Laugardagur 7. september 2024
Síða 84

Strandir: Ferðafólki bjargað úr sjálfheldu við Þiðriksvallavatn

Ljósmynd frá aðgerðum í dag þar sem sjá má björgunarmann í línu komin niður til aðstoðar. Mynd: Landsbjörg.

Björgunarsveitin Dagrenning á Hólmavík var boðuð út í dag kl 12:30 eftir að ferðafólk sem var á göngu inn með Þiðriksvallavatni, inn af Hólmavík, óskaði eftir aðstoð. Fólkið var á göngu inn eftir vatninu þar sem landið hallaði niður að klettabrún ofan vatns. Öðru þeirra hafði skrikað fótur í lausum jarðvegi og fallið á grúfu, þar sem stutt var fram á klettabrún og milli 10 og 15 metra fall niður klettana.

Það laust var undir þeim að þau treystu sér ekki til að hreyfa sig úr stað án aðstoðar.

Björgunarsveitin fór á staðinn með fjallabjörgunarbúnað, settu upp tryggingar fyrir línu og fetaði björgunarmaður sig í línu niður til þeirra.

Björgunarlykkju var komið á konuna, sem lá á grúfu með örlitla handfestu og hafði hún smá fótfestu, annars rynni hún af stað.

Þau voru tekin upp í línu á öruggan stað og fengu svo far með lögreglu að bíl þeirra. Þeim varð ekki meint af, en ljóst er þarna stóð tæpt að illa færi segir í tilkynningu frá Landsbjörgu.

Niðurstöður álagningar einstaklinga birtar

Skatturinn hefur birt niðurstöður álagningar einstaklinga 2024, vegna tekna 2023 á þjónustuvef sínum. Inneignir verða greiddar út 31. maí og launagreiðendur fá upplýsingar um skuldir til að draga af launum. Við álagningu eru gerðir upp ofgreiddir og vangreiddir skattar vegna fyrra árs auk þess sem lögð eru á gjöld s.s. útvarpsgjald og gjald í framkvæmdasjóð aldraðra.

Inneignir eru lagðar inn á þann bankareikning sem skráður er hjá innheimtumönnum. Ef engar upplýsingar um skráðan bankareikning liggja fyrir er hægt að skrá nýjan eða breyta fyrri skráningu á þjónustuvef Skattsins. Skuld eftir álagningu er skipt niður á sjö gjalddaga. Innheimta skulda fer í gegnum launagreiðendur. Þeim er send krafa um að draga skuld frá launum hvers mánaðar.

Hægt er að semja um að gera nýja greiðsluáætlun og skipta greiðslunni á lengra tímabil. Greiðsluáætlanir eru gerðar á mínum síðum á Ísland.is. Greiðsluáætlun er gerð til að lækka mánaðarlega greiðslubyrði en á móti kemur hærri vaxtakostnaður.

Púkinn fær 6 milljónir

 Tilkynnt hefur verið um úthlutun úr Barnamenningarsjóði Íslands fyrir árið 2024. Sjóðurinn styrkir 41 metnaðarfullt verkefni og er heildarupphæð úthlutunarinnar 102,4 milljónir króna. Alls bárust 117 umsóknir og var sótt um 383 milljónir króna. Úthlutun var tilkynnt við athöfn í Safnahúsinu á degi barnsins, sunnudaginn 26. maí 2024.

Hæsta styrkinn 11,5 milljónir, fær Reykjavíkurborg í samstarfi við Akureyrar- og Ísafjarðarbæ fyrir Leikskólaverkefnið sem byggir á samstarfi leik- og tónlistarskóla í öllum þremur sveitarfélögunum. Nemendur í tónlistarskóla vinna með elstu börnum leikskóla og lýkur verkefninu með sameiginlegum lokatónleikum.

Næsthæsta styrkinn, 6 milljónir, fær Vestfjarðarstofa fyrir barnamenningahátíð Vestfjarða, Púkann 2025, en hátíðin fer fram vítt og breitt um Vestfjarðakjálkann. Þriggja manna fagráð fjallaði um umsóknirnar og menningarmálaráðherra samþykkti tillögu stjórnar sjóðsins um úthlutun.

Ferðamálastefna til framtíðar

Nú er sumarið komið og farfuglarnir sem koma með vélknúnum farartækjum til landsins farnir að fara á stjá. Það má með sanni segja að ferðaþjónustan sé orðin lykilatvinnugrein hér á landi og þjóðhagslegt mikilvægi ferðaþjónustu hefur aukist ár frá ári. Fjöldi fólks starfar í greininni auk þess sem hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu fer sífellt stækkandi. Aukning í komu ferðamanna til landsins er góð en kallar á sama tíma eftir á skýrri framtíðarsýn í málefnum ferðaþjónustunnar.

Sameiginleg stefnumótun

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra lagði af því tilefni fyrr í þessum mánuði fram ferðamálastefnu til ársins 2030. Meginmarkmið ferðamálastefnunnar og aðgerðaáætlun henni tengdri er að tryggja framtíðarsýn í greininni og styðja við sjálfbærni í ferðaþjónustu á öllum sviðum. Þessi stefna er unnin á breiðum grunni og í virku samráði við hagaðila. Skipaðir voru sjö hópar sem falið var að vinna tillögur að aðgerðum inn í aðgerðaáætlun ferðamálastefnu.  Afraksturinn er stefnumótun í greininni sem kemur jafnt frá stjórnvöldum og atvinnugreininni sem endurspeglar sameiginlegar áherslur og sýn til framtíðar. Fullyrða má að aldrei fyrr hafi jafn ítarlegt samráð átt sér stað við stefnumótun á sviði ferðaþjónustu hér á landi, segja má að það sé forsenda fyrir því að vel takist til með þessa lykilatvinnugrein okkar.

Markmið og stefna

Í stefnunni má finna skýra framtíðarsýn, markmið og áherslur auk aðgerðaráætlunar í 43 skilgreindum aðgerðum til þess að fylgja eftir stefnunni.  Lögð er áhersla á samþættingu milli fjögurra lykilstoða, efnahags, samfélags, umhverfis og gesta. Það er, lögð er áhersla á aukna framleiðni í ferðaþjónustu, verðmætasköpun og samkeppnishæfni um land allt ásamt því að tyggja framþróun sem byggir á tækni, gögnum, nýsköpun, vöruþróun, mannauði og menntun. Þá er lögð áhersla á jákvæð áhrif ferðaþjónustu á nærsamfélög ásamt því að tryggja aukin lífsgæði um land allt. Eitt af markmiðunum stefnunnar að efla sjálfbær samfélög, uppbyggingu áfangastaða og dreifingu ferðamanna um landið allt árið um kring.  Í samræmi við kröfur nútímans er að sjálfsögðu lögð rík áhersla á umhverfisvernd, minna kolefnisspor og orkuskipti. Sérstök áhersla er lögð á að fagmennska, gæði og öryggi einkenni íslenska ferðaþjónustu og upplifun gesta sé í samræmi við væntingar og náttúru.

Opið gagnarými fyrir ferðaþjónustu

Eitt af þeim atriðum sem mér líst afar vel á í stefnunni er opið gagnarými fyrir ferðaþjónustuna. Markmiðið með gagnarýminu er að þjóna hagaðilum innan ferðaþjónustunnar og afleiddum greinum með tryggu aðgengi að áreiðanlegum, opnum, samþættanlegum og stafrænum gögnum. Gagnarými sem þetta styður við gagnadrifna ákvörðunartöku, virka notkun á Jafnvægisás ferðaþjónustunnar, rannsóknir, greiningar og nýsköpun. Það mun gera öll opinber gögn sem tengjast ferðaþjónustu aðgengileg og taka á móti gögnum sem nýst geta atvinnugreininni, þar með talið frá einkaaðilum. Um er að ræða verkfæri sem kemur til með að nýtast til margs góðs.

Álagsstýring á áfangastöðum

Mikill árangur hefur náðst í að bæta aðstöðu á ferðamannastöðum á síðustu árum, bæði að frumkvæði stjórnvalda og einkaaðila. En betur má ef duga skal ef bregðast á við þeim áskorunum sem hröð fjölgun ferðamanna hefur haft í för með sér. Í stefnunni er því lagt til að útfæra fyrirkomulag álagsstýringar til þess að sporna við of miklu álagi og bæta flæði umferðar ferðamanna þar sem þörf er á. Markmiðið með álagsstýringunni er að  stýra og jafna álag á áfangastöðum ferðamanna, svo vernda megi viðkvæma náttúru, menningarminjar og innviði og leitast við að koma í veg fyrir neikvæða upplifun gesta og heimamanna. En þannig má stuðlað að sjálfbærri þróun áfangastaða.

Samstarf um móttöku skemmtiferðaskipa og innviðagjald

Komur skemmtiferðaskipa til landsins hafa aukist verulega á undanförnum árum og þau hafa getu til að koma víðar við en vegakerfi landsins býður upp á.  Ágangur ferðamanna um svæði getur verið vandamál. Hér vil ég sérstaklega nefna landtöku skemmtiferðaskipa inn á friðlýst svæði. Það er því sérstaklega ánægjulegt að í stefnunni sé fjallað um samstarf um móttöku skemmtiferðaskipa og nýtingu innviða. En stofna á samstarfshópa sveitarfélaga og ferðaþjónustu í hverjum landshluta sem vinni eiga að greiningu og móti stefnu landshlutans um umgjörð og komur skemmtiferðaskipa og landtöku utan hafna. Er hlutverk þeirra  meðal annars að skoða þörf á álagsstýringu og uppbyggingu innviða.

Þá á að hefja sérstaka gjaldtöku á komur erlendra skemmtiferðaskipa og eiga þær tekjur að renna til uppbyggingar innviða á sviði ferðaþjónustu. Erlend skemmtiferðaskip hafa hingað til almennt greitt takmarkaða skatta til íslenska ríkisins, helst hefur verið um að ræða þjónustugjöld á borð við hafnargjöld til hafnarsjóðs, vitagjald og farþegagjald fyrir hvern farþega og nú ný nýlega gistináttagjald. Með þessu hafa skemmtiferðaskip haft ákveðið samkeppnisforskot á innlenda ferðaþjónustu en farþegar skipanna njóta með líkum hætti íslenskrar náttúru og innviða og aðrir ferðamenn sem eru hér á landi. Með þessum hætti er verið að jafna samkeppnisstöðu innlendra og erlendra fyrirtækja í ferðaþjónustu ásamt því að efla verðmætasköpun sem fjármagnar og stuðlar að aukinni uppbyggingu innviða í ferðaþjónustu.

Tímamót á sviði ferðaþjónustu

Stefnan inniheldur líkt og fyrr segir marga aðra þætti og aðgerðaráætlanir. Ég hvet áhugasama til þess að kynna sér hana frekar enda um að ræða stórt og áhugaverða tillögu og ekki hægt í einni grein að fjalla um alla þætti hennar. En segja má að með framlagningu þessarar heildstæðu stefnu sé um að ræða ákveðin tímamót á sviði ferðaþjónustu á Íslandi. Fjöldinn allur af hagaðilum hefur sett mark sitt á þessa stefnu og mikilvægast er að hún er unnin sátt og samráði. Ég bind vonir við að okkur beri gæfa til að klára að afgreiða hana á þessu þingi, enda jafn mikilvæg fyrir ferðaþjónustuna, land og þjóð.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar

Bjarney Ingibjörg nýr skólastjóri Tónlistarskólans á Ísafirði

Greint er frá ráðningunni á vefsúðu Tónlistarskólans á Ísafirði. Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir er fædd og uppalin á Ísafirði. Sem sex ára lítil hnáta hóf hún tónlistarnám í Tónlistarskóla Ísafjarðar. Eftir stúdentspróf flutti hún til Reykjavíkur og hóf þar framhaldsnám og útskrifaðist með söngkennara og kórstjórnarpróf. Eftir tuttugu ára búsetu í Reykjavík þar sem hún starfaði sem söngkennari og kórstjóri flutti hún heim til Ísafjarðar.

Á Ísafirði hefur Bjarney starfað við tónlistarkennslu og stjórnað kórum, lengst af við Tónlistarskóla Ísafjarðar en einnig stundaði hún framhaldsnám í söngkennslufræðum frá Complete Vocal Institude í Kaupmannahöfn. Sl.vor útskrifaðist Bjarney Ingibjörg með meistaragráðu í verkefnastjórnun, MPM, frá Háskólanum í Reykjavík.

Bjarney hefur sl.ár starfað sem verkefnastjóri hjá Háskólasetri Vestfjarða og er einnig verkefnastjóri tónlistarhátíðarinnar Við Djúpið. Bjarney Ingibjörg hefur gaman af félagsstörfum og hefur m.a. starfað í stjórnum og nefndum Félags íslenskra söngvara, norrænu kórasamtökunum NORBUSANG og Félags íslenskra kórstjóra. Hún hefur brennandi áhuga á matargerð og prjónaskap en finnst best að knúsa ömmubörnin sem bráðum verða fimm.

Súðavík: malbikunarframkvæmdir fyrir 18 m.kr. í sumar

Súðavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson..

Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps hefur samþykkt að ráðast í malbikunarframkvæmdir í sumar. Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri segir að áformað sé að malbika veg á suðurgarði Súðavíkurhafnar, hafnartangann ásamt bílastæði við Aðalgötu 30, plan við Aðalgötu neðan minningarreits (þar er snúningsplan fyrir rútur og ferðamenn) ásamt hlulta af vegslóða fram Árdal upp að geymslusvæði Súðavíkurhrepps. Bragi Þór segir önnur svæði séu smáblettir sem þarf annað hvort að laga eða nýlögn s.s. bílastæði við minningarreit við Túngötu. Heildar flötur er um 2500 fermetrar, en gæti verið meira þar sem í skoðun er að breikka hluta þess vegar sem lagt verður yfir.

Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri.

Suðureyri: þriggja daga sjómannadagshátíðahöld

Frá sjómannadeginum í fyrra.

Vegleg dagskrá verður á Suðureyri um næstu helgi, sjómannadagshelgina. Dagskráin hefst á föstudagskvöldið með fjölskyldubingó í Félagsheimilinu sem björgunarsveitin Björg stendur fyrir. Veittir verða glæsilegir vinningar.

Á laugardaginn hefst dagskráin með siglingu um Súgandafjörðinn í boði smábátaeigenda. Eftir hádegið verður skrúðganga frá Bjarnaborg að kirkju og sjómannadagsmessa hefst kl 14. Sr. Fjölnir Ásbjörnsson þjónar og sjómaður verður heiðraður. Síðar um daginn verður kappróður og barnaball með CELEBS. Um kvöldið verður svo sjómannadagshóf og veisluhlaðborð sem Hugljúf og Ella á Ísafirði sjá um.

Fylgst verður með talningu atkvæða í forsetakosningunum.

CELEBS og Papar spila fyrir dansi frá kl 22:30.

Á sjómannadaginn sjálfan verður svo hefðbundin dagskrá við höfnina.

Harmleikur í Bolungavík: okkur er brugðið

Bolungavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Okkur er verulega brugðið segir Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík. „Þetta er harmleikur sem átti sér stað en rétt að taka fram að ekki er hættuástand. Bolungavík er friðsælt samfélag“

Tveir létust í gær í heimahúsi í Bolungavík. Í tilkynningu lögreglu kemur fram að um er að ræða sambýlisfólk á sjötugsaldri. Þá segir að eins og staðan er bendi ekkert til þess að saknæmur atburður hafi átt sér stað.

Jón Páll segir að „okkar hlutverk er að sýna hluttekningu og vera til staðar fyrir þá sem eiga um sárt að binda.“

Þarf botnmálning skipa að fara í umhverfismat?

Í byrjun apríl síðastliðnun ákvað Skipulagsstofnun að gera þyrfti sérstakt umhverfismat fyrir notkun ásætuvarna Arctic Fish í sjókvíaeldi í Arnarfirði. Ástæðan er að notað er efni með koparoxíð til þess að setja á kvíarnar. Notkun koparins gerir það að verkum að á netin setjast síður lífverur. Að öðrum kosti þarf reglulega að háþrýstiþvo næturnar sem hefur slæm áhrif á eldisfisk sem í þeim er og veldur sliti á nótunum.

Niðurstaða Skipulagsstofnunar var sú að fyrirhuguð framkvæmd væri líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því framkvæmdin háð mati á umhverfisáhrifum.

Af átta umsagnaraðilum var það aðeins skipulags- og umhverfisráð Vesturbyggðar sem vildi að framkvæmdin færi í umhverfismat, en t.d. bæði Umhverfisstofnun og Hafrannsóknarstofnun töldu að það myndi ekki ekki varpa skýrari mynd á áhrif notkunar ásætuvarna á umhverfið. Í umsögn Vesturbyggðar segir að ekki liggi fyrir hvort notkun ásætuvarnanna, geti haft í för með sér óafturkræf áhrif á náttúru í Arnarfirði og telur ráðið „því eðlilegt að framkvæmdin fari í umhverfismat vegna þeirrar óvissu sem er um langtíma áhrif þeirra efna sem nota á sem ásætuvarnir á lífríki fjarðarins sem og mögulegra sammögnunaráhrifa vegna fjölda eldissvæða í Arnarfirði.“

Sama efni í botnmálningu

Nú er komið í ljós að í algengri skipamálningu er sama efni samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda. Þannig er Seaforce 30m með jafnmikið koparmagn og í Netwax, sem notað er í sjókvíunum og önnur tegund af skipamálningu, SeaQuantum Ultra S er með mun meira magn af kopar.

Þetta vekur upp spurninguna hvort botnmálning skipa og báta verði ekki að fara í umhverfismat. Væntanlega eru áhrifin af koparefninu í málningunni á umhverfið jafn líkleg til þess að vera umtalsverð og sama efni í ásætuvörnunum. Töluvert magn þarf af botnmálningu skipa og báta þarf í hvert sinn en það ræðst endanlega af stærð skipsins. Það er spurning hvort skipulags- og umhverfisráð Vesturbyggðar hafi lagt mat sitt á umhverfisráhrifin af skipamálningu.

-k

Grunnskólinn Ísafirði: tilboð 38% yfir kostnaðaráætlun

Grunnskólinn á Ísafirði.

Eitt tilboð barst í viðhald á Grunnskólanum á Ísafirði. Um er að ræða uppbyggingu á gluggum og á gangi
Grunnskólans á Ísafirði ásamt uppbyggingu á stofu 216. Tilboðið var frá Gömlu Spýtunni, að upphæð 26.688.000 kr. Kostnaðaráætlun var 19.395.500 kr. og er tilboðið því 38% hærra.

Bæjarráð samþykkti að gengið yrði til samninga við Gömlu Spýtuna.

Helstu verkþættir eru eftirfarandi:
Endurnýja 14 glugga á norðurhlið skólans
Taka glugga úr í stofu 216, steypa súlu og setja glugga aftur í gluggagat
Gera við sprungur í útveggjum
Endurbyggja kennslustofu 216 og sérkennslustofu
Opna veggi þar sem sjáanleg rakaummerki eru og endurbyggja þá.
Skipta út gólfdúk fyrir vínylparketi.
Brjóta upp ílögn þar sem raki hefur mælst í gólfi. Hreinsa og byggja upp aftur
Gera við þakleka á norðvestur hluta þaksins
Mála þá veggi sem unnið er við
Setja hatt á skorstein
Opna gólf við fatahengi 1.hæð framan við matsal- bunga á flísalögðu gólfi

Nýjustu fréttir