Sunnudagur 1. september 2024
Síða 8

Edinborgarhúsið: jass og súpa í hádeginu í dag

Menningarmiðstöðin Edinborg stendur fyrir ókeypis jass tónleikum í hádeginu í dag í Bryggjusalnum. Sumarviðburðasjóður Hafna Ísafjarðarbæjar styrkir tónleikahaldið.

Djasstrompetleikarinn Hannes Arason hefur undanfarin þrjú ár stundað nám í Stokkhólmi, þar sem hann stofnaði hljómsveitina Hannes Arason Kvartett. Nú fær hann Svíana hingað til landsins og þau héldu tónleika í Bryggjusalnum í Edinborgarhúsinu í gær og aftur verða tónleikar í dag.

Hannes Arason Kvartett spilar frumsamda, framsækna djasstónlist sem leggur áherslu á samspuna með djúpri hlustun. Hljómsveitin skapar stóra kontrasta með flæðandi dýnamík og þéttskrifuðum útsetningum. Taktfastir rytmar, ómþýðir hljómar og frjáls spuni takast jafnt á í tónlistinni sem kemur sífellt á óvart. Hannes Arason – trompet, flügelhorn Oskar Nöbbelin – píanó Amanda Karström – kontrabassi Filip Öhman – trommur Hannes Arason er upprennandi trompetleikari á íslensku og sænsku tónlistarsenunni. Hann gaf út sína fyrstu plötu, Frífólk, í febrúar 2024, þar sem hann blandaði frjálsum spuna saman við áhrifum frá sænskri og íslenskri þjóðlagatónlist. Í tónlist sinni leggur hann áherslu á frjálsan spuna, tilraunamennsku og samruna mismunandi tónlistarstefna.

Hannes útskrifaðist vorið 2024 með bakkalárgráðu í djasstrompetleik frá Kungl. Musikhögskolan i Stockholm og áður kláraði hann burtfarapróf í rytmískum trompetleik frá Menntaskóla í tónlist.

Grunnskóli Hólmavíkur : húsnæði tekið í notkun eftir miklar endurbætur

Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir ávarpar gesti við skólasetninguna og opnun húsnæðisins. Myndir: Þorgeir Pálsson.

Í gær var skólasetning Grunnskóla Hólmavíkur og starfsemi skólans hófst aftur í húsnæði skólans eftir viðamiklar endurbætur síðustu tvö ár vegna myglu sem upp kom síðustu tvö ár og kosta um 300 m.kr.

Þorgeir Pálsson sveitarstjóri segir að þetta hafi verið mikill gleðidagur í sögu Strandabyggðar.  Það var að hans sögn talsverður fjöldi foreldra og íbúa sem sótti skólasetninguna, auk nemenda og starfsfólks. 

„Við hönnun skólans var það haft að leiðarljósi, að hafa líflega liti, skapa ferskleika og gleði innanhúss.  Einhverjum kann að þykja litagleðin nokkur, en þá er rétt að hafa í huga að þetta er skóli fyrir börnin okkar.  Þau eru lífleg og litaglöð.  Þetta er þeirra umhverfi og þar á að ríkja gleði og ferskleiki.  Að auki erum við að gleðjast og fagna upprisu þessa skóla og það gerum við með litagleði.  Litirnir eru í regnboganum, í loftinu, augunum, og allt í kring um okkur.  Leyfum okkur að njóta og gleðjast, því þessi gleðidagur á að vara lengi.“

Að sögn Þorgeir er enn er nokkur vinna eftir við hluta skólans og eins verður skólalóðin hönnuð og vonandi endurgerð næsta sumar.

Í pistli á vefsíðu sveitarfélagsins segir Þorgeir að það eigi margir „þakkir skildar fyrir þennan árangur og þennan mikilvæga áfanga í sögu Strandabyggðar; nemendur, starfsmenn skólans og sveitarfélagsins, verktakar, foreldrar, íbúar og margir aðrir.  Þetta er án efa með allra stærstu og umfangsmestu verkefnum þessa sveitarfélags ef ekki það stærsta.  Við skulum vera stolt yfir því að hafa komið að þessu verkefni.“

Anddyri skólans eftir endurbæturnar.

Ein skólastofan.

Rafbyssur brátt í notkun hjá lögreglunni

Nú styttist í að lögreglan geti tekið rafvarnarvopn til notkunar. Rafvarnarvopnin eru á sama stigi í valdbeitingarstiganum og kylfa og varnarúði og gefa lögreglu aukna möguleika á að velja þann varnarbúnað sem hæfir hverju verkefni. Með því er leitast við að auka á öryggi almennings og lögreglu.

Tækin verða afhent lögregluembættunum í fyrstu viku septembermánaðar. Almenningur getur því átt von á að sjá lögreglumenn bera rafvarnarvopn fljótlega.

Rúmlega 460 lögreglumenn hafa hlotið þjálfun og öðlast réttindi til að bera rafvarnarvopn.

Aðeins menntaðir lögreglumenn, sem fengið hafa til þess þjálfun, munu bera rafvarnarvopn og er mikið eftirlit með notkun þess m.a. í formi sjálfvirkra skráninga og sjálfvirkrar myndupptöku úr búkmyndavél. Tölfræði yfir notkun rafvarnarvopna og annarra valdbeitingatækja verður gerð opinber með reglubundnum hætti á vef lögreglu.

Trjágróður má ekki hindra umferð

Garðeigendur í Ísafjarðarbæ eru hvattir til að klippa trjágróður við lóðamörk svo hann hindri ekki umferð vegfarenda eða hylji umferðarskilti og götumerkingar og dragi úr götulýsingu.

Þetta er sérstaklega mikilvægt núna þegar skólarnir eru að byrja og margir ungir nemendur að taka sín fyrstu skref í umferðinni.

Samkvæmt byggingarreglugerð þurfa garðeigendur að halda gróðri innan lóðarmarka. Þar segir:

„Lóðarhafa er skylt að halda vexti trjáa eða runna á lóðinni innan lóðarmarka. Sinni hann því ekki og þar sem vöxtur trjáa eða runna fer út fyrir lóðarmörk við götu, gangstíga eða opin svæði er veghaldara eða umráðamanni svæðis heimilt að fjarlægja þann hluta er truflun eða óprýði veldur, á kostnað lóðarhafa að undangenginni aðvörun.“

Viðlíka ákvæði eru einnig í lögreglusamþykkt bæjarins.

Fornminjadagur á Hrafnseyri

Uppgröftur í túninu á Hrafnseyri.

Árlegur fornminjadagur verður haldinn á Hrafnseyri sunnudaginn 25. ágúst. Þátttaka í deginum er ókeypis og eru allir velkomnir. Dagskráin hefst kl. 14:00. En einnig verður boðið upp á fonleifaskóla barnanna frá kl. 13.

Boðið verður upp á leiðsögn og kynningu á fornminjum á Hrafnseyri, þar sem nú stendur yfir fornleifarannsókn, og á Auðkúlu, þar sem grafið hefur verið upp landnámsbýli.

Dagskráin hefst á stuttri kynningu í kapellunni. Að því búnu er gengið um Hrafnseyri, þar sem staldrað verður við á minjastöðum og komið við á uppgraftarsvæði sem unnið hefur verið við í sumar. Að því loknu verður farið til Auðkúlu fyrir þá sem vilja skoða minjasvæðið þar.

Sýningin Landnám í Arnarfirði verður einnig opin. Sýningin var opnuð þann 16. júní síðastliðinn í tilefni af 80 ára afmæli íslenska lýðveldisins og 1150 ára sögu byggðar á Íslandi. Á sýningunni er fjallað um fornleifarannsóknir í Arnarfirði og sýnt úrval gripa frá landnámsöld. Gripirnir eru úr fornleifauppgröftum á Hrafnseyri og Auðkúlu.

Börnum gefst kostur á að prófa að grafa í fornleifaskóla barnanna á Hrafnseyri. Hann verður opinn frá kl. 13-17, og geta bæði ungir sem aldnir spreytt sig undir leiðsögn fornleifafræðinga.

Árneshreppur: sameining háð samgöngubótum

Skúli Gautason.

Á íbúafundi í Árneshreppi í gær kom fram að sögn Skúla Gautasonar, staðgengils sveitarstjóra að ýmsir möguleikar væru fyrir hendi varnadi mögulega sameiningu Árneshrepps við annað sveitarfélag en að að mati fundarmanna er forsenda þeirra allra væru bættar samgöngur, einkum yfir Veiðileysuháls.

Það er rökstutt með því að eitt af markmiðum sameiningar sveitarfélaga er að búa til eitt atvinnusvæði og að það verður ekki í þessu tilviki án samgöngubóta.

Skúli sagði að framhaldið myndi ráðast af viðbrögðum Innviðaráðuneytisins sem kallaði eftir viðbrögðum sveitarfélagsins við áhuga ráðuneytisins á sameiningu.

Eftir því sem Bæjarins besta kemst næst er helst áhugi á viðræðum um sameiningu við næsta sveitarfélag, Kaldrananeshrepp, en engar formlegar viðræður hafa átt sér stað.

Samgönguáætlun höfuðborgarsvæðisins : 311 milljarða kr. framkvæmdir

orsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, innviðaráðherra og borgarstjóri og bæjarstjórar sveitarfélaganna tóku þátt í undirrituninni á blaðamannafundi í gær.

Eigendur Betri samgangna ohf undirrituðu í gær samkomulag um 311 miljarða króna framkvæmdir við samgöngumannvirkki á höfuðborgarsvæðinu á næstu 16 árum fram til 2040. Á næstu 5 árum verður framkvæmt fyrir 80 milljarða króna. Um helmingur þess fer í svokallaða Borgarlínu einkum í leiðina Ártún – Hlemmur – Hamraborg. Ríkið leggur til 87,5% af frramkvæmdakostnaði en sveitarfélögin 12,5%.

Gert er ráð fyrir að afla með flýti- og umferðargjöldum á umferðina 143 milljörðum króna. Ekki er gert ráð fyrir þeim gjöldum fyrr en árið 2030.

Auk þess er fyrirhugað að ríkið taki þátt í rekstri almenningssamganga , þ.e. Strætó og greiði um þriðjunginn af kostnaðinum.

Í tilkynningu frá stjórnarráðinu segir að styttri ferðatími, minni tafir, aukið umferðaröryggi, áhersla á að draga úr kolefnisspori, stórbættar almenningssamgöngur, fjölgun hjóla- og göngustíga og uppbygging stofnvega séu kjarninn í uppfærðum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.

„Markmiðið er að samgöngur á höfuðborgarsvæðinu verði í fremstu röð þannig að svæðið og Ísland allt sé samkeppnishæft um bæði fólk og fyrirtæki.“

 

Beint frá býli : um 4.500 manns mættu

Freyja Magnúsdottir Eysteinseyri í Tálknafirði var komin langan veg með vörur sínar. myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Samtök smáframleiðenda matvæla héldu á sunnudaginn svonefndan beint frá býlí dag þar sem félagsmenn kynntu og höfðu til sölu framleiðslu sína. Á sjö stöðum á landinu voru sölutjöld og um þriðjungur félagsmanna tók þátt. Um helmingur þeirra sem búa á lögbýlum voru með afurðir til sölu.

Oddný Anna Björnsdóttir, formaður samtakanna segir að veðurfar hafi verið breytilegt, á einum staðnum var aftakaveður en á hinum landshlutunum var allt frá afbragðs veðri, sól og blíðu, í ágætis veður.

Hún segir að salan hafi verið góð og hafði heyrt í einum félagsmanninum sem seldi fyrir liðlega hálfa milljón kr. á þeim þremur klst sem opið var.

Tilgangur dagsins var svo að bjóða íbúum og gestum landshlutanna heim á býli og gefa þeim tækifæri til að kynnast og kaupa vörur beint af smáframleiðendum, samhliða því að eiga góðan og fjölskylduvænan dag á íslensku bóndabýli síðasta helgidag fyrir skólabyrjun.

Hafdís Sturlaugsdóttir, bóndi á Húsavík í Tungusveit við Steingrímsfjörð var ein þeirra sem var með til sölu afurðir sínar í sölutjaldi á Sævangi. Hún sagði að þar hefðu verið sjö framleiðendur samankomnir. Allan tíman var mikil traffík af fólki og þetta hafi verið góð kynning á heimaframleiðslunni og hún var sátt við söluna. Um 450 manns komu í Sævang.

Hafdís Sturlaugsdóttir við söluborð sitt. Þar voru einkum kjötvörur.

Kubbi með fyrirtækjamót í pútti

Frá keppni í Kubbi.

Eins og undanfarin ár efnir KUBBI íþróttafélag eldri borgara til fyrirtækjamóts (firmakeppni) í pútti“. Mótið verður haldið þriðjudaginn 10.sept. n.k. kl. 16.00 á Púttvellinum á Torfnesi. Mót þetta er ein aðalfjáröflun félagsins og óskum við eftir þátttöku þíns fyrirtækis/félags. Lágmarks þátttökugjald er kr. 5000,-.

Árið 2015 varð sigurvegari, H.V. umboðsverslun ehf.

Árið 2016 varð sigurvegari, Tannsar á Torfnesi.

Árið  2017 varð sigurvegari, F.O.S.Vest.  Ísafirði.

Árið 2018 varð sigurvegari, Við Torgið ehf. Ísafirði.

Árið 2019 varð sigurvegari, Endurskoðun Vestfjarða  ehf.

Árið 2020 varð sigurvegari, F.O.S.Vest.  Ísafirði.

Árið 2021 varð sigurvegari, Orkubú Vestfjarða ohf.

Árið 2022   ekki keppni vegna cóvit.                                                   

Árið 2023 varð sigurvegari, Klofningur Suðureyri.

Við væntum þess að fyrirtæki/félag þitt veiti okkur stuðning að vera þátttakandi í mótinu að þessu sinni, hvort heldur er með eigin keppanda, eða að félagi úr KUBBA keppi fyrir þína hönd. Þátttöku má greiða með innborgun á bankareikning félagsins, sem er KT.640511-0950. Banki: 0556-14-401353. Sigurvegari mótsins hverju sinni, varðveitir verðlaunabikar mótsins í eitt ár, eða til næsta móts.

Með vinsemd og virðingu.

                                 Stjórn KUBBA félags eldri borgara Ísafirði.

Form:  Finnur Magnússon.  Varform. Kristján S Kristjánsson.

Gjaldkeri:  Kristján Pálsson. Ritari: Guðjón Bjarnason Meðstjórnandi:  Margret Eyjólfsdóttir

Hlaupið í þágu Sigurvonar

Hlaupahópur Öllu frá Drangsnesi var afar öflugur í hlaupinu í fyrra og kemur einnig sterkur inn í ár.

Hátt í 20 manns ætla að hlaupa í þágu krabbameinsfélagsins Sigurvonar í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka þann 24. ágúst. Um afar mikilvæga fjáröflun er að ræða fyrir félagið en nú þegar hefur safnast yfir hálf milljón króna. Sá peningur sem safnast í maraþoninu rennur óskertur til eins af mikilvægustu markmiðum Sigurvonar sem er að styðja fjárhagslega við einstaklinga sem glíma við krabbamein. Fjárhagsleg byrði þeirra sem veikjast er mikil og þá ekki síst þeirra sem búa á landsbyggðinni. Því er mikilvægt að svæðisfélag eins og Sigurvon geti ræktað hlutverk sitt af alúð, með dyggri aðstoð samborgaranna.

„Maður verður meyr ár hvert að sjá hversu margir eru til í að leggja félaginu lið í maraþoninu. Við hvetjum alla sem eru aflögufærir til að styðja við hlauparana okkar með því að heita á þá. Margt smátt gerir eitt stórt,“ segir Thelma Hjaltadóttir, starfsmaður félagsins.

Þá hefur félagið staðið fyrir fríum æfingum í sumar fyrir bæði þá sem vilja hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu og þá sem auka vilja hreysti sína í góðum félagsskap.

Hér má heita á hlauparana.

https://www.rmi.is/hlaupastyrkur/hlaupahopar/11323-hlaupahopurinn-hennar-ollu

Nýjustu fréttir