Laugardagur 19. apríl 2025
Heim Blogg Síða 8

Vestfirðir: íbúafjölgun umfram landsmeðaltal

Súðavík. Sveitarfélagið er til húsa í þessu húsi. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson..

Íbúum með lögheimili á Vestfjörðum hefur fjölgað um 0,3% síðustu fjóra mánuði, sem er umfram landsmeðaltalsfjölgun á sama tíma. Fjölgunin á landsvísu var 0,2% frá 1. desember 2024 til 1. apríl 2025.

Mest var fjölgunin á Suðurlandi 0,6% og síðan 0,3% á höfuðborgarsvæðinu og á Vestfjörðum. Veruleg fækkun varð á tveimur landssvæðum. Á Suðurnesjum fækkaði íbúum um 0,8% og um 0,7% á Austurlandi.

Á Vestfjörðum fjölgaði um 22 íbúa og þar af varð 13 manna fjölgun í Súðavík sem gerir 5,8% fjölgun á þessum fjórum mánuðum. Er það mesta hlutfallslega fjölgunin á landinu á þessum tíma.

Þá fjölgaði um 8 manns í Vesturbyggð en í Strandabyggð fækkaði um 6 manns.

Auglýsing

Hvalárvirkjun: seinkun í Hæstarétti hefur ekki áhrif

Sú ákvörðun Hæstaréttar að seinka málflutningi fyrir réttinum til haustins hefur ekki áhrif á undirbúning Vesturverks segir Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi HS Orku og Vesturverks.

Hún segir að verið sé að ljúka skipulagsferli fyrir undirbúningsframkvæmdum, sem eru einkum slóðagerð vegna jarðvegsrannsókna á Ófeigsfjarðarheiði og uppsetning  smærri vinnubúða. Búið er að auglýsa deiliskipulagsbreytingar vegna undirbúningsframkvæmdanna og verið að vinna úr tveimur umsögnum sem bárust frá Náttúrufræðistofnun og Minjastofnun.

Í sumar verður unnið að fornleifaskráningu á framkvæmdasvæðinu í samræmi við umsagnirnar og að undirbúningsframkvæmdum eftir því sem unnt verður.

Næsta skref verður að sækja um framkvæmdaleyfi til sveitarstjórnar Árneshrepps fyrir undirbúningsframkvæmdunum.

Birna sagði að miðað við áætlanir Vesturverks ætti seinkunin fyrir Hæstarétti ekki að valda seinkun á framvindu málsins. Verði niðurstaða Hæstaréttar neikvæð mun það ekki hafa úrslitaáhrif á áform um byggingu Hvalárvirkjunar en getur þó orðið til þess að breyta þarf tilhögun virkjunarinnar fari svo að vatnasvið hennar skerðist í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar.

Auglýsing

Myndlistarsýning: manstu þegar andardrátturinn festist í blöðrunni?

Sýning í Mjólkurbúðinni á Akureyri. Föstudagur 11. apríl kl. 17:00
Listatvíeykið Blik saman stendur af Ólöfu Dómhildi Jóhannsdóttur og Solveigu Eddu Söebech Vilhjálmsdóttur.

Á sýningunni leiða listakonurnar saman verk sín sem eru í formi málverks, ljósmynda, skúlptúra og innsetninga í marglaga samtal um viðkvæmni, efni og mörk. Solveig Edda sýnir olíumálverk, skúlptúra og innsetningu, en Ólöf Dómhildur ljósmyndaverk unnin með bleki í anda handmálunnar, skúlptúra og innsetningu, ljósmyndir teknar á Vestfjörðum og norðurlandi. Verkin vinna með tengsl yfirborðs og dýptar, efnis og upplausnar, hins sýnilega og þess sem leynist undir.

Sýningin opnar með gjörningi þar sem vatn, ljós og hreyfing hafa áhrif á upplifun áhorfandans á yfirborðinu. Í gjörningnum kanna listakonurnar mörk með því að dýfa höfði í vatn – þar sem augnablikið á milli öndunar og kyrrðar verður að táknmynd tilverunnar.

Solveig Edda

Listakonur ólust upp í Reykjavík, en fluttu vestur á Ísafjörð á fullorðins árum og starfa þar í myndlist meðfram öðrum störfum. Leið þeirra liggur nú norður að sýna afrakstur síðustu 2 ára. Með sýningunni vilja þær skapa rými fyrir hugleiðingu og dýpri tengingu í gegnum efni, ljós og næmni – bæði áhorfanda og rýmis.

Blik sameinar tveggja áratuga reynslu Ólafar og Solveigar í myndlist. Hvor um sig hefur sérhæft sig í sínum miðli Ólöf, ljósmyndun og Solveig, málverki, en í sameiginlegum verkum þeirra í Blik verða þessi miðlar hluti af opnu samtali þar sem næmni, efni og umbreyting eru í forgrunni.

Ólöf Dómhildur.


Staður: Mjólkurbúðin Kaupvangsstræti 12, 600 Akureyri.
Opnun föstudagur 11. apríl kl. 17:00 Léttar veitingar verða í boði.
11.–19. apríl 2025 kl. 14-17 alla daga
Aðgangur ókeypis og er opin öllum

facebook viðburður
https://fb.me/e/5sWTaFwix

Auglýsing

Fossavatnsgangan: elsta skíðagöngumót Íslands 90 ára

Mynd: Haukur Sigurðsson / Fossavatnsgangan

Fossavatnsgangan á Ísafirði, elsta og stærsta skíðagöngumót Íslands, fagnar 90 ára afmæli um þessar mundir.

„Fyrsta gangan var haldin á annan í páskum árið 1935, keppendur voru sjö talsins og gengin var um 18 kílómetra leið,“ segir Kristbjörn Róbert Sigurjónsson, starfsmaður Fossavatnsgöngunnar. „Það hefur auðvitað mjög margt breyst á þessum 90 árum, fjöldi þátttakenda er nú alla jafna á bilinu 450-600 manns og gengnar eru þrjár vegalengdir í aðalkeppninni auk þess sem hliðarviðburðum hefur verið bætt við dagana fram að stóru göngunni.“

Kristbjörn, eða Bobbi, eins og hann er alltaf kallaður, segir gönguna vera hápunkt tímabilsins hjá mörgu skíðagöngufólki. „Gangan er haldin svo seint að hún markar í raun lok tímabilsins og er því á sama tíma nokkurs konar uppskeruhátíð skíðagöngufólks eftir æfingar og keppnir vetursins.“

Að sögn Bobba eru þátttakendur fjölbreyttur hópur enda eru göngur í boði fyrir allan aldur og getu.

„Í ár eru um 460 þátttakendur frá samtals 25 löndum skráðir til leiks. Þetta er góð blanda af afreks- og áhugafólki, krökkum sem æfa gönguskíði og fullorðnum trimmurum.“

Leikar hefjast með NæturFossavatninu á miðvikudaginn og halda áfram á fimmtudag þegar KrakkaFossavatnið, FjölskylduFossavatnið og Fossavatnsskautið fara fram. Á laugardaginn er svo keppt í 12,5, 25 og 50 km Fossavatnsgöngu.

Ljósmynd frá 1936 fannst

Í tengslum við afmæli göngunnar hefur ýmsum gögnum úr sögu hennar verið safnað, einkum ljósmyndum. Nú á dögunum fannst svo ljósmynd sem ekki var vitað af, og er hún dagsett árið 1936. Myndin kemur úr fórum ísfirska skíðakappans Péturs Tryggva Péturssonar (1903-1996) og sýnir níu þátttakendur í Fossavatnshlaupinu eins og það var kallað. Þeir eru við Fossavatn standandi á tréskíðum. Allt voru þetta karlar, íklæddir pokabuxum og því sem nú til dags myndi flokkast sem snyrtilegur skrifstofuklæðnaður. Sigurvegarinn varð Magnús Kristjánsson sem sigraði raunar fyrstu fjórar keppnirnar.

Hægt verður að fylgjast með úrslitum í Fossavatnsgöngunni á www.timataka.net

Auglýsing

Rakel María ÍS 199

Rakel María ÍS 199. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson

Rakel María ÍS 199 frá Bolungarvík siglir hér út úr höfninni í Keflavík um árið en hún var smíðuð í Noregi árið 1990.

Báturinn, sem er 9,45 BT að stærð, hefur borið ýmis nöfn í gegnum tíðina en heitir í dag Eva Björt ÍS 86 og er með heimahöfn á Þingeyri.

Af vefsíðunni skipamyndir.com

Auglýsing

Menntaskólanemar í heimsókn í Finnlandi

Nemendur í háriðn eru þessa dagana staddir í heimsókn hjá Novia, samstarfskóla MÍ í Espoo í Finnlandi.

Novia er stór framhaldsskóli með samtals um 10.000 nemendur og er boðið upp á fjölmargar verknámsbrautir sem fara fram í nokkrum byggingum eða útibúum („campus“). Umhverfið er því nokkuð frábrugðið því sem nemendur hafa fengist að kynnast í MÍ.

Í skólaheimsókninni eru fjórir nemendur og með þeim í för Margrét Skúladóttir kennari.

Nemendurnir hafa fengið að kynnast og spreyta sig á ýmsum hár- og höfuðmeðferðum í kennslustundum, en einnig fengið að skoða umhverfið utan veggja skólans. Brá hópurinn sér sem dæmi í göngutúr í þjóðgarðinum Nuuksio sem einnig er staðsettur Espoo. 

Í haust munu nemendur í háriðn frá Novia koma í heimsókn í MÍ og mögulega fleiri skóla.

Auglýsing

Strandveiðar 2025 – breyting á reglugerð

Smábátar í höfninni á Vatneyrinni á Patreksfirði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í dag var birt í Stjórnartíðindum reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 460/2024 um strandveiðar og eru helst breytingar þær að umsóknir um leyfi til strandveiða skulu berast Fiskistofu fyrir 22. apríl ár hvert og skal í umsókn tilgreina upphafsdag strandveiða innan strandveiði­tímabils skv. 1. mgr. 2. gr.

Á eftir 2. málsl. 4. mgr. koma tveir nýir málsliðir sem verða 3. og 4. málsl., svohljóðandi: Um borð í hverri strandveiðiferð skal vera einn einstaklingur sem er lögskráður á skipið og á að lágmarki beint eða óbeint í gegnum lögaðila, meira en 50% eignarhlut í skipinu.

Eignar­hald skips ræðst af skráningu í skipaskrá Samgöngustofu og eignarhald lögaðila miðast við skráningu raunverulegs eiganda hjá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra og á eftir 1. málsl. 5. mgr. kemur nýr málsl. sem verður 2. málsl., svohljóðandi: Eigandi lögaðila sem er lögskráður á fiskiskip á strandveiðitímabilinu skv. 1. mgr. 2. gr. skal eiga meira en 50% í lögaðilanum.

Við 5 grein reglugerðarinnar bætist að skráning aflaupplýsinga við strandveiðar fer fram samkvæmt ákvæðum reglugerðar um stafræna skráningu og skil aflaupplýsinga, nr. 307/2023. Við vigtun á hafnarvog skal löggiltur vigtarmaður tengja saman aflaskráningu við það auðkenni sem aflaupplýsingar strandveiðibáts hefur fengið með stafrænni skráningu og skilum skipstjóra úr hverri veiðiferð.

Auglýsing

Fundaferð Bændasamtakanna og atvinnuvegaráðherra

Fundaferð Bændasamtaka Íslands og atvinnuvegaráðherra hófst í gær með vel sóttum fundum í Félagslundi í Flóa og í Holti á Mýrum.

Trausti Hjálmarsson, formaður BÍ, og Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra sátu fyrir svörum á fundunum sem bera yfirskriftina Frá áskorunum til lausna.

Nýliðun í landbúnaði, framtíð stuðningskerfis og tollamál voru meðal þeirra málefna sem brenna hvað mest á bændum. Fundargestum gefst tækifæri til að skrá sig til þátttöku í rafrænum umræðuhópum í rannsókn sem unnin verður á vegum atvinnuvegaráðuneytisins.

Markmið fundaferðarinnar er að fá fram hugmyndir bænda til að finna raunhæfar lausnir fyrir framtíð íslensks landbúnaðar.

Fundaröðin heldur áfram í dag og fram til 9. apríl. Dagskráin er eftirfarandi:

8. apríl

  • Kl. 12:00 – Barnaskólinn á Eiðum
  • Kl. 20:00 – Félagsheimilið Breiðamýri, Þingeyjarsveit

9. apríl

  • Kl. 10:00 – Félagsheimilið Hlíðarbær, Akureyri
  • Kl. 14:30 – Félagsheimilið Blönduós
  • Kl. 20:00 – Hótel Hamar, Borgarnes

Fundir í Reykjavík og á Vestfjörðum verða auglýstir síðar.

Allir sem láta sig framtíð landbúnaðar varða eru hvattir til að mæta og taka þátt í samtalinu.

Auglýsing

Torfnes: ný sölubúð í smíðum

Nýja sölubúðin í smíðum. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bygging á nýrri sjoppu fyrir á Torfnessvæðinu hófst í marsmánuði, en undirbúningur hófst strax s.l. haust. Efla sá um að teikna viðbygginguna og eru það Vestfirskir Verktakar sem sjá um bygginguna. Byggingarvinna hefur gengið vel og vonast er til að geta hafið sölu úr nýju byggingunni í apríl, jafnvel í fyrsta heimaleik í Bestu deildinni sem verður sunnudaginn 13.apríl. Við vonumst til að húsið verið þá komið upp, með gluggum og hurðum þó að það verði ekki klárt að innan. Þetta verður gríðarleg upplyfting fyrir svæðið og gerir alla vinnu í kringum heimaleikina auðveldari, öll aðstaða verður mun betri og ekki síður verður hún betri fyrir áhorfendur. Kostnaðurinn er að mestu greiddur af „sjoppu/sjálfboðaliðasjóði“ ef svo má að orði komast, þ.e. öll innkoma sjoppunnar árið 2024 hefur farið í þennan byggingarsjóð og verður þannig áfram. Við sjáum fyrir okkur að innkoma sjoppunnar þetta árið og jafnvel næstu ár fari í kostnaðinn við að klára húsið að innan næsta vetur. Það er alls konar kostnaður sem fellur til í þessu þar sem við viljum hafa þetta upp á tíu, t.d. þurfum við að fjárfesta í kæliskápum, frystiskápum, stólum, borðum o.s.frv. Til viðbótar fékk knattspyrnudeildin uppbyggingarsamning við Ísafjarðarbæ upp í kostnað við uppbyggingu á sjoppunni sem við erum gríðarlega þakklát fyrir.

Það er mikilvægt að taka það fram að ef það væri ekki fyrir sjálfboðaliðana í félaginu og velunnara, þá værum við ekki í þessu verkefni. Knattspyrnudeildin vill þakka öllum þeim sjálfboðaliðum og velunnurum kærlega fyrir alla þá aðstoð og vinnu sem þeir hafa lagt til fyrir félagið og við vonum innilega að við höfum áfram þeirra aðstoð og stuðning. Þegar hugmyndin að þessari byggingu kom, þá lögðumst við í allskonar pælingar, t.d. hvað á byggingin að heita, hvað eigum við að selja þarna sem jafnvel fæst ekki annars staðar. Við leituðum fljótt til dyggra Vestrafélaga þeirra heiðurshjóna Jóa Torfa og Helgu, en eins og flestir bæjarbúar vita þá ráku þau sjoppuna Vitann til fjölda ára og var þar uppáhald margra, hinn margrómaði rækjuborgari. Þau tóku virkilega vel í hugmyndirnar okkar og höfum fengið leyfi hjá þeim til að nota nafnið og merkingarnar þeirra og erum við spennt fyrir því að þróa þá hugmynd áfram – Hver veit nema þú getir kíkt í Vitann að nýju og gætt þér gómsætum rækjuborgara. Þeir sem hafa áhuga á að leggja þessu verkefni lið með styrkjum, geta lagt inn á 0556-26-004108 kt. 4108972619. Áfram Vestri !

Sif Huld, Tinna Hrund og Guðný Stefanía

Auglýsing

Þjónustubreytingar hjá Póstinum á Hólmavík

Breytingar verða gerðar á þjónustu Póstsins á Hólmavík þann 29. apríl næstkomandi þegar
þjónustan flyst úr Sparisjóði Strandamanna yfir í Krambúðina, Höfðatúni 4. Þjónustan verður
að mestu með óbreyttu sniði.
„Við erum ávallt að leita leiða til að þróa þjónustuna í takt við breyttar þarfir og kröfur
neytenda samhliða hagkvæmum rekstri,“ segir Kjartan Flosason, forstöðumaður pósthúsa.
„Við höfum fundið fyrir mikilli ánægju viðskiptavina með sjálfvirkar afhendingarleiðir. Því
munum við bæta við afhendingarleiðum á borð við Póstbox og heimsendingu á Hólmavík og
teljum að þær viðbætur verði íbúum til hægðarauka.“
Að lokum þakkar hann Sparisjóðnum gott samstarf. „Við þökkum Sparisjóði Strandamanna
kærlega fyrir gott samstarf í gegnum árin og hlökkum um leið til komandi samstarfs með
Krambúðinni.“
Hvernig verður þjónustan á Hólmavík eftir breytingarnar?
Afgreiðsla Póstsins í Krambúðinni er opin alla virka daga kl. 11:00-15:00, þar er hægt að
póstleggja og fá afhent og kaupa frímerki og umbúðir.
Póstbox er staðsett við Krambúðina og þar er hægt að sækja og senda pakka. Til að senda
með Póstboxi þarf að skrá sig í Póst-appið eða á Mínar síður á posturinn.is og setja inn
kortaupplýsingar. Hægt er að áframsenda SMS-skilaboðin til að fá einhvern annan til að
sækja í Póstbox.
Pakkasendingar er hægt að fá sendar í Póstbox, í afgreiðslu eða keyrðar heim að dyrum.
Bréfum er dreift tvisvar í viku og þeir sem eru með pósthólf munu fá bréfasendingar sínar
afhentar í Krambúðinni. Hægt er að kaupa frímerki og umbúðir í Krambúðinni og póstkassi
verður við búðina svo hægt er að póstleggja bréf þar.
Landpóstaþjónusta helst óbreytt og bréfum og pökkum áfram dreift tvisvar í viku í
nærliggjandi sveitir.
Á posturinn.is má finna ítarefni og upplýsingar um fjölbreytta þjónustu Póstsins. Auk þess er
viðskiptavinum velkomið að hafa samband við þjónustuver í síma 580 1000 eða í gegnum
netspjall á heimasíðunni.

Auglýsing

Nýjustu fréttir