Sunnudagur 8. september 2024
Síða 89

Styrktarsjóður Gyðu Maríasdóttur – auglýst eftir umsóknum

Auglýst er eftir umsóknum um styrk úr Styrktarsjóði Gyðu Maríasdóttur. Styrktarsjóðurinn var stofnaður árið 1962 af nemendum Húsmæðraskólans Óskar.


Styrkurinn er ætlaður til stuðnings vestfirskum konum sem stunda sérhæft framhaldsnám á sviði lista eða menningar. Umsækjandi þarf að hafa náð átján ára aldri og hafa átt lögheimili á Vestfjörðum í a.m.k. tvö ár.


Umsóknir skulu berast til Heiðrúnar Tryggvadóttur skólameistara Menntaskólans á Ísafirði, heidrun@misa.is

Umsóknarfrestur er til 5. júní n.k.

Miklar framkvæmdir á skólalóð Patreksskóla

Samið hefur verið við verktaka um stærstan hluta fyrsta áfanga framkvæmda á skólalóð Patreksskóla.

Fyrsti áfangi saman stendur af framkvæmdum á afmörkuðu svæði lóðarinnar næst íþróttahúsinu og á svæðinu milli efri og neðri skóla. Hönnunin var unnin af Landmótun út frá hugmyndum nemenda Patreksskóla frá því í vor.

Á neðra svæðinu verða sett upp fimm leiktæki. Snúningsklifurtæki, snúningsróla, lítið trampolín og rörarennibraut. Einnig verður sett upp hreiðurróla sem keypt var með stuðningi Krúttmaganefndarinnar.

Á efra svæðinu verður bætt aðgengi að skólanum með rampi meðfram útvegg sem liggur við sal skólans. Eitt leiktæki verður sett upp á torgið við aðalinngang skólans, girðingar fyrir fótboltavöll, málaðar vallalínur og setpallar settir upp við enda fótboltavallar.

Í allri hönnuninni er unnið að því að bæta lit og fegurð skólalóðarinnar en fyrst og fremst að auka gæði skólalóðarinnar fyrir nemendur.

40 milljónir í styrki til atvinnumála kvenna

Styrkjum til atvinnumála kvenna hefur verið úthlutað og fengu 33 verkefni styrki samtals að fjárhæð 38.000.000 kr. 

Styrkjum til atvinnumála kvenna hefur verið úthlutað frá árinu 1991 og eru þeir ætlaðir frumkvöðlakonum eða fyrirtækjum í þeirra eigu. Skilyrði styrkveitinga eru þau að verkefnin séu í meirihlutaeigu kvenna, stjórnað af þeim og feli í sér nýnæmi eða nýsköpun af einhverju tagi. Það er félags- og vinnumarkaðsráðherra sem veitir styrkina. 

Ekki er nauðsynlegt að vera með starfandi fyrirtæki til að sækja um styrk og því er heimilt að sækja um vegna verkefna á byrjunarstigi en einnig geta þær konur sótt um styrk sem eru að þróa nýjungar í starfandi fyrirtækjum.

Unnt er að sækja um styrki vegna vinnu við gerð viðskiptaáætlunar, vegna markaðssetningar, vöruþróunar, hönnunar og vegna launakostnaðar en ekki eru veittir styrkir til framkvæmda eða vegna stofnkostnaðar.

Í ár bárust 244 umsóknir og hefur ráðgjafarnefnd metið þær á undanförnum vikum. Nefndina skipa þær Bergrún Íris Sævarsdóttir, Elín Gróa Karlsdóttir, Guðrún Stella Gissurardóttir, Hanna Dóra Björnsdóttir og Soffía Gísladóttir.

Hæsta styrkinn í ár, 2.5 milljónir króna, hlutu þær Sandra Gísladóttir fyrir verkefnið Barilli Enterprise Karaokee og Alice Sowa fyrir verkefnið Ullarkögglar.

Á Vestfjörðum fengu þær Jamie Lee á Gróustöðum í Reykhólahreppi og Harpa Lind Kristjánsdóttir á Ísafirði styrk að upphæð ein milljón hvor til vöruþróunar.

Ferðafélag Ísfirðinga: Söguferð um Hnífsdal

Bæjarganga og ganga upp í Miðhvilft – 1 skór
Laugardaginn 25. maí

Skráning óþörf, bara mæta, ókeypis í ferðina.

Fararstjórn: Gabríela Aðalbjörnsdóttir og Jóhann Birkir Helgason.
Mæting kl. 10.00 við félagsheimilið í Hnífsdal.
Gengið um þorpið og nágrenni þess á nýjum göngustígum.
Göngutími: um 1,5 klst. Að þeirri göngu lokinni er í boði að fara upp í Miðhvilft sem er í þriggja km fjarlægð frá þorpinu og tæpum 300 m ofar. Um tveggja tíma viðbót.

Bókin Saga Hnífsdals eftir Kristján Pálsson kom út síðastliðið haust. Útgáfuhóf var haldið í Félagsheimilinu í Hnífsdal og annað í Eymundsson á Skólavörðustíg í Reykjavík. Á báðum stöðum var fjölmenni mætt til þess að fagna útgáfu bókarinnar.

Bókin er mikið verk, rúmlega 500 blaðsíður og rekur sögu Hnífsdals fram til 1971 þegar Eyrarhreppur sameinaðist Ísafjarðarkaupstað. Höfundur er Kristján Pálsson, fyrrv. alþm og sagnfræðingur. Hann gefur sjálfur bókina út.

Í Landnámu er Hnífsdalur nefndur Skálavík og telur Kristján að nafnið sé dregið af mörgum skálum eða hvilftum í Bakkafjalli. Nafnið breyttist síðar , hugsanlega þegar Vatnsfirðingar eignuðust dalinn, en þeir áttu aðra Skálavík yst í Mjóafirði í Ísafjarðadjúpi.

Bókin skiptist í 22 kafla þar sem fjallað er um byggðina og mannlífið. Meðal annars er rakin ábúendasaga á Hnífsdalsjörðunum eftir 1861, íbúaþróun, vélaöldina, snjóflóðin í byrjun 20. aldar, verkalýðsbaráttuna og félagasamtökin.

Þar má nefna kvenfélagið Hvöt, ungmennafélög og slysavarnarsveit.

Í ávarpi sínu í Eymundsson sagði Kristján Pálsson frá því þegar kvenfélagið Hvöt samþykkti að láta söfnunarfé sitt til byggingar á kirkju í Hnífsdal ganga til þess að fjármagna bryggju en þeir sem fyrir því stóðu urðu uppinskroppa með fé. Varð það niðurstaðan þar sem bryggju þurfi og hún varð svo til þess að frystihúsið var síðar reist í Hnífsdal. En kirkjan er enn ókomin.

Félagsheimilið Þingeyri – þörf á viðgerðum

Félagsheimilið á Þingeyri. Mynd: Ísafjarðarbær.

Lagður hefur verið fram ársreikningur 2023 fyrir Félagsheimilið á Þingeyri og skýrsla um starfsemi og ástand hússins.

Tekjur síðasta árs voru 796 þús kr. og útgjöld 569 þúsund krónur. Inneign var í byrjun árs 811 þúsund kr. og jókst hún í 1.038 þúsund kr. í lok ársins.

Í fyrra var tekin saman greinargerð um ástand, viðhald og nauðsynlegar endurbætur á húsnæði Félagsheimilisins á Þingeyri og komið til bæjarstjóra. Þar er rakið hvaða endurbætur er orðið verulega nauðsynlegt að ráðast í og hefur verið í mörg ár. Þegar eldhúsið var tekið í gegn var planið að a.m.k. gólf í sal og gluggar væru næst á dagskrá. Og þannig er það enn segir í ársskýrslunni.

Engar meiriháttar framkvæmdir voru í fyrra, en aukavatnshitakútur fyrir eldhús var tengdur í maí þannig að nú er nægt heitt vatn í uppvask en það var löngu orðið tímabært að laga það.

Á Dýrafjarðardögun í fyrra var haldinn dansleikur og rann aðgangseyrir til endurbóta á gólfi í salnum auk frjálsra framlaga. Um 500 þús kr. safnaðist í frjálsum framlögum “spýtum” og svo til annað eins í aðgangseyri. Þetta bíður allt á bók og mun renna óskipt í nýtt gólf þegar að því kemur.

Eldvarnareftirlitið hefur lagt fram eindregna kröfu um að brunavarnarkerfi verði sett upp í húsinu. Búið er að panta slíkt kerfi frá Bretlandi. Það bíður uppsetningar en sá kostnaður væri þá í höndum sveitarfélagsins.

Af öðrum verkefnum er að klára þarf að koma upp túðu með viftu sem tekin var niður þegar þakið á senuhluta hússins var endurnýjað, gera þarf við leka í hornum þar sem salur og sena tengjast og þakrennur á húsinu eru farnar að leka.

Göngunum undir Breiðadals og Botnsheiði verður lokað kl.17:00 í dag

Göngunum undir Breiðadals og Botnsheiði verður lokað kl.17:00 í dag í hálfa klukkustund eða svo.

Búast má við umferðartöfum í göngunum í eina til tvær klukkustundir í kjölfarið.

Vegfarendur eru hvattir til að sýna tillitssemi.

Ástæða lokunarinnar er æfing allra viðbragðsaðila á norðanverðum Vestfjörðum þar sem líkt verður eftir hópslysi í Önundarfirði þar sem hópferðabifreið með tugi farþega hlekkist á og bregðast þarf við því með viðeigandi hætti.

Æfingin miðast við að samhæfa viðbrögð og vinnu viðbragðsaðila sem og heilbrigðisstarfsmanna og Vegagerðarinnar.

Vettvangsstjórn verður virkjuð á vettvangi, sem og Aðgerðastjórn almannavarna á Vestfjörðum, sem staðsett verður í nýrri aðstöðu sinni í Guðmundarbúð á Ísafirði.

Einnig verður Samhæfingamiðstöð í Skógarhlíð virkjuð eins og venjan er. Flugdeild Landhelgisgæslunnar mun einnig koma að æfingunni.

.

Eldisfiskur í apríl 1.112 tonn

Eldisfiskflutningaskipið Novatrans í Ísafjarðarhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Slátrað var 336 tonnu af eldisfiski á Bíldudal í aprílmánuði samkvæmt upplýsingum hafnarstjóra Vesturbyggðar og í Bolungavík var landað 776 tonnum af eldisfiski. Samtals var landað til slátrunar á Vestfjörðum 1.112 tonnum af eldisfiski í aprílmánuði.

Er það óvenjulítið miðað við tölur síðustu mánaða. Í október 2023 var slátrað 2.608 tonnum á Bíldudal og 1.528 tonnum í Bolungavík eða samtals 4.136 tonnum. Nemur magnið í síðasta mánuði um 27% af októbertölunum.

Í Bolungavík var landað 1.151 tonnum af bolfiski í apríl og að viðbættum eldisfiskinum komu 1.927 tonn til löndunar í mánuðinum.

Dynjandisheiði: þungatakmörkun aflétt

Unnið að vegagerð á Dynjandisheði í lok febrúar 2024. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Þeim sérstöku ásþungatakmörkunum sem hafa verið í gildi á Vestfjarðarvegi (60)  yfir Dynjandisheiði var aflétt í morgun miðvikudaginn 22. maí. 2024 kl. 06:00.

Fyrir helgi voru settar á 10 tonna þungatakmarkanir á Dynjandisheiði, en .eim hefur nú verið aflétt.

Halla Hrund stenst prófin tvö

Fyrir nokkrum misserum, þegar ég var enn forstjóri í opinberri stofnun, fór ég suður á fund Félags forstöðumanna ríkisstofnana (FFR). Í aðdraganda fundarins datt mér í hug að stofna mjög sértækan klúbb forstjóra í kringum fertugt, þar sem ræða skildi um snertifleti smábarnauppeldis og líf forstjórans. Meðal umræðuefna skyldu vera til dæmis hvernig starfsdagar á leikskólum færu saman við starfsdaga æðstu stjórnenda, hvaða verkfæri stjórnsýslulaga eða nútímalegrar mannauðsstjórnunar væru notadrýgst við uppeldi þrákelkinna leikskólabarna og hvernig best er að ná gubbublettum úr stökum jökkum og buxnadrögtum.

Ég bauð því yngstu meðlimum FFR með út að borða. Það var táknrænt að einn tilvonandi meðlimur komst ekki með okkur vegna þess að eitt barna hans var með ælupest. Við vorum því bara þrjú á stofnfundinum; ég, Kría (Kristín Lena) forstjóri Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra og Halla Hrund orkumálastjóri. Þarna kynntist ég Höllu vel og við höfum haldið góðu sambandi síðan.

Fyrir mér er augljóst að Halla Hrund stenst með glans þau tvö próf sem ég held að almenningur leggi ósjálfrátt fyrir forsetaframbjóðendur.

Prófin tvö

Það fyrra er alþjóðlegt, bjórprófið. Það hljómar svo: með hvaða frambjóðanda vill maður helst drekka bjór? Og ég get vottað að það er barasta mjög gaman að drekka bjór eða eitthvað annað með Höllu Hrund, því hún er hress og skemmtileg, segir sjálf brandara og hlær að bröndurum sem aðrir segja.

Hitt prófið er Kjarvalsprófið sem ég kalla, það er hversu auðvelt á maður að ímynda sér frambjóðendur ábúðarfulla með Kjarvalsmálverk í bakgrunni að tala um stóráföll, samfélagsleg gildi eða stöðu Íslands við áramót. Og þetta próf stenst Halla Hrund með glans.

Um aðra mannkosti Höllu hefur verið skrifað í löngu máli á öðrum vettvangi, en áhersla hennar á samskipti við önnur lönd er eitthvað sem höfðar sérstaklega til mín. Þar tel ég að til mikils sé að vinna og hún mjög vel hæf til að skapa og styrkja tengsl í vísindum, menningu og viðskiptum.

Vestfirðir voru fyrsta alvöru stoppið hennar í kosningabaráttunni. Hún kom í Fossavatnsgönguna í apríl og hélt opna fundi út um allt. Dagana eftir heimsóknina hingað vestur fór svo frægðarsól Höllu að rísa fyrir alvöru.

Það kemur þeim sem þekkja Höllu ekki á óvart. 

Gylfi Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða

UUA: tímabundin breyting á eldissvæði í Djúpinu þarf ekki í umhverfismat

Þjónustubáturinn Kofri á siglingu í Djúpinu. Mynd: Háafell.

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál hefur hafnað kröfu samtakanna Laxinn lifi sem vildi að Háafell yrði að framkvæma sérstakt umhverfismat í Ísafjarðardjúpi fyrir því að um tveggja ára skeið yrðu tveir árgangar af eldisfiski í Seyðisfirði.

Í febrúar 2024 komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að Háafell þyrfti ekki að gera sérstakt umhverfismat fyrir þeirri breytingu að hafa frá vori 2024 til vorsins 2026 mismunandi árganga eldislax innan sama árgangasvæðis á eldissvæðunum Ytra-Kofradýpi og Seyðisfirði.

Háafell fékk rekstrarleyfi fyrir 6.800 tonna eldi í Ísafirði og var í aðdraganda þess unnið mat á umhverfisáhrifum á Djúpið vegna framleiðslunnar. Skipulagsstofnun telur tímabundnu breytinguna ekki líklega til þess að hafa umtalsverð umhverfisáhrif og því munu umhverfismatið sem gert var lýsa áhrifunum nægjanlega. Umhverfisstofnun benti á að nýtt umhverfismat myndi ekki varpa skýrara ljósi á áhrif eldisins en þegar lægi fyrir.

Úrskurðarnefndin segir í úrskurði sínum að „að áliti úrskurðarnefndarinnar er ákvörðun Skipulagsstofnunar um að umrædd breyting skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum studd haldbærum rökum. Verður og ekki annað séð en að stofnunin hafi að rannsökuðu máli lagt viðhlítandi og sjálfsætt mat á þá þætti sem máli skipti um það hvort umtalsverð umhverfisáhrif hlytust af framkvæmdinni. Verður því að hafna kröfu um ógildingu hennar.“

Nýjustu fréttir