Sunnudagur 8. september 2024
Síða 92

 Carbon/Kolvetni – listin í vísindunum/vísindi listanna í Vísindaporti

Föstudaginn 17. maí verður kynning á Carbon/Kolvetni verkefninu sem er samstarfsverkefni Háskólaseturs (Catherine Chambers) og ArtsIceland (Elísabet Gunnarsdóttir). Evrópskir listamenn fengu styrk frá Creative Moves Europe til að dvelja á Ísafirði í maí og vinna með vísindamönnum á svæðinu. Á fyrirlestrinum munu gestalistamennirnir kynna sig stuttlega og síðan mun hópurinn velta fyrir sér ferli lista/vísindasamstarfs. Catherine og Elísabet kynna verkefnið á íslensku og listamennirnir tala á ensku.

Bohdana Patsiuk – myndlistarmaður – Úkraína

Martina Sedda – ljósmyndari – Ítalía

Nikita Leroy – þverfaglegur listamaður – Frakkland

Marcin Idzkowski – ljósmyndari – Pólland

Mateja Stanislava Rot – borgarfrumkvöðull og friðararkitekt/þverfaglegur listamaður/leikjahönnuður – Slóvenía

Sashko Danylenko – teiknari/hreyfimyndagerð/kvikmyndaleikstjóri – Úkraína/Bandaríkin

Erindið fer fram á kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða og hefst kl. 12.10. Erindinu er streymt í gegnum zoom hlekk og má finna hann hér:https://eu01web.zoom.us/j/69947471079

Sameiningin: sveitarstjórarnir hætta á sunnudaginn

Páll Vilhjálmsson, oddviti Nýrrar sýnar.

Á sunnudaginn verður til nýtt sveitarfélag á Vestfjörðum þegar sameining Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps gengur formlega í gildi. Þórdís Sif Sigurðardóttir , bæjarstjóri í Vesturbyggð segir aðspurð að umboð beggja sveitarstjóra/bæjarstjóra sameinaðs sveitarfélags fallir niður á í lok dags 18. maí n.k. Að þeim tíma loknum starfi hvorugt þeirra sem bæjarstjóri. Þórdís hefur störf um næstu mánaðamót sem bæjarritari og sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs hjá Sveitarfélaginu Árborg.

Páll Vilhjálmsson, oddviti Nýrrar Sýnar, sem fékk hreinan meirihluta í bæjarstjórnarkosningunum segir að fyrsti bæjarstjórnarfundur nýrrar bæjarstórnar verði 29. maí og var á honum að heyra að hann gerði sér vonir um að þá yrði búið að taka ákvörðun um næsta bæjarstjóra. Páll sagði í samtali við Bæjarins besta að verið væri að vinna að ráðningu þessa dagana. Hins vegar væri ekkert stress því formlega séð tæki staðgengill bæjarstjóra í Vesturbyggð við starfinu þangað til bæjarstjóri hefur verið ráðinn. Auk þess sagðist Páll gera ráð fyrir að fá að nýta krafta fráfarandi sveitarstjóra eitthvað áfram og í bígerð væri að annar þeirra í yrði í starfi fyrst um sinn.

Þá upplýsti Páll að fráfarandi oddviti Tálknafjarðarhrepps, Lilja Magnúsdóttir myndi starfa í hlutastarfi sem ritari heimastjórnanna fjögurra.

Aðspurður um hvers vegna Ný sýn hefði unnið góðan sigur í kosningunum svaraði hann því til að hann teldi það vera út á eigið ágæti framboðslistans. Kjósendur hefði trúað listanum til góðra verka. Vatnsdalsvirkjun hefði af málefnum verið það mál sem mest var rætt meðal almennings og mjög skiptar skoðanir hefðu verið um það. Hins vegar taldi hann óvíst hvað það hefði ráðið miklu um afstöðu kjósenda til framboðslistanna þótt þeir hefðu haft ólíka stefnu til málsins.

Viðtalið: Viktoría Rán Ólafsdóttir

Svanshóll er landnámsjörð og lögbýli í Bjarnarfirði á Ströndum og er staðsett rétt fyrir norðan Steingrímsfjörð. Jörðin hefur verið í samfelldri byggð frá árinu 910 eða í yfir 11 aldir, en það var Svanur galdramaður sem upphaflega reisti þar sitt höfuðból (móðurbróðir Hallgerðar langbrókar).

Í nokkuð mörg ár hefur Svanshólsfjölskyldan í sameiningu unnið að ýmiss konar uppbygginu og áhugamálum, sem eru kannski misgáfuleg. Pabbi tók stefnuna á að stækka íbúðarhúsið sem er á þremur hæðum og umbreyta fjósinu í 2 hæðir og ris. Í kjölfarið keyptum við Finnur bróðir og makar okkar, Anna Björg Þórarinsdóttir og Hlynur Gunnarsson, ættaróðalið Svanshól af foreldrum okkar, Ólafi Ingimundarsyni og Hallfríði F. Sigurðardóttur. Þar rekum við nú ferðaþjónustuna Svanshóll Ströndum ehf.

Ferðaþjónustan á Svanshóli (https://www.svansholl.is)

Á Svanshóli eru 2 aðskilin íbúðarhús og í því stærra er jafnframt boðið upp á íbúðagistingu í þremur nýjum funheitum og huggulegum íbúðum, en hver og ein þeirra er með sér eldhús og baðherbergi. Þarna hefur pabbi nostrað við hvern krók og kima sem gestir kunna svo sannalega að meta. Íbúðirnar eru hitaðar með jarðvarma úr eigin borholu, en stuttan spöl fyrir ofan húsið er 39°C heit óspillt náttúrlaug sem gestir geta notið í frið og ró.

Kirsuberjaræktin

Eitt af þessum misgáfulegum ævintýrum okkar er kirsuberjaræktin á Svanshóli. Finnur keypti refahús til niðurrifs sem hann ætlaði að nota fyrir vélaskemmu, en áður en sá draumur varð að veruleika þá tók sú hugmynd stefnubreytingu og við fylltum húsið af ávaxtatrjám. Kirsuberjarækt krefst talsverðrar yfirsetu og mjög græna fingur. Gestum þótti þessar tilraunir okkar áhugaverðar og áður en vissi vorum við farin að fá fjölmargar daglegar heimsóknir eða allt að hundrað manns á dag beint af götunni. Mesta kirsuberja uppskeran er í lok júní og byrjun júlí, en svo eru epli, perur, plómur og ber á hinum ýmsu tímabilum, en í heildina hýsum við um 45 ávaxtatré. Best er að gróðurhúsið lengir sumrin til muna. Þarna byrjum við að moldvarpast í lok mars og njótum blóma, grænmetis og ávaxta langt fram í septemberlok. Veðrið er alltaf gott innan um gróðurinn, sama hvernig sem hann viðrar úti fyrir.

Vetrarferðaþjónustan

Margir þekkja ferðaþjónustuna Hótel Laugarhól sem er hérna við hliðina á okkur, þótt færri hafa komið á Svanshól. Í einhverju hugrekkiskastinu tókum við Hlynur við Hótel Laugarhóli í janúar 2021 eða í miðjum covid-faraldri.  Markmiðið okkar er að efla heilsársferðaþjónustu, en í sameiningu hefur Hótel Laugarhóll og Svanshóll að verið að gera tilraunir með að halda úti hópaopnum fyrir heilsutengda hópa. Mest koma hópar til að fara á gönguskíði, en við höfum verið að troða skíðabrautir fyrir þá sem þess óska. Annars er sama hvert er litið, þá er hér óspillt náttúra í seilingarfjarlægð og auðvelt að njóta allan ársins hring.

Bjarnarfjörður er veðursæll og stundum snjóasamur, en vetrarríkið hér er mikið og ef lognið fer eitthvað að flýta sér þá leitum við bara skjóls í skóginum eða í heitu laugunum sem eru víða í firðinum. Á Laugarhóli er líka ein af elstu sundlaugum landsins, Gvendarlaug, sem er 30-34°C heit almennings sundlaug sem stendur við hliðina á heitri náttúrulaug og er algjör perla. Það má nú eiginlega segja að þessi laug hafi alið mig upp, þar sem maður dvaldi þar heilu dagana sem barn.

Hver er Viktoría Rán ?

Fyrstu árin mín ólst ég upp á Hornafirði. Síðan í Noregi og á Svanshóli í Bjarnarfirði á Ströndum. Eftir að hafa stundað háskólanám í Englandi, Bandaríkjunum og Noregi, þá sneri ég heim og bý nú á Hólmavík með annan fótinn í Bjarnarfirði.

Helsta menntunin mín er BSc í alþjóðaviðskiptafræðum frá Englandi og Bandaríkjunum, en síðan skrapp ég aftur til Noregs árin 2015-2016 og bætti við mig meistaragráðu í hótelstjórnun og ferðaþjónustu frá Háskólanum í Stavanger.  Í framhaldinu starfaði ég sem kaupfélagsstjóri á erfiðum tímum og sneri mér í framhaldinu að ferðaþjónustunni. Þetta er búið að vera mikið lærdómsferli og mikið að gera, líka á veturna. Maður er í þessu af hugsjóninni og ánægjunni, en það er mikils virði að sjá ferðatímabilið lengjast og samfélagið eflast samhliða.

Ég sit í stjórn Skíðafélags Strandamanna, Orkubús Vestfjarða, Fjárfestingarfélaginu Hvetjanda, Fasteignafélags Hornsteina, Laugarhóli og Svanshóli, ásamt því að stýra Remote Iceland. Svo er ég með putana í öðrum verkefnum. Hlynur minn er á Strandveiðum og fjölskyldan mín tengd Galdri brugghúsi og fleira.

Áhugamálin mín eru ferðalög, skíðagangan og fjölskyldan, en við eigum 5 börn, 4 uppkomin og einn sprækan íþróttastrák sem er nýorðinn 13 ára. Eiginlega er það full vinna að sinna hans áhugamálum. Annars er ég líka með græna fingur og er mikil blómakerling, rækta krydd og grænmeti fyrir ferðaþjónustuna. Bestu dagarnir eru þegar maður fær tækifæri til að sýna ferðamönnum í hverju maður er að stússast og leyfa þeim að upplifa sveitasæluna með manni. 

Svanshóll.

Þörfin fyrir heimilislækna

Bjarni Jónsson, alþm.

Að geta notið þjónustu heimilislæknis er ein af grunnþörfum okkar allra hvar sem við búum á landinu. Það er ekki síður mikilvægt að fólk hafi aðgang að föstum heimilislækni til að tryggja samfellu í þjónustunni. Þurfa ekki sífellt að bera sig upp við nýja lækna með mein sín, áhyggjur eða við heilsufarseftirlit. Aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu í heimabyggð eru grundvallarmannréttindi. Hér á landi höfum við búið við traust opinbert heilbrigðiskerfi þar sem öll eiga sama rétt til þjónustu óháð efnahag og stöðu. Um það er þjóðarsátt.

Bið eftir heimilislækni

Það er því óásættanlegt að víða tekur mjög langan tíma að komast að hjá heimilislækni, látum þá vera föstum heimilislækni og sum virðast falla alveg á milli og mæta afgangi ef fast heimilisfesti þeirra er annað en aðsetur. Það er til að mynda staða sem margir námsmenn af landsbyggðinni finna sig í sem hafa sótt í nám á höfuðborgarsvæðinu. Það á einnig við aðra sem eru tímabundið staðsettir á höfuðborgarsvæðinu. Þá eru ótaldir þeir staðir á landinu eins og á Vestfjörðum, Snæfellsnesi og fleiri stöðum þar sem ekki er tryggt að læknar séu til staðar alla daga vikunnar eða vetrarfærð hamlar farands þjónustu.

Læknaskortur

Í grunninn er staðan sú að það er skortur á heimilislæknum. Of fáir leggja fyrir sig sérnám í heimilislækningum. Til að auka áhuga læknanema og nýliðun í heimilislækningum á Íslandi er brýnt að bjóða upp á gott starfsumhverfi.

Atriði sem heimilislæknir  þarf að hafa þekkingu á er að greina og þekkja viðeigandi úrræði, svo sem að veita úrlausn á staðnum, eða vísa áfram til frekara mats og taka þátt í eftirliti og áframhaldandi meðferð eftir það. Á mörgum stöðum á landsbyggðinni þarf heimilislæknir auk þess  stundum að meðhöndla sjúklinga sem við aðrar aðstæður eru lagðir inn á sjúkrahús eða vísað til sérgreinalæknis. Að sinna heimilislækningum á landsbyggðinni getur því verið sérstaklega krefjandi og við það bætist lítt fjölskylduvænt vaktakerfi og stífar bakvaktir.

Breyttar áherslur

Við þurfum að breyta áherslum í læknanámi þar sem aukin áhersla verði á heimilislækningar og þær fjölbreyttu áskoranir sem læknisþjónusta á landsbyggðinni bíður upp á. Hér þarf Landspítali háskólasjúkrahús taka frumkvæði, Sjúkrahúsið á Akureyri að fá aukið hlutverk.

Lausnin er ekki tvöfalt heilbrigðiskerfi og aukinn einkarekstur. Við þurfum að gera það eftirsóknarverðara að sækja sérfræðinám í heimilislækningum og starfa sem heimilislæknar.

Bjarni Jónsson

Höfundur er þingmaður NV kjördæmis og formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.

Erlendir meistaranemendur í byggðaþróun heimsóttu Byggðastofnun

Um fjörutíu háskólanemar og kennarar frá sex erlendum háskólum, af tólf þjóðernum heimsóttu Byggðastofnun á Sauðárkróki í fyrradag á vegum Háskólaseturs Vestfjarða sem er hluti af alþjóðlegu samstarfi og skipuleggur sumarskóla í samstarfslöndunum Svíþjóð, Lettlandi, Finnlandi, Eistlandi, Litháen auk Íslands. 

Snjallfækkun 

Matthias Kokorch fagstjóri meistaranáms í sjávarbyggðafræðum hjá Háskólasetrinu segir tilgang heimsóknarinnar að læra um nálgun ólíkra landa á ,,snjallfækkun” (e.smart shrinking) fyrir svæði sem glíma við fólksfækkun með áherslu á að mynda smærri kjarna með betri lífsgæðum og sættast á íbúafækkun svæða. Heimsókn hópsins til Byggðastofnunar segir Matthias að sé mikilvægur liður í að kynna starfsemi stofnunarinnar fyrir jafn fjölbreyttum hópi fólks sem sérhæfir sig í byggðamálum í sínum heimalöndum, með því dreifist þekking milli landa sem gagnist öllum. Auk viðkomu hjá Byggðastofnun heimsækir hópurinn Akureyri, Siglufjörð, Seyðisfjörð, Þórshöfn, Dalvík og Mývatnssveit og vinnur í kjölfarið verkefni tengd þeim heimsóknum. 

Háskólasetur Vestfjarða hýsir þennan sumarskóla og koma  24 nemendur frá Lettlandi, Litháen, Eistlandi og Finnlandi og bætast þeir í hóp 7 nemenda í Sjávarbyggðafræði hjá Háskólasetri Vestfjarða og ferðast saman um Norðurlandið.

Arnar Már Elíasson forstjóri Byggðastofnunar kynnti meginhlutverk stofnunarinnar sem er að efla byggð og atvinnulíf með sérstakri áherslu á jöfnun tækifæra allra landsmanna til atvinnu og búsetu. 

Verkfærakista  

Farið var yfir þau verkfæri sem stofnunin hefur til þess að ná þessum markmiðum og kynnti Kristján Þ. Halldórsson verkefnið Brothættar byggðir, Hrund Pétursdóttir fræddi hópinn um lánveitingar stofnunarinnar og hvernig þær nýtast til eflingu byggðar í landinu. Hanna Dóra Björnsdóttir sagði frá samstarfi Byggðastofnunar og háskóla í landinu með það að markmiði að efla og styrkja rannsóknir á byggðamálum. Að lokum fór Sigurður Árnason yfir hlutverk byggðaáætlunar og hvernig aflamark Byggðastofnunar nýtist í dreifðum byggðum. 

Samhljómur 

Donatas Burneika háskólaprófessor frá Háskólanum í Vilnius sagði að nám sem þetta væri dýrmætt að mörgu leyti og að samhljómur væri með mörgum þeim verkefnum og vandamálum sem þjóðirnar stæðu frammi fyrir hvað búsetuþróun varðar. “Það er mikilvægt að geta komið til Íslands og hitt hér fyrir aðra háskólakennara og nemendur sem koma úr ólíku umhverfi. Byggðaþróun er hvergi eins en við getum alltaf fundið einhvern rauðan þráð sem tengir okkur öll og við getum lært hvert af öðru. Námið sem slíkt er afar gott en fyrir mína nemendur er líka mikill skóli í því alþjóðlega samstarfi sem hér fer fram. Það mætti kalla þetta hópavinnu fyrir lengra komna.“ 

“Ísland er eitt af strjálbýlustu löndum veraldar.  Því fylgja miklar áskoranir að skapa aðgengi landsmanna allra, að þjónustu.  Það var einkar fróðlegt að heyra frá hópnum að þó strjálbýlið á Íslandi sé víðtækara en annarsstaðar eru viðfangsefnin víðast þau sömu.“  sagði Arnar Már að lokinni heimsókn. 

Guðmundur Fertram Sigurjónsson er tilnefndur til Evrópsku nýsköpunarverðlaunanna 2024

Evrópska einkaleyfastofan (EPO) gerði í gær opinbert hverjir eru tilnefndir til Evrópsku nýsköpunarverðlaunanna 2024. Þar á meðal er Guðmundur Fertram forstjóri Kerecis.

Guðmundur Fertram og þróunarteymi hans voru valin úr hópi rúmlega 550 tilnefndra um verðlaunin og eru nú komin í úrslit til Evrópsku nýsköpunarverðlaunanna 2024 í flokki stærri fyrirtækja. Verðlaunin eru viðurkenning á uppfinningum sem veitt hafa verið einkaleyfi á í Evrópu.

Þetta er í annað sinn sem íslenskt þróunarteymi er tilnefnt til Evrópsku nýsköpunarverðlaunanna en í fyrra voru Þorsteinn Loftsson og Einar Stefánsson, prófessorar emeritus við Háskóla Íslands og stofnendur Oculis, tilnefndir til verðlaunanna.

Guðmundur Fertram og hans teymi hafa tekið sárameðhöndlun, einkum sára sem ekki gróa, á næsta stig með því að nota þorskroð sem felur í sér margvíslegan ávinning fram yfir hefðbundnar sáravörur sem unnar eru úr húð spendýra. Vegna þess að ýmsar veirur geta sýkt fleiri en eina tegund spendýra, þarf að meðhöndla sáravörur sem unnar eru úr spendýrum með sterkum efnum til að draga úr smithættu. Sú meðferð dregur úr virkni þessara efna. Vegna þess að ekki er hætta á að sjúkdómar berist frá fiskum til manna er hægt að halda vinnslu á fiskroðinu í lágmarki, sem þýðir að hægt er að varðveita þrívíða byggingu þess, fitur og ómegasýrur sem stuðla að sáragræðslu.

„Rétt eins og hjá mannfólkinu samanstendur roð fiska af húðþekju, húð og undirhúð. Þróunarlega
séð er húð okkar því eins og fiskroð fyrir utan að fiskroðið hefur hreistur sem þróaðist í hár hjá
manninum. Það tók okkur fjögur ár á rannsóknarstofunni að þróa aðferð til að fjarlægja frumur og
erfðaefni úr roðinu til að koma í veg fyrir ónæmissvörun þegar það er sett á mannslíkamann, án
þess að tapa efnafræðilegri virkni og byggingu roðsins og varðveita sáragræðslueiginleika
þess,“ segir Guðmundur Fertram.

Nýsköpun sem hófst í hafinu

Árið 2007 tók Guðmundur Fertram, sem býr að sérþekkingu í efnafræði og verkfræði, fyrstu
skrefin í átt að því að raungera hugmynd sína um að nota fiskroð til að meðhöndla sár og
vefjaskemmdir. Þetta leiddi til þess að Kerecis, sem stofnað var í kringum uppfinninguna, setti
nýja vöru á markað árið 2013, sem er lýst í ritrýndri úttekt National Library of Medicine sem
„hraðari meðferð við sáragræðslu, sem dregur úr verkjum og þörf á umbúðaskiptum, auk þess
sem hún dregur úr kostnaði í tengslum við meðferð og veitir bættan árangur með tilliti til
fagurfræðilegra þátta og virkni húðarinnar í samanburði við hefðbundin meðferðarúrræði“.

Þann 7. júlí 2023 tilkynnti Coloplast um kaup sín á Kerecis sem metið var á 1,3 milljarða evra.
Þessi tímamótakaup gerðu Kerecis að fyrsta „einhyrningnum“ í íslensku viðskiptalífi.

Evrópsku nýsköpunarverðlaunin verða afhent í beinu streymi frá Möltu 9. júlí næstkomandi.

Viðtal við Guðmund Fertram.

Að sitja vel í sjálfri sér

Kolbrún Sverrisdóttir.

Ekki er ofsögum sagt að spenna sé farin að færast í baráttuna um forsetaembættið. Fjöldi frambjóðenda, sem öll eru vel frambærilegt fólk, gefur kost á sér og vilja líklega öll gera þjóð sinni gagn. Ég hef frá fyrsta degi kosningabaráttunnar fylgst vel með umræðunni, sérstaklega á samfélagsmiðlum, og verð að segja að hún er oft á tíðum mjög ómálefnaleg og full af óskiljanlegu hatri og neikvæðum tilfinningum í garð fólks sem við þekkjum lítið og sum ekkert.

Mér finnst litlu máli skipta hvort fólk sem býður sig fram hefur verið í opinberum störfum, sé samkynhneigt, kunni að galdra eða spila á harmonikku eða geti verið með uppistand. Mestu máli skiptir að forsetinn, sem við sem þjóð kjósum okkur, sé hjartahlý og góð manneskja sem talar vel til fólks, talar vel um fólk og heldur utan um þjóðina sem sameiningartákn – í blíðu og stríðu.

Ég minnist þess, enda komin vel yfir miðjan aldur, að þegar ég var að alast upp bar fólk mikla virðingu fyrir forsetanum. Hann átti að vera hafinn upp fyrir það að vera dreginn saman í háði og spotti, nokkuð sem tókst vel í tíð Kristjáns Eldjárns og Vigdísar en hefur líkt og svo margt annað breyst með tímanum. Það var til dæmis sannarlega erfitt fyrir suma að horfa á Spaugstofuna eftirminnilegu þegar staðgengill Ólafs Ragnars átti þar innkomu. Núna er öldin önnur. Fólk ryðst fram á samfélagsmiðlum með gífuryrðum og allskonar fullyrðingum sem eiga oft ekki við rök að styðjast, hvort sem það er í garð forsetans eða frambjóðenda og deilir sem víðast. Ófrægingarherferðinni núna virðist helst beint að þeim Katrínu og Baldri, og þar virðist að mínu mati ekkert vera heilagt.

Ef maður reynir af vanmætti að taka upp hanskann í umræðunni og benda fólki á að þetta sé líklega ekki alveg svona, þá er svarað af sömu heift: Þú ert í elítunni, skilur ekki kjör öryrkja, innmúraður sjálfstæðismaður! Og trúið mér þetta voru kannski skástu ummælin, hin eru tæpast til birtingar.

Ég hef fyrir löngu ákveðið hvern ég mun kjósa í þessum kosningum og læt ekkert breyta því. Valið var síður en svo erfitt.

Katrín Jakobsdóttir ber af í þessum glæsilega hóp. Hún hefur að mínu mati allt það til brunns að bera sem góður forseti þarf að hafa. Hún er mörgum góðum gáfum gædd, hún er heiðarleg og hugrökk, hefur ótrúlega leiðtogahæfileika og kemur vel fyrir í ræðu og riti, hvort heldur sem er á alþjóðavettvangi eða hér heima. En hún er líka mannleg og hefur örugglega  gert mistök á lífsleiðinni eins og við öll. Og það er einmitt mistökin sem láta okkur læra á lífið og að gera betur.

Þegar ég horfi á þessa ungu konu þá fyllist ég stolti og hef gert allt frá því að ég tók eftir henni fyrst þegar ég sá mynd af henni með bræður sína til sitthvorrar handar, hlaðnir verðlaunum sem systir þeirra fékk við útskrift úr skóla.

En það eru ekki öll þessi verðlaun sem ég met þó að verðleikum heldur hitt að Katrín er heilsteypt, hún er alltaf samkvæm sjálfri sér og kemur heiðarlega fram. Hún situr vel í sjálfri sér og þarf ekkert að þykjast vera einhver önnur en hún er.

Þannig fólk líkar mér vel. Þess vegna kýs ég Katrínu.

Kolbrún Sverrisdóttir, verkakonuöryrki frá Ísafirði.

Tindur seldur til Marokkó

Tindur ÍS 325 ex Helgi SH 135. Ljósmynd Tryggvi Sigurðsson 2024.

Tindur ÍS 325 hefur verið seldur til Marokkó og kom við í Vestmannaeyjum í vikunni á leið sinni suður til Agadir.

Tindur hét upphaflega Þór Pétursson ÞH 50 og var í eigu Njarðar hf. í Sandgerði, smíðaður á Ísafirði 1989.

Guðmundur Runólfsson hf. á Grundarfirði keypti bátinn árið 2000 og fékk hann þá nafnið Helgi SH 135.

Helgi var seldur til Flateyrar árið 2000 þar sem hann fékk nafnið Tindur ÍS 325.

Af skipamyndir.com

Vinnuhópur norrænna sjókortasérfræðinga

Sjómælinga- og siglingaöryggisdeild LHG hélt á dögunum fund vinnuhóps norrænna sjókortagerðarsérfræðinga, Nordic Chart Production Expert Group (NCPEG).

Vinnuhópurinn er hluti af starfi Nordic Hydrographic Commission (NHC) sem er svæðisnefnd Alþjóða sjómælingastofnunarinnar (IHO) á Norðurlöndunum.

Staðfundir sem þessi eru haldnir annað hvert ár og eru afar mikilvægur samstarfsgrundvöllur fyrir sjókortagerðarfólk, ekki síst fyrir minni sjómælingastofnanir eins þá íslensku.

Fundurinn þótti árangursríkur og starf vinnuhópsins heldur áfram af krafti.

Nýtt sveitarfélag verður til

Sunnu­daginn 19. maí n.k. verður form­lega til nýtt sveit­ar­félag með samein­ingu Tálkna­fjarð­ar­hrepps og Vest­ur­byggðar. 

Þeim áfanga verður fagnað með fjölskylduveislu í íþróttahúsinu á Tálknafirði á sunnudaginn kl. 12:30, með stuttri skemmtidagskrá, hoppukastala og kaffiveitingum.

Frítt verður í sund á Tálknafirði og verður sundlaugin opin milli kl. 11:00 og 14:00 í tilefni dagsins.

Nýjustu fréttir