Miðvikudagur 2. apríl 2025
Síða 9

Gat á kví í Patreksfirði

Mynd úr árshlutauppgjöri Icelandic Salmon.

Matvælastofnun barst tilkynning frá Arnarlaxi fimmtudaginn 20. mars um gat á nótarpoka einnar sjókvíar Arnarlax við Vatneyri í Patreksfirði.

Gatið uppgötvaðist við reglubundið neðansjávareftirlit og var viðgerð lokið samdægurs. Samkvæmt upplýsingum Arnarlax var gatið um 50 x 25 cm rifa á 20 metra dýpi. Í þessari tilteknu kví voru 117.133 laxar með meðalþyngd u.þ.b. 3 kg. Neðansjávareftirlit var síðast framkvæmt 23. febrúar sl. og var nótarpoki þá heill.

Matvælastofnun fyrirskipaði að kafað yrði í allar eldiskvíar á eldissvæðinu til að ganga úr skugga um að sambærileg göt væru ekki til staðar á öðrum eldiskvíum. Auk þess fyrirskipaði stofnunin að kafað yrði undir þessa tilteknu eldiskví í leit að mögulegum stroklax. Lögð voru út net í grennd við eldiskví í samráði við Fiskistofu til að fanga mögulegan stroklax. Enginn lax veiddist í net eða sáust við köfun undir kví.

Matvælastofnun hefur málið til rannsóknar og rannsakar m.a. hvort strok hafi átt sér stað og hvort Arnarlax hafi virkjað og farið eftir eigin verklagsreglum og viðbragðsáætlunum. Þegar rannsókn lýkur á atburðinum verður gefin út eftirlitsskýrsla um rannsóknina og hún birt á mælaborði fiskeldis á heimasíðu Matvælastofnunar.

Málþing um snjóflóð og samfé­lög á Ísafirði í maí

Ofanflóð 2025 er yfirskrift málþings um snjóflóð og samfélög sem haldið verður í Edinborgarhúsinu á Ísafirði dagana 5.-6. maí 2025.

Íslensk samfélög búa yfir mikilli seiglu, ekki síst gagnvart áföllum, líkt og í mannskæðum snjóflóðum á Flateyri og í Súðavík 1995 og í Neskaupstað 1974. En hvað er það sem myndar seiglu í samfélagi og virkar verndandi þegar náttúruhamfarir dynja yfir?

Á málþinginu verður sjónum beint að samfélögum á hættusvæðum, öryggi á vegum, uppbyggingu á ofanflóðavörnum í landinu og þeim áhrifum sem sú uppbygging hefur á þróun byggða.

Einnig verður fjallað um endurskoðun á mögulegri hættu undir varnargörðum og þann lærdóm sem dreginn hefur verið af snjóflóðunum sem féllu á varnargarða á Flateyri í janúar 2020, þar sem hluti flóðanna barst yfir garðana, og í Neskaupstað í mars 2023 þar sem snjóflóð lentu á varnargörðum og keilum.

Meðal fyrirlesara eru:

  • Bergþóra Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustusviðs Vegagerðarinnar
  • Harpa Grímsdóttir, deildarstjóri ofanflóðadeildar Veðurstofu Íslands
  • Elías Pétursson, formaður ofanflóðanefndar
  • Þóroddur Bjarnason, prófessor við HÍ
  • Halla Ólafsdóttir, dagskrárgerðarmaður á Ísafirði
  • Magni Hreinn Jónsson, fagstjóri ofanflóðahættumats hjá Veðurstofu Íslands
  • Edda Björk Þórðardóttir, dósent við Læknadeild HÍ og klínískur sálfræðingur
  • Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn
  • Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vestfjörðum.

Þá munu fyrrverandi framkvæmdastjórar sveitarfélaga fara yfir áskoranir sveitarfélaga vegna ofanflóðahættu fyrr og nú.

Skipuleggjendur málþingsins eru Ofanflóðasjóður, Veðurstofa Íslands, Vegagerðin, Almannavarnir, Samband íslenskra sveitarfélaga, Byggðastofnun, Verkfræðingafélag Íslands og Snjóflóðasamtök Íslands.

Yfir fimmtíu milljónir til frjálsra félagasamtaka

Kerlingafjöll - Ljósmynd Hugi Ólafsson

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur úthlutað rúmlega 54 milljónum króna í rekstrarstyrki til 25 frjálsra félagasamtaka sem starfa á málefnasviði ráðuneytisins á grundvelli umsókna og er það tæplega 4% heildarhækkun frá úthlutun síðasta árs. Hækkun almennra styrkja til félagssamtaka, án tillits til starfa þeirra í starfshópum, nemur 6,7%.

Markmið styrkjanna er að stuðla að opnum og frjálsum skoðanaskiptum um umhverfis- og auðlindamál og að efla almenna vitund um gildi umhverfismála. Ráðuneytið hefur veitt frjálsum félagasamtökum sem starfa að umhverfismálum rekstrarstyrki frá árinu 2000.

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Frjáls félagasamtök gegna lykilhlutverki í lýðræðisþjóðfélagi. Þau halda okkur við efnið á sviði umhverfismála, þau veita stjórnvöldum mikilvægt aðhald þegar þess þarf og sinna mikilvægum verkefnum á sviði fræðslu og vitundarvakningar. Rekstrargrundvöllur þeirra verður að vera sterkur. Ég hlakka til áframhaldandi samtals og samstarfs við umhverfisverndarsamtök og önnur félagasamtök á kjörtímabilinu.“

Hæstu styrkina fengu Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands sem fengu samtals tæplega helminginn af heildar upphæðinni.

Háafell kynnir áform um 4.500 tonna aukningu

Þriðjudaginn 25. mars mun Háafell kynna umhverfismatsferli sem stendur yfir er varðar stækkun um 4.500 tonn að hámarkslífmassa.

Kynningin fer fram í í Bryggjusalnum í Edinborgarhúsinu og verður kl 17.00.

Auk þess að fara yfir umhverfismatið munu forsvarsmenn Háafells fara yfir stefnu og nálgun Háafells er varðar eldið almennt og er þetta því kjörið tækifæri til þess að fræðast nánar útí starfsemi fyrirtækisins.

Alþjóðlegt þaraverkefni í Strandabyggð

Hólmavík í Strandabyggð. Mynd: Jón Jónsson.

Verkefni fyrirtækisins Fine Foods Íslandica ehf og samstarfsaðilar hefur hlotið rúmlega 10 milljón króna styrk frá Evrópusambandinu til að styðja við framkvæmd IceKelp verkefnisins 2024-2026.

Verkefnið er samstarf Fine Foods Íslandica ehf., Háskólaseturs Vestfjarða og Strandabyggðar, sem kemur að verkefninu sem opinber ábyrgðaraðili. Markmiðið er að hanna líkan fyrir sjálfbæra þararækt og blátt hagkerfi í dreifbýli.

Verkefnaáætlunin var kynnt af Fine Foods Íslandica ehf fyrir sveitarstjórn Strandabyggðar í nóvember 2024 sem samþykkti að styðja við verkefnið. Meðal markmiða verkefnisins eru:

  • Að eiga samskipti við hagsmunaaðila á staðnum með upplýsingafundum og opnum vinnustofum um þararækt.
  • Að miðla fræðslu og þekkingu varðandi þararækt í Strandabyggð.
  • Að stunda rannsóknir á líffræðilegum fjölbreytileika í tengslum við þararæktun.

Þorgeir Pálsson sveitarstjóri er fulltrúi Strandabyggðar. Jamie Lee hjá Fine Foods Íslandica ehf. er framkvæmdastjóri verkefnisins og ber rekstrarlega ábyrgð á verkefninu. Hún, ásamt Bergsveini Reynissyni hjá Nesskel ehf. munu miðla sinni þekkingu, og veita þjálfun í verklegri framkvæmd.

Háskólasetur Vestfjarða stendur fyrir rannsóknum á líffræðilegum fjölbreytileika í kringum þararæktun og mun Alexandra Tyas, fjórða árs Ph.D. nemandi í fornleifafræði við Háskóla Íslands stýra rannsóknum á líffræðilegri fjölbreytni.

Dr. Catherine Chambers er fulltrúi Háskólaseturs Vestfjarða og sér um að upplýsa hagsmunaaðila varðandi þær rannsóknir.  Fine Foods Íslandica hefur unnið mikla rannsólknarvinnu að undanförnu og verður sú vinna notuð sem grunnur í rannsóknir Háskólaseturs Vestfjarða.

Styrkurinn mun standa undir mestum kostnaði við verkefnið og Fine Foods Íslandica ehf. mun einnig leggja fram um 2,5 milljónir króna til að mæta ófyrirséðum útgjöldum sem geta komið upp. 

Íbúum Strandabyggðar verður boðið á opinn fund í Hnyðju fimmtudaginn 27. mars kl 16.00-17.30, þar sem verkefnið í heild sinni verður kynnt fyrir áhugasömum.

Hrafna Flóki : metþátttaka á héraðsmóti

Metþátttaka var á Héraðsmóti HHF í frjálsum innanhúss en 50 þátttakendur mættu til leiks á laugardaginn síðastliðinn í Bröttuhlíð. Alls mættu 21 í aldurshópnum 9 ára og yngri og 29 í aldurshópnum 10-16 ára.

Yngri hópurinn spreytti sig í fimm þrautum; boðhlaupi, boðstökki, skutlukasti, langhlaupi og langstökki.

Eldri hópurinn keppti í kúluvarpi, skutlukasti, langstökki, þrístökki, hástökki og langhlaupi.

Sex félög eru aðilar að Hrafna Flóka. Það eru ÍH, UMFT, ÍFB, UMFB, GP, GBB, sem eru Íþróttafélgið Hörður á Patreksfirði, Ungmennafélag Tálknafjarðar, Íþróttafélag Bíldudals, Ungmennafélag Barðastrandar, Golfklúbbur Patreksfjarðar og Golfklúbbur Bíldudals.

Yngri hópurinn að keppa í hlaupi.

Verðlaunafhending. Myndir: HHF.

Vegagerðin: býður út vetrarþjónustu í Vestur Ísafjarðarsýslu

Núpur í Dýrafirði.

Á föstudaginn bauð Vegagerðin  út vetrarþjónustu, þ.e. snjómokstur og hálkuvarnir með vörubifreið í vestur Ísafjarðarsýslu.

Akstur vörubifreiða er áætlaður 11 þúsund km á ári. Gildistími samnings er þrjú ár, þ.e. veturna 2025-2026, 2026-2027 og 2027-2028. Heimild er til framlengingar samnings í allt að tvö ár með samþykki beggja aðila, eitt ár í senn,

Tilboðum skal skilað fyrir kl. 14:00 þriðjudaginn 29. apríl 2025.

Útboðið er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu.

Landvernd fær styrk

Jóhann Páll Jóhansson, alþm. og ráðherra.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur úthlutað rúmlega 54 milljónum króna í rekstrarstyrki til 25 frjálsra félagasamtaka sem starfa á málefnasviði ráðuneytisins á grundvelli umsókna og er það tæplega 4% heildarhækkun frá úthlutun síðasta árs.

Markmið styrkjanna er að stuðla að opnum og frjálsum skoðanaskiptum um umhverfis- og auðlindamál og að efla almenna vitund um gildi umhverfismála. Ráðuneytið hefur veitt frjálsum félagasamtökum sem starfa að umhverfismálum rekstrarstyrki frá árinu 2000.

Landvernd fær hæsta styrkinn 17.380 þús. krónur. Náttúruverndarsamtök Íslands fá 7.600 þús kr´styrk og ungir umhverfissinnar 5.020 þús. kr.

Í tilkynningu ráðuneytisins er haft eftir Jóhanni Páli Jóhannssyni, ráðherra að

„Frjáls félagasamtök gegna lykilhlutverki í lýðræðisþjóðfélagi. Þau halda okkur við efnið á sviði umhverfismála, þau veita stjórnvöldum mikilvægt aðhald þegar þess þarf og sinna mikilvægum verkefnum á sviði fræðslu og vitundarvakningar. Rekstrargrundvöllur þeirra verður að vera sterkur. Ég hlakka til áframhaldandi samtals og samstarfs við umhverfisverndarsamtök og önnur félagasamtök á kjörtímabilinu.“

Borgaryfirvöld tryggi rekstrarskilyrði Reykjavíkurflugvallar

Reykjavíkurflugvöllur séð til suðurs, Reykjavík, Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður í bakgrúnni. Mynd: Mats Wibe Lund.

Á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem haldið var á föstudaginn, lögðu 10 bæjar- og sveitarstjórar á landsbyggðinni fram tillögu um Reykjavíkurflugvöll sem var samþykkt með yfirgnæfandi fjölda atkvæða.

Meðal flutningsmanna voru bæjarstjórarnir í Vesturbyggð og í Ísafjarðarbæ.

Þar eru borgaryfirvöld hvött til þess að tryggja rekstrarskilyrði vallarins þannig að flugöryggi sé ekki ógnað. Hvorki verði þétt byggð meira í nágrenni flugvallarins né á öryggissvæði hans.

Ályktunin í heild:

„Landsþing Sambands Íslenskra sveitarfélaga leggur ríka áherslu á mikilvægi Reykjavíkurflugvallar fyrir
flugsamgöngur landsmanna, sérstaklega í ljósi hlutverks hans í sjúkraflugi og öryggi fólks sem þarf á
bráðri heilbrigðisþjónustu að halda.
Landsþing Sambands Íslenskra sveitarfélaga hvetur borgaryfirvöld til að tryggja rekstrarskilyrði Reykjavíkurflugvallar með þeim hætti að flugöryggi sé ekki ógnað. Það felur í sér að hvorki verði þétt meira í nágrenni flugvallarins né á öryggissvæði hans umfram það sem þegar hefur verið gert, hvorki með mannvirkjum né gróðri, fyrr en raunhæf og skýr lausn um nýjan flugvöll sem uppfylli skilyrði til sjúkraflugs í tengslum við Landsspítalann er komin í notkun.“

Stjórnlaus bátur út af Horni

Rétt upp úr eitt í nótt barst Landsbjörgu aðstoðarbeiðni frá fiskibát sem var þá staddur rétt norður af Hornbjargi. Það óhapp hafði orðið að olía fór af stýriskerfi og báturinn því stjórnlaus. Fjórir menn eru um borð, veður ágætt og ekki mikil hætta á ferðinni.

Varðskipið Þór, sem var statt í Grundarfirði, var sent af stað vestur ásamt því að áhöfnin á björgunarskipinu Gísla Jóns á Ísafirði var boðuð út. Bæði skip lögðu úr höfn rétt um hálf tvö í nótt.

Klukkan fimm í morgun kom svo Gísli Jóns að bátnum og rétt um 10 mínútum síðar var búið að koma taug á milli skipanna og skipstjóri Gísla Jóns setti stefnuna inn á Ísafjörð. Drátturinn hefur ekki gengið alveg áfallalaust fyrir sig, en eftir um klukkustundar drátt hafði einn þáttur dráttartaugar um borð í fiskibátnum slitnað og þurfti að stöðva ferð meðan áhöfn bátsins lagaði það. Því verki var lokið snöfurmannlega og nú rétt um hálf átta í morgunsárið var hægt að halda ferð áfram. Skipin voru um kl 8 í morgun á um 6 sjómílna hraða eða 11 km á klukkustund, í vesturátt fyrir norður af Hornvík.

Varðskipið Þór heldur áfram för norður fyrir Vestfjörðum áleiðis í átt að Gísla Jóns og fiskibátnum.

Nýjustu fréttir