Mánudagur 28. október 2024
Síða 9

Ríkisborgarapróf

Próf í íslensku fyrir umsækjendur um íslenskan ríkisborgararétt eru haldin tvisvar á ári, að vori og hausti (Icelandic tests for applicants for Icelandic citizenship (Icelandic passport)).

Á Ísafirði verður hægt að taka próf hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða  miðvikudaginn 20. nóvember 2024.

Mímir sér um framkvæmd ríkisborgaraprófa fyrir Menntamálastofnun og tekur við skráningum á heimasíðu sinni. 

Skráningu lýkur mánudaginn 28. október. 

Ekki er hægt að skrá sig í próf eftir að skráningarfrestur rennur út og skráning er ekki gild nema gengið hafi verið frá greiðslu. 

Starfsfólk svæðisstöðva íþróttahéraða á fundi með ráðherra

Föstudaginn 11. október hittist starfsfólk svæðisstöðva íþróttahéraða á fundi á Hótel Varmalandi í Borgarfirði, í tengslum við sambandsstjórnarfund UMFÍ. Á fundinn mættu einnig fleiri úr starfsliði bæði ÍSÍ og UMFÍ, meðal annars framkvæmdastjórar beggja samtaka.
Svæðisstöðvarnar eru átta talsins um allt land og eru tvö stöðugildi á hverjum stað. Búið er að ráða í allar stöður og er starfsemi stöðvanna hafin.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra mætti á fundinn og átti gott samtal við starfsfólkið. Ráðherra er ötull talsmaður verkefnisins sem tengist náið þeim markmiðum sem fram koma í lögum um farsæld barna, íþróttalögum, íþróttastefnu ríkisins og byggðaáætlun. 
Á fundinum kom fram að ráðherra bindur miklar vonir við að þetta verkefni muni efla og styðja við íþróttastarf á landvísu. 
Megin markmið svæðisstöðvanna er að efla íþróttastarf og auka þátttöku allra barna og ungmenna með áherslu á þátttöku fatlaðra barna, barna af tekjulægri heimilum og barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. 

Stafræn meðmælasöfnun hafin

Landskjörstjórn opnaði í gær stafrænt meðmælakerfi fyrir alþingiskosningarnar 30. nóvember og geta stjórnmálasamtök, sem hafa fengið úthlutuðum listabókstaf frá dómsmálaráðuneytinu nú stofnað stafræna meðmælasöfnun fyrir framboð sín í öllum kjördæmum.

Stafræna meðmælakerfið var unnið í samstarfi Stafræns Íslands og Þjóðskrár og var þróun þess komin áleiðis þegar ljóst varð að kosið yrði í lok nóvember.

Síðustu daga var því unnið hratt að því að ljúka þróun sem til þurfti til að geta opnað kerfið fimmtudaginn 17. október.

Vel samstilltur hópur um stafrænu lausnina frá Stafrænu Íslandi, Landskjörstjórn, Þjóðskrá og hugbúnaðarteymi frá Júní og Stefnu unnu að verkefninu og voru nýttar nokkrar af kjarnaþjónustum Stafræns Íslands, á borð við Ísland.is, innskráning fyrir alla og umsóknakerfi Stafræns Íslands.

Nú þegar hafa níu framboð opnað fyrir móttöku á skráningu meðmælenda það eru allir þeir flokkar sem sæti eiga á Alþingi og auk þess Ábyrg framtíð.

Nýr sviðs­stjóri fjöl­skyldu­sviðs í Vesturbyggð

Bæjar­stjórn Vest­ur­byggðar hefur samþykkt ráðn­ingu Magnúsar Arnars Svein­björns­sonar í stöðu sviðs­stjóra fjöl­skyldu­sviðs.

Magnús hefur starfað lengst af hjá Reykjavíkurborg, þar á meðal sem skólastjóri Vinnuskóla Reykjavíkur. Síðastliðið haust tók hann við stöðu deildarstjóra rekstrar hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.

Hann er nú í diplómanámi í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands og býr yfir fjölbreyttri reynslu úr mannauðsmálum, opinberri stjórnsýslu, barna- og unglingastarfi sem og þverfaglegu samstarfi við félagsþjónustu, skóla og barnavernd.

Bento Box Trio í Edinborgarhúsinu í kvöld

Bento Box Trio heldur tónleika í Edinborgarhúsinu í kvöld föstudaginn 18. október. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og fara fram í Bryggjusal.

Með einstakri hljóðfæraskipan og sándi/hljóðheimi hefur Bento Box Trio skapað sér nafn sem ein af mest spennandi ungu djass hljómsveitum Noregs. Með spuna í fyrirrúmi sækir tónlistin innblástur í klassíska- og samtímatónlist sem og frjálsa djassinn. Tónlist þeirra mótast í gegnum melódískar tónsmíðar, sem þróast enn frekar í grípandi landslag; frá hinu viðkvæma og melankólíska til hins ákafa og áleitna.

Þau hafa þegar leikið á mörgum helstu djasssenum í Noregi, svo sem Oslojazz, Moldejazz, Vossajazz og Victoria Nasjonal Jazzscene. Síðastliðið sumar spilaði Bento Box Trio til úrslita í Jazzintro 2022, keppni um efnilegustu djasshljómsveitir Noregs. Þar heilluðu þau dómnefndina með samspili, frumlegum hljómi og tjáningu og sterkri miðlun.

Bento Box Trio:
Tuva Halse – fiðla
Benjamín Gísli Einarsson – píanó
Øyvind Leite – trommur

Miðaverð, 3.000 kr.

Óraunhæft að samgönguáætlun verði samþykkt fyrir kosningar

Stefán Vagn Stefánsson við upphaf Fjórðungsþings. Mynd: aðsend.

Fram kom í ávarpi Stefáns Vagns Stefánssonar alþm. fyrsta þingmanns Norðvesturkjördæmis við upphaf Fjórðungsþings Vestfirðinga í morgun að hann hefði áhyggjur af framkvæmdum í samgöngumálum á næsta ári þar sem óraunhæft væri að ný samgönguáætlun verði samþykkt fyrir alþingiskosningarnar í lok nóvember. Hann sagði ljóst að það yrði ekki fyrr en um mitt næsta ár sem ný ríkisstjórn v´ri komin á fót og búin að leggja fram og fá afgreidda nýja samgönguáætlun. Á meðan væri í raun framkvæmdastopp í samgöngumálum.

Stefán Vagn sagði að þingmenn væru ákveðnir í því að afgreiða ný fjárlög fyrr miðjan nóvember og þar myndu vera fjárveitingar til samgöngumála, en hins vegar væri mælt fyrir um skiptu fjármagnsins á einstakar framkvæmdir í samgönguáætlun.

Fram hefði komið sú hugmynd að ákveða í fjárlögunum nokkrar framkvæmdir sem fengju fjármagn og ef það gengi eftir yrði hægt að setja þær framkvæmdir í gang strax. Þetta gæti hins vegar aðeins gengið ef fullt samkomulag yrði um þær framkvæmdir sem þannig yrðu teknar út úr.

Fjórðungsþingið er haldið að Laugarhóli í Bjarnarfirði.

Samstarf um Bláma endurnýjað

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Þorsteinn Másson, framkvæmdastjóri Bláma. Mynd: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið.

Umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytið, Landsvirkjun, Orkubú Vestfjarða og Vestfjarðastofa hafa endurnýjað samstarf sitt um Bláma til ársins 2026, en samstarfsverkefnið sem verið hefur í gangi frá  2021 styður við orkuskipti og verðmætasköpun á Vestfjörðum og landinu öllu. 

Blámi hefur á síðustu þremur árum haft frumkvæði að og stutt við fjölmörg orkuskiptaverkefni í þéttu samstarfi við fyrirtæki með sérstaka áherslu á sjávartengda starfsemi. Blámi hefur unnið náið með stærstu fiskeldisfyrirtækjum á Íslandi, sveitarfélögum, bátasmiðjum, tæknifyrirtækjum og menntastofnunum og hóf nýverið samstarf við innviðafélag Vestfjarða um að styðja við frekari innviðauppbyggingu í fjórðungnum.

Þorsteinn Másson hefur verið framkvæmdastjóri Bláma frá upphafi en auk hans hafa Tinna Rún Snorradóttir og Anna María Daníelsdóttir starfað hjá Bláma ásamt sumarstarfsmönnum. Starfsemi Bláma verður í framhaldi endurnýjunar samstarfsins efld með nýrri starfsstöð á sunnanverðum Vestfjörðum. 

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra:

„Við höfum lagt áherslu á að styðja við Vestfirði á undanförnum misserum og þátttaka ráðuneytisins í Bláma gefur okkur tækifæri til að virkja það hugvit, auðlindir og þekkingu sem fyrir hendi er svo árangur náist í orkuskiptum og orkutengdri nýsköpun. Sameiginlegt átak og stuðningur öflugra aðila skiptir sköpum svo vel takist til og það er ánægjulegt að ráðuneytið geti verið slíkur bakhjarl.“

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar:  

„Markvist og vel skilgreint samstarf er lykillinn að árangri í orkuskiptum og orkutengdri nýsköpun. Með áframhaldandi stuðningi við Bláma væntum við þess að hægt verði að hrinda í framkvæmd enn fleiri raunhæfum verkefnum sem styðja við loftslagsmarkmið Íslands og aukna sjálfbæra verðmætasköpun á Vestfjörðum og um allt land.“

Sigríður Ó. Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu:

„Blámi hefur verið áhersluverkefni Sóknaráætlunar Vestfjarða síðustu ár og hefur reynst afar árangursríkt verkefni fyrir heildarhagsmuni Vestfjarða. Samstarf starfsmanna Vestfjarðastofu og Bláma hefur skilað fjölda árangursríkra umsókna fyrirtækja og stofnana á svæðinu í fjölmarga sjóði og þannig átt hlut í að auka fjármagn til nýsköpunarverkefna á Vestfjörðum. “

Elías Jónatansson, orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða:

„Samstarf Bláma og Orkubúsins hefur skilað árangri sem er jafnvel umfram væntingar. Styrkleiki Bláma felst í að leiða saman hagsmunaaðila í orkuskiptum og nýsköpun á Vestfjörðum með því að setja fókusinn á hvernig megi koma hugmyndum í verk innan tiltekins tímaramma og hvaða áhrif slík verkefni geti haft fyrir samfélagið á Vestfjörðum. Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs.“

Ísafjörður: Stjórnsýsluhúsið stækkað

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að samþykkja byggingaáform Íslandsbanka vegna tengibyggingar á fyrstu hæð Stjórnsýsluhússins á Ísafirði. Fer málið fyrir næsta bæjarstjórnarfund til afgreiðslu.

Ætlunin er stækka rými embættis Lögreglustjórans á Vestfjörðum með tengibyggingunni og mun Íslandsbanki byggja en leigja lögregluembættinu.

Tengibygginging er afmörkuð með hringnum til hægri.

Vikuviðtalið: Kjartan Jakob Hauksson

Ég heiti Kjartan Jakob Hauksson, barinn og berfættur á Vestfjörðum eins og einhver orðaði það. Á þrjú börn þau Hauk Jakob, Líf og Sögu ásamt barnabörnum. Varð svo nýlega langafi.  Er fæddur og uppalinn á Ísafirði, ættaður úr Reykjarfirði (nyrðri) í móðurætt og frá Uppsölum í Seyðisfirði við Djúp í föðurættina. 

Foreldrar mínir heita Valgerður Jakobsdóttir og Haukur S Daníelsson sem er látinn.  Við ólumst upp fimm systkinin í Tangagötu 20 og bjuggum seinna í Skipagötu 8 svo ég er neðribæjar púki svokallaður.  Var mikið á Bökkunum og í Dokkunni svo maður kallar sig einnig bakka og dokku púka eins og þá tíðkaðist.  Án þess sjálfur að hafa samanburð þá trúi ég að varla hefði verið betra að alast upp annarstaðar því frjálsræðið var mikið og leiksvæðin voru helst fjaran, bryggjur, gamlir hjallar og bátar í fjöru.  Snemma smíðaði maður einnig árabáta og oft með aðstoð Daníels föðurafa sem vann sem skipasmiður hjá Marsellíusi S.G. Bernharðssyni á Ísafirði.

Sem útgerðarmaður árabáta frá 6 ára aldri komst maður úr fjörunni og oft veiddum við mikið af þorski í firðinum.  Fyrsta mótorbátinn eignaðist ég svo fimmtán ára sem ég gerði upp með aðstoð pabba og notaði hann til veiða og skytterís.  Það segir mikið um frjálsræðið að áhyggjur foreldra minna urðu helst áberandi ef ég skilaði mér ekki heim fyrr en seint um nótt eða undir morgun ef ég fór einn á bátnum að veiða eða skjóta fugl enda bara 15 ára er ég byrjaði slíkt í Djúpinu.

Margt var í boði á Ísafirði svo ég var í Tónlistarskólanum, spilaði í lúðrasveitinni á trompet við ýmis hátíðleg tækifæri í bænum. Æfði júdó og einnig skíðagöngu sem ég keppti í.

Segi stundum að ég hafi sem unglingur einnig alist upp á dekkjaverkstæðinu hjá þeim vandaða manni Jónasi Björnssyni og á ég honum mikið að þakka.  Hann kenndi mér margt. Skátastarf og seinna starf í Hjálparsveitinni í um 17 ár var það sem heillaði einnig.

Er með vélstjórnar og skipstjórnarréttindi ásamt réttindum í atvinnuköfun. Lærði atvinnuköfun í Bretlandi, Skotlandi og Bandaríkjunum og hef kennt köfun einnig.  Atvinnuköfun hefur átt stóran sess í lífi mínu og var ég m.a  til margra ára í nefnd á vegum Siglingastofnunar, seinna Samgöngustofu sem hafði með atvinnuköfun að gera. Þar var m.a.  fengist við að meta erlent nám til réttinda hér en einnig að yfirfara kennsluefni og starfa sem prófdómari á námskeiðum sem haldin voru í atvinnuköfun fyrir slökkvilið landsins, sérsveit lögreglunnar og Landhelgisgæsluna.

Vinna í vélsmiðjum og á sjó var það sem ég helst fékkst við ásamt atvinnuköfun.  Var verkstjóri í Vélsmiðjunni Þór á Ísafirði þar til henni var lokað 1991 en þá fór ég endanlega alveg útí sjálfstæða atvinnustarfsemi og hef haldið því áfram síðan.

Stofnaði fyritækið Sjótækni, er framkvæmdastjóri þar og annar af tveimur eigendum.  Við erum með starfstöðvar á Tálknafirði, Ísafirði og í Reykjavík.  Við sinnum ýmsum verkefnum á sjó og landi en stærsti hluti verkefna okkar tengist þjónustu við fiskeldi á Vestfjörðum.  Starfsmenn eru um 40 talsins og gerum við út nokkra báta ásamt mikið af sérhæfðum búnaði.  Það er gaman að taka þátt í uppbyggingu eldisins, sjá og finna hve mikil og góð áhrif það hefur á mannlífið þar sem það vær að vaxa og dafna.  Vona þó að eftir kosningar taki ekki við stjórn sem kaffærir hér fyrirtæki í sköttum því það er aldrei rétta leiðin.

Áfram Vestfirðir og Ísland allt.  Takk fyrir mig. 

Viðreisn: uppstilling í Norðvesturkjördæmi

Öll landshlutaráð Viðreisnar hafa nú ákveðið að það verði uppstilling á listum Viðreisnar fyrir komandi alþingiskosningar. Fundur var í þremur landshlutaráðum Viðreisnar í fyrrakvöld, Reykjavík, Suðvesturráði og Suðurráði. Einnig var fundur í Norðausturáði og Norðvesturráði í gærkvöldi.

Í tilkynningu frá Viðreisn segir að mikil umræða hafi verið um hvort fara ætti í uppstillingu eða prófkjör og mikill hugur í ráðunum að stefna næst að prófkjöri, þegar rýmri tími gefst til að raða á lista. Landshlutaráðin  fimm hafa jafnframt kosið sér uppstillinganefndir, sem hefja strax störf.

Þau sem áhugasöm eru um að vera á lista Viðreisnar í þessum kjördæmum geta skráð sig hér. Einnig er hægt að senda tölvupósta til uppstillingarnefndar í Norðvesturkjördæmi á netfangið: nordvestur@vidreisn.is.

Óskað er að tilnefningar berist fyrir laugardag, svo að uppstillinganefndir geti lokið störfum í næstu viku. Þá verða listar bornir undir landshlutaráð til samþykktar og stjórn Viðreisnar til staðfestingar.

Nýjustu fréttir