Laugardagur 7. september 2024
Síða 78

Ísafjörður: skrifaði ekki undir undirskriftarlistann

Teikning sei arkitekta af fyrirhugaðri íbúðablokk.

Hákon Ari Halldórsson, einn þeirra sem er á undirskriftarlista gegn byggingu nýrrar 10,5 m hárrar íbúðarblokkar á byggingarreitnum við Sindragötu 4a á Ísafirði hafði samband við Bæjarins besta og sagðist ekki hafa skrifað undir listann. Undirskriftin með nafni hans sé því á listanum að honum forspurðum.

Bæjarins besta hafði samband við Lydíu Ósk Óskarsdóttur, eins aðstandenda listans og bar þetta undir hana. Kvaðst hún ekki geta svarað þessari umkvörtun.

Hvalfjarðargöng lokuð

Hvalfjarðargöng. Mynd: verkis.is

Vegna vinnu í Hvalfjarðargöngum verða þau lokuð þriðjudaginn 4. , miðvikudaginn 5. og fimmtudaginn 6. júní frá kl. 24:00 til kl. 06:30. Hjáleið er um Hvalfjarðarveg (47).

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Stjórnsýsluhúsið Ísafirði: húsfélagsgjald hækkar um 25%

Rekstrarfélag stjórnsýsluhússins á Ísafirði hefur ákveðið að hækka gjöld til húsfélagsins um 25% frá og með síðustu mánaðamótum. Vegna þess þarf Ísafjarðarbær að auka framlög til húsfélagsins um 1,7 m.kr. á þessu ári.

Fram kemur í erindi stjórnar rekstrarfélagsins að á árinu 2017 hafi verið ákveðið að lækka gjaldið um 20% miðað við 1. janúar 2018 frá því sem verið hafði og hafa gjöldin ekki hækkað síðan.

Rekstrarkostnaður síðasta árs var 45 m.kr. Varð 8 m.kr. tap af rekstrinum.

Viðhald og endurbætur hússins var 16 m.kr., húsvarsla og ræsting 12 m.kr. og hiti og rafmagn 10 m.kr.

Ísafjarðarbær selur hjúkrunarheimilið Eyri

Hjúkrunarheimilið Eyri á Ísafirði. Það er fyrirhuguð 10 rúma viðbygging.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum í gær að leggja til við bæjarstjórn að hefja söluferli á fasteigninni Eyri á Ísafirði. Þar eru 30 rými sem tekin voru í notkun 2016. Ísafjarðarbær á bygginguna en ríkissjóður greiðir húsaleigu til 40 ára sem samsvarar 85% af stofnkostnaði.

Í samningi um byggingu heimilisins milli ríkisins og Ísafjarðarbæjar kemur fram að fasteignin verði í eigu sveitarfélagsins og að óheimilt sé að framselja eignarrétt að húsnæðinu til þriðja aðila á samningstímanum.

Ísafjarðarbær óskaði eftir því fyrr í vetur að ríkið heimilaði sölu á hjúkrunarheimilinu og leigugreiðslum ríkisins til þriðja aðila. Ísafjarðarbær tók lán sem hvíla á eigninni og eru þau íþyngjandi fyrir rekstur sveitarfélagsins.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur veitir heimild fyrir því að sveitarfélagið framselji eignarétt á fasteigninni gegn því að eignin sé seld til aðila sem sérhæfir sig í fasteignarekstri. Í bréfi ráðuneytisins til Ísafjarðarbæjar segir að samþykki þess sé bundið því skilyrði að það hafi ekki nein efnisleg áhrif á þann samning sem þegar er í gildi milli ríkisins og sveitarfélagsins og rekstur hjúkrunarheimilisins sem slíks. Ríkið muni þá greiða leigugjaldið sem kveðið er á um í gildandi samningi til þess aðila sem eignast fasteignina og sá aðili muni þá jafnframt yfirtaka aðrar skuldbindingar af hálfu sveitarfélagsins sem þar er kveðið á um, t.a.m. er varðar viðhald og endurbætur á eigninni.

Fyrir liggur samningur milli ríkisins og Ísafjarðarbæjar um stækkun Eyri um 10 rými og segir í bréfi ríkisins að vel til greina að nýr fasteignaeigandi taki að sér að byggja þá viðbyggingu gegn leigugjaldi frá ríkinu með sérstökum leigusamningi um þau viðbótarrými.

Póstboxum fjölgar – Pósthúsum fækkar

Íslandspóstur gerði breytingar á afgreiðsluneti sínu 1. júní. Felast þær aðallega í því að afgreiðslustöðum, gömlum pósthúsum, verður fækkað en afgreiðsla í póstbox og með bifreið verður aukin. 

Pósthúsin sem um ræðir eru á Hvammstanga, Siglufirði, Dalvík, Ólafsfirði, Búðardal, Grundarfirði, Fáskrúðsfirði, Eskifirði, Breiðdalsvík og Neskaupstað.

Pósturinn segir í tilkynningu að í næsta mánuði verði póstboxin orðin alls 100 talsins og séu þau vinsælasti kosturinn hjá Póstinum í dag enda þróun afgreiðslulausna í póstþjónustu verið mjög hröð á síðustu árum. 

Búið er að setja upp póstbox á öllum þeim tíu stöðum sem loka pósthúsum á morgun en nýlega bættust við póstbox í Búðardal, Súðavík og á Suðureyri, Grundarfirði, Hvammstanga, Siglufirði, Dalvík og Ólafsfirði.

Þá eru þrjú ný póstbox komin upp á Austurlandi, á Breiðdalsvík, Djúpavogi og Eskifirði og er unnið að því að finna stað undir póstbox á Stöðvarfirði sem áætlað er að opni í haust. Þá hefur póstboxið í Neskaupstað verið stækkað vegna mikillar notkunar.

Fjöldi greiðenda veiðigjalds eftir landshlutum

Á meðfylgjandi mynd má sjá fjölda aðila sem greiðir veiðigjald í hverjum landshluta, en Vestmannaeyjar eru sérstaklega tilgreindar.

Vestfirðir eru fjölmennasta svæðið hvað varðar fjölda gjaldskyldra aðila, en að jafnaði hafa um 190 aðilar greitt veiðigjald á ári hverju á Vestfjörðum á þessu tímabili.

Þar á eftir kemur Norðurland eystra og svo Vesturland. Fæstir aðilar eru í Vestmannaeyjum, eða að jafnaði í kringum 25 talsins á ári hverju.

Sé heildarupphæð veiðigjalds hvers landshluta deilt niður á fjölda aðila sem greiðir veiðigjald eru Vestmannaeyjar með yfirburðastöðu.

Leiðinda veður framundan

Næstu daga er útlit fyrir norðan hvassviðri á landinu með kalsaúrkomu norðan- og austanlands, ýmist rigningu, slyddu eða snjókomu en lengst af úrkomulítið sunnantil.

Samkvæmt nýjustu spám stendur veðrið linnulítið fram á aðfaranótt föstudags og skánar þá talsvert gangi spár eftir.

Gefnar hafa verið út viðvaranir og þeir sem eiga eitthvað undir veðri eru hvattir til að kynna sér þær og fylgjast vel með veðurspám og veðurathugunum.

Elín Björg Ragnarsdóttur skipuð Fiskistofustjóri

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra hefur skipað Elínu Björgu Ragnarsdóttur sem fiskistofustjóra frá 1. júní nk.

Elín Björg var ráðin að fengnum tillögum ráðgefandi hæfnisnefndar. Embættið var auglýst laust til umsóknar í janúar síðastliðnum og skipað í það til fimm ára.

Elín Björg lauk meistaragráðu (ML) í lögfræði frá Háskólanum á Bifröst árið 2010 og B.S. gráðu í viðskiptalögfræði frá sama skóla árið 2008. Elín Björg er með diplóma í hafrétti frá Rhodes Academy of Oceans Law and Policy frá árinu 2022. Þá hefur Elín Björg lokið námi í fiskiðn og fisktækni frá Tækniskólanum ásamt ýmsum námskeiðum á sviði stjórnunar og reksturs fyrirtækja.

Elín Björg hefur starfað á Fiskistofu frá árinu 2016. Fyrst sem verkefnastjóri gæða- og þróunarmála en frá árinu 2020 sem sviðstjóri veiðieftirlitssviðs og er starfandi staðgengill fiskistofustjóra. Um sex mánaða skeið árið 2020 sinnti Elín Björg starfi sviðsstjóra friðlýsinga og starfsleyfa hjá Umhverfisstofnun.

Áður sinnti Elín Björg lögfræði-, rekstrar- og gæðastjórnunarráðgjöf samhliða störfum sínum í ferðaþjónustu. Elín Björg var um tíma framkvæmdastjóri Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda, gæðastjóri hjá Granda og framleiðslustjóri hjá Kjötumboðinu Goða hf.

Elín Björg hefur gegnt ýmsum nefndar- og stjórnunarstörfum og tekið þátt í starfshópum tengdum sjávarútvegi og fiskveiðistjórnun. Á árunum 2016 til 2023 var Elín formaður stjórnar Aflsins, samtaka gegn kynferðis- og heimilisofbeldi.

Gáfu 10 björgunarvesti

Frá afhendingu gjafarinnar. Mynd: aðsend.

Slysavarnardeildirnar Tindar í Hnífsdal og Iðunn á Ísafirði afhentu á laugardaginn Ísafjarðarhöfn kistu með 10 björgunarvestum fyrir almenning. Verður kistan í smábátahöfninni á Ísafirði.

Hilmar Lyngmó, hafnarstjóri Ísafjarðarhafna veitti gjöfinni viðtöku í veðurblíðunni sem var þann daginn.

Báðar slysavarnardeildirnar verða 90 ára á þessu ári.

Súðavíkurhreppur: skuldahlutfall er 0%

Frá Langeyri í Álftafirði. Þar er verið að undirbúa land undir nýja kalkþörungaverksmiðju. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps afgreiddi í síðustu viku ársreikninga sveitarfélagsins fyrir 2023. Niðurstaða af rekstri varð mun betri en fjárhagsaætlun hafði gert ráð fyrir.

Tekjur A hluta voru 412 m.kr. og urðu 29 m.kr. meiri en ráð var fyrir gert. Að frádregnum gjöldum varð afgangur af rekstri 110 m.kr. eða 26,7% tekna. Það er umtalsvert betri afkoma en en skv. fjárhagsáætlun en það var áætlað að hann yrði 21 m.kr.

Að meðtöldum rekstri B hluta stofnana voru heildartekjur 434 m.kr. og afgangur 113 m.kr. Fjárhagsáætlun hafði gert ráð fyrir 12 m.kr. í afgang. Fjöldi stöðugilda voru 11,9.

Eignir voru um áramót bókfæraðar á 808 m.kr. og skuldahlutfallið um síðustu áramót var 0%.

Nýjustu fréttir