Laugardagur 7. september 2024
Síða 79

Sjómannadagurinn í Bolungavík

Kjarkmiklar stelpur sátu á planka og slógust með belgjum. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Um helgina voru vegleg hátíðahöld í tilefni sjómannadagsins víða um Vestfirði. Á Patreksfirði voru fjögurra daga hátíðahöld með fjölbreyttum dagskrárliðum. Þá var á Suðureyri mikið um að vera og m.a. var Hilmar Gunnarsson sæmdur heiðursmerki sjómanna og var athöfnin í sjómannadagsmessu í Suðureyrarkirkju.

Hilmar Gunnarsson. Mynd: aðsend.

Í Bolungavík hófust hátíðahöld á föstudaginn og stóðu fram á sunnudag. Á laugardaginn var gott veður og léttskýjað og mikill mannfjöldi var samankominn á Brjótnum.

Björgunarsveitin Ernir sýndi húsakynni sín og tækjakost.

Aðstaða sveitarinnar er hin glæsilegasta og tækjakostur öflugur.

Gestum og gangandi var boðið upp á grillaðan fisk og lax í húsakynnum Fiskmarkaðarins og var löng röð við pönnurnar.

Fiskurinn var vinsæll.

Eldað var á tveimur risastórum pönnum.

Muggi fyrrverandi hafnarstjóri á Ísafirði var mættur á heimaslóðir og ræddi við Flosa Jakobsson.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri var á vaktinni og sá til þess að allt gengi snurðulaust fyrir sig.

Þeir hugrökku hlupu eftir brettunum að slöngubátnum.

Tap hjá Harðarmönnum á helginni

Hörður frá Ísafirði laut í lægra haldi fyrir KFR, 2-4, er liðin mættust á laugardaginn á Hvolsvelli í 5. deild karla.

Hörður komst yfir á 4 mínútu eftir sjálfsmark hjá Stefáni Bjarka Smárasyni en KFR jafnaði á 17 mínútu með marki frá Helga Val Smárasyni.

KFR komst svo eftir um 10 mínútna spil í seinni hálfleik með marki frá Bjarna Þorvaldssyni.

Á 74 mínútu fékk svo Davíð Hjaltason hjá Herði sitt annað gula spjald og voru heimamenn ekki lengi að nýta sér það að vera manni fleiri og komust í 3-1 fimm mínútum síðar með öðru marki Helga Vals í leiknum.

Helgi Hrannar Guðmundsson minnkaði muninn fyrir Hörð á 83 mínútu en KFR gerði út um leikinn í uppbótartíma með marki frá Aroni Birki Guðmundssyni.

Eftir leikinn er Hörður í 5. sæti með 6 stig og á næst leik 8. júní á móti Afríku en leikurinn fer fram á Ísafirði.

Skipstjórnarmenn: vilja hvalveiðar

Hvalveiðibátur á siglingu.

Félag skipstjórnarmanna samþykkti á aðalfundi sínum á föstudaginn áskorun til matvælaráðherra um að heim­ila nú þegar hval­veiðar. Vísað er til þess að hvalir éta árlega milljónir tonna af áti og fiskmeti og að stækkun hvalastofna hafi áhrif á fiskistofna með þeim afleiðingum að engin loðnuvertíð hafi verið síðasta vetur. Þá tapist milljarðar króna árlega í útflutningstekjum ef hvalveiðar verða ekki leyfðar.

Hafrannsóknarstofnun hefur ekki breytt ráðgjöf sinn og leggur til við mat­vælaráðherra að veidd verði 161 langreyður í sum­ar. Stofnunin segir að langreyði hafi fjölgað jafnt og þétt við Ísland frá upp­hafi hvala­taln­inga árið 1987 og hafi fjöldi dýra árið 2015 verið sé mesti frá því taln­ing­ar hóf­ust, en ráðgjöf­in bygg­ist á þeirri taln­ingu.

Einn ríkisstjórnarflokkanna, Framsóknarflokkurinn hélt flokksþing sitt í aprílmánuði og ítrekaði stefnu sína varðandi hvalveiðar. Þar segir:

„Framsókn styður sjálfbærar veiðar á hvölum á meðan þær eru heimilar samkvæmt lögum. Líkt og með aðrar atvinnugreinar þarf að tryggja fyrirsjáanleika í atvinnugreininni fyrir þá sem hana stunda og að starfað sem samkvæmt lögum.“

Vestri vann í Laugardalnum

Unnið var í gær að því að leggja púða undir gervigrasið á Kerecis vellinum. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Knattspyrnulið Vestra í Bestu deildinni lék í gær „heimaleik“ gegn Stjörnunni. Þar sem Kerecis völlurinn er ekki tilbúinn enn var leikið í Laugardalnum á velli Þróttar í Reykjavík.

Þrátt fyrir að leika í raun á útivelli léku Vestramenn á alls oddi og áttu góðan leik. Eftir aðeins 8 mínútna leik var Vestri búinn að skora tvö mörk. Daninn Jeppe Gertsen og Svíinn Johannes Selvén skoruðu mörkin. Stjarnan minnkaði muninn fljótt en þá skoraði Silas Songani þriðja markið og kom Vestra í 3:1. Aftur Skoraði Stjarnan fyrir hálfleik og minnkaði muninn. Í síðari hálfleik héldu Vetramenn aftur af sóknartilraunum Stjörnunnar og bættu við fjórða markinu um miðbik hálfleiksins þegar Toby King  skoraði glæsilegt mark. Lauk leiknum því 4:2 sem er glæsilegur árangur.

Nú verður gert hlé á mótinu vegna landsleikja og gefst Vestra þá kærkomið tækifæri fyrir meidda leikmenn til þess að jafna sig, en hópurinn er nokkuð laskaður um þessar mundir.

Árangur liðsins sem nýliða í efstu deild er því enn eftirtektarverðari en ella vegna meiðsla og vallarvandræða.

Liðið er í 9. sæti Bestu deildarinnar með 10 stig eftir 9 leiki og er fimm stigum fyrir ofan fallsæti.

Vonir standa til þess að unnt verði að leika á Ísafirði fyrsta heimaleikinn þann 22. júní þegar Valsmenn koma í heimsókn.

Forseti Íslands: þjóðin mun sameinast nýkjörinn forseta

Halla Tómasdóttir, vinir og ættingjar í Skálvík fyrir nokkru.

Halla Tómasdóttir hlaut langflest atkvæði í almennri kosningu ´laugardaginn um nýjan forseta lýðveldisins Íslands. Hlaut hún 73.182 atkvæði og 34,1% greiddra atkvæða. Næst henni kom Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra með 53.980 atkvæði og 25,2% atkvæða. Alls greiddu 215.635 atkvæði og var kjörsókn 80,8%.

Halla fékk flest atkvæði allra tólf frambjóðenda í öllum sex kjördæmum landsins. Í Norðvesturkjördæmi fékk Halla Tómasdóttir 30,1% atkvæða og var það lægsta hlutfall hennar í kjördæmunum sex. Katrín Jakobsdóttir var með 24,3% og munaði 1.063 atkvæðum á þeim. Halla Hrund Logadóttir varð í þriðja sæti í Norðvesturkjördæmi með 23,5% atkvæða.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands sendi í gær Höllu heillaóskir og þar segir m.a. :

„Þú tekur við embætti sem Íslendingum þykir afar vænt um. Þjóðin kaus sín ólíku forsetaefni eins og vera ber en mun núna sameinast um að styðja þig og styrkja til góðra verka. Það sýna fyrri fordæmi og við Eliza verðum alltaf boðin og búin að veita ykkur stuðning á vandasömum vettvangi. Við hjónin vonum sömuleiðis að ykkur muni líða vel hér á Bessastöðum. Hér er gott að búa.“

Halla Tómasdóttir hóf kosningabaráttu sína um páskana með fundum á Vestfjörðum, en hún á ættir að rekja til Meiri Bakka í Skálavík.

Innviðaráðherra Svandís Svavarsdóttir vill ekki breyta forgangsröðun jarðganga

Svandís Svavarsdóttir, innviðaráðherra.

Lagt hefur verið fram á Alþingi svar Svandísar Savarsdóttur, innviðaráðherra við skriflegri fyrirspurn Maríu Rut Kristinsdóttur (C) varaþingmanni Viðreisnar í Reykjavík um uppbyggingu jarðganga.

María Rut spurði hvort til greina kæmi að flýta áætluðum framkvæmdum við Súðavíkurgöng samkvæmt jarðgangaáætlun Vegagerðarinnar „í ljósi þeirra aðstæðna sem íbúar Súðavíkur og nágrennis búa við vegna snjóflóða- og aurskriðuhættu?“.

Í framangreindri áætlun, sem gildir fyrir árin 2024 – 2038 er jarðgöngum milli Ísafjarðar og Súðavíkur raðað í 5. sæti og er ekki veitt til þeirra fjármagni til rannsókna og undirbúnings. Mun því samkvæmt tillögunni ekkert vera aðhafst til undirbúning jarðgöngum fyrr en eftir 2038.

Ráðherra segir í svari sínu að  forgangsröðunin taki mið af markmiðum samgönguáætlunar um greiðar, öruggar, hagkvæmar og umhverfislega sjálfbærar samgöngur og jákvæða byggðaþróun. Vísað er til þess að Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri hafi metið alls 18 jarðgangakosti með tilliti til þessara þátta og við forgangsröðunina hafi verið tekið tillit til þess hversu brýn verkefnin væru talin vera.
„Ráðuneytið telur að veigamikil rök þyrftu að koma til þess að breyta forgangsröðun jarðganga frá þeirri áætlun sem kemur fram í tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 og byggist á framangreindri vinnu.“ segir í svari ráðherra.

Svandís Svavarsdóttir var einnig innt eftir því hvort hún hefði íhugað að flýta jarðgöngum um Mikladal og Hálfdán „til að tryggja íbúum svæðisins jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu og flugsamgöngum allan ársins hring?“

Svarið við seinni spurningunni er einnig ótvírætt:

„Ekki hafa komið fram neinar upplýsingar sem réttlæta breytingu á forgangsröðun jarðgangakosta enda er forgangsröðunin byggð á vönduðu heildarmati Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri á jarðgangakostum á Íslandi frá júlí 2023.  Ráðuneytið telur því ekki ástæðu til að breyta forgangsröðun jarðgangakosta eins og þeir birtast í þingsályktunartillögu um samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038.“

Fróðleiksmolar um Ísborgina ÍS 250

Þorsteinn H. Gunnarsson

M/S Ísborg ÍS 250 frá Ísafirði var síðutogari sem breytt var í fragtskip í kringum 1963 með því að færa brúnna aftar og þannig jókst lestarpláss skipsins.  Þeir sem stóðu fyrir þessu voru Guðfinnur Þorbjörnsson, sem átti vélsmiðju Guðfinns og Birgir Þorvaldsson, forstjóri Runtalofna.  Á þessum tíma voru aflagðir gamlir síðutogarar geymdir inn við Klettagarða og þeir félagar renndu hýru auga til þessara togara með það í huga að breyta einum í fragtskip. Guðfinnur var mjög lengi að skoða alla togarana og gerði það mjög vel. Hann komst að þeirri niðurstöðu að Ísborgin væri það skip sem þeir væru að leita eftir, en hún var heil og óryðguð að kalla. Agnar Hallvarðsson, vélstjóri slóst í hóp með þessum mönnum og seinna keypti Haukur Guðmundsson, skipstjóri sig inn í verkefnið. 

Breytingarnar voru þessar:  Brúin var færð aftar til að auka lestarpláss skipsins og ný Skandia vél var sett í skipið. Ísborgin hafði verið gufuskip og gufuketillinn var tekinn úr skipinu og seldur Síldarverksmiðju ríkisins á Siglufirði. Má segja að andvirði hans hafi dugað fyrir þessum breytingum. Síðan var skipið málað og sjósett.

Í fyrstu urðu forráðamenn Ísborgarinnar að taka hverri þeirri fragt sem bauðst og má segja að þeir hafi verið hálfgerðir skæruliðar á þessum flutningamarkaði. Oftast var flutningurinn út saltfiskur og heim til Íslands salt, ef það var farið í Miðjarðarhafið. Timbur var flutt frá Rússlandi og Póllandi. Síðan voru allskyns flutningar í Hollandi, Englandi, Írlandi, Svíþjóð og Danmörku. 

Áhöfnin var vel skipuð vönum mönnum en Haukur Guðmundsson, frá Gerðum í Garðahreppi, var skipstjóri, og tók hann með sér tvo stýrimenn sem hann þekkti vel. Þeir voru Georg Franklín og Finnbogi Kjeld.

Undirritaður var um skeið háseti á skipinu. 11 manna áhöfn var um borð. Lítið var um nútíma þægindum í skipinu, engin sjálfsstýring og stóð alltaf einn háseti við stýrið og handstýrði. En vegna breytinganna var Ísborgin mjög há að framan ef hún var ólestuð. Og var þá alltaf hafður maður fram á hvalbak á útkikki. Það var til þess gert að sigla ekki niður smábáta. Hvað varð um Ísborgina? Undirritaður fékk spurnir af því að hún hefði verið seld niður í Miðjarðarhaf.

Meðfylgjandi eru myndir sem Þorkell Guðnason tók árið 1981. Þá hafði Ísborgin verið tekin út á rúmsjó og færð til hafnar í Agios Nikolaos á Krít þar sem hún var kyrrsett vegna smygls á fíkniefnum. Það hafði vakið athygli löggæslunnar að þessi óhrjálega fleyta var búin þremur ratsjám og gat siglt á fullri ferð í svartaþoku. Hún var með kúlnagöt á brúargluggum sem munu hafa komið til þegar áhöfnin þráaðist við að hlýða skipunum yfirvalda.

Þorsteinn H. Gunnarsson

Til hamingju með sjómannadaginn

Bæjarins besta sendir sjómönnum og fjölskyldum þeirra, sem og öllum Vestfirðingum hamingjuóskir með sjómannadaginn.

Á Ísafirði verður sjómannadagsmessa í Ísafjarðarkirkju kl. 11:00. Að messu lokinni verður gengið að sjómannastyttunni og minnst látinna sjómanna.

Helgistund verður í Hnífsdalskapellu í dag kl. 9:30. Að helgistund lokinni verður gengið út í Hnífsdalskirkjugarð og minnst látinna sjómanna.

Í Bolungavík verður hátíðarguðsþjónusta í Hólskirkju kl 14. Séra Fjölnir Ásbjörnsson þjónar fyrir altari og frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands predikar. Að guðsþjónustunni lokinni verður gengið í Grundarhólskirkjugarð og lagðir blómsveigar að minnismerkjum sjómanna í garðinum.

Á Patreksfirði verður sjómannadagsmessa kl 11 í Patrekskirkju og eftir messu verður gengið að minnisvarða um látna sjómenn og lagður blómsveigur.

Listasýning: Skeljaverur í Selárdal

Marsibil G. Kristjánsdóttir listakona frá Þingeyri opnar sýningu í Listasafni Samúels í Selárdal Arnarfirði á Sjómannadag. Sýningin samanstendur af skeljaskreyttum og yfirgefnum postulínsdúkkum. Efniviðurinn, skeljarnar, eru sóttur í vestfirskar fjörur þar sem skeldýrafánan er mjög flölbreytt og forvitnileg. Síðustu ár hefur Marsibil unnið mikið með þá gersemi sem finna má í fjörunni. Einsog kufunga, skeljar, ígulker, kalkþörunga og hörpudiska. Úr þessum magnaða efnivið hefur listakonan unnið einstök skeljaveruverk sem verða til sýnis í Listasafni Samúels út júní. Sýningin opnar kl.14.01 á Sjómannadag og verður boðið upp á hjónabandssælu og viðeigandi drykk með.

Marsibil er sjálfstætt starfandi listamaður og býr og starfar fyrir vestan, á Þingeyri. Hún er leikhússtjóri Kómedíuleikhússins ásamt Elfari Loga Hannessyni og hefur hún unnið fjölbreytt verkefni fyrir leikhúsið. Marsibil hefur bæði hannað leikmyndir og búninga við fjölda leikverka auk þess að leikstýra verkum fyrir Kómedíuleikhúsið.  Marsibil hefur haldið fjölda myndlistarsýninga, bæði hér heima og erlendis. Verk hennar eru fjölbreytt; pennateikningar, málverk, grafík og fleira. Hún var einn af listamönnum listverkefnisins Alviðra 2021 og Alviðra 2022. Hún var Bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar árið 2009.

Marsibil vinnur m.a. við bókband og hefur einnig myndskreytt nokkrar bækur má þar nefna ljóðaverkið Um jólin (2013), barnabókina Muggur saga af strák (2017), ljóðaúrvalið Allir dagar eiga kvöld (2018) og í júní kemur út barnabókin Matti saga af drengnum með breiða nefið hvar Marsibil annast myndskreytingu.

Ísafjörður: 59 undirskriftir gegn íbúðablokk á Sindragötu 4a

Lydía Ósk Óskarsdóttir afhendir Örnu Láru Jónsdóttur bæjarstjóra undirskriftarlistann. Mynd: aðsend.

Tæplega 60 manns skrifuðu undir lista þar sem mótmælt er byggingu nýrrar 10,5 m hárrar íbúðarblokkar á byggingarreitnum við Sindragötu 4a á Ísafirði. Skipulags- og mannvirkjanefnd segir að byggingaráformin hafi verið samþykkt á 75. afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 14. maí 2024.

Mótmælendur skora á bæjaryfirvöld og verktakann að endurskoða áform um hæð og útlit byggingarinnar þannig að hún sé í samræmi við útlit húsanna við Aðalstræti. Minnt er á að gamli bærinn á Ísafirði sé verndarsvæði í byggð og að það yrði mikil mistök ef af byggingunni yrði.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar féll frá  í mars sl. grenndarkynningu á fyrirhugaðri nýbyggingu á lóðinni Sindragötu 4A, Ísafirði, þar sem nýjustu uppdrættir uppfylla alla skilmála núgildandi deiliskipulags fyrir lóðina.

Skipulags- og mannvirkjanefnd afgreiddi undirskriftasöfnunina með því að benda á að hægt er að kæra útgáfu byggingarleyfis til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Nýjustu fréttir