Síða 9

Alþingi: tillaga um staðarval fyrir nýjan flugvöll fyrir Vestfirði

Hugmyndir Landhelgisgæslunnar um staðsetningu á nýjum flugvelli

Í september 2018 var lögð fram á Alþingi tillaga um staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum. Flutningsmenn voru þrír alþingismenn Norðvesturkjördæmis Guðjón S. Brjánsson (S), Haraldur Benediktsson (D) og Halla Signý Kristjánsdóttir (B).

Lagt var til að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að ráðast í staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll fyrir Vestfjarðafjórðung sem taki mið af vaxandi ferðamannastraumi, aukinni matvælaframleiðslu, iðnaði og þörf fyrir flutning aðfanga og afurða, bæði innan lands og utan. Í könnuninni felist langtímaveðurfarsmælingar og mat á náttúrulegum aðstæðum. Þá verði hagkvæmni staðsetningar metin með þarfir fjórðungsins í huga þegar jarðgöng og vegaframkvæmdir hafa náð að skapa forsendur fyrir norður- og suðurhluta Vestfjarða sem eitt atvinnu- og búsetusvæði.

Í greinargerð er rakin ástæða þess að tillagan er flutt. Þar segir að annmarkar séu á notagildi flugvallar á Þingeyri og að  Ísafjarðarflugvöllur sé barn síns tíma. Staðsetningin sé óheppileg, bæði aðflug og fráflug eru afar aðkreppt og í austlægum áttum getur orðið mjög misvinda. Finna þurfi því aðra og betri staðsetningu.

Lagt var til að að ráðist yrði í langtímaveðurfarsmælingar á þremur stöðum:

1.      Í austanverðum Dýrafirði, t.d. á Mýrarmel eða utan við Gemlufall.
2.      Í norðanverðu mynni Skutulsfjarðar, t.d. við hraðfrystihús HG.
3.      Í innanverðu Ísafjarðardjúpi, t.d. við Reykjanes.

Fimm umsagnir bárust um málið. Fjórðungssamband Vestfirðinga fagnaði því en vildi ekki binda sig við þá þrjá kosti sem nefndir voru heldur að gerð yrði ítarlegri greining á landfræðilegum aðstæðum sem gætu hentað flugvelli á Vestfjörðum.

Arnarnes

Landhelgisgæslan, LHG, vildi að auki við þá þrjá kosti sem lagðir voru að kannaðir verði kostir og
gallar flugvallastæðis við Arnarnes. Skoða mætti hvort til séu langtíma gögn um vindmælingar á Arnarnesi sem gerðar hafa verið þar um áratuga skeið.

LHG fagnaði því að verið væri að leggja drög að bættum flugsamgöngum á Vestfjörðum og sagðist binda vonir við að það geti haft jákvæð áhrif á hlutverk LHG.

Athyglisvert er það sem fram kemur í umsögn LHG um þyrlur. Þær séu hluti af björgunarhlutverki og sé stundum hægt að nota þær þegar sjúkraflugvélar duga ekki, en ekki alltaf og aðeins sé hægt að fá eldsneyti á þær á Ísafirði.

„Þyrlur eru í eðli sínu hægfleygari en flugvélar og skipta því vegalengdir milli eldsneytisstaða þær miklu máli. Nú er eldsneyti ekki lengur fáanlegt á Bíldudal og núverandi ísafjarðarflugvöllur því eini staðurinn á Vestförðum með eldsneyti fyrir þyrlur LHG. Ef ekki reynist fært inn á Isafjörð eru næstu flugvellir með eldsneyti þar af leiðandi Rif og Sauðárkrókur. Bein fluglína á þessa flugvelli er um eða yfir 30-40 mínútna flug fyrir þyrlu við bestu skilyrði þar sem fljúga þarf yfir fjöll og firði. I slæmum skilyrðum er oft á tíðum ekki hægt að fara þessar leiðir í beinni línu og þarf þá að fljúga með ströndu til að forðast áhrif veðra og vinda. Það getur þá allt að tvöfaldað fyrrgreindan tíma til að komast að eldsneyti.“

Viðraði Landhelgisgæslan þá hugmynd að hafa flugbraut á fyllingu við Arnarnes í suð- austanverðu minni
Skutulsfjarðar þar sem flugbraut gæti legið til NV/SA. Einnig mætti skoða þarna möguleika á þverbraut sem lægi þá frá norður enda fyrrgreindrar brautar í NA/SV og inn með hlíðum Skutulsfjarðar. Kosturinn væri að vel staðsettur flugvöllur niðri við sjávarmál í fjarðar minni gæti aukið aðgengi þyrlna og flugvéla til muna.

Öryggisnefnd félags íslenskra atvinnuflugmanna var jákvæð gagnvart tillögunni með sömu rökum og Landhelgisgæslan. Segir í umsögn þess að „Viðraðar hafa verið hugmyndir um flugbraut á fyllingu við Arnarnesið sunnanmegin í minni Skutulsfjarðar. Vert væri að kanna hvort veðurfar og staðsetning við Arnarnesið geti sýnt framá vænlegan kost fyrir flugvallarstæði.“

Þingmálinu var vísað til umhverfis- og samgöngunefndar og dagaði þar uppi.


Ísafjarðarbær: útboð á upplýsingatækniþjónustu

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að bjóða út upplýsingatækniþjónustu fyrir Ísafjarðarbæ. Í minnisblaði verkefnastjóra tæknilausna og innkaupa sem lagt var fyrir bæjarráðið segir að þjónustusamningi um kerfisrekstur við Origo hafi verið sagt upp. Ástæðan hafi verið að unnið sé að endurskoðun alls upplýsingatæknikerfis og -samningum sveitarfélagsins.

Í minnisblaðinu segir að undanfarna mánuði hafi verið unnið að mikilli endurskoðun í tæknimálum hjá sveitarfélaginu og nú sé komið „að nauðsynlegu útboði á upplýsingatæknimálum, þar sem samningar eru á óhagstæðum kjörum, verkliðir takmarkaðir í samning og m.a. úreltar þjónustulýsingar, enda samningar orðnir meira en 10 ára gamlir.“

Samningur vegna útboðsins skiptist í þrjá hluta og geta bjóðendur boðið í einstaka liði. Samið verður til til þriggja ára með framlengingarheimild í tvö ár.
Fjar- og vettvangsþjónusta – gildir frá 01.06.2025
Hýsing og rekstur – gildir frá 01.06.2025
Rekstur og vöktun á netumhverfi og netbúnaði – gildir frá 01.07.2025
Bjóðendur geta boðið í einn eða fleiri liði útboðsins, allt eftir vilja og getu, skv. kröfulýsingu og hæfni.

Hagkvæmasta tilboði samkvæmt matsþáttum verður tekið og gerður samningur þar að lútandi. Kostnaðaráætlun mun liggja fyrir við opnun tilboða. Kostnaðaráætlun gerir ráð fyrir lækkun á mánaðarlegum kostnaði Ísafjarðarbæjar á upplýsingatæknimálum.

 

Vegagerðin: þungatakmörkunum aflétt í morgun

Súðavíkurhlíð. Mynd úr vefmyndavél Vegagerðarinnar/Vísir.

Þeim sérstöku ásþungatakmörkunum sem hafa verið í gildi á Djúpvegi 61 frá Súðavík að Flugvallarvegi 631,  Súgandafjarðarvegi 65, Flateyrarvegi 64, Þingeyrarvegi 622 var aflétt kl. 08:00 í morgun, miðvikudaginn 5. mars 2025.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Áréttað er að aðrar takmarkanir á Djúpvegi 61 til Súðavíkur og Vestfjarðavegi 60 að Dynjandavegi 621 verða áfram í gildi.

Bolungavík: Ísfell í samstarf um skipulag og þróun hafnasvæðisins

Bolungavíkurhöfn í agúst 2024. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bolungavíkurkaupstaður og Ísfell ehf hafa hafa gert með sér samstarfsyfirlýsingu um samstarf vegna undirbúnings skipulags og þróunar næsta nágrennis hafnarsvæðisins í Bolungarvík.

Í yfirlýsingunni segir að fyrir liggi að möguleiki er til að deiliskipuleggja nýjar lóðir á svokölluðum ‚sandfangara‘ við Grundargarð í Bolungarvíkurhöfn. Svæðið er skilgreint í aðalskipulagi, en er ekki deiliskipulagt.

Markmið viljayfirlýsingarinnar er að klára undirbúning fyrir uppbyggingu starfsemi Ísfells í Bolungarvík.

Undirritaðir aðilar lýsa því yfir að stefnt sé að því að ljúka gerð heildarsamkomulags varðandi framtíðarfyrirkomulag lóða og skipulag hafnarinnar. Samkomulagið lúti m.a. að:

  • Skilgreining á þörfum Ísfells um byggingarlóð og athafnasvæði
  • Skilgreining á aðgengi Ísfells að hafnarkannti, stærð, dýpi og tíðni.
  • Aðgengi að lóðum og athafnasvæði
  • Uppbygging sveitarfélagsins á hafnarmannvirkjum sem styðja við markmið viljayfirlýsingarinnar.
  • Samning um lóðaframkvæmdir og framkvæmdaleyfi.

Stefnt er að því að heildarsamkomulag verði undirritað eigi síðar 1. september nk.

Hvor aðili fyrir sig ber kostnað vegna eigin vinnu og þeirra sérfræðinga sem þeir ráða til verksins.

Ísfell ehf er fyrirtæki staðsett í Hafnarfirði sem er umsvifamikið í þjónustu við fiskeldi, sölu á útgerðarvörum og veiðarfæraþjónustu. Tekjur félagsins á árinu 2023 voru um 4,3 milljarðar króna og varð þá 230 m.kr. hagnaður af starfseminni fyrir tekjuskatt. Eignir félagsins voru í lok ársins um 3 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið um 45%.

Eigendu eru norskir aðilar.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík sagði í samtali við Bæjarins besta að mikil eftirspurn væri eftir aðstöðu í Bolungavíkurhöfn og það þyrfti að stækka höfnina og athafnasvæði hennar svo sem með lengri viðlegukanti. Hann sagði að þjónusta við fiskeldið væri grundvöllurinn í áformum Ísfells ehf í Bolungavík. Framundan væri að mati Jóns Páls önnur bylgja uppbyggingar í fiskeldinu með fyrirsjáanlegri aukningu á framleiðslu í Ísafjarðardjúpinu.

María Rut: ríkisstjórnin mun tryggja flug til Ísafjarðar

María Rut Kristinsdóttir, alþm. Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi segir aðspurð um viðbrögð hennar við fréttum um ákvörðun Icelandair að hætta áætlunarflugi til Ísafjarðar að Vestfirðingar séu í viðkvæmri stöðu þegar kemur að tryggum samgöngum:

„Ég var mjög hugsi eftir fréttir gærdagsins um stöðu mála og hversu viðkvæmir Vestfirðingar eru gagnvart þessum grunninnviðum sem tryggar samgöngur eru fyrir íbúa svæðisins. Ekki síst þegar það kemur að því að sækja nauðsynlega þjónustu sem ekki er í boði í heimabyggð. Ég vakti máls á þessu í liðnum störf þingsins rétt í þessu og hef átt í góðum samskiptum við þingmenn kjördæmisins og Vestfjarðarstofu. Ráðherra samgöngumála hefur nú lýst því yfir að ríkisstjórnin ætli að tryggja að það verði flogið til Ísafjarðar. Ég fagna fumlausum viðbrögðum þar.

Það er nú þannig að í öllum áskorunum liggja líka tækifæri til að hugsa hlutina upp á nýtt. Það kunna Vestfirðingar manna best. Enda erum við vön því að búa við stöðuga óvissu og stunda lausnamiðaða nálgun. Stóra málið er að tryggja samfellu í áætlunarflugi til svæðisins. Að þjónustan rofni ekki og að stigið verði fast niður og svara lykilspurningum íbúa eins hratt og unnt er.

Það á ekki að vera lögmál að stór hluti íbúa landsins búi við stöðuga óvissu og óöryggi nokkra mánuði á ári. Við getum ekki stöðugt verið að taka eitt skref áfram og tvö aftur á bak þegar það kemur að framtíðarsýn og byggðastefnu um allt land.“

Vindorka: bein útsending: Með byr í seglin

Vindorka á Íslandi – staða og framtíðarsýn.

Morgunfundur miðvikudaginn 5. mars kl. 9:30-11:30 á Hilton Reykjavík Nordica

  • Hlekkur á fundinn: 

Á miðvikudaginn bjóða KPMG og Orkuklasinn til fundar um stöðu og þróun í vindorku á Íslandi og framtíðarsýn í málaflokknum. Fundurinn er annar í röðinni af fundum um vindorkumál sem KPMG skipuleggur en haustið 2023 hélt KPMG morgunfund sem bar yfirskriftina Með vindinn í fangið og einblíndi á hvernig hægt væri að ná sátt allra hagsmunaaðila um nýtingu vindorku og framtíðarmöguleika slíkrar nýtingar á Íslandi. 

Á síðustu misserum hefur verið mikill framgangur í þróun nýtingar vindorku á Íslandi og nú hillir undir uppbyggingu á fyrsta vindorkugarði á Íslandi. Því er tilvalið að fara yfir stöðu mála og hvað hefur áunnist á undanförnum misserum.

Dagskrá fundarins:

Jóhann Páll Jóhannsson, ráðherra umhverfis-, loftslags- og orkumála ávarpar fundinn.

·         Vindorkuvegferð Landsvirkjunar
Bjarni Pálsson
, framkvæmdarstjóri vinds og jarðvarma hjá Landsvirkjun.

·         Möguleikar til orkugeymslu og afmörkun svæða til einföldunar leyfisveitinga
Anna-Bryndís Zingsheim Rúnudóttir
, verkefnastjóri hjá KPMG

·         Er hægt að ná sátt með því að tekjur skili sér í ríkari mæli til nærsamfélaga?
Sylvía Vilhjálmsdóttir
, verkefnastjóri hjá KPMG

·         Framtíðarsýn vindorku á Íslandi
Hilmar Gunnlaugsson
, formaður starfshóps um nýtingu vindorku

Pallborðsumræður

Þátttakendur í pallborðsumræðum verða: Katrín Helga Hallgrímsdóttir, lögfræðingur  Samorku, Magnús G. Erlendsson, meðeigandi hjá KPMG,  Jón G.  Valgeirsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra og Þorsteinn Arnalds, verkefnastjóri hjá HMS. Róbert Ragnarsson, meðeigandi hjá KPMG stýrir pallborðsumræðum.

Fundarstjóri er Rósbjörg Jónsdóttir framkvæmdastjóri Orkuklasans.

Er seinni vélin komin?

Þegar tengdadóttir mín flutti vestur á Ísafjörð úr Garðabæ, fannst henni áberandi hvað fólk var upptekið af fluginu, hvort væri flugveður,  yrði flogið eða það fellt niður. Jafnvel þótt fólk væri ekki að fara nýta sér þessa þjónustu í það skipti. Á ísafirði er þetta umræðuefni ágæt opnun á samskipti manna á milli í Nettó, flestir eru meðvitaðir og eru tilbúnir í samtalið.

Flugsamgöngur við Vestfirði eru íbúum mjög mikilvægar, líka þótt samgöngur landleiðis hafi farið batnandi síðustu áratug. Þetta er einu almenningssamgöngurnar á  norðanverðum Vestfjörðum við aðra landshluta.

Samgöngubætur á láði hafa stórbatnað undanfarin áratug þótt eitthvað sé í land þá sjáum við, sem búum á norðanverðum Vestfjörðum fram á að i allra nánustu framtíð að hafa um tvær leiðir að velja þegar við viljum aka uppbyggðan nútímaveg út úr fjórðungnum. Þegar uppbygging leiðarinnar frá Ísafirði yfir Dynjandisheiðina, suður í gegnum Gufudalssveit verður lokið á eru 400 kílómetrar frá Ísafirði niður í Vatnsmýrina í Reykjavík.  Það er framför en samt sem áður þurfum við tryggt flug sem almenningssamgöngurvið svæðið.

Auk þess er nauðsynlegt að tryggja rekstur flugvallarins á Ísafirði vegna sjúkraflugs, sá kostnaður leggst ekki niður þar sem sjúkraflugi hefur fjölgað verulega síðustu árin og má búast við að þeim fjölgi enn frekar. Alltaf eru einhverjir sem eiga ekki kost á að aka þessa leið. Börn á leið til forsjáraðila, fólk að sækja sér heilbrigðisþjónustu o.s.frv. Þá eru einhverjir dagar á ári sem aðstæður eru þannig að allir leiðar eru ófærar vegna snjóa en hægt að fljúga.

Flugvöllurinn á Ísafirði

Þeir sem hafa flogið til og frá Ísafirði þekkja vel að aðstæður til lendingar eru viðkvæmar og í raun er flugvöllurinn á Ísafirði á undanþágu vegna öryggis og hvað ef sú undanþága fæst ekki lengur?

Guðjón Brjánsson fyrrverandi þingmaður NV kjördæmis lagði fram þingsályktun á Alþingi árið 2018 sem ég studdi um að ráðist yrði í staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll fyrir Vestfjarðafjórðung, sú tillaga náði því miður ekki í gegn. Með bættum samgöngum innan fjórðungsins er fyrir löngu komin tími til að ráðast í slíka framkvæmd. Það er staðreynd að til að finna öruggasta flugvallarstæðið þarf að fara út úr þröngum fjörðum Vestfjarða til að tryggja bestu lendingaaðstæður. Fólki er tíðrætt um Þingeyrarflugvöll en staðreyndin er að þar eru ekki nægjanlega góð skilyrði fremur en á Ísafirði. Flugvöllurinn á Þingeyri er sjónflugsvöllurinn og ekki hægt að fljúga blindaðflug vegna fjalla í grennd. Enn fremur er brautin í vestanverðum Dýrafirði, nærri hæsta og krappasta fjallgarði á Vestfjörðum.

Höldum fluginu á lofti

Það er ekkert heilagt að Icelandair fljúgi hingað vestur heldur er það mikilvægt að flugið sé tryggt.

Náði seinni vélin að lenda? Þegar spurt er að þessu ertu orðin Ísfirðingur, tengdadóttir mín er nú í fæðingarorlofi á Seljalandsveginum á Ísafirði með gott útsýni yfir flugvöllinn og þegar ég renni við þá er það fastur liður að fara yfir hvernig flugið hafi gengið þann daginn. Jú hún á orðið lögheimili þar ásamt logninu á Ísafirði.

Halla Signý Kristjánsdóttir

Vestfirðingur

Innanlandsflug eru almenningssamgöngur !

Tryggja verður flug til Ísafjarðar til framtíðar. Engin óvissa má ríkja um svo mikið atvinnu og byggðamál fyrir Vestfirði og þjónustu við fólk og fyrirtæki. Allt frá frumdögum flugs á Íslandi hefur verið flogið milli Ísafjarðar og Reykjavíkur og jafnvel fleiri áfangastaða. Hagsmunir Icelandair geta ekki einir ráðið því hvort flogið verður áætlunarflug til og frá Ísafirði eða ekki.

Fréttir um að Icelandair ætli að hætta flugi til Ísafjarðar á næsta ári komu eins og þruma úr heiðskíru lofti. Ríki og sveitarfélög verða að bregaðst strax við og það er fagnaðarefni að samgönguráðherra hefur nú þegar lýst yfir að flugsamgöngur við Ísafjörð verði tryggðar.

Innanlandsflugið skiptir miklu máli fyrir  byggðir fjarri höfðuðborgarsvæðinu. Íbúar þurfa að sækja ýmsa grundvallarþjónustu til höfuðborgarinnar eins og heilbrigðisþjónustu,stjórnsýslu og verslun og þar eru helstu menntastofnanir landsins. Þá er flugið mikilvæg stoð í allri menningarstarfsemi fyrir vestan og tryggir íbúum á norðanverðum Vestfjörðum eðilegan aðgang þjónustu og afþreyingu á höfuðborgarsvæðinu og tengsl við millilandaflugið.

Atvinnulífið kallar á flugsamgöngur.

Atvinnulíf hefur verið að byggjast hratt upp undanfarin ár á Vestfjörðum með öflugu fiskeldi og ferðaþjónustu þar sem flugið gegnir lykilhlutverki. Fjölmörg afleidd störf hafa skapast í kringum þessar atvinnugreinar. Öruggar flugsamgöngur er mikilvægur þáttur í þeirri uppbyggingu, nauðsynlegur valkostur fyrir íbúa svæðisins og hluti af almenningssamgöngum í nútímasamfélagi.

Flugfar er dýrt og efla þarf Loftbrúna .

Það er vissulega orðið dýrt að fljúga innanlands en niðurgreiðslur í gegnum Loftbrúna til íbúa þessara staða hafa skipt miklu máli. Þar er í raun um ríkisstyrk að ræða til flugfélaga. Isavia hefur hins vegar lagt á bílastæðagjöld á Reykjarvíkurflugvelli sem eru of mikil og ósanngjörn og þau þarf að endurskoða strax.

Bættar vegasamgöngur koma ekki í stað Innanlandsflugs.

Þótt vegasamgöngur fari hægt og bítandi batnandi koma þær ekki í staðinn fyrir flug til og frá þeim byggðum sem eru fjærst höfuðborgarsvæðinu. Það tekur þrátt fyrir allt fimm til sex klukkustundir að aka þessa vegalengd. Fólk sem þarf að komast til læknis eða sinna öðrum erindum á sem skemmstum tíma vinnu sinnar vegna eða eldra fólk sem hætt er að keyra  treystir á flugið. Áætlanaflug  er líka nýtt til sjúkraflugs í mörgum tilfellum.

Icelandair hefur fengið mikinn stuðning frá stjórnvöldum.

Icelandair réttlætir ákvörðun sína með skipulagsbreytingum. Flugvélarnar sem nýttar hafi verið fyrir flug til Ísafjarðar hafi einnig verið notaðar í flug til Grænlands. Nú sé búið að leggja stærri flugbrautir á Grænlandi og því geti félagið flogið stærri flugvélum þangað. Þar af leiðandi verði óhagkvæmt fyrir félagið að halda áfram rekstri minni flugvélategundarinnar í flota félagsins.

Alls kyns flugvélar og jafnvel minni þotur hafa lent á Ísafjarðarflugvelli í gegnum árin. Það er erfitt að trúa því að stærri flugvélar Icelandair í innanlandsflugi geti ekki lent á Ísafirði og tekið á loft þaðan. En kannski snýst þetta um sætanýtingu, að Icelandair treysti sér ekki til að selja fleiri sæti til og frá Ísafirði. Þetta þarf að skoða betur.

Icelandair hefu fengið mikinn stuðning í gegnum árin frá ríkinu sem meðal annars hefur verið rökstutt með þjóðaröryggi varðandi samgöngur við landið. Félagið fékk einnig milljarða stuðning frá ríkinu í Covid faraldrinum til að tryggja launagreiðslur til starfsmanna.  Þess vegna er eðilegt að gera vissar kröfur til þess að félagið sýni samfélagslega ábyrgð og vilja til að halda áfram flugi til Ísafjarðar við breyttar aðstæður hjá félaginu.

Önnur flugfélög geta sinnt flugi til Ísafjarðar.

Þegar upp er staðið mun þetta snúast um samninga við þau flugfélög sem koma til greina og geta sinnt flugi til Ísafjarðar.  Í því samhengi þarf að skoða allt innanlandsflug í heildarsamhengi og í samhengi við mögulega niðurgreiðslu ríkisins í innanlandsflugi eins og gert hefur verið með Loftbrúnni .

Ég treysti því að samgönguráðherra og stjórnvöld í heild vinni hratt að því að tryggja flugsamgöngur til Ísafjarðar til framtíðar, hvort sem það verður gert með útboði eða beinum samningum við þau flugfélög sem sinnt hafa innanlandsflugi á landinu undanfarin ár. Óvissa má ekki ríkja í þessum mikilvægu samgöngumálum Vestfirðinga. Framtíð og fyrirsjáanleiki varðandi áætlunarflug til Ísafjarðar er stórt öryggis- og byggðamál fyrir fólk og fyrirtæki á Vestfjörðum.

Lilja Rafney Magnúsdóttir þingmaður Flokks fólksins NV kjördæmi.

Innviðafélag Vestfjarða: huga þarf að staðarvali fyrir nýjan flugvöll

Hugmyndir Landhelgisgæslunnar um staðsetningu á nýjum flugvelli

Innviðafélag Vestfjarða segir í yfirlýsingu að áform Icelandair um að hætta áætlunarflugi til Ísafjarðar sé bakslag fyrir Vestfirði og það þurfi að auka flugöryggi með athugun á nýrri staðsetningu flugvallarins.

Yfirlýsingin í heild:

„Icelandair tilkynnti í gær áform sín um að hætta flugi til Ísafjarðarflugvallar árið 2026 þegar nýir flugvellir opna í Grænlandi sem Icelandair getur þjónustað með stærri flugvélum. Þá verður Ísafjarðarflugvöllur eini flugvöllurinn í leiðarkerfi Icelandair sem krefst minnstu flugvélategundar félagsins. 

Þessi ákvörðun felur í sér bakslag fyrir samfélagið á Vestfjörðum og skapar óvissu um framtíðarhorfur svæðisins. Ákvörðun Icelandair undirstrikar jafnframt hversu brýnt það er að huga af alvöru að staðsetningu og uppbyggingu flugvallarins á Ísafirði til að auka flugöryggi og aðgengi mismunandi vélakosts. 

Árið 2018, sama ár og ákvörðun var tekin af flugmálayfirvöldum Grænlands að byggja nýja flugvelli þar, var svipuð umræða á Íslandi. Þá lagði Guðjón S. Brjánsson þingmaður fram þingsályktunartillögu um staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum. Því miður bar Alþingi ekki gæfa til að afgreiða það þingmál og eftir sitja Vestfirðir án flugvallar sem sinnt getur almennu farþegaflugi. 

Öruggar, tíðar og áreiðanlegar flugsamgöngur milli Ísafjarðar og Reykjavíkur eru lykilforsenda fyrir öryggi íbúa, lífsgæði þeirra og áframhaldandi samfélagslega og efnahagslega þróun svæðisins.

Jafnframt dregur þessi staða skýrt fram nauðsyn þess að stjórnvöld bregðist hratt við með auknum fjárfestingum í öðrum samgönguinnviðum, ekki síst á landi, til að tryggja stöðugleika og framtíð vaxtar og viðgangs á Vestfjörðum.

Innviðafélag Vestfjarða hvetur stjórnvöld eindregið til að grípa þegar til að hefja stðarvalskönnun um nýjan flugvöll á Ísafirðir og tryggja reglulegar flugsamgöngur sem og öflugar samgöngur á landi og styðja þannig við áframhaldandi efnahagsævintýri á Vestfjörðum.“

Uppfært kl 22:30 og fyrirsögn breytt og sett önnur mynd.

Samn­ingur við Mýflug framlengdur um hálfan mánuð

Vegagerðin hefur framlengt samning við flugfélagið Mýflug um áætlunarflug milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur um tvær vikur, eða til 15. mars 2025.

Flogið verður fjórum sinnum í viku líkt og verið hefur undanfarna mánuði.

Vegagerðin samdi við Mýflug um áætlunarflug milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur í október á síðasta ári. Í samningnum, sem gildir í 3 ár, felst áætlunarflug yfir helstu vetrarmánuðina, desember, janúar og febrúar, fjórum sinnum í viku. Nú hefur samningurinn verið framlengdur um tvær vikur og gildir til 15. mars eins og fyrr segir. 

Flugleiðin er styrkt sérstaklega af ríkinu til að tryggja tímabundna lágmarksþjónustu á þessari leið á meðan markaðslegar forsendur eru ekki til staðar, enda er flugið mikilvægt fyrir íbúa og atvinnulíf á svæðinu.  

Nýjustu fréttir