Laugardagur 7. september 2024
Síða 83

Fiðlarinn í Þjóðleikhúsinu

Litli leikklúbburinn á Ísafirði í samstarfi við Tónlistarskólann á Ísafirði sýnir Fiðlarann á þakinu eftir Jerry Bock, Sheldon Harnick og Joseph Stein í Þjóðleikhúsinu laugardaginn 15 júní kl. 20.00.

Aðeins eru eftir fáeinir miðar á sýninguna.

Söngleikurinn er meðal þeirra sem oftast hefur verið settur upp á heimsvísu enda er tónlistin létt og skemmtileg og mörgum kunn. Fiðlarinn á þakinu segir frá mjólkurpóstinum Tevje, sem leikinn er af Bergþóri Pálssyni.

Verkið gerist árið 1905 í þorpinu Anatevka í Rússlandi þar sem siðvenjur og hefðir eru fyrir öllu. Tevje og Golda konan hans eiga fimm dætur sem allar þurfa eiginmenn. Hjúskaparmiðlari þorpsins gerir sitt besta til að sinna hlutverki sínu en dæturnar hafa aðrar hugmyndir um örlög sín.

Ísafjarðarbær: nýtir ekki forkaupsrétt að Fagrahvammi

Horft yfir Ísafjörð.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hyggst ekki nýta forkaupsrétt sveitarfélagsins að landinu og leggur það til við bæjarstjórn að falla frá forkaupsrétti að landi og mannvirkjum Fagrahvamms, í þetta skipti, vegna fyrirhugaðrar sölu þess.

Landið var selt 1952 til erfðafestu og til ræktunar með forkaupsrétti sveitarfélagsins vilji erfðafestuhafi selja erfðafesturétt sinn.

Upphaflega var landið liðlega 35 þúsund fermetrar, en síðar var tekin sneið af því og færð undir Góustaði, í stað lands sem bærinn fékk þá úr þeirri jörð. Eftir standa um 20.000 fermetrar. Um 4.000 fermetrar gætu verið í óð undir mannvirki sem eru á landinu svo mögulega gæti sveitarfélagið nýtt um 16.000 fermetra
fari það svo að Ísafjarðarbær hyggist skipuleggja byggð á landinu.

Kjósi sveitarfélagið að innkalla landið þarf að greiða 25 aura fyrir hvern fermetra á verðlagi samningsins, sem er um13,24 kr í dag.

Baskasetur í Djúpavík: sýning opnuð

Dagana 6.-8. júní verður opnaður fyrri áfangi sýningar Baskaseturs í gömlu síldartönkunum á Djúpavík. Af þessu tilefni verður dagskrá í Djúpavík tengd sögu Baska á Íslandi í samvinnu við samstafsaðila í Baskahéruðum Spánar og Frakklands. Albaola á Spáni og Haizebegi í Frakklandi standa ásamt Baskavinafélaginu á Íslandi að viðburðum í löndunum þremur, hylla baskneskan menningararf og stofna Baskasetur í Djúpavík. Háskólasetur Vestfjarða kemur að verkefninu með áherslu á sambúð manns og sjávar og sjálfbærni. Baskavinafélagið á einnig í samstarfi við listasýninguna the Factory í Djúpavík og við Strandagaldur og Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofu.

vinnustofa um gerð hljóðfæra

Fimmtudaginn 6. júní verður opin vinnustofa í gerð hljóðfæra úr rusli í Djúpavík. Markmiðið er að stuðla að sjálfbærni og endurnýtingu meðfram því að tengja við baskneskan menningararf. Sjávarnytjar eru hluti af verkefninu. Intelligent Instruments Lab við Háskóla Íslands og Baskavinafélagið sjá um vinnustofuna í samstarfi við listasýninguna the Factory í Djúpavík. Intelligent Instruments Lab er þverfagleg rannsóknarstofa sem skoðar hlutverk gervigreindar í nýjum hljóðfærum og hefur unnið með hið baskneska hljóðfæri txalaparta og haldið vinnustofur á Ströndum í þeim hljóðfæraleik. Í lok dags verður eftirlíkingu af baskneskum léttabát, „txalupa“ komið fyrir á sýningunni í síldartankinum. Vinnustofa í smíði á léttabátnum verður dagana á undan hjá Iðunni fræðslusetri í Reykjavík.

málþing um sögu Baska á Íslandi

Föstudaginn 7. júní og laugardaginn 8. júní verður málþing á ensku í Djúpavík um sögu Baska á Íslandi að viðstöddum Guillaume Bazard sendiherra Frakklands og José Carlos Esteso Lema sendifulltrúa Spánar. Markmið málþingsins er að stuðla að frekari þekkingu íslenskra vísindamanna og þeirra sem starfa í skapandi geirum á sögu Baska á Íslandi og tengja saman íslenskan og baskneskan menningararf.

Frummælendur á málþinginu verða bæði innlendir og erlendir, meðal annarra Xabier Agote forstjóri Albaola í Baskahéruðum Spánar sem segir frá leyndardómum hinna basknesku léttabáta, „txalupa“. Magnús Rafnsson sagnfræðingur fjallar um það hvaða áhrif samskiptin við Baska höfðu á heimafólk og Ragnar Edvardsson fornleifafræðingur kortleggur viðveru Baska á Ströndum, ofan og neðan sjávar, en Ragnar stóð að uppgreftri á Strákatanga við Hveravík á Ströndum, þar sem fundist hafa minjar um veru Baska. Trausti Einarsson segir frá hvalveiðum Baska við Ísland og Sigurður Sigursveinsson segir frá rannsóknum Selmu Barkham á hvalveiðum Baska við Labrador og Ísland. Tapio Koivukari verður með vangaveltur um samstarf á milli Íslendinga og baskneskra hvalveiðimanna fyrr á öldum í veiðum og vinnslu og Alex Tyas og Catherine Chambers fjalla um sjávarmenningararf sem samfélagsþróunartæki. Denis Laborde stjórnandi Haizebegi hátíðarinnar í Baskahéruðum Frakklands verður með erindi um baskneska tónlist og Þórhallur Magnússon verður með erindi um sögu og þróun hljóðfæra. Viola Miglio verður með erindi um basknesk-íslensku orðasöfnin og Zuhaitz Akizu kynnir basknesk-íslenska orðabók sem er í vinnslu.

Ólafur J. Engilbertsson segir frá Baskavinafélaginu og Evrópuverkefninu og Héðinn Ásbjörnsson formaður Baskaseturs kynnir setrið auk þess sem Þórarinn Blöndal sýningarhönnuður segir frá sýningu Baskaseturs. Loks mun Imanol Mendi kynna baskneska matargerð og framreiða „pintxos“, baskneska smárétti, við lok dagskrár föstudaginn 7. júní kl. 17:00 , en þá verður opnaður fyrri áfangi sýningar Baskaseturs í gömlu síldartönkunum á Djúpavík með tónleikum baskneskra og íslenskra tónlistarmanna.

Baskasetur er samstarfsverkefni Baskavinafélagsins, Háskólaseturs Vestfjarða, Albaola á Spáni, Haizebegi í Frakklandi og Hótels Djúpavíkur sem hýsir væntanlegt Baskasetur. Verkefnið hlaut styrki frá Creative Europe, Brothættum byggðum á vegum Byggðastofnunar, Fjórðungssambandi Vestfirðinga og Uppbyggingarsjóði Vestfjarða. 

Sjá nánar: 

https://baskavinir.is/

Viðburður á Facebook:

https://www.facebook.com/events/1381922979135592/?ref=newsfeed

Vesturbyggð: fyrsti fundur nýrrar bæjarstjórnar í dag

Ráðhús Vesturbyggðar.

Í dag kl 17 hefst fyrsti fundur nýkjörinnar bæjarstjórnar í sameinuðu sveitarfélagi Vesturbyggðar og Tálknafjarðar. Ekki er komin niðurstaða í ráðningu bæjarstjóra og verður Gerði Björk Sveinsdóttur veitt umboð sem staðgengill bæjarstjóra. Páll Vilhjálmsson, oddviti N -lista vildi ekkert segja um það hvernig staðan væri.

Kosið verður í fastanefndir og rætt um nafn á nýja sveitarfélagið. Miðað er við að leggja tillögur að nafni fyrir íbúa sveitarfélagsins.

Bátasmiðjan flytur á Flateyri

Hafnarbakki 5, Flateyri.

Bátasmiðjan á Suðureyri hefur fest kaup á stóru húsnæði Hafnarbakka 5 á Flateyri og segir Þórður Bragason, eigandi að fyrirhugað sé að flytja starfsemina þangað. Húsnæðið sé mun stærra en núverandi aðstaða í áhaldahúsinu við höfnina á Suðureyri og það sé auk þess leiguhúsnæði.

Seljandi er athafnamaðurinn Elías Guðmundsson á Suðureyri sem gerir út sjóstangveiðibáta á báðum þessum stöðum og mun Bátasmiðjan þjónustan bátana.

Bátasmiðjan hefur verið starfrækt síðustu þrjú árin og annast einkum viðgerðir á plastbátum. Þórður segir að nýja húsnæðið gefi fleiri möguleika og áformað er að bjóða bátaeigendum að koma með báta sína til viðgerðar þannig að það verði nokkurs konar bátahótel.

Þórður Bragason.

Franskur högglistamaður kemur til Patreksfjarðar

Minnisvarðinn á Patreksfirði. Mynd: Morgunblaðið.

Franski lista­mað­urinn Henri Patrick Stein, sem er Patreks­firð­ingum kunnur fyrir verk hans til minn­ingar um franska sjómenn, er vænt­an­legur til Patreks­fjarðar á ný að kvöldi 17. júní næst­kom­andi. Stein ætlar að vinna listaverk í stein nálægt höfninni með slípirokk og meitlum, áætluð verklok eru 25. júní. Verkefnið hlaut styrk frá menningar- og ferðamálaráði Vesturbyggðar.

Óskar eftir aðstoðarfólki

Hann óskar eftir að fá aðstoðarfólk í sjálfboðaliðastarfi, sem hefur áhuga á að læra réttu handtökin við steinsmíði og fleira. Engin krafa er gerð um þekkingu á steinsmíði, einungis áhugi á að fegra bæinn og að kynnast listgreininni. Starfið er ólaunað. Nauðsynleg verkfæri verða á staðnum. Gisting verður útveguð sjálfboðaliðum sem koma annars staðar frá. Þá væri vel þegið ef heimamenn gætu lánað herbergi og/eða annað húsnæði fyrir þá.

Henri Patrick Stein er franskur högglistamaður sem hannaði og reisti minnisvarðann um franska sjómenn á Patreksfirði árið 2002. Upphaflega stóð til að hann kæmi og reisti nýja verkið 20 árum seinna, það er árið 2022, en Covid faraldurinn setti strik í reikninginn. Hann hefur komið víða við og hefur meðal annars unnið skúlptúra og ufsagrýlur nýverið fyrir endurreisn Notre Dame kirkjunnar í París. Hjónin María Óskarsdóttir og Halldór Árnason eru hvata- og umsjónarmenn verkefnisins, þau hafa lengi vel staðið að sýningu í tengslum við franska sjómenn á heimili þeirra að Mýrum 8 á Patreksfirði og gefið út bækur um efnið.

Áhugasamir vinsamlega hafið samband við Maríu í síma 892 5059, auk þess veitir menningar- og ferðamálafulltrúi nánari upplýsingar í tölvupósti og síma. Heimamenn sem geta lánað húsnæði hafið samband við Maríu.

Pósturinn: Þrjú ný póstbox

Nýjum póstboxum fjölgar stöðugt. Í tilkynningu frá Póstinum kemur fram að í næsta mánuði verða þau orðin alls 100 talsins og að þau eru vinsælasti kosturinn hjá Póstinum.

„Fólk kann vel að meta að geta sótt pakka og póstlagt í póstbox hvenær sem er, árið um kring,“ segir Ósk Heiða Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptavina.

Nýlega bættust við póstbox í Búðardal, Súðavík og á Suðureyri.

„Uppsetning hefur gengið vonum framar og við höldum áfram að finna nýja staði fyrir póstbox og koma þeim fyrir á stöðum þar sem þörfin er hvað mest. Við hvetjum alla til að prófa að nota póstbox. Þetta ein þægilegasta og hagkvæmasta leiðin til þess að sækja og senda sendingar í dag,“ segir Ósk Heiða.

Kerecis völlurinn: stefnt að 14. júní

Frá lagningu lagna á völlinn. Mynd: Arnar Guðmundsson.

Stefnt er að því að nýi gervigrasvöllurinn á Torfnesi, Kerecis völlurinn, verði tilbúinn til notkunar 14. júní næstkomandi. Jóhann Birkir Helgason, eftirlitsmaður Ísafjarðarbæjar segir að beðið sé eftir verktakanum Metatron. Starfsmenn fyrirtækisins séu á Akureyri og fari svo til Sauðárkróks til viðgerða á gervigrasvelli en Jóhann vonast til þess að þeir verði á Ísafirði á fimmtudaginn.

Þá verði hafist handa við að steypa niður púðana og áætlað er að það taki fjóra daga. Síðan þurfi tíu daga til þess að leggja gervigrasið. Framgangur verksins sé hins vegar háður veðráttunni. Það þurfi að vera þurrt þegar púðarnir verða steyptir og hitastig a.m.k. 8 gráður á celsíus og hitinn má ekki fara niður fyrir 5 gráður við niðurlagningu gervigrassins. Haldist veðráttan hagstæðin verður völlurinn tilbúinn 14. júní.

Samúel Samúelsson, formaður meistarflokksráðs Vestra í knattspyrnu sagði í samtali við Bæjarins besta að miðað við þessa áætlun verði fyrsti leikur Vestra á Kerecisvellinum í Bestu deildinni gagn Val þann 22. júní og fyrsti leikurinn verður strax 15. júní þar sem kvennalið Vestra leikur í annarri deildinni.

Ekkert verður af því að fyrsti leikurinn verði á sjómannadaginn 2. júní eins og áður var að stefnt og verður sá leikur, sem er gegn Stjörnunni, spilaður í Laugardalnum í Reykjavík á leikvelli Þróttar en mun teljast sem heimaleikur Vestra. Samúel sagði mikinn kostnað fylgja hverjum leik sem þyrfti að færa suður.

DRUMBUR

Drumbur er stuttvaxinn og þunnvaxinn fiskur með stuttan og ávalan haus. Augu eru stór. Neðri skoltur er aðeins styttri en sá efri. Tennur eru smáar og hvassar. Plógbein og gómbein eru tennt. Bakuggi byrjar rétt aftan við haus og er samvaxinn sporði og raufarugga. Ekki vottar fyrir sporði. Eyruggar eru stórir og bogadregnir og ná aftur fyrir fremri rætur bakugga. Kviðuggar eru tveir stuttir geislar hvor uggi og er innri geislinn lengri. Hreistur vantar og rák er tvöföld. Hér við land hefur veiðst 40 cm drumbur og gæti hann verið sá stærsti sem fengist hefur.

Litur er blágrár, stundum brúnleitur og uggar eru dökkir.

Drumbur fannst í fyrsta skipti á um 700 m dýpi sunnan Georgsbanka undan austurströnd Bandaríkjanna árið 1962. Síðan hefur hann m.a. veiðst suðaustur af Hvarfi við Grænland, við Ísland, Norðvestur-Írland og í Gíneuflóa við vestanverða Afríku.

Hér veiddist drumbur fyrst í maímánuði árið 1983 en þá fékkst einn 26,5 cm langur í humarvörpu á 178 – 212 m dýpi í Háfadjúpi. 1 júlí sama ár veiddist annar, 21 cm langur, einnig í humarvörpu, í Breiðamerkurdjúpi. Sá þriðji veiddist ekki fyrr en árið 1992 en síðan hafa einn eða fleiri veiðst árlega allt frá suðausturmiðum (Berufjarðarálshorn) vestur með suðurströndinni og norður á grálúðuslóð vestan Víkuráls og árið 1998 bárust 10 til rannsóknar á Hafrannsóknastofnun. Drumbar hafa veiðst hér við land á 183-824 m dýpi (en hann hefur veiðst niður á meira en 1000 m dýpi) og ýmist í flotvörpu eða botnvörpu. Þeir voru 22- 40 cm langir, sá lengsti veiddist á 192 m dýpi í mars árið 1997 við Berufjarðarálshorn.

Drumbur er miðsævis- og djúpfiskur sem er sennilega í slagtogi með stórum marglyttum. Hann gýtur seiðum.

Af vefsíðunni hafogvatn.is

Guðlaug Edda fer á Ólympíuleikana í París

Guðlaug Edda Hannesdóttir, þríþrautarkona, hefur fengið boð um þátttöku á Ólympíuleikunum í París næsta sumar en Alþjóða Ólympíusambandið staðfesti svo í dag.

Guðlaug Edda er annar Íslendingurinn sem kemst inn á Ólympíuleikana sem haldnir verða í júlí og fram í ágúst og jafnframt fyrsti Íslendingurinn til að taka þátt á Ólympíuleikum í þríþraut.

Guðlaugu Eddu hefur gengið mjög vel þeim mótum sem hún hefur tekið þátt í á árinu og meðal annars unnið til verðlauna. Af þeirri ástæðu hefur hún klifið hratt upp heimslistann þrátt fyrir að vera nýlega komin til baka eftir erfið meiðsli. 

Framundan eru spennandi vikur hjá fjölmörgum íþróttamönnum sem enn eiga möguleika á því að vinna sér inn þátttökurétt en vonir standa til að það fjölgi í hópnum á næstunni og fleiri íþróttamenn komist á leikana í sumar fyrir Íslands hönd.

Nýjustu fréttir