Sunnudagur 8. september 2024
Síða 90

Ferðafélag Ísfirðinga með ferð á Látrabjarg og aðra um Holtsengi

Laugardaginn 8. júní verður Ferðafélag Ísfirðinga með ferð á Látrabjarg.

Farið verður frá Ísafirði kl. 8:00 með einkabílum til Breiðuvíkur.

Rútuferð frá Breiðuvík að Geldingsskorardal. Gengið meðfram Látrabjargi að Bjargtöngum. Þar bíður rútan og flytur fólk til Breiðuvíkur. Matur þar og gisting.
Þátttakendur verða að skrá sig á netfang félagsins ferdafelag.isfirdinga@gmail.com þar sem að þátttakendafjöldi miðast við að 20 manns komist með í ferðina.
Verð fyrir rútufar og svefnpokagistingu í tveggja manna herbergi auglýst síðar. Kvöldmatur ekki innifalinn í verði.
Vegalengd: um 10 km, göngutími: 4-6 klst., hækkun ekki mikil.

Þann 1. júní verður gengið um Holtsengi.

Fararstjórn: Helga Dóra Kristjánsdóttir.
Mæting kl. 10.00 við Bónus á Ísafirði. Farið á einkabílum að Holtsbryggju.
Gengið út á þjóðveg og hringinn að veginum að Vöðlum. Gengið til Holtskirkju og endað við Holt Inn.
Sögur sagðar af fólki. Skemmtilegir atburðir úr sögunni rifjaðir upp.
Vegalengd: 6,5 km að Holti (8 km á upphafspunkt). Göngutími: 2-3 klst.

Bókleg almenn ökupróf rafræn um allt land

Frá og með 16. maí 2024 verða bókleg almenn ökupróf rafræn um allt land.

Allir ökunemar munu framvegis taka próf til B-réttinda á tölvutæku formi hjá prófamiðstöð Frumherja.

Með því eru bókleg almenn ökupróf færð í nútímalegt horf þar sem ökuneminn getur séð niðurstöðu sína samstundis. Notast verður við tilbúið prófakerfi sem býður upp á stöðuga endurskoðun á prófum og einstökum spurningum.

Með rafrænni próftöku verður prófið ein heild, en ekki lengur skipt í tvo hluta. Einnig hafa prófspurningar verið uppfærðar með það að markmiði að forðast misskilning hjá ökunemum. Spurningarnar eru nú fullyrðingar sem nemendur svara með rétt eða rangt. Alls verður prófið 50 fullyrðingar og þurfa nemendur að svara minnst 46 þeirra rétt til að standast prófið, sem er sama hlutfall og áður.

Rafræn bókleg ökupróf eru mikilvægur áfangi í því að bæta þjónustu við ökunema. Rafrænu ökuprófin eru skref í áætlun um einföldun og aukin gæði með stöðugum umbótum. Flestir ökunemar stefna á almenn ökuréttindi (B-réttindi) en undirbúningur fyrir rafræna próftöku í öðrum flokkum ökuréttinda stendur yfir.

Verkefni um rafræn ökupróf er í umsjón Samgöngustofu sem hefur unnið það í samstarfi við Frumherja sem sér um framkvæmd ökuprófa.

Bara tala

Ný uppfærsla af smáforritinu Bara tala hefur litið dagsins ljós í kjölfar samnings sem Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, gerði við fyrirtækið í byrjun árs.

Samningurinn við Bara tala kvað á um að aðgangur að starfstengdum orðalistum innan heilbrigðis-, félags- og umönnunargreina yrði ókeypis til fjögurra ára fyrir þau sem stunda nám, starfa eða hyggjast starfa í heilbrigðis- og umönnunargreinum á Íslandi.

Á þennan hátt yrði aðgengi stórbætt að einstaklingsmiðuðu og sveigjanlegu stuðningstæki til að læra og æfa íslensku.

Bara tala er smáforrit sem nýtist öllum sem vilja læra íslensku. Forritið er nokkurs konar stafrænn íslenskukennari sem byggir á gervigreind og íslenskri máltækni, þar sem íslenskan er kennd í gegnum leik.

Nýja uppfærslan sem var kynnt í síðustu viku inniheldur meðal annars gagnvirka, starfstengda orðalista og persónulega þýðingarvél á fimm tungumálum: Ensku, spænsku, litháísku, úkraínsku og pólsku. Notendur geta nálgast stuðningsefni til að læra íslensku og æft sérsniðinn, starfstengdan orðaforða, út frá tali, hljóði og mynd, auk þess að sjá framgang sinn í rauntíma. Uppfærslan inniheldur þýðingarforrit sem getur umbreytt talmáli úr fyrrnefndum tungumálum yfir á íslensku. Notendur geta talað á sínu móðurmáli, smáforritið þýðir og sérstakur talgervill les upp setninguna á íslensku.

Í fyrstu atrennu er lögð áhersla á erlent starfsfólk á hjúkrunar- og dvalarheimilum til að efla öryggismenningu með bættri tungumálakunnáttu. Með lausninni mun erlent starfsfólk og starfsnámsnemendur eiga kost á að æfa sig í hagnýtri íslensku á sínu starfssviði, hvar og hvenær sem er.

Framkvæmdir hafnar við brú yfir Fjarðarhornsá í Kollafirði

Á heimasíðu Vegagerðarinnar er sagt frá framkvæmdum við Fjarðarhornsá sem áætlað er að ljúki í desember 2025.

„Þetta er fyrsta steypan hér við Fjarðarhornsá í Kollafirði. Brúin verður vonandi komin í gagnið 1. desember,“ sagði Páll Halldór Björgúlfsson, verkefnastjóri framkvæmdarinnar, þegar ljósmyndarinn Haukur Sigurðsson hitti á hann í síðustu viku.  

Verkið felst í nýlagningu og endurbyggingu Vestfjarðarvegar á tveimur aðskildum köflum, sitt hvoru megin við fjallveginn Klettsháls eða samtals um tveir kílómetrar. Innifalið í verkinu er bygging tveggja steinsteyptra, eftirspenntra, plötubrúa í tveimur höfum yfir Fjarðarhornsá og yfir Skálmardalsá. Brýrnar tvær verða mjög áþekkar. Báðar 34 metra langar eftirspenntar plötubrýr með 9 m breiðri akbraut og 0,5 m breiðum kantbitum. Slitlag brúna verður úr hástyrkleikasteypu.

Fyrirhuguð brúarsmíði yfir Skálmardalsá.

 Vegagerðin er að mestu nýlagning með tengingu frá núverandi vegstæði að nýjum brúarstæðum og færslu á afleggjurum.  

„Brýrnar tvær leysa af hólmi tvær einbreiðar brýr sem eru komnar til ára sinna,“ segir Páll en gamla brúin yfir Fjarðarhornsá var byggð árið 1957 og brúin yfir Skálmardalsá árið 1956. Á sumrin aka um 375 bílar á sólarhring um þennan kafla en aðeins um 50 bílar á sólarhring yfir vetrartímann. (Tölur frá árinu 2022).

Nokkuð er síðan staurar voru reknir niður á fast  en brúarflokkar Vegagerðarinnar sáu um það verk. Framkvæmdir frestuðust nokkuð þar sem bjóða þurfti verkið út þrisvar sinnum. Í fyrsta sinn barst ekkert tilboð í verkið, í annað sinn var öllum tilboðum hafnað þar sem þau voru öll langt yfir áætluðum verktakakostnaði. Tilboð voru opnuð í þriðja sinn í desember 2023. Samið var VBF Mjölni ehf. sem átt lægsta tilboðið í verkið. Vestfirskir verktakar ehf. eru undirverktakar og sjá um brúarsmíðina.

Brúarsmíði í Kollafirði.

Páll segir helstu áskoranir verkefnisins þær að framkvæmdir eru takmarkaðar meðan á stangveiðitímabili stendur, frá 20. júní og fram í miðjan september en á því tímabili er jarðvegsvinna í eða við árfarveg ekki heimil. „Við þurfum því að vera komnir upp úr árfarveginum áður en veiðitímabilið byrjar.“ Önnur áskorun er fjarlægð frá þéttbýli. „Steypan kemur til dæmis alla leið úr Borgarnesi og það er vandasamt að halda steypunni góðri á þessari löngu leið. Það þurfa allar tímasetningar að standast.“

Gert er ráð fyrir að smíði brúarinnar yfir Fjarðarhornsá verði lokið í desember á þessu ári en smíði brúar og vegagerð við Skálmardalsá í desember 2025. Gömlu  brýrnar verða rifnar og fjarlægðar.

Hér er stutt myndband af framkvæmdunum og spjall við Pál sem Haukur Sigurðsson ljósmyndari tók á dögunum:

Ísafjarðarhöfn: 882 tonna afli í apríl

Vestri BA í Ísafjarðarhöfn í síðasta mánuði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Alls komu 882 tonn af bolfiski og rækju á land í Ísafjarðarhöfn í síðasta mánuði.

Júlíus Geirmundsson ÍS landaði einu sinni og var mð 220 tonn af afurðum.

Ísfisktogarinn Páll Pálsson ÍS fór sjö veiðiferðir og kom með 585 tonn.

Þá landaði Vestri BA tvisvar sinnum rækju samtals 77 tonn.

Átt þú í sambandserfiðleikum?

Á undanförnum árum höfum við í Framsókn talað mikið um mikilvægi fjarskiptainnviða um allt land. Í nútímasamfélagi skipta fjarskipti miklu máli en sem dæmi um fjarskipti má nefna farsímasamband, ljósleiðarasamband og Tetra samband. Á föstudag var ég málshefjandi á sérstakri umræðu um fjarskipti í dreifbýli á Alþingi, við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem fer með þann málaflokk.

Misjafnlega gott samband

Það er ekkert launungarmál að hér á landi er símasamband mjög misjafnlega gott og á sumum stöðum er það einfaldlega ekki til staðar. Eitt af mínum fyrstu verkum eftir að ég settist á þing var að óska eftir upplýsingum um fjölda lögheimila í dreifbýli sem hefðu stopult eða ekkert símasamband. Niðurstaðan var að um 1% var algjörlega utan símasambands og að fjöldi heimila byggju við stopult símasamband. Í kjölfarið var gerður samningur milli Neyðarlínunnar og fjarskiptafyrirtækjanna þar sem samið var um uppbyggingu á farsímasendum utan markaðssvæða. Þetta skiptir máli því fjarskiptakerfin eru farin að verða stærri hluti af daglegu lífi okkar. Sem dæmi má taka rafræn skilríki. Rafræn skilríki eru orðin stór hluti af hinum tæknivædda hluta lífs okkar, eins og Ísland.is, en ef símasamband er ekki til staðar þá virka skilríkin ekki og því þarf fólk að fara heiman frá sér til að nota þau. 

Öryggi fyrir alla

Farsímasamband skiptir sérstaklega miklu máli þegar kemur að öryggi. Reglulega fáum við fréttir af slysum eða atvikum þar sem fólk var utan farsímasambands þegar það nauðsynlega þurfti á því að halda. Má þar nefna þegar bílar bila eða það verður slys á þeim vegaköflum þar sem ekki er símasamband og þeir kaflar eru alltof margir víða um land. Við höfum einnig mörg dæmi þess að fólk sem er í fjallgöngu, er að veiða á heiðum eða í leitum á haustin í öllum veðrum villist. Það er mikilvægt fyrir öryggi einstaklinga og fyrir uppbyggingu dreifðari samfélaga að góðir fjarskiptainnviðir séu til staðar á sem flestum stöðum um allt land en fjarskipti eru ein af grundvallarstoðunum í nútímasamfélagi. 

Næstu skref

Það er ljóst að byggja þarf fjarskiptainnviðina hraðar upp hér á landi en við höfum gert hingað til, í samræmi við þá hröðu þróun sem hefur verið hvað varðar tækni á síðustu árum. Í svari ráðherra kom fram að ætlunin sé að fara í átak til þess að bæta samband á 100 heimilum og vinnustöðum sem eiga í dag ekki kost á farneti eða að það uppfylli ekki lágmarksskilyrði um alþjónustu. Í þetta verkefni eiga að fara 50 milljónir á þessu ári. Ég fagna þessu skrefi en ég tel þó að þetta sé bara eitt mikilvægt skref í langri vegferð og ég mun halda áfram að þrýsta á betra fjarskiptasamband um allt land. Það skiptir fólk gríðarlega miklu máli að geta verið í farsímasambandi heima hjá sér og það skiptir máli að geta náð sambandi þegar eitthvað kemur uppá við aksturinn eða uppi á heiðinni. Þetta er mikilvægt öryggismál á sama tíma og það styður við hinar dreifðari byggðir.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir

Höfundur er þingmaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi

Framsókn: fiskeldi skapar verðmæti fyrir nærsamfélagið og þjóðarbúið

Laxeldi Arctic Fish í Arnarfirði.

Á flokksþingi Framsóknarflokksins í síðasta mánuði var ítarleg samþykkt gerð um fiskeldi. Þar segir að fiskeldi skapi verðmæti fyrir nærsamfélög og fyrir þjóðarbúið í heild. „Fiskeldi veitir mikilvægt tækifæri fyrir hagvöxt og atvinnusköpun, sérstaklega á landsbyggðinni. Það stuðlar að fjölbreyttari hagkerfi og býður upp á mörg tækifæri fyrir ungt fólk og frumkvöðla. Þróun sjálfbærs fiskeldis á Íslandi getur einnig stuðlað að uppbyggingu þekkingar og sérhæfingar í tengdum greinum.“

Í ályktuninni segir að Framsókn vilji ná sátt um uppbyggingu og starfsemi fiskeldis á Íslandi. Slík sátt náist aðeins með skýrri lagaumgjörð, vísindalegum rannsóknum, sjálfbærri nýtingu auðlinda og virku eftirliti. Við framþróun eldisfyrirtækja á Íslandi þurfi að horfa til byggðasjónarmiða og sjá til þess að eldið skili tekjum til þeirra samfélaga þar sem fyrirtækin eru staðsett.

Ísland geti nýtt sér sterka stöðu sína í tæknigeiranum og rannsóknum til að þróa nýjungar í fiskeldi. Þetta feli í sér betri fóðurþróun, sjúkdómavarnir og sjálfbærar eldisaðferðir sem minnka umhverfisáhrifin og
auka lífvænleika framleiðslunnar.

Þá segir að mikilvægt sé að gagnsæi sé á eignarhaldi fiskeldisfyrirtækja. Brýnt sé að skoða hvernig takmarka megi samþjöppun eignarhalds aðila í fiskeldi á Íslandi og hvort takmarka eigi með einhverjum
hætti eignarhald erlendra aðila á eldisleyfum á Íslandi. Mikilvægt sé að horfa til þróunar í nágrannalöndum í þeim efnum. Huga þurfi að því að nýliðun geti átt sé stað í greininni og að vægi frumkvöðlastarfsemi í greininni verði tryggt.

Lögð er áhersla á fullnægjandi rannsóknir og segir í ályktuninni að tryggja þurfi að til þess bærir
vísindamenn séu fengnir til að rýna aðferðafræði sem Hafrannsóknarstofnun notar við mat á burðarþoli, við gerð áhættumats og eftirlit með landeldi. Eftirlitsaðilar þurfa að vera staðsettir í nálægð við starfsemina til að sinna virku eftirliti.
Framsókn vill skýra heimildir til eðlilegrar gjaldtöku af fiskeldi. Brýnt sé að gjaldtaka af fiskeldi hamli ekki uppbyggingu og samkeppnishæfni greinarinnar. Sérstaklega skuli horfa til aðlögunar nýliða og getu minni aðila sem njóta síður stærðarhagkvæmnis að standa undir gjöldunum.

Loks er fjallað um vernd villtra stofna og veiðiréttindi.

þar segir eftirfarandi.

„Hér á landi treysta margir á tekjur af veiði í ferskvötnum og ám. Brýnt er að vernda villta laxastofninn og tryggja að líffræðilegum fjölbreytileika í ám og vötnum sé ekki ógnað. Tryggja þarf eftirlit með seiðasleppingum. Samþjöppun veiðiréttinda, m.a. með stórfelldum jarðakaupum einstaklinga eða félaga þarf að taka sérstaklega til skoðunar. Mikilvægt er að stjórnvöld fari þar einnig fram með góðu fordæmi.“

OV: allur hagnaður hverfur í olíubrennslu

Rauðasandslína. Mynd úr ársskýrslunni.

Aukinn rekstrarkostnaður Orkubús Vestfjarða á árinu 2024 vegna skerðinga Landsvirkjunar á raforku sem var mætt með olíubrennslu verður ekki undir 550 millj. kr., eða meiri en nemur öllum hagnaði ársins 2023 eftir skatta.

Til þess að mæta þessum útgjöldum verður dregið úr framkvæmdum ársins og verða þær um 630 m.kr. Er það töluverður samdráttur frá 2023 þegar framkvæmt var fyrir 1.091 m.kr. Árið 2022 námu framkvæmdir 8305 m.kr.

Framkvæmdir síðasta árs voru í dreifikerfinu, þ. á. m. lagningu jarðstrengja og uppbyggingu í aðveitustöðvum ásamt viðhaldi og endurnýjun í innanbæjarkerfum. Þá voru settir fjármunir í jarðhitaleit,
unnið að rannsóknum og skipulagsverkefnum vegna mögulegra virkjana o.fl.

Þessar upplýsingar koma fram í ársskýrslu Orkubúsins fyrir 2023 sem hefur verið birt.

Það er mat stjórnar og stjórnenda Orkubús Vestfjarða að mikilvægustu verkefni næstu 10 ára séu uppbygging orkuframleiðslu fyrirtækisins. „Þannig má tryggja tekjuöflun með orkusölu þannig að fyrirtækið verði sjálfbært í orkuöflun. Þeir virkjanakostir sem fyrirtækið hefur til skoðunar eru auk þess þannig staðsettir að þeir hafa afgerandi áhrif á afhendingaröryggi raforku á veitusvæðinu. Með því að fjárfesta í virkjunum sem eru vel staðsettar í dreifikerfinu á Vestfjörðum getur fyrirtækið náð þremur mikilvægum markmiðum samtímis, þ.e. að tryggja orkuöflun, auka afhendingaröryggi raforku
á Vestfjörðum og gera félaginu kleift að taka þátt í grænum orkuskiptum á Vestfjörðum í samræmi við stefnu stjórnvalda. Grundvallarforsenda er þó að virkjanakostirnir reynist hagkvæmir og valdi sem minnstu raski á náttúrunni.“

Torfnes: Kerecisvöllurinn ekki tilbúinn eins og til stóð

Kerrecis völlurinn á sumardaginn fyrsta. Nú er búið að leggja hitalagnir í völlinn og næst er að líma gervigrasi' niður á völlinn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Ekki tókst Vestra að leika fyrsta heimaleikinn í Bestudeildinni í knattspyrnu á Kerecisvellinum 20. maí gegn Íslandsmeisturum Víkings eins og til stóð. Leikið var á Avis vellinum í Laugardalnum í Reykjavík, velli Þróttar og taldist leikurinn heimaleikur Vestra. Nú er stefnt að því að vígja nýja gervigrasvöllinn eftir tvær vikur, sunnudaginn 2. júní þegar Stjarnan kemur í heimsókn.

Leikurinn var nokkuð þungur fyrir Vestra þar sem Íslands- og bikarmeistararnir voru betra liðið og hefur það greinilega talsvert meiri breidd. Víkingur vann 1:4 , en þó náði Vestri að jafna 1:1 í fyrra hálfleik með góðu marki frá Silas.

Kvennalið Vestra lék sinn fyrsta leik á Ísafirði um árabil á laugardaginn og leikið var á æfingavellinum sem er orðinn leikfær eftir endurnýjun. Léku stúlkurnar við ÍH frá Hafnarfirði og tapaðist leikurinn 0:5.

Lið Vestra og ÍH fyrir leikinn á laugardaginn.

Mynd: Arna Lára Jónsdóttir.

Skemmtiferðaskip: 299 m langt skip til Ísafjarðar í dag

Norwegian Prima sem leggst í Sundahöfn á Ísafirði í dag.

Norska skemmtiferðaksipið Norwegian Prima kemur til Ísafjarðar í dag og leggst í fyrsta sinn að kanti í Sundahöfn. Skipið er 299 metra langt og varð í fyrra að aflýsa 14 komum í fyrra vegna þess að dýpkunarframkvæmdir töfðust. Um borð í Norwegian Prima eru 3246 farþegar auk áhafnar, sem er um 1.500 manns. Flestir farþeganna munu vera Bandaríkjamenn. Áætlað er að skipið leggist að bryggju kl 9 og verði til kl. 18.

Nansen á Patreksfirði og Hólmavík

Um helgina varð Frithjod Nansen aftur á ferðinni um Vestfirði og kom við á Patreksfirði og Hólmavík. Með því voru um 300 manns. Á Hólmavík fóru gestr um þorpið og komu m.a. við í galdrasafninu. Hópurinn var svo fluttur á fjórum skólabílum úr þremur sveitarfélögum í Sævang. Þar var því margt í kaffinu í Sauðfjársetrinu og gestirnir skoðuðu sýningarnar sem þar eru. Einnig var boðið upp á fjörurölt og fjallgöngu um nágrennið. Á vefsíðu sauðfjársetrisins kemur fram að prjónahúfur og vettlingar hafi selst vel í Sævangi og á Hólmavík.

Nansen við Hólmavík.

Myndir: Sauðfjársetrið í Sævangi.

Silver Endeavour í Bolungavík

Skemmtiferðaskipið Silver Endeavour kom inná Bolungavíkina í gær til að hleypa nokkrum tugum farþega í land til að skoða sig nánar um. Þá voru rútur til taks til að ferja farþega í skoðunarferðir.

Skipið er 164 metra langt, byggt 2021og tekur um 200 farþegar og hefur svipaðan fjölda í áhöfn.

Silver Endeavour við akkeri í Bolungavíkinni.

Mynd: Hafþór Gunnarsson.

Nýjustu fréttir