Laugardagur 7. september 2024
Síða 82

Ísafjörður: Skólaslit Tónlistarskólans 2024 í gær

Bergþór Pálsson við skólaslitin.

Tónlistarskóla Ísafjarðar var slitið við hátíðlega athöfn í Ísafjarðarkirkju í dag. Bergþór Pálsson skólastjóri sagði það hafa verið mikið gæfuspor að gerast Ísfirðingur fyrir fjórum árum, móttökurnar og kynnin af þessu kraftmikla og fallega samfélagi hefðu verið einstaklega gefandi og þeir Albert færu því héðan ekki aðeins með þakklæti fyrir vináttuna í huga, heldur líka söknuð í brjósti. Þeir væru þó stoltir af því að skila góðu búi til nýs skólastjóra. Þá fór hann yfir nokkur atriði sem upp úr stæðu í vetur, hádegistónleikana með fyrrverandi nemendum skólans, Heimilistóna, ferð Skólakórsins á kóramót í Danmörku og síðast en ekki síst uppsetningu á Fiðlaranum á þakinu ásamt Litla leikklúbbnum.

Viðurkenningar voru veittar fyrir góða ástundun í útibúum, grunnpróf í tónfræði og hljóðfæraleik, Ísfirðingaverðlaunin hlaut Guðrún Hrafnhildur Steinþórsdóttir, en hún tók glæsilegt miðpróf nú í vor, spilar bæði á flautu og píanó, spilaði með glæsibrag á Nótunni á Akranesi og er öflugur liðsmaður lúðrasveitarinnar. Aðalverðlaun HG hlaut Matilda Mäekalle, en hún tekur framhaldspróf á næsta ári, spilar á píanó, trompet, bassa, spilaði sömuleiðis með glæsibrag á Nótunni á Akranesi, einnig spilaði hún á hljómborð í Fiðlaranum á þakinu.

Beáta Joó hlaut heiðursverðlaun Tónlistarskólans fyrir störf sín. MEIRA HÉR.

Ýmis tónlistaratriði voru á dagskránni. Skólalúðrasveitin hóf hátíðina með þema úr Jesus Christ Superstar, Guðrún Hrafnhildur Steinþórsdóttir, handhafi Ísfirðingaverðlaunanna, lék Serenöðu eftir Moritz Moszkowski, Matilda Mäekalle, handhafi aðalverðlaunanna sem veitt eru af HG, lék Rustle of Spring eftir Christian Sinding. Hátíðargestir sungu saman Ó blessuð vertu sumarsól. Í lokin söng Bergþór My Way með Skólalúðrasveitinni.

Myndirnar tók Haukur Sigurðsson.

Beáta Joó hlaut heiðursverðlaun Tónlistarskólans fyrir störf sín.

Matilda Mäekalle, handhafi aðalverðlaunanna sem veitt eru af HG, lék Rustle of Spring eftir Christian Sinding.

Strandabyggð: 240 m.kr. í viðgerðir á grunnskólanum á Hólmavík

Þorgeir Pálsson er oddviti og sveitarstjóri í Strandabyggð.

Viðamiklar endurbætur standa yfir á húsnæði Grunnskólans á Hólmavík eftir að mygla greindist í húsnæðinu. Áætlað er að framkvæmdakostnaður 2023 og 2024 verði samtals um 240 m.kr.

Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri var beðin um nánari upplýsingar um þennan mikla kostnað. Svar hans fylgir hér:

„Þegar vinna við endurbætur á yngri hluta grunnskólans hófust, var í raun margt óljóst, en það lá þó fyrir að það þyrfti að gera yngri hlutann nánast fokheldan.  Það var gert þannig að ílögn á gólfum var nánast öll brotin upp, settar hitalagnir í gólf og flotað,  skipt var um flesta glugga og gert við aðra, sumir gluggar stækkaðir, farið í hönnun brunakerfis og uppsetningu „sprinkler“ kerfis, loftræstikerfi var hannað og skipt um allar raflagnir.  Ný ljós sem taka mið af nútíma stöðlum verða sett í og eins var alrými skólans endurhannað m.t.t. samverusvæðis, eldhúsi breytt og salernisaðstaða endurhönnuð.  Áfram verður aðstaða fyrir hannyrða og smíðakennslu sem og félagsstarf eldri borgara.  Tónlistarskólinn heldur sínu rými og var sett hurð á útvegg þar bæði sem flóttaleið og einnig sem leið í upphitaða stétt sem verður gerð þar fyrir utan.  Allar flóttaleiðir voru endurskoðaðar sem t.d. kallaði á stækkun glugga og uppsetningu stiga utan á skólanum.  Skipt var um drenlögn og nær allur skólinn klæddur með dúk og nýjar drenlagnir lagðar.  Allur búnaður var keyptur nýr; borð, stólar, skápar og er í einu og öllu stuðst við nútímakröfur og viðmið.  Skólinn verður allur málaður og þurfti að fara í talsverða múr- og sparslvinnu vegna þess.  Einnig verður dúkur lagður á öll gólf og flísar í anddyri.  Glerhurðir aðskilja vinnurými kennara sem og inngang í skólastofur. Fyrir vikið verður öll vinnuaðstaða mun betri og bjartari. Fram hafa komið kostnaðarliðir, viðbætur og breytingar sem ekki lágu fyrir í upphafi né við fjárhagsáætlanagerð fyrir 2024.  Var t.d. ákveðið að hætta við að klæða dúk í loftin og setja þess í stað heraklitplötur.  Loftið er að auki einangrað.  Allt tekur þetta mið af viðmiðum um hljóðvist.  Við hönnun loftræstikerfis, sem aldrei hefur verið í byggingunni, þurfti að bora fjölda gata í loft skólans.  Einnig fór mikill tími í alla lagnavinnu hvað varðar rafmagn og vatn.  Vaskur er í hverri skólastofu.

Í vor voru tekin myglusýni í yngri hluta skólans, þar sem þessi vinna fer öll fram.  Öll þau sýni komu vel út og höfðu starfsmenn EFLU orð á að vel væri staðið að öllum framkvæmdum sveitarfélagsins við þessa endurgerð skólans.  Að þessu verki hafa komið starfsmenn sveitarfélagsins og fjöldi verktaka, bæði heimamanna og utan sveitarfélagsins og allir hafa lagst á eitt um að skila góðri og vandaðri vinnu.  Það hefur skilað sér.  Verkfræðistofan VERKÍS og Koa arkitektar á Ísafirði hafa sinnt verkefnastjórnun og faglegri ráðgjöf og hönnun, auk undirverktaka þeirra.

Strandabyggð eins og um helmingur sveitarfélaga á Íslandi, stendur í endurbótum vegna myglu í grunnskólanum.  Grunnskólinn á Hólmavík er í raun tvær einingar og er nú unnið að endurgerð yngri einingarinnar, sem þó er rúmlega fjörutíu ára.  Eldri einingin er rúmlega áttatíu ára.  Það er því verið að endurgera byggingar þess tíma þegar kröfur og viðmið voru með allt öðrum hætti en nú er.  Í allri þessari vinnu eru ótal óvissuþættir sem gera það að verkum að kostnaðaráætlanir standast ekki.  Það sem er mikilvægt í þessu ferli, ekki bara í Strandabyggð, heldur á landsvísu, er að taka saman þennan kostnað, alla kostnaðarliði, skrá niður alla óvissuþætti og þau frávik sem verða, þannig að hægt sé að gera einhvers konar gagnabanka sem hægt er að ganga í og koma í veg fyrir óþarfa kostnað í viðgerðum framtíðarinnar.  Það virðist því miður þannig, að mjög margar byggingar á Íslandi mygla.  Þekking á upphitun og loftræstingu bygginga er ekki almenn og því má búast við því að þessi vandi komi upp víðar í framtíðinni.“

Ég læt þetta duga, en ég mun taka þetta saman í formlegri pistil þegar þessu verki lýkur.  Það má vel nefna það hér, að ég spurðist fyrir um stuðning Jöfnunarsjóðs vegna þessa og þar var svarið þvert nei.  Vegna umfangs mygluvanda á landsvísu, mun Jöfnunarsjóður ekki styðja sveitarfélög fjárhagslega,  Þetta var rætt í tengslum við umræðu um svokallaðan „byggðapott“ sem verður settur á laggirnar, þegar (ekki ef) nýjar reglur um Jöfnunarsjóð verða innleiddar og skerðing af þeim sökum raungerist.  Fyrir Strandabyggð er þetta skerðing upp á amk 70 milljónir á næstu þremur árum.

Og auðvitað er það svo, í litlu sveitarfélagi eins og Strandabyggð, sem býr við mikla innviðaskuld, að svona stórt verkefni stoppar eða frestar öðrum mikilvægum verkefnum.

Grunnskólinn á Hólmavík.

Myndir: Þorgeir Pálsson.

Golfvertíðin hafin á Ísafirði

Golfvertíðin er hafin hjá Golfklúbbi Ísafjarðar og eru tvö mót á dagskrá á næstu dögum.

Í dag kl 18:30 fer Hamraborgarmótaröðin af stað en hún er 9 holu punktamót sem haldið er hvern fimmtudag.

Á laugardaginn fer síðan Sjómannadagsmót Íssins fram. Spilað er með Texas Scramble fyrirkomulagi og hefst mótið kl 10:00.

Samkvæmt frétt á vefsíðu Golfklúbbsins er enn vorbragur á golfvellinum í Tungudal en þó sé hann samt í ótrúlega góðu standi miðað við hversu stutt er síðan hann var allur undir snjó.

Varðmenn valdsins

Það ætti ekki að dyljast neinum hvern hin svokallaða valdastétt styður í komandi forsetakosningum.

Frambjóðandi sá er vissulega frambærilegur og kemur vel fyrir. Hins vegar vill svo til, að þessi frambjóðandi var forsætisráðherra í fyrradag! Og nú vill ráðherrann komast á forsetastól með stuðningi valdsmanna og „fyrrum“ ríkisstjórnar og eftir fáeinar vikur stimpla lagafrumvörp sömu ríkisstjórnar. Eftir einhverja mánuði verður það svo hlutverk frambjóðandans að hlutast til um næstu stjórnarmyndun. Orðið „armslengd“ kemur ekki fyrst upp í hugann í þessu samhengi.

Svo mjög er valdsmönnum hugað um að tryggja kjör síns frambjóðanda, að til starfa voru kallaðir dráttarklárar „Flokksvélarinnar“, sem leggja hart að flokkshollum að styðja „þeirra kandídat“, svo undarlegt sem það kann að virðast, með hliðsjón af pólitískri grunngerð frambjóðandans.

Þessu hefur síðan fylgt ófrægingar- og smjörklípuherferð í miðlum Morgunblaðsins, gegn frambjóðendum sem valdsmönnum þykja vera það frakkir að ryðjast fram á sviðið og ætla sér að „stela völdum“ eða heiðri frá „establishmentinu“.

Samhliða því heldur Morgunblaðið upp vörnum fyrir frambjóðanda sinn, sem er sagður hafa mátt þola ómaklega gagnrýni. Mögulega er eitthvað til í því. Hins vegar þarf ekki djúpt innsæi til að sjá í hendi sér að slík gagnrýni er varla meiri en við mátti búast fyrir frambjóðanda í slíkri stöðu. Gagnrýnin á líklega helst rætur hjá fólki sem áður studdi frambjóðandann og kaus viðeigandi flokk, en finnst það nú svikið og prinsippin horfin.

Óþægur ljár í þúfu?

Sá frambjóðandi sem valdsmenn reyna einkum að sverta með atbeina Morgunblaðsins er hin skelegga Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri. Í fljótu bragði verður ekki auðséð hvað það er sem valdsmenn óttast svo mjög við framboð hennar, því völd forseta eru takmörkuð.

En forseti hefur mikilvæga rödd, og vera má að valdsmenn séu uggandi yfir því, að nái Halla Hrund kjöri, þá kunni hún að enduróma rödd almennings í vissum málaflokkum, ekki síst í orku- og auðlindamálum, sem eru henni hugleikin.

Kannski óttast valdsmenn þá staðreynd, að hún hefur tjáð sig um að ekki væri óeðlilegt að almenningur og smærri fyrirtæki, ekki síst á landsbyggðinni, hefðu forgang þegar kemur að raforkudreifingu, í stað þess að mæta afgangi og stóriðnaður sitji í öndvegi. Varla kemur á óvart að talsmenn iðnjöfra eru mótfallnir slíkum hugmyndum.

Halla Hrund hefur einnig látið í það skína, að hún sé ekki hrifin af því að heilu eða hálfu hrepparnir verði þaktir með vindmyllum og telur ráðlegt að fara hægt í slíka uppbyggingu. Auk þess hefur hún viðrað áhyggjur af lagareldi og langtímaleyfisveitingum því tengdu, svo eitthvað sé nefnt sem valdsmenn kynnu að óttast. 

Valdsmenn hafa kannski áhyggjur af því að Halla Hrund kunni að vera mótfallin frekari virkjunum og hafa vænt Orkustofnun um að tefja fyrir framgangi virkjunarmála. Staðreyndin er þó sú, að það eru kærumál sem valdið hafa töfum, en ekki Orkustofnun.

Halla Hrund er hreint ekki mótfallin virkjanaáformum. Hún hefur hins vegar sagt, að við nýtingu auðlinda þurfi fyrst og fremst að horfa til sjálfbærni, hvort sem um er að ræða sjávarútveg, fallvötn eða landið sjálft, sem er jú ein helsta auðlind okkar nú á tímum.

Eins hefur hún bent á langtímahættu sem kann að fylgja sölu jarða, sér í lagi til erlendra aðila, þar sem því fylgi jafnframt áhætta á framsali meðfylgjandi auðlinda úr landi, m.a. vatni, vindi og varma.

Vera má að valdsmenn hugsi sér gott til glóðar með sölu á Landsvirkjun í framtíðinni og þar með virkjunum okkar, en Halla Hrund hefur nefnt það sem klárt dæmi um mál sem bera ætti undir þjóðina.

Verðugur fulltrúi almennings

Halla Hrund heldur göngu sinni áfram vonglöð og ótrauð, sem fulltrúi almennings, en ekki valdastéttar.

Mín skoðun er sú, að þessu sérstaka embætti eigi helst að gegna einstaklingur sem ekki er brenndur af argaþrasi pólitískrar fortíðar, hvað þá nútíðar, með fullri virðingu fyrir öllum þeim sem hafa gefið sig að stjórnmálum.

Ég treysti Höllu Hrund fyllilega til að taka erfiðar ákvarðanir, ef til þess kæmi, sér í lagi ef þær varða fullveldi, fjöregg okkar og framtíðarmöguleika.

Hún er vel gerð, hefur einkar góða nærveru og á auðvelt með að hrífa fólk með sér. Hún er kannski ekki jafn slípaður „órator“ og sumir frambjóðenda, sem staðið hafa í ræðupúltum í áratugi. Hún er þó að styrkjast í þeirri íþrótt dag frá degi.

Orsök uppgangs Höllu Hrundar undanfarið er öðru fremur sú, að fólk hefur skynjað að þar er á ferðinni hæf, hugdjörf, eljusöm og viðfelldin manneskja, með jákvætt erindi, hreinan skjöld og bjarta áru, kona sem er hugað um auðlindir okkar og vill af einlægni gera löndum sínum gagn með jákvæðum og uppbyggilegum boðskap og gjörðum.

Ég veit úr hverju hún er gerð og þess vegna styð ég hana heilshugar og skora á kjósendur úr öllum stéttum að veita henni brautargengi.

Fólkið kýs forsetann, en ekki valdastéttin!

Sandra B. Franks

Höfundur er stjórnmálafræðingur

Fisktækniskólinn: átta Vestfirðingar útskrifast

Fimm af átta vestfrisku nemendunum voru viðstaddir útskriftina. Mynd: Fisktækniskólinn.

Á mánudaginn voru útskrifaðir 30 nemendur úr Fisktækniskóla Íslands, þar af luku 11 prófi af Fisktæknibraut, þ.e. tveggja ára grunnnámi.

Frá Vestfjörðum útskrifuðust átta nemendur af námsbrautinni úr fisktækni, gæðastjórn og fiskeldi.

Fisktækniskólinn er fjölþjóðlegur og þjónar nemendum um landið allt að vanda. Nemendur komu víða að á þessu skólaári s.s. frá Sómalíu. Þá var hópur pólskra nemenda kom frá ýmsum fyrirtækjum, einnig var talsverður fjöldi nemenda sem sat Fiskeldistækninámið í fjarnámi frá Vestfjörðum.

Á skólaárinu í heild hafa 104 nemendur útskrifast frá Fisktækniskóla Íslands frá hausti fram á vor, allt nemendur sem eru klárir til að leggja sitt af mörkum á hátæknilegum vinnumarkaði á sínu sviði innan bláa hagkerfisins.

Heimabyggð skólans er í Grindavík en útskriftin fór fram í húsnæði sjávarklasans í Reykjavík.

Ísafjarðarbær: mótmælir ekki tillögum á Alþingi um bann við sjókvíaeldi

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri.

Arna Lára Jónsdóttir bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ segir að bæjarráð hafi ákveðið að gera ekki umsögn um breytingartillögu frá Gísla Rafni Ólafssyni (P) þar sem lagt til að sjókvíaeldi verði bannað. Að sögn Örnu vildi bæjarráðið einblína á frumvarp matvælaráðherra til laga um lagareldi og sendi inn umsögn um það en ekki breytingartillöguna.

Sjö þingmenn hafa að auki lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um bann við fiskeldi í opnum sjókvíum og sendi Ísafjarðarbær ekki inn umsögn um það mál.

Arna Lára var þá innt eftir því hvað þessi afstaða Ísafjarðarbæjar þýddi.

„Okkar mat var að þessi breytingartillaga hafi ekki verið sett fram af fullri alvöru heldur mikið frekar til að slá pólitískar keilur og rímar hreint ekki við þann veruleika sem við búum í. Ísafjarðarbær er fylgjandi sjálfbærri uppbyggingu fiskeldis sem byggir menntun og rannsóknum. Greinin hefur haft gríðarlega jákvæð áhrif þróun samfélags og byggðar á Vestfjörðum. Það er ekki mál sem kjörnir fulltrúar eiga að umgangast með þessum hætti.“

Mirjam Maekalle opnar sýningu í bryggjusal Edinborgarhússins

Slunkaríki býður gesti velkomna á opnun einkasýningar Mirjam Maekalle; Litli eistinn sem gat (part I). Opnun verður á föstudaginn, 31. maí kl.17.00 í bryggjusal Edinborgarhússins, Ísafirði. Listamaðurinn verður viðstödd opnunina og býður upp á léttar veitingar. Hún verður einnig með sérstakar leiðsagnir á opnunarhelginni sem auglýstar verða betur síðar.

Á sýningunni Litli eistinn sem gat (Part I) vinnur Mirjam Maekalle með ljósmyndir frá æsku sinni í Eistlandi áður en hún flutti með fjölskyldu sinni til Íslands. Lands sem var ekki hluti af tilveru hennar fyrr en árið 2002. Í gegnum myndirnar er fjallað um einstakling í mótun og sambönd hennar við sýna nánustu. Hugað er að sjálfsmynd og breytingum persónuleika þess sem skiptir um umhverfi.

Mirjam Maekalle er myndlistarmaður fædd í Eistlandi og uppalin á Ísafirði en býr í dag í Reykjavík. Hún útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2023, einnig hefur hún lokið BA gráðu í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands en þá menntun nýtir hún sér vel í myndlistinni þar sem umfjöllunarefnið gjarnan mannlegt ástand.

Embla Dögg Bachmann hefur umsjón með Reykhóladögum í sumar

Reykhóladagar verða haldnir helgina 15.-18. ágúst 2024.

Að þessu sinni verður það Embla Dögg Bachmann sem sér um utanumhald og framkvæmd á hátíðinni.

Embla hefur fullt af hugmyndum og er mjög spennt fyrir þessu verkefni en hana langar líka að heyra raddir íbúa.

Því eru hugmyndaríkir íbúar hvattir til að hafa samband við hana með tillögur og uppástungur um dagskrárliði.

Embla stefnir á að birta drög að dagskrá upp úr miðjum júlí. Sum atriði þarfnast nokkurs undirbúnings og er það ástæða þess að svo tímanlega er byrjað að kynna hátíðina.

Lofað er góðri skemmtun fyrir allan aldur.

Kiwanisklúbburinn Básar gefa reiðhjólahjálma

Síðastliðinn föstudag komu Kristján Andri Guðjónsson og Marinó Arnórsson frá Kiwanisklúbbnum Básum færandi hendi og afhentu 1.bekkingum í Grunnskólanum á Ísafirði reiðhjólahjálma að gjöf.

Markmið hjálmaverkefnis Kiwanis er að stuðla að öryggi barna í umferðinni og nýtast hjálmarnir vel við notkun reiðhjóla, hlaupahjóla, hjólabretta og hjólaskauta.

Það voru glaðir krakkar sem fóru heim með hjálmana sína og vonandi muna foreldrar eftir því að merkja þá vel.

Togarinn Stefnir ÍS seldur til Grænhöfðaeyja

Stefnir ÍS í Ísafjarðarhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Skuttogarinn Stefnir ÍS 28 hefur verið seldur til Cabo Verde og lýkur þar með nær hálfrar aldar vestfirskri útgerð skipsins.  Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri HG staðfestir það ívið Bæjarins besta.

Fulltrúar kaupenda eru komnir til Ísafjarðar og vinna við að gera skipið klárt fyrir brottför.

Togarinn hét áður Gyllir ÍS 261 og var smíðaður í Flekkefjord í Noregi fyrir Útgerðarfélag Flateyrar hf. og kom til Flateyrar 16. mars 1976.  Árið 1993 komst skipið í eigu Íshúsfélags Ísfirðinga hf, sem sameinaðist árið 2000  Hraðfrystihúsinu-Gunnvör hf. 

Einar Valur segir að útgerð skipsins hafi alla  tíð gengið vel og giftusamlega og það hafi lagt mikið til vestfirsks  atvinnulífs.

Nýjustu fréttir