Sunnudagur 20. apríl 2025
Heim Blogg Síða 9

Þjónustubreytingar hjá Póstinum á Hólmavík

Breytingar verða gerðar á þjónustu Póstsins á Hólmavík þann 29. apríl næstkomandi þegar
þjónustan flyst úr Sparisjóði Strandamanna yfir í Krambúðina, Höfðatúni 4. Þjónustan verður
að mestu með óbreyttu sniði.
„Við erum ávallt að leita leiða til að þróa þjónustuna í takt við breyttar þarfir og kröfur
neytenda samhliða hagkvæmum rekstri,“ segir Kjartan Flosason, forstöðumaður pósthúsa.
„Við höfum fundið fyrir mikilli ánægju viðskiptavina með sjálfvirkar afhendingarleiðir. Því
munum við bæta við afhendingarleiðum á borð við Póstbox og heimsendingu á Hólmavík og
teljum að þær viðbætur verði íbúum til hægðarauka.“
Að lokum þakkar hann Sparisjóðnum gott samstarf. „Við þökkum Sparisjóði Strandamanna
kærlega fyrir gott samstarf í gegnum árin og hlökkum um leið til komandi samstarfs með
Krambúðinni.“
Hvernig verður þjónustan á Hólmavík eftir breytingarnar?
Afgreiðsla Póstsins í Krambúðinni er opin alla virka daga kl. 11:00-15:00, þar er hægt að
póstleggja og fá afhent og kaupa frímerki og umbúðir.
Póstbox er staðsett við Krambúðina og þar er hægt að sækja og senda pakka. Til að senda
með Póstboxi þarf að skrá sig í Póst-appið eða á Mínar síður á posturinn.is og setja inn
kortaupplýsingar. Hægt er að áframsenda SMS-skilaboðin til að fá einhvern annan til að
sækja í Póstbox.
Pakkasendingar er hægt að fá sendar í Póstbox, í afgreiðslu eða keyrðar heim að dyrum.
Bréfum er dreift tvisvar í viku og þeir sem eru með pósthólf munu fá bréfasendingar sínar
afhentar í Krambúðinni. Hægt er að kaupa frímerki og umbúðir í Krambúðinni og póstkassi
verður við búðina svo hægt er að póstleggja bréf þar.
Landpóstaþjónusta helst óbreytt og bréfum og pökkum áfram dreift tvisvar í viku í
nærliggjandi sveitir.
Á posturinn.is má finna ítarefni og upplýsingar um fjölbreytta þjónustu Póstsins. Auk þess er
viðskiptavinum velkomið að hafa samband við þjónustuver í síma 580 1000 eða í gegnum
netspjall á heimasíðunni.

Auglýsing

Handbolti: Hörður í umspili um sæti í efstu deild

Handboltalið Harðar stendur frammi fyrir mikilvægum leik þegar liðið mætir Gróttu í öðrum leik umspils um sæti í Olísdeild karla. Leikurinn fer fram þriðjudaginn 8. apríl kl. 19:30 á Ísafirði, og nú skiptir öllu máli að bæjarbúar fjölmenni í íþróttahúsið og hvetji strákana áfram! 

Hart barist í fyrsta leik

Fyrsti leikurinn í umspilinu fór fram í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi þar sem Grótta hafði betur með fjögurra marka mun, 32:28. Harðarmenn sýndu þó mikla baráttu, voru yfir framan af fyrri hálfleik og héldu leikmönnum Gróttu vel við efnið allan leikinn.

Grótta náði einu marki forskoti í hálfleik, 13:12, eftir að hafa verið undir stærstan hluta fyrri hálfleiks. Í síðari hálfleik náðu heimamenn betri tökum á leiknum og tryggðu sér sigur, en það var ljóst að Harðarmenn voru aldrei langt undan.

Miklir möguleikar heima

Nú snýr einvígið til Ísafjarðar – og þar vita allir hvað sterkur heimavöllur getur gert. Með samhentu liði, hörku í vörn og öflugum sóknarleik eigum við fullt erindi í Olísdeildina. Stuðningur bæjarbúa getur skipt sköpum.

Þess vegna hvetjum við alla – unga sem aldna – til að mæta á völlinn og styðja strákana okkar! Þetta er tækifæri til að sýna hvað Ísafjörður getur staðið saman og hvað Hörður hefur í sér.

Allir á völlinn – áfram Hörður!

Auglýsing

Vesturbyggð: ekki samstaða um aukningu í laxeldi

Þjónustubátur siglir inn í Bíldudalshöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Einn af þremur fulltrúum N lista, sem er með meirihluta í bæjarstjórn Vesturbyggðar, í umhverfis- og loftslagsráði sveitarfélagsins lagði fram ítarlega og harðorða bókun þar sem hann leggst gegn umsókn Arnarlax um 4.500 tonna aukningu á lxeldi í Arnarfirði.

Kristinn Hilmar Marinósson stóð að bókun nefndarinnar þar sem m.a. segir að ráðið telur að fyrirhugaðar breytingar þurfi að fara fyrir svæðisráð strandsvæðaskipulags, gera þurfi nýtt umhverfismat og þá þurfi aukið reglubundið eftirlit þriðja aðila. Einnig segir að auka þurfi tíðni reglulegs eftirlits fyrirtækisins á kvíum til að minnka líkur á slysasleppingum og með þessum miklu stækkunum sé ekki ljóst hvernig gert er ráð fyrir rými fyrir aðra starfsemi í firðinum.

Til viðbótar segir í sérstakri bókun Kristins að Arnarlax hafi tekið að nota kopar í nótum áður en löggjöf sem bannaði slíkan búnað var felld úr gildi. Áform um að nota ekki kopar nú séu ekki trúverðug. „Dregur sú hegðun úr trú minni að staðið verði við það loforð.“

Um stækkunina segir í bókuninni: „Ekki er tekið fram hve mörg störf hljótist af þessari aukningu, en þekkt er að rekstrarhagkvæmni aukist með stækkun fiskeldis, sem eykur álag á núverandi starfsfólk. Ekki er hægt að leggja mat á hag samfélagsins útfrá þessum gögnum.“

Þá segir að fyrirtækið hafi reglulega lent í áföllum vegna sjúkdóma, laxalúsar og strokulaxa. „Ekki er fullreynt að það hafi lært að meðhöndla ástæður þessa óhappa og aukning kvía og stækkun slitflata getur haft í för með sér aukningu á slíkum brestum.“

Neikvæð áhrif af stækkun

Þá segir í bókuninni: „Hafsvæði Arnarfjarðar er þekkt uppvaxtarsvæði mikilvægra fiskstofna og einstaks rækjustofns. Aukning eldis og áhrif þess á botnlíf og súrefnismettun sjávar mun hafa neikvæð áhrif. Ég sé ekki þörf fyrir að gera tilraunir með þolmörk lífkeðjunnar sem þessi fyrirhugaða stækkun er.“ og „með auknum umsvifum eldisins má gera ráð fyrir að almenningsálit geti versnað enn frekar og haft neikvæð áhrif á ferðaþjónustu á Vestfjörðum.“

bara jákvæð fyrir ársfjórðungsskýrslu

Bókuninni lýkur með þessum orðum:

„Fyrirhuguð breyting mun hafa neikvæð áhrif á náttúru, umhverfi og ímynd svæðisins í skiptum fyrir takmarkaða hagkvæmni samfélagsins. Það eina sem hægt er að treysta á ef þetta leyfi er samþykkt er að ársfjórðungskýrsla fyrirtækisins mun líta betur út með tilheyrandi hækkun á hlutabréfum eigenda.“

Auglýsing

Ísafjarðarbær: griðasvæði hvala verði í Djúpinu

Halldór Sigurðsson ÍS sem væntanlega verður gerður út á hrefnuveiðar. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarráð Isafjarðarbæjar leggur til að stór hluti Ísafjarðardjúps verði lokað fyrir hrefnuveiðum. Í bókun bæjarráðsins sem samþykkt var á fundi þess í gær segir að bæjarráðið telji að griðasvæði sem næði yfir allt Ísafjarðardjúp væri of takmarkandi fyrir hvalveiðar sem leyfi hafa verið gefin út fyrir.

„Bæjarráð telur að hægt væri að ná sama markmiði með því að stofna griðasvæði sem væri innan svæðis sem afmarkað er af Stigahlíð, Vébjarnarnúpi, Innra Skarði á Snæfjallaströnd, Ögurnesi, Folafæti og Arnarnesi. Þar sem hvalaskoðun er ekki enn stunduð allt árið mætti griðasvæðið gilda frá maíbyrjun til septemberloka. Góð samskipti milli hvalveiðifyrirtækis og hvalaskoðunarfyrirtækja eru mikilvæg hvernig sem niðurstaða ráðuneytisins verður.“

Bæjarráðið áréttar fyrri bókun sína í málinu að heppilegast væri að ákvörðun um samspil hvalaskoðunar og hvalveiða fari fram á vettvangi strandsvæðaskipulags.

Auglýsing

Hafrannsóknarstofnun: alvarlegur vandi innan stofnunarinnar

Fram kemur í nýútkominni skýrslu Ríkisendurskoðunar um Hafrannsóknarstofnun að gögn sem Ríkisendurskoðun aflaði við úttektina beri þess merki að stjórnendur Hafrannsóknastofnunar hafi ekki tekið mannauðsmál nægilega föstum tökum fram til ársins 2023.

Þá segir : „Stofnunin hefur ráðist í markvissar aðgerðir og standa vonir til að bætt verði úr framkvæmd mannauðsmála. Ríkisendurskoðun hvetur stofnunina áfram á þeirri vegferð og bendir á ábyrgð hennar að láta ekki undir höfuð leggjast að taka á málum sem krefjast tafarlausra aðgerða á grundvelli laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.“

Samkvæmt Stofnun ársins stóð vinnustaðarmenning Hafrannsóknastofnunar höllum fæti árin 2019 til 2023. Árið 2023 hafnaði stofnunin í 126. sæti af 141 stofnunum ríkisins sem tóku þátt í könnuninni það ár.

Í svörum Hafrannsóknarstofnunar til Ríkisendurskoðunar, sem birt eru í skýrslunni, segir að í ársbyrjun 2023 hafi framkvæmdastjórn stofnunarinnar ákveðið að greina skipulega tækifæri til úrbóta í mannauðsmálum. Greiningarvinna var unnin undir liðsinni ráðgjafarfyrirtækisins Saga Competence og ákveðið var að ráðast í svokallaða menningarvegferð undir handleiðslu fyrirtækisins. Verkefnið var kynnt starfsfólki á fundi í maí 2024 og er fyrirhugað að það standi að minnsta kosti til ársins 2025 með aðkomu allra sviða stofnunarinnar, stjórnenda og starfsmanna.

aðgerðir hafa ekki skilað árangri

Í bréfi sem sex framkvæmdastjórnarmenn í stofnuninni af átta sendu til Matvælaráðuneytisins 4. apríl 2024 segir að aðgerðir til að bæta starfsandann innan framkvæmdastjórnar hafi ekki skilað tilætluðum árangri og ekki hafi náðst að koma upp styrkri, samstíga liðsheild. „Má vera ljóst að traust á milli ákveðinna aðila innan framkvæmdastjórnar hafi verið lítið í langan tíma en ekki hefur verið farið í aðgerðir til þess að bæta úr þeirri stöðu.“

Segir í bréfinu að mannabreytingar innan framkvæmdastjórnar hafi verið talsverðar undanfarin þrjú ár þar sem alls fjórir hafi horfið á braut. Til viðbótar hafi orðið miklar mannabreytingar á þeim stoðsviðum sem starfa næst framkvæmdastjórn, eða fjármála- og mannauðssviðinum, en þar hafa fjórir aðilar látið af störfum.

Ber þessari lýsingu ekki vel saman við svör Hafrannsóknarstofnunar til Ríkisendurskoðunar. Í bréfinu til ráðuneytisins er vakin athygli ráðuneytisins á þessu máli. Aðeins tveir úr framkvæmdastjórninni undirrita ekki bréfið. Það eru forstjórinn og fjármálastjórinn.

heilbrigðar konur í veikindaleyfi

Í bréfinu til ráðuneytisins segir orðrétt: „Sá þáttur sem við teljum veigamestan, er að annars heilbrigðar konur hafa farið í veikindaleyfi undanfarið ár. Tvær þeirra eru innan framkvæmdastjórnar, þriðja starfaði sem mannauðssérfræðingur og fleiri á fjármálasviði og því allar í miklum tengslum við meðlimi framkvæmdastjórnar.“

„Við undirrituð sem sitjum öll í framkvæmdastjórn Hafrannsóknastofnunar óskum eftir því að gerð verði óháð greining á stöðu stjórnunar og samskipta innan framkvæmdastjórnar síðastliðin þrjú ár, þar með talið okkar þætti þar.“ og bréfinu lýkur með þessum orðum: „Sem hluti að slíkri úttekt óskum við að kallað verði eftir greiningu hjá Vinnuvernd á veikindum á stofnuninni en starfsmenn í lengri veikindum hafa verið sendir til trúnaðarlæknis og/eða sálfræðings eftir þörfum og því ætti að vera mögulegt að kalla eftir
nafnlausum greiningum á ástæðum aukinna veikinda.“

Í fyrrgreindri skýrslu Ríkisendurskoðunar er ekki vikið að þessu bréfi sexmenninganna nér því sem í því er. Samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta hefur ráðuneytið ekkert aðhafst í málinu eftir að hafa fengið erindið né brugðist við á neinn hátt við vondri útkomu á mati starfsmanna á stofnuninni. Það eina sem hafi gerst síðan bréfið var sent er að hæft og reynslumikið fólk úr framkvæmdastjórn Hafrannsóknarstofnunar hafi látið af störfum.

 

Auglýsing

Vesturbyggð: styður aukið laxeldi

Vesturbyggð styður aukið laxeldi segir Gerður B. Sveinsdóttir, bæjarstjóri og segir að það hafi aldrei verið vafi á því.

Umsögn umhverfis- og loftlagsráðs sveitarfélagsins frá 24. mars um um áform Arnarlax vegna aukningar á umfangi sjókvíaeldis fyrirtækisins í Arnarfirði úr 11.500 tonna hámarkslífmassa í 16.000 tonn var þannig að fyrirhugaðar breytingar þurfi að fara fyrir svæðisráð strandsvæðaskipulags, nýtt umhverfismat og aukið reglubundið eftirlit þriðja aðila, þar sem um verulega stækkun á svæðum er að ræða. Einnig þurfi að auka tíðni reglulegs eftirlits fyrirtækisins á kvíum til að minnka líkur á slysasleppingum.

Bæjarins besta beindi þeirri fyrirspurn til formanns nefndarinnar Freyju Ragnarsdóttur Petersen hvernig ætti að skilja þessa bókun nefndarinnar, hvort umsögnin væri ekki bein andstaða nefndarinnar við aukninguna.

Svar barst í dag og segir Freyja að umhverfis- og loftslagsráð Vesturbyggðar gæti hagsmuna náttúru og umhverfis sveitarfélagsins og „viljum við tryggja að bestu mögulegu aðferðum og eftirliti sé beitt við nýtingu auðlinda í þessu sveitarfélagi. Ekki er um afstöðu nefndarinnar til fiskeldis að ræða heldur viljum við að gætt sé helsta öryggis á okkar nærumhverfi enda hefur Vesturbyggð ítrekað bent á það. Vesturbyggð er engu að síður hlynnt áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu.“

Freyja var í framhaldinu innt eftir því hvort svarið ætti við áframhaldandi uppbyggingu laxeldis á svæðinu. Því var svarað með því að ítreka fyrra svar.

Gerður B. Sveinsdóttir, bæjarstjóri sagði í samtali við Bæjarins besta að Vesturbyggð styddi áframhaldandi uppbyggingu laxeldis á svæðinu. Svar formanns umhverfis- og loftlagsráðs tæki mið af erindisbréfi nefndarinnar, sem væri einkum að gæta hagsmuna náttúru og umhverfis, en ekki að hafa skoðun á laxeldi.

Auglýsing

Ísafjörður – Hekl fyrir byrjendur á bókasafninu

Fyrir þá sem langar að læra undirstöðuatriði í hekli verður tveggja tíma námskeið fyrir BYRJENDUR á Bókasafninu Ísafirði miðvikudaginn 9. apríl kl. 17:00 -19:00.

Farið verður í nokkur grunnatriði á borð við að halda á heklunál, ýmsar gerðir heklunála og grófleika á bandi. Heklaðar verða mismunandi keðjur til að sýna grunnlykkjurnar og heklaðar nokkrar dúllur.

Nokkur heklverkefni verða til sýnis sem gaman er að skoða til að fá innblástur.

Garn verður á staðnum en gott er að koma með heklunál, helst í stærð 2,5-3,5.

Námskeiðið er ókeypis. Til að áætla fjölda og tryggja pláss mælum við með að senda póst á bokasafn@isafjordur.is 

Auglýsing

Kaupmáttur jókst um 2,8% árið 2024

Ráðstöfunartekjur heimilanna jukust um 10,8% árið 2024 samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum Hagstofunnar, borið saman við fyrra ár.

Ráðstöfunartekjur á mann námu tæplega 6,3 milljónum króna á árinu 2024 og jukust um 8,8% frá fyrra ári en mannfjöldaaukning var tæplega 2% á árinu. Að teknu tilliti til verðlagsþróunar er áætlað að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimila á mann hafi aukist um 2,8% á árinu en vísitala neysluverðs hækkaði um 5,9% á sama tímabili.


Heildartekjur heimilanna jukust árið 2024 um 8,1% frá fyrra ári. Sá liður sem þyngst vegur í hækkun á heildartekjum heimilanna eru launatekjur sem áætlað er að hafi aukist um rúma 158 milljarða frá fyrra ári eða sem nemur 6,9%. Á sama tímabili jukust skattar á laun um rúma 45 milljarða eða um 6,9%. Samkvæmt launavísitölu Hagstofu Íslands hækkuðu laun að meðaltali um 6,6% á árinu 2024 borið saman við fyrra ár en starfandi einstaklingum fjölgaði um 2,2% á sama tímabili.

Áætlað er að vaxtagjöld heimila hafi aukist um 10,1% á árinu 2024 borið saman við fyrra ár. Á sama tímabili jukust eignatekjur heimila um 16,6%.

Áætlað er að lífeyristekjur og félagslegar tilfærslur til heimilanna hafi aukist um tæpa 66 milljarða króna frá fyrra ári sem nemur um 11,6% aukningu á milli ára. Lífeyristekjur og félagslegar tilfærslur námu 15% af heildartekjum heimilanna árið 2024.

Auglýsing

Drifskaftið viðurkenning UDN

Á vegum Ungmennasambands Dalamanna og Norður Breiðfirðinga -UDN- eru veittar hvatningarviðurkenningar sem bera það skemmtilega heiti Drifskaftið.

Á dögunum hlaut Ásborg Styrmisdóttir í Fremri – Gufudal Drifskaftið. Hún hefur stundað bogfimi hjá UMFA og keppt fyrir hestamannafélagið Glað í Dölum.

Ásborg hefur verið virkur þáttakandi í bogfimi hjá Aftureldingu og tekið þátt í öllum æfingum sem í boði eru. Hún tók þátt á íslandsmeistaramóti Bogfimisambands Íslands U18 innanhúss og lenti þar í fyrsta sæti í liðakeppni og setti jafnframt Íslandsmet. Þá var hún í öðru sæti bæði í blönduðum flokki og kvennaflokki.

Ásborg hefur líka verið virkur þáttakandi /keppandi fyrir hestamannafélagið Glað. Hún keppti á unglingalandsmóti í Borgarnesi, vetrarmóti Borgfirðings og Hestaþingi Glaðs.

Ásborg er drífandi og dugleg við að fá aðra til að koma með á mót og er góð fyrirmynd innan vallar sem utan.

Hún hefur verið dugleg við að sinna hestamennskunni og hefur meðal annars starfað s.l. sumur við reiðnámskeið á sumarnámskeiðum á Reykhólum.

Auglýsing

Ljós­leiðari á Bíldudal

Snerpa í samstarfi við Vest­ur­byggð hyggst leggja ljós­leiðara í þétt­býli á Bíldudal á árinu 2025.

Fram­kvæmdin er styrkt með átaki stjórn­valda um að klára ljós­leið­ara­væð­ingu landsins fyrir árslok 2026. Áformað er að fram­kvæmdir hefjist á Bíldudal næsta vor en nánari upplýs­ingar veitir Snerpa.

Notendur þurfa ekki að greiða tengigjald eða aðra hlutdeild í kostnaði við lögn að inntakskassa samþykki þeir að lögð sé til þeirra tenging.

Kjósi notendur að taka tengingu síðar má búast við umtalsverðum viðbótarkostnaði til þeirra þar sem framlag Fjarskiptasjóðs og/eða sveitarfélagsins verður þá ekki í boði og samlegðaráhrif falla út.

Þeir sem ætla að óska eftir ljósleiðaratengingu í hús sitt þurfa að senda eftirfarandi upplýsingar á netfangið vesturbyggd@vesturbyggd.is  fyrir mánudaginn 14. apríl og merkja póstinn „Ljósleiðari á Bíldudal 2503092“:

Auglýsing

Nýjustu fréttir