Laugardagur 7. september 2024
Síða 81

Vikuviðtalið: Magnús Bjarnason

Magnús Þór Bjarnason heiti ég og er fæddur á Ísafirði árið 1975 og ól æskuár mín að mestu leyti  hér á Ísafirði. Til að klára ættfræðina þá er móðir mín Rósa Magnúsdóttir frá Ísafirði og faðir minn er Bjarni Steingrímsson frá Reyðarfirði, en þau skildu þegar ég var ungabarn. Stjúpfaðir minn er svo Guðbjartur Jónsson frá Ísafirði. Konan mín er Auður Dóra Franklín frá Akureyri. Við eigum þrjár dætur saman þær Rósu Maríu (17 ára) , Sylvíu Rán (15 ára) og Katla Rut (8 ára). Þrátt fyrir tengingar víðsvegar um landið, þá kalla ég mig nú Vest- og Ísfirðing. En í raun er eina skilyrðið til að teljast Ísfirðingur er að vilja það.

Frá Grunnskóla Ísafjarðar lá leiðinn í framhaldsnám í Fjölbraut í Breiðholti. Í skólafríum var svo unnið í Norðurtanganum, þeim ágæta vinnustað sem kenndi manni svo ótrúlega margt. Eftir stúdentspróf, lá leiðin í BS nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Þegar því námi lauk hafði ég tekið saman við Auði og við fórum saman til Svíþjóðar í nám, hún í lífeindafræði og ég í alþjóðaviðskiptum við Háskólann í Gautaborg.

Starfsferillinn hefur verið fjölbreyttur og ég hef komið víða við, nokkuð sem kemur sér mjög vel við núverandi starf mitt hjá Vestfjarðastofu, þar sem ég starfa sem verkefnastjóri við nýsköpun og fjárfestingar. Það eru spennandi tímar runnir í garð á Vestfjörðum, eftir tíma stöðnunar. Við erum að sjá kröftugan vöxt um Vestfirði í kjölfarið á sjókvíaeldi og vaxandi ferðamennsku. Það er í raun athyglisvert að sjá hvernig þessar tvær greinar eru að vaxa samhliða. Vestfjarðastofa er vinnustaður með fjölbreyttum og spennandi verkefnum.  Að sjá samfélaginu, frumkvöðlum og fyrirtækjum ganga vel, er nokkuð sem gleður mjög.

Þegar ég flutti aftur til Ísafjarða árið 2013 þá tilkynnti Muggi mér það að samfélag eins og Ísafjörður virkar ekki nema allir taki þátt í því. Ég tók þetta til mín og hef reynt að vera sem virkastur í tómstundastarfi bæjarins. Fyrst sem stjórnarmaður og gjaldkeri blakfélagsinns, en ég hef tekið þátt í 8 öldungarmótum í blaki, því þrátt fyrir takmarkaða getu þá er þetta ótrúlega skemmtilegt sport. Svo er ég gjaldkeri Sæfara, en kayakróður er sport sem fer vel með bakið og jafnvægið, ásamt því hvað nálægðin við sjóinn er hreinsandi. Nú seinast sem meðstjórnandi í HSV til næstu tveggja ára, en framundan er mikið starf hjá stjórn HSV að móta starf sitt án framkvæmdarstjóra.

Það sem fjölskyldunni þykir skemmtilegast að gera saman, eru kósý kvöld og svo að ferðast saman. Við höfum verið dugleg að ferðast um landið og erlendis að heimsækja ættingja og vini. Þegar stelpurnar eldast þá mun þessum stundum fækka og um að gera sem mest að því meðan færi er.

Vesturbyggð og Tálknafjörður: Gunnþórunn Bender forseti bæjarstjórnar

Ráðhúsið í Vesturbyggð.

Gunnþórunn Bender frá N-lista var í gær kjörinn forseti bæjarstjórnar hins nýja sveitarfélags Vesturbyggðar og Tálknafjarðar. Tryggvi Baldur Bjarnason (N) var kosinn fyrsti varaforseti bæjarstjórnar og Friðbjörgu Matthíasdóttur (D) annar varaforseti.

Í bæjarráð voru kosin Páll Vilhjálmsson og Jenný Lára Magnadóttir frá N lista og Friðbjörg Matthíasdóttir frá D lista og verður Páll formaður bæjarráðs.

Þá var kosið í þrjár fastanefndir, skipulags- og framkvæmdaráð, umhverfis- og loftlagsráð og fjölskylduráð. Formenn verða Tryggvi Baldur Bjarnason (N) , Freyja Ragnarsdóttir Pedersen (D) og Þórkatla Soffía Ólafsdóttir (N) í sömu röð og nefnirnar voru taldar upp.

Mest hækkun fasteignamats á Vestfjörðum

Hækkun fasteignamats allra eigna sundurliðuð eftir landssvæðum.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur birt nýtt fasteignamat sem gildir fyrir 2025. Það er unnið upp úr gögnum um fasteignaviðskipti á tímabilinu febr 2023 til febrúarloka 2024.

Samkvæmt þvi hækkar fasteignamat allra eigna um 4,3% á landinu öllu. Hækkunin er mismikil eftir landssvæðum og vekur athygli að mest er hækkunin á Vestfjörðum, en þar er hún 11%. Hins vegar er hækkunin aðeins 2,3% á höfuðborgarsvæðinu.

Þegar litið er á íbúðaeignir sérstaklega þá er hækkunin einnig mest á Vestfjörðum eða 11,5% en minnst á höfuðborgarsvæðinu, þar sem hún var aðeins 2,1%.

Hækkun fasteignamats íbúðarhúsnæðis eftir landshlutum.

Hækkunin er mismikil eftir sveitarfélögum á Vestfjörðum. Mest er hún í Tálknafirði eða 20% og næstmest 12,9% í Vesturbyggð. Í Bolungavík er hækkunin 12% og 11,5% í Ísafjarðarbæ.

Athygli vekur að í öllum þessum fjórum sveitarfélögum er laxeldi stór þáttur í atvinnustarfseminni.

Innan Ísafjarðarbæjar er langhæst hækkun á Þingeyri í sérbýli eða 36,2% og svo 29,2% fyrir sérbýli í Hnífsdal. Hækkunin á Suðureyri er 19,4% og á Flateyri 18,2% einnig fyrir sérbýli. Á Ísafirði í eldri byggð eins og það heitir hjá HMS er hækkunin á sérbýli 6,5% og 6,4% í nýrri byggð. Í fjölbýli er hækkunin 16,3% í eldri byggð og 7,5% í nýrri byggð.

Sjö umsóknir um Byggðastofnunarkvótann

Alls bárust sjö umsóknir um Byggðastofnunarkvótann í fimm vestfirskum byggðarlögum sem auglýstur var í byrjun maí.

Ein umsókn barst um kvótann á Þingeyri, Suðureyri, Drangsnesi og Hólmavík en þrjár umsóknir eru um kvótann á Tálknafirði.

Samtals er um allt að 2.200 þorskígildistonn að ræða, 500 tonn til Þingeyrar og einnig til Suðureyrar. Til Tálknafjarðar fara allt að 400 þorksígildistonn og 300 tonn til Drangsness og 500 tonn til Hólmavíkur.

Í tilkynningu frá Byggðastofnun segir að yfirferð umsókna sé hafin og að mikilvægt sé að ljúka afgreiðslu þeirra og samningagerð í tíma áður en nýtt fiskveiðiár hefst og núgildandi samningar renna út.  Nýir samningar munu gilda um fiskveiðiárin 2024/2025, 2025/2026, 2026/2027, 2027/2028, 2028/2029 og 2029/2030.

Byggðastofnun ráðstafar einnig 2.050 þorskígildistonnum til sex byggðarlaga á Norður- og Austurlandi.

61 árs leit ber loksins árangur !

Á myndinnin eru talið frá vinstri: Halldór V. Magnússon, framkvæmdastjóri veitusviðs Elías Jónatansson, orkubússtjóri Sölvi R. Sólbergsson, framkvæmdastjóri orkusviðs Elena Dís Víðisdóttir, verkefnastjóri á orkusviði

Jarðhitaleit hefur staðið yfir með löngum hléum í Skutulsfirði allt frá árinu 1963, en sagan verður ekki öll rakin hér.  Fljótlega beindist athyglin að Tungudal vegna hærri hitastiguls og volgs vatnskerfis sem þar fannst.

Á árunum 1997 og 1998 voru hitastigulsholur boraðar víða, en niðurstöður bentu til að vænlegast væri að leita áfram í Tungudal.  Djúpar holur voru boraðar árin 1975-1977, 1999 og 2008 án þess að árangur næðist í leitinni, en vonir stóðu til að finna jafnvel yfir um og yfir 65°C heitt vatn.

Leitarátak frá 2018
Árið 2018 fékk Orkubúið svo ÍSOR til að vinna áætlun um leitarátak á Vestfjörðum í grennd við rafkyntar hitaveitur félagsins.  Búið er að leita í Bolungarvík og á Flateyri, án árangurs, en í Súgandafirði fannst aukið vatnsmagn að Laugum, þar sem fyrir var jarðhitahola í nýtingu.  Á Patreksfirði og á Ísafirði hefur leit staðið yfir síðasta árið og hafa þegar fundist 25 l/sek af 25°C heitu vatni á Patreksfirði.  Fyrir hönd Orkubúsins hefur Sölvi R. Sólbergsson framkvæmdastjóri orkusviðs borið hitann og þungann af skipulagningu jarðhitaleitarinnar í gegnum árin og gerir enn.  Hann er því kampakátur þessa dagana eins og reyndar starfsmenn Orkubúsins almennt.

Leitin ber árangur
Sunnudaginn 26. maí urðu svo þau stóru tíðindi að við borun rannsóknarholu í Tungudal þveraði borinn heita vatnsæð á 482 m dýpi og reyndist hitastigið vera um 58°C.

Jafnvel þótt ekki sé búið að staðfesta nægilegt magn af heitu vatni fyrir Ísafjörð þá er nú staðfest að a.m.k. 58°C heitt vatn finnst í Tungudal.  Fyrsta mat hefur gefið til kynna að um sé að ræða a.m.k. 10 l/sek af 58 °C heitu vatni, en vonir standa til að magnið sé meira. 

Eftir 61 árs leit með hléum, þá eru þetta frábærar fréttir.  Holan sem um ræðir nefnist TD-9 og var upphaflega ætlunin að hún færi á 700 m dýpi.  Nú stendur yfir víkkun á holunni, en næst verður hún fóðruð niður á tæpa 300 m, til að draga úr innrennsli kaldara vatns í holuna og undirbúa nýtingu hennar sem vinnsluholu.  Því næst verður holan dýpkuð niður á allt að 700 m dýpi.  Þá verður lagt mat á hversu mikið vatnsmagn er hugsanlegt að nýta úr holunni og hitastig við frekari dælingu mælt. 

Verkefnin framundan
Orkubúið hefur þegar hafið vinnu við að skoða mögulegar sviðsmyndir vegna nýtingar jarðhitans, en þær munu m.a. byggja á niðurstöðum hitastigs-,  gæða- og magnmælinga sem gerðar verða á næstu vikum.  Þeirra mælinga er beðið með mikilli eftirvæntingu.  Mikil framþróun hefur orðið á síðustu árum í nýtingu á heitu vatni af lægra hitastigi, þ.e. vatni sem er innan við 50 – 60°C heitt, sem gjarnan er þá nýtt með varmadælum.  Sú fjárfesting sem til er fyrir í tvöföldum veitukerfum og dælukerfum rafkyntra hitaveitna Orkubúsins getur spilað mikilvægt hlutverk í að hægt sé að nýta jarðhitann á hagkvæman hátt.

Þegar niðurstöður um afköst holunnar liggja fyrir fer í hönd valkostagreining á búnaði, hönnunarvinna, útreikningur á hagkvæmni og áætlanagerð um mögulegan framgang verkefnisins. 

Ísafirði, 30. maí 2024
Elías Jónatansson, orkubússtjóri

Framtíðarfortíð

Framtíðarfortíð Listasafns Íslands og Listasafns Ísafjarðar er fyrsta sýningin í röð sýninga sem marka samvinnu Listasafns Íslands og sýningarstaða á landsbyggðinni.

Sýningin er haldin til að fagna 80 ára lýðveldisafmæli þjóðarinnar.

Valin hafa verið verk úr safneign Listasafns Íslands eftir listamenn sem velta fyrir sér hugtökum eins og sjálfstæði og sjálfsmynd þjóðar og hvað það þýðir að vera þjóð. Er þjóðin sú sama nú og hún var fyrir 80 árum? Breytist hún eins og manneskjan breytist á æviskeiði sínu?

Sýningin verður opnuð á þjóðhátíðardaginn, afmælisdegi Jóns Sigurðssonar sem fæddist á Hrafnseyri við Arnarfjörð, sem tilheyrir sveitarfélaginu Ísafjarðarbæ.

Viðurkenningar Héraðssambands Vestfirðinga

Á ársþingi HSV sem haldið var fyrr í þessum mánuði voru þremur einstaklingum veittar heiðursviðurkenningar HSV. 

Tvö gullmerki og eitt silfurmerki voru veitt einstaklingum sem að hafa unnið ötult starf í þágu íþróttahreyfingarinnar

Gullmerki hlutu Þórunn Pálsdóttir sem hefur átt langa samleið með Skíðafélagi Ísfirðinga og hefur hún komið víða við í starfi félagsins. Hún byrjaði sem iðkandi í alpagreinum og keppti fyrir hönd félagsins á fjölmörgum mótum með góðum árangri. Síðar kom hún sterk inn í starf félagsins sem foreldri og fór meðal annars í æfinga- og keppnisferðir sem farastjóri. Einnig fékk gullmerki Jóhanna Oddsdóttir sem hefur verið viðloðandi skíðaíþróttina allt frá blautu barnsbeini enda fædd inn í eina þekktustu skíðaætt Ísfirðinga. Grænagarðsættina. Hún hefur um áratugaskeið verið eina af driffjöðrunum í starfi Skíðafélags Ísfirðinga.

Silfurmerki HSV fékk Leifur Bremnes sem hefur unnið gífurlega mikið sjálfboðaliðastarf hjá skotíþróttafélagi Ísafjarðar. Núna þegar verið er að byggja upp aðstöðu hefur Leifur notað allan sinn frítíma í að vinna að því verkefni.

Hvar átt þú að kjósa?

Einstaklingar geta kannað kjörgengi og hvar þeir eiga að kjósa í komandi forsetakosningum laugardaginn 1. júní með rafrænum hætti.

Ekki er flett upp í þjóðskrá heldur er flett upp í kjörskrárstofni. Að kjördegi loknum verður lokað fyrir aðgang að uppflettingunni.

Þegar slegin er inn kennitala kemur upp nafn, lögheimili og sveitarfélag. Einnig birtast upplýsingar um kjörstað og kjördeild.

Hvar á ég að kjósa?

Flutningur lögheimils eftir viðmiðunardag 24. apríl, breytir ekki skráningu á kjörskrá.

Bolungavík: sjómannadagshátíðahöldin hefjast á morgun

Þriggja daga fjölbreytt dagskrá verður í Bolungavík um sjómannadagshelgina. Hátíðahöldin hefjast á morgun, föstudag með dorgveiðikeppni og tónlistarhátíðinni Þorskurinn 2024 sem verður í Einarshúsi. Annað kvöld verður Vestfjarðamótið í sjómanni á Verbúðinni og má búast við að þar verði tekist hraustlega á.

Á laugardaginn verða helstu skemmtiatriðin. Dagurinn hefst með hátíðasiglingu út á Djúpið. Eftir hádegið verður sjómannadagskrá björgunarsveitarinnar Ernis við höfnina með fjölbreyttum atriðum og hátíðarkvöldverður í Félagsheimilinu um kvöldið. Dagskránni lýkur með sjómannadagsballi í Félagsheimilinu með hljómsveitinni Óðríki.

Á sunnudaginn, sjálfan sjómannadaginn verður hópganga og hátíðarmessa í Hólskirkju og að guðsþjónustunni lokinni verður gengið í Grundarhólskirkjugarð og lagðir blómsveigar að minnismerkjum sjómanna í garðinum.

Slysavarnadeildin Ásgerður verður með kaffisamsæti í boði Jakobs Valgeirs ehf í félagsheimili Bolungarvíkur.

sjómannadagurinn Bolungarvík

Ísafjörður: Skólaslit Tónlistarskólans 2024 í gær

Bergþór Pálsson við skólaslitin.

Tónlistarskóla Ísafjarðar var slitið við hátíðlega athöfn í Ísafjarðarkirkju í dag. Bergþór Pálsson skólastjóri sagði það hafa verið mikið gæfuspor að gerast Ísfirðingur fyrir fjórum árum, móttökurnar og kynnin af þessu kraftmikla og fallega samfélagi hefðu verið einstaklega gefandi og þeir Albert færu því héðan ekki aðeins með þakklæti fyrir vináttuna í huga, heldur líka söknuð í brjósti. Þeir væru þó stoltir af því að skila góðu búi til nýs skólastjóra. Þá fór hann yfir nokkur atriði sem upp úr stæðu í vetur, hádegistónleikana með fyrrverandi nemendum skólans, Heimilistóna, ferð Skólakórsins á kóramót í Danmörku og síðast en ekki síst uppsetningu á Fiðlaranum á þakinu ásamt Litla leikklúbbnum.

Viðurkenningar voru veittar fyrir góða ástundun í útibúum, grunnpróf í tónfræði og hljóðfæraleik, Ísfirðingaverðlaunin hlaut Guðrún Hrafnhildur Steinþórsdóttir, en hún tók glæsilegt miðpróf nú í vor, spilar bæði á flautu og píanó, spilaði með glæsibrag á Nótunni á Akranesi og er öflugur liðsmaður lúðrasveitarinnar. Aðalverðlaun HG hlaut Matilda Mäekalle, en hún tekur framhaldspróf á næsta ári, spilar á píanó, trompet, bassa, spilaði sömuleiðis með glæsibrag á Nótunni á Akranesi, einnig spilaði hún á hljómborð í Fiðlaranum á þakinu.

Beáta Joó hlaut heiðursverðlaun Tónlistarskólans fyrir störf sín. MEIRA HÉR.

Ýmis tónlistaratriði voru á dagskránni. Skólalúðrasveitin hóf hátíðina með þema úr Jesus Christ Superstar, Guðrún Hrafnhildur Steinþórsdóttir, handhafi Ísfirðingaverðlaunanna, lék Serenöðu eftir Moritz Moszkowski, Matilda Mäekalle, handhafi aðalverðlaunanna sem veitt eru af HG, lék Rustle of Spring eftir Christian Sinding. Hátíðargestir sungu saman Ó blessuð vertu sumarsól. Í lokin söng Bergþór My Way með Skólalúðrasveitinni.

Myndirnar tók Haukur Sigurðsson.

Beáta Joó hlaut heiðursverðlaun Tónlistarskólans fyrir störf sín.

Matilda Mäekalle, handhafi aðalverðlaunanna sem veitt eru af HG, lék Rustle of Spring eftir Christian Sinding.

Nýjustu fréttir