Laugardagur 7. september 2024
Síða 76

Vegaframkvæmdir: engar fréttir af útboðum

Unnið að vegagerð á Dynjandisheði í lok febrúar 2024. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Ekki er búið að taka ákvörðun um tímasetningu næstu útboða vegaframkvæmda á Vestfjörðum en þau eru í undirbúningi og skoðun segir upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar í svari við fyrirspurn Bæjarins besta. Leitað var upplýsinga um næstu útboð um framkvæmdir á Dynjandisheiði og í Gufudalssveit. Einn áfangi er eftir á Dynjandisheiði, síðustu 8 km norðan megin á heiðinni niður Dynjandisdalinn í Dynjandisvoginn og í Gufudalssveit á eftir að bjóða út smíði tveggja brúa og vegfyllinga að þeim.

Í marsmánuði fengust þau svör að líklegt væri að lokaáfangi á Dynjandisheiðinni verði boðinn út á árinu þótt ekki væri hægt að lofa neinu. Þegar hefur verið gefið út að lokaáfangi í Gufudalssveit verði boðinn út á þessu ári.

Samgönguáætlun ekki á dagskrá

Tillaga ríkisstjórnarinnar um samgönguáætlun fyrir árin 2024 – 2038 var lögð fram á Alþingi 6. október 2023 og var vísað til umhverfis- og samgöngunefndar þann 10. október 2023 og hefur verið þar til umfjöllunar í hartnær 8 mánuði.

Málið var síðast á dagskrá nefndarinnar 21. maí sl. Síðan hafa verið haldnir þrír fundir án þess að málið hafi verið á dagskrá. Enn verður fundur í nenfdinni í dag, fimmtudag og er samgönguáætlunin ekki á dagskránni.

Formaður nefndarinnar er Bjarni Jónsson (V), þingmaður Norðvesturkjördæmis. Halla Signý Kristjánsdóttir (B) er einnig í nefndinni og sagðist hún telja að þingið lyki ekki störfum fyrir sumarið án þess að ljúka afgreiðslu samgönguáætlunarinnar. Þar verða teknar ákvarðanir um framkvæmdir næstu ára í samgöngumálum, svo sem vegagerð, jarðgangagerð og hafnargerð.

Patreksfjörður: bátur í vélarvandræðum

Frá björguninni á Patreksfirði. Mynd: Landsbjörg.

Í morgun var björgunarskipið Vörður II á Patreksfirði kallað út vegna lítils fiskibátar sem lenti í vélarvandræðum í mynni Patreksfjarðar. Vel gekk að koma taug á milli skipanna og var Vörður kominn til hafnar á Patreksfirði með bátinn í togi rétt fyrir klukkan ellefu í morgun.

Björgunarsveitir Landsbjargar hafa leyst nokkur verkefni í dag og eru jafnvel enn að. Auk verkefnisins á Patreksfirði var björgunarskipið Þór frá Vestmannaeyjum kallað út í nótt vegna skútu sem var í vandræðum djúpt suður af landinu. Þór er nú kominn undan Vík í Mýrdal með skútuna í togi, og eiga eftir nokkra siglingu til hafnar í Vestmannaeyjum. Það stefnir í að sú aðgerð fari hátt í sólarhring.

Um hádegisbil voru svo Hjálparsveit Skáta í Reykjadal og Björgunarsveitin Stefán á Mývatni kallaðar út vegna ferðafólks á þó nokkrum bílum sem sátu fastir á Mývatnsheiði við Másvatn. Leiðindaveður var á þessum slóðum og þó nokkur snjór á vegi. Einhverjir voru selfluttir niður af heiðinni með björgunarsveit, en aðrir hinkruðu eftir moksturstæki sem fór yfir heiðina rétt fyrir klukkan 14. Leiðin var þó ekki talin fær nema bifreiðum með fjórhjóladrif.

Verðlaunaafhending Hjólað í vinnuna 2024

Á myndinni má sjá hópmynd af verðlaunahöfum í 1. - 3. sæti í hlutfalli daga og kílómetrakeppninni, auk verðlaunahafa í skráningar- og liðsstjóraleikjunum.

Tuttugasta og önnur verðlaunaafhending Hjólað í vinnuna fór fram í Íþróttamiðstöðinni 31. maí. Verkefninu er því formlega lokið í ár.

Keppnin stóð yfir frá 8. – 28. maí. Verðlaun voru veitt fyrir þrjá efstu vinnustaðina í öllum flokkum fyrir hlutfall þátttökudaga. Í kílómetrakeppninni fengu liðin sem urðu í þremur efstu sætunum verðlaun, bæði í fyrir heildarfjölda kílómetra og einnig fyrir hlutfall kílómetra miðað við fjölda starfsmanna. Alla vinnustaði í verðlaunasæti má finna hér á vefsíðu verkefnisins.

Meginmarkmið Hjólað í vinnuna er að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta. Einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi er að nota virkan ferðamáta. Það var hörð keppni á milli hópa hjá mörgum fyrirtækjum og keppni fram á síðasta dag.

Nánari upplýsingar um Hjólað í vinnuna er að finna á heimasíðu verkefnisins og upplýsingar um alla vinningshafa í skráningar-, mynda- og liðstjóraleik má finna hér.

Samstarfsaðilar Hjólað í vinnuna í ár voru Icelandair, Getspá, Toyota, Örninn, Rás2, Unbroken og Hopp.

Þjónustukönnun Byggðastofnunar

Höfuðstöðvar Byggðastofnunar á Sauðárkróki.

Nú fer fram könnun sem Maskína framkvæmir fyrir hönd Byggðastofnunar meðal íbúa um land allt (utan höfuðborgarsvæðis) vegna rannsókna á þjónustusókn og væntingum til breytinga á þjónustu.

Spurt er:

-Hvaða þjónustu nota íbúar og hvert fara þeir til að sækja þá þjónustu?

-Hvaða þjónustu þarf helst að bæta við eða efla?

-Hvaða þjónustu óttast íbúar helst að missa úr heimabyggð?

Áætlað er að það taki um 10 mínútur að svara. Könnunin er á íslensku, ensku og pólsku. Könnunin er liður í að skilgreina þjónustusvæði og fá mynd af viðhorfum íbúa mismunandi svæða til breytinga á þjónustu. Út frá sjónarmiði byggðamála og landshlutanna er þátttaka íbúa í könnuninni mjög mikilvæg.

Sérstaklega er mikilvægt að fá svörun úr dreifðum byggðum landsins svo unnt verði að vinna með niðurstöðurnar þannig að sem réttust mynd fáist einnig af þjónustusókn íbúa í fámennum byggðarlögum. Niðurstöður munu nýtast í vinnu við eflingu byggða um land allt.

Hér er hlekkur til að svara könnuninni

Kindahjörðin mín

Hólmfríður Ólafsdóttir opnar málverkasýninguna „Kindahjörðin mín“ á Sauðfjársetrinu á Ströndum, fimmtudaginn 6. júní kl. 18:00.

Hólmfríður er fædd og uppalin á Siglufirði og þar bjó hún til sextán ára aldurs. Hún gekk í Grunnskóla Siglufjarðar og hafði þá strax mikinn áhuga á því að teikna og mála.

Hún fór í framhaldsskóla á Sauðárkróki að læra módel teikningu og stefndi á nám í Myndlistaskólanum í Reykjavík. Örlögin tóku yfir og leiddu hana í Iðnskólann í Reykjavík þar sem ég lærði klæðskurð og starfaði við það í 10 ár. Aftur tóku svo örlögin að spinna sinn vef sem varð til þess að hún fór í Guðfræðideild Háskóla Íslands og nam þar djáknafræði og guðfræði sem hún starfar við í dag.

Hún er gift Guðmundi Elíassyni sem er hreinræktaður Eyjamaður og á þrjú uppkomin börn af fyrra hjónabandi, þau Þorbjörn Óla, Hákon Orra og Sigrúnu Völu.

Hólmfríður hefur tekið þátt í nokkrum sýningum með Lista og menningarfélagi Vestmannaeyja og einnig verið þar með einkasýningar.

Hún er nú búsett í Mosfellsbæ og hef haldið þrjár einkasýningar á höfuðborgarsvæðinu.

Allir eru velkomnir á opnun sýningarinnar þar sem boði verður upp á léttar veitingar.

Vettlingar til styrktar Vestra

Á vefsíðu íþróttafélagsins Vestra er sagt frá því að snillingurinn Kristín Örnólfsdóttir hafi hannað Vestra vettlinga og að 80% af andvirði hverrar sölu renni til Vestra eða eins og hún segir á Facebook síðu sinni:

Nýjasta hönnun mín eru vettlingar tileinkaðir íþróttafélaginu Vestra. Uppskriftirnar eru þrjár og skiptast í kvenmannsstærð, karmannstærð og barna stærðir frá 4 -12 ára.

Vestra vettlingauppskriftirnar eru seldar á Ravelry (sjá link hér fyrir neðan)og kosta 1000 kr stykkið. 80% af hverri seldri uppskrift rennur til unglingastarfs Vestra og mun gjaldkeri Vestra sjá um að skipta ágóðanum jafnt á milli greina. Þess vegna er mikilvægt að kaupa uppskrift ef áhugi er fyrir að prjóna Vestra vettlinga, en ekki ljóstrita og gefa.

Þeir sem ekki hafa aðgang að Ravelry geta sent mér einkaskilaboð ég mun sjá um að afhenda uppskrift á annan hátt.

Facebooksíða Kristínar

Ísafjörður: Húsasmiðjan fær stærri lóð

Skipuags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar leggur til orðið verði við ósk Húsasmiðjunnar um stækkun á lóð fyrirtækisins að Æðartanga 2 til þess að bæta aðkomu að húsi, en ætlunin er að setja upp aðgangshlið.

Erindið var sent inn í október á síðasta ári en því þá frestað. Farið er fram á að stækkun til norðvesturs um 10 metra eða samtals 700 fermetra stækkun.

Áformað er að byggja slökkvistöð í nágrenninu og Verkís segir að stækkunin muni ekki þrengja að henni á byggingarreitnum miðað við sambærilega slökkvistöð á Húsavík samkvæmt vinnslutillögu að deiliskipulagi fyrir Suðurtanga.

Sindragata 4a: kæra til úrskurðarnefndar

teikning frá Sei arkitektum sem sýnir afstöðu byggingarinnar.

Ákvörðun Ísafjarðarbæjar varðandi samþykkt á byggingaráformum til Vestfiskra verktaka á byggingu íbúðarblokkar Sindragötu 4B Ísafirði hefur verið kærð til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Kærendur andmæla byggingaráformum og fara fram á að byggingarfulltrúi Ísafjarðarbæjar afturkalli samþykktina og breyti deiliskipulagi byggingarreitsins þannig að ekki verði leyfð jafn stór og umfangsmikil bygging á lóð Sindragötu 4A.

Kærendur segja í tilkynnngu að samþykkt byggingarmagn hússins sé komið yfir leyfilegt byggingarmagn samkvæmt deiliskipulagi svæðisins.  Það sé 1,0 eða 2.347,3 fermetrar en nú sé samanlagt er byggingarmagn lóðarinnar2.592,8 fm sem leiðir til nýtingarhlutfallsins 1,1.

Kærendur eru fasteignareigendur og íbúar að Sindragötu 4A og Aðalstræti 8, 10 og 16 á Ísafirði.

Ferðafélag Ísfirðinga: Suðureyri við Tálknafjörð

Suðureyri við Tálknafjörð  — 1 skór —
Sunnudaginn. 9. júní

Skráning óþörf, bara mæta, ókeypis í ferðina.

Fararstjórn: Örn Smári Gíslason.
Mæting kl. 8.00 við Bónus á Ísafirði og kl. 10.00 í Breiðuvík. Gangan hefst kl. 11.00 á Lambeyri.
Gengið eftir vegi að hvalveiðistöðinni á Suðureyri.
Vegalengd alls: um 9 km, göngutími: 3-4 klst., lítil upphækkun.

Arna Lára: salan hefur engin áhrif á þjónustuna

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri.

„Ef bæjarstjórn heimilar sölu á fasteiginni þá mun það hafa  engin áhrif á þá góðu þjónustu sem nú er veitt á Eyri af hálfu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.“

Þetta segir Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ í svari við fyrirspurn Bæjarins besta um þau áhrif sem væntanleg sala á húsnæði hjúkrunarheimilisins Eyri sem er í eigu Ísafjarðarbæjar kann að hafa.

„Markmiðið er fyrst og fremst að samræma eignarhald á núverandi fasteign og fyrirhugaðri nýrri álmu. Hjúkunarheimilið Eyri var byggt eftir svokallaðri leiguleið þar sem Ísafjarðarbær fjármagnaði bygginguna gegn leigutekjum frá ríkinu, sem hafa ekki dugað fyrir rekstinum. Þannig ef að þessu verður og við fáum ásættanlegt tilboð þá mun það hafa jákvæð áhrif á rekstur Ísafjarðarbæjar.“

Nýjustu fréttir