Mánudagur 28. október 2024
Síða 8

Tveir Vestfirðingar á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi

Dagný Finnbjörnsdóttir.

Sjálfstæðisflokkurinn gekk frá skipan framboðslista í Norðvesturkjördæmi fyrir næstu Alþingiskosningar. Hvorugur núverandi alþingismanna flokksins verða á listanum. Þórdís K. Gylfadóttir verður í framboði í Suðvesturkjördæmi og Teitur Björn Einarsson hlaut ekki brautargengi í 2. sæti listans.

Aðeins er að finna tvo Vestfirðinga á listanum. Það eru Dagný Finnbjörnsdóttir, Ísafirði sem er í 4. sæti listans og Þórður Logi Hauksson, Önundarfirði sem skipar 10. sætið. Þingsætum kjördæmisins fækkar um eitt og verða þau sjö.

Listinn er þannig skipaður:

  1. sæti Ólafur Adolfsson lyfsali Akranesi
  2. sæti Björn Bjarki Þorsteinsson sveitarstjóri Dalir/Borgarnesi
  3. sæti Auður Kjartansdóttir fjármálastjóri Snæfellsnesi
  4. sæti Dagný Finnbjörnsdóttir íþrótta- og æskulýðsfulltrúi Vestfjörðum
  5. sæti Kristófer Már Maronsson starfsmaður þingflokks  Sauðárkróki
  6. sæti Ragnhildur Eva Jónsdóttir lögfræðingur/sauðfjárbóndi Borgarfirði
  7. sæti Magnús Magnússon sóknarprestur V-Hún
  8. sæti Sigurbjörg Ottesen Kúabóndi/stjórnarmaður BÍ  Snæfellsnesi
  9. sæti Ragnheiður Helgadóttir hjúkrunarfræðingur Akranesi
  10. sæti Þórður Logi Hauksson nemi Vestfirði/Borgarfirði/Skagafirði
  11. sæti Snæbjört Pálsdóttir sérfræðingur hjá VÍS/laganemi Skagafirði
  12. sæti Guðmundur Haukur Jakobsson pípulagningameistari A-Hún
  13. sæti Helgi Rafn Bergþórsson nemi Akranesi
  14. sæti Sigríður Finsen hagfræðingur Snæfellsnesi

Ísafjarðarbær: 9% hækkun fasteignaskatts og lóðarleigu

Ísafjörður. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar ákvað á fundi sínum í síðustu viku fasteignagjöld næsta árs. Fasteignaskattur af íbúðarhúsnæði lækkar úr 0,54% í 0,50% en að öðru leyti er álagning fasteignaskattsins óbreytt frá yfirstandandi ári.

Fasteignaskattur af atvinnuhúsnæði verður áfram 1,65% af fasteignamati, af opinberum byggingum er skatturinn 1,32% og lóðarleiga verður 1,5%.

Tekjur af fasteignaskattinum og lóðarleigu eru áætluð verða 741 m.kr. á næsta ári og hækka úr 679 m.kr. Hækkunin er 9% milli ára. Þegar litið er einvörðungu á íbúðarhúsnæði er hækkunin 8,6%.

Heildarfasteignamat í Ísafjarðarbæ árið 2025 er 86.309 m.kr. en var kr. 76.600 m.kr. árið 2024, sem er 12,7% hækkun. Frá árinu 2021 hefur fasteignamat hækkað um 83,4%.

Lækkun álagningarhlutfallsins á fasteignaskattinum úr 0,54% í 0,50% hefur áhrif á framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til Ísafjarðarbæjar og veldur lækkun þess um 17,1 m.kr. á næsta ári.

Gylfi Ólafsson nýr formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga: Gylfi Ólafsson, nýr formaður, Tryggvi Bjarnason, Dagný Finnbjörnsdóttir, Magnús Ingi Jónsson og Hildur Aradóttir. Mynd: Vestfjarðastofa.

Kosið var til stjórnar og varastjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga til næstu tveggja ára á Fjórðungsþingi sem haldið var á Laugarhóli í Bjarnarfirði um helgina.

Gylfi Ólafsson, Ísafjarðarbæ, var kjörinn nýr formaður, en Jóhanna Ösp Einarsdóttir sem hefur verið formaður undanfarin fjögur ár, lætur af störfum.

Ný í stjórn eru einnig Hildur Aradóttir, Kaldrananeshreppi og Tryggvi Bjarnason, Vesturbyggð. Fyrir voru í stjórn Magnús Ingi Jónsson, Bolungavík og Dagný Finnbjörnsdóttir, Ísafirði og voru þau kosin áfram. Sem nýr varamaður kemur inn Freyja Ragnarsdóttir Pedersen, Vesturbyggð.

Sjálfstæðisflokkurinn: Teitur Björn ekki í efstu sætum

Ólafur Adolfsson.

Sjálfstæðisflokkurinn í Norðvesturkjördæmi hefur lokið því að skipa í fjögur efstu sætin á framboðslista flokksins til næstu alþingiskosninga. Nýtt fólk skipar öll fjögur sætin. Ólafur Adolfsson, lyfsali á Akranesi verður í efsta sæti, Björn Bjarki Þorsteinsson sveitarstjóri í Dalabyggð verður í 2. sæti og hafði hann betur gegn Teiti Birni Einarssyni alþm. í kosningu um sætið með 93 atkvæðum gegn 65.

Í þriðja sætu verður Aukur Kjartansdóttir, Ólafsvík og Dagný Finnbjörnsdóttir, Ísafirði skipar 4. sætið.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk tvo þingmenn kjörna í síðustu alþingiskosningum, Þórdísi Kolbrúnu Gylfadóttur og Harald Benediktsson. Haraldur hætti á kjörtímabilinu og tók við starfi bæjarstjóra á Akranesi og sæti hans á Alþingi tók Teitur Björn Einarsson. Þórdís Kolbrún flutti sig um kjördæmi og hyggst bjóða sig fram í Suðvesturkjördæmi.

Jóhanna Ösp: ennþá að ræða svipuð mál eftir 75 ár

Jóhanna Ösp Einarsdóttir flytur ræðu sína á Fjórðungsþinginu. Mynd: aðsend.

Jóhanna Ösp Einarsdóttir, fráfarandi formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga rifjaði upp í setningarræðu sinni á Fjórðungsþinginu sem stendur yfir á Laugarhóli í Bjarnarfirði þau mál sem efst voru á baugi þegar sambandið var stofnað 1949 eða fyrir 75 árum.

„Í nóvember verður Fjórðungssamband Vestfirðinga 75 ára! Og ég held við eigum aðeins og staldra við og taka forskot á sæluna og klappa fyrir afmælisbarninu (því hver veit hvað kemur í kjölfarið á þessu þingi….mörg erfið mál á dagskrá…). En á fjórðungsþingi fyrir 75 árum var rætt:

  • Landhelgi Íslands (og við erum með ályktun um landamæraeftirlit)
  • Samgöngur (nokkrar ályktanir um samgöngur)
  • Fjarskipti (ályktun um farnet tetra)
  • Orkumál (ályktun um glálmaströnd)
  • Og menntaskóla á Ísafirði, ég veit ekki hvort þið munið eftir öllum tölvupóstunum á þessu ári í kringum verknámshús.

Þannig að við erum ennþá í svipuðum dúr og þá, og verðum sennilega að því líka árið 2060 og kannski er það allt í lagi. En við erum að fara að tala um orkumál og samgöngur í svæðisskipulaginu“.

Nefndi hún sem dæmi um mál sem biði þingsins að taka afstöðu til væri jarðgöng og virkjun svo sem Álftafjarðargöng eða Suðurfjarðagöng og virkjun í Vatnsdal.

Þá sagði Jóhanna í ræðu sinni: „auðvitað er fáránlegt að það eru engin göng í gangi akkurat núna, auðvitað er fáránlegt að það sé leki á fjármagni sem átti að fara í samgöngur á Vestfjörðum en fóru í Hornafjarðarfljót og svo allt í einu eru Fljótagöng komin í einhverja flýtimeðferð. Það er svo ferlegt að geta bara ekki treyst á að ríkið þjónusti okkur og fáránlegt að það sé verið að bora færri kílómetra á ári sem voru 0 kílómeter á ári undanfarin 4 ár. Ég hefði líka alveg glöð tekið við þessum milljörðum sem fóru í Hornafjarðarfljótið. En fyrst þessi staða er uppi og það virðist ekki vera sjáanleg lausn þá þurfum við að koma okkur að einhverri niðurstöðu og við verðum að fara fram á að rannsóknir hefjist strax. Þannig að ekki vera hrædd við að ræða málin og takast á.“

Vandinn væri að ekki væri við því að búast að unnið væri að öllum verkefnum í senn og þau sem ekki væri fyrst myndi líklega bíða í áratugi. Hins vegar væri það líka réttmætt að benda á hvað það kostaði samfélögin að bíða kannski í 20 ár. Hvernig væri hægt að leysa úr þessum vanda spurði Jóhanna Ösp. Það væri verkefnið að finna lausnirnar.

Að bjarga brotinni byggð

Það ósætti sem ríkir í sveitarstjórnarmálum í Strandabyggð hefur trúlega ekki farið fram hjá mörgum.  Rót þess er meðal annars það framferði núverandi oddvita og sveitarstjóra, Þorgeiri Pálssyni, gagnvart fyrrum sveitarstjórnarmanni, Jóni Jónssyni þjóðfræðingi.  Eftir að Jón hefur þurft að berjast fyrir að hreinsa mannorð sitt liggur greinargerð KPMG fyrir þar sem skýrt kemur fram að allar ávirðingar um sjálftöku eru fjarri öllu sanni.  Ekkert bólar þó á afsökunarbeiðni sveitarstjóra og aðrir fulltrúar meirihluta leggja samþykki sitt yfir slíkt framferði og vörðu hann vantrausti nýlega.  Það sem fær mig til að skrifa þennan pistil er þó ekki einvörðungu þetta tiltekna mál, heldur vangaveltur um hvernig unnið hefur verið að atvinnumálum af hálfu núverandi meirihluta Strandabyggðar.

Staðan

Í Strandabyggð hefur stöðug fólksfækkun verið um langt skeið og umtalsvert áfall varð í atvinnulífi við lokun rækjuvinnslu Hólmadrangs fyrri hluta síðasta árs.  Sveitarfélagið Strandabyggð hefur verið skilgreind sem brothætt byggð og fulltrúi íbúa í verkefninu Sterkar Strandir orðaði það svo fyrir ári síðan að hún væri í raun brotin og að persónulegur ágreiningur innan stjórnsýslunnar stæði í vegi fyrir árangri.  Það var vissulega rétt mat og ástandið ekki batnað síðan.  Ég tel þó langt því frá að sveitarfélagið eigi sér ekki viðreisnar von og reyndar margt jákvætt sem þar hefur verið gert á undanförnum árum í atvinnulífi af hálfu heimaaðila.

Þar ber ekki síst að nefna uppbyggingu tveggja sjálfseignarstofnanna, þ.e. Galdrasafns og Sauðfjárseturs, en þær sýningar og aðrir viðburðir sem þessar sjálfseignarstofnanir standa fyrir eru ekki síst aðdráttarafl á svæðinu fyrir ferðamenn í dag.  Báðar byggðar upp af framsýni og fórnfýsi og því einkennileg framsetning að þær stofnanir og einstaklingar sem stóðu að uppbyggingu þeirra séu sakaðir um sóun fjármuna úr sveitarsjóði.  Ástæðan virðist vera greiðslur sveitarfélagsins, sem voru að stærstum hluta vegna reksturs upplýsingamiðstöðvar ferðamanna, einhverjir styrkir vegna annarra verkefna og klárlega engin sjálftaka sem greinargerð KPMG staðfestir.  Þeir einstaklingar sem hafa komið að uppbyggingu þessara stofnana í gegnum tíðina geta verið stoltir af sínu framlagi og eiga annað skilið en ásakanir frá núverandi meirihluta.  Ýmislegt fleira og nýrra af nálinni má nefna sem jákvætt er í uppbyggingu atvinnulífs staðarins, eins og Galdur brugghús og ný fiskvinnsla, Vilji fiskverkun ehf.  Að uppbyggingu hennar hef ég komið með heimamönnum og þekki því best til þess verkefnis.

Vinnubrögð meirihluta

Það má skilja á núverandi oddvita að einblína skuli í dag á lögskyld verkefni sveitarfélaga og því ekki svigrúm til styrkveitinga til annarra verkefna.  Mér sýnist það vera rót þessara fáránlegu ásakana hans að hann telji að fyrri sveitarstjórnir, m.a. sú sem sagði honum upp störfum, hafi gerst sek um ónægt aðhald hvað þetta varðar.  Vissulega eru lögskyld verkefni í forgangi sveitarfélaga, en skilningur þarf þó að vera á því að til þess að ná árangri í að færa samfélag úr brothættu eða brotnu ástandi þarf að hafa a.m.k. skýra stefnu og vinna markvissa vinnu sem styður við uppbyggingu atvinnulífs.  Það að koma að stuðningi við ýmislegt í atvinnu- og menningarlífi staðarins er ekki sóun fjármuna sé það gert með skynsömum hætti eins og í tilfelli þeirra verkefna sem sveitarfélagið greiddi fyrir hjá fyrrgreindum sjálfseignastofnunum.

Það vekur athygli mína að atvinnumálanefnd sveitarfélagsins, sem jafnframt fer með hafnamál og dreifbýlismál  virðast samkvæmt fundargerðum helst hafa það hlutverk að funda árlega um fjallskilaseðil.  Ekki er gert lítið úr mikilvægi þess og kannski enginn annar tilgangur með nefndinni miðað við stefnu meirihluta.  Engin fundur var haldin eða nein bókun frá þeirri nefnd varðandi lokun rækjuvinnslu Hólmadrangs eða önnur viðbrögð við því, hversu sérkennilegt sem það kann að hljóma.

Sveitarstjóri sjálfur virðist samt talsvert upptekinn af atvinnutengdum verkefnum þótt þau séu ekki lögskyld verkefni sveitarfélaga.  Ég kynntist því m.a. hvaða afskipti sveitarstjóri hafði við úthlutun sértæks aflamarks Byggðastofnunar og reyndi að beita sínum áhrifum til að ákveðið aðkomufyrirtæki fengi kvótann, þótt það hefði ekki einu sinni lagt inn umsókn um hann.  Markmið þess fyrirtækis um atvinnusköpun á svæðinu, sem starfsmaður sveitarfélagsins birti síðar, voru um helmingi færri störf en í umsókn heimaaðila.  Sveitarstjóri vann engu að síður markvisst gegn því að hópur heimaaðila fengi úthlutun, sem þó treystu sér til að gera mun meira úr aflamarkinu í atvinnulegu tilliti á staðnum.  Stjórn Byggðastofnunar gekk til samninga við heimamenn um þessa úthlutun og upp úr því hefur verið stofnað fyrirtækið Vilji fiskverkun ehf sem er með 15 manns í vinnu.  Auk starfa við landvinnsluna hefur þetta þegar haft jákvæð áhrif á atvinnusköpun og tekjuaukningu í kringum útgerð á staðnum.

Það verður að teljast bæði einkennilegt og aumkunarvert þegar meirihluti sveitarstjórnar í brothættri byggð vinnur með þessum hætti og bítur höfuðið af skömminni með því að senda síðan frá sér bókun eins og þá sem T-listi gerði þegar niðurstaða lá fyrir.  Þar eru heimaaðilar ásakaðir um að hafa ekki lagt nógu hart að sér við að ná samningum við þetta ágæta fyrirtæki sem sveitarstjóri barðist fyrir.

Sannleikurinn er sá að heimaaðilar höfðu frumkvæði að því ræða við alla hina þrjá umsóknaraðilana að beiðni Byggðastofnunar og ræddu einnig við fulltrúa þess fyrirtækis sem sveitarstjóri barðist fyrir að fengi úthlutun, en var þó ekki umsóknaraðili eins og fram hefur komið.  Niðurstöður samtalsins voru að einn umsóknaraðili bættist í hóp heimamanna og veiðir úr þessu aflamarki í dag.  Eigandi aðkomufyrirtækisins hafði meiri skilning en meirihluti Strandabyggðar og hvatti heimaaðila til að stofna vinnslu sjálfir.  Gott samtal var við Fiskvinnsluna Drang á Drangsnesi, sem einnig sótti um, og aðstandendur Vilja hafa haft frumkvæði að áframhaldandi samtali um samstarfsfleti sem styrkt geti þessar tvær vinnslur sem starfa á sama atvinnusóknarsvæði.

Ég tel það ekki líklegt til árangurs þegar snúa á við þróun hjá byggð sem telst brothætt eða brotin að tiltrú á getu heimamanna sé ekki til staðar og litið sé svo á að það eina sem til bjargar verði sé utanaðkomandi lausnir og fjárfestingar í stórum verkefnum.  Ekki síst ef slík sé sýn þeirra sem eru ráðandi í rekstri sveitarfélagsins og ættu að einbeita sér að sameiningu íbúa, efla kjark þeirra og tiltrú á tækifærin.

Að spara aurinn en kasta krónunni

Ekki skortir á að sveitarstjóri tilkynni um viljayfirlýsingar milli sveitarfélags og aðila varðandi væntanleg stór uppbyggingarverkefni í atvinnulífi.  Það virðist því vera að hann verji einhverjum starfstíma í annað en lögskyld verkefni við framkvæmdastjórn sveitarfélagsins.  Benda má á viljayfirlýsingu um hótelbyggingu og viljayfirlýsingu um uppbyggingu eldis á regnbogasilungi og annarra haftengdra verkefna sem báðar voru undirritaðar á fyrri hluta síðasta árs.  Hvorug þessara góðu hugmynda hefur komist á framkvæmdastig ennþá eða miklar fréttir farið af stöðu mála.  Viljayfirlýsing um hótelbyggingu hefur þó væntanlega þegar kostað sveitarfélagið talsverðar fjárhæðir vegna breytinga á skipulagi.  Þar er bara byggt á viljayfirlýsingu sem er ekki bindandi á neinn hátt og auk þess gerð við fyrirtæki sem samkvæmt ársreikningum er aðeins með nokkurra milljón króna veltu á ári, það litla að hún stendur ekki undir launum eins starfsmanns.  Eðlilegt væri að um slík verkefni sem ekki eru lögskyld hjá sveitarfélagi væri krafist vandaðri undirbúnings, vera betur kynnt fyrir íbúum og vera trúverðugri og líklegri til árangurs með samningum við aðila sem hafa getu til að fylgja málum eftir.  Ættu þau ekki líka að vera á forsvari nefndar sem fjallar um atvinnumál fremur en sveitarstjóra sjálfs og fá í mesta lagi kynningu hjá nefndinni milli umræða um fjallskilaseðil ? 

Það er vonandi að meirihluti og sveitarstjóri í Strandabyggð átti sig á mikilvægi þess að vera í góðu samtali við heimamenn og hafi trú á getu þeirra.  Það er meiri árangurs að vænta ef sveitarstjóri og sveitarstjórn setur sig í það hlutverk að vera hlekkur í strengdri keðju heimaaðila um að verja byggðina, fremur en að halda dauðahaldi í endann á hangandi keðju gylliboða.

Meirihluti Strandabyggðar þarf að sýna þá auðmýkt að biðjast afsökunar á innihaldslausum ásökunum gangvart einstaklingum, þarf að hafa trú á heimaaðilum frekar en að vinna gegn þeim, virkja lýðræðislega umfjöllun í stjórnsýslu sveitarfélagsins og gæta þess að kasta ekki krónum og spara aurinn þegar kemur að atvinnumálum.

Gunnlaugur Sighvatsson

Höfundur er sjálfstætt starfandi og í stjórn Vilja fiskverkunar ehf.

 Ánægjulegar fréttir af Gefum íslensku séns

Það telst frekar líklegt að íbúar Vestfjarða, allavega norðanverðra Vestfjarða, hafi heyrt af átakinu Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag. Það er samt ekki endilega víst að viðkomandi viti nákvæmlega hvað átakið stendur fyrir. Bráðlega verður vonandi gerð bragarbót þar á.

Nú ber nefnilega svo við að hægt verður að kynna starfsemina enn betur svo og að efla til muna. Nýverið skrifaði nefnilega Sædís María Jónatansdóttir forstöðumaður Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða undir samning til rúmlega eins árs við Viðskipta- og menningarmálaráðuneytið og Félags- og vinnumálaráðuneytið. En Fræðslumiðstöð Vestfjarða tók nýlega við sem aðalumsjónaraðili átaksins af Háskólasetri Vestfjarða. Háskólasetur Vestfjarða er engu að síður áfram aðili að átakinu.

Með samningnum fær átakið fjárstyrk upp á 12 milljónir króna. Það fjármagn verður nýtt til að styrkja starfsemina enn frekar í sessi og þróa verkefnið áfram. Markmiðið er að búa til afurð sem nýtast má á landsvísu svo og að leita samstarfs sem víðast svo hugmynda- og aðferðafræði átaksins megi skjóta rótum á landsvísu. Enn sem komið er hefir átakið einkum verið bundið við Vestfirði og þá aðallega Ísafjörð. Undanfarin ár hefir og mest allt starf átaksins verið unnið í sjálfboðavinnu og fyrir styrkfé úr, m.a., Þróunarsjóði innflytjendamála.

Með samningnum er fjármagn tryggt til að standa straum af starfseminni; að kynna átakið og fyrir hvað það stendur, standa að viðburðum, námskeiðum, stuttum sem lengri, semja kennslu- og fræðsluefni í prent og myndformi og almennt auka sýnileika íslensku í almannarými svo og auðvitað að hvetja og styðja notkun íslensku í samfélaginu.

Afurðin sem stefnt er á mun byggjast á því sem Gefum íslensku séns hefir staðið að undanfarin ár en einnig verður prófað sig enn frekar áfram og ástunduð viss tilraunastarfsemi sem vonandi skilar sér í betri heildarmynd.

Hluti fjárveitingarinnar fer í að greiða fyrir 50% stöðugildi verkefnastjóra átaksins sem hingað til hefir verið unnið af Ólafi Guðsteini Kristjánssyni. Hann mun gegna starfinu fram til loka janúar en þá er áformað að annar aðili taki við starfi verkefnastjóra. Verður staðan því auglýst bráðlega. Séu einhverjir þegar áhugasamir má hafa samband í gegnum nýtt netfang átaksins: gis@frmst.is eða símleiðis hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða í gegnum 456-5025.

Vert er og að benda á að nú þegar hefir orðið breyting á starfseminni. Ákveðið var að fjölga hefðbundnum viðburðum átaksins og á nú hraðíslenska (stefnumót við íslensku) og Þriðja rýmið sér stað tvisvar í mánuði. Svo er unnið að dagskrá sem nær til áramóta en vert er þegar að geta þess að sérstök áhersla verður lögð á 16. nóvember, Dag íslenskrar tungu.

Við hjá Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag hlökkum til að hefja nýjan kafla í starfi átaksins og hvetjum eftir sem áður alla til að leggja sitt lóð á vogarskálina.

Sædís María Jónatansdóttir

Ákall um betri samgöngur á Vestfjörðum 

Innviðafélag Vestfjarða kynnti í gær „Vestfjarðalínuna“ en það er sérstakt átaksverkefni um betri samgöngur á Vestfjörðum. Það er ákall um gerð sérstaks samgöngusáttmála fyrir Vestfirði þar sem samgöngum er lyft á viðunandi stall á næstu 10 árum.

Á fundinum sem haldinn var í Hörpu ráðstefnu- og tónlistarhúsi, tónlistarhúsi í tengslum við Arctic Circle ráðstefnuna sem þar fer nú fram, kynnti Guðmundur Fertram Sigurjónsson forstjóri Kerecis og forsvarsmaður Innviðafélagsins framtíðarsýn þess um betri samgönguinnviði Vestfjarða. Einnig var opnaður sérstakur upplýsingavefur verkefnisins sem ber heitið „Vestfjarðalínan“. 

Framtíðarsýn um betri samgönguinnviði Vestfjarða vísar til öflugra heilsárstenginga milli atvinnusvæða á Vestfjörðum, öruggari samgangna frá öllum þéttbýlissvæðum, og vegurinn frá höfuðborgarsvæðinu til Vestfjarða yrði að mestu leyti láglendisvegur.

Vestfjarðalína er ákall um gerð sérstaks samgöngusáttmála fyrir Vestfirði þar sem samgöngum er lyft á viðunandi stall á næstu 10 árum. Það kallar á jarðgangagerð og umfangsmiklar vegabætur sem styttir ferðatíma, eykur umferðaöryggi og dregur úr viðhaldsþörf.

Guðmundur nefndi á fundinum að Vestfjörðum myndist gríðarleg verðmæti í fjölmörgum atvinnugreinum. „Síðustu ár hafa nýsköpun, frumkvöðlastarf og nýjar atvinnugreinar stuðlað að efnahagsævintýri á Vestfjörðum, en árlegar tekjur 100 stærstu fyrirtækjanna á svæðinu uxu úr 43 milljörðum í 92 milli 2018-2022 sem þjóðin öll nýtur góðs af í gegnum auknar útflutnings- og skatttekjur. Sterkir innviðir eru forsenda áframhaldandi uppbyggingar á svæðinu með tilheyrandi aukningu lífsgæða og framlagi til þjóðarbúsins.“ 

„En betur má ef duga skal. Vilji þjóðin njóta áfram góðs af vexti atvinnulífs Vestfjarða og auka skatttekjur eru afgerandi samgöngubætur nauðsynlegar. Með framkvæmd Vestfjarðalínu yrði dregið úr þeim aðstöðumun sem fjórðungurinn býr við í samgöngumálum. Einungis þannig geta Vestfirðir vaxið og dafnað. Nauðsynlegar vegabætur auka umsvif, bæta mannlíf og auðvelda fólki að sækja Vestfirði heim,“ segir Guðmundur Fertram.

„Það er mat okkar hjá Innviðafélagi Vestfjarða að með breyttu viðhorfi og nálgun í uppbyggingu samgönguinnviða megi flýta framkvæmdum, finna leiðir til fjármögnunar og forgangsraða með sanngjörnum hætti,“ segir Guðmundur Fertram. „Innviðauppbygging samgangna Vestfjarða yrði þannig tekið sem eitt samstillt verkefni. Markmiðið er að hugað verði í senn að tengingu suður-og norðurhluta svæðisins sem og uppbyggingu láglendisvegar frá Vestfjörðum að höfuðborgarsvæðinu.““

Á næstu vikum mun Innviðafélag Vestfjarða halda opna fundi um samgöngumál á Vestfjörðum. Fyrsti fundurinn er fyrirhugaður 7. nóvember nk. með öllum framboðum til komandi þingkosninga. Þá boðar félagið til fundar um efnahags- og skattaspor Vestfjarða 21. nóvember.

Ríkisborgarapróf

Próf í íslensku fyrir umsækjendur um íslenskan ríkisborgararétt eru haldin tvisvar á ári, að vori og hausti (Icelandic tests for applicants for Icelandic citizenship (Icelandic passport)).

Á Ísafirði verður hægt að taka próf hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða  miðvikudaginn 20. nóvember 2024.

Mímir sér um framkvæmd ríkisborgaraprófa fyrir Menntamálastofnun og tekur við skráningum á heimasíðu sinni. 

Skráningu lýkur mánudaginn 28. október. 

Ekki er hægt að skrá sig í próf eftir að skráningarfrestur rennur út og skráning er ekki gild nema gengið hafi verið frá greiðslu. 

Starfsfólk svæðisstöðva íþróttahéraða á fundi með ráðherra

Föstudaginn 11. október hittist starfsfólk svæðisstöðva íþróttahéraða á fundi á Hótel Varmalandi í Borgarfirði, í tengslum við sambandsstjórnarfund UMFÍ. Á fundinn mættu einnig fleiri úr starfsliði bæði ÍSÍ og UMFÍ, meðal annars framkvæmdastjórar beggja samtaka.
Svæðisstöðvarnar eru átta talsins um allt land og eru tvö stöðugildi á hverjum stað. Búið er að ráða í allar stöður og er starfsemi stöðvanna hafin.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra mætti á fundinn og átti gott samtal við starfsfólkið. Ráðherra er ötull talsmaður verkefnisins sem tengist náið þeim markmiðum sem fram koma í lögum um farsæld barna, íþróttalögum, íþróttastefnu ríkisins og byggðaáætlun. 
Á fundinum kom fram að ráðherra bindur miklar vonir við að þetta verkefni muni efla og styðja við íþróttastarf á landvísu. 
Megin markmið svæðisstöðvanna er að efla íþróttastarf og auka þátttöku allra barna og ungmenna með áherslu á þátttöku fatlaðra barna, barna af tekjulægri heimilum og barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. 

Nýjustu fréttir