Föstudagur 6. september 2024
Síða 74

Vestfjarðaleiðin með sumarmarkaði

Vestfjarðaleiðin er ferðamannaleið um Vestfirði og Dali með einstökum áningarstöðum og þar sem auðvelt er að kanna króka og kima svæðisins og upplifa óspillta náttúru.

Á svæðinu eru líka fjölmargir matvælaframleiðendur, handverksfólk og aðrir smáframleiðendur.

Nú fer fram kynning á þessum aðilum með sumarmörkuðum á Vestfjarðaleiðinni í júlí.

Settir verða upp markaðir á fjórum stöðum og fjórum mismunandi dagsetningum sem hér segir:

Ísafjörður 4. júlí

Búðardalur 6. júlí

Hólmavík 14. júlí

Patreksfjörður 15. júlí

Í Búðardal verður markaðurinn í samstarfi við bæjarhátíðina Heim í Búðardal. Dagana sem markaðirnir eru á Ísafirði og Patreksfirði eru skemmtiferðaskip í höfn svo það verður margt ferðafólk á ferli.

Fótboltinn á helginni

Það verður ýmislegt um að vera í fótboltanum á helginni en karlalið Harðar og kvennalið Vestra eiga bæði leiki.

Hörður fær Afríku í heimsókn í 5. deildinni á morgun, laugardag, en leikur liðanna fer fram á Torfnesi og hefst kl 15:00. Liðið hefur farið ágætlega af stað í sumar en fékk þó 2-4 skell í síðasta leik. Tímabil Afríku hefur aftur á móti farið heldur brösulega af stað og hefur liðið byrjað tímabilið með þremur töpum á markatölunni 0-19.

Á sunnudaginn mætast svo Völsungur og Vestri í 1. deild kvenna á Húsavík og hefjast leikar kl 13:00. Vestra-stúlkur eru enn á höttunum eftir fyrsta sigri sumarsins en þær kræktu í fyrsta stigið í síðustu umferð með jafntefli á móti Smára. Það verður þó við ramman reip að draga því Völsungur hefur sigrað alla leiki sína í sumar.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða: 1,3 m.kr. í greiðslur til félagasamtaka á 4 árum

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Ísafirði.

Birt hefur verið svar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Berglindi Ósk Guðmundsdóttur (D) um styrki til félagasamtaka. Spurt var hversu háa fjárhæð greiddi ráðuneytið og hver undirstofnun þess frjálsum félagasamtökum árin 2020–2023.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða greiddi 1.308.600 kr. samtals á þessum 4 árum sem sundurliðast þannig:

Í þingskjalinu stendur Heilbrigðisstofnun Vesturlands en á að vera Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.

Hjá HVEST er um að ræða greiðslur fyrir kaup á vörum og þjónustu en ekki beina styrki til félagasamtaka.

Til samanburðar þá veitti Heilbrigðisstofnun Suðurlands 1.939.699 kr í styrki á þessu árabili, Heilbrigðisstofnun Norðurlands 11.445.483 kr.,Heilbrigðisstofnun Vesturlands 103.000 kr., Sjúkrahúsið á Akureyri 2.995.930 kr og Landspítalinn 10.811.916 kr.

Ráðgjöf Hafró: þorskkvótinn aukinn um 1%

Mynd: Hafro/Svanhildur Egilsdóttir.

Birt hefur verið ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar um veiðar úr helstu nytjastofnum við landið á næsta fiskveiðiári. Leggur stofnunin til aflamark fyrir á þriðja tug stofna á grundvelli langtímamarkmiða um sjálfbæra nýtingu.

Hafrannsóknastofnun ráðleggur 1 % hækkun aflamarks þorsks fiskveiðiárið 2024/2025. Byggir sú ráðgjöf á aflareglu stjórnvalda. Því hækkar ráðlagður heildarafli úr 211.309 tonnum á yfirstandandi fiskveiðiári í 213.214 tonn. Gert er ráð fyrir að stærð viðmiðunarstofns þorsks verði svipuð næstu tvö til þrjú ár þegar árgangarnir frá 2020 og 2021 koma að fullu inn í viðmiðunarstofninn þar sem þeir eru nú metnir við og undir meðallagi.  

Samkvæmt aflareglu verður aflamark ýsu 76.774 tonn sem er nær óbreytt ráðgjöf frá yfirstandandi fiskveiðiári. Áætlað er að stærð viðmiðunarstofns muni haldast stöðug næstu tvö árin vegna góðrar nýliðunar áranna 2019 til 2021 en fari svo lækkandi.  

Ráðgjöf fyrir ufsa samkvæmt aflareglu er nær óbreytt frá yfirstandandi fiskveiðiári og er 66.705 tonn. 

Upplifun mín á því að taka þátt í Gefum íslensku séns

Á þeim átta árum sem undirritaður hefur búið á Ísafirði hef ég kynnst nokkrum fjölda af erlendu fólki, oftast núverandi eða brautskráðum nemendum við Háskólasetur Vestfjarða, og lít ég á marga þeirra sem vini mína og kunningja. Samskiptamálið hefur verið og er áfram langoftast enska, þó að stundum sé látið reyna á fleiri mál og þá auðvitað með einhverjum tilraunum til að koma íslenskunni á framfæri, en alltaf hefur ensk tunga ráðið ríkjum í þessum samskiptum.

Vaxandi fjöldi þessa erlenda fólks, einkum þeirra sem sjá fram á að búa á Íslandi til lengri tíma, hefur hins vegar tekið þá ákvörðun að læra íslensku. Þetta hvatti mig til að athuga og svo taka þátt í verkefnum á vegum átaksins Gefum íslensku séns, sem kallast Þriðja rýmið og Hraðíslenska, þar sem móðurmálshafar og fólk sem lærir íslensku sem annað mál ræða saman á íslensku. Mjög fljótt fór ég að heyra frá nemendunum (beint og óbeint) þá gagnrýni að ég eigi til með að tala of hratt og nota of flókinn orðaforða til að þau gætu átt nægilega góð samskipti við mig í þessum æfingum. Þetta gerðist þrátt fyrir fyrirætlanir mínar, verandi alveg meðvitaður um að ég væri að spjalla við þátttakendur með mjög misjafna færni í tungumálinu – jafnvel að taka sín fyrstu skref.

Þessi upplifun vakti mig til umhugsunar. Einstaklingur sem elst upp í tilteknu málumhverfi og heyrir og notar tungumálið nógu oft getur átt til með að temja sér ákveðna sjálfkrafa beitingu tungumálsins sem getur þá leitt til ómeðvitaðrar beitingar á borð við talhraða og málfar sem gerir málið illskiljanlegra þeim sem tala það sem annað mál. Það kemur svo íslenskunni ekki heldur til hjálpar að ég hef lengi haft mikinn áhuga á enskumælandi menningu og finnst raunverulega gaman að beita enskri tungu, sem hefur skapað tilhneigingu til þess að skipta of fljótt úr íslensku yfir í ensku, eitt af því sem á ekki að gerast. Við þessa sjálfsskoðun varð mér líka hugsað til þess að of oft hafi tilraunir mínar til að hleypa erlendu fólki inn í tungumálið líklega ekki borið tilætlaðan árangur.

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson, verkefnastjóri þessa átaks sem ég tek þátt í, bendir líka á að þó að átakið sé auðvitað miðað að erlendu fólki, þá sé það jafnvel frekar miðað að okkur sem höfum íslensku að móðurmáli. Í mínu tilviki hafði þátttaka í átakinu fljótt þau áhrif að ég fór almennt að huga að hægara flæði í talaðri íslensku og finna aðrar leiðir til að koma málinu til skila á skýrari hátt, eftir aðstæðum. Bara með því að huga að þessum atriðum verð ég aðgengilegri erlendu fólki sem lærir íslensku. Svo er þessi ofangreinda upplifun líka upphaf, eitthvað til hafa í huga og byggja á þegar haldið er áfram að taka þátt í átakinu með það að markmiði að á Íslandi eigi íslenskan að vera sjálfsagt samskiptamál allra (eða allavega sem flestra) í landinu.

Brynjar Björnsson

Grein þessi er liður í greinaröð á vegum Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag rituðum af fólki sem lætur sig íslenskuna varða og vill bjóða fólk sem hingað flyst velkomið í íslenskt (mál)samfélag með íslenskuna og brosið að vopni.

Vikuviðtalið: Jóhann Birkir Helgason

Ég er fæddur á Ísafirði 16. júní 1971, gekk í Grunnskólann á Ísafirði, fór síðan í Iðnskólann á Ísafirði og lærði smíðar. Vann samhliða námi í Trésmiðjunni Hnífsdal hjá bróðir mínum Magnúsi og afa mínum Geirmundi Júlíussyni. Fór svo í framhaldsnám í Tækniskóla Íslands og lærði þar byggingatæknifræði. Móðir mín er Erna Magnúsdóttir og faðir minn heitinn Helgi Geirmundsson. Við erum sex systkinin og búum fimm af okkur á Ísafirði.

Eftir nám í Reykjavík flutti ég til Hnífsdals með konunni minni Gabríelu Aðalbjörnsdóttur, skrifstofustjóra hjá Sýslumanninum á Vestfjörðum, þar höfum við búið síðan 1995. Við eigum þrjú börn, Tómas fæddur 1995, Aðalbjörn fæddur 1998 og Júlíana Lind fædd árið 2003. Gabríela er innfæddur Hnífsdælingur, dóttir Bjössa og Siggu Lúllu. Sjálfur er ég að vísu Hnífsdælingur því mamma og pabbi bjuggu sín fyrstu ár í Hnífsdal og byggðu þar hús, þá fluttu afi og amma til Hnífsdals frá Hornströndum á sínum tíma.

Eftir nám hóf ég störf hjá Tækniþjónustu Vestfjarða, var þar í nokkra mánuði og færði mig svo yfir til Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen. Árið 2003 tók við sem sviðstjóri hjá Ísafjarðarbæ, var þar í 12 ár, það var mjög lærdómsfullt og verkefnin mjög fjölbreytt og enginn dagur eins. Ég tók svo við útibústjórastöðu hjá Verkfræðistofunni Verkís sem var áður Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen þannig að ég færði mig bara til um eina hæð í Stjórnsýsluhúsinu. Verkfræðistörf í litlu sveitarfélagi eru mjög fjölbreytt og margt af því er það sem enginn sér en nauðsynlegt að sé í lagi. Okkur finnst sjálfsagt að skrúfa frá krananum heima hjá okkur og fá okkur vatn að drekka og keyra eða hjóla í vinnuna en það þarf að huga að mögrum hlutum svo þetta sé allt saman hægt. Vinnan mín snýst því um að byggja upp samfélög.

Árið 2022 varð ég bæjarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ. Þrátt fyrir að hafa starfað ein 12 ár hjá Ísafjarðarbæ þá sé ég rekstur sveitarfélagsins í öðru ljósi en áður. Það hjálpar verulega að hafa unnið við gerð fjárhagsáætlanna í öll þessi ár og því liggur sá hluti bæjarfulltrúans nokkuð vel fyrir mér. Samstarfið í bæjarstjórninni hefur gengið vel og ekki mikið um ágreining, ástæðan er líklega sú að við náum að ræða málin og komumst að sameiginlegri niðurstöðu í flestum málum. Meirihlutinn tekur vel í góðar hugmyndir minnihluta og öfugt.  Þegar allt er í hnút milli flokka í bæjarstjórn og allt gert til að finna að því sem gert er þá ganga mál hægt og illa í gegnum kerfið. Það hefur verið vandamál hjá Ísafjarðarbæ. Það eru spennandi tímar framundan og mikil uppbygging næstu árin, ég horfi á hlutverk mitt sem kjörinn fulltrúa að vinna að hag bæjarfélagsins.

Þegar ég er ekki í vinnunni eða að sinna bæjarfulltúastörfum þá nýti ég tækifærið og fer golf, alveg ótrúlega skemmtilegt sport því árangurinn er svo mælanlegur. Sé bara eftir að hafa ekki byrjað fyrr, áður en ég varð svona stirður. Skíðin koma svo á veturna og þá sérstaklega fjallaskíðin, eitt það skemmtilegasta sem ég geri er að fara í ferð með vinum mínum, gamla efri lyftan er alltaf vinsæl. Ég skráði mig í Skógræktarfélag Ísafjarðar fyrir nokkrum árum síðan og varð svo formaður félagsins fyrir nokkrum árum. Við höfum verið að gróðursetja nokkur þúsund plöntur á ári og leggja göngustíga svo almenningur geti notið þess að ganga um svæðið allt frá Stórurð og inn í Tungudal. Vonandi gefst okkur tími til að gera enn meira á næstu árum.

Síðasta opna húsið í tíð Guðna Th. Jóhannessonar

Forsetahjónin við Besssastaði.

Forsetasetrið að Bessastöðum verður opið almenningi laugardaginn 8. júní í tilefni af 80 ára afmæli lýðveldis á Íslandi. Forsetahjón taka á móti gestum og býðst fólki að skoða staðinn milli klukkan 13:00 og 17:00

Þetta verður í síðasta sinn sem Bessastaðir eru opnir almenningi í tíð fráfarandi forseta. Síðan hann tók við embætti 2016 hefur opið hús á Bessastöðum orðið að reglulegum viðburði, tvisvar til þrisvar á ári, í því skyni að gefa almenningi öllum kost á að kynnast þjóðhöfðingjasetrinu.

Bessastaðir eiga sér merka sögu. Auk Bessastaðastofu, sem byggð var á 18. öld, munu gestir geta skoðað móttökusal og bókhlöðu forsetasetursins sem eru síðari tíma viðbyggingar. Í húsinu má meðal annars sjá úrval myndlistar eftir íslenska listamenn og sýnishorn gjafa sem borist hafa forsetum lýðveldisins.

Þá verða til sýnis dæmi um mannvistarleifar sem fundist hafa við fornleifarannsóknir og veita innsýn í búsetu á Bessastöðum allt frá landnámstíð. Að þessu sinni verður Bessastaðakirkja lokuð vegna framkvæmda og fornleifauppgraftar. Eins verður fornleifakjallarinn lokaður.

Í hlaði Bessastaðastofu verður fyrsti forsetabíllinn, Packard bifreið Sveins Björnssonar, til sýnis en bifreiðin er árgerð 1942. Ef veður leyfir hyggst einnig Kór Vídalínskirkju syngja lag til heiðurs forseta þegar húsið verður opnað gestum kl. 13:00.

Starfsmenn embættis forseta og aðstoðarmenn veita upplýsingar um staðinn og verða gestum til aðstoðar.

Jóns ósómi

Það komst eitt sinn í tísku að berjast með bölmóðinn að vopni og sjá ekkert bjart framundan. Undanfarið ár hefur verið rekin mikil herferð gegn laxeldi í sjó, einmitt í þessum sérstaka heimsósómastíl. Þar er allt sem úrskeiðis fer í mannheimum laxeldinu að kenna sama hvað það er.

Svo rammt kvað að heimsósómanum að þegar gamlir og úrsér gengnir vegarkaflar í Dalasýslu þoldu illa umferðina í vor var  laxeldinu umsvifalaust kennt um, þar sem eldislax til útflutnings frá Vestfjörðum er fluttur með bílum til höfuðborgarsvæðisins. En áratugum saman hefur mikið magn af fiski verið fluttur eftir þessum sömu vegum. Svo ef fiskurinn er þorskur þá er allt í lagi, en ef hann er lax þá spillast vegirnir.

Ósannindi um fyrirtækin

Jón Kaldal er talsmaður íslenska náttúruverndarsjóðsins, Icelandic wildlife fund, og hann þylur heimsósómann af miklum móð. En lætur ekki duga að ýkja og skekkja heldur beinlínis fer vísvitandi með rangt mál til áfellis eldinu. Það má kalla Jóns ósóma.

Í aðsendri grein á visir.is þann 25. maí segir Jón um laxeldisfyrirtækin:”Þau hafa farið í mál við sveitarfélög vegna þess að þau tíma ekki að borga hafnargjöld eftir verðskrá.“

Um þetta má segja að það er ekki nokkur fótur fyrir þessu. Engin dæmi eru um að laaxeldisfyrirtækin hafi höfðað mál á hendur sveitarfélagi vegna deilna um greiðslu á hafnargjöldum.

Hins vegar eru tvö dæmi um að sveitarfélag hefur stefnt eldisfyrirtæki fyrir dóm. Í öðru málinu var það Tálknafjarðarhreppur sem stefndi Arnarlaxárið 2021 og krafðist vörugjalda af flutningi á fóðri í pramma og af dauðum laxi sem landað var í Tálknafjarðarhöfn.Héraðsdómur Vestfjarða vísaði kröfunni frá í janúar 2022 og sagði málið ekki tækt til efnismeðferðar þar sem ekki var vísað til þess hver lagagrundvöllur kröfunnar væri né greint frá málsástæðum.

Arnarlax mótmælti kröfunni um vörugjöld af fóðri þar sem það sé flutt inn erlendis frá og losað beint í fóðurpramma við eldiskvíar. Fóðrið komi því aldrei inn á hafnarsvæðið og falli ekki undir gjaldskrána. Varðandi dauða laxinn þá sé ekki um vöru að ræða enda verðlaus fiskur sem er landað til förgunar.

Dómnum var ekki áfrýjað.

Hitt málið höfðaði Vesturbyggð á hendur Arnarlax. Deilt var um lögmæti aflagjalds og þær breytingar sem Vesturbyggð gerði á gjaldskránni árið 2019. Þá var aflagjald hækkað úr 0,6% í 0,7% af aflaverðmæti auk annarra breytinga. Arnarlax mótmælti breytingunum og greiddi áfram samkvæmr eldri gjaldskrá.

Vesturbyggð krafðist þess að fá mismuninn greiddan.Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Vestfjarða í nóvember 2023 og var Arnarlax sýknað af kröfum Vesturbyggðar. Dómurinn féllst á það að eldisfiskur væri ekki sjávarafli og félli ekki undir ákvæði laganna um aflagjald. Því bæri að sýkna stefnda.Vesturbyggð hefur áfrýjað dómnum til Landsréttar og beðið er þess að málið verði tekið fyrir.

Í Bolungavík og á Djúpavogi eru einnig laxasláturhús og eldisfyrirtækin hafa átt í góðu samstarfi við sveitarfélögin um greiðslu á hafnagjöldum.

Í öllum þessum sveitarfélögum hafa tekjur hafnasjóða af laxeldinu verið góðar og rífandi góð afkoma af rekstrinum.

Staðhæfingar Jóns Kaldal eru því ósannar, um er að ræða ósómamálflutning sem settur er fram að ósekju til áfellis laxeldisfyrirtækjunum.

Ósannindi um embættismenn

Annað dæmi varðar starfsmann Matvælaráðuneytisins.Árið 2019 lét skrifstofustjóri í ráðuneytinu, sem fór með málefni fiskeldis, fresta birtingu lagabreytinga um nokkra daga. Ráðherra tók þetta óstinnt upp og vísaði embættisfærslum skrifstofustjórans til lögreglu til rannsóknar. 

Jón Kaldal segir embættismanninn hafa verið að ganga erinda eldisfyrirtækjanna, en það er ekki í samræmi við gögn málsins.

Héraðssaksóknari rannsakaði embættisfærsluna. Þar kom í ljós að frestunin nam 4 dögum og varð birting laganna 18. júlí stað 14. júlí 2019. Skýringar embættismannsins voru þær að um íþyngjandi lagasetningu hafi verið að ræða fyrir fyrirtæki sem voru í umsóknarferli um leyfi til fiskeldis og hann hafi viljað koma í veg fyrir að lagasetningin skapaði skaðabótaskyldu ríkisins gagnvart þeim fyrirtækjum. Héraðssaksóknari féllst á skýringarnar og segir í niðurstöðu sinni að að ekki hafa verið sýnt fram á að skrifstofustjórinn hafi misnotað stöðu sína öðrum eða honum sjálfum til ávinnings. „Þá fæst ekki séð að athafnir yðar hafi hallað réttindum einstakra manna eða lögaðila né hins opinbera“.

Þar með voru þessar ásakanir úr sögunni en Jón Kaldal getur þess að engu heldur bætir frekar í og segir í greininni frá 25. maí að meðal starfsfólks ráðuneytisins nú séu fyrrverandi starfsmenn samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og gerir störf þeirra tortryggileg. Málflutningur af þessum toga varð til þess að Matvælaráðherra tók til varna fyrir starfsfólk sitt og andmælti þessum málflutningi í aðsendri grein á visir.is.Þar sagði ráðherrann: „Sérstaklega er ömurlegt að sjá gagnrýnendur viðhafa ummæli sem fela í sér ásakanir á hendur tilgreindum starfsmönnum ráðuneytisins, sem fela í sér brigsl um refsiverð brot ef sannar væru.“

Ómálefnaleg umræða

Helstu andstæðingar sjókvíaeldis hafa tamið sér árásargjarnan, ómálefnalegan, villandi og jafnvel rangan málflutning um sjókvíaeldi. Þar er Jón Kaldal meðal fremstu manna og nýtir til fulls fyrri störf sín í fjölmiðlum. Það er mikil þörf á því að umræða um sjókvíaeldi taki mið af staðreyndum og að rangfærslum verði ýtt til hliðar. Í því verkefni er ábyrgð fjölmiðla veruleg.

-k

Bolafjall: samkomulag innan seilingar

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri og Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir, formaður bæjarráðs og milli þeirra er Þórdís Gylfadóttir, utanríkisráðherra.

Bolungavíkurkaupstaður, utanríkisráðuneytið og Landhelgisgæslan stefna að því að undirrita samkomulag um næsta nágrenni við útsýnispallinn á Bolafjalli eigi síðan en 10. júní næstkomandi. Miðað er við að Vegagerðin verði aðili að samkomulaginu.

Í viljayfirlýsingu segir að undirritaðir aðilar lýsa því yfir að stefnt sé að þvi að ljúka gerð heildarsamkomulags varðandi framtíðarfyrirkomulag vegar innan öryggissvæðisins á Bolafjalli. Samkomulagið lúti m.a. að:

  • ástandskröfum til vegarins með tilliti til nauðsynlegs aðgengis að ferðamannastaðnum
  • endurbótum á núverandi vegi til að tryggja sem best aðgengi
  • reglubundnu viðhaldi vegarins til framtíðar
  • skiptingu kostnaðar af veghaldinu
  • ábyrgð á notkun vegarins
  • almennri umsjón með veghaldinu og ákvarðanatöku varðandi opnun/lokun  
  • nauðsynlegum takmörkunum tengdum öryggissvæðinu á Bolafjalli

Samhliða lýsa aðilar því yfir að ekki séu gerðar athugasemdir við að Bolungarvíkurkaupstaður hefji þegar undirbúning að gerð bílastæðis á Bolafjalli í samræmi við gildandi deiliskipulag, sem ætlað er fyrir ökutæki ferðamanna og annarra gesta á svæðinu, og að stefnt sé að því að Bolungarvíkurkaupstaður innheimti bílastæðagjöld af notendum.

Bæjarráð Bolungavíkurkaupstaðar hefur rætt viljayfirlýsinguna og fól bæjarstjóra að undirrita hana.

Steinn GK 65

972 Steinn GK 65 ex Kristín GK 457. Ljósmynd Jón Páll Ásgeirsson.

Steinn GK 65 var smíðaður í Boizenburg í Austur-Þýskalandi 1965 og hét upphaflega Þorsteinn RE 303. 

Síðar bar báturinn nöfnin Þorsteinn RE, Hafrún ÍS, Hafrún BA, Pétur Ingi KE, Stjörnutindur SU,  Lýtingur NS, Vigdís BA, Haraldur EA, Ásgeir Guðmundsson SF og Atlanúpur ÞH þangað til hann fékk nafnið Garðey SF og loks Kristín GK eftir að Vísir eignaðist hann. 

2008 varð Kristín ÞH 157 með heimahöfn á Húsavík, eigandi Vísir hf.

Árið 2014 fékk báturinn aftur einkennisstafina GK og númerið 457. Eigandi Vísir hf. og heimahöfnin Grindavík.

Báturinn fékk núverandi nafn árið 2020 og er í eigu Skipaþjónustu Íslands.

Af vefsíðunni skipamyndir.com

Nýjustu fréttir