Laugardagur 7. september 2024
Síða 77

Golfdagur á Ísafirði á laugardaginn

Golfdagurinn á Ísafirði fer fram laugardaginn 8. júní á golfsvæðinu í Tungudal.

Þar mun Golfklúbbur Ísafjarðar bjóða upp á kynningu á grunnatriðum golfíþróttarinn undir handleiðslu PGA golfkennaranema, ásamt leikjum og grillveislu fyrir þátttakendur.

Samkvæmt heimasíðu Golfklúbbsins hefst Golfdagurinn kl 13:00 og stendur til 15:00.

Orkubú Vestfjarða: mesta óvissan er um orku til húshitunar

Fram kom í erindi Elíasar Jónatanssonar, Orkubússtjóra á nýafstöðnum ársfundi Orkubúsins að stærsti óvissuþátturinn í rekstri Orkubúsins þessi misserin væri óvissan um aðgengi að skerðanlegri orku fyrir rafkyntar hitaveitur.

Landsvirkjun hefur tvívegis síðust þrjú ár virkjað heimild til þess að skerða afhendingu á orku til Orkubúsins. Því hefur verið mætt með því að keyra díselvaraflsstöðvar og brenna orlíu. Kostnaður Orkubúsins vegna þess varð um 200 m.kr. á árinu 2022 og um 550 m.kr. á þessu ári.

Samtals þurfti á síðasta ári 105 GWst vegna hitaveitna. Eigin vinnsla OV var aðeins 20,6% en keypt orka var nærri 80%.

Rekstri hætt

Elías sagði á ársfundinum Orkubú Vestfjarða muni standa frammi fyrir þeirri ákvörðun að rekstri fjarvarmaveitna verði hætt á næstu árum ef ekki næst árangur í jarðhitaleit og nýtingu hans á hagkvæman hátt, eða lækkun á aðföngum veitunnar, þ.e. lækkun á orkuverði og flutningskostnaði orku til veitnanna. Yrði það niðurstaðan og húseigendur færu í beina rafhitun eða sjálfstæðar varmadælur gæti enn þurft að auka olíuknúið varaafl til raforkuframleiðslu á Vestfjörðum.

Elias sagði að vonir standi til að hægt verði að nýta jarðhita á Patreksfirði inn á miðlæga varmadælu sem mundi hita vatnið inn á dreifikerfi veitunnar. Þegar hefur fundist 25 °C heitt vatn í nokkru magni sem nýta mætti í þessum tilgangi. Á Ísafirði er líka leitað að heitu vatni sem nýta mætti inn á veiturnar beint, eða inn á miðlæga varmadælu eins og á Patreksfirði og hafa nýjustu tíðindi frá borunum í Tungudal aukist bjartsýni á góðan árangur.

Mikil þörf er á frekari virkjun vatnsafls á Vestfjörðum og er Orkubúið að skoða tvo kosti, Vatnsdalsvirkjun í Vatnsfirði og Kvíslatunguvirkjun í Steingrímsfirði. Unnið er að forathugun í Vatnsdal og beðið svara Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við erindi OV um afléttingu friðunar á fyrirhuguðu virkjunarsvæði. Kvísatunguvirkjun er komin lengra og á þesus ári verður lokið við umhverfismatsskýrslu og skipulag fyrir virkjunina.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða: stefndi í 300 m.kr. halla

Fram kemur í ársskýrslu Heilrbigðisstofnunar Vestfjarða fyrir 2023 að áður en fjáraukalög og aðrar tilfærslur komu til stefndi reksturinn í rúman 300 milljóna króna halla eða sem nemur 8% af útgjöldunum. Rekja mátti stóran hluta hallarekstrarins til vanfjármögnunar á hjúkrunarheimilunum.  Með aukafjárveitingu náðist að snúa stöðunni við og endaði afkoma ársins jákvæð um 58,6 milljónir króna.

Heildarfjárveitingar ríkisins til stofnunarinnar voru liðlega 3.700 m.kr. og tekjur urðu alls 4.037 m.kr. þegar bætt hefur verið við seldri þjónustu og ýmsum tekjum. Gjöld hækkuðu á milli ára um 374 milljónir eða rúm 10%. Á sama tíma hækkuðu tekjur örlítið meira eða um 412 milljónir króna eða 11%. Verðbólga árið 2023 var tæp 9% að meðaltali. Vægi launakostnaðar var 70,7% og hækkaði launakostnaður um 217 milljónir milli ára eða um 8,4%. Meðalfjöldi stöðugilda er 226,7.

Breytingar á fyrirkomulagi ræstinga

Í ársskýrslunni er greint frá breytingum á ræstingum sem urðu á árinu. Ræstingum er sinnt af starfsfólki stofnunarinnar á öllum starfsstöðvum utan Ísafjarðar. Fyrirtækið Massi þrif hefur sinnt hluta ræstinga á Ísafirði samkvæmt samningi sem teygir sig aftur til aldamóta. Tilefni var til að endurskoða það fyrirkomulag sem var úr sér gengið og var samningnum við Massa þrif því sagt upp á útmánuðum 2023 með gildistíma uppsagnar 31. ágúst. Í kjölfarið voru ræstingar í aðalbyggingu og Eyri boðnar út saman, í samræmi við lög um opinber innkaup. Ríkiskaup aðstoðuðu við undirbúning útboðsins. Eitt tilboð barst, frá Sólar. Það uppfyllti öll skilyrði útboðsins og var talsvert undir kostnaðaráætlun stofnunarinnar. Fyrirtækið sinnti þá þegar heilbrigðisþrifum fyrir meðal annarra Landspítala Fossvogi og fjölmörg hjúkrunarheimili.

Sólar tók við ræstingunni 1. október. Ræstingardeildin í fyrri mynd var lögð niður og var breytingin vel kynnt í tíma fyrir starfsfólki og fulltrúm Verkalýðsfélags Vestfirðinga. Starfsfólki deilarinnar var öllum boðið að flytjast til í starfi og mannauðsstjóri hélt utan um lausnir sem hentuðu hverjum og einum.

Ný bók eftir Jón Þ. Þór – Franska byltingin 1789-1799

Í þessari fróðlegu bók segir frá aðdraganda byltingarinnar sem hófst með því að Loðvík konungur XVI boðaði til stéttaþings árið 1788.

Rækilega er greint frá stéttaþinginu sem kom saman í Versölum árið 1789 og síðan er sagan rakin allt þar til Napóleon Bónaparte hrifsaði völdin í Frakklandi haustið 1799.

Í bókinni koma margir frægir menn og konur við sögu, þróun byltingarinnar á áratugnum 1789-1799 er lýst og sagt frá kjörum fólks, hárra sem lágra. Einnig segir frá ótal mörgum minnisverðum atburðum sem settu svip á byltingarárin og ekki síður voðaverkum sem voru lengi í minnum höfð í Frakklandi og víðar.

Auður Lóa Guðnadóttir opnar sýningu í Úthverfu

Laugardaginn 8. júní kl. 16 verður opnuð sýning á verkum Auðar Lóu Guðnadóttur í Úthverfu á Ísafirði. Sýningin ber heitið Í lausu lofti og stendur til sunnudagsins 7. júlí. Listakonan verður viðstödd opnun sýningarinnar þar sem boðið verður uppá léttar veitingar og spjall.

Í lausu lofti er innsetning nýrra verka eftir Auði Lóu sem fjalla um það að tilheyra og tilheyra ekki. Verkin fjalla um tilfinningalíf páfagauka, græna parakeet fugla í almenningsgörðum í London, Orkídeur, birkitré og allt þess á milli.

Auður Lóa (f. 1993) býr og starfar í Reykjavík, en hún útskrifaðist af myndlistarsviði Listaháskóla Íslands árið 2015. Hún hefur sýnt víða og hlaut árið 2018 hvatningarverðlaun Myndlistarráðs fyrir sýninguna Díana, að eilífu. Vorið 2021 opnaði hún sína fyrstu stóru einkasýningu, Já / Nei, í D-sal Listasafns Reykjavíkur. Auður Lóa hefur einbeitt sér að skúlptúrum úr máluðum pappamassa en sá grófi og óstýriláti efniviður ljáir verkum hennar kostulegan og sérstæðan blæ. Með notkun þessa að því er virðist léttvæga efnis nær hún fram óvæntri dýpt og býður upp á óhefðbundið sjónarhorn á viðfangsefni sín.

Sýning Auðar Lóu í Úthverfu er hluti af dagskrá Listahátíðar í Reykjavík 1. – 16. júní 2024

Húsnæðisbætur hækka um fjórðung

Grunnfjárhæðir húsnæðisbóta hafa hækkað um fjórðung frá og með 1. júní, auk þess sem bæturnar taka nú til fleiri heimilismanna og skerðingamörk vegna eigna eru hærri, samkvæmt nýrri breytingu á lögum um húsnæðisbætur sem tók gildi um síðustu mánaðarmót.

Með lagabreytingum sem gerðar hafa verið er aukið tillit tekið til fjölda heimilisfólks við útreikning húsnæðisbóta. Þannig taka grunnfjárhæðir og frítekjumörk vegna húsnæðisbóta til allt að sex heimilismanna í stað fjögurra áður.

Tveir flokkar grunnfjárhæða húsnæðisstuðnings bætast við vegna fimm eða sex heimilismanna og frítekjumörk hækka í samræmi við það. Skerðingarmörk vegna eigna hækka einnig í 12,5 milljónir króna, en þau voru 8 milljónir króna fyrir breytinguna. Þannig falla húsnæðisbætur ekki niður fyrr en samanlagðar heildareignir heimilis ná 20 milljónum króna.

Þessar breytingar miða að því að veita heimilum betri stuðning og gera húsnæðisbætur aðgengilegri fyrir fleiri fjölskyldur.

Úthlutað úr Sprotasjóði

Sprotasjóður leik- grunn- og framhaldsskóla hefur úthlutað 59,8 m.kr. til 32 skólaþróunarverkefna fyrir skólaárið 2024–2025. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Bragi Þór Svavarsson, formaður stjórnar sjóðsins.

Sprotasjóður styður við þróun og nýjungar í skólastarfi í leik- grunn- og framhaldsskólum í samræmi við stefnu stjórnvalda og aðalnámskrá viðkomandi skólastiga. Umsýsla er hjá Rannís. Áherslur sjóðsins árið 2024 voru:

  • Farsæld barna og ungmenna, með áherslu á umburðarlyndi, fjölbreytileika og inngildingu nemenda
  • Teymiskennsla og samstarf

Samtals bárust sjóðnum 67 umsóknir. Meðal þeirra sem hlutu styrki voru:

Vesturbyggð sem fékk 1,500,00 kr og Grunnskólarnir á Þingeyri, Suðureyri og í Önundarfirði sem fengu 2,500,000 kr.

Strandabyggð: aðalskipulag endurskoðað

Sveitarstjórn Strandabyggðar hefur samþykkt að auglýst verði vinnslutillaga að nýju aðalskipulagi fyrir Strandabyggð 2021- 2033. Um er að ræða heildarendurskoðun gildandi aðalskipulags Strandabyggðar 2010-2022.

Í tikynningu Skipulagsstofnunar segir að síðan að gildandi skipulag var samþykkt hafi ýmsar forsendur tekið breytingum s.s. atvinnulíf og fólksfjöldi og ýmis ný tækifæri og áskoranir litið dagsins ljós.

Í tillögu að endurskoðuðu Aðalskipulagi Strandabyggðar 2021-2033 er stefna mörkuð fyrir um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar, um landnotkun, byggðaþróun og mynstur, samgöngu‐ og þjónustukerfi og atvinnu‐ og umhverfismál. Forsendum stefnumörkunarinnar er lýst og hvernig fyrirhugað er að ná þeim markmiðum sem sett eru í áætluninni. Aðalskipulagi er ætlað að leiða samfélög í átt að sjálfbærri nýtingu lands og auðlinda og stuðla að öruggu og sveigjanlegu umhverfi fyrir íbúa og atvinnulíf. 

Sveitarstjórnin samþykkti vorið 2020 að hefja endurskoðunina. Það er fyrirtækið Landmótun sem hefur unnið vinnslutillöguna.

Ísafjarðarbær: bæjarráð grípur inn í ákvörðun hafnarstjórnar

Viking Sky. Mynd: Ísafjarðarhöfn.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur falið bæjarstjóra að „kanna leiðir á því að hönnun móttökuhúss frestist ekki í ár“ og gera það í samráði við hafnarstjóra.

Hafnarstjórn ákvað í síðustu viku að kaupa stuðpúða (fendera) fyrir hafnirnar og er áætlaður kostnaður um 6,6 m.kr. Viðbótarkostnaðinum yrði mætt með því að mætt með fresta á hönnun móttökuhúss fyrir skemmtiferðaskipafarþega fram í janúar 2025 og lækka kostnað við kaup á lyftara um 2 m.kr.

Formaður bæjarráðs Gylfi Ólafsson tók þetta mál fyrir á fundi bæjarráðs í gær.

Ferðafélag Ísfirðinga gengur á Látrabjarg

Næstkomandi laugardag, þann 8. júní mun Ferðafélag Ísfirðinga standa fyrir ferð á Látrabjarg.

Látrabjarg  — 2 skór —

Fararstjóri verður Hildur Valsdóttir.
Mæting kl. 8:00 við Bónus á Ísafirði. Farið á einkabílum til Breiðuvíkur.
Rútuferð frá Breiðuvík að Geldingsskorardal. Gengið meðfram Látrabjargi að Bjargtöngum. Þar bíður rútan og flytur fólk til Breiðuvíkur. Matur þar og gisting.
Þátttakendur verða að skrá sig á netfang félagsins ferdafelag.isfirdinga@gmail.com, þar sem þátttakendafjöldi miðast við að 20 manns komist með í ferðina.
Verð fyrir rútufar 5000 kr., svefnpokagistingu í tveggja manna herbergi 9000 kr. og fjögurra manna 8200 kr.
Morgunmatur innifalinn. Félagsmenn fá 20% afslátt. Kvöldmatur ekki innifalinn í verði.
Vegalengd: um 10 km, göngutími: 4-6 klst., hækkun ekki mikil.

Nýjustu fréttir