiddan sinn hlut og ákvað að fara í land.

Karl er heiðursfélagi í félagi eldri borgara á Ísafirði og nágrenni.

Áhyggjulaust ævikvöld

Er það sem við öll vonumst eftir að ævistarfi loknu – sem mörg okkar hafa þurft að taka með trukki í velferðarríkinu Íslandi. þar sem haldið er í vonalausa hagstjórn eins og um trúarbrögð væri að ræða þó hún lengst af hafi aðeins skilað fáum ríkulegri velsæld.

En hvernig hugsum við okkur áhyggjulaust ævikvöld ?

Það er jú að hafa öruggt þak yfir höfuðið og afkomu sem tryggir mannsæmandi líf á síðasta skeiði ævinnar. Þetta teljast mjög hóflegar kröfur eftir áratuga strit á íslenskum vinnumarkaði.

Fólk vill líka svo gjarnan getað tekið á móti sínum afkomendum á eigin heimili sem veitandi gestgjafar og að vera fjárhagslega fært um að gleðja sína með gjöfum þegar við á án þess að þurfa að neita sér um nauðsynjar til að dekka þann kostnað.

Ef ekki er hægt að búa svo að fólki hér á landi á efri árum svo það geti lifað með reisn og notið sólarlagsins þá er ekki hægt að tala um að við búum í velferðarríki sem telst með þeim auðugustu í heimi.

Margir kvíða efri árunum – einkum þeir sem búið hafa við bölmóð og afkomukvíða um langt skeið.

Bágar aðstæður leiða af sér vandamál ýmiss konar sem geta þegar fram í sækir orsakað aukið álag á heilbrigðis og félagsþjónustu. Svo vesöld og kröm getur aldrei verið þjóðhagslega hagkvæm.

Eldri borgarar forðast í lengstu lög að ganga í björg félagsþjónustunnar og þurfa í framhaldinu að lúta kæfandi forræðishyggju mistækra starfsmanna hennar. Mörgum finnst þá botninum náð þegar farið er að koma fram við fólk eins og óvita – fólk sem hefur þurft að hafa fyrir sínu allar götur.

Fólk glatar ekki tilfinningunum þó árin færist yfir – síður en svo – þær sitja í sálu og sinni sem fyrr, breytilegar eins og hjá öllum öðrum – með heilbrigðari sýn á efri árum því með árunum vex viskan, skynsemin og þroskinn sem eldri borgarar vilja eðlilega láta afkomendur sína njóta góðs af – þannig lærir hver kynslóðin af annarri.

Við vitum það sem komin eru á virðulegan aldur að þó ellikerling narti í ytra byrgðið að þá finnst okkur það innra alltaf jafn ferskt. Húmorinn, gáskinn og gleðin eru enn til staðar, stundum vantar bara einhverja til að deila þessu með – þessir lífsnauðsynlegu kostir vilja nefnilega rykfalla þegar fólk býr lengi við félagslega einangrun.

Margir eru svo lánsamir að eiga sér lífsförunaut að deila með bæði því sæta og súra – það er örugglega mikil blessun og gleði sem fylgir því að hafa ástina sér við hlið í blíðu og stríðu – þar sem fullkomið traust og virðing ríkir milli tveggja einstaklinga sem tilbúnir eru að leiða hvort annað yfir þröskulda lífsins – með velferð hvors annars að leiðarljósi – svikalaust.

Traustur maki er vissulega gulls ígildi – en ekki nauðsynlegur því einyrkjar geta líka lifað góðu lífi þó þeir eigi ekki þess kost að krullað saman tásum í félagsskap ástkærra maka á frostköldum vetrarkvöldum.

Manneskja sem býr ein þarf ekki endilega að vera einmanna – það er hægt að finna til einmannaleika í félagsskap sem fólk sem finnur sig ekki í – svo allir geta orðið einmanna – ekki bara einbúinn.

Það er enginn heimsendir þó lífið sé ekki alltaf eins og best verður á kosið því lífið hefur upp á svo margt að bjóða – búi fólk við þá möguleika að geta gripið tækifærin þegar þau gefast og þá fengið að blómstra með sínum áhugamálum og hæfileikum.

Félagsskapur er okkur öllum nauðsynlegur af og til burt sé frá aldri – öll höfum við þörf fyrir bros, hlýju og velvilja stöku sinnum – en við viljum um fram allt að það sé ekta – ekki komið frá fólki sem fær borgað fyrir sýnda vinsemd.

Fólk vill ekki láta leiða sig á bása og skammta sér félagsskap – það vill hafa valið – það vill geta deilt skoðunum og áhugamálum og sótt sér fróðleik og viksu í félagsskap sem það kýs sjálft.

Forræðishyggjan í þjóðfélaginu er orðin svolítið yfirþyrmandi. það er búið að jaðarsetja ansi marga hópa sem allir eiga að lúta lögmálum góða fólksins – sem gasprar sum hvert út í eitt uppblásið af eigin ágæti og lætur þar við sitja eftir að hafa fengið að láta ljós sitt skína.

Jaðarsetning er ekki af hinu góða – um leið og einhver er jaðarsettur lokast á hann fjölmargar dyr – viðkomandi verður annars flokks manneskja sem fær aðeins pláss á afmörkuðum stöðum upp á náð og miskun.

Það er ekki til nein uppskrift sem segir til um hvernig eldri borgarar eigi að vera og haga sér frekar en fyrir aðra þjóðfélagshópa þó sumir hafi á því ákveðnar skoðanir.

Ellibelgir eiga að fá að vera þeir sjálfir – hafa skoðanir, rífa kjaft og klæða sig eins og þeim sýnist.

Eldmóðurinn lifir innra með þeim – en hann hefur verið bældur niður með fordómum og niðurdrepandi forræðishyggju. – Þeir hafa dregið sig inn í skel af því stöðugt er klifað á að þeir séu byrði – íþyngjandi vandamál – en í sjúkdómsvæddu þjóðfélagi verða ansi margir að vandamáli – ekki bara eldri borgarar.

Það er hægt að gera vandamál úr öllu – líka stálheilbrigðu fólki ef ásetningur er fyrir hendi.

Það virðist stundum vera tilhneigingin að berja fólk niður með lítilsvirðandi framkomu fremur en að stappa stálinu og leyfa því að njóta sín þar sem hæfileikarnir liggja – mögulega fleirum en viðkomandi til góðs.

 það kallast óttastjórnun og kúgun þegar stöðugt er þrengt að fólki.

En auðvitað erum við gömlu brýnin eins misjöfn og við erum mörg. Á meðan sumir kjósa að rífa kjaft af illri nauðsyn eru aðrir sem vilja hafa það náðugt í ellinni og þá kannski að dúlla sér við að safna frímerkjum og flosa. Það er sannarlega gott og blessað þegar fólk getur áhyggjulaust með hreina samvisku sökkt sér niður í sín hugðarefni. Því hljótum við að fagna.

Þegar ég var þrítug þá fannst mér ellin mikil ógn – en smá saman rjátlaðist af mér þessi ótti og um fimmtugt var ég nánast alveg búin að yfirstíga hann  – ég er nokkuð viss um að magur kannast við þennan ótta – það má því segja að ellin fylgi okkur flestum sem skuggin nánast allt okkar líf eins og hnýsin illa innrætt slúðurkerling.

Nú þegar ég er rétt að verða löggiltur elllilífeyrisþegi þá finnst mér ég geta litið með stolti yfir ævistarfið.

Ég er dugleg, samviskusöm, fjölhæf og velvirk – þessara eiginleika minna naut íslenskur vinnumarkaður í áratugi – það kom mér því á óvart þegar það rann upp fyrir mér þá orðin öryrki að búið væri að dæma mig til að lifa af hungurlús ævina á enda sem betlari væri.

Nú eru mínar mánaðartekjur 404.379 kr og þá er allt innifalið – heimilisuppbót, húsaleigubætur og lífeyrissjóður og ég get átt von á lækkun vegna skerðingar á húsaleigubótum.

Með þessar tekjur er ekki hægt að láta stóra drauma rætast – aðeins vona að maður haldi sjó og á meðan ég bíð eftir að réttlætið rati til mín eftir meira en áratuga baráttu við kerfið þá læt ég mig dreyma um hversdagsleikann – kaffi og ristað brauð á eigin heimili, kótilettur og notalegt kúr fyrir framan sjónvarpið.

Hversdagsleikinn er vanmetinn – það er hægt að gera svo margt til að lífga upp á hann með litlum tilkostnaði – þegar ekkert annað er í boði.

Lifið heil !

Og verið góð hvert við annað á þessum síðustu og verstu.

Vilhelmína H. Guðmundsdóttir

Vesturbyggð: átta styrkir samþykktir

Listasafn Samúels er í Selárdal í Arnarfirði.

Menningar- og ferðamálaráð Vesturbyggðar samþykkti á fundi sínum 10. maí að veita átta styrki.

Magnús Thorlacius fékk 150 þús kr. styrk fyrir uppsetningu einleiksins Flokkstjórinn á Patreksfirði og Bíldudal. 

Félag um Ljóðasetur Íslands fékk einnig 150 þúsund kr. styrk fyrir verkefnið Þorpin þrjú þar sem ljóðskáldin Þórarinn Hannesson og Ólafur Sveinn Jóhannesson flytja ljóð á Bíldudal, Tálknafirði og Patreksfirði. 

Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir fékk 50 þúsund kr. styrk fyrir fjölskyldusmiðjuna Skapandi skrúfur.

10. bekkur Patreks- og Bíldudalsskóla fékk 90m þúsund króna styrk fyrir útskriftar- og menningarferð til Barcelona í lok maí eða 10 þúsund krónur á hvern nemanda.

Sögufélagi Barðastrandarsýslu var veittur 140 þúsund króna styrkur vegna útgáfu árbókar Barðastrandarsýslu 2023 sem kom út í desember síðastliðnum.

Félag um listasafn Samúels fékk 150 þúsund króna styrk fyrir sjöundu listahátíð Samúels sem haldin verður 19.-21. júlí 2024. 

Blús milli fjalls og fjöru fékk styrk sem nemur leigu á félagsheimili Patreksfjarðar fyrir þrettándu blúshátíðinni sem verður haldin í lok ágúst 2024. Auk þess leggur ráðið til að gerður verði samningur við aðstandendur hátíðarinnar líkt og við aðrar bæjarhátíðir.

Foreldrafélag Bíldudalsskóla og Tjarnarbrekku fékk styrk vegna páskabingós félagsins 2024 sem nemur leigu á félagsheimilinu Baldurshaga.

Minjastofnun leggst gegn breytingum á byggingum við Sindragötu

Skuggavarp á Aðalstræti af nýbyggingu Sindragötu 4.

Lísbet Guðmundsdóttir, minjavörður Vestfjarða hefur sent umsögn Minjastofnunar um fyrirhugaða breytingu á nýbyggingu við Sindragötu í nágrenni friðaðra húsa við Aðalstræti á Ísafirði.

Minjastofnun telur ástæðu til að staldra við og endurskoða þessar breytingar í ljósi þess að skipulagssvæðið og fyrirhugaðir byggingarreitir eru í næsta nágrenni við friðuð hús sem tilheyra byggð með mikið varðveislugildi og bendir á að það hafi verið staðfest af hálfu Ísafjarðarbæjar með ákvörðun um hverfisvernd í aðalskipulagi og síðast með samþykktri tillögu sveitarfélagsins að verndarsvæði í byggð á
Skutulsfjarðareyri sem staðfest var af umhverfisráðherra 6. október 2023.

Bent er á að markmið hverfisverndar sé „að vernda íbúa og hagsmunaaðila fyrir óæskilegum breytingum á svæðinu og ásýnd þess“ og þar sem Ísafjarðarbær sé handhafi byggingarréttar á lóðinni og því hæg heimatökin að vanda uppbyggingu á svæðinu.

hugmyndir um að takmarka neikvæð áhrif eru tómt hjal

Gert er ráð fyrir að tvær byggingar verði á Sindragötu 4 og nú hefur verið samþykkt að hækka vestara húsið á skipulagssvæðinu um eina hæð, án formlegrar breytingar á deiliskipulagi eða grenndarkynningar.

„Ljóst er að uppbygging á lóðinni mun hafa áhrif á ásýnd hinnar heildstæðu gömlu götumyndar Aðalstrætis almennt og með uppbyggingu samkvæmt gildandi deiliskipulagi fyrir Sindragötu 4 er
þegar fyrirséð um rof í stíl og kvarða byggðar á svæðinu en með því að hækka vestari nýbygginguna um eina hæð til viðbótar eru allar hugmyndir um að takmarka neikvæð áhrif nýrrar uppbyggingar í nágrenni við verndarsvæði, svo ekki sé minnst á að uppbygging styðji við varðveislugildi hinnar gömlu byggðar, tómt hjal.“

Þá segir í erindi Minjastofnunar að „Minjastofnun telur slíka uppbyggingu ganga gegn bæði hverfisvernd í
aðalskipulagi sem gildandi deiliskipulag vísar þó í, og verndarskilmálum verndarsvæðis í byggð“.

Taktu stökkið!

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið hefur farið af stað með átaksverkefnið Taktu stökkið. Markmið þess er að fjölga háskólanemum, ekki síst strákum, en rannsóknir sýna að umtalsvert færri útskrifast úr háskólum hér á landi en á öðrum Norðurlöndum.

Lykilskilaboð átaksins í ár eru að fólk bíði ekki með háskólanám heldur taki stökkið og skrái sig í háskóla. Átakinu fylgir hvatning til ungs fólks um að fylgja eigin sannfæringu og velja nám við hæfi, en að sama skapi skilaboð um að það sé í lagi að skipta og blanda saman ólíkum fögum. Þá er algengum spurningum um kostnað og hvort fólk þurfi að vera fullkomlega tilbúið til að hefja nám svarað. 

Átakið mun birtast á samfélagsmiðlum og í sjónvarpi, flettiskiltum og bíóhúsum en einnig verður unnið hlaðvarpsefni með viðtölum við ungt fólk úr ólíkum áttum sem deilir reynslu sinni af því að hefja nám. Það er vöntun á háskólamenntuðu fólki í hinum ýmsu greinum á Íslandi, s.s. í störf í heilbrigðisþjónustu og í hugverkaiðnaði svo eitthvað sé nefnt. Menntun mun alltaf skila sér – hvort sem það er fyrir einstaklinginn eða þjóðfélagi

Skjaldborg – Hátíð íslenskra heimildamynda

Skjaldborg – hátíð íslenskra heimildamynda verður haldin um hvítasunnuhelgina á Patreksfirði dagana 17. – 20. maí 2024.
Skjaldborg er kraftmikil uppskeruhátíð heimildamyndahöfunda og eina íslenska kvikmyndahátíðin sem sérhæfir sig í að frumsýna íslenskar heimildamyndir.

Reynsluboltar í faginu, byrjendur og hinn almenni áhorfandi koma saman á hátíðinni í skemmtilegu og skapandi samtali sem gegnir mikilvægu hlutverki fyrir þróun og miðlun íslenskrar heimildamyndagerðar.


Ókeypis er inn á allar heimildamyndirnar sem sýndar eru í bíóinu Skjaldborg sem staðsett er í hjarta bæjarins.
Hátíðarpassi veitir aðgang að allri dagskrá hátíðarinnar, sjávarréttaveislu, plokkfiskboði kvenfélagsins, partýi á laugardagskvöldinu og aðgang í sundlaugina og á tjaldstæðið alla helgina.

Lokaball Skjaldborgar fer fram í Félagsheimili Patreksfjarðar að lokinni skrúðgöngu, verðlaunaafhendingu.

Nýjustu fréttir