Miðvikudagur 2. apríl 2025
Síða 8

Sjálfstæðisflokkur: styðja Vatnsdalsvirkjun

Fundarboðendur Jens Garðar Helgason, varaformaður og Vilhjálmur Árnason, ritari. Á milli þeirra er starfsmaður þingflokksins. Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður flokksins forfallaðist vegna áríðandi þingstarfa.

Fram kom á opnum fundi Sjálfstæðisflokksins í Edinborgarhúsinu á Ísafirði í hádeginu í gær að bæð Jens Garðar Helgason, varaformaður flokksins og Vilhjálmur Árnason, ritari flokksins styðja hugmyndir um Vatnsdalsvirkjun í Vatnsfirði.

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri fór yfir umsókn Orkubúsins til Umhverfis- , orku- og loftalagsráðuneytisins þar sem farið er fram á að aflétta að hluta til friðunarskilmálum í Vatnsfirði svo unnt verði að taka Vatnsdalsvirkjun fyrir í rammaáætlun og láta gera umhverfismat fyrir 20 -30 MW virkjun í botni Vatnsfjarðar. Elías sagði að ef af þessu yrði myndi raforkuöryggi á Vestfjörðum aukast um 90%. Erindið er enn óafgreitt í ráðuneytinu þrátt fyrir að rúmlega eitt ár sé síðan það var sent.

Bæði Jens Garðar og Vilhjálmur voru fylgjandi því að verða við erindinu. Fram kom einnig hjá Jens Garðari að hann er almennt mjög gagnrýninn á rammaáætlunina sem tæki til þess að ákvarða virkjunarkosti og kvað hana ónýtt tól sem tæki alltof mörg ár.

Jens Garðar Helgason, varaformaður ræddi töluvert um orkumálin og taldi mikla þörf á frekari virkjunum. Nefndi hann að Landsvirkjun teldi þörf á 5.000 GWh fram til 2030 til viðbótar við núverandi orkuframleiðslu en í nýlegri tillögu stjórnvalda væri aðeins lagðir til nýir orkukostir upp á um 1.800 GWh. Vandinn væri einkum í því að regluverkið væri of viðamikið sem þýddi að það tæki 15 – 20 ár að koma virkjunarkosti til framkvæmda, vandinn væri að verulegu leyti heimatilbúinn.

Fundurinn var vel sóttur. Í framsöguerindum varaformanns og ritara var vikið að ýmsum málum svo sem áætlunarflugi til Ísafjarðar og var ekki talinn vafi á því að það yrði áfram heldur fremur spurning um hvernig.

Spurt var um nýtt kílómetragjald á bifreiðar og kom fram að Sjálfstæðisflokkurinn er heldur andvígur því og telur að um verði að ræða auknar álögur á landsmenn.

Á fundinum kom einnig fram andstaða við hækkun veiðigjalda í sjávarútvegi og sagði Jens Garðar að ríkisstjórnin hygðist hækka álögur á ferðaþjónustu og tvöfalda veiðigjaldið. Þá var rætt um innviðagjald á skemmtiferðaskip og breytingar á strandveiðkerfinu sem tryggja eiga 48 daga sókn hvers báts og komu fram áhyggjur af þessum áformum.

Boðið var upp á súpu og brauð á hádegisfundi Sjálfstæðisflokksins í Edinborgarhúsinu á Ísafirði.

Fundurinn var vel sóttur.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Gefum Skjaldhömrum séns: leiklestur

Að lesa leikrit er góð skemmtun hvað þá í góðra vina hópi. Verkefnið Gefum íslensku séns býður nú öllum er áhuga hafa að mæta til leiklestrar í Fræðslumiðstöðinni Ísafirði. Leiklesið verður leikritið Skjaldhamrar eftir Jónas Árnason. Leikritið hefur sterka vestfirska tengingu þó frjálslega sé farið með efnið. Leikurinn gerist í seinni heimstyrjöldinni hvar Bretar leita að þýskum njósnara sem talin er dyljast á Vestfjörðum. Leitin berst að Skjaldhamravita fyrir vestan hvar Kormákur vitavörður gætir vita og bús. Það verður heldur betur uppi fótur og fit nær Bretarnir mæta á þennan afskekkta stað. Bresku sendiboðarnir falla hins vegar bæði fyrir vitaverðinum og hinu heillandi vestfirska landslagi og til að gera langa sögu stutta má segja að hvort tveggja leggur bara breska heimsveldið einsog það leggur sig.
Leiklesturinn verður í Fræðslumiðstöðunni Suðugötu 12, Ísafirði

  Leiklestrinum verður skipt niður á tvö kveld eða sem hér segir:

Þriðjudaginn 1. apríl kl.19.30 – 21.30 

Fimmtudaginn 3. apríl kl.19.30 – 21.30. 

Aðgangur er ókeypis og öllum opin. 

Allir sem vilja fá tækifæri til að lesa og svo má líka bara mæta til að hlusta.

Vegagerðin: þungatakmörkunum aflétt á Djúpvegi

Frá Djúpvegi 61, Hestur í Hestfirði fyrr í þessum mánuði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Þeim sérstöku ásþungatakmörkunum sem hafa verið í gildi á Djúpvegi 61, frá Vestfjarðavegi 60 við Þröskulda til Súðavíkur var aflétt kl. 8:00 í morgun þriðjudaginn 25. mars. 2025.

ÍS 47 ehf fær leyfi fyrir eldi á frjóum lax í Önundarfirði

Matvælastofnun hefur tekið ákvörðun um útgáfu á breyttu leyfi Ís 47 ehf. til sjókvíaeldis í Önundarfirði. Breytingin heimilar eldi á 1.000 tonna lífmassa af regnbogasilungi og frjóum laxi í Önundarfirði en heimild til eldis á þorski er felld úr leyfinu samhliða breytingunni. Hámarkslífmassi verður óbreyttur, en eldisskilyrði breytast í samræmi við tilkomu frjós lax í rekstrarleyfið. Breytingin felur einnig í sér færslu svæðis frá Ingjaldssandi yfir á Hundsá, þannig að áfram eru einungis tvö eldissvæði í leyfinu.

Breytingin á rekstrarleyfinu tekur þegar gildi, en gildistími leyfisins helst óbreyttur gildir til 8. janúar 2037.

Heimilt er að kæra ákvörðun Matvælastofnunar um útgáfu á breyttu rekstrarleyfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og er kærufrestur einn mánuður frá birtingu auglýsingar Mast, sem var 24.3. 2025.

Ístækni smíðar karakerfi fyrir breskt fyrirtæki

Ístækni á Ísafirði og Flatfish Ltd. í Grimsby á Bretlandseyjum hafa skrifað undir samning um smíði á uppþýðingabúnaði ásamt sjálfvirku karakerfi sem tekur við hráefninu eftir uppþýðingu.


“Við hjá Ístækni erum hæstánægð með að Flatfish Ltd. hafi leitað til okkur með að smíða þessa lausn. Uppþýðingakerfið tryggir þeim fyrsta flokks meðhöndlun á hráefni þegar það fer í gegnum uppþýðingarfasann. Jafnframt er nýung við fyrri lausnir að bætt hefur verið við inndælingastútum á fyrstu metrum sem hráefnið fer í gegnum tankinn og tryggir þannig minni hættu á samfrosti. Búnaðurinn er nú þegar kominn í smíði og mun uppsetning fara fram í lok maí” segir Jóhann Bæring Gunnarsson framkvæmdastjóri Ístækni.


Nú þegar eru um 40 uppþýðingakerfi á markaðnum sem smíðuð hafa verið á Ísafirði í gegnum árin. Starfsmenn Ístækni hafa gríðaleg reynslu og þekkingu þegar kemur að því að þýða upp fisk og tryggja fyrsta floks meðhöndluná hráefninu. Hjá Ístækni starfa 26 manns sem framleiðir hágæða lausnir fyrir matvæla- og fiskiðnað.

Gat á kví í Patreksfirði

Mynd úr árshlutauppgjöri Icelandic Salmon.

Matvælastofnun barst tilkynning frá Arnarlaxi fimmtudaginn 20. mars um gat á nótarpoka einnar sjókvíar Arnarlax við Vatneyri í Patreksfirði.

Gatið uppgötvaðist við reglubundið neðansjávareftirlit og var viðgerð lokið samdægurs. Samkvæmt upplýsingum Arnarlax var gatið um 50 x 25 cm rifa á 20 metra dýpi. Í þessari tilteknu kví voru 117.133 laxar með meðalþyngd u.þ.b. 3 kg. Neðansjávareftirlit var síðast framkvæmt 23. febrúar sl. og var nótarpoki þá heill.

Matvælastofnun fyrirskipaði að kafað yrði í allar eldiskvíar á eldissvæðinu til að ganga úr skugga um að sambærileg göt væru ekki til staðar á öðrum eldiskvíum. Auk þess fyrirskipaði stofnunin að kafað yrði undir þessa tilteknu eldiskví í leit að mögulegum stroklax. Lögð voru út net í grennd við eldiskví í samráði við Fiskistofu til að fanga mögulegan stroklax. Enginn lax veiddist í net eða sáust við köfun undir kví.

Matvælastofnun hefur málið til rannsóknar og rannsakar m.a. hvort strok hafi átt sér stað og hvort Arnarlax hafi virkjað og farið eftir eigin verklagsreglum og viðbragðsáætlunum. Þegar rannsókn lýkur á atburðinum verður gefin út eftirlitsskýrsla um rannsóknina og hún birt á mælaborði fiskeldis á heimasíðu Matvælastofnunar.

Málþing um snjóflóð og samfé­lög á Ísafirði í maí

Ofanflóð 2025 er yfirskrift málþings um snjóflóð og samfélög sem haldið verður í Edinborgarhúsinu á Ísafirði dagana 5.-6. maí 2025.

Íslensk samfélög búa yfir mikilli seiglu, ekki síst gagnvart áföllum, líkt og í mannskæðum snjóflóðum á Flateyri og í Súðavík 1995 og í Neskaupstað 1974. En hvað er það sem myndar seiglu í samfélagi og virkar verndandi þegar náttúruhamfarir dynja yfir?

Á málþinginu verður sjónum beint að samfélögum á hættusvæðum, öryggi á vegum, uppbyggingu á ofanflóðavörnum í landinu og þeim áhrifum sem sú uppbygging hefur á þróun byggða.

Einnig verður fjallað um endurskoðun á mögulegri hættu undir varnargörðum og þann lærdóm sem dreginn hefur verið af snjóflóðunum sem féllu á varnargarða á Flateyri í janúar 2020, þar sem hluti flóðanna barst yfir garðana, og í Neskaupstað í mars 2023 þar sem snjóflóð lentu á varnargörðum og keilum.

Meðal fyrirlesara eru:

  • Bergþóra Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustusviðs Vegagerðarinnar
  • Harpa Grímsdóttir, deildarstjóri ofanflóðadeildar Veðurstofu Íslands
  • Elías Pétursson, formaður ofanflóðanefndar
  • Þóroddur Bjarnason, prófessor við HÍ
  • Halla Ólafsdóttir, dagskrárgerðarmaður á Ísafirði
  • Magni Hreinn Jónsson, fagstjóri ofanflóðahættumats hjá Veðurstofu Íslands
  • Edda Björk Þórðardóttir, dósent við Læknadeild HÍ og klínískur sálfræðingur
  • Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn
  • Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vestfjörðum.

Þá munu fyrrverandi framkvæmdastjórar sveitarfélaga fara yfir áskoranir sveitarfélaga vegna ofanflóðahættu fyrr og nú.

Skipuleggjendur málþingsins eru Ofanflóðasjóður, Veðurstofa Íslands, Vegagerðin, Almannavarnir, Samband íslenskra sveitarfélaga, Byggðastofnun, Verkfræðingafélag Íslands og Snjóflóðasamtök Íslands.

Yfir fimmtíu milljónir til frjálsra félagasamtaka

Kerlingafjöll - Ljósmynd Hugi Ólafsson

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur úthlutað rúmlega 54 milljónum króna í rekstrarstyrki til 25 frjálsra félagasamtaka sem starfa á málefnasviði ráðuneytisins á grundvelli umsókna og er það tæplega 4% heildarhækkun frá úthlutun síðasta árs. Hækkun almennra styrkja til félagssamtaka, án tillits til starfa þeirra í starfshópum, nemur 6,7%.

Markmið styrkjanna er að stuðla að opnum og frjálsum skoðanaskiptum um umhverfis- og auðlindamál og að efla almenna vitund um gildi umhverfismála. Ráðuneytið hefur veitt frjálsum félagasamtökum sem starfa að umhverfismálum rekstrarstyrki frá árinu 2000.

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Frjáls félagasamtök gegna lykilhlutverki í lýðræðisþjóðfélagi. Þau halda okkur við efnið á sviði umhverfismála, þau veita stjórnvöldum mikilvægt aðhald þegar þess þarf og sinna mikilvægum verkefnum á sviði fræðslu og vitundarvakningar. Rekstrargrundvöllur þeirra verður að vera sterkur. Ég hlakka til áframhaldandi samtals og samstarfs við umhverfisverndarsamtök og önnur félagasamtök á kjörtímabilinu.“

Hæstu styrkina fengu Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands sem fengu samtals tæplega helminginn af heildar upphæðinni.

Háafell kynnir áform um 4.500 tonna aukningu

Þriðjudaginn 25. mars mun Háafell kynna umhverfismatsferli sem stendur yfir er varðar stækkun um 4.500 tonn að hámarkslífmassa.

Kynningin fer fram í í Bryggjusalnum í Edinborgarhúsinu og verður kl 17.00.

Auk þess að fara yfir umhverfismatið munu forsvarsmenn Háafells fara yfir stefnu og nálgun Háafells er varðar eldið almennt og er þetta því kjörið tækifæri til þess að fræðast nánar útí starfsemi fyrirtækisins.

Alþjóðlegt þaraverkefni í Strandabyggð

Hólmavík í Strandabyggð. Mynd: Jón Jónsson.

Verkefni fyrirtækisins Fine Foods Íslandica ehf og samstarfsaðilar hefur hlotið rúmlega 10 milljón króna styrk frá Evrópusambandinu til að styðja við framkvæmd IceKelp verkefnisins 2024-2026.

Verkefnið er samstarf Fine Foods Íslandica ehf., Háskólaseturs Vestfjarða og Strandabyggðar, sem kemur að verkefninu sem opinber ábyrgðaraðili. Markmiðið er að hanna líkan fyrir sjálfbæra þararækt og blátt hagkerfi í dreifbýli.

Verkefnaáætlunin var kynnt af Fine Foods Íslandica ehf fyrir sveitarstjórn Strandabyggðar í nóvember 2024 sem samþykkti að styðja við verkefnið. Meðal markmiða verkefnisins eru:

  • Að eiga samskipti við hagsmunaaðila á staðnum með upplýsingafundum og opnum vinnustofum um þararækt.
  • Að miðla fræðslu og þekkingu varðandi þararækt í Strandabyggð.
  • Að stunda rannsóknir á líffræðilegum fjölbreytileika í tengslum við þararæktun.

Þorgeir Pálsson sveitarstjóri er fulltrúi Strandabyggðar. Jamie Lee hjá Fine Foods Íslandica ehf. er framkvæmdastjóri verkefnisins og ber rekstrarlega ábyrgð á verkefninu. Hún, ásamt Bergsveini Reynissyni hjá Nesskel ehf. munu miðla sinni þekkingu, og veita þjálfun í verklegri framkvæmd.

Háskólasetur Vestfjarða stendur fyrir rannsóknum á líffræðilegum fjölbreytileika í kringum þararæktun og mun Alexandra Tyas, fjórða árs Ph.D. nemandi í fornleifafræði við Háskóla Íslands stýra rannsóknum á líffræðilegri fjölbreytni.

Dr. Catherine Chambers er fulltrúi Háskólaseturs Vestfjarða og sér um að upplýsa hagsmunaaðila varðandi þær rannsóknir.  Fine Foods Íslandica hefur unnið mikla rannsólknarvinnu að undanförnu og verður sú vinna notuð sem grunnur í rannsóknir Háskólaseturs Vestfjarða.

Styrkurinn mun standa undir mestum kostnaði við verkefnið og Fine Foods Íslandica ehf. mun einnig leggja fram um 2,5 milljónir króna til að mæta ófyrirséðum útgjöldum sem geta komið upp. 

Íbúum Strandabyggðar verður boðið á opinn fund í Hnyðju fimmtudaginn 27. mars kl 16.00-17.30, þar sem verkefnið í heild sinni verður kynnt fyrir áhugasömum.

Nýjustu fréttir