Sunnudagur 8. september 2024
Síða 94

EMMÍ Sprett-upp afmælissýning í Menntaskólanum á Ísafirði

Í tilefni af 50 ára útskriftarafmælis Menntaskólans á Ísafirði verður svokölluð sprett-upp afmælissýning í Gryfjunni föstudaginn 24. maí.

Á sýningunni verður lögð áhersla á dulda námskrá skólans og því verður nemendamenningin í fyrirrúmi.

Til að undirbúa sýninguna fengum við til liðs við okkur fimm fyrrverandi útskriftarárganga ásamt stjörnum núverandi útskriftar og mun því sýningin spanna nemendasögu MÍ allt frá fyrsta útskriftarárgangi til útskriftarárgangs dagsins í dag.

Sýningin verður opin frá klukkan 17:00 til 20:00.

Skjaldborg: mynd um snjóflóðið í Súðavík 1995

Á Skjaldborgarhátíðinni sem verður á Patreksfirði um næstu helgi verður sýnt heimildarmyndin Fjallið öskrar eftir Daníel Bjarnason. Í heimildamyndinni eru sagðar sögur þriggja einstaklinga sem upplifðu hamfarirnar frá mismunandi sjónarhornum. „Fjallið það öskrar“ er heiður til Vestfirðinga, minning um þau líf þeirra sem fórust og vitnisburður um styrk samfélags sem stóð saman á myrkum tímum segir í kynningu.

Framleiðandi er Þórunn Guðlaugsdóttir. Myndin er 99 mínútur að lengd.

Vélsmiðjan á Þingeyri

Einnig verður sýnd á Skjaldborgarhátíðinni heimildarmynd um vélsmiðjuna á Þingeyri. Rætt er við Kristján Gunnarsson og segir að líf Kristjáns hafi snúist um vélsmiðjuna á Þingeyri frá því hann kom þangað inn sem lítill strákur að færa bróður sínum kaffi. Nú þegar hann er orðinn áttræður verða tímamót í lífi hans og smiðjunnar sjálfrar. Meira en aldargamlar vélar hennar munu varla standast tímans tönn í hnattvæddum heimi fjöldaframleiðslu.

Framleiðandi er Elfar Logi Hannesson og leikstjóri Arnar Sigurðsson. Myndin er 20 mínútur að lengd.

Stækkun Úlfsárvirkjunar ekki í umhverfismat

Skipulagsstofnun hefur ákveðið að fyrirhuguð stækkun Úlfsárvirkjunar í Skutulsfirði þurfi ekki að fara í umhverfismat. Ákvörðunin er kæranleg til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál og er kærufrestur til 10. júní 2024.

Úlfsárvirkjun er sírennslisvirkjun við Úlfsá í Dagverðardal og var gangsett í maí 2019. Farvegurinn er
stíflaður í efnisnámu (E8) fyrir inntak án uppistöðulóns. Aðveitulögn er frá inntaki að stöðvarhúsi
og frárennsli er svo frá stöðvarhúsi aftur út í Úlfsá. Engin veglagning var vegna framkvæmdanna og
fallpípa frá vatnsinntaki að stöðvarhúsi var alfarið grafin í vegkant gamla þjóðvegarins, nema þar
sem hún sveigir inn í efnisnámuna í átt að inntaki og að stöðvarhúsi. Virkjunin er á svæði sem þegar
var raskað. Farvegur Úlfsár er með skertu rennsli frá inntaki að frárennsli virkjunar á u.þ.b. 2,4 km
kafla.
Fyrirhuguð framkvæmd felst í aflaukningu Úlfsárvirkjunar en áformað er að auka aflgetu úr 200 kW
í 460 kW með breyttum vélbúnaði. Vatnsnotkun fyrir aflaukningu er um 0,120 m3 /sek.
Hámarksvatnsnotkun eftir aflaukningu verður 0,280 m3 /sek við full afköst. Aukið afl virkjunar er
sagt fengið með nýtingu umframvatns þegar aðstæður leyfa, t.d. þegar yfirborðsvatn og snjóbráð
er til staðar.

Aflaukningin kallar ekki á neinar framkvæmdir á svæðinu, engar breytingar á inntaki, fallpípu né flutningsmannvirkjum.

Það er niðurstaða Skipulagsstofnunar að fyrirhuguð framkvæmd sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.

Skólakór Tónlistarskólans á Ísafirði í Danmörku

Skólakór Tónlistarskólans á leið á Norbusang í Fredericia á Jótlandi í Danmörku.

Það má með sanni segja að Skólakór Tónlistarskólans hafi slegið í gegn á norrænu kórahátíðinni Norbusang sem haldin var í Fredericia á Jótlandi í Danmörku 8. – 12. maí sl. undir stjórn Bjarneyjar Ingibjargar kórstjóra.

Skólakórinn tók þátt í vinnusmiðjum, hélt tónleika bæði einn og sér og líka með öðrum kórum.

Frá því er sagt á vef Tónlistarskólans að vaskur hópur foreldra hafi haft veg og vanda af fjármögnun ferðarinnar með stúlkunum sem hafa sungið við ýmis tækifæri í vetur, selt kaffi og kökur, jólamerkimiða svo eitthvað sé nefnt. Þá voru fararstjórar úr hópi foreldra sem brugðust fumlaust og örugglega við öllu sem upp kom.

Vortónleikar Skólakórsins verða í Hömrum á morgun fimmtudaginn 16. maí kl. 19. Eftir tónleikana verða seldar pottaplöntur til styrktar Skólakórnum.

Eftir tónleika í Christians kirkjunni.

Myndir: tonis.is

Patreksfjörður: fyrsta skemmtiferðaskipið komið

Norska skemmtiferðaskipið Fridthjof Nansen frá Hurtigruten kom til Patreksfjarðar á laugardaginn. Að sögn Elfars Steins Karlssonar, hafnarstjóra voru um 450 farþegar og áætluð hafnargjöld eru um 800 þúsund kr. Elfar segir um 35 skipakomur áætlaðar í sumar.

Skipið hélt svo áfram um Vestfirði og norður fyrir Horn og kom daginn eftir til Kirkjubóls í Steingrímsfirði og Sauðfjársetursins.

Varðskip aðstoðar við flutning á fóðurpramma

Varðskipið Freyja var í gær á Vestfjörðum og aðstoðaði við flutning á fóðurpramma Arnarlax milli fjarða.

Pramminn Steinborg hefur verið við kvíastæðið í Hringsdal í Arnarfirði en nú fer það í reglubundna hvíld eftir eldislotu og í staðinn verður tekið í notkun nýtt kvíastæði í Patreksfirði, sem nefnist Vatneyri.

Þar er verið að undirbúa útsetningu eldisseiða sem verða þar líklega næstu 18 mánuði þar til sláturstærð verður náð. Ekki liggur nákvæmlega fyrir hve mörg seiði verða sett út en ætla má að þau geti verið um 1 milljón. Uppskeran af slíkri eldislotu verður að öllu stóráfallalausu um 4.500 tonn sem gefa um 5 milljarða króna í útflutningsverðmæti.

Gísli Hermannsson skipstjóri hjá Sjótækni tók þessar myndir af flutningnum.

Varðskipið Freyja í Arnarfirði í gær.

Ísafjarðarbær: 54 m.kr. breyting á fjárfestingum í ár

Frá framkvæmdum Skotíþróttafélags Ísafjarðar á Torfnesi.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur afgreitt til bæjarstjórnar tillögu að breytingum á fjárfestingum ársins. Er lagt til að hækka nokkrar fjárfestingar um 54 m.kr. og lækka framlög til annarra um sömu upphæð.

Liðurinn áhöld og tæki hækkar um 23,2 m.kr. og verður 35,2 m.kr. Er það vegna kaupa á þjonustubifreið fyrir slökkviliðið fyrir 9 m.kr. og tveggja bifreiða fyrir velferðarsvið fyrir 26,2 m.kr. Fyrir voru 12 m.kr. til kaupanna.

Kostnaður Ísafjarðarbæjar við ofanflóðavarnir á Flateyri hækkar um 21,5 m.kr. og verður 51,5 m.kr.

Framlög til íþróttamannvirkja verður 9 m.kr. vegna klósett-, sjónvarps- og blaðamannaaðstöðu á Torfnesi.

Þá hækka framlög vegna hundagerðis um 650 þúsund krónur.

Á móti þessum hækkuðum framlögum lækka framlög til skautasvells á Flateyri um 4 m.kr. þar sem framkvæmdinni er lokið. Jafnframt er endurgerð gangstétta um 10 m.kr. frestað fram á næsta ár og einnig er frestað endurnýjun á tækjum í Áhaldahúsi fyrir 22 m.kr. Loks er lækkaður liðurinn ófyrirséðar framkvæmdir um 18.350.000 kr.

Úrslit í Pangea stærðfræðikeppninni

Pangea stærðfræðikeppni er fyrir alla nemendur 8. og 9. bekkja grunnskóla landsins.

Aðalmarkmið keppninnar er að vekja áhuga hjá ungu fólki á stærðfræði, hvetja þau sem halda að stærðfræði sé of erfið til dáða með því að sýna þeim að þau geti afrekað mikið ef þau reyna, og hvetja efnilegustu nemendurna til áframhaldandi afreka.

Úrslit keppninnar fóru fram í Menntaskólanum við Hamrahlíð s.l. laugardag.

Tveir keppendur frá Grunnskólanum á Ísafirði tóku þar þátt en það voru þeir Jökull Örn Þorvarðarson úr 8.bekk og Hálfdán Ingólfur Hálfdánsson úr 9.bekk.

Þeir gerðu sér lítið fyrir og voru á meðal þeirra 87 bestu í úrslitunum af rúmlega 4900 þátttakendum. Aldeilis frábær árangur hjá þeim.

Opinn ársfundur Orkubús Vestfjarða 2024

Opinn ársfundur Orkubús Vestfjarða verður haldinn í Edinborg á Ísafirði föstudaginn 17. maí kl. 12:00

Á fundinum verða kynntar niðurstöður ársreiknings fyrir árið 2023 og rætt almennt um starfsemina.  Þá verður farið í stuttu máli yfir helstu framkvæmdir síðasta árs, þær framkvæmdir sem eru á dagskrá á þessu ári og framtíðaráform fyrirtækisins.  

Á fundinum mun Auður Agla Óladóttir jarðfræðingur hjá ÍSOR flytja framsögu um jarðhitaleit á Vestfjörðum, en ÍSOR vann áætlun fyrir OV um jarðhitaleit í grennd við rafkyntar hitaveitur fyrirtækisins og stýrir nú þeirri jarðhitaleit sem fram fer á vegum Orkubús Vestfjarða þessi misserin.

Fundarmönnum verður gefinn kostur á að koma með fyrirspurnir til framsögumanna.

Ársfundurinn er öllum opinn og verður fundargestum boðið upp á súpu á staðnum.

Áætlað er að fundurinn standi til kl. 13:30

Hvalfjarðargöng lokuð á morgun 15. maí frá klukkan 21-23 vegna brunaræfingar

Göngin um Hvalfjörð verða lokuð miðvikudaginn 15. maí frá klukkan 21-23 vegna umfangsmikillar brunaæfingar á vegum Vegagerðarinnar, Slökkviliðs Akraness og Hvalfjarðarsveitar og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.  

Hjáleið verður um Hvalfjörð (47) meðan á æfingunni stendur. Lokanir verða við gatnamót Hringvegar og Hvalfjarðavegar í Leirársveit og við gatnamót Hringvegar og Hvalfjarðavegar á Kjalarnesi.  

Vegfarendur eru beðnir um að taka tillit til þessa í ferðaáætlunum sínum. Beðist er velvirðingar á óþægindum sem lokunin kann að valda.

Nýjustu fréttir