Sunnudagur 8. september 2024
Síða 88

Reykhólaskóli fékk afhent Bambahús að gjöf frá Skeljungi

Reykhólaskóli fékk í síðustu viku afhent Bambahús að gjöf frá Skeljungi.

Umsókn skólans var valin úr yfir 70 umsóknum og var styrktarnefnd Skeljungs sammála um að Reykhólaskóli væri framúrskarandi staður þar sem nemendur geta nýtt sér þá fjölbreytni sem Bambahúsin hafa uppá að bjóða.

Bambahúsið er tilvalið samfélagsverkefni þar sem heimamenn geta sameinast um gróðurrækt. Það er um að gera hafa kryddjurtir og salat í húsinu í sumar sem getur nýst sem flestum.

Síðasta Vísindaport vetrarins

Í síðasta vísindaporti vetrarins munu nemendur Háskólaseturs Vestfjarða segja frá verkefni sem þeir unnu á námskeiði undir handleiðslu Dr. Pat Maher, sem nefnist “Sjávarbyggðir á tímum afþreyinga og ferðalaga”.

Nemendurnir fengu það verkefni að finna söguefni tengt námsefninu og í kjölfarið að finna leið til að segja þessar sögur. Erindin fara fram á ensku.

Dr. Pat Maher hefur kennt þetta námskeið undanfarin ár en hann er jafnframt kennari við Nipissing Háskólann í Kanada. Undanfarin 25 ár hefur hann stundað rannsóknir á ferðaþjónustu um allan heim og kennt námsleiðir því tengdu.

Nemendurnir sem kynna verkefnin sín eru fyrsta árs nemar sem stunda nám bæði í haf og strandveiðistjórnun og sjávarbyggðafræðum. Bakgrunnur þeirra er mjög fjölbreyttur og koma þau frá Kanada, Bandaríkjunum, Frakklandi, Spáni og Danmörku.

Erindið fer fram á kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða og hefst kl. 12.10.

Patreksfjörður: vegleg fjögurra daga hátíð um sjómannadagshelgina

Sjómannadagsráð Patreksfjarðar hefur birt dagskrá hátíðahaldanna um sjómannadagshelgina. Að venju er dagskrá í fjóra daga og hefst hún eftir viku fimmtudaginn 30. maí kl 17 með Eyfahlaupinu, sem er til minningar um Eyjólf Tryggvason, en hann lést af slysförum fyrir þremur árum. Um kvöldið stígur Sóli Hólm á svið í Félagsheimilinu og verður með uppistand.

Á föstudagskvöldið verða stórtónleikar í Félagsheimili Patreksfjarðar föstudaginn 31. maí þar sem Páll Óskar og Sigga Beinteins ásamt Stuðlabandinu munu flytja alls konar lög úr öllum áttum.

Fjölmörg atriði eru á dagskránni, svo sem sýningar, golfmót, pylsugrill, götusúpa og skemmtidagskrá við leikskólann. Sjómannamessa verður á sjómannadaginn og kappróður við höfnina svo fátt eitt sé nefnt.

Strandabyggð: sendir Alþingi áskorun um samgönguúrbætur

Innstrandarvegur er í Steingrímsfirði innan Hólmavíkur. mynd: Jón Halldórsson.

Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkti í síðustu viku áskorun til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um úrbætur í samgöngum í sveitarfélaginu.

Bendir sveitarstjórn á að á gildistími tveggja síðustu samgönguáætlanna hafa svo til engar nýframkvæmdir í vegamálum verið í Strandabyggð. Sú eina framkvæmd sem þó var á samgönguáætlun hafi ítrekað verið frestað við gerð nýrrar áætlunar. Slíkt er með öllu óviðunandi.

Sveitarstjórn Strandabyggðar leggur áherslu á að einbreiðum brúm á Ströndum verði fækkað markvisst á næstu árum. Einnig er þess krafist að áfram verið haldið með almennar vegabætur á Ströndum.

Vakin er athygli á ástandi Innstrandarvegar nr 68 frá Steingrímsfirði inn i Hrútafjörð. Vegurinn er um 100 km langur og er malarslitlag á 39 km þar af. Á veginum séu 13 einbreiðar brýr. Margar þeirra eru sérstaklega varasamar vegna nálægðar við aðra hættu, svo sem erfiðar beygjur eða blindhæðir.

Óskir um forgangsröðun framkvæmda
Sveitarstjórn Strandabyggðar vill forgangsraða framkvæmdum í sveitarfélaginu með
eftirfarandi hætti:

  1. Einbreið brú yfir Hrófá í Steingrímsfirði og vegabætur á blindhæð við brúnna.
    Einbreiða brúin yfir Hrófá er orðin mjög léleg. Í Árnesinu að sunnanverðu við brúna
    er blindhæð um 100 m frá brúarenda. Þar hafa orðið mörg umferðaróhöpp og árið
    2019 varð banaslys á þessum stað. Brýnt er að laga þennan kafla og endurnýja
    brúnna sbr. Skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa
    https://www.rnsa.is/media/4769/2019- 097u013-innstrandavegur-vid-hrofa.pdf
  2. Vegrið vantar á nokkra kafla þar sem slys hafa orðið. Þetta á við um kafla á
    Vestfjarðarvegi nr. 60 t.d. við Stórgrýtisbug sunnan Hólmavíkur og við Hrófberg í
    botni Steingrímsfjarðar. Einnig þarf að setja vegrið í Kollafirði norðanverðum á
    Innstrandavegi nr. 68 þar sem mjög bratt er niður af vegi og er skólaakstursleið.
  3. Einbreið brú yfir Langadalsá í Ísafjarðardjúpi Þarna hafa orðið mörg umferðaróhöpp.
    Sveigja á veginum beggja vegna brúarinnar takmarkar vegsýn þegar komið er að
    brúnni.
  4. Einbreið brú yfir Selá á Langadalsströnd. Brúin er orðin mjög léleg og þolir ekki
    þungaflutninga lengur. Brúin er mikilvæg vegna byggðar og einnig er hún á vegi að
    mikilvægum ferðamannastöðum á Snæfjallaströnd og Langadalsströnd t.d.
    Kaldalón.

Bíldudalsvegur : 10 tonna ásþungi

Frá Bíldudalsvegi. Mynd: Fréttablaðið.

Þeim sérstöku ásþungatakmörkunum sem hafa verið í gildi á Bíldudalsvegi (63) frá Flugvallarafleggjara að vegamótum á Dynjandisheiði var breytt úr 5 tonnum í 10 tonn í dag fimmtudaginn 23. maí 2024 kl. 08:00.

Menntaskólinn Ísafirði í 50 ár

Á laugardaginn kl 13 verður brautskráning í Menntaskólanum á Ísafirði og verður athöfnin í Ísafjarðarkirkju. Liðin eru 50 ár frá fyrstu útskrift og hafa liðlega 2.300 nemendur verið brautskráðir.

Á föstudaginn 24. maí kl 17 verður opnuð sýning um nemendasögu skólans og stendur hún til kl 20. Á laugardaginn verður svo sögusýning fra kl. 15 – 17 í húsnæði skólans.

Skólameistari er Heiðrún Tryggvadóttir.

Lokað á talknafjordur.is

Tálknafjörður. Mynd: Mats Wibe Lund.

Lokað hefur verið fyrir aðgengi að vefsíðu Tálknafjarðarhrepps talknafjordur.is og er vísað á vefsíðu Vesturbyggðar. Þar er hægt að nálgast upplýsingar um Vesturbyggð, svo sem fundargerðir og aðrar upplýsingar fyrir sameiningu, en ekki er að finna neina vísun á upplýsingar um Tálknafjarðarhrepp.

Þegar leitað var eftir upplýsingum hjá Vesturbyggð var vísað á vefslóðina old.talknafjordur.is en ekki reynist unnt að fara inn á talknafjordur.is. Fundargerðir sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps og nefnda eru því ekki aðgengilegar.

Örvinglan hjá Petersen og Kaldal

Eldiskvíar Háafells í Ísafjarðardjúpi.

Áróðursherferð Gunnars Arnar Petersen, framkvæmdastjóra Landssambands veiðifélaga og Jóns Kaldal, talsmanns IWF náði ákveðnu hámarki í gær þegar matvælaráðherra voru afhentir undirskrifarlistar gegn sjókvíaeldi þar sem krafan er að eldið verði bannað. Herferðin hefur staðið linnulaust yfir í gott ár, fengið viðstöðulausa og gagnrýnislausa umfjöllun í sjónvarpsstöðvum og helstu útvarpsstöðvum landsins, haldnir hafa verið útifundir, auglýst í blöðum, keyptar skýrslur og forystufólk í stangveiði og ferðaþjónustu hefur sent út ákall í opnuauglýsingu í Morgunblaðinu.

Niðurstaðan er hins vegar ekki nærri því í samræmi við fjárausturinn og áróðurinn. Undirskrifirnar urðu aðeins 46 þúsund. Þeir sem ekki skrifuðu undir eru um 220 þúsund. Fyrir hvern einn sem skrifaði undir áskorunina eru fimm sem gerðu það ekki. Það er augljóst að lítill minnihluti getur ekki fengið sína kröfu fram. Það er líka ljóst af áformum ríkisstjórnarinnar að það stendur ekki til að banna sjókvíaeldi. Ráðherrar úr öllu stjórnarflokkunum hafa sagt það skýrt á síðustu mánuðum að fiskeldið sé komið til að vera og að ætlunin sé að nýta hagstæð skilyrði við landið til þess að auka landsframleiðsluna og bæta efnahag landsmanna. Tilgangur lagafrumvarps um atvinnugreinina sé að lágmarka óæskileg áhrif sem kunna að vera og hámarka efnahagsleg áhrif.

Október 2023: ekkert fiskeldi væri til staðar

Þegar matvælaráðherra kynnti stefnumörkun ríkisstjórnarinnar síðastliðið haust, nánar tiltekið 4. október 2023, sem var undanfari frumvarpsins í desember var Jón Kaldal kallaður samdægurs í beina útsendingu í sjónvarpsfréttum RUV til þess að bregðast við. það stóð ekki á svörunum, Jón Kaldal var bara nokkuð ánægður með stefnumörkunina og sagði að ef þessi umgjörð um eldið væri í gildi í dag væri ekkert sjókvíaeldi til staðar.

Nú er annað hljóð í strokknum hjá þeim Petersen og Kaldal. Það má heyra örvinglan í málflutningi þeirra og stóryrðum. Þeim hefur mistekist að ná fram kröfum sínum. Ástæðan er einföld. Krafan er ekki byggð á nógu góðum rökum. Sjókvíaeldið er einn helsti vaxtarbroddur í íslensku efnahagslífi, útflutningstekjur nema tugum milljarða króna á hverju ári og munu á næstu árum vaxa upp í um 100 milljarða króna. Beinu störfin sem þegar eru orðin til eftir aðeins áratug nema hundruðum og óbeinu störfum bætast við þau. Vel er fylgst með álagi á lífríki í hafinu og brugðist við þegar við á. Áhætta á blöndum við villta laxastofna er lítil og að mestu afturkræf. Engir innlendir nytjastofnar hafa orðið fyrir áhrifum af eldinu og jafnvel slysasleppingin slæma í ágúst síðastliðnum af kynþroska laxi kemur að öllum líkindum ekki til með að hafa merkjanleg áhrif. Fyrir liggur það álit Hafrannsóknarstofnunar um áhættu á erfðablöndun að það þurfi mikla blöndun í langan tíma til þess að vænta megi varanlegra áhrifa. Stakur atburður er að sama skapi ekki áhyggjuefni til langs tíma.

Framfarir á Vestfjörðum eru hræðilegar!

Eftir áróðursherferðina stendur hávaðinn í ómerkilegum málflutningi Petersen og Kaldal, sem sker í eyru.

Eftir að kvótanum var sópað af Vestfjörðum varð mikil fólksfækkun og almenn afturför í fjórðungnum. Fólki fækkaði um 40%. Svo kom fiskeldið að frumkvæði heimamanna. Það lofaði góðu en fékk ekki nægan stuðning fjárfesta og leitað var til útlendinga. Pólverji og Norðmenn komu að uppbyggingunni með Íslendingum og lögðu til mikið fé. Síðan hefur þróunin snúist við til hins betra. Fólki hefur fjölgað á Vestfjörðum síðasta áratuginn, störfum hefur fjölgað, fasteignaverð hefur hækkað og fjárfestingar í atvinnutækjum nema tugum milljarða króna.

Þetta telja þeir Petersen og Kaldal að geti ekki gengið og fá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands til þess að gera skýrslu um áhrif laxeldisins. Óvænt dró skýrslan fram jákvæð áhrif laxeldisins á Vestfjörðum. Verðmæti framleiðsluleyfanna er talinn geta verið um 100 milljarðar króna. Það er býsna mikið. Þá kemur fram að í Vesturbyggð, þar sem laxeldið hófst fyrst, hefur fjölgað fólki um 16% frá 2014 og að laxeldið eigi stóran þátt í því.

Þar kemur lika fram að fasteignaverð á sunnanverðum Vestfjörðum hefur þrefaldast. Það sé að jafnaði 230-240 þúsund krónur á fermetra í sérbýli á árunum 2022 og 2023. Verðið hafi sem sé verið fyrir 100 fermetra einbýlishús 7 -8 m.kr. fyrir laxeldi en sé orðið 23 – 24 m.kr. eftir nokkurra ára starfsemi. Hækkunin er um 16 m.kr. sem er eignamyndunin. Íbúar á þessu svæði, og reyndar einnig á norðanverum Vestfjörðum, eru aftur farnir að búa við þau skilyrði að eignir þeirra hækka í verði, eitthvað sem fólk missti af um áratugaskeið. Fjöldi fjölskyldna hefur tapað miklu fé vegna undanhaldsins í kjölfar framsals botnfiskkvótans á sínum tíma. Nú eru breyttir tímar vegna sjókvíaeldisins og þá koma þeir félagar Petersen og Kaldal og hrópa á torgum að þetta verði að banna. Hróp þeirra segja okkur að það eigi að taka þennan ávinning af okkur og lækka fasteignaverðið aftur.

Fulltrúar Vestfjarðastofu minntu á það í grein á bb.is eftir Morgunblaðsauglýsinguna, sem áður var minnst á, og krafist er að eldið verði bannað, að um 300 störf á Vestfjörðum myndu hverfa í einu vetfangi sem myndu þýða að um 1.000 manns myndu flytjast burt.

Fækkum fólki á Vestfjörðum hrópa Petersen og Kaldal. Svo bæta þeir við, þetta eru hvort sem er útlendingar, bönnum sjókvíaeldið! Björk og Bubbi spila og syngja undir hávaðakórnum og hrópa að það sé allt merkilegra en Vestfirðingarnir sjálfir. Það þurfi að vernda náttúruna og laxinn en fólkið sem býr í fjórðungnum geti etið það sem úti frýs.

Laxeldi er lausn en ekki vandi

Það er einmitt þetta sjálfhverfa kaldlyndi ríka og fræga fólksins sem hefur orðið til þess að herferð Petersen og Kaldal mistókst. Stjórnmálamönnum er ljóst að það er ekki hægt að banna laxeldi, nema í staðinn komi önnur atvinnustarfsemi jafngild , ekki bara fyrir Vestfirðinga heldur einnig fyrir land og þjóð. Og það er ekkert annað í boði. Það hafa síðustu 30 ár, eftir kvótakerfið, ekki verið neinar lausnir. Laxeldið er lausn og það góð lausn, ekki alveg áhættulaus, en áhættulítil. Það hefur ekki skaðað stangveiði hingað til og er ekki líklegt til þess að gera það. Vandi stangveiðimanna er annar en laxeldi og veiðiréttarhafar eiga að snúa sér að því að takmarka veiðar úr ofveiddum stofni og huga að ám sínum.

Laxeldinu munu fylgja efnahagslegar framfarir og almennur lífskjarabati á næstu áratugum.

Það er kjarni málsins.

-k

NASF: 46.000 undirskriftir gegn opnu sjókvíaeldi

Fr´afhendingu undirskriftanna í gær á Austurvelli. Mynd: NASF.

Í fréttatilkynningu frá verndarsjóði villtra laxastofna, NASF, segir að eftir slysasleppingu síðastliðið haust hafi Verndarsjóður villtra laxastofna (NASF) hafið undirskriftarsöfnun ásamt samstarfsaðilum undir heitinu „Þetta leyfðum við, bætum fyrir það“ þar sem byggt á þeirri staðreynd að stofnstærð villta Norður-Atlantshafslaxins hefur minnkað um 70% á undanförnum 25 árum.

Í tilkynningunni segir : „Í Noregi, Skotlandi, Kanada og Bandaríkjunum er lítið orðið um ómengaða stofna Atlantshafslax vegna erfðablöndunar við eldislax og því þarf að leggja af allt sjókvíaeldi við strendur Íslands. Í sjókvíaeldi á Íslandi er notast við framandi, frjóa, norska tegund og vitað er að eldisfyrirtækjum hefur alls staðar í heiminum reynst ómögulegt að halda eldislaxinum í sjókvíum. Ein afleiðing þessa var eitt stærsta umhverfisslys Íslandssögunnar þegar 3.500 eldislaxar sluppu úr sjókví Arctic Fish á Patreksfirði með þeim afleiðingum að á fimmta hundrað eldislaxa veiddust í þekktum ám um allt land og rataði sá súrrealíski farsi beint í áramótaskaupið. Ekki er enn vitað hve mikið af eldislaxi náði að hrygna í íslenskum ám síðastliðinn vetur og mun það taka einhver ár að ná utan um umfang tjónsins.“

NASF, hafi ásamt samstarfsaðilum á borð við Icelandic Wildlife Fund, Landssamband Veiðifélaga, Aegis, Völu Árnadóttur, Landvernd, VÁ!, Patagonia og fleiri á undanförnum vikum lagt ríka áherslu „að Ísland sé síðasta athvarf villtra laxastofna í Norður-Atlantshafi. Eins og útlitið er með lagareldisfrumvarpið núna þá mun villti íslenski laxastofninn deyja út á komandi árum ef ekki verður gripið strax til aðgerða.“

Loks segir að NASF hvetji aðila sem annt er um villta laxastofninn og náttúru Íslands að mótmæla lagareldisfrumvarpinu með því að setja þrýsting á þingmenn síns kjördæmis.

Brahms veisla í Hömrum á Ísafirði

Bræðurnir Mikolaj, Nikodem og Maksymilian Frach bjóða til Brahms tónlistarveislu föstudagskvöldið 24. maí kl. 19:30.
Á dagskránni verður yndisleg kammertónlist eftir Brahms, m.a. fræga tríóið op. 40, og 6 einleiksverk fyrir píanó op.118. Þá leikur Iwona móðir þeirra með Maksymilian í víólusónötu. Einnig munu hljóma verk eftir Frédéric Chopin.

Mikolaj, Maksymilian og Nikodem eru allir nemendur við Tónlistarakademíuna í Kraká og hafa hlotið verðlaun í ýmsum alþjóðlegum tónlistarkeppnum, en eins og mörgum er kunnugt eru þeir fæddir og uppaldir á Ísafirði og mörg okkar hafa fylgst með þroska þeirra frá bernsku þeirra. Þeir eru því sérstakir aufúsugestir hér.

Aðgangur ókeypis.

Tónleikarnir eru styrktir af Tónlistarfélagi Ísfirðinga og Vestfjaðastofu

Nýjustu fréttir