Laugardagur 7. september 2024
Síða 87

Endurnýja á samninga um rekstur Fab Lab smiðja

Endurnýja á samninga við ellefu Fab Lab smiðjur sem eru víðs vegar um landið, þar á meðal á Ísafirði.

Síðasta þrijudag undirrituðu Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Einar Þorsteinsson borgarstjóri og Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir skólameistari nýjan samning um Fab Lab í Reykjavík.

Undirritun samningsins er sú fyrsta í röðinni í því ferli að endurnýja samninga við Fab Lab smiðjur á landinu.

Þar kemur fram að markmið með starfsemi Fab Lab sé að auka þekkingu og leikni nemenda, kennara, almennings, frumkvöðlum og fyrirtækjum á persónumiðaðri nýsköpunarvinnu og stafrænum framleiðsluaðferðum.

Verkefninu er ætlað að styðja við þátttöku og áhuga á verk- og tækninámi í grunn- og framhaldsskólum samhliða því að auka tæknilæsi, skapandi starf og frumkvöðlamennt. Það skapar vettvang fyrir þróun og prófun hugmynda og efla þannig samkeppnishæfni í nærsamfélagi.

Framleiðsluvirði landbúnaðarins áætlað 89 milljarðar árið 2023

Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar er heildarframleiðsluvirði landbúnaðarins árið 2023 áætlað 89 milljarðar króna sem er rúm 8% aukning frá árinu 2022 en hana má rekja til hærra afurðaverðs.

Áætlað er að um 65% framleiðsluvirðisins teljist til búfjárræktar en um 27% til nytjaplönturæktar.

Gert er ráð fyrir að kostnaður við aðfanganotkun verði um 56 milljarðar króna árið 2023 sem er 4% aukning frá fyrra ári. Áætlunin gerir ráð fyrir svipuðu magni aðfanga en hækkun á verði þeirra. Miðað við þessar forsendur verður aðfanganotkun 63% af heildarframleiðsluvirði landbúnaðarins sem er svipað og það var á fyrra ári. Rétt er að benda á að mat á aðfanganotkun er háð nokkurri óvissu og þar með verður mat á hlutdeild annarra útgjaldaliða einnig óvisst.

Áætlunin byggir á lokaúttekt fyrir árið 2022 og svo fyrirliggjandi upplýsingum um magn- og verðbreytingar á landbúnaðarvörum árið 2023.

Bretland: skoskur eldislax með mest útflutningsverðmæti af matvöru

Eldislax frá Skotlandi var á síðasta ári í efsta sæti af útfluttri matvöru frá Bretlandi hvað verðmæti snertir. Samkvæmt frétt á vefnum IntraFish var útflutningsverðmætið nærri 600 milljónir steringspunda eða um 100 milljarðar íslenskra króna. Framleiðsluverðmæti greinarinnar var heldur meira eða um 140 milljarðar króna, enda er Bretland sem innanlandsmarkaður býsna stór.

Skoska þingið hefur sett af stað úttekt á fiskeldinu þar sem meðal annars verður athugað hvernig gengið hefur að hrinda í framkvæmd leiðbeiningum frá 2018 um úrbætur sem varða umhverfismál, aðbúnað og heilsufar fiskanna, einkum lúsaálag og afföll.

Sérstök nefnd á vegum stjórnvalda, sem fer með atvinnu- og efnahag dreifbýlisins annast úttektina. Afföll eldisfiska hafa síðustu tvö ár verið með mesta móti. Nefndin mun halda fundi með hagsmunaaðilum svo sem eldisfyrirtækjum, fjárfestum, umhverfisverndarsamtökum og eftirlitsaðilum. Framkvæmdastjóri samtaka laxeldisins í Skotlandi fagna framtakinu og kveðst munu leggja áherslu á aðgerðir sem stuðla að þróun og frekari fjárfestingu í atvinnugrein sem framleiðir matvæli með einna lægsta kolefnisspori og geri hana enn álitlegri.

Vöktum landið saman!

Land og skógur auglýsir eftir áhugasömu fólki sem vill taka þátt í vöktunarverkefninu Landvöktun – lykillinn að betra landi. Þátttakendur leggja þar með lóð á vogarskálarnar við söfnun gagna sem notuð eru við mat á ástandi gróðurs og jarðvegs á öllu landinu.

Vöktunarverkefnið Landvöktun – lykillinn að betra landi er hluti af Grólind, verkefni sem ætlað er að gera með reglubundnum hætti heildarmat á ástandi gróður- og jarðvegsauðlinda
landsins og þróa sjálfbærnivísa fyrir nýtingu þessara auðlinda.

Mælingarnar sem þátttakendur safna verða notaðar við ástandsmat á stöðu gróðurs og jarðvegs á öllu landinu. Gögnin eru almannaeign og því geta þátttakendur notað þau að vild. Þær aðferðir sem notaðar eru við vöktunina eru í stöðugri endurskoðun og þátttakendur geta haft mikil áhrif á hvað mælt er.

Land og skógur hvetur allt áhugasamt fólk til að taka þátt í landvöktuninni, svo sem landeigendur, bændur og ýmsa hópa, stóra og smáa. Því fleiri sem stökkva á vagninn, því betur gengur Grólindarverkefnið og þar með fást meiri og betri gögn til að taka upplýstar ákvarðanir í sameiningu um landnýtingu.

Vestfirðir 8 sveitarfélög – voru áður 35

Nýja sveitarfélagið á sunnanverðum Vestfjörðum heitir tímabundið  Sameinað sveitarfélag Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar samkvæmt því sem fram kemur í frétt frá Byggðastofnun.

Sveitarfélög á Vestfjörðum eru nú 8 talsins, en þau voru flest 35 á árunum 1943-1963.

Í Vestur-Barðastrandarsýslu, þar sem nýja sveitarfélagið er, voru sex sveitarfélög á þessum tíma: Barðastrandarhreppur, Rauðasandshreppur, Patrekshreppur, Tálknafjarðarhreppur, Ketildalahreppur og Suðurfjarðahreppur. Árið 1987 varð Bíldudalshreppur til úr Ketildala- og Suðurfjarðarhreppum en árið 1994 sameinuðust allir hreppar á svæðinu nema Tálknafjarðarhreppur í Vesturbyggð og hélst sú sveitarfélagaskipan óbreytt þar til nú.

Byggðastofnun myndband

Viðtal vikunnar: Finnbogi Sveinbjörnsson

Finnbogi og Fjóla við Dynjanda.

Finnbogi Sveinbjörnssom, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga (Verk Vest) er fæddur 25. febrúar 1966 og ólst upp í Bolungavík.

Eftir grunnskóla stundaði ég nám á verslunar- og hagfræðibraut við Menntaskólann á Ísafirði og lauk þaðan stúdentsprófi 1986 og flugradíóréttindum 1985. Starfaði við AFIS þjónusta í flugtuninum á Ísafjarðarflugvelli 1985 – 1998 samhliða stöfum hjá Iclandair og síðar Flugfélagi Íslands til 2007 þegar ég hlaut kosningu til formennsku hjá Verkalýðsfélagi Vestfirðinga. Í störfum mínum sem formaður hef ég sótt mér viðbótarmenntun hjá Endurmenntun HÍ á sviði Fjármála, reksturs og verkefnastjórnunar auk þessa að ljúka PMD námi hjá HR.

Hvað annað félagsstarf áhrærir þá var ég virkur bæði í Lúðrasveit Tónlistaskóla Ísafjarðar spilandi á trompet og í Karlakórnum Erni syngjandi í fyrsta bassa. Því miður hefur ekki alltaf verið tími til að sinna þessum mjög svo gefandi félagsmálum og hef ég verið frekar óvirkur undanfarin ár. Heima við reyni ég að glamra aðeins á píanó og stundum gríp ég líka í nikkuna mér til ánægju en jafnvel öðrum til ama. Þá má nefna að ég var formaður sóknarnefndar Hnífsdalssóknar um árabil en er nú varamaður í sóknarnefnd Ísafjarðarprestakalls.  

Þó svo ég hafi aldrei verið helsýktur af fótboltabakteríunni þá sparkaði ég bolta sem smápúki í Víkinni, lét það duga. Hinsvegar er ég alveg forfallin Púllari frá því ég var smástrákur og fer gjörsamlega hamförum fyrir framan sjónvarpið þegar illa gengur hjá mínum mönnum í Liverpool. Stundum svo að fjölskyldunni þykir nóg um lætin í kallinum. En það er með boltann eins og annað í lífinu þar skiptast á skin og skúrir þó mér hafi þótt helst til miklar skúrir yfir mínum mönnum undir lok tímabils. En hjartað mun alltaf slá með Liverpool í enska boltanum og mestu ánægjustundirnar eru þegar Mancester liðin tapa fyrir Liverpool, eða tapa bara yfir höfuð! YNWA!

Réttindamál á vinnumarkaði hafa lengi verið þáttur af mínu lífi enda hef ég sinnt fjölbreyttum verkamannstörfum, svo sem við fiskvinnslu, ræstingar, byggingarvinnu og þjónustustörf. Afskipti mín af verkalýðsmálum hófust hjá Verslunarmannafélagi Ísafjarðar og var ég varaformaður þess félags 1997 þangað til félagið sameinast Verk Vest 2002. Áður en ég var kosinn til formennsku í Verk Vest var ég ritari félagins frá 2002-2007.  Þá átti ég sæti í varastjórn Lífeyrissjóðs Vestfiðinga frá 1999 – 2010 þegar ég tók sæti í stjórn sjóðsins og var formaður stjórnar sjóðsins til desember 2014 þegar sjóðurinn sameinast Gildi lífeyrissjóði.

Starf formanns stéttarfélags er gríðarlega fjölbreytt og má segja að enginn dagur sé eins. Starfið kallar á mikil ferðalög og fjarverur enda félagssvæði Verk Vest allir Vestfirðir. Að auki sinni ég ýmsum trúnaðar störfum fyrir verkalýðshreifinguna sem kerfjast líka töluverðrar ferlaga og fjarveru. Þar má nefna Miðstjórn ASÍ, stjórn Fræðslusjóðs atvinnulífsins, stjórnarfomennska í Sveitamennt ásamt því að halda utan um rekstur Orlofsbyggar í Flókalundi. Reyndar má segja að eitt gott hafi komið út úr Covid og það er fjarfundar menningin sem er gríðarlega tímasparandi fyrirkomulag, sérstaklega fyrir okkur á landsbyggðinni. Í störfum mínum fyrir verkalýðshreifinguna sat ég einnig í stjórn samnorrænna verkalýðssamtaka starfsfólks í hótel-, veitinga- og þjónustugreinum NU-HRCT frá 2011 til 2014. Að vinna með félögum okkar á norðurlöndunum var bæði mjög skemmtileg og fræðandi reynsla.

En nóg um þessi mál, ég er í fjar/sambúð með Fjólu Pétursdóttur lögmanni og höfum við haldið tvö heimili frá frá því leiðir okkar lágu saman í byrjun árs 2010, annað í Hnífsdal en hitt í Reykjavík hvar Fjóla vinnur við lögfræðiráðgjöf. Börnin mín eru fjögur á aldrinum 25 – 33 ára, þrír strákar og ein stelpa en Fjóla á eina dóttur. Síðan er einn lítill afastrákur sem er að verða 3ja ára og í sumar er væntanleg lítil afastelpa. Saman eigum við Fjóla hundinn Tobba sem býr að mestu hjá mér í Hnífsdal.

Okkur Fjólu þykir mjög gaman að ferðast, bæði innanlands og utan. Í seinni tíð enda innanlandaferðir okkar gjarnan upp við Hvítársíðu í Borgarfirðnum hvar við reynum að leggja okkar af mörkum við ræktun og uppgræðslu á hálfgerðum jökulmel í landi Fjárhústungu. Við erum nokkuð dugleg að sinna útvist og höfum líka staðið í mikilli ræktun í garðinum okkar í Hnífsdal. Utanlandsferðir okkar enda eins og hjá öðrum sólþyrstum Íslendingum einhversstaðar þar sem sólin skín meira en á Íslandi.

Þar fyrir utan líður mér alltaf best einhversstaðar út í nátúrunni, helst hér á Vestfjörðum leitandi að rjúpu og veiða þegar það má. Ég er samt ekki með ódrepandi veiðidellu hvorki í skotveiði né stangveiði en hef mikla ánægju af hvoru tveggja. Að veiða eitthvað er ekki stóra málið hjá mér heldur að vera í góðra vina hópi og njóta þess að elda góðan mat og jafnvel smakka góða handverks bjóra.  En svona í blálokin finnst mér nauðsynlegt að minnast á hóp vaskra pilta sem kalla sig Vestfirska Gleðipinna (VG). Piltarnir áttu samleið í Menntaskólanum Ísafirði á sínum tíma en hafa verið að draga sig meira saman í seinni tíð og njótum við félagarnir góðrar samveru í Grunnavík á hverju hausti. Þær ferðir höfum við vinirnir farið óslitið frá haustinu 2006. 

Virðulegur forseti

Halla Signý Kristjánsdóttir

Lýðræðið er okkur mikilvægt og nú kjósum við okkur sjöunda forseta lýðveldisins á 80 ára afmælisári þess. Það er augljóst að áhugi okkar á þessu virðulega embætti er mikill og öllum umhugað að á Bessastöðum sitji forseti sem er samnefnari íslensku þjóðarinnar.

Við erum heppin þegar við lítum yfir listann af frambjóðendum. Á honum er frambærilegt fólk sem ber virðingu fyrir embættinu og fólkinu í landinu og tekur hlutverk sitt alvarlega.

Samnefnari þjóðarinnar

Sú þjóð sem býr í þessu landi hefur með dugnaði og krafti byggt upp sterkt þjóðfélag sem hefur ekki endilega verið auðvelt í harðbýlu landi. Það er ekki sjálfsagt en við búum við ríkar auðlindir sem með skynsömum hætti er hægt að nýta til að byggja undir velferðarríki sem við öll eigum að búa að. Á 80 ára afmæli lýðveldisins eigum við að fagna og þakka fyrir það velferðar- og mannréttindaríki sem við viljum tilheyra. Það má líka gleðjast yfir að við höfum byggt undir jafnrétti svo eftir er tekið. Þjóðin hefur breyst og okkur hefur auðnast að fagna fjölbreytileikanum. Hér er þjóð meðal þjóða og nú þegar við nálgumst 400 þúsund íbúa þá er það líka staðreynd að fjölbreytileiki okkar felst einnig í því að fimmtungur þjóðarinnar er fólk sem sest hefur hér að víða að úr heiminum.

Ísland er smáríki þegar litið er til fólksfjölda en ekki miðað við stærð, við búum við auðlindir sem gera okkur kleift að halda fullveldi og halda virðingu okkar meðal annarra ríkja. Við höfum rödd sem hlustað er á og náum að halda frið án hernaðar.

Baldur á Bessastaði

1. júní nk. nýtum við okkar dýrmæta rétt til að ganga að kjörborðinu og kjósa okkur forseta. Mínar væntingar standa til þess að forsetinn í okkar umboði sé góður heim að sækja og einnig að hann sé rödd okkar á erlendri grundu. Ég treysti Baldri Þórhallssyni í það hlutverk. Hann hefur í sínu einkalífi barist fyrir sjálfsögðum mannréttindum án brigslyrða og sundurlyndis. Þá hefur hann í sínum störfum byggt upp mikla þekkingu á stöðu okkar þjóðar meðal þjóða og þekkir stjórnskipun landsins mjög vel. Baldur er sá samnefnari þjóðarinnar sem ég treysti til að fylla þann virðulega sess sem forseti Íslands skipar í hjörtum landsmanna.

Halla Signý Kristjánsdóttir

Ísafjarðarbær: ánægjuleg rekstrarniðurstaða í ársreikningi

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, sem kjörin var 1. maí 2022. Mynd: isafjordur.is

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar afgreiddi ársreikninga sveitarfélagsins fyrir 2023 í síðustu viku með níu samhljóða atkvæðum.

Dagný Finnbjörnsdóttir lét bóka f.h. Sjálfstæðisflokks:
„Rekstrarniðurstaða Ísafjarðarbæjar er ánægjuleg og nú eru mikil tækifæri framundan. Þrátt fyrir þetta þarf að bera ársreikninginn saman við fjárhagsáætlun.
Gert var ráð fyrir að A hluti yrði með 34 milljón króna afgangi og A og B hluti með 272 milljón króna afgangi. Þrátt fyrir að skatttekjur hafi orðið 130 milljón krónum meiri en gert var ráð fyrir er rekstrarniðurstaðan 150 milljón krónum lægri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Mikilvægt er að nýta auknar tekjur til að greiða niður skuldir, lækka álögur á íbúa eða í fjárfestingar en ekki að blása út reksturinn.“

Rekstur að styrkjast

Gylfi Ólafsson lagði fram bókun f.h. Í-listans sem er með hreinan meirihluta í bæjarstjórn:
„Ársreikningur Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2023 hefur nú verið kynntur og liggur fyrir bæjarstjórn til samþykktar.
Rekstur Ísafjarðarbæjar er að styrkjast þrátt fyrir áskoranir í rekstri sveitarfélaga og þar vegur þyngst há verðbólga, auk þess sem viðbótarframlag til Brú lífeyrissjóðs hafði neikvæð áhrif á rekstrarniðurstöðuna. Afkoma Ísafjarðarbæjar árið 2023 er jákvæð og skilar nú afgangi sem nemur 119 milljónum króna en reksturinn var neikvæður um 109,6 m.kr árið 2022.
Það eru mörg jákvæð teikn á lofti. Skuldahlutfallið er að lækka, það var árið 2022 138,8% en er 133,5 % árið 2023. Skuldahlutfallið hjá A hluta er 121,8% en var 124,7% árið 2022. Skuldaviðmið A og B hluta er 86,5% og 81,1% fyrir A hluta. Veltufé frá rekstri er að aukast sem um munar á milli ára sem styrkir getu sveitarfélagsins til að standa undir framkvæmdum og öðrum skuldbindingum. Handbært fé hækkaði um 305 m.kr. frá fyrra ári og var handbært fé í árslok 2023 kr. 563 m.kr.
Á síðasta ári var mikið framkvæmt en fjárfest var fyrir rúmar 743 m.kr. í A- og B-hluta á árinu 2023. Umsvifamestu fjárfestingarnar voru tveir nýir gervigrasvellir á Torfnesi sem munu umbylta allri aðstöðu til knattspyrnuiðkunar í sveitarfélaginu, hafnarframkvæmdir og fjárfestingar í fráveitu og vatnsveitu.
Það er ljóst að rekstur sveitarfélagsins verður áfram krefjandi en ársreikningur ársins 2023 er þó til marks um að vel hafi tekist þrátt fyrir óhagstætt efnahagsumhverfi.“

FAGURSERKUR

Fagurserkur er frekar hávaxinn fiskur, stuttvaxinn og þunnvaxinn. Spyrðustæði er stutt og frekar þykkt. Kjaftur er skásettur og neðri skoltur örlítið lengri en sá efri. Á tálknaloki eru tveir gaddar. Augu eru stór.

Kjálkatennur eru örsmáar í breiðri röð á efri skolti en í mjórri röð á neðri skolti. Tennur eru á plógbeini og gómbeinum. Hreistur er smátt. Fagurserkur Iíkist rauðserk talsvert í útliti og lit en þekkist frá honum m.a. í því að hann er grannvaxnari, augu eru minni og fjöldi geisla í hinum ýmsu uggum er annar. Þá er fagurserkur ekki eins bogadreginn á baki og rauðserkur. Fagurserkur nær allt að 70 cm lengd. Í mars 1983 veiddist einn 50 cm í Skerjadjúpi.

Fagurserkur er skærrauður eða appelsínugulur á lit á baki, uggum, efri hluta hauss, í kjafti og á tálknalokum, bleikur á hliðum og með silfurslikju. Lífhimna er svört.

Heimkynni fagurserks eru í norðaustanverðu Atlantshafi frá Marokkó, Kanaríeyjum, Asóreyjum, Madeira, Spáni og Portúgal og hann hefur fundist allt norður til Íslandsmiða og Grænlandshafs. Þá verður hans vart við Suður-Afríku og í norðvestanverðu Atlantshafi frá Maine til Mexíkóflóa. Einnig finnst hann við Japan, Ástralíu, Nýja-Sjáland og Chile.

Hér við land veiddist fagurserkur fyrst í september árið 1960 á 360 m dýpi suðvestur af Vestmannaeyjum (63°07’N, 20°50’V). Þetta var 45 cm löng hrygna. Síðan hefur hann veiðst nokkrum sinnum á svæðinu frá Litladjúpi undan Suðausturlandi, suður og vestur á grálúðuslóð vestan Víkuráls. Frá 1989 hefur hann veiðst næstum árlega hér við land og árið 1998 veiddust a.m.k. fjórir. Hann virðist ekki vera eins sjaldséður á síðari árum og rauðserkur. Fiskar þeir sem hér hafa veiðst voru 23-50 cm langir.

Fagurserkur er botn- og djúpfiskur sem veiðst hefur á 128 -816 m dýpi á Íslandsmiðum en er sennilega algengastur á 400- 800 m dýpi. Hann hefur veiðst allt niður á 1300 m dýpi. Fæða er einkum fiskar, krabbadýr og smokkfiskur.

Af vefsíðunni hafogvatn.is

Númerslausir bílar í Ísafjarðarbæ

Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða límdi nýverið viðvörunarmiða á tugi númerlausra bíla í Ísafjarðarbæ.

Athygli er vakin á því að ekki er einvörðungu límt á númerslausa bíla sem standa við götur og á opnum svæðum (bæjarlandinu) heldur er einnig límt á númerslausa bíla á einkalóðum ef þeir eru til lýta og/eða valda mengunarhættu fyrir umhverfið.

Búið er að líma á rúmlega 40 bíla og eru eigendur þeirra hvattir til að fjarlægja þá eða koma þeim á númer, ella verða bílarnir fjarlægðir og þeim komið til geymslu í 30 daga. Séu bílarnir ekki leystir út, verða þeir seldir eða eftir atvikum komið til förgunar. Umtalsverður kostnaður getur fallið á eigendur bílanna fari málin svo langt.

Heilbrigðiseftirlitið og Ísafjarðarbær munu áfram beina sjónum sínum að númerslausum bílum og mega eigendur númerslausra bíla búast við að þeir verði fjarlægðir bregðist þeir ekki við.

Heilbrigðisnefnd er heimilt að fjarlægja skráningarskyld ökutæki án skráningarmerkja, tæki, kerrur, vinnuvélar, báta og aðra lausamuni og drasl á kostnað og ábyrgð eiganda að undangenginni viðvörun. 

Nýjustu fréttir