Á vef Háskólaseturs Vestfjarða er vakin athygli á því að Háskólasetur Vestfjarða verður 20 ára í ár. Það var þann 12. mars 2005 að 42 stofnaðilar komu saman á stofnfundi og stofnuðu sjálfseignarstofnunina Háskólasetur Vestfjarða með því markmiði að hér risi háskóli. Stofnaðilar voru rannsóknarstofnanir sem starfa á svæðinu, opinberir aðilar, fyrirtæki og félög á svæðinu sem og allir háskólar landsins, sem voru níu talsins í þá daga.
Síðan þá hefur margt vatn runnið til sjávar og Háskólasetur Vestfjarða vissulega ekki orðinn háskóli með stóru H-i, en er engu að síður virkur hlekkur í íslenska háskólalandslaginu og einn af vitum þess úti á landi. Nú eru alltaf upp undir 80 nemendur skráðir í nám hjá HA á vegum Háskólaseturs Vestfjarða, nú eru á öllum tímum, allt árið í hring, um 80 nemendur búsettir á Vestfjörðum á vegum Háskólaseturs, um 15 stöðugildi hafa orðið til vegna Háskólaseturs, ekki bara þau á launaskrá, heldur líka stöðugildi í samstarfi við aðrar stofnanir, stundakennarar og þau stöðugildi sem eru eiginlega verðmætust, stöðugildin sem leggjast að, sem eru hér eingöngu vegna tilvist Háskólaseturs, t.d. starfsmenn bandaríska samstarfsskólans, doktorsnemar sem kjósa að starfa hér eða rannsóknarmaður Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar.
Ákveðið hefur verið að halda ársfund í ár þann 14. mars 2025 til að minnast eiginlegs stofndags og heiðra öll þau sem í þá daga börðust fyrir stofnun háskólastofnunar á Vestfjörðum og létu engan bilbug á sér finna. Í tengslum við ársfund og stofndag er stefnt að að halda opið hús í Vestrahúsi og afmælishátíð. Svo verður Háskólahátíð eins og árlega á þjóðhátíðardegi og ætli það verði ekki fleiri tækifæri til að halda hátíðlegt afmælisár.
„Árið 2024 stóð heldur betur uppúr hjá Reykhólahreppi. Byggðar voru 13 íbúðir á Reykhólum, þar af 3 raðhús og 1 einbýli, önnur eins uppbygging hefur ekki átt sér stað síðustu áratugi. Mikil eftirspurn hefur verið eftir leiguhúsnæði í sveitarfélaginu síðastliðin ár og munu íbúðirnar koma til með að mæta þeirri þörf.“
Þetta segir Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri í Reykhólahreppi aðspurð um hvað hafi staðið upp úr á síðasta ári.
Endurbygging hafnarinnar
„Endurbygging og stækkun Reykhólahafnar var að mestu kláruð á árinu, mikil bót fyrir Reykhólahrepp þar sem hugað var að því að mæta framtíðinni með stærð og orkuskiptum skipa og báta í huga. Verkefnið bætir einnig allt öryggi vegna starfsemi Þörungaverksmiðjunnar á höfninni sem er helsti notanda hafnarinnar.“
Þá nefnir Ingibjörg að í nóvember opnaði langþráð verslun á Reykhólum og líkamsræktarstöðin Grettir sterki fékk andlitslyftingu og ný tæki í samstarfi með Ungmennafélaginu Aftureldingu. „Þá hefur Vegagerðin unnið að því að ljúka við veglagningu á Vestfjarðarvegi 60 og taka úr notkun tvær einbreiðar brýr í sveitarfélaginu. Mikil uppbygging átti sér stað í Þörungamiðstöð Íslands, þar sem búnaður til ýmissa rannsókna var settur upp í húsnæði félagsins. Í Flatey hefur Orkubú Vestfjarða unnið að uppbyggingu húsnæðis vegna raforkunýtingar í eyjunni.
Utan þess hefur lífið gengið sinn gang, Guðmundur á Grund hélt uppá 70 ára afmælið með stæl og Árný Huld Haraldsdóttir var kjörin íbúi ársins.“
Nýtt þéttbýli í Króksfjarðarnesi
Ingibjög var innt eftir því hvernig nýja árið legðist í hana og hvað helst væi framundan.
„Árið 2025 leggst reglulega vel í mig. Það stendur ýmislegt til. Klára byggingu íbúða og koma þeim í leigu. Uppbygging hringrásarsamfélagsins í Reykhólahreppi heldur áfram, unnið verður að aðalskipulags- og deiliskipulagsbreytingum í tengslum við hana. Nýtt þéttbýli á Króksfjarðarnesi, stækkun hafnarsvæðis í Karley vegna fyrirhugaðra stækkunar á fyrirtækjum sem þar hafa aðsetur og mögulega tilkomu nýrra fyrirtækja. Þá stendur til að klára byggingu tveggja íbúða í Barmahlíð, breyta hluta heimavistar í Reykhólaskóla í félagsmiðstöð, setja upp gufubað í Grettislaug, leggja ljósleiðara í þorpið og halda áfram að éta upp viðhaldsskuld sveitarfélagsins gagnvart eigin fasteignum. Þá mun verkefnið Brothættar byggðir fara af stað með nýjum verkefnastjóra.
Það er nóg um að vera og mikið umstang í kringum allar þessar framkvæmdir og margt ótalið.“
Í gær, 06.01.2025, birtist frétt á bb.is þar sem Sigurður Jón Hreinsson, formaður Héraðssambands Vestfjarða (HSV), útskýrði að íþróttafélög væru með skráningar á iðkendum hjá sér allskonar, til þess að auka hlut sinn í lottógreiðslum. Skemmst er frá því að segja að þetta er ekki rétt hjá Sigurði. Það eru mjög mörg íþróttafélög sem hafa þessar skráningar eins réttar og unnt er, en það eru ekki öll íþróttafélög sem gera það.
Til þess að útskýra aðeins hvað lottógreiðslur eru er það þannig að frá íslenskri getspá renna tekjur til ÍSÍ vegna spilunar landsmanna í lottó og getraunum. Þessum tekjum er skipt á milli sérsambanda og íþróttahéraðanna. HSV er eitt af íþróttahéröðunum og fær greiddan skerf af þessum tekjum. Áður var þessum lottótekjum skipt til héraðssambandanna út frá iðkendatölum og félgasmannatali en var breytt á sl ári, m.a vegna þess að félög voru að senda inn rangar skráningatölur. Nú er úthlutað til héraðssambandanna miðað við höfðatölu hvers íþróttahéraðs fyrir sig. HSV skiptir svo hluta af þeim tekjum sem renna til íþróttahéraðsins á milli aðildarfélaga HSV. Til þess að fá greiddar út lottótekjur frá HSV þarf að uppfylla ákveðin skilyrði, t.d. að ársskýrslum félagsins sé skilað inn fyrir 31. maí ár hvert. Þessar greiðslur til íþróttafélaganna skiptast svo niður eftir lögum HSV þar sem segir:
70% miðast við fjölda iðkenda, yngri en 18 ára
20% miðast við fjölda iðkenda 18 ára og eldri
5% miðast við skráða félaga
5% er skipt jafnt á félögin
Hafa ber í huga að styrkjum frá sveitarfélögum er einnig skipt á milli félaganna eftir þessari reiknireglu.
Fyrsti formannafundur HSV var haldinn 14. nóvember 2024. Fyrir þann fund fengu allir formenn aðildarfélaga HSV send gögn um úthlutun lottógreiðslna. Við vöktum athygli á að skráning iðkenda (þá sérstaklega yngri en 18 ára) var greinilega ekki rétt. Á formannafundinum var þetta einnig rætt en var augljóst að formaður HSV sá ekki ástæðu til þess að fara í vinnu við að fá uppfærða skráningu enda HSV ekki lengur með starfsmann í vinnu.
Í kjölfarið sendi Þórir tölvupóst til ÍSÍ þar sem hann fékk upplýsingar að dóttir hans, 12 ára, var skráður iðkandi í einu af því félagi sem var augljóslega með ranga skráningu á iðkendafjölda. Margir aðrir sendu einnig beiðni um upplýsingar um slíkt hið sama. Kom á daginn að mjög mörg börn voru skráðir iðkendur hjá sama félagi, þrátt fyrir að hafa jafnvel aldrei stigið fæti inn á æfingu hjá því félagi og ekki hafa neina tengingu við það.
Það er rétt að skráning er allskonar. En árið 2023 var farið í markvissa vinnu við að laga skráningu á iðkendum svo þetta kæmi ekki upp, því vitað var að félög víðsvegar um land voru ekki að uppfæra skráningar hjá sér. Flest öll félög eru með svo til réttar skráningar. Það er ekkert óeðlilegt að skráning sé röng á plús eða mínus 10 krakka vegna þess að gleymst hefur að fjarlægja einhverja af lista sem eru hættir eða gleymst að bæta nýjum iðkendum við. En það er algjör undantekning að félag skrái iðkendur hjá sér sem hafa enga tengingu við félagið og ofskrái iðkendur um eitthvað nálægt 200 þegar heildarskráning er á bilinu 250 – 300 iðkendur.
Hjá Vestra var farið í mjög mikla vinnu við að uppfæra tölur til þess að þær væru sem réttastar. Slíkt hið sama var gert hjá Skíðafélagi Ísfirðinga. Það var gert vegna þess að ákall kom um bætta skráningu og með tilkomu notkunar á Sportabler átti ekki að vera hægt að „svindla“ svona. Það var því okkar trú að allir hefðu lagt í þessa vinnu til þess að skiptingin á opinberu fé væri rétt. Hinsvegar hefur komið á daginn að svo er ekki og var kallað eftir því 19. desember s.l. að farið væri strax í þá vinnu hjá þeim félögum sem höfðu ekki gert það til þess að leiðrétta skiptinguna fyrir seinni úthlutun ársins. Skemmst er frá því að segja að ekki hefur verið vilji til þess hjá stjórn HSV.
Þegar starfsmaður HSV fluttist yfir til Ísafjarðarbæjar skv. samstarfssamningi komu inn tveir starfsmenn UMFÍ á Vestfirði. Þetta eru svokallaðir svæðisfulltrúar. Þeirra hlutverk er að aðstoða íþróttahéröð og íþróttafélög við ýmiskonar mál sem þeirra aðkomu þarfnast við. Við höfum það staðfest frá þessum svæðisfulltrúum að þær hafa margsinnis boðist til að aðstoða stjórn HSV við að vinna úr málum og þar á meðal þessu máli er varðar iðkendafjölda íþróttafélaganna. Þeim erindum hefur ekki verið svarað og hafa þær því ekki komið að málunum, þrátt fyrir mikinn vilja til þess að gera það. Formaður HSV hefur ítrekað borið fyrir sig að ekki sé starfsmaður lengur á vegum HSV, en þarna eru tveir starfsmenn sem stjórn HSV getur fengið til þess að aðstoða sig við lausn á þessu máli, sem og öðrum sem enn þarfnast úrlausnar.
Þrátt fyrir að lottótekjur inn á svæðið séu miðað við höfðatölu þá er ekki endilega rangt að skipta tekjum innan héraðs út frá iðkendatölum, en þær iðkendatölur verða að vera réttar.
Þórir Guðmundsson, formaður barna- og unglingaráðs kkd. Vestra
Þrettándinn þann 6. janúar og er stytting á Þrettándi dagur Jóla og almennt kallaður Síðasti dagur Jóla. Upphaflega hét hann Opinberunarhátíð meðal Rómarkirkjunar og hefur verið tengdur ýmsum kristnum trúaratburðum. Hann var sem dæmi talin fæðingardagur Krists áður en sú trú fluttist yfir á 25. desember.
Á 4. og 5. öld fór að tíðkast að minnast fæðingarinnar þann 25. desember en skírnar Krists og Austurlandavitringanna 6. janúar. Formlega var ákveðið með það fyrirkomulag árið 567 á 2. kirkjuþinginu sem haldið var í Tours í Frakklandi.
Fram til ársins 1770 hvíldi á Þrettándanum helgi og var hann almennur frídagur en það ár var hann afhelgaður ásamt mörgum öðrum helgidögum sem tilheyrt höfðu Kaþólskum sið eins og Þriðja í Jólum,Þriðja í Páskum og Þriðja í Hvítasunnu og breytti þar með þessum þremur stærstu hátíðum kirkjunnar úr því að vera þríheilagar, það er að segja eiga sér helgi- og frídaginn þriðji í, yfir í tvíheilög eins og við þekkjum þær í dag að aðeins er eftir annar í.
Var þetta gert að undirlagi útsendara og ráðgjöfum konungs sem hingað komu til lands að kanna trúarlíf þjóðarinnar en þeir tilheyrðu strangtrúar siðabótarreglu svo ekki var við góðu að búast úr þeirri áttinni. Enda fannst þeim Íslensk alþýða lítt kristinn og hafa allt of mikið af almennum frídögum sem hún nýtti eigi til trúarlífs heldur litu á sem veraldlegt frí. Því fanst þeim engin ástæða til þess að Lúterska kirkjan væri að púkka upp á almenna frídaga alþýðufólks enda það ekki hlutverk hennar. Því afhelgaði konungur að þeirra ráðum fjölda helgidaga sem þá urðu ekki lengur almennir frídagar en einnig var þetta hluti þess að Danakonungur vildi koma á samræmdum helgi- og frídögum í öllu Danaveldi. Við það minnkaði mikið allt tilstand á þessum degi.
Hérlendis hefur þrettándinn öðru fremur verið lokadagur Jóla en eftir tímatals breytinguna árið 1700 munaði ekki miklu að hann bæri upp á sama dag og Jólin hefðu annars byrjað samkvæmt gamla Júlíanska tímatalinu. Íslendingar undu því illa að færa jólin til með þessarri tímatalsbreytingu og var til dæmis í fyrsta almanakinu eftir tímatalsbreytinguna sem Jón Árnason skálholtsbiskup gaf út 1707 sjö árum eftir breytinguna merkt við 5. janúar sem Jóladagurinn gamli og var hann alveg fram um 1900 kallaður Gömlu Jólin.
Sá ruglingur sem tímatalsbreytingin olli kann að valda því að sagnir þjóðtrú og siðir um Þrettándann, Jól og Nýársnótt svipar oft saman. Sagnir eins og að kýr öðlist mannamál selir kasti hamnum, að gott sé að sitja á krossgötum, leita spásagna og um vistaskipti Huldufólks. Á þrettándanum fer Kertasníkir síðastur Jólasveina frá mannabyggð aftur til fjalla og þar með lýkur Jólunum. En Jólasveinarnir tínast til fjalla einn á dag í sömu röð og þeir koma. Það er Stekkjarstaur fer fyrstur og svo koll af kolli uns Kertasníkir sem kemur á Aðfangadag fer þeirra síðastur á Þrettándanum.
Varðskipið Freyja hefur reynst sérlega vel þau rúmu þrjú ár sem það hefur verið í flota Landhelgisgæslunnar.
Skipið er vel tækjum búið og þar sem meðal annars að finna öflugar slökkvibyssur sem eru ákaflega afkastamiklar. Þær geta dælt um 7200 rúmmetrum af sjó á klukkustund og kastað vatninu um 220 metra frá skipinu.
Þennan búnað þarf reglulega að prófa og á dögunum voru slökkvibyssurnar ræstar sem er mikilvægt til að viðhalda þjálfun áhafnarinnar auk þess að kanna virkni búnaðarins.
Dælurnar eru sérlega kraftmiklar og knúnar áfram af aðalvélum skipsins. Mikilvægt er að áhöfnin geti brugðist við ef eldur kemur upp í skipum, eða á hafnarsvæðum um allt land.
Þetta verða fyrstu sumarbúðirnar í sögu UMFÍ ef frá eru taldar sumarbúðir sem ungmennafélögin starfræktu á árum áður víða um land.
Sumarbúðirnar eru hugsaðar fyrir 12 til 13 ára börn, fædd á árunum 2012 og 2013. Í búðunum fá þátttakendur tækifæri til þess að efla leiðtogahæfni sína og vinna með styrkleika og sjálfsmynd. Unnið er í nánasta umhverfi, fjörunni og þeirri náttúru sem umlykur Reyki. Einnig er íþróttahús og sundlaug á Reykjum.
Sumarbúðirnar verða í tvær vikur. Strákar og stálp verða þar frá mánudeginum 10. júní til fimmtudagsins 13. júní en stelpur og stálp hina vikuna á eftir, þ.e. 16. júní til fimmtudagsins 19. júní.
Við komuna á Reyki er þátttakendum skipt upp í herbergi og farið yfir dagskrá og fyrirkomulag.
Fjölbreytt dagskrá er alla vikuna þar sem útiveru, hreyfingu, samvinnu og samveru er fléttað saman. Starfsfólk sumarbúðanna býr yfir mikilli reynslu af því að vinna með ungmennum þar sem þau vinna öll í skólabúðum UMFÍ sem fara fram á staðnum yfir vetrartímann.
„Okkur langar að prófa nýjar nálganir og helst auðvitað til að nýta þessa frábæru aðstöðu í Skólabúðunum á Reykjum og bjóða ungmennum landsins að koma og eiga skemmtilega upplifun í Sumarbúðum UMFÍ,“ segir Sigurður Guðmundsson, forstöðumaður Skólabúða UMFÍ en nánari upplýsingar eru á heimasíðu UMFÍ
Eyrarkláfur ehf. hefur lagt fram matsáætlun til Skipulagsstofnunar vegna umhverfismats fyrir uppsetningu kláfs upp á Eyrarfjall ofan Ísafjarðar.
Byggja þarf 100 metra langan veg að byrjunarstöð kláfsins. Breidd vegarins veður um 7 metrar. Á svæðinu þarf síðan að byggja bílastæði fyrir 20 bíla og 2 rútur. Byggð verður byrjunarstöð fyrir ofan fjölbýlishús nr. 3-7 á Hlíðarvegi á svæði sem Eyrarkláfur hefur fengið af Ísafjarðarbæ. Hæð byggingarinnar er um 10 metrar auk kjallara. Stærð byggingar er áætlað um 300 m2. Á toppi Gleiðarhjalla verður reistur millistaur í 390 metra hæð yfir sjávarmáli þar sem jarðrask verður frekar lítið en þar þarf að steypa undirstöður undir stálmastur.
Á toppi Eyrarfjalls verður svo endastaur og endastöð kláfsins. Aðstaða á endastöð er biðsalur og stjórnstöð. Áætlað byggingarmagn endastöðvar er í kringum 2 – 300 m2. Í tengslum við endastöðina er fyrirhugað að reisa móttökusal og veitingastað og er áætlað að sú bygging verði um 7-800 m2 að stærð og tengd við biðsalinn með göngum til að verja fólk fyrir veðri og vindum. Gert er ráð fyrir að kláfurinn geti annað í kringum 500 manns á klst. Í hverri ferð komast 45 manns fyrir í kláfnum. Gert er ráð fyrir að reksturinn á kláfnum sé aðallega yfir sumartímann en þó hægt að hafa opið um helgar yfir vetrartímann ef veður leyfir. Eyrarfjall er í um 700 metrum yfir sjávarmáli. Áætlanir gera ráð fyrir að fluttir verða 29.000 manns á ári með kláfnum.
Allir geta kynnt sér matsáætlunina og veitt umsögn í gegnum Skipulagsgáttina eigi síðar en 4. febrúar 2025.
Togarinn Sirrý ÍS landaði 511 tonnum eftir 7 veiðiferðir í desember í Bolungavíkurhöfn.
Snurvoðabátarnir Ásdís ÍS og Þorlákur ÍS voru einnig á veiðum í mánuðinum. Ásdís ÍS kom með 115 tonn í 15 veiðiferðum og Þorlákur ÍS var með 117 tonn í 11 veiðiferðum. Frá Snæfellsnesi var dragnótabáturinn Bárður SH og landaði hann 85 tonnum eftir 5 veiðiferðir í byrjun desember.
Togarinn Jóhanna Gísladóttir GK landaði einu sinni í Bolungavík 29 tonnum af botnfiski. Annar togari Áskell ÞH lanndaði 94 tonnum í byrjun mánaðarins.
Sjöfn SH var á ígulkerjaveiðum og kom með 7,6 tonn eftir þrjá róðra.
Fjórir línubátar lönduðu afla í desember. Jónína Brynja ÍS var með 90 tonn eftir 10 róðra og Fríða Dagmar ÍS fór líka 10 róðra og landaði 103 tonnum. Indriði Kristins BA landaði einu sinni og var með 25 tonn. Loks var línubáturinn Páll Jónsson GK frá Grindavík með 97 tonn í einni löndun.
Sú óvenjulega staða var uppi í desember að íbúum landsins fækkaði í mánuðinum samkvæmt nýjum tölum frá Þjóðskrá. Skráðir íbúar voru 406.000 þann 1.janúar 2025 en höfðu verið 46 fleiri mánuði fyrr. Fækkun varð í nær öllum landshlutum. Aðeins var lítilsháttar fjölgun á höfuðborgasvæðinu og á Norðurlandi eystra.
Í Reykjavík fækkaði íbúum um 56. Á Suðurnesjum fækkaði mest eða um 101. Þar fækkaði mest í Reykjanesbæ um 60 og í Grindavík um 56 manns. Á Vesturlandi fækkaði bæði á Akranesi og í Borgarbyggð. Á Suðurlandi fækkaði um 14 manns.
Á Vestfjörðum fækkaði um 11 manns. Mesta breytingin varð í Ísafjarðarbæ, en þar fækkai um 14 manns. Hins vegar fjölgaði um 7 í Vesturbyggð og um 4 í Árneshreppi.
Mikil breytinga hefur orðið á eiginfjárstöðu Þórsberg ehf á Tálknafirði síðustu 10 árin. Fyrirtækið seldi á dögunum allan sinn kvóta fyrir 7,5 milljarða króna til Útgerðarfélags Reykjavíkur og miðað við efnahagsreikning 31.12. 2023 verður skuldlaus eign fyrirtækisins um 6,6 milljarðar króna að sölunni yfirstaðinni.
Þann 31. ágúst 2013 var eigið fé fyrirtækisins neikvætt um 546 m.kr. en í lok árs 2023 var það jákvætt um 2.950 m.kr. Staðan batnaði um 3,5 milljarða króna á einum áratug og reyndar enn meira sé tekið mið af því að söluverð aflaheimildanna er 3.368 m.kr. hærra en bókfært verð þeirra.
Við athugun á ársreikningum Þórsbergs sést að stærstur hlutinn af batnandi efnahag skýrist með verðhækkun á aflaheimildum á þessum tíma. En einnig skiptir máli að sum árin var góður hagnaður af rekstri, eignir voru seldar og tvisvar var hlutafé aukið og það greitt að mestu með veiðiheimildum.
Á árinu 2014 eru veiðiheimildir endurmetnar um 1.321 m.kr. sem tvöfaldar bókfært verðmæti þeirra. Við þá færslu eykst eigið fé. Það fór úr því að vera neikvætt um 546 m. kr. í það að vera jákvætt um 684 m.kr. Ári seinna lækkar það í 608 m.kr.
Á árinu 2015 og 2016 verða verulegar breytingar. Fiskvinnslu er hætt og bátur og kvóti í aflamarkskerfinu seldur. Í staðinn er keyptur kvóti og bátur í smábátakerfinu og stærstu eigendurnir leggja inn í Þórsberg útgerð krókaaflamarksbáts, Bergdís ehf. Verulegur hagnaður var af sölu kvótans, um 853 m.kr. og eigið fé Þórsbergs var í lok árs 2016 orðið 1.554 m.kr. og hækkaði um 900 m.kr. milli ára. Þá eru bókfærðar 762 m.kr. í veiðiheimildum sem koma til af samruna. Í félaginu Bergdísi eru hins vegar veiðiheimildir skráðar á 294 m.kr. Þarna munar 468 m.kr. sem er líklega verðhækkun veiðiheimilda.
Næst verða verulegar breytingar á árinu 2020 þegar Brim hf verður hluthafi í Þórsberg. Við það er selt nýtt hlutafé fyrir um 600 m.kr. og greitt með félaginu Grábrók, sem verður dótturfyrirtæki Þórsbergs.
Í næsta ársreikningi 2021 eru færða 468 m.kr. sem hækkun á verði veiðiheimilda og skýrt sem endurmat á veiðiheimildum dótturfyrirtækja. Loks má sjá að í síðasta ársreikningi sem er fyrir 2023 eru færðar 236 m.kr. vegna endurmats veiðiheimilda.
Samandregið þá virðast um 2,5 milljarðar króna af um 3,5 milljarða króna viðsnúningi á eiginfjárstöðu fyrirtækisins vera tilkomnar vegna endurmats eða verðhækkunar á veiðiheimildum, sem væntanlega endurspeglar verðþróunina síðasta áratuginn.
Salan á kvótanum til Útgerðarfélags Reykjavíkur bæti liðlega 3 milljörðum króna við, þar sem verðið á kvótanum er því sem nemur hærra en bókfærða verðið á veiðheimildunum.
Þróun sem ekki er lokið
Þetta eru miklar verðhækkanir á kvóta á aðeins einum áratug. Það væri skammsýni að ætla að þessari þróun sé lokið. Öðru nær sagan síðustu 30 árin hefur sýnt að verðið á veiðiheimildum heldur bara áfram að hækka. Fyrir 30 árum kom það mönnum í opna skjöldu að greitt var fyrir kvóta í Bolungavík meira en 100 kr. pr.kg af þorski. Það hafði verið talið óhugsandi. Nú eru greiddar um 5.000 kr. fyrir kg og það í krókaaflamarkskerfinu, sem er nokkuð ódýrara en í aflamarkskerfinu.
Það eru mikil verðmæti fólgin í veiðiréttinum. Það er líka rétt að árétta að það er vegna þess að dugmiklir útgerðarmenn standa að fyrirtækjunum og standa sig vel.
En það eru fleiri sem eiga mikilla hagsmuna að gæta. Í laxeldinu hafa stjónvöld viðurkennt rétt byggðarlaganna til nýtingar auðlindarinnar og arðs af starfseminni. Það sama á auðvitað við í fiskveiðunum. Byggðarlögin eiga skilyrðislausan rétt til nýtingar á fiskimiðunum og drjúgan skerf af því sem greitt er fyrir veiðiréttinn.
Vestfirðingar eiga mikið undir því að í þessum efnum verði umtalsverð viðhorfsbreyting.
Blómstrandi byggð blasir við á Vestfjörðum ef rétt er á málum haldið.