Síða 8

Mósaíkhekl á Ísafirði

Ef þig langar til að læra að hekla mósaíkmunstur er um að gera að mæta í Heimabyggð 7. mars kl. 18:00-20:00

Mósaík munstur eru ótrúlega skemmtileg og einföld hekl munstur sem hægt er að nota í allskonar verkefni.

Á námskeiðinu er kenndur grunninn og tæknin í mósaíkmunstur hekli.

Námskeiðið er ætlað þeim sem kunna aðeins að hekla og henta því ekki algjörum byrjendum, þá er nóg að kunna bara grunninn: loftlykkjur, fastalykkjur og stuðla.

Kennarinn er Tinna Þórudóttir Þorvaldar sem hefur heklað og stundað hannyrðir síðan hún man eftir sér. Hún hefur gefið út 3 heklbækur, þær Þóru, Maríu og Havana, og ritstýrt þeirri fjórðu, Heklfélaginu. Hún er þaulreynd í heklkennslu og hefur haldið heklnámskeið sl. 15 ár og kennt mörg hundruð nemendum handtökin.

Náttúruverndarstofnun er með starfsemi og þjónusta vítt og breitt um landið

Náttúruverndarstofnun tók til starfa um áramót og fer með stjórnsýslu og eftirlit sem og önnur verkefni á sviði náttúruverndar, líffræðilegrar fjölbreytni og sjálfbærrar þróunar, friðlýstra svæða, þ.m.t. þjóðgarða, verndar villtra fugla og spendýra og veiðistjórnunar.

Náttúruverndarstofnun rekur átta gestastofur um allt land. Fimm þeirra eru staðsettar í Vatnajökulsþjóðgarði, tvær í Snæfellsjökulsþjóðgarði og ein á Ísafirði. Gestastofurnar þjóna sem hlið inn á friðlýst svæði og þjóðgarða og veita gestum margvíslega þjónustu og upplýsingar. Einnig eru landvörslustöðvar og skrifstofur á gestastofunum.

Auk gestastofanna eru landvörslustöðvar á láglendi og hálendi víðs vegar um landið. Starfsemi þeirra er háð árstíðum en landvarsla gegnir lykilhlutverki í að tryggja verndun náttúrunnar og góða upplifun gesta á friðlýstum svæðum.

Náttúruverndarstofnun annast veiðistjórnun villtra fugla og spendýra. Í því fellst áætlanagerð, alþjóðlegt samstarf og þjónusta við veiðimenn.

Höfuðstöðvar Náttúruverndarstofnunar eru á Hvolsvelli en starfsfólk stofnunarinnar vinnur einnig á skrifstofum víðs vegar um landið. Flest störf eru á landsbyggðinni en yfir 100 manns starfa hjá stofnuninni að jafnaði. Á sumrin fjölgar í hópnum með landvörðum og þjónustufulltrúum sem bætast við til að mæta auknum gestafjölda.

Sextíu milljónir í námsefni um hvali og hafið

Marianne Helene Rasmussen, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík, og samstarfsfólk hennar hefur fengið veglegan styrk til að búa til stafrænt námsefni um hafið sem byggjast mun m.a. á myndefni úr rannsóknarleiðangrum um norðurhöf.

Styrkurinn nemur 400.000 evrum, jafnvirði um 60 milljóna króna.

Styrkurinn kemur frá Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins og er vegna verkefnisins „Visual Storytelling for Ocean Education (ViSOE): developing an innovative digital resource to facilitate ocean education training, based on visual, personal stories from an Arctic sailing expedition“. 
Markmið ViSOE-verkefnsins að er leggja kennurum til nýstárlegt og myndrænt námsefni sem styrkir þekkingu og vitund nemenda um hafið og lífið í því. Námsefnið, sem verður aðgengilegt á netinu, verður bæði nýtt í kennaranámi og þá ætla aðstandendur þess einnig að þróa stutt námskeið um efnið fyrir starfandi kennara. Kennsluefnið er hugsað fyrir 12-14 ára nemendur og verður á ensku til að byrja með en markmiðið er að þýða það líka yfir á Norðurlandamálin.

Verkefnið kemur í kjölfar annars verkefnis sem Marianne vann að með hluta hópsins og naut stuðnings Nordplus-áætlunarinnar. „Þar notuðum við sýndarveruleika til þess að gefa nemendum innsýn í líf hvala og þá mengun sem ógnar þeim í heimshöfunum. Þar byggðum við m.a. á gögnum úr rannsóknaskipinu Barba. Við verðum ekki með sýndarveruleika í nýja verkefninu en munum byggja að hluta til á efninu sem þróað var í fyrr verkefninu,“ segir Marianne.

Þar að auki verður bætt við efni sem byggist á rannsóknarleiðagri sem er að hefjast. „Andreas Heide og samstarfsfólk í Barba-verkefninu (barba.no) leggur af stað í siglingu frá Skervöy í Norður-Noregi eftir um tvær vikur og mun safna myndbandsefni og öðru efni tengdu hafinu fyrir verkefnið á næstu mánuðum á svæðum þar sem háhyrningar og hnúfubakar eiga fæðustöðvar. Þau hafa fengið lánaða neðansjávarhljóðnema hjá okkur á Rannsóknarsetrinu á Húsavík og munu vonandi safna upptökum af hljóðum hvalanna sem geta nýst í kennsluefnið,“ segir Marianne og bætir við að starfsfólk Rannsóknasetursins hafi áður unnið með Andreas og efni úr því samstarfi verði einnig nýtt við þróun kennsluefnisins.

Fiskistofa tilkynnir um afnám línuívilnunar

Fiskistofa hefur birt á heimasíðu sinni tilkynningu um að frá og með 5. mars verði felld niður línuívilnun í þorski.  Við ákvörðunina styðst stofnunin við reglugerð um þorskveiðar.   

Landssamband smábátaeigenda segist munu halda áfram að þrýsta á ráðherra um að auka við þorskheimildir til línuívilnunar.  

Það var verulegt áfall fyrir útgerðir dagróðrabáta sem stóla á línuívilnun að heimildir til hennar hafi minnkað jafnt og þétt undanfarin ár.  Nú milli fiskveiðiára úr 1.215 tonnum í 800 tonn.

Alls hafa 49 bátar nýtt sér línuívilnun það sem af er fiskveiðiárinu gerðir út frá 28 stöðum.

Staða línuívilnunar 4. mars samkvæmt heimasíðu Landssambands smábátaeigenda

Grásleppan úr kvóta !

Þau ólög um grásleppuveiðar sem sett voru á Alþingi í fyrra vor fólu í sér  dæmigerða sérhagsmunagæslu fyrir þá  sem lengi hafa barist  fyrir kvótasetningu grásleppunnar og framsali veiðiheimilda. Það hefði hörmulegar afleiðingar fyrir þá grásleppusjómenn sem hafa verið að fjárfesta í greininni undanfarin ár. Ætla sér að stunda veiðar til framtíðar en ekki braska með veiðiheimildir og selja sig út úr greininni. Sumir munu neyðast til að selja vegna lítillar úthlutunar en aðrir bíða eftir því að geta selt.

Vondar afleiðingar blasa við.

Veruleikinn sýnir  að fjöldi útgerða fær úthlutað svo litlum aflaheimildum að það borgar sig ekki að halda til veiða. Ef grásleppusjómenn veiða hins vegar ekki 50  prósent af litilli úthlutun missa þeir aflahlutdeildina varanlega. Þannig er sett pressa á fjölda grásleppusjómanna  að selja sig út úr greininni.  Þetta eru oft  aðilar sem ætluðu sér að stunda veiðarnar til frambúðar og fjárfest hafa í búnaði sem verður verðlaus. Þetta er ekkert annað en eignaupptaka gagnvart fjölda minni útgerða.

Engin stærðarmörk báta leiða til samþjöppunar.

Lögunum var breytt þannig að nú eru engin stærðarmörk á bátum sem mega veiða grásleppu.  Það kallar á  áframhaldandi samþjöppun og færslu aflaheimilda á stærri skip. Þetta kippir fótunum undan smábátaútgerðinni sem  í áratugi hefur  stundað þessar veiðar við strendur landsins, skapað tekjur og verðmæt störf og styrkt grundvöll minni útgerða í sjávarbyggðunum.

Fjöldi grásleppusjómanna sviptur atvinnu.

Fjöldinn allur af grásleppusjómönnum hefur frá því þessi ólög voru sett í fyrra kallað eftir að  lögunum verði breytt til fyrra horfs. Þannig að  fjárfestingar og mikil samlegðaráhrif með strandveiðum geti nýst  brothættum sjávarbyggðum landsins og aflaheimildir lendi ekki í höndum stórútgerðarinnar eins og allt stefnir í að óbreyttu.

Málsókn yfirvofandi.

Það er krafa stórs hóps grásleppusjómanna að LS fyrir þeirra hönd hefji málsókn á hendur ríkinu vegna þessa óréttar sem þeir eru beittir með eignaupptöku og  sviptingu atvinnufrelsis til veiða í kjölfarið. Ríkið gæti orðið skaðabótaskylt sem væri verri kostur en að bregðast við þeim skaða sem löggjöfin veldur fjölda útgerða og sjávarbyggðum.

Réttur sjávarbyggðanna til auðlindanýtingar.

Eins og áður sagði höfum við sem barist höfum fyrir öflugri smábátaútgerð fengið  ákall um að afnema þessi ólög.  Nú þegar Flokkur fólksins hefur tryggt 48 daga í strandveiðum með sinni öflugu ríkisstjórn verður að taka þessa óvönduðu löggjöf um grásleppuveiðar til endurskoðunar.  Hana verður að endurskoða áður en það verður of seint !

Samspil grásleppu- og strandveiða  styður og eflir smábátaútgerð á ársgrundvelli. Samþjöppun í sjávarútvegi hefur verið gífurleg undanfarin mörg ár. Það er ekki góð þróun að örfáir aðilar hafi  bróðurpartinn af sameiginlegri sjávarauðlind landsmanna á sinni hendi. Rétt sjávarbyggðanna til atvinnufrelsis í sínu nærumhverfi verður að tryggja.

Lilja Rafney Magnúsdóttir þingmaður Flokks fólksins NV kjördæmi.

Vísindaport: Kynning á Arctic protein – Pelagia

07.03.2025 kl. 12:10 Vísindaport – Háskólasetur Vestfjarða

Í vísindaporti að þessu sinni fáum við til okkar góðan gest, hann Tómas Rúnar Sölvason, forstjóra Arctic Protein.

Hann mun kynna fyrirtækið Arctic Protein – Pelagia, fara stuttlega yfir sögu fyrirtækisins hér á Íslandi, lýsa vörunni sem verið er að vinna með (melta), lýsa hvernig melta er áframunnin í dag og einnig snerta á þeim möguleikum sem við eigum hér á íslandi í að nýta meltu.

Tómas Rúnar Sölvason er fæddur og uppalinn í Bolungarvík, hann flutti aftur heim árið 2021 eftir búsetu erlendis. Hann er með Ms.c í vélaverkfræði frá KTH í Stokkhólmi þar sem hann bjó í 5 ár, fyrst til náms og síðan í vinnu hjá vörubílaframleiðandanum Scania. Áður en hann hóf störf hjá Arctic Protein – Pelagia 2024 vann hann hjá Marel sem vélahönnuður í vöruþróun í 7 ár“

Erindið fer fram á kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða og hefst kl. 12.10. Erindinu er einnig streymt í gegnum zoom hlekk og má finna hann hér https://eu01web.zoom.us/j/69947471079

Erindið fer fram á íslensku

Kveðjur á stórafmæli Háskólaseturs Vestfjarða

Á vordögum 2005 kom undirritaður á stofnfund Háskólaseturs Vestfjarða, sem fulltrúi rannsóknastofnana, en Hafrannsóknastofnun hafði þá um árabil haft mikilvæga starfsstöð á Ísafirði og starfsemi í Vestrahúsinu. Alls voru stofnaðilar 42 talsins, þ.a.m. Hafrannsóknastofnun. Í kjölfarið sat ég í fimm manna stjórn Setursins, m.a. fyrir hvatningu Einars K. Guðfinnssonar, þáverandi sjávarútvegsráðherra, og var ég hluti stjórnar sem fulltrúi rannsóknastofnana allt til ársins 2013.

Það má með sanni segja að seta í stjórn Háskólaseturs hafi verið afar ánægjuleg, bæði vegna frábærra félaga í stjórninni og afbragðs starfsfólks, en ekki síður vegna þeirrar starfsemi, sem þá var í vændum og þess eldmóðs sem til staðar var fyrir verkefninu. Í stjórninni sat í upphafi einvala lið, sem brann fyrir vöxt og viðgang setursins, þau Halldór Halldórsson, sem allan minn tíma var formaður stjórnar, Hjálmar H. Ragnarsson fulltrúi háskólastigsins, Kristján G. Jóakimsson sem tilnefndur var af aðilum vinnumarkaðarins og síðast en ekki síst Soffía Vagnsdóttir sem kosin var af aðalfundi fulltrúaráðs setursins. Síðar á þessum átta árum mínum í stjórn setursins komu um tíma frá háskólunum þeir Þorsteinn Gunnarsson og Skúli Skúlason, og Jóna Finnsdóttir, sem tók sæti Soffíu árið 2009. Það var alltaf gleði og gaman á stjórnarfundum Setursins.

Fyrsta verkefni stjórnar var að ráða forstöðumann og var Dr Peter Weiss fyrir valinu. Peter er bæverskur að uppruna, en hafði áður kennt málvísindi og bókmenntir við Háskóla Íslands, leiddi einnig starf Tungumálamiðstöðvar HÍ og gegndi stöðu forstöðumanns við Goethe Zentrum í Reykjavík. Peter hlaut doktorsgráðu með ritgerð um hugmyndasögu í málvísindum frá háskólanum í Greifswald í Þýskalandi og meistaragráðu með ritgerð í málvísindum frá háskólanum í Kiel.

Þó mikið úrval umsækjenda hafi verið um starf forstöðumanns, verður það að segjast að það var mikill happafengur að fá Peter til starfa. Vissulega var öll hans menntun og bakgrunnur áhugaverður okkur stjórnarmönnum, en það sem svo áberandi var í hans hugsun og fari, var ástríðan og einlægur áhugi hans fyrir starfinu og fyrir Vestfjörðum (sem hann gjarnan kallar Bestfirði), og áskorunum sem í því fólust. Og þess vegna ekki síst varð Peter fyrir valinu.

               Á fyrri stigum undirbúnings Háskólaseturs, voru uppi háværar kröfur um að stofnaður yrði sjálfstæður háskóli á Ísafirði, annað væri gagnslaust. Þau sjónarmið voru þó ofan á að ekki væri skynsamlegt að bæta í fjölda hérlendra háskóla – í harðri samkeppni landa á milli mætti frekar telja að háskólarnir sem fyrir væru á Íslandi væru of litlir til að skila árangri. Og úr varð að stofna Háskólasetur með bakland í öðrum háskólum landsins, en nýta m.a. styrkleika svæðisins til að þróa námsleiðir til meistarprófs. Þar kom fyrst til námsleið í Haf- og strandsvæðastjórnun, síðar námsleið í Sjávarbyggðafræðum. Jafnframt gegndi Háskólasetur Vestfjarða frá upphafi hlutverki sem þjónustumiðstöð fyrir fjarnám á svæðinu og tenging háskóla landsins við Vestfirði, miðstöð þjónustu fyrir rannsóknaraðila, og stuðningur við vettvangsskóla og sumarnámskeið á Vestfjörðum. Þá hefur alla tíð verið markmið Háskólaseturs að styðja og þjónusta starsemi rannsóknastofnana á svæðinu og vera vettvangur nýsköpunar og þróunar, einkum í tengslum við atvinnulífið.

Núna tveimur áratugum síðar, sjáum við hve vel hefur til tekist með val á námsleiðum og starfseminni allri, þar sem megin tilganginum um að stuðla að sterkara samfélagi á Vestfjörðum, hefur náðst. Á Ísafirði hefur fræðasamfélagið stækkað að mun og búseta stórra árganga aðkominna nema hefur á hverju ári sett sterkan svip á bæjarlífið og hagkerfið.

Vestfirðingar og aðstandendur Háskólaseturs geta litið stoltir um öxl og horft til bjartrar framtíðar, enda liggur í augum uppi að þessi þekkingar- og menntakjarni á Ísafirði er kominn til að vera, landi og þjóð til heilla.

Jóhann Sigurjónsson, fyrrv. forstjóri Hafrannsóknarstofnunar

Ísafjarðarbær: gjaldfæra 16,8 m.kr. framlög til íþrótta

Frá skíðasvæði Ísfirðinga.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt auka afskrift eignasjóðs að fjárhæð kr. 16.826.204, á fjárhagsárinu 2024, vegna framlaga til uppbyggingasamninga.

Um er að ræða 13,6 m.kr. framlög til uppbyggingar á skíðasvæðinu á árunum 2015 – 2022, 1,6 m.kr. framlög til strandblakvallar á árunum 2015- 2018 og sama fjárhæð til hjólagarðs á árinu 2021.

Í minnisblaði bæjarritara sem lagt var fyrir bæjarráð segir að í upphæðinni sé fullafskrift á gámi á skíðasvæði sem var keyptur í samvinnu við Skíðafélagið og er kominn í hrakvirði. Í dag eru gámar afskrifaðir að fullu og því hefur þessi tiltekni gámur verið afskrifaður.
Engin stofnun nýtir strandblakvöllinn og er því ekki um tekjuberandi eign að ræða og tímabært að fullfyrna þá eign.

Arna: nýr framkvæmdastjóri

Gunnar B. Sigurgeirsson hefur verið ráðinn í starf framkvæmdastjóra Örnu ehf. Gunnar tekur við starfinu af Hálfdáni Óskarssyni, stofnanda félagsins, sem lætur  nú af starfi framkvæmdastjóra  að eigin ósk. Hálfdán mun áfram sitja í framkvæmdastjórn og leiða framleiðslu og vöruþróun félagsins í Bolungarvík. Arna hóf framleiðslu á mjólkurvörum í Bolungarvík árið 2013.

Í fréttatilkynningu segir að Gunnar komi með víðtæka reynslu úr rekstri leiðandi fyrirtækja á matvælamarkaði. Hann starfaði í 16 ár í Ölgerðinni, fyrst sem framkvæmdastjóri markaðssviðs en síðar sem aðstoðarforstjóri. Gunnar sinnti þar fjölbreyttum verkefnum, m.a. uppbyggingu eigin vörumerkja félagsins. Þar á undan starfaði hann sem markaðs- og sölustjóri Nóa Síríusar. Gunnar er með B.Sc. gráðu í matvælafræði og M.Sc. gráðu í hagfræði.

,,Það gleður mig að bjóða Gunnar velkominn til starfa sem framkvæmdastjóra Örnu. Gunnar hefur sýnt í sínum fyrri störfum að hann er öflugur leiðtogi með mikla þekkingu úr matvælageiranum. Þekking hans og reynsla mun styrkja félagið í áframhaldandi vexti á mjólkurmarkaði.” segir Hálfdán Óskarsson. 

,,Arna hefur náð frábærum árangri á krefjandi markaði. Saga fyrirtækisins er virkilega skemmtileg og Hálfdán og samstarfsfólk hans hafa sýnt mikla framsýni og dugnað við að byggja það upp, m.a. með framúrskarandi vöruþróunarstarfi. Ég er fullur tilhlökkunar að vinna með stjórn og starfsfólki Örnu að framgangi félagsins, “ segir Gunnar B. Sigurgeirsson.

Arna ehf. er framsækið matvælafyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun og framleiðslu á hágæða mjólkurvörum. Fyrirtækið er með framleiðslu í Bolungarvík og starfsstöð á Tunguhálsi í Reykjavík og hjá því starfa um 40 manns. 

Arna Lára: stóra verkefnið að tryggja flugsamgöngur

Arna Lára Jónsdóttir, alþm.

„Þetta eru alvarlegar fréttir fyrir íbúa og fyrirtæki á norðanverðum Vestfjörðum. Það er alveg ljóst að það verður stóra verkefnið að tryggja flugsamgöngur við svæðið og að ekki verði rof á þjónustu.  Það verður að líta til þess að flugið er í raun einu almenningssamgöngurnar og margir íbúar eru algjörlega háðir þessari þjónustu. Vestfirðingar eiga mikið undir að sækja nauðsynlega þjónustu til höfuðborgarsvæðisins sem ekki er í boði á landsbyggðinni og má þar nefna helst heilbrigðisþjónustu.“

Þetta segir Arna Lára Jónsdóttir, alþm. aðspurð um viðbrögð hennar við ákvörðun Icelandair um að hætta áætlunarflugi til Ísafjarðar haustið 2026.

eyða óvissu sem fyrst

„Stjórnvöld í samstarfi við heimamenn verða að vera samhent í því að leita lausna og eyða óvissunni sem fyrst. Það er ekki langur tími sem við höfum til stefnu. Skoða þarf málið frá ýmsum þáttum má þarf nefna vélarkosti, flugvallarstæði og þjónustuaðila.

Það ætti að vera rakið viðskiptadæmi að þjónusta íbúa og vaxandi atvinnulíf á Vestfjörðum ef innviðir svæðisins eins og flugvellir myndu styðja við slíkan vöxt.“

Nýjustu fréttir