Sunnudagur 8. september 2024
Síða 93

SeaGirls: Hvað er hafið fyrir þér

Á morgun föstudaginn 17. maí verður formleg opnun á vefsýningunni SeaGirls – hvað er hafið fyrir þér í Turnhúsinu.

Í verkefninu „Seagirls“ fékk hópur af stúlkum einnota filmuvélar yfir sumartímann í þeim tilgangi að fá innsýn í samband og skilning þeirra á hafinu.

Verkefnið er unnið í samstarfi milli Háskólaseturs Vestfjarða og Hversdagssafnsins og fékk styrk frá nýsköpunarsjóði og uppbyggingarsjóði Rannís, sem hluti af alþjóðlegri umræðu um kyn og haf.

Jafnrétti kynjanna í sjávarútvegi er eitthvað sem er mikilvægt að læra um frá ungum aldri, og margar alþjóðlegar þróunaráætlanir leggja áherslu á mikilvægi þátttöku ungmenna og kvenna í sjálfbærni hafsins.

SeaGirls er langtíma verkefni sem mun hjálpa til við þróun á framtíðar rannsóknum og samfélagstörfum í tengslum við jafnrétti kynja í sjávarútvegi.

Vesturlína ekki tvöfölduð fyrr en 20 MW virkjun er komin

Jóhanna Ösp Einarsdóttir bóndi í Kaplaskjóli í Fremri-Gufudal í Reykhólahreppi er stjórnarformaður Fjórðungssambands Vestfirðinga

Fram komá málþingi sambands íslenskra sveitarfélaga í marsmánuði um orkumál að Landsnet muni ekki tvöfalda Vesturlínu fyrr en 20 MW virkjun hafi verið byggð upp á Vestfjörðum.

Jóhanna Ösp Einarsdóttir, formaður Fjórðungssambandsins sótti ráðstefnuna og hún sagði í samtali við Bæjarins besta að þetta hafi komið skýrt fram á ráðstefnunni. Hún sagði að stjórn sambandsins væri búin að óska eftir fundi með Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra til þess að ræða orkumálin á Vestfjörðum og reyna að rjúfa kyrrstöðuna í orkumálum fjórðungsins og komast að því á hverju framfarirnar strandi. Jóhanna minnti á ályktun Alþingis frá 2018 um flutningsmál raforku þar sem setja átti Vestfirði í forgang. Hún sagði að sex árum síðar væru Vestfirðingar ekki farnir að sjá þennan forgang.

Stjórn Fjórðungssambandsins ræddi orkumalin á síðasta stjórnarfundi og ályktaði eftirfarandi:

„Stjórn fjórðungssambands telur nauðsynlegt að rjúfa áratuga kyrrstöðu í orkumálum á Vestfjörðum með öllum ráðum.
Fram kom á málþinginu ,,er íslensk orka til heimabrúks?“ að:

  • Landsnet ætlar sér ekki að tvöfalda Vesturlínu fyrr en 20 megavatta virkjun sé byggð upp
    innan Vestfjarða.
  • Að leyfishafa geta setið á virkjanaleyfum þrátt fyrir að hefja ekki framkvæmdir.
    Stjórn skorar á Alþingi að setja að alvöru í framkvæmd þingsályktun um flutningsmál raforku sem samþykkt var 2018, þar sem setja átti flutningsmál raforku á Vestfjörðum í forgang.“

Tungudalur: rekstur tjaldsvæðis boðinn út og Ísafjarðrbær fær greitt

Tjaldsvæðið í Tungudal á Ísafirði. Mynd: tjalda.is

Ísafjarðarbær hefur boðið út rekstur tjaldsvæðisins í Tungudal og voru tilboð opnuð 30. apríl. Tvö tilboð bárust.

Tjald ehf. bauð -4.750.000 kr. og Kristín Haraldsdóttir 4.440.000 kr.
Skv útboðlýsingu þýðir mínus fyrir framan tölu að verktaki greiði Ísafjarðarbæ fyrir leigu á
tjaldsvæði.
Tilboðin miða við rekstur á ári.
Kostnaðaráætlun gerir ráð fyrir tveggja milljóna kr. kostnaði við rekstur tjaldsvæðisins í Tungudal.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að taka tilboði Tjalds ehf. í rekstur tjaldsvæðisins í Tungudal.

Alþingi: Skólamáltíðir í grunnskóla verði ókeypis

Grunnskólinn á Ísafirði.

Lagt hefur verið fram á Alþingi frumvarp til laga um gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum. Er frumvarpið í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Gert er ráð fyrir að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga úthluti árlega til sveitarfélaga sem bjóða öllum nemendum upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum frá 1. ágúst 2024 til loka árs 2027. Áætlaður kostnaður er 5 milljarðar króna á ári og mun ríkissjóður greiða 75% kostnaðarins eða 3.750 m.kr. í gegnum Jöfnunarsjóðinn en sveitarfélögin bera 25% kostnaðar. Þá er gert ráð fyrir að fjárhæðin taki breytingum á árunum 2025–2027 samkvæmt almennri verðlagsuppfærslu fjárlaga hverju sinni.

Ákveðið sveitarfélag sem hefur fengið úthlutað úr Jöfnunarsjóði síðar að taka gjald fyrir skólamáltíðir þarf það að endurgreiða fengin framlög.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að rekstur grunnskóla sé á ábyrgð sveitarfélaga og að það sé lögbundið verkefni sveitarfélaga að bjóða grunnskólabörnum máltíð á skólatíma. Sömu reglur munu gilda um sjálfstætt rekinn grunnskóla með þjónustusamning við sveitarfélag, sem tekur gjald fyrir skólamáltíðir.

Þá segir að með frumvarpinu sé ekki gerð breyting á heimildum sveitarfélaga til að taka ákvörðun um að taka gjald fyrir skólamáltíðir sem er nú þegar lögbundið hlutverk sveitarfélaga, sbr. 23. gr. laga um grunnskóla. Fellur það því enn undir sjálfstjórn sveitarfélaga að ákvarða hvernig kostnaði við skólamáltíðir í grunnskólum er háttað. 

Grundvallarskilyrðið fyrir úthlutun Jöfnunarsjóðs sé fyrst og fremst að sveitarfélög sýni fram á að skólamáltíðir séu gjaldfrjálsar að öllu leyti og fyrir alla nemendur. Heildaráhrif á fjárhag sveitarfélaga ráðast því af útfærslu hvers sveitarfélags fyrir sig um gjaldfrjálsar skólamáltíðir.

Tálknafjarðarhreppur samþykkir aðalskipulag

Tálknafjörður. Mynd: Mats Wibe Lund.

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps samþykkti 23. apríl nýtt aðalskipulag fyrir Tálknafjarðarhrepp fyrir tímabilið 2019 – 2039. Fjórir sveitarstjórnarmenn samþykktu tillöguna en einn sat hjá. Sá gerði athugasemd við afgreiðslu aðalskipulagsins á 16. fundi skipulagsnefndar þar sem varamaður var ekki kallaður til er aðalmaður vék af fundi vegna vanhæfis á meðan athugasemd frá Tungusilungi var tekin fyrir.

Aðalskipulagsbreytingin hefur verið send Skipulagsstofnun sem sér um lokaafgreiðslu erindisins. Við gildistöku þess fellur eldra skipulag úr gildi. Hægt er að kæra samþykkt bæjarstjórnar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála skv. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Kærufrestur er einn mánuður frá birtingu auglýsingar um samþykkt aðalskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda segir á vef sveitarfélagsins.

Á sama fundi var einnig samþykkt deiliskipulag fyrir stofnana- og íþróttasvæðis á Tálknafirði með fyrirvara um jákvæða umsögn Minjastofnunar.

Minjastofnun gerði athugasemd þar sem skráning fornminja liggur ekki fyrir. Senda þarf því tillöguna
aftur til Minjastofnunar til umsagnar þegar skráningin liggur fyrir. Einnig verður bætt við lóð fyrir spennistöð sem er með skilgreindan byggingarreit.

Sameining Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar tekur formlega gildi 19. maí næstkomandi.

Suðurtangi: tilboð 64 m.kr. – 5% undir kostnaðaráætlun

Suðurtangi. Mynd: Ísafjarðarbær.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að taka tilboði Verkhaf ehf í gatnagerð í Kríutanga og Hrafnatanga.

Gera skal nýja götu, Kríutanga og hluta af Hrafnatanga með niðurfallslögnum og niðurföllum,
styrkar- og burðarlagi undir malbik. Í Hrafnatanga skal jafnframt leggja vatnslögn og holræsalagnir. Gerð
bílastæða við Kríutanga fyrir rútur, leggja niðurfallalagnir ásamt styrktar- og burðarlagi er einng í tilboðinu. Verkinu skal vera að fullu lokið 6. ágúst 2024.

Fjögur tilboð bárust og var tilboð Verkhaf ehf lægst 64 m.kr. en kostnaðaráætlun er 68 m.kr.

Tilboð bárust einng frá Keyrt og mokað ehf 76,8 m.kr. , Grjótverki ehf 94,2 m.kr. og Gröfuþjónustu Bjarna 89,8 m.kr.

Dagverðardalur: Skipulagsstofnun samþykkir auglýsingu að teknu tilliti til athugasemda

Breyting á deiliskipulagi á Dagverðardal í Skutulsfirði fyrir orlofshúsabyggð var samþykkt í bæjarstjórn 7. mars sl. Skipulagsstofnun hefur nú skilað umsögn sinni og segist ekki gera athugasemd við að skipulagstillagan verði auglýst þegar brugðist hefur verið við nokkrum athugasemdum sem stofnunin gerir. Einkum vill Skipulagsstofnun að nánar verði tilgreint í skipulagsákvæðum aðalskipulags hvernig fyrirkomulag frístundabyggðar er hugsað og yfirbragð svæðis kemur til með að verða útfært þar sem um talsverðan fjölda nýrra frístundahúsa sé að ræða.

Breytingin nær yfir íbúðarsvæðið Í9 í Dagverðardal í Skutulsfirði og teygir sig aðeins inn á opið svæði norðan svæðisins. Lagt er til að svæði Í9 og smá partur af opnu svæði verði frístundarbyggð og fái einnig landnotkunarflokkinn verslun og þjónusta.

Meginmarkmið breytingarinnar er að breyta íbúðarsvæði í frístundabyggð og að koma til móts við eftirspurn ferðamanna á gistimöguleikum segir í greinargerð um tillöguna.

Upphaf málsins er að í lok árs 2021 óskaði fyrirtækið Fjallaból ehf eftir samkomulagi við
Ísafjarðarbæ um afnotarétt á svæði til frístundahúsabyggðar í Skutulsfirði. Það var svo undirritað 30.8. 2022 og var um lóðaúthlutun í Dagverðardal í Skutulsfirði á reit sem kallast Í9 í Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar og er reitnum úthlutað í einu lagi. Í samkomulaginu er kveðið á um að allt að 45 frístundahús verði byggð á reitnum og eru þau bæði hugsuð til sölu og útleigu til ferðamanna.

Skilgreining á fjarheilbrigðisþjónustu

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Patreksfirði

Frumvarp heilbrigðisráðherra til breytinga á lögum um heilbrigðisþjónustu var samþykkt á Alþingi í gær.

Þar með hefur verið leidd í lög skilgreining á hugtakinu fjarheilbrigðisþjónustu, ásamt frekari skýringum á þeirri þjónustu, tæknilausnum, verkefnum og verklagi sem falla undir hugtakið. Fjarheilbrigðisþjónusta er ört vaxandi hluti almennrar heilbrigðisþjónustu.

Því er mikilvægt að gildandi löggjöf taki mið af þeirri þróun og einnig að öryggi viðkvæmra persónulegra upplýsinga við veitingu fjarheilbrigðisþjónustu sé tryggt.

Hugtakið fjarheilbrigðisþjónusta er í lögunum skilgreint sem nýting stafrænnar samskipta- og upplýsingatækni til að veita heilbrigðisþjónustu þar sem aðilar eru ekki á sama stað á sama tíma.

Undir þetta falla þættir eins og fjarsamráð, fjarvöktun, myndsamtöl, netspjall og hjálparsími og er nánar fjallað um inntak þessara þátta í lögunum.

Velferðartækni fellur einnig þarna undir og er þá vísað til notkunar á stafrænum tæknilausnum í heilbrigðisþjónustu sem styður búsetu einstaklinga í heimahúsi.

Vorleiðangur Hafrannsóknastofnunar

Rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson lagði af stað í árlegan vorleiðangur Hafrannsóknastofnunar þann 13. maí.

Leiðangurinn er liður í langtímavöktun hafs en vistkerfisrannsóknir eru framkvæmdar á dýrasvifi (átu), plöntusvifi (gróðri), næringarefnum, hita og seltu (ástand sjávar) á hafsvæðinu við Ísland.

Árferðisrannsóknir á þessu sviði hafa farið fram vor hvert í maí/júní í um 60 ár.

Ásamt því að kanna ástandið á ákveðnum staðsetningum, svokölluðum sniðum, út frá landinu eru gerðar mælingar með síritandi mælitækjum á siglingaleið skipsins. Magn og útbreiðsla ljósátu er mæld með bergmálstækni og samhliða eru ljósátusýni skoðuð. Magn gróðurs er mældur með blaðgrænumælingum og líffræðileg fjölbreytni plöntusvifs er rannsökuð með smásjá og erfðafræði. Einnig er sýnum safnað fyrir Geislavarnir ríkisins vegna vöktunar á magni geislavirkra efna í sjó.


Áætlað er að leiðangurinn vari í 15 daga og fylgjast má með gangi hans á skip.hafro.is.

Smábátahöfnin á Brjánslæk 

Í frétt á vefsíðu Vesturbyggðar segir frá því að það lifni yfir smábátahöfninni á Brjánslæk þegar bátarnir mæta að bryggjunni, hver af öðrum, eftir að hafa verið í uppsátri yfir veturinn.

Og þá er kominn tími til að hafnarvörðurinn vakni af vetrardvalanum og fari að sinna sínu starfi sem felst aðallega í því að vigta og skrá afla sem landað er.

Í fyrra var tekin í notkun ný og glæsileg smábátahöfn. Grjótgarðurinn fyrir hana var gerður haustið 2022 en síðastliðið sumar var steyptum landstöpli komið fyrir og flotbryggja fest við hann. Þá var einnig lagt rafmagn á bryggjuna.

Tilkoma nýju hafnarinnar bætir mjög aðstöðu og öryggi til útgerðar því þar eru bátarnir í vari fyrir kvikunni sem myndast í sunnanáttum.

Einn bátur, Æsir, hefur gert út á grásleppu það sem af er vori og hefur hann landað um 19 tonnum af grásleppu. Innra veiðisvæðið opnar 20. maí og þá fjölgar bátunum sem stunda þessar veiðar.

Í vinnsluhúsinu við höfnina hefur Sæfrost ehf. séð um að verka grásleppuna sem landað er auk þess sem grásleppa hefur verið flutt þangað víða að af landinu til verkunar. Hrognin eru söltuð og seld til Svíþjóðar en hveljuna kaupir Hamrafell ehf. til frystingar. Hjá Sæfrosti hafa starfað mest 7 manns í vor og búið er að salta hrogn í rúmlega 1000 tunnur.

Strandveiðarnar fara hægt af stað en það rætist vonandi úr því.

Nýjustu fréttir