Föstudagur 6. september 2024
Síða 75

Veðrið í maí 2024 – Sólríkt á Akureyri

Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í maí miðað við síðustu tíu ár (2014 til 2023).

Maí var tiltölulega hlýr, sérstaklega á norðaustan- og austanverðu landinu. Þar var sólríkt og þurrt. Það var tiltölulega kaldara og úrkomusamara suðvestan- og vestanlands.

Meðalhiti í Reykjavík í maí var 6,9 stig. Það er 0,2 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,1 stigi yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 7,8 stig, 1,6 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 1,2 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhiti mánaðarins 6,4 stig og 7,7 stig á Höfn í Hornafirði.

Maí var blautur á suðvestan- og vestanverðu landinu en þurr norðaustan- og austanlands.

Úrkoma í Reykjavík mældist 73,3 mm sem er 40% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman 13,0 mm sem er um 55% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.

Það var óvenjulega úrkomusamt í Stykkishólmi í maí. Þar mældist úrkoman 112,5 mm sem er nærri þrefalt meira en í meðalári og þriðja mesta maíúrkoma sem mælst hefur í Stykkishólmi frá upphafi mælinga. Álíka mikil úrkoma mældist í maí 2018 (113,2 mm), en mest mældist hún í maí 1875 (132,0 mm). Í Stykkishólmi var sólarhringsúrkoman þ. 25. skráð 39 mm sem er það mesta sem mælst hefur þar á einum sólarhring í maímánuði. Óvenju mikil úrkoma mældist líka í Grundarfirði og Ólafsvík þennan sólarhring.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 16 sem er 6 fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 4 daga sem er einum færri en í meðalári.

Jörð var alauð alla morgna í maí í Reykjavík. Á Akureyri var flekkótt jörð fyrstu tvo daga mánaðarins, en aðra daga var hún auð.

Það var sérlega sólríkt á Akureyri í maí. Sólskinsstundirnar mældust 252,5, sem er 81,5 stundum fleiri en að meðaltali 1991 til 2020. Sólskinsstundirnar hafa aðeins þrisvar sinnum mælst fleiri á Akureyri í maímánuði, en það var árin 1968 (290,8), 2012 (287,4) og 1975 (259,4). Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 145,3 í maí, sem er 63,7 stundum undir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Vegagerðin tekur í notkun nýjan vef

Vegagerðin hefur sett í loftið nýja vefsíðu vegagerdin.is. Þetta er þriðja og síðasta púslið í þríþættri veflausn Vegagerðarinnar, sem samanstendur af vegagerdin.is, umferdin.is og sjolag.is.

Þar er að finna upplýsingar um starfsemi stofnunarinnar, gögn, skýrslur og annað efni sem er mikið skoðað. Helsta nýjungin á vefnum er svokallaður verkefnavefur þar sem hægt er að finna upplýsingar um allar helstu framkvæmdir sem eru í gangi hverju sinni.

Þar má sjá stöðu verkefna, tengd útboð, skýrslur, gögn og fréttir sem birst hafa um framkvæmdina. Þróun á verkefnavefnum heldur áfram næstu mánuði og fleiri verkefni munu bætast við.

Nýjar áherslur á vegagerdin.is

  • Stórbætt farsímaútgáfa
  • Aðgengismál höfð að leiðarljósi
  • Betri endurspeglun á starfsemi og áherslur stofnunarinnar
  • Innleiðing á nýrri tækni
  • Nýtt hönnunarkerfi
  • Verkefnavefur

Lóa styrkir fjögur verkefni á Vestfjörðum

Tilkynnt hefur verið um úthlutanir úr Lóu – nýsköpunarstyrki fyrir landsbyggðina.

Í ár hljóta 27 verkefni styrk alls fyrir tæplega 139 milljónir króna. Nýsköpunarverkefnin sem hljóta styrk að þessu sinni eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg og dreifast um landið allt. Styrkjum úr Lóu er ætlað að styðja við eflingu byggða og landshluta með nýskapandi verkefnum, auk þess að hlúa að vistkerfi nýsköpunar á landsbyggðinni.

Alls bárust 89 umsóknir á fjölbreyttum sviðum, frá nýskapandi verkefnum með sjálfbærni og fullnýtingu afurða að leiðarljósi til uppbyggingu innviða fyrir rannsóknir og þróun og innleiðingu nýrra aðferða og verkfæra fyrir nýsköpunarumhverfið.

Lóa – nýsköpunarstyrkir fyrir landsbyggðina 2024 voru auglýstir 20. febrúar sl. og var umsóknarfrestur til og með 4. apríl. Matsnefnd fór yfir allar umsóknir og gerði í kjölfarið tillögur um styrkveitingu til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Í matsnefnd Lóu árið 2024 sátu Eva Hrund Einarsdóttir, framkvæmdarstjóri MAk (Menningarfélags Akureyrar), Tryggvi Hjaltason, formaður Hugverkaráðs og Sesselja Vilhjálmsdóttir framkvæmdastjóri Tagplay.

Úthlutað til Vestfjarða

Vésteinn Tryggvason fékk 822.000 kr í Shirako er verkefni sem snýr að þurrkun og vinnslu á svilamjöli úr þorsksvilum sem og og innihaldsgreiningu á mjölinu í kjölfarið. Svilamjölið má síðan nota í íslenskan landbúnað. Verkefnið verður unnið á Vestfjörðum og miðar að því að minnka sóun í sjávarútvegi með nýtingu á þrosksvilum sem annars eru lítið nýtt.

Samfélags-miðstöðin Blábankinn á Þingeyri fékk 7.718.000 kr  til að styrkja starf sitt með auknum viðburðum og samstarfi. Verkefnið gengur út á að festa sess þess sem tryggur aðili í alþjóðasamstarfi og sem helst sérfræðisetur um byggðaþróun og málefni dreifðra og jaðarsettra byggða.

Vestfjarðastofa fékk 2.100.000 kr í Blátt áfram – lausnir fyrir lífrænar virðiskeðjur. Markmið verkefnisins er að finna og þróa ný verðmæti úr lífrænum lífmassa sem fellur frá sjávarútvegi á Vestfjörðum. Á sviði lítækninnar eru lausnir til að skapa verðmætari vörur úr mikilvægu hráefni til áframhaldandi vinnslu. Á grundvelli hring-rásarhagkerfisins eru tækifæri til frekari verðmætasköpunar byggðri á vísindum sem stuðla að nýsköpun.

POLS Engineering ehf fékk 2.100.000 kr til að þróa snjómæla sem kallast SM4 og eru nýttir til snjóflóða-vöktunar. Afurðin samanstendur af mælunum, gagnaúrvinnslu og gagnafram-setningu á sérstakri vefsíðu. Í þessu verkefni verður gagnaúrvinnslan og fram-setning endurbætt og gerð aðgengileg fyrir bæði sérfræðinga og almenning.

Landsnet og HS Orka semja um Hvalárvirkjun

Svandís Hlín Karlsdóttir, Guðmundur Ingi Ásmundsson, Ásbjörn Blöndal og Friðrik Friðriksson. Mynd: Landsnet.

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, og Ásbjörn Blöndal, framkvæmdastjóri þróunar- og auðlindasviðs HS Orku og stjórnarformaður VesturVerks, skrifuðu í gær undir samkomulag vegna undirbúnings tengingar Hvalárvirkjunar við flutningskerfi Landsnets.

„Með þessu samkomulagi erum við að sjá hreyfingu í virkjanamálum á Íslandi og er það ánægjulegt þar sem aukin raforkuframleiðsla er ein af lykilforsendum orkuskipta á Íslandi og því að við náum loftslagsmarkmiðum okkar“ segir í tilkynningu frá Landsneti.

„Hlutverk Landsnets er m.a. að tryggja orkuöryggi og  jafnan aðgang aðila á markað og er lykilþáttur í að tryggja virka samkeppni á raforkumarkaði sem er öllum til hagsbóta. Samvinna flutningsfyrirtækisins og virkjunaraðila í þessu tilfelli er því ánægjuleg framfaraskref.“ 

Nú tekur við hjá Landsneti að eiga samtöl við sveitarfélögin á svæðinu,  vinna að leiðarvali, hefja rannsóknir og undirbúning fyrir umhverfismat á tengingunni. 

Samningur um tengingu virkjunarinnar við raforkukerfið liggur enn ekki fyrir en nokkrir möguleikar á tengingu við fyrirhugað nýtt tengivirki Landsnets í Ísafjarðardjúpi eru til skoðunar.

Hvalárvirkjun er á rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um nýtingu auðlinda landsins og hefur VesturVerk, sem er í meirihlutaeigu HS Orku, gert samning við landeigendur um nýtingu vatnsréttinda. Áætluð stærð Hvalárvirkjunar er um 55 MW í uppsettu afli með 5.818 klst. nýtingartíma á ári og orkugetu upp á 320 Gwh á ári. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á árunum 2026-2028.

Lögreglan: dánarorsök óljós

Lögreglan á Vestfjörðum segir í fréttatilkynningu um andlát tveggja einstaklinga í Bolungavík að réttarlæknisfræðileg rannsókn hafi farið fram á hinum látnu, að ósk lögreglu. En um er að ræða lið í rannsókn á tildrögum andlátanna.

„Fyrir liggja bráðabirgðaniðurstöður réttarkrufningar. Dánarorsök er ekki ljós en endanlega niðurstöðu er að vænta á næstu vikum. Ekki voru ytri áverkar á hinum látnu sem skýra andlátin. Nákvæm dánarstund liggur ekki fyrir.

Eins og áður hefur verið getið um er ekkert sem bendir til þess að andlátin hafi borið að með saknæmum hætti.“

Spáð hríð á Steingrímsfjarðarheiði í dag

Frá Steingrímsfjarðarheiði í apríl. Þá var betra veður en nú er spáð. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í tilkynningu frá Vegagreðinni kemur fram að vetrarfærðsé í éljum á heiðum norðantil í dag, t.d. á Vatnsskarði, Þverárfjalli og Öxnadalsheiði. Víða hríð með takmörkuðu skyggni á fjallvegum um norðanvert landið í kvöld, t.d. eftir kl 17 á Holtavörðu- og Steingrímsfjarðarheiði. 

Arnarlax gefur slökkviliðinu talstöðvar

Eftir stórbrunan sem átti sér stað í Norður-botni í Tálknafirði, kom í ljós að slökkviliðið þyrfti að uppfæra búnað til þess að bæta samskipti sín á milli. Leitað var til Arnarlax og var ákveðið í framhaldi af því að gefa slökkviliðinu í sameinuð sveitarfélagi Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar 28 eintök af talstöðvum sem uppfylla allar helstu kröfur til þess að sinna starfsemi þeirra á sem besta mögulegan hátt. Valdimar Bernódus Ottósson tók við talstöðvunum fyrir hönd slökkviliðsins.

“Tetra talstöðvar auka öryggi slökkviliðsmanna á brunastað til muna og gera samskipti á milli viðbragðsaðila sem skilvirkust. Þessi gjöf frá Arnarlax gerir okkur kleift að samskipti milli neyðarlínu, stjórnenda og annarra viðbragsaðila á brunastað séu þau bestu mögulegu sem búnaður í dag bíður uppá og erum við gríðarlega þakklátir fyrir það.“ segir Valdimar B. Ottósson Varðstjóri slökkviliðsins í sameinaðri Vesturbyggð. 

“Arnarlax fékk upplýsingar að slökkviliðinu bráðvantaði að eignast þennan búnað. Arnarlax er með mikla starfsemi hér á svæðinu og er það okkur mikilvægt að neyðarþjónustan hafi allan þann nauðsynlega búnað sem þarf.  Aðilar slökkviliðsins eru að mestu hlutastarfandi og leggja eigin tíma og áhættu í að gæta öryggi samfélagsins hér á sunnanverðum Vestfjörðum. Fyrirtækið ákvað því að leggja sitt af mörkum og gefa þeim 28 talstöðvar sem koma til með að bæta starfsumhverfi þeirra til muna.“ segir Jónas Heiðar Birgisson, fjármálastjóri Arnarlax.

Bolungavík: fimm skemmtiferðaskip í sumar

Silver Endeavour í Bolungavíkinni í síðasta mánuði. Mynd: Hafþór Gunnarsson.

Fimm skemmtiferðaskip hafa boðað komu sína til Bolungavíkur í sumar.

Bæjarráð Bolungavíkur bókaði nýlega að það fagnar komu skemmtiferðaskipana og lýsir yfir ánægju með viðskipti þeirra við Bolungarvíkurhöfn.

„Koma skemmtiferðaskipa er tækifæri fyrir sveitarfélagið auk þess sem í því felast mikil tækifæri fyrir ferðaþjónustu í Bolungarvík. Það er því mikilvægt að vel sé tekið á móti skemmtiferðaskipum í Bolungarvík og leitast sé við að veita þeim framúrskarandi þjónustu.“

Við Djúpið: Ísfirðingar áberandi

Halldór Smárason.


Tónlistarhátíðin Við Djúpið fer fram á Ísafirði dagana 17.–22. júní 2024.

– Þýsk kammersveit sækir hátíðina heim
– Ísfirðingar áberandi í dagskránni í ár
– Bandarískri tónlist gert hátt undir höfði – tónskáldið Ellis Ludwig-Leone mætir
– Nýtt námskeið fyrir börn


Hæst ber koma þýsku kammersveitarinnar Orchester im Treppenhaus. Hljómsveitin, sem á heimilisfesti í Hannover, hefur getið sér einkar gott orð fyrir frísklega framkomu og fágaðan hljóðfæraleik. Hljómsveitin kemur bæði fram í minni hópum á tónleikum hátíðarinnar en einnig í heild. Tónlistarhátíðin Við Djúpið er að jafnði haldin þegar sól er hæst á lofti og á sumarsólstöðum leikur Orchester im Treppenhaus nýlega útsetningu hljómsveitarstjórans Thomasar Posth og Fynns Großmanns á Vetrarferð Franz Schuberts.

Það er Ísfirska sópransöngkonan Herdís Anna Jónasdóttir sem verður í förumannshlutverkinu í Vetrarferðinni en hún hefur áður komið fram með hljómsveitinni. Þó ekki í þessu verki en nýlega kom út hljómdiskur með flutningi sveitarinnar á útsetningu Posth og Großmanns. Koma hljómsveitarinnar og Herdísar er mikið gleðiefni en þótt ótúlegt megi virðast er þetta í fyrsta sinn sem Herdís Anna kemur fram á Við Djúpið.

Herdís Anna er ekki eini Ísfirðingurinn sem er áberandi í dagskránni í ár. Tónskáldið Halldór Smárason sem einnig nam við Tónlistarskóla Ísafjarðar á bæði ný verk á tvennum tónleikum og kemur sjálfur fram. Tónskáldakollektif hans, Errata, býður upp á ný verk fyrir strengi á tónleikum 21. júní í flutningi Cauda Collective. Þeir tónleikar eru í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík. Halldór kemur einnig fram á tvennum tónleikum sama dag ásamt tvífara sínum, bandaríska tónskáldinu Ellis Ludwig-Leone, fyrst í hádeginu og svo síðla kvölds á Dokkunni.

Arctic Fish kærir skerðingu á hámarkslífmassa

Frá Sandeyri.

Arctic Fish hefur kært til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál þá ákvörðun Matvælastofnunar að heimila fyrirtækinu aðeins að hafa 8.000 tonna lífmassa í sjó af eldislaxi í Ísafjarðardjúpi og vill það að leyfið hljóði upp á 10.100 tonna lífmassa sem sé nauðsynlegt til þess að skila 8.000 tonna framleiðslu.

Til vara er farið fram á að leyfið hljóði upp á 10.100 tonna lífmassa með því viðbótarskilyrði að framleiðslan fari ekki fram úr 8.000 tonnum.

Forsagan er að í maí 2019 sótti Arctic Fish um leyfi fyrir 8.000 tonna framleiðslu og hámarkslífmassa í samræmi við það. Var matsáætlun og umhverfismat miðað við þessar forsendur og Skipulagsstofnun gerði ekki athugasemd við það.

Þessar tölur byggjast á því að framleiðslan sé 80% af þeim hámarkslífmassa sem má hafa í sjó. Til þess að framleiða 8.000 tonn af eldislaxi þurfi að ala lífmassa sem er 10.100 tonn m.a. vegna ákvæða um hvíldartíma svæða milli eldiskynslóða. Þegar umsóknin var lögð fram árið 2019 voru leyfin gefin út með ákvæðum um framleiðslumagn en nú kveða leyfin á um lífmassa. Matvælastofnun var falið að endurskoða gildandi leyfi þannig að tilgreina lífmassa en þó skyldi framleiðslumagnið haldast óbreytt. Telur Arctic Fish að 10.100 tonna lífmassa þurfi til þess að framleiða 8.000 tonn.

Fyrirtækið birtir í kæru sinni upplýsingar um nýtingu á leyfum sínum í Patreksfirði/Tálknafirði og Dýrafirði yfir fimm ára tímabil 2020 til 2024. Reyndist framleiðslan vera 54% að meðaltali á fyrra leyfinu og 51% í Dýrafirði af lífmassanum. Skýringin sé fyrst og fremst að útsetningartími seiða er stuttur og hvíldir á svæðum verða langar. Þá sé vöxtur lítill yfir vetrarmánuðina og þá lækkar lífmassinn í sjó þegar fiski er slátrað.

Bent er á það að Hafrannsóknarstofnun miði við 80% hlutfall framleiðslu af lífmassa í gildandi áhættumati erfðablöndunar.

Matvælastofnun ákvað að miða við að sama magn af lífmassa þyrfti og tilgreint er sem heimild til framleiðslu, þ.e. að hlutfallið þarna á milli væri 1:1 en ekki 0,8:1. Vísaði Mast til skýrslu Ríkisendurskoðunar frá janúar 2023 þar sem því er haldið fram að hlutfallið milli lífmassa og framleiðslu væri misjafnar milli rekstraraðila í sjókvíaeldi eða allt frá 0,9 til 1,3 á móti 1.

Þessu mótmælir Arctic Fish og segir að hvorki Ríkisendurskoðun né Matvælastofnun hafi lagt fram nein gögn til stuðnings þessum tölum.

Kæran er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni og er úrskurðar að vænta á næstu mánuðum.

Nýjustu fréttir