Laugardagur 7. september 2024
Síða 86

Skutulsfjörður: Heitt vatn finnst í Tungudal

Frá borstæðinu í Tungudal. Mynd: Eggert Stefánsson.

Ræktunarsamband Flóa og Skeiða hefur verið að bora eftir heitu vatni i Tungudal á Ísafirði síðustu daga og í gær var komið á heitavatnsæð á 460 metra dýpi sem skilar 7-10 ltr/sec af 55 gráðu heitu vatni samkvæmt því sem Hörður Christian Sigurðsson greindi frá.

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri sagði þessi tíðindi vera jákvæða vísbendingu. Þetta væri góð byrjun en magnið væri um tíundi hluti þess sem þyrfti. Næsta skref verður að fóðra holuna efst og víkka hana og síðan verður hafist handa að nýju á frekari borunum og þá borað dýpra til þess að fá betri upplýsingar um það sem þarna leynist undir. Þar skiptir máli hvort vatnið hitni frekar og eins í hve miklu magni það er.

Gufustrókurinn stendur upp úr borholunni í gær.

Mynd: Hörður Christian Sigurðsson.

2. deild kvenna: Fyrsta stigið í hús

Kvennalið Vestra á æfingu. Mynd: Vestri.

Vestrastúlkur kræktu í fyrsta stigið í 2. deild kvenna í sumar þegar þær gerðu 1-1 jafntefli við Smára í dag á Torfnesi.

Olivia Rose McKnight kom Vestra á blað með marki á 45 mínútu en Oliwia Bucko jafnaði fyrir gestina á 80 mínútu.

Eftir fjóra leiki er Vestri í 11. sæti í deildinni. Næst mæta þær Völsungi þann 9. júní á útivelli.

Aldarafmæli: Finnbjörn Þorvaldsson

Minnt er á það í Morgunblaði dagsins að í dag er aldarafmæli Hnífsdælingsins Finnbjörns Þorvaldssonar, frjálsíþróttakappa.

Æviágrip:

Finnbjörn Þorvaldsson fæddist 25. maí 1924 í Hnífsdal en ólst upp á Ísafirði og í Reykjavík. Foreldrar hans voru hjónin Halldóra Finnbjörnsdóttir, f. 1885, d. 1977, og Þorvaldur Magnússon, f. 1895, d. 1976.

Að námi loknu í Samvinnuskólanum fór Finnbjörn að vinna fyrir Ísafoldarprentsmiðju en svo hjá Loftleiðum þar sem hann var skrifstofustjóri og síðan fjármálastjóri.

Á árunum 1945-1952 var Finnbjörn einn besti frjálsíþróttamaður á Norðurlöndunum. Hann setti tugi Íslandsmeta í spretthlaupum og langstökki. Finnbjörn tók þátt í Norðurlandamótum þar sem hann vann sigra og Evrópumótum þar sem hann komst í úrslit. Hann keppti enn fremur á Ólympíuleikunum í London 1948, þar sem hann var einnig fánaberi Íslands.

Finnbjörn varð einnig Íslandsmeistari með félagi sínu, ÍR, í handbolta, var einn af stofnendum Golfklúbbsins Keilis og stundaði badminton með góðum árangri hjá TBR.

Eiginkona Finnbjörns var Theodóra Steffensen, f. 17.9. 1928, d. 27.12. 2018. Þau eignuðust sjö börn.

Finnbjörn lést 9. júlí 2018.

Ný stjórn Landverndar

Ný stjórn Landverndar. Myndir: aðsendar.

Snæbjörn Guðmundsson og Kristín Macrander hlutu sérstakar viðurkenningar Landverndar í náttúru- og umhverfisvernd á aðalfundi sem haldinn var í Gufunesbæ í Grafarvogi í gær , fyrir mikilvæga þátttöku sína og árangur í umhverfis- og loftslagsmálum. Snæbjörn var um skamma hríð formaður Landverndar, en veitir nú forystu samtökunum Náttúrugrið sem hafa náð miklu árangri í náttúruvernd á síðustu misserum.  Kristín hefur sýnt mikla þrautseigju í loftslagsmálum og tekið þátt í þeim í langan tíma þótt ung sé að árum.

Að lokinni kosningu um helming stjórnarfulltrúa skipa þessi nýja stjórn Landverndar.

Þorgerður María Þorbjarnardóttir, formaður.

Jóhannes Bjarki Tómasson Urbancic, ritari.

Gunnlaugur Friðriksson.

Ásdís Hlökk Theodórsdóttir.

Guðmundur Steingrímsson.

Einar Þorleifsson.

Kristín Helga Gunnarsdóttir.

Ný inn:

Helga Hvanndal.

Kristín Vala Ragnarsdóttir.

Stefán Örn Stefánsson.

Kosið var um fimm af tíu fulltrúum, en aðrir fimm voru kosnir til tveggja ára, í þeim hópi er Þorgerður María Þorbjarnardóttir sem er áfram formaður Landverndar. Kristín Helga Gunnarsdóttir og Einar Þorleifsson voru endurkjörin í stjórn, en inn koma þrír nýir stjórnarmenn, Helga Hvanndal, Kristín Vala Ragnarsdóttir, Stefán Örn Stefánsson. Ágústa Jónsdóttir, varaformaður og Margrét Auðunsdóttir, gjaldkeri gengu úr stjórn. Ný stjórn skiptir með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis, loftslags og orkumálaráðherra ávarpaði fundinn, en Bjarni Bjarnason fyrrverandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur og ráðgjafi Landverndar var aðalgestur fundarins og ræddi orkumál.

Guðlaugur Þór ávarpaði aðalfundinn.

Strandveiði: 282 tonn komin í maí

Snábátaflotinn í Bolungavíkurhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Alls hafa liðlega 50 strandveiðibátar landað um 282 tonnum af bolfiski í Bolungavíkurhöfn þar sem af er maímánuði. Að auki hafa sjóstangveiðibátar landað liðlega 12 tonnum.

Í þessari viku voru ekki nema tveir dagar sem róið var, þriðjudag og fimmtudag.Komu 26 tonn á land fyrri daginn og 28 tonn seinni daginn og voru um 50 bátar á sjó hvorn dag.

Í síðustu viku var hins vegar róið í fjóra daga og varð aflinn um 111 tonn af liðlega 50 bátum.

HVEST : Hópslysaæfing á Vestfjörðum

Haldið af stað á slysavettvang.

Á miðvikudaginn var , þann 22. maí tók Heilbrigðisstofnun Vestfjarða þátt í æfingu viðbragðsaðila á norðanverðum Vestfjörðum við hópslysi.

Æfingin tókst framar vonum, segir í frétt á vefsíðu heilbrigðisstofnunarinnar. Hún var haldin í Önundarfirði og gekk út á flutning viðbragðsaðila á vettvang, vinnu á vettvangi og flutning á slösuðum frá vettvangi á sjúkrahúsið á Ísafirði og einnig á Ísafjarðarflugvöll.

Margir komu að æfingunni m.a. Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, Flugdeild Landhelgisgæslu Íslands, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, björgunarsveitir, slökkvilið, lögregla og fleiri. Einnig var Samhæfingamiðstöð í Skógarhlíð í Rvk virkjuð.

Líkt var eftir eftir hópslysi þar sem hópferðabifreið með tugi farþega hlekkist á og bregðast þurfti við því með viðeigandi hætti. Um krefjandi aðstæður er að ræða og m.a farið með „slasaða“ um Breiðadals og Botnsheiðargögn.

Tilgangur æfingar miðaðist við að samhæfa viðbrögð og vinnu viðbragðsaðila sem og heilbrigðisstarfsmanna og Vegagerðarinnar. Viðbragðsáætlun er virkjuð og allir verkferlar yfirfarnir.

Farið yfir skipulag.

Myndir: hvest.is

Menntaskólinn á Ísafirði – 50 ára

Menntaskólinn á Ísafirðir fagnar í vor merkum áfanga í sögu skólans en 50 ár eru nú liðin síðan fyrstu nemendurnir útskrifuðust frá skólanum. Við brautskráningu frá skólanum í dag verður þessara merku tímamóta minnst.

Stofnun Menntaskólans á Ísafirði

Menntaskólinn á Ísafirði var stofnaður árið 1970 eftir langa baráttu heimamanna fyrir menntaskóla, baráttu sem má rekja a.m.k. aftur til ársins 1944. Helstu rök heimamanna fyrir stofnun menntaskóla á Ísafirði voru að jafna aðstöðu nemenda til skólagöngu. Ákveðinn áfangasigur náðist þegar leyfi fékkst til að reka framhaldsdeild á Ísafirði sem svaraði til 1. bekkjar í menntaskóla. Vestfirðingar héldu þó áfram að berjast fyrir fullgildum menntaskóla og í þeirri baráttu lögðu margir hönd á plóg og ljóst að samtakamáttur Vestfirðinga,  þrautseigja og þor skipti þar miklu máli. Barátta heimamanna bar loks árangur þegar tilkynnt var á haustdögum 1969 að menntaskóli yrði stofnaður á Ísafirði árið 1970. 35 nemendur innrituðust þá um haustið og vorið 1974 útskrifuðust 30 stúdentar við fyrstu brautskráningu skólans. Fyrstu útskriftarnemarnir lögðu grunninn að velgengni skólans og síðan þá hafa hátt í 2.500 nemendur útskrifast og haldið áfram í frekara nám eða út í atvinnulífið.

Mikilvæg stoð í vestfirsku samfélagi

Það skiptir miklu máli fyrir samfélag eins og Vestfirði að fólk hafi tækifæri til að mennta sig í heimabyggð, kjósi það svo. Það stuðlar að því að ungt fólk geti haldið tengslum við rætur sínar og að þau sem eldri eru geti stundað nám án þess að fara langt frá heimahögunum.

Frá stofnun hefur Menntaskólinn á Ísafirði verið hornsteinn í samfélaginu hér fyrir vestan. Skólinn hefur ekki aðeins veitt góða menntun öll þessi ár heldur átt sinn þátt í að styrkja samfélagið með fjölbreyttu námsframboði. Nú, eins og þegar skólinn var stofnaður, er skólinn mikilvæg stoð í vestfirsku samfélagi og mikilvægt að standa vörð um hlutverk hans.

Skólinn í dag

Tímar hafa sannarlega breyst frá því að skólinn var stofnaður fyrir rúmri hálfri öld síðan. Á þeim tíma var menntun öðruvísi háttað og aðstæður samfélagsins allt aðrar. Nú erum við stödd á tímum mikilla tækniframfara og aukinna krafna um fjölbreytni og aðlögunarhæfni í menntun. Skólinn hefur aðlagast þessum breytingum með ýmsu móti svo sem með því að innleiða nýja tækni í kennslu, þróa nýjar námsleiðir og veita nemendum stuðning í samræmi við nútímakröfur. Með framboði á námi og í kennslu leitast skólinn við að mæta þörfum nemenda sem best, hvort sem nemendur eru í dagskóla, dreif- eða fjarnámi sem og þörfum samfélagsins.

Fjölbreytt nám og fjölbreyttur nemendahópur

Á vorönn voru 483 nemendur við nám í skólanum sem stunduðu nám í dagskóla, dreifnámi með vinnu og fjarnámi á 17 námsbrautum. Alls stunduðu 40% nemenda nám í verk-, starfs- og listnámi en í dagskóla var hlutfallið 51%. Nemendahópur skólans er fjölbreyttur og af því erum við stolt. Í Menntaskólanum á Ísafirði erum við alls konar og fögnum fjölbreytileikanum.

Við brautskráningu frá skólanum í dag verður 61 nemandi brautskráður af 14 námsbrautum; grunnnámi málm- og véltæknigreina,  húsasmíði, iðnmeistaranámi, lista- og nýsköpunarbraut, matartækni,  skipstjórnarnámi A og B, stálsmíði, vélstjórnarnámi A, starfsbraut, fjórum stúdentsprófsbrautum og íþróttasviði sem er í boði samhliða öllum brautum.

Gott skólaár að baki

Margt gott hefur átt sér stað á skólaárinu. Þar má sem dæmi nefna undirritun samninga milli sveitarfélaganna við Djúp, Árneshrepps, Reykhólahrepps og ríkisins um byggingu nýs verknámshús sem mun bæta alla aðstöðu til verknáms. Vonir standa til að framkvæmdir geti hafist á næsta ári.

Heimavist skólans var vel nýtt í vetur og langt síðan jafnmargir nemendur bjuggu á vistinni. Bættar samgöngur við suðursvæði Vestfjarða hafa átt þátt í að fleiri nemendur frá Bíldudal, Patreksfirði og Tálknafirði sækja nú skólann en verið hefur.

Í vetur fékk skólinn skólaþróunarstyrk til að fara í þverfaglegt verkefni um orkuframleiðslu þar sem m.a. er stefnt að því að setja upp sólarsellur við skólann. Verkefnið verður unnið með sérfræðingum Bláma og Orkubús Vestfjarða og gefur tækifæri til að samþætta námsgreinar og tengja saman nemendur úr ólíkum námsgreinum. Verkefninu er  ætlað er að auka skilning kennara og nemenda á því hvernig hægt er að nýta mismunandi orkugjafa til að draga úr umhverfisáhrifum og verður bæði hluti af þverfaglegum áfanga sem fer af stað í haust en sömuleiðis skapast möguleikar í hinum ýmsu áföngum til að tengjast verkefninu, bæði bóklegum og verklegum. Við erum afar þakklát fyrir þennan veglega styrk og hlökkum mikið til samstarfsins við Bláma og Orkubú Vestfjarða. Skólinn fékk sömuleiðis styrk frá Þróunarsjóði innflytjendamála til að skapa betra inngildandi samfélag innan skólans sem styður við fjölbreytileika.

Sífellt er unnið að því að þróa námsframboð við skólann í takt við þarfir samfélagsins og í vetur hefur verið hönnuð ný námsbraut við skólann sem hefur fengið nafnið hafbraut. Nám á brautinni leggur áherslu á að undirbúa nemendur undir störf í sjávartengdum greinum. Hefur þetta verkefni verið í unnið í samstarfi við fjóra aðra framhaldsskóla á landinu og fyrirtæki hér á svæðinu auk Vestfjarðarstofu. Stefnt er að því að innrita nemendur á brautina frá og með næsta hausti.   

Menntaskólinn á Ísafirði á í góðu samstarfi við fjölmarga framhaldsskóla á landinu. Skólinn á aðild að Samlandi sem er samstarfsverkefni 12 framhaldsskóla á landsbyggðinni, m.a. um fjarnám. Innan þess verkefnis er  sérstakt samstarf milli skólans, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og Verkmenntaskóla Austurlands um sjúkraliðanám og á vorönn var farið af stað með iðnmeistaranám í samstarfi við Verkmenntaskóla Austurlands.

Skólinn tekur sömuleiðis þátt í ýmsum samstarfsverkefnum undir merkjum Erasmus+. Í gegnum ýmis Evrópuverkefni hafa nemendur og starfsfólk skólans fengið tækifæri til að víkka sjóndeildarhringinn og stækka tengslanetið með því að heimsækja skóla í Evrópu sem og að taka á móti erlendum gestum til okkar.

Tækifæri til starfsþróunar eru mikilvægur þáttur í framþróun skólastarfs. Þann 1. mars var haldinn sameiginlegur starfsþróunardagur framhaldsskóla á Íslandi. Rúmlega 30 starfsmenn MÍ héldu til Reykjavíkur til að hitta annað starfsfólk framhaldsskóla, bera saman bækur, hlýða á áhugaverð erindi, skoða aðra framhaldsskóla og kynnast starfi þeirra. Mikil ánægja var meðal þátttakenda og heilmargt sem við  tókum með okkur frá þessum degi.

Félagslíf nemenda var í miklum blóma í vetur og ekki má vanmeta félagslega hluta þess að vera í framhaldsskóla. Margir og fjölbreyttir viðburðir voru haldnir og má þar nefna nýnemaball, körfuboltamót, kaffihúsakvöld, 1. des hátíð, jólaviku, páskabingó, árshátíð, lokaball og margt fleira. Klúbbastarfi var ýtt úr vör og hafa þó nokkrir klúbbar hafið starfsemi, m.a. borðtennis-, tónlistar- og spilaklúbbar. Hápunktur í félagslífi MÍ var að vanda hin árlega Sólrisuhátíð og uppsetning Sólrisuleikritsins. Má með sanni segja að leiksýning leikfélagsins á Dýrunum í Hálsaskógi hafi heldur betur slegið í gegn.

Nemendur náðu góðum árangri á ýmsum sviðum. Má þar nefna 2. sæti í nýsköpunarhraðlinum MEMA, lokaúrslit í fyrirtækjasmiðju ungra frumkvöðla eftir vel heppnaða Vörumessu í húsnæði Vestfjarðastofu, úrslit í samkeppni Landverndar um bestu umhverfisfréttirnar og 16 liða úrslit í Gettu betur. Náðist þar að jafna besta árangur skólans hingað til og komast í sjónvarpssal. Þar steig líka á stokk hljómsveitin Paranoid og hlaut verðskuldaða athygli fyrir tónlistaratriði sitt.

Skólinn náði sömuleiðis góðum árangri í Stofnun ársins annað árið í röð. Í fyrra var skólinn hástökkvari ársins, þ.e. sú ríkisstofnun sem bætti starfsumhverfi starfsmanna mest árið 2022 og núna varð skólinn í öðru sæti í flokki meðalstórra stofnanna. Skólinn hefur þar með hlotið sæmdarheitið fyrirmyndarstofnun. Tilgangur með vali á stofnun ársins er að taka eftir og verðlauna vinnustaði sem ná framúrskarandi árangri í mannauðsstjórnun. Mannauðurinn er helsta auðlind skólans og við skólann starfar öflugt starfsfólk sem leggur sig mikið fram í störfum sínum.

Þakkir og hvatning

Við í Menntaskólanum á Ísafirði viljum nota tækifærið á þessum merku tímamótum í sögu skólans til að þakka öllum sem hafa stutt við skólann í gegnum tíðina – nemendum, foreldrum og forráðamönnum, starfsfólki, atvinnulífinu  og samfélaginu öllu. Án ykkar hefði þessi árangur ekki verið mögulegur.

Menntaskólinn á Ísafirði ætlar að halda áfram að vera leiðandi í menntun á Vestfjörðum. Þar þurfum við að standa saman vörð um skólann okkar og við skorum á Vestfirðinga alla að taka virkan þátt í að móta framtíð skólans svo hann megi halda áfram að vera stolt samfélagsins. Saman getum við tryggt að skólinn haldi áfram að vaxa og dafna.

Heiðrún Tryggvadóttir skólameistari Menntaskólans á Ísafirði

Vegferð til framtíðar – Vestfirðingar komið með!

Vestfjarðastofa vinnur um þessar mundir að tveimur mikilvægum og stefnumótandi áætlunum fyrir Vestfirði. Annars vegar er það Svæðisskipulag Vestfjarða sem nú er gert í fyrsta sinn og hins vegar er það Sóknaráætlun Vestfjarða 2025-2029. Í vinnu sem þessari er gríðarlega mikilvægt að sem flestir komi að borðinu og köllum við því eftir að Vestfirðingar allir, ungir sem aldnir, nýir sem rótgrónir, láti sig málið varða og taki þátt í vinnuferlinu. Þess gefst kostur á íbúafundum sem haldnir verða víðsvegar um Vestfirði dagana 27.-30. maí n.k.

Sameiginlegt skipulag fyrir Vestfirði í heild sinni er megininntak svæðisskipulags, líkt og má geta sér til um út frá nafngiftinni. Þetta er langt ferli sem mun í heildina taka um tvö ár frá upphafi vinnu og þar til fullmótað skipulag lítur dagsljósið. Yfirstjórn þessa verkefnis er á vegum Svæðisskipulagsnefndar Vestfjarða sem skipað er fulltrúum allra sveitarstjórna á Vestfjörðum. Til framkvæmdar verksins hefur nefndin með sér starfsmenn Vestfjarðastofu og VSÓ ráðgjöf sem valin var á grundvelli útboðs í byrjun árs. VSÓ hefur sér til fulltingis skipulagsráðgjafafyrirtækið Úrbana, sem einnig vinnur að Sóknaráætlun 2025-2029 með Vestfjarðastofu.

Samfélög, atvinnulíf og innviðir á Vestfjörðum ganga nú í gegnum jákvæðar umbreytingar eftir langt tímabil niðursveiflu. Sveitarfélögin telja mikilvægan lið í áframhaldi á þeirri velgengni að ná samstöðu um framþróun landshlutans og svæðisskipulagið er tæki sem hentar mjög vel til að móta sameiginlega, skýra stefnu. Svæðisskipulagið tekur á málefnum byggðaþróunar og þeim þáttum landnotkunar sem talið er þörf á að samræma vegna sameiginlegra hagsmuna hluteigandi sveitarfélaga. Það eru fjölmargir sem koma að ferlinu við mótun þess og er leitast við að gera það þannig úr garði að Vestfirðingar flestir upplifi að þeir eigi hlutdeild í því. Skipulagið nær til ársins 2050 – því stefnumótandi til framtíðar og afar mikilvægt að sem flestir sem sjá framtíð sína á Vestfjörðum taki þátt í vinnunni.

Sóknaráætlun Vestfjarða má lýsa sem stefnumótandi aðgerðaráætlun fyrir svæðið til fimm ára í senn. Hver og einn landshluti gerir sína sóknaráætlun samkvæmt samningi við innviðaráðuneyti og menningar- og viðskiptaráðuneyti og fær fjármagn frá þeim inn í rekstur áætlunarinnar. Í sóknaráætlun kemur fram stöðumat viðkomandi landshluta, framtíðarsýn, markmið og aðgerðir til að ná þeim markmiðum. Fjórir megin málaflokkar eru í sóknaráætlunum: atvinna og nýsköpun, samfélag, umhverfi og skipulag og menning.

Snertifletir sóknaráætlana við hinn almenna borgara eru margir, en það sem fólk verður einna helst vart við eru uppbyggingarsjóðirnir sem veita talsverðu fé ár hvert til fjölmargra verkefna. Hvað valið er að styrkja byggir á þeim áherslum sem eru í sóknaráætlun hverju sinni og með því að taka þátt í stefnumótunarvinnu Sóknaráætlunar 2025-2029 getur þú haft áhrif.

Á íbúafundum í næstu viku verður leitað eftir samráði við Vestfirðinga og verða þeir sem hér segir:

27. maí Félagsheimili Patreksfjarðar

29. maí Edinborgarhúsið á Ísafirði

30. maí Félagsheimili Hólmavíkur

30. maí Reykhólaskóli

Allir fundirnir hefjast klukkan 16:30 og standa í u.þ.b. tvær klukkustundir. Til að sem flestir geti mætt verður boðið upp á barnapössun á meðan á þeim stendur. Í lok funda verður boðið upp á grillaðar pylsur til að fagna góðu verki.

Við hvetjum alla Vestfirðinga til að mæta og eiga þannig kost á því að láta rödd sína heyrast. Vestfirðir eru okkar allra sem hér búum og því mikilvægt að sem flestar raddir heyrist!

Aðalsteinn Óskarsson, sviðsstjóri byggðaþróunar Vestfjarðastofu

Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu

Þorlákur ÍS 15

Þorlákur ÍS 15. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson

Þorlákur ÍS 15 var smíðaður í Póllandi og kom til heimahafnar í Bolungarvík í ágústmánuði árið 2000.

Þorlákur, sem er 29 metrar að lengd, 7,5 metra breiður og 251 brúttótonn að stærð, hefur alla tíð verið gerður út frá Bolungarvík.

Skipið var smíðað sem línuskip búið beitningarvél en síðar útbúið til dragnótaveiða.

Jakob Valgeir ehf. í Bolungarvík er eigandi Þorláks ÍS 15.

Af skipamyndir.com

Hægir á verðhækkunum matvöru

Á heimasíðu Alþýðusambandsins er sagt frá því að verðbólga í matvöruverslunum fari lækkandi það sem af er ári.

Milli mánaða hækkaði verðlag þeirra um 0,12% samkvæmt greiningum verðlagseftirlits ASÍ. Jafngildir það um 1,4% hækkun á ársgrundvelli.

Þetta er margfalt lægri verðbólga en Hagstofan mældi í matar- og drykkjarvörum í fyrra en til viðmiðunar var árshækkun matvöruverðs 12,3% í maí á síðasta ári. Verðlag lækkar í fjórum verslunum en hækkar í sex. 

Verðlagsbreytingar eru reiknaðar með vigtun vöruflokka og verslana. Þegar talað er um breytingu á verðlagi er um að ræða veginn útreikning, en breyting á verði merkir stakan samanburð eða óvegið meðaltal.  

Við verðsamanburð eru skoðaðar verðmælingar frá hverju viðmiðunartímabili fyrir sig – meðalverð í hverjum mánuði, eða meðalverð tímabilsins 6-13. mars þegar borið er saman við undirritun kjarasamninga. Þessi verð eru borin saman við nýjustu verð sem verðlagseftirlitið hefur aflað, sem eru að jafnaði frá 21. maí 2024. 

Nýjustu fréttir