Sunnudagur 1. september 2024
Síða 9

Hlaupið í þágu Sigurvonar

Hlaupahópur Öllu frá Drangsnesi var afar öflugur í hlaupinu í fyrra og kemur einnig sterkur inn í ár.

Hátt í 20 manns ætla að hlaupa í þágu krabbameinsfélagsins Sigurvonar í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka þann 24. ágúst. Um afar mikilvæga fjáröflun er að ræða fyrir félagið en nú þegar hefur safnast yfir hálf milljón króna. Sá peningur sem safnast í maraþoninu rennur óskertur til eins af mikilvægustu markmiðum Sigurvonar sem er að styðja fjárhagslega við einstaklinga sem glíma við krabbamein. Fjárhagsleg byrði þeirra sem veikjast er mikil og þá ekki síst þeirra sem búa á landsbyggðinni. Því er mikilvægt að svæðisfélag eins og Sigurvon geti ræktað hlutverk sitt af alúð, með dyggri aðstoð samborgaranna.

„Maður verður meyr ár hvert að sjá hversu margir eru til í að leggja félaginu lið í maraþoninu. Við hvetjum alla sem eru aflögufærir til að styðja við hlauparana okkar með því að heita á þá. Margt smátt gerir eitt stórt,“ segir Thelma Hjaltadóttir, starfsmaður félagsins.

Þá hefur félagið staðið fyrir fríum æfingum í sumar fyrir bæði þá sem vilja hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu og þá sem auka vilja hreysti sína í góðum félagsskap.

Hér má heita á hlauparana.

https://www.rmi.is/hlaupastyrkur/hlaupahopar/11323-hlaupahopurinn-hennar-ollu

Sandeyri: kröfu um ógildingu byggingarleyfis vísað frá

Frá Sandeyri.

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál vísaði á föstudaginn frá kröfu eiganda Sandeyrar um að ógilda byggingarleyfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar fyrir fiskeldiskvíar í sjó við Sandeyri á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi.

Byggingarleyfið var gefið út 11. apríl 2024 og landeigandinn kærði þann 10. maí 2024.

Kærandinn hélt því fram að með hinu kærða byggingarleyfi hafi verið heimiluð stóriðja innan netlaga jarðar hans og að skipulagsyfirvöld hafi lagt rangt mat á umfang þeirra og legu. Þá var því einnig haldið fram að framkvæmdin muni hafa veruleg áhrif á nýtingu jarðarinnar, m.a. vegna mengunar í hafi og við strönd, hávaða, ljós- og sjónmengunar. 

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun andmælti þessu sagði að kærðar byggingarleyfisframkvæmdir hafi verið utan netlaga jarðar kæranda og því væri hann ekki aðili að stjórnsýslumáli um byggingarleyfið.

Leyfishafinn Arctic Fish sagði kæranda ekki eiga kæruaðild. Ótvírætt væri að eldissvæði leyfishafa liggi mun lengra frá stórstraumsfjöruborði en 115 m. Stysta fjarlægð frá því svæði sem byggingarleyfið taki til að fasteign kæranda sé um 600 m og möguleg grenndaráhrif væru því óveruleg. Því til viðbótar hafi þýðingu að kærandi hafi ekki fasta búsetu á fasteigninni, en hún sé ætluð til notkunar yfir sumartímann. Að lokum liggi fyrir að leyfishafi hafi haft rekstrarleyfi á svæðinu frá árinu 2012 eða rúmum þremur árum áður en kærandi hafi eignast sína fasteign.

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar er að eldissvæðið sé utan netlaga Sandeyrar. Verður því aðild kæranda ekki reist á því að sjókvíar leyfishafa séu í netlögum landareignar hans.

„Af aðaluppdráttum er fylgdu byggingarleyfisumsókn leyfishafa verður ráðið að fjarlægð frá fiskeldiskvíum og tengdum mannvirkjum að húsi kæranda sé um 2 km og að fjarlægð frá kvíunum að strandlengju sé um 1 km. Þrátt fyrir að kærandi megi vænta einhverrar truflunar vegna starfseminnar verður að teknu tilliti til framangreindra fjarlægðarmarka ekki álitið að grenndarréttur kæranda sé skertur svo verulega að hann teljist hafa lögvarða hagsmuni í málinu.“

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar vísað frá úrskurðarnefndinni segir í lokaorðum úrskurðarins. 

Vindur í eigu þjóðar

Guðmundur ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Á flokksráðsfundi okkar Vinstri grænna sem haldinn var í Reykjanesbæ um liðna helgi var ítrekað mikilvægi þess að mörkuð verði stefna um nýtingu vinds til orkuöflunar á Íslandi. Við viljum að tryggt sé að vindorkan haldist í höndum þjóðarinnar og að ströng skilyrði séu fyrir nýtingu þessa kostar. Vindorkuver geta haft veruleg áhrif á landslag, lífríki og lífsgæði fólks í nærsamfélaginu.

Á fáum og röskuðum svæðum

Ísland á að nýta auðlindir sínar í sátt við samfélag og náttúru. Gott er ganga út frá því viðmiði að náttúran sé friðhelg og nýting sé undantekning frá þeirri meginreglu. Við Íslendingar búum í nánara sambandi við náttúruna en margar aðrar þjóðir og hún er órjúfanlegur hluti sjálfsmyndar okkar. Vindorkuver valda meira raski á náttúrunni en oft er haldið fram í umræðunni og framkvæmdir eru ekki endilega að fullu afturkræfar. Á Íslandi má enn finna lítt snortin víðerni og stór svæði þar sem áhrifa mannsins gætir takmarkað, sem er nánast einsdæmi í okkar heimshluta og ef vindorkuver eru reist á landi ættu þau að vera á fáum stöðum og á þegar röskuðum svæðum. Þá er mikilvægt að halda vindorkuverum utan miðhálendis Íslands, náttúruverndarsvæða og víðerna, mikilvægra fuglasvæða og farleiða fugla svo eitthvað sé nefnt.

Samfélagslegt eignarhald og auðlindagjald

Ein af grundvallarstoðum í stefnu Vinstri grænna er að orkuauðlindir Íslands eigi að vera í almannaeigu. Aðkoma einkaaðila að uppbyggingu vindorkuvera á Íslandi er ekki æskileg að mínu mati. Landsvirkjun, sem er í samfélagslegri eigu, ætti að gegna því hlutverki. Þá er mikilvægt að taka auðlindagjald af vindorkuvirkjunum sem á að renna til samfélagsins alls.

Orka í þágu innlendra orkuskipta, ekki útflutnings

Vinstri græn telja að fyrst og fremst skuli horfa til betri nýtingar orkunnar og jafna aðgengi að nauðsynlegum orkuskiptum um land allt. Jafnframt að ef afla þurfi frekari orku skuli henni ráðstafað í þágu almennra nota og innlendra orkuskipta en ekki til útflutnings. Þannig getur Ísland haldið áfram að vera leiðandi á sviði endurnýjanlegrar orku án þess að ráðast í stórfelldar fórnir á náttúru Íslands. Ósnortin náttúra landsins og víðernin eru líka verðmæt auðlind sem okkur ber að standa vörð um.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson

Höfundur er formaður Vinstri grænna og félags- og vinnumarkaðsráðherra

Gæsaveiðitímabil að hefjast – Draga á úr veiðum Helsingja

Umhverfisstofnun vinnur að tillögum um hvernig megi draga úr veiðum Helsingja.

Veiðitímabilið á grágæs og heiðagæs hefst þriðjudaginn 20. ágúst og stendur til 15. mars, eins og síðustu ár.

Heiðagæsastofninn stendur sem fyrr nokkuð sterkur en hefur þó verið að dragast saman á síðustu árum. Hámarki náði stofninn árið 2019 þegar hann var talinn vera um hálf milljón fugla. Samkvæmt talningum ársins 2023 stóð stofninn í 335.730 fuglum.

Íslenski grágæsastofninn náði hámarki árið 2011 og var þá 112.000 fuglar. Síðan þá hefur grágæs fækkað og bentu talningar ársins 2023 til þess stofninn væri 59.000 fuglar. Í ljósi veikrar stöðu grágæsastofnsins mun sölubann áfram gilda um tegundina.

Sú staða er nú komin upp að Austur Grænlands-stofn helsingja, sem að íslenski stofninn tilheyrir, hefur rýrnað mjög á allra síðustu árum. Stofninn hefur orðið fyrir verulegum afföllum vegna bráðrar fuglaflensu á síðustu tveimur árum. Einnig hefur viðkomubrestur verið viðvarandi síðustu tvö sumur.

Stofninn var metinn um 57.000 fuglar í mars 2024 og er því kominn nærri neðri viðmiðunarmörkum AEWA samningsins (alþjóðlegur samningur um verndun afrísk-evrasískra sjó- og vatnafugla sem Ísland er aðili að) sem miðast við 54.000 fugla að vori.

Að þessu tilefni hefur vinnuhópur EGMP (European Goose Managment Platform) sem starfar undir AEWA sent Bretlandi og Íslandi tilmæli um að draga verulega úr veiðum á helsingja árið 2024 eða stöðva þær alfarið.

Umhverfisstofnun vinnur nú að tillögum til ráðherra um hvernig megi draga megi úr veiðum til að uppfylla skilyrði samningsins.

Leiðbeiningar um húsnæðisstuðning til leigjenda

Leiðbeiningar til sveitarfélaga um framkvæmd sérstaks húsnæðisstuðnings til leigjenda hafa verið uppfærðar. 

Breytingarnar eru til komnar vegna breytinga á lögum um húsnæðisbætur sem Alþingi samþykkti í júní.

Markmiðið með útgáfu leiðbeinandi reglna er að auka samræmi í opinberum húsnæðisstuðningi.

Flokkum viðmiðunarfjárhæða hefur verið fjölgað úr þremur í fimm og stuðlar einfaldaðir. Einnig er lagt til í leiðbeiningunum að fjárhæð eignaviðmiða verði færð til samræmis við eignaviðmið í lögum um húsnæðisbætur þar sem viðmiðin voru hækkuð verulega með áðurnefndum lagabreytingunum.

Breytingarnar gilda afturvirkt frá 1. júní 2024. Nýju tekjumörkin eru eftirfarandi:

 Fjöldi
 heimilismanna
 Neðri
 tekjumörk
 á ári
 Efri
 tekjumörk
 á ári
 Neðri
 tekjumörk
 á mánuði
 Efri
 tekjumörk
 á mánuði
 1 5.217.376 6.521.721 434.782 543.477
 2 6.939.111 8.673.889 578.260 722.825
 3 8.086.933 10.108.667 673.912 842.389
 4 8.765.192 10.956.490 730.433 913.041
 5 9.495.625 11.869.532           791.303 989.128
 6 eða fleiri10.226.057 12.787.572 852.172 1.065.215


Eignamörk hækka úr 7.336.805 kr. í 12.500.000 kr. í samræmi við breytingar í lögum um húsnæðisbætur.

Ráðuneytið beinir því til sveitarfélaga að taka mið af framangreindu við endurskoðun eigin reglna um sérstakan húsnæðisstuðning.

Árný Huld er íbúi ársins í Reykhólahreppi

Á nýliðnum Reykhóladögum hlaut Árný Huld Haraldsdóttir bóndi á Bakka titilinn íbúi ársins.

Það er orðin hefð að útnefna íbúa ársins á Reykhóladögum og ríkir alltaf nokkur spenna að vita hver muni vera hlutskarpastur.

Árný hefur verið ötul að vinna í þágu samfélagsins með setu í sveitarstjórn og nefndum, einnig er hún mjög virk í ýmiskonar félagsstarfi.

Vel gengur hjá Arctic Fish

Undirritun styrktarsamnings milli Vestra og Arctic Fish.

Arctic Fish kynnti hálfsársuppgjör sitt í morgun sem og niðurstöðu annars ársfjórðungs þessa árs.

Fyrri árshelmingur þessa árs var sá besti í sögu Arctic Fish. Rekstrarhagnaður nam 12 milljónum Evra og rekstrarhagnaður á hvert kíló slátraðs lax var 3,17 Evrur (um 382 kr).

Hafa þessir lykilmælikvarðar aldrei verið hærri.

Á öðrum ársfjórðungi þessa árs var slátrað 1.275 tonnum samanborið við 100 tonnum á sama tímabili í fyrra. 

Rekstrarhagnaður annars árshluta nam 1,82 Evrum pr. kg en á sama tíma í fyrra var sú stærð neikvæð.

Vöxtur er stöðugur, meðal slátur‏‏þyngd er hærri en áður og hlutfall afurða sem fara í hæsta gæðaflokk er með besta móti.

Tómas Rúnar framkvæmdastjóri Arctic Protein

Tómas Rúnar Sölvason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Arctic Protein. Fyrirtækið er með starfsstöðvar á Bíldudal og í Patreksfirði og býður upp á sjálfbærar lausnir fyrir vinnslu úr aukaafurðum í sjávarútvegi og fiskeldi með meltuframleiðslu.

Tómas hefur nú þegar hafið störf en áður starfaði hann hjá Marel sem vélahönnuður í vöruþróun í kjötiðnaði. Á árunum 2014 – 2017 starfaði Tómas hjá vörubílaframleiðandanum Scania CV AB í Svíþjóð sem þróunarverkfræðingur í véladeild og þar á undan var hann hjá 3x Technology.

Tómas er með meistaragráðu í vélahönnunarverkfræði frá Kungliga Tekniska Högskolan í Stokkhólmi og BSc í véla- og orkutæknifræði frá HR.

Í fréttatilkynningu er haft eftir Tómasi að „Það verður spennandi að taka þátt í vexti fyrirtækisins en í sjávarútvegi og fiskeldi er áætlað að 30-35 prósent af afla fari til spillis á hverju ári. Markmið Arctic Protein er að efla þjónustu fyrirtækisins með samkeppnishæfum lausnum við vinnslu og verðmætasköpun úr hliðarafurðum,“.

Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arctic Protein segir að Tómas verði með skrifstofu í Bolungavík og að starfsemin sé að langmestu leyti á Vestfjörðum.

Teitur Björn: Tafir á uppbyggingu stofnvega á Vestfjörðum hefur bitnað illa á fólki og fyrirtækjum

Teitur Björn Einarsson alþm í Norðvesturkjördæmi.

Teitur Björn Einarsson, alþm. fjallar um samgönguáætlun í færslu á facebook í morgun. Hann segir að þörf sé á uppbyggingu samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu. En bætir við að það þurfi sáttmála og uppbyggingarátak um greiðari samgöngur og aukið umferðaröryggi um land allt ekki bara á höfuðborgarsvæðinu.

Nefnir hann dæmi um slæmt ástand á tengivegum víða um land og bætir svo við:

„Tafir á uppbyggingu stofnvega á Vestfjörðum hefur bitnað illa á fólki og fyrirtækjum. Samkeppnishæfni fjórðungsins er minni en annars staðar af þeim sökum og leiðir til hægari atvinnuuppbyggingar og minni verðmætasköpunar en ella. Það er allra tap.

Skortur á viðhaldi og eðlilegri endurnýjun vega á Vesturlandi, sér í lagi í Dölum, stefnir í óefni og hefur leitt til öfugra „vegaskipta“ – frá bundnu slitlagi yfir í malarvegi. Áætlanir og áform, fyrirheit og loforð, um nýframkvæmdir, t.d. Uxahryggjavegur, hafa ekki staðist. Fjármagn hefur sogast af einhverjum ástæðum á aðra staði.“

Samgönguáætlun verði uppfærð

Um komandi samgönguáætlun segir Teitur Björn:

„Samgönguáætlun verður lögð fram að nýju á komandi þingi. Ég geng út frá því að brugðist verði við harðri gagnrýni á fyrri útgáfu áætlunarinnar sem lögð var fram síðasta vetur og samgönguáætlun uppfærð af þeim sökum og svipi til metnaðarfullra áætlana í samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.“

Hólmavík : björgunarsveitin byggir nýtt hús

unnið við grunninn. Myndir: Dagrenning.

Björgunarsveitin Dagrenning á Hólmavík er að byggja nýtt hús yfir starfsemi sína. Verður það 240 fermetrar að stærð. Andri Hrafn Ásgeirsson, formaður sveitarinnar sagði í samtali við Bæjarins besta að framkvæmdir gengju vel. Búið er að steypa sökkla og botnplatan verður steypt næstu daga. Húseiningarnar eru komnar vestur, en þær eru frá Límtré Vírneti og eru smiðaðar á Flúðum. Andri segir að stefnan sé að húsið verði tilbúið í haust. Gamla húsið hefur verið selt og er afhending á því 15. desember næstkomandi. Gert er ráð fyrir að kostnaður verði um 40 m.kr. Andri segir að vel hafi gengið að afla fjár fyrir kostnaðinum. Gamla húsið var selt og þá tók sveitin að sér að rífa út úr húsi Hólmadrangs og fékk greitt fyrir það. Eins hafi Sparisjóður Strandamanna verið hjálplegur við fjármögnun og veitt góð lánakjör. Andri segir að það sem eftir standi af kostnaði verði vel viðráðanlegt fyrir björgunarsveitina.

Þá hefur sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkt að veita styrk á móti gatnagerðargjöldum og öðrum gjöldum sveitarfélagsins sem tengjast nýbyggingu Björgunarsveitarinnar.

Andri Hrafn Ásgeirsson í stafni björgunarbátsins.

Andri Hrafn vildi koma að þökkum til annarrar stjórnarmanna og félaga í sveitinni fyrir veitta aðstoð og dugnað við þessa uppbyggingu björgunarsveitarinnar. Auk húsabyggingarinnar endurnýjaði sveitin gúmmibát sveitarinnar og er nýi báturinn kominn í notkun.

Félagar Björgunarsveitarinnar Dagrenningar Hólmavík eru ríflega 100 talsins og þar af eru 46 á útkallslista.

Í lok ágúst, þann 29. verður almennur félagsfundur verður haldinn í kvenfélagshúsinu og hefst fundurinn kl. 20:00. Rætt verður um verkefni vetrarins og gerð grein fyrir húsbyggingunni.

Gamla aðstaðan á Hólmavík.

Frá framkvæmdum við húsgrunninn.

Nýjustu fréttir