Síða 9

Bókmenntahátíð á Flateyri

Flateyri.

Bókmenntahátíð Flateyrar verður til í hjarta Karíba, sjálfstæðs forlags með aðsetur á Flateyri.

Hugmyndin að þessari hátíð er að færa rithöfunda og lesendur saman í afskekkta þorpinu Flateyri, sem er staðsett í hinum stórbrotna Önundarfirði.

Í fjóra daga munum við fagna bókmenntum og fjölbreytileika með fjölbreyttri dagskrá fyrir börn og fullorðna. Allir eru velkomnir til að njóta fjölda viðburða ásamt list- og bókmenntasýninga sem verða í gangi allan tímann og þessi hátíð er ókeypis.

Barnadagskráin leggur sérstaka áherslu á fjölbreytileika, og verður meðal annars boðið upp á viðburði tengda barnabókmenntum eftir höfunda úr minnihlutahópum á Íslandi.

Þessir hópar eru meðal annars af ólíkum þjóðernum, trúarhópum, kynhneigðum og kynvitundum. Dagskráin er hluti af Demos Culture verkefninu í samstarfi við Norðurlöndin.


Dagskrá fullorðinna einblínir á bókmenntir sem vettvang þar sem við getum öll hist og haldið upp á menninguna saman.

Lóa býður nýsköpunarstyrki

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í Lóu – nýsköpunarstyrki fyrir landsbyggðina. 

Lóa eru nýsköpunarstyrkir sem hafa það hlutverk að styðja við eflingu byggða og landshluta með nýskapandi verkefnum. Styrkjunum er aðeins úthlutað til verkefna utan höfuðborgarsvæðisins í þeim tilgangi að styðja við atvinnulíf og verðmætasköpun sem byggir á hugviti, þekkingu og nýrri færni.

Að þessu sinni er sérstök áhersla lögð á verkefni sem fela í sér hagnýtingu stafrænna lausna, þróun og nýtingu tæknilausna í heilbrigðismálum og verkefni sem stuðla að sjálfbærri nýtingu auðlinda eða afurða á nýskapandi hátt.

Sjóðurinn er ætlaður verkefnum sem komin eru af byrjunarstigi og er heildarfjárhæð hans í ár 100 milljónir króna. 

Umsóknarfrestur er til og með 30. mars 2025.

50 ár frá friðlýsingu Hornstranda

Þann 27. febrúar 1975 voru Hornstrandir, Aðalvík, Rekavík bak Látur og Fljótavík ásamt hluta Jökulfjarða friðlýst sem friðland.

Friðlandið er 581 ferkílómetrar að stærð og eitt af aðaleinkennum friðlandsins er hve afskekkt það er og lítið mótað af umsvifum og ágangi manna. Nú er svæðinu stýrt sem óbyggðu víðerni, enda uppfyllir svæðið öll viðmið til að falla í þann flokk. En svæði í þessum flokki er skilgreind sem víðfeðm óbyggða- eða eyðibyggðasvæði sem eru lítt eða ekkert röskuð af hálfu manna og hafa haldið sínum náttúrulegu einkennum. Þau eiga að bjóða upp á tæifæri til að upplifa einveru, eftir að komið er inn á svæðið, með hljóðlátum og lítið truflandi feðravenjum. Þau geta verð opin fyrir gesti sem eru tilbúnir til að til að ferðast á eigin vegum, fótgangandi eða með bátum.

Gestir svæðisins eru þeir sem búa yfir reynslu og búnaði til að takast á við það veðurfar og aðstæður sem eru að finna á þessum svæðum, án utanaðkomandi aðstoðar.

Markmið friðlðýsingarinnar á Hornströndum er að vernda lífríki, jarðminjar og menningarminjar svæðisins en friðlandið hefur hátt verndargildi bæði á íslenskan og alþjóðlegan mælikvarða, þar sem svæðið er mikilvægt búsvæði fyrir fjölda fuglategunda, ekki síst sjófugla, auk þess sem friðlandið er eitt mikilvægasta búsvæði refa í Evrópu.

Gestakomur hafa ávallt verið yfir sumartímann en undanfarin ár hefur þeim fjölgað mikið sem heimsækja svæðið sem og ferðatíminn hefur lengst. Nú allra síðustu ár hafa um og yfir 10.000 gestir heimsótt svæðið yfir sumartímann.

Til að halda upp á þennan merka áfanga mun Náttúruverndarstofnun ásamt Hornstrandanefnd standa fyrir málþingi um friðland á Hornströndum í maí næst komandi

Skrif­að undir verk­samn­ing vegna 3. áfanga Dynj­andis­heiðar

Arndís Ósk Ólafsdóttir Arnalds, framkvæmdastjóri mannvirkjasviðs Vegagerðarinnar , og Atli Þór Jóhannsson, framkvæmdastjóri Borgarverks, skrifuðu undir verksamning vegna þriðja áfanga Dynjandisheiða

Arndís Ósk Ólafsdóttir Arnalds, framkvæmdastjóri mannvirkjasviðs Vegagerðarinnar, og Atli Þór  Jóhannsson, framkvæmdastjóri Borgarverks, skrifuðu undir verksamning þann 4. mars, vegna verksins; Vestfjarðavegur um Dynjandisheiði, 3. áfangi.

Verkið felst í nýbyggingu Vestfjarðarvegar á um 7,2 km kafla, ásamt um 0,8 km kafla á Dynjandavegi. Vegurinn verður að mestu leyti byggður í nýju vegstæði en að hluta til í núverandi vegstæði. Inn í verkinu er einnig gerð keðjunarplans og gerð áningarstaðs.

Verktaki mun hefjast handa innan skamms en Borgarverk sinnir þegar tveimur öðrum framkvæmdaverkum á svipuðum slóðum, annars vegar fyllingum vegna þverunar Gufufjarðar og Djúpafjarðar og hins vegar verkefni við varnargarða nærri Flateyri.

Verkinu skal að fullu lokið 30. september 2026.

Tölvugerðar myndir af fyrirhuguðum framkvæmdum

Í 1. áfanga verksins var byggður upp 7,7 km kafli við Þverdalsá og einnig um 4,3 km kafli fyrir Meðalnes. Þær framkvæmdir stóðu yfir frá 2020-2022. Þá bættist einnig við um 650 m kafli á Bíldudalsvegi. Auk þess var um 1 km kafli frá Pennu niður að Flókalundi lagfærður.

Í 2. áfanga verksins fólst nýbygging Vestfjarðavegar á um 12,6 km löngum kafla. Sú framkvæmd náði frá Norðdalsá, norðan Bíldudalsgatnamóta, og lá um hæsta hluta Dynjandisheiðar og norður fyrir sýslumörk. Vegurinn var að mestu leyti byggður í nýju vegstæði en að hluta til í gamla vegstæðinu. Inni í því verki var einnig gerð námuvegar að námu í Trölladal og gerð áningarstaðar. Verklok 2. áfanga voru árið 2024.

Bolungavík: vonbrigði með stöðu innanlandsflugs

Ráðhúsið í Bolungavík.

Bæjarráð Bolungavíkur lýsir yfir miklum vonbrigðum með stöðu innanlandsflugs til og frá norðanverðum Vestfjörðum. Í bókun bæjarráðsins sem samþykkt var á fundi þess í gær segir :

„Flugsamgöngur til og frá svæðinu eru einu almenningssamgöngur við svæðið og treystir samfélagið á þessa þjónustu í daglegu lífi.

hagkvæmisrök á kostnað landsbyggðarinnar

Ísland hefur síðustu áratugi verið byggt á þann veg að landsbyggðin treystir á að geta sótt þjónustu til höfuðborgarsvæðisins. Heilbrigðisþjónusta, flutningar, verslun, menning og ferðalög eru dæmi um þjónustu og innviði sem fara að stórum hluta í gegnum höfuðborgarsvæðið. Fyrir þessu hafa verið færð margvísleg hagkvæmnisrök sem oft á tíðum eru þó, þegar allt kemur til alls, á kostnað íbúa landsbyggðarinnar.

treyst á gott aðgengi að höfuðborgarsvæðinu

Landsbyggðin og Bolvíkingar þar með taldir, treysta á gott, hagkvæmt og stöðugt aðgengi að höfuðborgarsvæðinu. Það er skylda höfuðborgarinnar og stjórnvalda að tryggja þetta aðgengi með öllum þeim ráðum sem í boði eru.

Bæjarráð Bolungarvíkur skorar á stjórnvöld að rækja skyldur sýnar og tryggja íbúum á norðanverðum Vestfjörðum aðgengi að höfuðborgarsvæðinu, þ.m.t. með flugsamgöngum. Eða að öðrum kosti snúa þróuninni við að færa þjónustuna aftur til landsbyggðarinnar.“

Alþingi: tillaga um staðarval fyrir nýjan flugvöll fyrir Vestfirði

Hugmyndir Landhelgisgæslunnar um staðsetningu á nýjum flugvelli

Í september 2018 var lögð fram á Alþingi tillaga um staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum. Flutningsmenn voru þrír alþingismenn Norðvesturkjördæmis Guðjón S. Brjánsson (S), Haraldur Benediktsson (D) og Halla Signý Kristjánsdóttir (B).

Lagt var til að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að ráðast í staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll fyrir Vestfjarðafjórðung sem taki mið af vaxandi ferðamannastraumi, aukinni matvælaframleiðslu, iðnaði og þörf fyrir flutning aðfanga og afurða, bæði innan lands og utan. Í könnuninni felist langtímaveðurfarsmælingar og mat á náttúrulegum aðstæðum. Þá verði hagkvæmni staðsetningar metin með þarfir fjórðungsins í huga þegar jarðgöng og vegaframkvæmdir hafa náð að skapa forsendur fyrir norður- og suðurhluta Vestfjarða sem eitt atvinnu- og búsetusvæði.

Í greinargerð er rakin ástæða þess að tillagan er flutt. Þar segir að annmarkar séu á notagildi flugvallar á Þingeyri og að  Ísafjarðarflugvöllur sé barn síns tíma. Staðsetningin sé óheppileg, bæði aðflug og fráflug eru afar aðkreppt og í austlægum áttum getur orðið mjög misvinda. Finna þurfi því aðra og betri staðsetningu.

Lagt var til að að ráðist yrði í langtímaveðurfarsmælingar á þremur stöðum:

1.      Í austanverðum Dýrafirði, t.d. á Mýrarmel eða utan við Gemlufall.
2.      Í norðanverðu mynni Skutulsfjarðar, t.d. við hraðfrystihús HG.
3.      Í innanverðu Ísafjarðardjúpi, t.d. við Reykjanes.

Fimm umsagnir bárust um málið. Fjórðungssamband Vestfirðinga fagnaði því en vildi ekki binda sig við þá þrjá kosti sem nefndir voru heldur að gerð yrði ítarlegri greining á landfræðilegum aðstæðum sem gætu hentað flugvelli á Vestfjörðum.

Arnarnes

Landhelgisgæslan, LHG, vildi að auki við þá þrjá kosti sem lagðir voru að kannaðir verði kostir og
gallar flugvallastæðis við Arnarnes. Skoða mætti hvort til séu langtíma gögn um vindmælingar á Arnarnesi sem gerðar hafa verið þar um áratuga skeið.

LHG fagnaði því að verið væri að leggja drög að bættum flugsamgöngum á Vestfjörðum og sagðist binda vonir við að það geti haft jákvæð áhrif á hlutverk LHG.

Athyglisvert er það sem fram kemur í umsögn LHG um þyrlur. Þær séu hluti af björgunarhlutverki og sé stundum hægt að nota þær þegar sjúkraflugvélar duga ekki, en ekki alltaf og aðeins sé hægt að fá eldsneyti á þær á Ísafirði.

„Þyrlur eru í eðli sínu hægfleygari en flugvélar og skipta því vegalengdir milli eldsneytisstaða þær miklu máli. Nú er eldsneyti ekki lengur fáanlegt á Bíldudal og núverandi ísafjarðarflugvöllur því eini staðurinn á Vestförðum með eldsneyti fyrir þyrlur LHG. Ef ekki reynist fært inn á Isafjörð eru næstu flugvellir með eldsneyti þar af leiðandi Rif og Sauðárkrókur. Bein fluglína á þessa flugvelli er um eða yfir 30-40 mínútna flug fyrir þyrlu við bestu skilyrði þar sem fljúga þarf yfir fjöll og firði. I slæmum skilyrðum er oft á tíðum ekki hægt að fara þessar leiðir í beinni línu og þarf þá að fljúga með ströndu til að forðast áhrif veðra og vinda. Það getur þá allt að tvöfaldað fyrrgreindan tíma til að komast að eldsneyti.“

Viðraði Landhelgisgæslan þá hugmynd að hafa flugbraut á fyllingu við Arnarnes í suð- austanverðu minni
Skutulsfjarðar þar sem flugbraut gæti legið til NV/SA. Einnig mætti skoða þarna möguleika á þverbraut sem lægi þá frá norður enda fyrrgreindrar brautar í NA/SV og inn með hlíðum Skutulsfjarðar. Kosturinn væri að vel staðsettur flugvöllur niðri við sjávarmál í fjarðar minni gæti aukið aðgengi þyrlna og flugvéla til muna.

Öryggisnefnd félags íslenskra atvinnuflugmanna var jákvæð gagnvart tillögunni með sömu rökum og Landhelgisgæslan. Segir í umsögn þess að „Viðraðar hafa verið hugmyndir um flugbraut á fyllingu við Arnarnesið sunnanmegin í minni Skutulsfjarðar. Vert væri að kanna hvort veðurfar og staðsetning við Arnarnesið geti sýnt framá vænlegan kost fyrir flugvallarstæði.“

Þingmálinu var vísað til umhverfis- og samgöngunefndar og dagaði þar uppi.


Ísafjarðarbær: útboð á upplýsingatækniþjónustu

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að bjóða út upplýsingatækniþjónustu fyrir Ísafjarðarbæ. Í minnisblaði verkefnastjóra tæknilausna og innkaupa sem lagt var fyrir bæjarráðið segir að þjónustusamningi um kerfisrekstur við Origo hafi verið sagt upp. Ástæðan hafi verið að unnið sé að endurskoðun alls upplýsingatæknikerfis og -samningum sveitarfélagsins.

Í minnisblaðinu segir að undanfarna mánuði hafi verið unnið að mikilli endurskoðun í tæknimálum hjá sveitarfélaginu og nú sé komið „að nauðsynlegu útboði á upplýsingatæknimálum, þar sem samningar eru á óhagstæðum kjörum, verkliðir takmarkaðir í samning og m.a. úreltar þjónustulýsingar, enda samningar orðnir meira en 10 ára gamlir.“

Samningur vegna útboðsins skiptist í þrjá hluta og geta bjóðendur boðið í einstaka liði. Samið verður til til þriggja ára með framlengingarheimild í tvö ár.
Fjar- og vettvangsþjónusta – gildir frá 01.06.2025
Hýsing og rekstur – gildir frá 01.06.2025
Rekstur og vöktun á netumhverfi og netbúnaði – gildir frá 01.07.2025
Bjóðendur geta boðið í einn eða fleiri liði útboðsins, allt eftir vilja og getu, skv. kröfulýsingu og hæfni.

Hagkvæmasta tilboði samkvæmt matsþáttum verður tekið og gerður samningur þar að lútandi. Kostnaðaráætlun mun liggja fyrir við opnun tilboða. Kostnaðaráætlun gerir ráð fyrir lækkun á mánaðarlegum kostnaði Ísafjarðarbæjar á upplýsingatæknimálum.

 

Vegagerðin: þungatakmörkunum aflétt í morgun

Súðavíkurhlíð. Mynd úr vefmyndavél Vegagerðarinnar/Vísir.

Þeim sérstöku ásþungatakmörkunum sem hafa verið í gildi á Djúpvegi 61 frá Súðavík að Flugvallarvegi 631,  Súgandafjarðarvegi 65, Flateyrarvegi 64, Þingeyrarvegi 622 var aflétt kl. 08:00 í morgun, miðvikudaginn 5. mars 2025.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Áréttað er að aðrar takmarkanir á Djúpvegi 61 til Súðavíkur og Vestfjarðavegi 60 að Dynjandavegi 621 verða áfram í gildi.

Bolungavík: Ísfell í samstarf um skipulag og þróun hafnasvæðisins

Bolungavíkurhöfn í agúst 2024. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bolungavíkurkaupstaður og Ísfell ehf hafa hafa gert með sér samstarfsyfirlýsingu um samstarf vegna undirbúnings skipulags og þróunar næsta nágrennis hafnarsvæðisins í Bolungarvík.

Í yfirlýsingunni segir að fyrir liggi að möguleiki er til að deiliskipuleggja nýjar lóðir á svokölluðum ‚sandfangara‘ við Grundargarð í Bolungarvíkurhöfn. Svæðið er skilgreint í aðalskipulagi, en er ekki deiliskipulagt.

Markmið viljayfirlýsingarinnar er að klára undirbúning fyrir uppbyggingu starfsemi Ísfells í Bolungarvík.

Undirritaðir aðilar lýsa því yfir að stefnt sé að því að ljúka gerð heildarsamkomulags varðandi framtíðarfyrirkomulag lóða og skipulag hafnarinnar. Samkomulagið lúti m.a. að:

  • Skilgreining á þörfum Ísfells um byggingarlóð og athafnasvæði
  • Skilgreining á aðgengi Ísfells að hafnarkannti, stærð, dýpi og tíðni.
  • Aðgengi að lóðum og athafnasvæði
  • Uppbygging sveitarfélagsins á hafnarmannvirkjum sem styðja við markmið viljayfirlýsingarinnar.
  • Samning um lóðaframkvæmdir og framkvæmdaleyfi.

Stefnt er að því að heildarsamkomulag verði undirritað eigi síðar 1. september nk.

Hvor aðili fyrir sig ber kostnað vegna eigin vinnu og þeirra sérfræðinga sem þeir ráða til verksins.

Ísfell ehf er fyrirtæki staðsett í Hafnarfirði sem er umsvifamikið í þjónustu við fiskeldi, sölu á útgerðarvörum og veiðarfæraþjónustu. Tekjur félagsins á árinu 2023 voru um 4,3 milljarðar króna og varð þá 230 m.kr. hagnaður af starfseminni fyrir tekjuskatt. Eignir félagsins voru í lok ársins um 3 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið um 45%.

Eigendu eru norskir aðilar.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík sagði í samtali við Bæjarins besta að mikil eftirspurn væri eftir aðstöðu í Bolungavíkurhöfn og það þyrfti að stækka höfnina og athafnasvæði hennar svo sem með lengri viðlegukanti. Hann sagði að þjónusta við fiskeldið væri grundvöllurinn í áformum Ísfells ehf í Bolungavík. Framundan væri að mati Jóns Páls önnur bylgja uppbyggingar í fiskeldinu með fyrirsjáanlegri aukningu á framleiðslu í Ísafjarðardjúpinu.

María Rut: ríkisstjórnin mun tryggja flug til Ísafjarðar

María Rut Kristinsdóttir, alþm. Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi segir aðspurð um viðbrögð hennar við fréttum um ákvörðun Icelandair að hætta áætlunarflugi til Ísafjarðar að Vestfirðingar séu í viðkvæmri stöðu þegar kemur að tryggum samgöngum:

„Ég var mjög hugsi eftir fréttir gærdagsins um stöðu mála og hversu viðkvæmir Vestfirðingar eru gagnvart þessum grunninnviðum sem tryggar samgöngur eru fyrir íbúa svæðisins. Ekki síst þegar það kemur að því að sækja nauðsynlega þjónustu sem ekki er í boði í heimabyggð. Ég vakti máls á þessu í liðnum störf þingsins rétt í þessu og hef átt í góðum samskiptum við þingmenn kjördæmisins og Vestfjarðarstofu. Ráðherra samgöngumála hefur nú lýst því yfir að ríkisstjórnin ætli að tryggja að það verði flogið til Ísafjarðar. Ég fagna fumlausum viðbrögðum þar.

Það er nú þannig að í öllum áskorunum liggja líka tækifæri til að hugsa hlutina upp á nýtt. Það kunna Vestfirðingar manna best. Enda erum við vön því að búa við stöðuga óvissu og stunda lausnamiðaða nálgun. Stóra málið er að tryggja samfellu í áætlunarflugi til svæðisins. Að þjónustan rofni ekki og að stigið verði fast niður og svara lykilspurningum íbúa eins hratt og unnt er.

Það á ekki að vera lögmál að stór hluti íbúa landsins búi við stöðuga óvissu og óöryggi nokkra mánuði á ári. Við getum ekki stöðugt verið að taka eitt skref áfram og tvö aftur á bak þegar það kemur að framtíðarsýn og byggðastefnu um allt land.“

Nýjustu fréttir