Fimmtudagur 16. janúar 2025
Síða 9

Þórsberg: verðhækkun veiðiheimilda skilar milljörðum króna

Þórsberg á Tálknafirði.

Mikil breytinga hefur orðið á eiginfjárstöðu Þórsberg ehf á Tálknafirði síðustu 10 árin. Fyrirtækið seldi á dögunum allan sinn kvóta fyrir 7,5 milljarða króna til Útgerðarfélags Reykjavíkur og miðað við efnahagsreikning 31.12. 2023 verður skuldlaus eign fyrirtækisins um 6,6 milljarðar króna að sölunni yfirstaðinni.

Þann 31. ágúst 2013 var eigið fé fyrirtækisins neikvætt um 546 m.kr. en í lok árs 2023 var það jákvætt um 2.950 m.kr. Staðan batnaði um 3,5 milljarða króna á einum áratug og reyndar enn meira sé tekið mið af því að söluverð aflaheimildanna er 3.368 m.kr. hærra en bókfært verð þeirra.

Við athugun á ársreikningum Þórsbergs sést að stærstur hlutinn af batnandi efnahag skýrist með verðhækkun á aflaheimildum á þessum tíma. En einnig skiptir máli að sum árin var góður hagnaður af rekstri, eignir voru seldar og tvisvar var hlutafé aukið og það greitt að mestu með veiðiheimildum.

Á árinu 2014 eru veiðiheimildir endurmetnar um 1.321 m.kr. sem tvöfaldar bókfært verðmæti þeirra. Við þá færslu eykst eigið fé. Það fór úr því að vera neikvætt um 546 m. kr. í það að vera jákvætt um 684 m.kr. Ári seinna lækkar það í 608 m.kr.

Á árinu 2015 og 2016 verða verulegar breytingar. Fiskvinnslu er hætt og bátur og kvóti í aflamarkskerfinu seldur. Í staðinn er keyptur kvóti og bátur í smábátakerfinu og stærstu eigendurnir leggja inn í Þórsberg útgerð krókaaflamarksbáts, Bergdís ehf. Verulegur hagnaður var af sölu kvótans, um 853 m.kr. og eigið fé Þórsbergs var í lok árs 2016 orðið 1.554 m.kr. og hækkaði um 900 m.kr. milli ára. Þá eru bókfærðar 762 m.kr. í veiðiheimildum sem koma til af samruna. Í félaginu Bergdísi eru hins vegar veiðiheimildir skráðar á 294 m.kr. Þarna munar 468 m.kr. sem er líklega verðhækkun veiðiheimilda.

Næst verða verulegar breytingar á árinu 2020 þegar Brim hf verður hluthafi í Þórsberg. Við það er selt nýtt hlutafé fyrir um 600 m.kr. og greitt með félaginu Grábrók, sem verður dótturfyrirtæki Þórsbergs.

Í næsta ársreikningi 2021 eru færða 468 m.kr. sem hækkun á verði veiðiheimilda og skýrt sem endurmat á veiðiheimildum dótturfyrirtækja. Loks má sjá að í síðasta ársreikningi sem er fyrir 2023 eru færðar 236 m.kr. vegna endurmats veiðiheimilda.

Samandregið þá virðast um 2,5 milljarðar króna af um 3,5 milljarða króna viðsnúningi á eiginfjárstöðu fyrirtækisins vera tilkomnar vegna endurmats eða verðhækkunar á veiðiheimildum, sem væntanlega endurspeglar verðþróunina síðasta áratuginn.

Salan á kvótanum til Útgerðarfélags Reykjavíkur bæti liðlega 3 milljörðum króna við, þar sem verðið á kvótanum er því sem nemur hærra en bókfærða verðið á veiðheimildunum.

Þróun sem ekki er lokið

Þetta eru miklar verðhækkanir á kvóta á aðeins einum áratug. Það væri skammsýni að ætla að þessari þróun sé lokið. Öðru nær sagan síðustu 30 árin hefur sýnt að verðið á veiðiheimildum heldur bara áfram að hækka. Fyrir 30 árum kom það mönnum í opna skjöldu að greitt var fyrir kvóta í Bolungavík meira en 100 kr. pr.kg af þorski. Það hafði verið talið óhugsandi. Nú eru greiddar um 5.000 kr. fyrir kg og það í krókaaflamarkskerfinu, sem er nokkuð ódýrara en í aflamarkskerfinu.

Það eru mikil verðmæti fólgin í veiðiréttinum. Það er líka rétt að árétta að það er vegna þess að dugmiklir útgerðarmenn standa að fyrirtækjunum og standa sig vel.

En það eru fleiri sem eiga mikilla hagsmuna að gæta. Í laxeldinu hafa stjónvöld viðurkennt rétt byggðarlaganna til nýtingar auðlindarinnar og arðs af starfseminni. Það sama á auðvitað við í fiskveiðunum. Byggðarlögin eiga skilyrðislausan rétt til nýtingar á fiskimiðunum og drjúgan skerf af því sem greitt er fyrir veiðiréttinn.

Vestfirðingar eiga mikið undir því að í þessum efnum verði umtalsverð viðhorfsbreyting.

Blómstrandi byggð blasir við á Vestfjörðum ef rétt er á málum haldið.

-k

HSV: skráning iðkenda alls konar – vegna lottó

Sigurður Jón Hreinsson, formaður stjórnar HSV hefur svarað Ingibjörgu Elínu Magnúsdóttur, varaformanni sem sagði sig úr stjórn HSV í síðustu viku. Eitt af því sem Ingibjörg gagnrýndi var að endurskoða þurfi skráðann fjölda iðkenda en meiningar hafa verið settar fram um að íþróttafélagið Hörður skrái ranglega börn og unglinga sem iðkendur. Segir Ingibjörg í pósti sínum að formaðurinn hafi ekki viljað taka þetta mál fyrir.

Sigurður Jón svarar þessu sérstaklega og segir að það hafi það verið vitað í mörg ár að skráningar iðkenda hjá íþróttafélögum hafi verið alls konar, í þeim tilgangi að félög auki sinn hlut í lottógreiðslum.  Þetta eigi við um öll íþróttafélög á landinu og sé „megin ástæðan fyrir því að hætt var að nota Felix og farið yfir í Sportabler“ sem væntanlega er einhvers konar skráningarkerfi.  Ef fara eigi yfir skráða iðkendur, verði að gera það hjá öllum félögum, ekki bara einu. 

„Skráðir iðkendur hjá félögum innan HSV eru um 1900.  Við höfum ekki starfsmann til að vinna þetta verkefni og ég ætla mér ekki að bæta því ofan á önnur verkefni.  Þá eru mestar líkur á því að málið sé hvort eð er að leysast, þar sem flest félög eru farin að nota Sportabler og líkur eru á að hægt sé að fá aðgang að kerfinu í gegnum aðgang Ísafjarðarbæjar fyrir lægri upphæð en ella.  Líklegast er að í tillögu um nýjar úthlutunarreglur lottórgreiðsla, verði gerð krafa um notkun á Sportabler, en það er umræða fyrir næsta ársþing.“

Á formannafundi félaga innan HSV um miðjan nóvember sl. voru gerðar athugasemdir við tölur um iðkendafjölda sem væru svo aftur forsenda fyrir greiðslum til einstakra félaga. Fram kom að skrifstofa UMFÍ/ÍSÍ muni kanna hvort hægt sé að fara í einhverja áreiðanleikakönnun á þessum tölum.

Stjórn HSV var falið að koma með tillögu fyrir næsta formannafund að breytingu á lögum sambandsins varðandi úthlutunarreglur.

Fram kom á þessum formannafundi að greiðslur vegna lottó muni dragast saman um 2/3 vegna breyttra úthlutunarreglna á landsvísu. Auk greiðsla frá lottó þá greiðir Ísafjarðarbær samkvæmt samstarfssamningi HSV og Ísafjarðarbæjar 2,5 milljón króna á þessu ári í beina rekstrarstyrki til íþróttafélaganna og á sú upphæð að vera vísitölutryggð næstu árin.

Mín sparnaðarráð til nýrrar ríkisstjórnar

Valkyrjurnar auglýsa nú eftir tillögum frá almenningi til sparnaðar í ríkisrekstri. Það er gott og vel að hann skuli hafður með í ráðum sem bendir til að nú eigi að hafa hag heildarinnar að leiðarljósi.

Mér sýnist hins vegar á þeim tillögum sem nefndar hafa verið að menn séu að vaða flórinn í leit að spörðum.

Ég hef lengi verið gagnrýnin á alla þá verktakaþjónustu sem ríkið er að kaupa þar sem ég efast um að hún feli í sér sparnað.

Við viljum flest að ríkið veiti og standi vörð um alla grunnþjónustu svo sem heilbrigðis og félagsþjónustu og greiðan aðgang fyrir alla að menntastofnunum og að viðhaldi á gatnakerfi landsins sé treystandi ekki síst þar sem um langan veg er að fara eftir bjargráðum.

En það sem við teljum til grunnþjónustu kallar frjálshyggjan gjarnan bákn og bendir á að ríkið eigi ekki að standa í atvinnurekstri í samkeppni við einkaframtakið.

Frjálshyggjan sem lengst af hefur haldið um stjórnartaumana hér á landi hefur því í gegnum tíðina verið að innleiða verktakaþjónustu undir því yfirskini að minnka ríkisbáknið og spara fé.

En góðir hálsar ríkið borgar hvernig svo sem fyrirkomulaginu er háttað. Í gegnum verktakana má ætla að kostnaðurinn verði meiri því þeir eru ekkert annað en milliliðir – oft fokdýrir milliliðir sem geta rústað heilu atvinnugreinunum eins og við höfum orðið vitni af í landbúnði og fundið fyrir í matarinnkaupum.

Ef við skoðum heilbrigðiskerfið sem sennilega er að jafnaði er dýrasti þátturinn í ríkisrekstrinum þá má finna verktöku þar víða. Þvottur, þrif og eldhús eru í verktöku á Landspítalanum sem og á heilbrigðisstofnunum út á landi. Það hefur aldrei verið sýnt fram á að í þessu felist sparnaður – ríkið greiðir launin eftir sem áður en nú í gegnum verktaka sem skammta sér svo þóknun fyrir vikið að geðþótta.

Svo er það læknastéttin sem hefur í vaxandi mæli farið út í verktöku – sérfræðilæknar vinna þá sem verktakar inn á stofnunum samkvæmt eigin töxtum. Eins og kom fram í Kveik fyrir nokkrum árum þá voru sérfræðilæknar í verktöku að rukka Sjúkratryggingar Íslands um 700.000 kr á dag að meðaltali.

Spurning hvort núverandi heilbrigðisráðherra og fyrrverandi landlæknir muni sjá ástæðu til að rýna í þetta í þágu þjóðarhagsmuna og þá einnig að skoða ríkisstyrktan einkarekstur í heilbrigðisþjónustu eins og til dæmis hjúkrunarheimilin.

Það kom fram í fréttum um svipað leiti og áður nefndur þáttur var á dagskrá að hver vistmaður kostaði um tvær milljónir á mánuði – það gera um 70.000 kr á dag. Og hverjir haldið þið svo að borgi þetta aðrir en skattgreiðendur í gegnum verktöku sem í þessu tilfelli kallast ríkisstyrktur einkarekstur – auk þess að greiða fyrir viðhald á húsakosti.

Spurning hvort við höfum efni á að reka heilbrigðisþjónustu upp á þessi bítti.

Ég veit ekki hvernig fyrirkomulagið er í skólum landsins er varðar verktöku en mig grunar að eldhúsin hjá þeim séu á höndu verktaka og þá kannski ekki alltaf með sparnaðarsjónarmið í huga.

Fyrir margt löngu þegar verktakaþjónusta var að byrja að hreiðra um sig í öllum kimum þjóðfélagsins þá var til umræðu að bjóða út eldhús Grunnskólans á Ísafirði og til stóð að taka tilboði frá verktaka í Reykjavík og fljúga með matinn vestur daglega með áætlunarflugi. Þetta var svo galin hugmynd og svo gjörsamlega óframkvæmanleg og svo augljóst að í þessu væri enginn sparnaður – því er freistandi að ætla að þarna hafi átt að hygla einhverjum besta vini aðal á kostnað almannahagsmuna eins og svo oft hefur viljað til í okkar einkavinafrændhyglisþjóðfélagi allar götur.

Lengi vel hélt ég að ekkert gæti toppað sérfræðilækna í þessu efnum eða þar til að kostnaðurinn við varnargarðana við Grindavík fór að opinberast landslýð – en síðustu fréttir herma að hann sé komin yfir átta milljarða.

Ætla má að þarna sé verið að rukka vel ríflega ef hlutirnir eru skoðaðir með jarðgangnagerð til hliðsjónar. Það hefur tekið um 2-3 ár að bora göng hér á landi með flóknum og dýrum tækjabúnaði og hálfu fjöllunum hefur verið ekið á brott til uppfyllingar annars staðar og efniskostnaður af ýmsum toga verið mikill – ekkert af þessu er hins vegar til að dreifa þegar kemur að gerð varnargarðanna við Grindavík – öll efnistaka á staðnum frí – svo þessir átta milljarðar eru þá  að mestu launakostnaður – dælubúnaður sem fengin var til að kæla niður hraunið getur ekki spilað stóra rullu í þessu dæmi.

Eitt vitum við fyrir víst að hér er allt í hönk og að misskipting lífsgæða hefur sjaldan eða aldrei verið meiri – við vitum minna um raunverulegar ástæður en okkur grunar þó sterklega að rótgróin sérhagsmunaspillingin eigi stóru sökina í félagi við vilhöll og meðvirk stjórnvöld.

Það er auðveldara að innleiða ólög heldur en að afnema þau – það hefur íslensk sjávarútvegsstefna sannað fyrir okkur.

Þegar núverandi sjávarútvegsstefna var í smíðum var okkur sem höfðum sitthvað við hana að athuga sagt að fleira væri til en fiskarnir í sjónum – 40 árum seinna birtist svo auglýsing frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi í Ríkissjónvarpinu nú rétt fyrir jólin þar sem landanum er gerð grein fyrir mikilvægi sjávarútvegs fyrir íslenskt samfélag og þar var fullyrt að fiskurinn væri allt og í öllu nema derhúfu.

Ísland var byggt upp fyrir arðinn af sjávarauðlindinni en eftir að stefnan í sjávarútvegsmálum  var sérsniðin að óskum fárra útvalinna þá hafa ekki verið til peningar til að viðhalda því sem áður hafði verið áorkað. Arðbærar eigur ríkisins hafa því verið seldar til að fjármagna framkvæmdir – í sumum tilfellum þeim sem sem fengu arðbærustu auðlind þjóðarinnar upp í hendurnar á silfurfati.

Það þarf ekki grjótharða skynsemi til að sjá að þetta er algert flopp – dæmi sem einfaldlega mun aldrei ríkja sátt um.

Nei, frjálshyggjan gengur ekki upp – hún gengur út á frelsi fárra til að mergsjúga fjöldann – oftar en ekki í skjóli meðvirkra stjórnvalda – sem gjarnan loka augunum fyrir valdníðslu og kúgun sem fylgir auðvaldinu eins og skugginn.

Einkavæðingin eru ær og kýr frjálshyggjunar – sem grefur undan öllu sem hún kemur nálægt – í krafti auð síns tekur hún sér völd yfir almenningi um leið og hún hefur sig yfir lög og reglur samfélagsins með þeim afleiðingum að almennt siðferði þynnist út og þá um leið virðing og samkennd.

Það verða til tvær þjóðir í landinu – önnur sem nýtur forréttinda og hin sem á í auðmýkt og nægjusemi að þjóna.

Það er sannarlega virðingarvert af nýrri ríkisstjórn að opna faðm sinn fyrir fólkinu í landinu og bjóða því til skrafs og ráðagerða því til hagsbóta – það er að segja ef meiningin er sönn og upp borin af heilum hug.

Ég reynsluboltinn með mínar efasemdir hef láti mér detta í hug að aðeins sé verið að kanna hvar þolmörk þjóðarinnar liggi sem og siðferðisvitund og þá hversu langt enn megi ganga gagnvart henni.

Í raun er almenningur hér á landi svo til réttlaus og því varnarlaus gagnvart yfirgangi þeirra sem telja forréttindi sín sjálfsögð.

Að svipta fólk rétti sínu í einu og öllu er niðurbrot og þegar niðurbrot hefur átt sér stað er oft stutt í ofbeldi sem gripið er til þegar ekki er hlustað – bara endalaust troðið á sjálfsvirðingu manna og rétti.

Það er ekki ósjaldan sem fréttir berast af voðaverkum framin af örvæntingafullu fólki og jafnvel börnum. Við lítum svo á að þarna séu afar sjúkir einstaklingar á ferð sem eflaust er rétt – en við hugsum minna um hvað hafi hrakið þessar hrjáðu sálir út af sporinu.

Við mótumst öll meira og minna af samfélagi okkar í nærumhverfi – sumir sjá hnökrana og hafa styrk til að sporna á móti á meðan aðrir veiklundaðri lepja upp ósiðina og sogast inn í hringiðu óheilbrigðs félagsskapar annað hvort sem gerendur í harðri samkeppni um lífsgæðin eða sem þolendur.

Okkur flestum hryllir við þessum voðaverkum en til eru undantekningar eins og til dæmis þegar auðmaður einn í Bandaríkjunum var myrtur ekki fyrir svo löngu – gerandinn í því tilfelli er nú hylltur sem þjóðhetja þar í landi – landi frjálshyggjunnar.

Sú staðreynd er tvímælalaust vísbending um að þolumæði almennings gagnvart sjálftöku fari þverrandi í heiminum sem eflaust má rekja til þess að gjáin milli auðs og örbyrgðar er sífellt að breikka. Fáir spóa til sín fjármunum oft í gegnum einkanýtingu auðlinda á sama tíma og auknar byrðar eru lagðar á herðar almenningi.

Það er sagt að ósiðir í öðrum löndum taki sér á endanum bólfestu hér út á hjara – svo til að reyna að koma í veg fyrir ofbeldisverk framin í örvæntingu legg ég til að sjávarútvegsstefna þjóðarinnar verði endurskoðuð í sátt við hana og að farið verði ofan í saumana á ríkisstyrktum einkarekstri sem og verktakaþjónustu allri á vegum ríkisins.

Hver króna sem safnast í sjóði auðvaldsins getur hvenær sem er orðið sem sprek borið að ófriðarbáli – sem á endanum getur leitt til borgarastyrjaldar – hvar sem er.

Við skulum ekki gleyma því sem var undirrótin að frönsku byltingunni.

Það þykir ekki lengur fínt að vera flottræfill sem lifir á eymd annarra.

Lifið heil !

Vilhelmína H. Guðmundsdóttir

Lífsreyndur eldri borgari.

Andlát: Arnar Geir Hinriksson

Látinn er Arnar Geir Hinriksson, lögfræðingur frá Ísafirði. Hann lést af slysförum í gær.

Arnar Geir var fæddur 1939 á Ísafirði. Foreldrar hans voru Hinrik Guðmundsson og Elisabet Hálfdánardóttir. Ólst hann upp á Eyrinni og var mörg sumur í sveit hjá Ágúst móðurbróður sínum sem bjó á Eyri við Seyðisfjörð. Að loknu landsprófi í skóla Hannibals Valdimarssonar fór hann í Menntaskólann á Akureyri og útskrifaðist þaðan. Síðan lá leiðin í Háskóla Íslands og lauk hann embættisprófi í lögfræði 1966.

1974 sneri Arnar Geir aftur vestur fyrst um sinn sem háseti á Páli Pálssyni ÍS en opnaði svo lögfræðistofu á Ísafirði og rak hana um langt árabil.

Árið 2006 um páskana varð hann fyrir slysi á skíðum á Ísafirði og lamaðist. Bjó hann eftir það fyrir sunnan.

Arnar var árum saman í hópi bestu bridgespilara á Vestfjörðum og keppti í bridge ásamt Einari Val Kristjánssyni á fjölmörgum mótum. Arnar varð Íslandsmeistari í einmenningi 1996.

Byr í seglum Vestfirðinga

Guðrún Anna Finnbogadóttir. Mynd: Vestfjarðastofa.

Í nýjasta fréttabréfi Vestfjarðastofu er farið yfir liðið ár og verkefnin framundan.

Guðrún Anna Finnbogadóttir er teymisstjóri í atvinnu- og byggðaþróun og hún segir í pistli sínum að fjölmörg verkefni hafi verið á borðinu. nefnir hún m.a. skógrækt, fiskeldi, sjávarútveg, þörungar, skólamál, Þekkingarsetrið Vatneyrarbúð á Patreksfirði, samfélagsmál, Sóknarhópur Vestfjarða, loftslagsmál, hringrásarmál og áburðarframleiðslu.

Um verkefnin segir hún að mjög margt hafi tekist vel og sumt framar vonum.

Um stöðuna segir Guðrún:

„Það er gott að finna að það er byr í seglum Vestfirðinga og það auðveldar okkur að takast á við þær áskoranir sem við eigum í. Úrbætur innviða, efling atvinnulífs og efling samfélagana gerir okkur kleift að sigla áfram til bjartrar framtíðar.“

Strandabyggð: hótelbygging í undirbúningi

Nýja réttin í Kollafirði í byggingu. Mynd: Strandabyggð.

Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri í Strandabyggð segir í áramótapistli sem hann birtir á vefsíðu sveitarféagsins að á síðasta ári hafi samhliða endurgerð aðalskipulags verið unnið deiliskipulag að svokölluðum hótelreit og næsta nágrennis við Íþróttamiðstöðina og félagsheimilið.  Deiliskipulagið og hóteláformin fara í kynningu á fyrstu vikum næsta árs.

Endurbygging grunnskólans

Fyrsta málið sem Þorgeir nefnir er endurbygging Grunnskólans á Hólmavík eftr að upp kom myngla í húsnæðinu. Á árinu var Grunnskólann opnaður að nýju, eftir tveggja ára framkvæmdir.  Kostnaður helypur á hundruðum milljóna króna. „Mikil ánægja er með hvernig til tókst og nú eru allir undir sama þaki í nútímalegu skólaumhverfi.  Þetta var risavaxið verkefni sem við sem samfélag fengum í fangið í lok nóvember 2022, en með samstöðu allra og áræðni sveitarstjórnar, tókst að opna yngri hluta grunnskólans við upphaf skólaárs nú í ágúst.  Ekki liggur fyrir hvenær framkvæmdir við eldri hlutann hefjast.“

Réttarsmíði lokið

Á haustdögum reis ný rétt í Kollafirði, í landi Litla Fjarðarhorns.  Þar með er lokið réttarsmíði í Strandabyggð og hefur núverandi sveitarstjórn þar með staðið fyrir smíði þriggja rétta það sem af er kjörtímabilinu; í Staðardal, Bitrufirði og nú síðast í Kollafirði.

Raðhús á Hólmavík

Nýtt fjögurra íbúða raðhús, er nú risið á Hólmavík.  Það er Brák íbúðafélag sem stendur að byggingunni, en Strandabyggð leggur til lóð undir húsið og greiðir stofnframlag.  Húsið rís á lóðinni sem áður hýsti Lillaróló, og verður hann því endurgerður á nýjum stað, við ærslabelginn hjá félagsheimilinu.

Nýtt húsnæði Björgunarsveitarinnar

Nýtt hús Björgunarsveitarinnar Dagrenningar, er nú risið á Skeiðinu og er hið mesta prýði að sögn Þorgeirs.  Húsið gerbreytir aðstöðu björgunarsveitarinnar og skapaði um leið nýtt tækifæri, með sölu á gamla húsinu, eins og fram hefur komið.  Sveitarfélagið studdi við þessa uppbyggingu með beinum hætti.  

Fiskvinnsla og aukin útgerð á Hólmavík

Þá nefnir Þorgeir að ný fyrirtæki í veiðum og vinnslu (Vilji fiskverkun ehf.) tóku til starfa á árinu, í tengslum við úthlutun á 500 tonna sértækum byggðakvóta Byggðastofnunar til Strandabyggðar, fyrst á vordögum og síðan aftur og árlega næstu ár.  „Sveitarstjórn beitti sér fyrir því, með aðstoð þingmanna kjördæmisins, að hingað kæmi sértækur byggðakvóti.  Það voru síðan dugmiklir útgerðaraðilar á Hólmavík sem koma saman að veiðum og vinnslu á þessum sértæka byggðakvóta.  Þessi nýja staða í sjávarútvegi í Strandabyggð skiptir gríðarlega mikli máli fyrir samfélagið, atvinnu- og verðmætasköpun þess.“

Margt fleira nefnir Þorgeir Pálsson í pistlinum um framfaramál í sveitarfélaginu.

HSV : stjórnin sendi miðlunartillögu til Ísafjarðarbæjar

Íþróttahúsið á Torfnesi.

Stjótn Hérraðssambands vestfjarða sendi rétt fyrir áramót tillögu sína til Ísafjarðarbæjar um breytingar á úthlutun tíma til íþróttafélaga í íþróttahúsinu á Torfnesi og í Bolungavík.

Handknattleiksdeild Harðar hefur gert athugasemdir við fáa tíma að kvöldi til og telur halla mjög á sig gagnvart öðrum deildum sem halda úti liði í meirstaraflokki, sem eru körfuknattleiksdeild Vestra og blakdeild Vestra.

Sigurður Jón Hreinsson, formaður HSV segir að ekki hafi fengist rökstuðningur frá Ísafjarðarbæ fyrir úthlutuninni og minnir hann á ályktun stjórnar um málið. Vonast hann til þess að takist að ná sáttum í málinu.

Hann segir að tillagan sem send var fyrir áramótin miði að því að fjölga úthlutuðum tímum og beina fjölguninni til Harðar.

Það er skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd sem fær erindið og mun taka það fyrir á næstunni.

Núpskirkja í Dýrafirði

Núpur er fornt höfuðból og kirkjustaður við norðanverðan Dýrafjörð. Núpur tilheyrði áður Dýrafjarðarþingum en nú er þar útkirkja frá Þingeyri. Núverandi kirkja var reist úr steinsteypu á árunum 1938-1939.

Allar innréttingar eru gerðar eftir teikningu og fyrirsögn séra Sigtryggs Guðlaugssonar á Núpi, en útskorin tákn og letur á prédikunarstól, grátum og kirkjubekkjum, gerði Guðmundur Jónsson myndskeri frá Mosdal í Önundarfirði.

Núpskirkja á marga góða gripi en merkastir munu vera kaleikur og patína frá 1774, skírnarskál úr tini og skírnarfontur, skorinn af Ríkarði Jónssyni myndskera.

Á fyrri hluta 20. aldar var séra Sigtryggur Guðlaugsson prestur á Núpi. Hann stofnaði þar ungmennaskóla og kom upp snotrum skrúðgarði á Núpi er nefnist Skrúður. Þar hefur verið reist stytta til minningar um hann og konu hans, Hjaltlínu Guðjónsdóttur.

Af vefsíðunni thingeyri.is

Samanburður á orkukostnaði heimila árið 2024

Líkt og undanfarin ár hefur Byggðastofnun fengið Orkustofnun til að reikna út árlegan kostnað við raforkunotkun og húshitun á sömu fasteigninni á flestum þéttbýlisstöðum og í dreifbýli.

Viðmiðunareignin er einbýlishús, 140 m² að grunnfleti og 350m³. Almenn raforkunotkun er sú raforka sem er notuð í annað en að hita upp húsnæði, s.s. ljós og heimilistæki, en miðað er við 4.500 kWst í almennri rafmagnsnotkun og 28.400 kWst við húshitun án varmadælu en 14.200 kWst með varmadælu.

Lægsta mögulega raforkuverð fyrir viðmiðunareignina, með flutnings- og dreifingarkostnaði, fæst hjá Veitum á höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi, um 99 þ.kr. 

Hæsta gjald í skilgreindu þéttbýli er um 119 þ.kr. hjá Orkubúi Vestfjarða en raforkuverð eru hærri í dreifbýli, hjá RARIK og Orkubúi Vestfjarða, eða um 136-141 þ.kr. á ári fyrir viðmiðunareign.

Bilið milli raforkuverðs í þéttbýli og dreifbýli minnkaði mikið árið 2021 vegna aukins dreifbýlisframlags en árið 2024 jókst það aftur nokkuð. Árið 2024 hækkaði raforkuverð fyrir viðmiðunareign í þéttbýli um 4,5-7,8%, nema hjá HS Veitum þar sem raforkuverð lækkaði um 2,5%. Í dreifbýli hækkaði raforkuverð viðmiðunareignar hins vegar meira, eða um 7,7% hjá RARIK og 14,9% hjá Orkubúi Vestfjarða.

Þegar kemur að húshitunarkostnaði er munurinn á milli svæða mun meiri en á raforkuverði. Lægsti mögulegi kostnaður þar sem húshitun er dýrust er um þrefalt hærri en þar sem hún er ódýrust. Húshitunarkostnaður var fram til ársins 2021 hæstur á stöðum þar sem þarf að notast við beina rafhitun. Lægsta verð fyrir húshitun með rafmagni hefur þó lækkað talsvert síðustu ár, m.a. vegna niðurgreiðslna á dreifi- og flutningskostnaði. Sú þróun hefur gert það að verkum að lægsti mögulegi kostnaður fyrir beina rafhitun er nú orðinn lægri en þar sem eru dýrar hitaveitur.

Lægsti húshitunarkostnaður fyrir viðmiðunareign er í Brautarholti á Skeiðum 75 þ.kr. og á Flúðum um 83 þ.kr. Hæsti húshitunarkostnaðurinn er í Grímsey um 281 þ.kr., þar sem er olíukynding. Þar fyrir utan er húshitunarkostnaður fyrir viðmiðunareign hæstur 252 þ.kr. á Grenivík og 243 þ.kr. á Höfn og í Nesjahverfi í Hornafirði.


Heildarorkukostnaður, þ.e.a.s. raforku- og húshitunarkostnaður viðmiðunareignar, er hæstur í Grímsey 427 þ.kr. þar sem rafmagn er framleitt með díselrafstöð og húsin kynt með olíu. Þar fyrir utan er heildarkostnaður hæstur í Nesjahverfi í Hornafirði 378 þ.kr. og á Grenivík 364 þ.kr. Þar næst koma staðir með rafhitun sem skilgreinast jafnframt sem dreifbýli hvað raforkudreifingu varðar, þ.e. Súðavík, Bakkafjörður og Borgarfjörður eystri. Lægsti heildarorkukostnaður landsins er á Flúðum 195 þ.kr. en þar næst í Laugarási 200 þ.kr.

Nýjar ríkisstofnanir

Um áramótin tóku til starfa nýjar stofnanir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins  Umhverfis- og orkustofnun og Náttúruverndarstofnun.

Ný Umhverfis- og orkustofnun, hefur þar með tekið við starfsemi Orkustofnunar og hluta af starfsemi Umhverfisstofnunar, og fer nú með stjórnsýslu loftslags-, umhverfis- og orkumála og málefni auðlindanýtingar. Auk þess starfar Raforkueftirlitið sem sjálfstæð eining undir stofnuninni.  

Ný náttúruverndarstofnun, hefur tekið við Vatnajökulsþjóðgarði og starfsemi náttúruverndarsviðs Umhverfisstofnunar auk lífríkis og veiðistjórnunarhluta hennar.

Náttúruverndarstofnun fer með stjórnsýslu, eftirlit og önnur verkefni á sviði náttúruverndar og sjálfbærrar þróunar og á sviði friðlýstra svæða, þ.m.t. Vatnajökulsþjóðgarðs og Snæfellsjökulsþjóðgarðs, sem og vernd villtra fugla og spendýra. Þá sinnir stofnunin eftirliti og samhæfingu í skipulagi svæðisbundinnar stjórnunar og verndar.

Sigrún Ágústsdóttir var í september skipuð forstjóri Náttúruverndarstofnunar og Gestur Pétursson forstjóri Umhverfis- og orkustofnunar.

Nýjustu fréttir