Laugardagur 7. september 2024
Síða 80

Ísafjörður: 59 undirskriftir gegn íbúðablokk á Sindragötu 4a

Lydía Ósk Óskarsdóttir afhendir Örnu Láru Jónsdóttur bæjarstjóra undirskriftarlistann. Mynd: aðsend.

Tæplega 60 manns skrifuðu undir lista þar sem mótmælt er byggingu nýrrar 10,5 m hárrar íbúðarblokkar á byggingarreitnum við Sindragötu 4a á Ísafirði. Skipulags- og mannvirkjanefnd segir að byggingaráformin hafi verið samþykkt á 75. afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 14. maí 2024.

Mótmælendur skora á bæjaryfirvöld og verktakann að endurskoða áform um hæð og útlit byggingarinnar þannig að hún sé í samræmi við útlit húsanna við Aðalstræti. Minnt er á að gamli bærinn á Ísafirði sé verndarsvæði í byggð og að það yrði mikil mistök ef af byggingunni yrði.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar féll frá  í mars sl. grenndarkynningu á fyrirhugaðri nýbyggingu á lóðinni Sindragötu 4A, Ísafirði, þar sem nýjustu uppdrættir uppfylla alla skilmála núgildandi deiliskipulags fyrir lóðina.

Skipulags- og mannvirkjanefnd afgreiddi undirskriftasöfnunina með því að benda á að hægt er að kæra útgáfu byggingarleyfis til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Pósturinn: 10 ný póstbox í dag – 10 posthúsum lokað

Íslandspóstur ohf., sem er veitandi alþjónustu með ákvörðun Póst- og Fjarskiptastofnunar, mun gera breytingar á afgreiðsluneti sínu á morgun, 1. júní. Breytingarnar felast aðallega í því að afgreiðslustöðum í fasteign, gömlu pósthúsunum, verður fækkað en afgreiðsla í póstbox og með bifreið verður aukin.  Pósthúsin sem um ræðir eru á Hvammstanga, Siglufirði, Dalvík, Ólafsfirði, Búðardal, Grundarfirði, Fáskrúðsfirði, Eskifirði, Breiðdalsvík og Neskaupstað. 

Pósturinn segir í tilkynningu að í næsta mánuði verði póstboxin orðin alls 100 talsins og séu þau vinsælasti kosturinn hjá Póstinum í dag enda þróun afgreiðslulausna í póstþjónustu verið mjög hröð á síðustu árum.  

Búið er að setja upp póstbox á öllum þeim tíu stöðum sem loka pósthúsum á morgun en nýlega bættust við póstbox í Búðardal, Súðavík og á Suðureyri, Grundarfirði, Hvammstanga, Siglufirði, Dalvík og Ólafsfirði. Þá eru þrjú ný póstbox komin upp á Austurlandi, á Breiðdalsvík, Djúpavogi og Eskifirði og er unnið að því að finna stað undir póstbox á Stöðvarfirði sem áætlað er að opni í haust. Þá hefur póstboxið í Neskaupstað verið stækkað vegna mikillar notkunar. 

Byggðastofnun sinnir stjórnsýslu póstmála og mun fylgjast með þróun póstmarkaðarins. Verkefnin samkvæmt lögunum eru margvísleg, stofnunin tekur ákvarðanir er lúta að framkvæmd alþjónustu í pósti, hefur eftirlit með gjaldskrám, sinnir ráðgjöf við ráðuneyti og önnur stjórnvöld vegna póstmála og fleira. 

Eitt af meginmarkmiðum laga um póstþjónustu er að tryggja landsmönnum hagkvæma og skilvirka póstþjónustu segir í tilkynningu frá Byggðastofnun. Áhersla var lögð á sveigjanleika alþjónustuveitanda til þess að laga sína þjónustu að þörfum markaðarins og neytenda hverju sinni, meðal annars með því að fækka dreifingardögum og fjölga kostum við afhendingar.

Byggðastofnun hefur ekki gert athugasemdir við breytingar á þjónustuneti Íslandspóst sem fela í sér að pósthúsum, oft og tíðum með takmarkaðan afgreiðslutíma, er lokað og þjónustan færð yfir í afgreiðslu með bifreið og/eða í póstbox. 

Harðarmenn halda á Hvolsvöll

Hörður frá Ísafirði mætir Knattspyrnufélagi Rangæinga á SS-vellinum á Hvolsvelli kl 12:00 í dag í 5. deild karla í fótbolta.

Harðarmenn hafa byrjað tímabilið vel en eftir tap í fyrsta leik fylgdu tveir 5-0 sigrar í röð á Reyni Hellisandi og Stokkseyri.

KFR hefur einnig byrjað vel og er jafnt Herði í 2-3. sæti einnig með tvo sigra í fyrstu þremur leikjunum.

Séra Árni GK 135

Séra Árni GK 135 ex Birta Dís GK 135. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2024.

Séra Árni GK 135 var smíðaður hjá Trefjum árið 2000 og hét upphaflega Birta Dís VE 35.

Síðar varð Birta Dís ÍS 135 og enn síðar GK 135.

Það var svo nú á vormánuðum að báturinn fékk nafnið Séra Árni en var áfram GK 135.

Báturinn er gerður út af samnefndu fyrirtæki og með heimahöfn í Sandgerði.

Af vefsíðunni Skipamyndir.com

Nýr framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands

Nýkjörin stjórn Bændasamtaka Íslands hefur gengið frá ráðningu Margrétar Ágústu Sigurðardóttur í starf framkvæmdastjóra samtakanna frá og með 1. ágúst næstkomandi. Tekur hún við keflinu af Örvari Þór Ólafssyni, sem tók við því hlutverki tímabundið í byrjun apríl sl. samhliða störfum sínum sem fjármálastjóri samtakanna. Hagvangur annaðist ráðningarferlið og sóttu 28 manns um stöðuna.

Margrét Ágústa er lögfræðingur að mennt. Hún er með meistaragráðu úr lagadeild Háskóla Íslands og LL.M gráðu í evrópskum og alþjóðlegum skattarétti frá Háskólanum í Lundi. Margrét hefur starfað síðustu 6 ár hjá PwC á skatta- og lögfræðisviði en þar áður um árabil hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og yfirskattanefnd. Þá er Margrét Ágústa umsjónarkennari alþjóðlegs skattaréttar við Háskólann á Bifröst.

Stækkun Mjólkárvirkjunar ekki háð mati á umhverfisáhrifum

Skipulagsstofnun hefur tekið ákvörðun um að stækkun Mjólkárvirkjunar, Ísafjarðarbæ, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 111/2021.

Fyrirhuguð framkvæmd felst m.a. í hækkun núverandi stíflu við Tangavatn en vatnsmiðlun úr Tangavatni hófst árið 1975 þegar 8,6 m há stífla var byggð í afrennsli vatnsins. Hækka á núverandi stíflu við vatnið um þrjá metra og auka þannig miðlunargetu þess.

Stíflan við Tangavatn er með 60m löngu steyptu yfirfalli en lengd hennar er um 100 m. Eftir breytingu verður yfirfallið um 100 m langt og lengd stíflu um 230 m.

Einnig er gert ráð fyrir að virkja afrennsli Tangavatns með allt að 0,5 MW virkjun við Hólmavatn sem er nú þegar nýtt sem uppistöðulón. Lögð verður um 700 m löng niðurgrafin þrýstipípa frá Tangavatni og að fyrirhuguðu stöðvarhúsi við Hólmavatn. Virkjað rennsliverður allt að 1,0 m3/s.

Með framkvæmdinni næst betri nýting á vatnasviði Mjólkár.

Sex nöfn koma til greina á nýtt sveitarfélag

Bíldudalur. Mynd: Mats Wibe Lund.

Á fyrsta fundi í sameinuðu sveitarfélagi Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar var lögð fram umsögn Örnefnanefndar um þær tillögur sem bárust um nafn á nýju sveitarfélagi

Bæjarstjórn lagði til að unnin verði skoðanankönnun meðal íbúa um nafn á nýtt sveitarfélag þar sem kosið verði á milli nafnanna

Barðsbyggð
Kópsbyggð
Látrabyggð
Suðurfjarðabyggð
Tálknabyggð
Vesturbyggð

En það eru sex af þeim sjö nöfnum sem Örnefnanefnd mælti með.

Ákveðið var að undanskilja nafnið Látrabjargsbyggð.

Könnunin mun fara fram í gegnum vefinn betraisland.is og niðurstöðurnar verða notaðar til hliðsjónar við ákvörðun bæjarstjórnar um nafn á sameinað sveitarfélag Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar.

UUA: hafna bráðabirgðastöðvun eldis við Sandeyri

Frá Sandeyri.

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál hefur hafnað kröfu eiganda jarðarinnar Sandeyri í Ísafjarðardjúpi um stöðvun á laxeldi Arctic Fish við Sandeyri.

Eigandinn kærði útgáfu byggingarleyfis fyrir kvíarnar og krefst þess að leyfið verði fellt úr gildi. Er sú krafa enn til meðferðar hjá nefndinni og verður úrskurðar síðar um hana.

En auk þess var krafist að allar framkvæmdir yrðu stöðvaðar þangað til að úrskurður fellur um bannkröfuna. Í því felst að kvíarnar verði teknar upp og öllum fiski í þeim lógað.

Úrskurðarnefndin afgreiddi seinni kröfuna á miðvikudaginn og hafnaði henni.

Nefndin segir í niðurstöðu sinni að kærandi geti krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi, en framkvæmdum á grundvelli hins kærða byggingarleyfi hafi verið lokið þegar kæra þessa máls barst nefndinni. Því  sé ekki til dreifa þeim lögbundnu skilyrðum fyrir stöðvun framkvæmda sem lögin áskilja.

Kærandi telur að framkvæmdin hafi veruleg áhrif á nýtingu jarðarinnar, m.a. vegna mengunar í hafi og við strönd, hávaða, ljósmengunar og sjónmengunar. Auk þessa fari framkvæmdirnar í bága við skipulag og lög um vitamál nr. 132/1999 sem og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands um siglingaöryggi þar sem mannvirkin séu staðsett í ljósgeisla frá Óshólavita.

Húsnæðis og mannvirkjastofnun sem gaf út leyfið telur að ekki sé ástæða til að stöðva framkvæmdir þar sem stofnunin hafi staðið rétt að afgreiðslu hins kærða byggingarleyfis, sbr. stjórnsýslulög nr. 37/1993. Jafnframt standist byggingarleyfið þær kröfur sem gerðar séu til þess í lögum nr. 160/2010 um mannvirki.

Arctic Fish  benti á að kærandi byggi málatilbúnað sinn nær eingöngu á því að umrædd framkvæmd hafi átt sér stað í netlögum jarðarinnar Sandeyri, en framkvæmdin sé í raun alfarið utan þeirra. Við þær aðstæður teljist kærandi ekki aðili þess stjórnsýslumáls sem lúti að umsókn leyfishafa um hið kærða byggingarleyfi og beri því að vísa kærunni frá heild, en ella hafna kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda. Þá sé ekki hægt að fallast á kröfu um stöðvun framkvæmda þar sem fyrir liggi að leyfishafi hafi nú þegar reist og tekið í notkun þau mannvirki sem heimilt hafi verið að reisa á grundvelli leyfisins.

Hnífsdalur: sjomannadagskaffi slysavarnardeildarinnar

Hið árlega sjómannadagskaffi Slysavarnardeildarinnar í Hnífsdal verður haldið á Sjómannadaginn, nk. sunnudag kl. 15:00, í Félagsheimilinu í Hnífsdal. Sjómannadagskaffið hefur verið árlegur viðburður frá því um 1980, félagið hélt nýverið upp á 90 ára afmæli og verður því afmælisbragur á kaffinu í ár. 

Verð á mann er 3.000 kr. fyrir fullorðna, 1.500 kr. fyrir börn 7-10 ára og börn 6 ára og yngri borga ekkert.

Sjómannadagskaffið er ein af stærri fjáröflununum félagsins segir Dagný Finnbjörnsdóttir, en líka ein sú skemmtilegasta. „Að venju munu veisluborðin svigna undan alvöru heimagerðum kræsingum sem Hnífsdælingar og aðrir velunnarar hafa töfrað fram. Alvöru brauðtertur eins og amma gerði alltaf, dísudraumar, hnallþórur og pönnukökur er meðal annars það sem verður að finna á kökuborðinu. 

Vikuviðtalið: Magnús Bjarnason

Magnús Þór Bjarnason heiti ég og er fæddur á Ísafirði árið 1975 og ól æskuár mín að mestu leyti  hér á Ísafirði. Til að klára ættfræðina þá er móðir mín Rósa Magnúsdóttir frá Ísafirði og faðir minn er Bjarni Steingrímsson frá Reyðarfirði, en þau skildu þegar ég var ungabarn. Stjúpfaðir minn er svo Guðbjartur Jónsson frá Ísafirði. Konan mín er Auður Dóra Franklín frá Akureyri. Við eigum þrjár dætur saman þær Rósu Maríu (17 ára) , Sylvíu Rán (15 ára) og Katla Rut (8 ára). Þrátt fyrir tengingar víðsvegar um landið, þá kalla ég mig nú Vest- og Ísfirðing. En í raun er eina skilyrðið til að teljast Ísfirðingur er að vilja það.

Frá Grunnskóla Ísafjarðar lá leiðinn í framhaldsnám í Fjölbraut í Breiðholti. Í skólafríum var svo unnið í Norðurtanganum, þeim ágæta vinnustað sem kenndi manni svo ótrúlega margt. Eftir stúdentspróf, lá leiðin í BS nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Þegar því námi lauk hafði ég tekið saman við Auði og við fórum saman til Svíþjóðar í nám, hún í lífeindafræði og ég í alþjóðaviðskiptum við Háskólann í Gautaborg.

Starfsferillinn hefur verið fjölbreyttur og ég hef komið víða við, nokkuð sem kemur sér mjög vel við núverandi starf mitt hjá Vestfjarðastofu, þar sem ég starfa sem verkefnastjóri við nýsköpun og fjárfestingar. Það eru spennandi tímar runnir í garð á Vestfjörðum, eftir tíma stöðnunar. Við erum að sjá kröftugan vöxt um Vestfirði í kjölfarið á sjókvíaeldi og vaxandi ferðamennsku. Það er í raun athyglisvert að sjá hvernig þessar tvær greinar eru að vaxa samhliða. Vestfjarðastofa er vinnustaður með fjölbreyttum og spennandi verkefnum.  Að sjá samfélaginu, frumkvöðlum og fyrirtækjum ganga vel, er nokkuð sem gleður mjög.

Þegar ég flutti aftur til Ísafjarða árið 2013 þá tilkynnti Muggi mér það að samfélag eins og Ísafjörður virkar ekki nema allir taki þátt í því. Ég tók þetta til mín og hef reynt að vera sem virkastur í tómstundastarfi bæjarins. Fyrst sem stjórnarmaður og gjaldkeri blakfélagsinns, en ég hef tekið þátt í 8 öldungarmótum í blaki, því þrátt fyrir takmarkaða getu þá er þetta ótrúlega skemmtilegt sport. Svo er ég gjaldkeri Sæfara, en kayakróður er sport sem fer vel með bakið og jafnvægið, ásamt því hvað nálægðin við sjóinn er hreinsandi. Nú seinast sem meðstjórnandi í HSV til næstu tveggja ára, en framundan er mikið starf hjá stjórn HSV að móta starf sitt án framkvæmdarstjóra.

Það sem fjölskyldunni þykir skemmtilegast að gera saman, eru kósý kvöld og svo að ferðast saman. Við höfum verið dugleg að ferðast um landið og erlendis að heimsækja ættingja og vini. Þegar stelpurnar eldast þá mun þessum stundum fækka og um að gera sem mest að því meðan færi er.

Nýjustu fréttir