Sunnudagur 8. september 2024
Síða 91

Skírnarkjóll á húsmæðrasýninguna

Kristín Össuardóttir kom færandi hendi með skírnarkjóll á húsmæðraskólasýninguna í Tónlistarskólanum á Ísafirði. Kjólinn saumaði Kristín er hún stundaði nám við Húsmæðraskólann Ósk á Ísafirði vorið 1958. 

Þrjár kynslóðir hafa verið skírðar í kjólnum og hafa yfir 60 börn borið kjólinn við skírn. Fyrsta barnið var skírt í kjólnum í 1958, Helga Guðrún Guðjónsdóttir, systurdóttir Kristínar og síðastur var Davíð Páll Jónsson 2014, yngsta barnabarn Kristínar.

Saga Húsmæðraskóla Ísafjarðar

Húsmæðraskólinn var stofnaður árið 1912 og var fyrst til húsa í Pólgötu 8. Teknar voru tvær stofur á leigu, ásamt eldhúsi og herbergi fyrir forstöðukonuna.
Aðdragandi að stofnun skólans var sá að á fundi Kvenfélagsins Ósk árið 1911 var rætt um stofnun húsmæðraskóla á Ísafirði og barst Alþingi áskorun:
„Fundurinn óskar, að húsmæðraskóli verði settur á stofn á Ísafirði og skorar á Alþingi að taka þetta mál að sér, og veita fé svo ríflega, að hægt verði að koma skólanum á fót, sem allra fyrst.”
Frumkvöðull skólans var frú Camilla Torfason sem var fædd á Ísafirði árið 1864. Camilla var fyrsti formaður Kvenfélagsins Óskar. Hún hafði lokið stúdentsprófi frá Kaupmannahöfn á þeim árum sem íslenskar konur höfðu ekki öðlast rétt til stúdentsprófs og var þar með fyrsta íslenska konan sem lauk stúdentsprófi. Hún stundaði síðar nám við Kaupmannarhafnarháskóla ásamt því að sinna kennslustörfum í Danmörku. Hefur reynsla hennar af slíkum störfum vakið áhuga hennar á menntamálum kvenna og var markmið hennar og félagsins að efla samúð og samvinnu, glæða félagslíf bæjarbúa og hafa hvetjandi og menntandi áhrif á æskulýðinn, einkum stúlkurnar.

Tónlistarhátíðin Við Djúpið: leikjanámskeið og harmonika

Tónlistarhátíðin Við Djúpið kynnir í ár nýjung í námskeiðaflóru hennar. Boðið verður upp á leikjanámsleið í tónlist fyrir börn á grunnskólaaldri og sem fyrr verður hádegistónleikaröð á hátíðinni.

Leikjanámskeið fyrir börn

Svava Rún Steingrímsdóttir og Katrín Karítas Viðarsdóttir eru nýútskrifaðar úr skapandi tónlistarmiðlun frá Listaháskóla Íslands og bjóða upp á tónlistarnámskeið fyrir börn þar sem áhersla er lögð á tónlistarleiki, söng, raddanir, aðferðir við að semja tónlist og spuna. Markmið námskeiðsins er að efla tónlistarþekkingu barna og kynna þeim nýjar og skemmtilegar hliðar tónlistarinnar.

Námskeiðin verða tvö og standa yfir dagana 18.–22. júní. Á morgnana mæta börn úr 5.–10. bekk og eftir hádegi börn úr 1.–4. bekk.

Svava Rún stundaði tónlistarnám við Tónlistarskóla Ísafjarðar frá unga aldri. Hún hefur meðal annars lært söng, æft á fiðlu og píanó. Katrín Karítas er fædd og uppalin á Akureyri þar sem hún stundaði nám við fiðlu, píanó og víólu við tónlistarskólann þar.

Harmonikan ríður á vaðið

Það hefur skapast sú hefð á hátíðinni að bjóða upp á röð stuttra hádegistónleika fyrir þau er vilja brjóta upp vinnudaginn með andlegri hádegishressingu og um leið gera heimsóknina til Ísafjarðar enn ríkulegri fyrir gesti sem koma lengra að.

Í ár verður engin untantekning og hádegistónleikaröð á dagskránni. Það harmonikuleikarinn Goran Stevanovich sem opnar röðina þriðjudaginn 18. júní kl. 12:15.

Stevanovich hefur verið kallaður töframaður á harmonikkuna og vekur stöðugt aðdáun fyrir fjölhæfni sína og nýsköpun. Hann leikur jöfnum höndum nýja tónlist og gamla, allt frá endurreisn til Schuberts, Mahlers og Hindemiths, og hefur þróað afar persónulegan stíl. Goran er fæddur í Bosníu-Hersegóvínu og hóf þar að leika á harmónikku en stundaði framhaldsnám við Tónlistarháskólann í Hannover þar sem hann gegnir nú lektorsstöðu.

Allir hádegistónleikarnir fara fram í Bryggjusal Edinborgarhússins við Aðalstræti á Ísafirði, hefjast kl. 12:15 og eru stuttir. Miðaverði á tónleikanna er stillt í hóf en hátíðarpassi veitir einnig aðgang. Koma Gorans er styrkt af Goethe-stofnuninni.

Orkubú Vestfjarða: hagnaður 599 m.kr.

Illugi Gunnarsson, stjórnarformaður O.V.

Opinn ársfundur Orkubús Vestfjarða var haldinn í dag. Lagður var fram ársreikningur fyrir 2023. Tekjur síðasta árs voru 3.838 m.kr. og rekstrargjöld 3.022 m.kr. Að frádregnum afskriftum og viðbættum tekjum af fjármagni varð niðurstaðan hagnaður 599 m.kr. Af hagnaðinum eru greiddar 120 m.kr. í tekjuskatt til ríkissjóðs og standa þá eftir 379 m.kr. sem hagnaður fyrirtækisins.

Útgjöld vegna launa og tengdra gjalda voru 1.144 m.kr. og stöðugildin voru 61 í fyrra..

Eignir OV eru bókfærðar á 15 milljarða króna og þar af eru tæplega 11 milljarðar króna skuldlaust eigin fé. Hlutfallið er 73%.

Fjárfesting síðasta árs varð 1.091 m.kr.

Tilkynnt var um nýkjörna stjórn Ov og er hún skipuð:

Illugi Gunnarsson, sem er formaður.
Gísli Jón Kristjánsson
Unnar Hermannsson
Valgerður Árnadóttir
Viktoría Rán Ólafsdóttir

Nýtt sveitarfélag

Það er ekki á hverjum degi að nýtt sveitarfélaga lítur dagsins ljós. Nú um helgina verður því fagnað á Vestfjörðum þegar Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur sameinast. Þar sem Hrafna- Flóki settist að og gaf landinu nafnið Ísland og annar sagði að þar drypi smjör af hverju strái.

Með sameiningunni fækkar sveitarfélögum á Vestfjörðum úr níu í átta.  Flest hafa sveitarfélögin þar vestra líklega verið 37 þegar byggðin var dreifð um allan kjálkann en fóru fækkandi upp úr 1960 þegar þéttbýli stækkuðu, fólki fækkaði og byggð varð strjálbýlli.

Vor fyrir vestan

Það má svo vissulega segja að það hafi verið byr í seglum samfélaga á Vestfjörðum undanfarin áratug. Ef horft er til síðustu þriggja áratuga má segja að það ríki meiri bjartsýni og þróttur nú en skynja mátti í upphafi þessarar aldar. Uppbygging nýrra atvinnugreina líkt og fiskeldis og ferðaþjónustu hafa komið inn með nýjan kraft og afleidd störf og íbúatalan vex á ný.  Það hefur sannarlega átt við á Sunnanverðum kjálkanum.

Það skiptir máli í uppsveiflu að sveitarfélög taki höndum saman og horfi í sömu átt þegar vel gengur, nýti kraftinn til að horfa til framtíðar.  Þannig sköpum við framtíð fyrir komandi kynslóðir á svæðinu.

Samgöngubætur mikilvægar

Við sameiningu sveitarfélaga fækkar þó ekki kílómetrum á milli staða, sama hvað við leggjum sterkan ljósleiðara. Á síðust árum hefur verið lyft grettistaki í samgöngumálum á Vestfjörðum og má líta marga áratugi aftur til að finna sambærilegan framkvæmdakraft.

Svo markmiðum um meiri samvinnu sveitarfélaga verði náð þurfa samgöngur að vera greiðar og öruggar. Víða er úrbóta þörf með tilliti til byggðaþróunar og daglegrar vinnusóknar. Við gerum kröfur um að samgöngur á svæðinu séu skilvirkar, öruggar og heilsárs. Um þetta getum við verið sammála. Fleiri jarðgöng þurfa að koma til,  jarðgöng undir Mikladal og Hálfdán eru forsenda að bættu samfélagi og að sameiningar gangi vel fyrir sig.

Ég óska íbúum á Sunnanverðum Vestfjörðum til hamingju með nýtt sveitarfélag, já það er vor fyrir vestan!

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar

Skipt um dráttarvír á Þór

Varðskip Landhelgisgæslunnar, Þór og Freyja, hafa öfluga dráttargetu til að geta brugðist við ef skip, stór sem smá, lenda í vandræðum á hafsvæðinu umhverfis landið. Dráttarvírinn leikur þar lykilhlutverk og áhöfn varðskipanna þurfa að tryggja að hann sé í góðu standi ef á þarf að halda.

 
Á dögunum kom í ljós smávægileg skemmd á dráttarvír varðskipsins Þórs og var brugðið á það ráð að skipta um vírinn. Varðskipið fór að bryggju hjá Hampiðjunni í Neskaupstað þar sem víraskiptin fóru fram. Gamla dráttarvírnum var spólað í land á tvö kefli og nýjum vír komið fyrir. Þá var eitt kefli tekið um borð með um 480 metra varavír sem hífður var niður í lest til geymslu.

 
Þegar þessu var lokið hélt varðskipið sína leið frá Neskaupstað. Sævar Már Magnússon, bátsmaður, var með myndavél á sér við þessa vinnu og tók saman áhugavert myndband sem sýnir hvernig víraskiptin fóru fram. 

Stærstu viðskiptalönd með eldislax undanfarin 5 ár

Á myndinni má sjá 10 stærstu viðskiptalönd með eldislax undanfarinn áratug og að endingu eru öll önnur lönd sett saman í einn flokk (ÖN).

Röðun landa á myndinni fer eftir útflutningsverðmæti eldislax í heild árin 2019-2023.

Hér trónir Holland á toppnum, en þar fer bæði fram áframvinnsla á laxi auk þess að honum er oft umskipað þar.

Bandaríkin koma þar á eftir en segja má að þar sé stærsti einstaki markaðurinn með eldislax frá Íslandi. Í þriðja og fjórða sæti koma Danmörk og Pólland, en rétt eins og í Hollandi fer þar oft fram áframvinnsla og umskipun. Í Póllandi eru til að mynda stærstu og afkastamestu laxavinnslur í Evrópu.

Sjá má að talsverðar sveiflur eru í útflutningi á eldislaxi til einstakra landa á milli ára, en leitnin er oftast upp á við í takti við aukið laxeldi og þar með útflutning. Áhugavert er að fylgjast með einstökum mörkuðum og er vert að nefna stöðugan uppgang í útflutningu til Frakklands undanfarin ár.

Þá var útflutningur til Úkraínu á hraðri uppleið til ársins 2021 og var það sjötta stærsta viðskiptaland Íslands með lax það ár. Í kjölfar stríðsaðstæðna þar í landi hefur útflutningur til Úkraínu verið lítill sem enginn síðan.

Kaþólska kirkjan með 15.408 skráða meðlimi

Alls voru 225.428 einstaklingar skráðir í þjóðkirkjuna þann 1. maí síðastliðinn samkvæmt skráningu Þjóðskrár og hefur skráðum einstaklingum í þjóðkirkjuna fækkað um 474 síðan 1. desember 2023.

Næst fjölmennasta trú- og lífsskoðunarfélag landsins er Kaþólska kirkjan með 15.408 skráða meðlimi og í þriðja sæti yfir fjölmennasta trú- og lífsskoðunarfélag er Fríkirkjan í Reykjavík með 10.006 skráða meðlimi.

Frá 1. desember 2023 hefur fjölgun meðlima í trú- og lífsskoðunarfélögum verið mest í Siðmennt eða um 106 meðlimi. Mest hlutfallsleg fjölgun var hjá Samfélagi Ahmadiyya-múslima á Íslandi , eða um 28,6%.

Alls voru 30.751 einstaklingar skráðir utan trú- og lífsskoðunarfélaga sem er 0,6% hækkun frá 1. des 2023. Ef að einstaklingur er utan trú- eða lífsskoðunarfélaga þá hefur sá einstaklingur tekið afstöðu til þeirrar skráningar sinnar.

Alls voru 86.125 einstaklingar skráðir með ótilgreinda skráningu. Ef að einstaklingur er með ótilgreinda skráningu þá hefur hann ekki tekið afstöðu til skráningar í trú- eða lífsskoðunarfélag

Útsýnisveggur á Bökkunum á Ísafirði



Listakonan Mathilde Morant vinnur nú að vegglistaverki í Þvergötu við Messíönuhús, sem stendur við Sundstræti 25a. Inntak verksins er sjávarsýn og trébátar sem minna á sögu Bakkanna á Ísafirði.

Gestum og gangandi er velkomið að kíkja við og berja verkið augum, þiggja kaffi og meðí, á sunnudag á milli 16 og 17 þegar Mathilde verður á lokametrum vinnunar.
Listakonan Mathilde Morant starfar við leikmunadeild Þjóðleikhússins en heldur jafnframt úti verkefninu Viti Project. Undir merkjum verkefnisins ferðast Mathilde um landið og vatnslitamálar alla vita landsins.
Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Vestfjarða og Ísafjarðarbæ

Turnhúsið: SeaGirls – hvað er hafið fyrir þér?

Föstudaginn 17. maí kl 16:30 verður formleg opnun á vefsýningunni SeaGirls – hvað er hafið fyrir þér í Turnhúsinu á Ísafirði. Verkefnið SeaGirls fólst í að stelpur fengu einnota myndavélar í hendurnar og áttu að mynda það í umhverfinu sem tengdi þær við sjóinn. Afraksturinn er fjölbreyttur og hægt verður að skoða sýninguna á vef Háskólaseturs Vestfjarða eftir opnun, www.uw.is

Í tilefni opnunarinnar munu þær Inga Fanney Egilsdóttir stýrimaður, Sheng Ing Wang hafnsögumaður á Ísafirði og Helena Haraldsdóttir nemi í skipstjórnarskóla Tækniskólans flytja stutt ávörp. Að því loknu verður boðið upp á veitingar og föndur. Verkefnið var unnið í samstarfi við Hversdagssafnið og styrkt af Uppbyggingarsjóði Vestfjarða. 

https://www.facebook.com/share/RJ8eNhYBXQ8mC7oX/?mibextid=9l3rBW

Dynjandisheiði: þungatakmarkanir

Frá Dynjandisheiði.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni kemur fram að vegna hættu á vegaskemmdum verður ásþungi takmarkaður við 10 tonn á Vestfjarðarvegi (60) um Dynjandisheiði, milli Flókalundar og Dynjandisvogs, frá kl. 12:00 í dag, föstudaginn 17. maí.

Nýjustu fréttir