Laugardagur 7. september 2024
Síða 85

Alvarlegir atburðir í Bolungavík

Lið lögreglu er í Bolungavík og sveit tæknimanna var flogið vestur úr Reykjavík undir kvöldið. Helgi Jensson, lögreglustjóri vildi ekkert segja um málið að svo stöddu annað en að staðfesta komu tæknimannanna.

Rannsókn stæði yfir og ekkert yrði sagt fyrr en eftir fund í fyrramálið.

Samkvæmt heimildum Bæjarins besta var lögreglan kölluð til síðdegis í dag að húsi í Bolungavík. Þar höfðu gerst alvarlegir atburðir sem varða tvo einstaklinga.

Mikill samdráttur í bílainnflutningi

Nýskráningar fólksbifreiða eru orðnar 4.148 það sem af er þessu ári. Á sama tíma í fyrra voru þær 7.020 svo um er að ræða um 41% samdrátt. Nýskráningar til ökutækjaleiga er um 60% og til almennra notkunar 40%. Þetta kemur fram í tölum frá Bílgreinasambandinu.

Flestar nýskráningar eru í dísilbifreiðum, alls 1045 sem er um 25,2% hlutdeild af markaðnum. Hybrid-bílar koma í öðru sæti, 1.002 bifreiðar, sem er 24,2% hlutdeild. Tengiltvinn-bílar, sem koma í þriðja sætinu, eru alls orðnir 703.

Mikil fækkun hefur orðið í rafbílum en nýskráningar það sem af er árinu eru 698 sem er um 16,8% hlutdeild. Á sama tíma í fyrra voru skráningarnar 2.614, sem var um 40% hlutdeild. Nýskráningar í bensínbílum eru 697 sem koma i fjórða sætinu.

Þegar einstök bílamerki eru skoðuð eru flestar nýskráningar í KIA þegar tæplega fimm mánuðir eru liðnir af árinu. Alls eru nýskráningar í KIA 590 . 545 í Hyundai, 461 í Kia. Toyota kemur í þriðja sætinu með 527 bíla.

Mennska

Út er komin bókin Mennska en höfundur hennar Bjarni Snæbjörnsson sem ólst upp á Vestfjörðum við algeran skort á hinsegin fyrirmyndum.

Það eina sem hann heyrði um aðra homma var að þeir væru öfuguggar og kynvillingar. Til að lifa af spilaði hann eftir þeim reglum sem hann taldi gilda en í leiðinni afneitaði hann sjálfum sér með öllum tiltækum ráðum.

Hér segir Bjarni, með aðstoð dagbóka sinna og bréfa – skipta við fjölskyldu og vini, frá leiðinni út úr skápnum. Hann lýsir á hispurslausan hátt ævintýralegri för um heiminn, erfiðum tímum, ástum og kynlífi, litlum og stórum sigrum í lífi og leiklist ásamt áralangri sjálfsvinnu til að ná sátt við sína margbrotnu og litríku mennsku.

Mennska er aðgengileg og hrífandi lesning sem á erindi við alla sem hafa glímt við skömm og reynt að skila henni, finnst erfitt að taka pláss í samfélaginu eða hafa fórnað hluta af sjálfum sér af ótta við viðbrögð annarra.

Mengun yfir viðmiðunarmörk á Heiðarfjalli á Langanesi

Í ágúst 2023 stóð Umhverfisstofnun fyrir ítarlegri rannsókn á dreifingu mengunar í jarðvegi sem og í yfirborðsvatni og grunnvatni á svæðinu. Rannsóknin var framkvæmd af Norwegian Geotechnical Institute (NGI). 
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að PCB sem eru þrávirkefnii eins og blý, asbest og olíuefni eru til staðar í styrk langt umfram viðmiðunarmörk.

Mengunin er staðbundin við svæðið í kringum rafsjástöðina og ruslahauginn við hana ásamt því að dreifast með grunn- og yfirborðsvatni til suðurs.

Áhættumat sem framkvæmt var í kjölfarið sýnir að þessi tilteknu efni eru í það miklu magni á svæðinu að þau skapa heilsufarshættu fyrir fólk og dýr. Umhverfisstofnun hefur látið reisa skilti þar sem fólk er beðið að gæta fyllstu varúðar við ferðir um svæðið.

Styrkur mengunar var það mikill í vatns og jarðvegssýnum að þörf er á frekari rannsóknum á þeim dýraafurðum sem eru á svæðinu og notaðar eru til neyslu. Umhverfisstofnun vinnur nú að undirbúningi á þeim rannsóknum sem og forvinnu að undirbúningi á hreinsunaraðgerðum til að draga úr áhrifum mengunar á mannfólk, dýr og náttúru.

Gera á göngustíg upp í Naustahvilft

Til stendur að gera náttúrustíg upp í Naustahvilft í Skutulsfirði og hefur Kjartan Bollason, lektor við Háskólann á Hólum og sérfræðingur í náttúrustígagerð, tekið að sér að leiða verkefnið, sem er um leið námskeið í náttúrustígagerð.

Óskað er eftir þátttakendum á námskeiðið til að vinna með Kjartani að því að klára stíginn upp í Naustahvilft, en leiðin hefur þegar verið stikuð.

Námskeiðið fer fram 31. maí og 1. júní.

Náttúrustígar eru að mestu gerðir með handafli, þurfa að falla að landslaginu og notast við staðbundinn efnivið eins og hægt er.

Unniið verður að verkefninu föstudaginn 31. maí 13:00-17:00 og laugardaginn 1. júní 9:00-17:00.

Skráning fer fram með því að senda póst á postur@isafjordur.is.

Arnarlax: Þrjú ný í framkvæmdarstjórn

Arnarlax tilkynnti í morgun breytingar á framkvæmdastjórn félagsins, Rúnar Ingi Pétursson tekur við sem framkvæmdastjóri yfir fiskvinnslu félagsins, Hjörtur Methúsalemsson og Karen Ósk Pétursdóttir koma tvö ný inn í framkvæmdastjórn fyrirtækisins.

Hjörtur Methúsalemsson (33) hefur starfað sem verkefnastjóri í viðskiptaþróunardeild Arnarlax síðan í apríl 2021 og verður nú yfirmaður viðskiptaþróunardeildar. Hjörtur hefur starfað í fiskeldi á Íslandi frá 2017, áður hjá Arnarlaxi og hjá Matvælastofnun. Hjörtur lauk meistaragráðu í líffræði með sérhæfingu í fiskeldi frá Háskólanum í Bergen í Noregi haustið 2023.

Karen Ósk Pétursdóttir (39) hefur starfað sem mannauðsstjóri fyrirtækisins frá því í lok júlí 2022. Karen er viðskiptafræðingur að mennt með meistaragráðu í skattarétti og reikningsskilum frá HÍ auk þess er hún með MSc í mannauðsstjórnun frá sama skóla. Áður en Karen kom til Arnarlax starfaði hún hjá Bandalagi Háskólamanna sem sérfræðingur í kjaramálum og þar áður hjá Kjarafélagi viðskiptafræðinga og hagfræðinga frá árinu 2014. 

Rúnar Ingi Pétursson (29) hefur tekið við sem framkvæmdarstjóri fiskvinnslu hjá Arnarlax. Rúnar er menntaður sjávarútvegsfræðingur frá Háskólanum á Akureyri og hefur hann starfað sem framleiðslustjóri hjá Arnarlax síðan í maí 2021.   

Björn Hembre forstjóri Arnarlax fagnar liðsinni þeirra þriggja og kveðst fullviss um að starf þeirra muni stuðla að áframhaldandi frumkvæði og vexti fyrirtækisins.

Knattspyrna: Vestri gerði jafntefli við KR í vesturbænum

Knattspyrnulið Vestra í Bestu deildinni gerði góða ferð í Vesturbæinn í Reykjavík á laugardaginn. Liðið mætti KR í Frostaskjólinu og greinilegt var að meiðsl settu mark sitt á liðið enda leikmannahópurinn ekki stór. Fyrri hálfleikur var erfiður Vestramönnum og KR var með 2:0 forystu að honum loknum.

Í síðari hálfleik gekk Vestra betur og um miðbik hálfleiksins komu tvö mörk með skömmu millibili og allt orðið jafnt. Fyrst vann Songani vítaspyrnu sem Vladimir Tufegdzic skoraði úr og svo gerði Pétur Bjarnason gott mark eftir hornspyrnu og jafnaði leikinn.

Eftir átta leiki er Vestri með 7 stig, tvo sigra, eitt jafntefli og fimm töp og situr í 10. sæti deildarinnar af tólf. KR er með 11 stig.

Frammistaðan er að vonum enda kemur liðið fremur illa undirbúið til leiks vegna aðstöðuleysis í samanburði við önnur lið. Unnið er að því að gera gervigrasvöllinn á Torfnesi, Kerecis völlinn leikhæfan og er ráðgert að fyrsti leikurinn verði á sjómannadaginn 2. júní gegn Stjörnunni. Fram til þessa hafa allir leikir verið á útivelli og þar með talidir tveir skráðir heimaleikir.

Nýtum kosningaréttinn!

Í fréttatilkynningu frá Höllu Tómasdóttur til Vestfirðinga hvetur hún þá til þess að nýta kosningaréttinn.

„Eins og ég fékk að upplifa um páskana er hvergi jafn skemmtilegt að vera og á Ísafirði. Bæjarhátíðin Aldrei fór ég suður, hefur nú fastan sess í hjörtum margra og ekki síður þeirra sem ekki búa á svæðinu.

Ég lít á Vestfirði sem mitt heimasvæði og var svo lánsöm að hitta í ferðinni margt af mínu fólki. Þá var gaman að ræða við ykkur á fundunum á Patreksfirði og í Bolungarvík. Takk aftur fyrir frábærar móttökur.

Síðan hefur tíminn flogið hratt og ævintýrin leynast á hverju horni. Það hefur verið ómetanlegt að finna þann meðbyr sem framboð mitt hefur notið síðustu daga. En hann dugar ekki einn og sér svo nú vil ég minna fólk á að nýta kosningaréttinn.

Við Björn þökkum hlýjar móttökur hvar sem við höfum komið, þær verða okkur ógleymanlegar og við munum varðveita vinsemd ykkar út lífið.

Kosningarétturinn er dýrmætur og ekki sjálfsagður. Margt ungt fólk er að nýta hann nú í fyrsta skipti og vona ég að þau hafi nýtt tímann vel til að kynnast því sem frambjóðendur hafa fram að færa.

Eigið dásamlegan kjördag!“

Menntaskólinn á Ísafirði: 61 nemandi brautskráður

Frá útskriftinni. Mynd: M.Í.

Laugardaginn 25. maí var 61 nemandi brautskráður frá skólanum við hátíðlega athöfn í Ísafjarðarkirkju. Útskriftarnemar, starfsfólk skólans, afmælisárgangar og aðrir gestir voru viðstödd athöfnina og sá Viðburðarstofa Vestfjarða um að streyma henni beint. Í tilefni þess að 50 ár eru liðin frá fyrstu útskrift skólans var fyrrum starfsfólki og nemendum skólans einnig boðið að fagna tímamótunum í dag og var því óvenjulega fjölmennt við athöfnina. Hefð er fyrir útskriftarfagnaði að kvöldi brautskráningardags með útskriftarnemum, fjölskyldum þeirra og afmælisárgöngum. 

Af útskriftarnemum voru 38 dagskólanemendur, 15 dreifnámsnemendur og 8 nemendur í fjarnámi sem með Menntaskólann á Ísafirði sem heimaskóla.

Sjö nemendur útskrifuðust af matartæknibraut, þrír nemendur útskrifuðust af sjúkraliðabraut og tveir nemendur af lista- og nýsköpunarbraut. Níu nemendur útskrifuðust af vélstjórnarbraut A, þrír nemendur útskrifuðust  úr stálsmíði, einn nemandi af skipsstjórnarbraut A og tveir nemendur af skipsstjórnarbraut B. Einn nemandi útskrifaðist af húsasmíðabraut og einn nemandi úr iðnmeistaranámi.

36 nemendur útskrifuðust með stúdentspróf. Þrír af félagsvísindabraut, 11 af náttúruvísindabraut og þar af fjórir með íþróttasvið. 17 nemendur útskrifuðust af opinni stúdentsbraut, þar af einn með íþróttasvið. Tveir nemendur luku námi af starfsbraut og þrír nemendur luku stúdentsprófi af fagbraut. Auk þess útskrifuðust 16 nemendur úr grunnnámi málm- og véltæknigreina.

Dux scholae 2024 er Guðrún Dagbjört Sigurðardóttir stúdent af opinni stúdentsbraut með meðaleinkunnina 9,44. Semidux er Katrín Bára Albertsdóttir stúdent af náttúruvísindabraut með meðaleinkunnina 9,41. 

Guðrún Dagbjört Dux Scholae ásamt foreldrum sínum.

Fjölmörg verðlaun voru afhent fyrir góðan námsárangur og að vanda setti tónlistarflutningur hátíðlegan svip á athöfnina. Í tilefni 50 ára útskriftarafmælis var lagið Gott að sjá þig eftir Halldór Smárason flutt af sönghóp fyrrum nemenda, starfsfólks og fulltrúum útskriftarnema ásamt Halldóri sjálfum sem lék undir. Lagið var gefið skólanum við útskrift árið 2019 af þáverandi 10 ár afmælisárgangi og á einkar vel við á tímamótum sem þessum.

Náttúrubarnið Katrín Jakobsdóttir

Það þarf enginn að efast um mikilvægi náttúru- og umhverfisverndar fyrir Katrínu Jakobsdóttur. Löngu áður en slík mál komust í hámæli hjá almenningi eða náðu útbreiðslu í allri stjórnmálaflórunni voru þetta hennar hjartans mál og í raun ein ástæða þess hún hóf stjórnmálaþátttöku. Íslensk náttúra og umhverfismál skipta þjóðina afar miklu máli og því er mikilvægt að forseti Íslands sé manneskja sem hefur sýnt það í orðum og gjörðum að hún beri hag náttúrunnar fyrir brjósti.

Fyrir þremur árum talaði Katrín á málþingi Landverndar um þá staðreynd að á hálendi Íslands er að finna ein stærstu óbyggðu víðerni í Evrópu. Þar fór hún yfir hve umræða um náttúruvernd sé nátengd fullveldishugsuninni og hve þakklát við getum verið fyrir að almenningur megi njóta friðaðra Þingvalla óspilltra. Hún sagði það á okkar ábyrgð að vernda hin miklu verðmæti sem við eigum í víðernum hálendisins, fyrir okkur sjálf og komandi kynslóðir. Töfrana, víðáttuna, kyrrðina, birtuna og litrófið allt. Við eigum að geta notið ósnortinnar náttúru hvort sem við erum ríðandi í Austurdal í Skagafirði, siglandi um Breiðafjörð, hjólandi um Fjörðurnar eða hlaupandi í Dyrfjöllum.

Að hennar sögn skiptir miklu máli að gera fólki kleift að stofna og starfrækja samtök til að berjast fyrir jöfnuði og réttlæti í samfélaginu. Enda gegna slík samtök þýðingarmiklu hlutverki í að viðhalda þeim réttindum sem þegar hafa áunnist, veita stjórnvöldum aðhald og sjá til þess að réttindi fólks og fjölbreyttrar náttúru séu tryggð. Katrín hefur sem dæmi verið félagi í Landvernd gegnum tíðina og skilur mikilvægi frjálsra umhverfisverndarsamtaka og það aðhald sem slík samtök veita stjórnvöldum. Um­hverf­is­mál þurfa nefnilega að samtvinnast skyn­sam­legri stefnu í samfélags- og at­vinnu­mál­um, að við vinnum úr auðlind­um okkar með hug­viti og ný­sköp­un og ávallt með það í huga að öflugt at­vinnu­líf snúist um meira en eina lausn.

Hún hefur ekki látið sitja við að tala um þessa hluti heldur fylgt þeim fast eftir á Alþingi og hvar sem hún kemur. Hún hefur þannig staðið fyrir lagabreytingum um takmörkun á erlendu eignarhaldi jarða hérlendis og varað við því að landið okkar safnist á hendur fárra erlendra auðmanna í öðrum tilgangi en til landbúnaðarnotkunar og sjálfbærrar nýtingar. Þannig setur hún náttúruna í fyrsta sæti. Hún hefur talað fyrir auðlindaákvæði í stjórnarskrá, að sameign þjóðarinnar sé tryggð og að við ráðum sjálf yfir auðlindum okkar. Að öll grundvallarmál sem hefðu langtímaáhrif á samfélagið og ágreiningur væri um, líkt og sala Landsvirkjunar sem dæmi, yrðu tilefni til notkunar á málskotsréttinum (Kappræður RÚV, mín 30). Að loft, láð og lögur séu ekki óþrjótandi auðlind heldur dýrmæti sem okkur ber að standa vörð um og gæta um aldur og ævi með sjálfbærni og hófsemi að leiðarljósi. Sem forseti mun hún standa með náttúrunni, okkur öllum og framtíðinni til heilla.

Katrín gerir sér einnig grein fyrir því að til skapa réttlátt og sterkt samfélag er mikilvægt að hagsmunir fólks og náttúru fara saman og að í hversdagslífi okkar allra sé rúm fyrir náttúru- og umhverfisvernd. Fyrir 15 árum þýddu Katrín og Gunnar maður hennar bók um umhverfisvænt uppeldi, á tíma þegar náttúruvernd og umhverfisvænn lífsstíll þóttu ekki jafn mikilvæg leiðarljós í samfélaginu og þau gera nú. Af því tilefni sagði Gunnar í viðtali að við höfum áhrif á náttúruna, samfélagið og börnin okkar, beint eða óbeint og að við getum öll lagt okkar af mörkum við að vernda náttúruna og bæta samfélagið með umhverfisvernd og nægjusemi.

Katrín predikar ekki bara hófsemi, heldur er hún nægjusöm í sinni íbúð í blokk, fer gangandi flestra sinna ferða og lengst af á gömlum smábíl og er þannig sannarlega ekki vegprestur heldur fyrirmynd. Fyrirmynd sem við getum verið innilega stolt af.

Álfhildur Leifsdóttir, kerfisfræðingur og grunnskólakennari, Skagafirði

Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir, leik- og grunnskólakennari, Reykjanesbæ

Sigríður Gísladóttir, dýralæknir og framhaldsskólakennari, Ísafirði

Nýjustu fréttir