Föstudagur 6. september 2024
Síða 73

Jónsósómi II – engin skuldsetning vegna 984 m.kr. hafnarframkvæmda í Vesturbyggð

Jón Kaldal hefur dregið til baka þá röngu fullyrðingu sína að laxeldisfyrirtækin hafi farið í mál við sveitarfélögin vegna hafnagjalda. Það eru engin dæmi um slíkt. Þessu er öfugt farið. Tvisvar hafa sveitarfélög höfðað mál á hendur laxeldisfyrirækjunum vegna hafnagjalda. Öðru málinu var vísað frá dómi enda tilhæfulaust. Því var ekki áfrýjað. Í hinu málinu var gjaldskrá eldisfyrirtækja hækkuð töluvert og fyrirtækin mótmæltu henni. Annað fyrirtækið greiddi ekki hækkunina og hitt greiddi með fyrirvara um lögmæti breytingarinnar. Sveitarfélagið Vesturbyggð höfðaði mál fyrir dómstólum og krafðist þess að fá hækkunina greidda. Laxeldisfyrirtækið var í héraðsdómi sýknað af kröfum sveitarfélagsins. Því hefur verið áfrýjað til Landsréttar.

Hins vegar lítur það ekki vel út fyrir sveitarfélagið, þar sem dómurinn segir að lög heimili ekki álagningu aflagjalds á eldisfiski. Sé það svo verður aflagjaldið að byggjast á samningum milli sveitarfélagsins og eldisfyrirtækisins. Annars staðar á landinu eru ekki neinar deilur um hafnagjöldin milli fyrirtækjanna og sveitarfélaga. Í Bolungavik var opnað laxasláturhús í fyrra og þar er skriflegur samningur milli kaupstaðarins og eldisfyrirtækjanna. Niðurstaðan málsins fyrir dómstólum mun því ekki hafa nein áhrif á tekjur Bolungavíkurhafnar. Það sama mun vera upp á teningunum á Austfjörðum. Engar deilur eru þar milli laxeldisfyrirtækisins og sveitarfélaganna.

Engin skuldsetning – eigið fé jókst um hálfan milljarð kr.

Jón Kaldal, talsmaður íslenska náttúruverndarsjóðsins, Icelandic wildlife fund, er samt ekki af baki dottinn og segir í svargrein sinni á visir.is við grein minni Jónsósómi á föstudaginn var um dóm Héraðsdóms Vestfjarða: „Forsvarsfólki Vesturbyggðar var eðlilega brugðið. Sveitarfélagið hefur skuldsett sig verulega til að bæta hafnaraðstöðuna í þágu sjókvíaeldisins“. Honum er mikið í mun að kasta rýrð á laxeldisfyrirtækin og draga upp þá mynd að þau fari illa með sveitarfélögin fjárhagslega. Það er liður í áróðurherferðinni gegn laxeldinu.

Af þessu tilefni tók ég saman upplýsingar um hafnaframkvæmdir og rekstur í Vesturbyggð síðustu 10 árin.

Reksturinn hefur gengið afar vel, einkum síðustu árin eftir að laxeldið á Vestfjörðum komst vel af stað. Rekstrarniðurstaðan varð jákvæð í 9 ár af síðustu 10 árum. Árin 2021 og 2022 varð afgangurinn nærri helmingur af tekjunum. Í fyrra lækkaði afgangurinn um liðlega 100 m.kr. einkum vegna hækkandi rekstrarkostnað. Um 50% hækkun útgjalda milli ára vekur athygli, en engar skýringar eru gefnar á því.

Efnahagurinn hefur ekki síður blómgast á þessum tíu árum. Eigið fé hafnasjóðs jókst úr 26 m.kr. í lok árs 2014 í 571 m.kr. í lok árs 2023. Það hefur 22 faldast á tímabilinu. Heildarskuldirnar voru 225 m.kr. fyrir 10 árum en nú 233 m.kr. Það er töluverð raunverðslækkun að teknu tilliti til verðbólgu.

Fullyrðing Jóns Kaldals þess efnis  að sveitarfélagið hafi skuldsett sig verulega til þess að bæta hafnaaðstöðuna í þágu sjókvíaeldisins eru staðlausir stafir.

Góður afgangur af rekstri, eigið fé 22 faldast, skuldir heldur lækka að raungildi.

Handbært fé frá rekstri 335 m.kr. umfram kostnað

Heildarframkvæmdir Vesturbyggðar í höfnunum fjórum í sveitarfélaginu síðustu 10 árin eru samkvæmt ársreikningum sveitarfélagsins 984 m.kr. Þá eru það allar framkvæmdir, en ekki bara þær sem eru vegna laxeldisins. Þar af var hlutur ríkisins 507 m.kr. og sveitarfélagið greiddi 477 m.kr.

Þetta kemur fram í töflu II og þar er einnig handbært fé frá rekstri hvers árs. Eins og sjá má var það verulega hærra en hlutur sveitarfélagsins í framkvæmdakostnaði hvers árs eða samtals 812 m.kr. Handbært fé var því 335 m.kr. umfram það sem þurfti til að standa undir öllum útgjöldum hafnanna.Enda lækka skuldir hafnasjóðs að raungildi þrátt fyrir nærri milljarð króna í framkvæmdir.

Tafla II. Framkvæmdir, hlutur sveitarfélags í þeim og handbært fé frá rekstri.

Tekjur af laxeldi eru uppistaðan

Þegar skoðaður er hlutur laxeldisins í tekjum hafnasjóðs kemur í ljós að þær eru uppistaðan í þessari góðu afkomu, þar af er aflagjaldið langstærsti tekjuliðurinn. Árið 2022 var t.d. aflagjald af eldisfiski 195,3 m.kr.sem var 54% af öllum tekjum. Aflagjöld af öðrum fiski var 37,4 m.kr. þannig að eldisfiskurinn gaf 84% af öllum aflagjöldum þess árs. Laxeldisfyrirtækin greiða svo önnur hafnagjöld eins og aðrir notendur hafnanna en heildargreiðslur þeirra eru ekki birtar. En víst er að án laxeldisins hefði ekkert orðið eftir af 168m.kr. rekstrarafgangi hafnasjóðs það árið.

209 m.kr. í fiskeldisgjald

Til viðbótar má geta þess að Vesturbyggð hefur fengið á fjórum árum samtals 209 m.kr. styrki úr Fiskeldissjóði í ýmsar þarfar framkvæmdir í sveitarfélaginu. Þeir peningar koma frá laxeldisfyrirtækjunum sem greiða fiskeldisgjald í ríkissjóð. Þriðjungi þess er ráðstafað til sveitarfélaga þar sem laxeldið er stundað.

Dómurinn: lítil áhrif á fjárhag

Jón Kaldal vísar í ummæli fyrrverandi bæjarstjóra Vesturbyggðar sem segir um dóm Héraðsdóms Vestfjarða: „En ef niðurstaðan verður með sambærilegum hætti hefur þetta þannig áhrif á helstu tekjur sveitarfélagsins af fiskeldi verða engar“

Þessi staðhæfing er mjög vafasöm. En fyrst, ef sveitarfélagið vinnur málið, þá munu tekjurnar hækka þar sem fyrirtækið sem ekki hefur greitt skv. gjaldskrárhækkuninni mun þá þurfa að greiða hana. Hvað hún  er mikil liggur ekki fyrir. Ég myndi giska á a.m.k. 20% og tekjuaukinn gæri þá verið 7-8%. Það munar um þá fjárhæð en veldur engum straumhvörfum. En að sama skapi ef málið tapast þarf hafnasjóður að endurgreiða því fyrirtæki sem hefur greitt hækkunina með fyrirvara um lögmæti. Það gæti gróft metið verið svipuð fjárhæð. Engu að síður fjárhæð sem munar um, en fjarri öllu lagi að halda því fram að tekjur sveitarfélagsins af fiskeldi verði engar.Eftir sem áður verða tekjurnar miklar. Það er meira áhyggjuefni fyrir bæjarstjórann fyrrverandi hvernig stendur á um 70 m.kr. hækkun útgjalda til reksturs hafnasjóðanna á síðasta ári sem er 50% hækkun.

Þjónusta en ekki skattheimta

Hafa verður í huga að gjaldtaka hafnasjóða er til að standa undir þjónustu en er lögum samkvæmt ekki bein skattheimta eins og t.d. útsvar og fasteignaskattur. Það þýðir að hafnagjöldin eiga að borga kostnað við rekstur og framkvæmdir hafnanna. Laxeldið á eðlilega að greiða þann kostnað sem af starfseminni hlýst. Að sama skapi á eldið ekki að greiða umfram þann kostnað. Sem dæmi má nefna að næstu 4 árin er gert ráð fyrir um 100 m.kr. árlega í hafnaframkvæmdir. Miðað við greinargerð sem fylgir fjárhagsáætlun eru það fyrst og fremst framkvæmdir vegna aðstöðu smábáta, en Patrekshöfn er stærsta höfn landsins þegar kemur að strandveiðum.Lítið er að finna sem rekja má til laxeldisins. Sú staða að hafnasjóður er um langt árabil rekinn með tekjum langt umfram það sem þarf getur skapað kröfu frá notendum hafnanna um lækkun gjalda.

Laxeldið borgar vel

Niðurstaðan er skýr. Laxeldið hefur síðustu 10 árin skilað miklum tekjum til hafnasjóðs Vesturbyggðar og örugglega mun meiri tekjum en nemur þeim útgjöldum sem höfnin hefur orðið fyrir vegna eldisins.

Það er ósanngjarnt og ósatt af Jóni Kaldal að reyna að sverta laxeldisfyrirtækin vegna samskipta þeirra við sveitarfélögin, en hann mun líklega halda áfram að reyna. Það verður okkar hvimleiði þakleki svo vitnað sé í biblíuna.

-k

Ísafjarðarhöfn: þrjú skemmtiferðaskip og um 4.000 farþegar í gær

Viking Star og karabíska prinsessan í Sundahöfn. Samtals um 500 lengdarmetrar.

Mikið var um að vera í góðviðrinu í Ísafjarðarhöfn í gær. Þrjú erlend skemmtiferðaskip voru í höfn og með þeim um 4.000 farþegar, að mestu Bandarríkjamenn. Ætla má að höfnin hafi fengið um 20 m.kr. í kassann í hafnagjöld þennan daginn.

Minnst skipanna var franska lúxusskipið Le Bellot, sem var með 96 Bandaríkjamenn sem sigldi fyrst inn í Ísafjarðardjúp og kom við í Vigur áður en það lagðist að kanti í Sundahöfn.

Viking Star hóf ferð sína í Björgvin í Noregi 27.maí og Ísafjörður var fyrsta höfnin á Íslandi. Það hldur svo áfram um landið og siglir héðan til Grænlands. Með því voru um 750 farþegar. Skipið er feikna langt 228 metrar.

Stærst var þó Caribbean Princess sem er 290 metra langt og með því voru um 3.000 farþegar. Ferðalagið sem Caribbean Princess er á núna hófst í Southampton í Englandi 31. maí, en þaðan var siglt á þrjár norskar hafnir, síðan til Lerwick á Hjaltlandi og svo yfir til Reykjavíkur. Eftir stoppið á Ísafirði liggur leiðin til Akureyrar og þaðan beint aftur til Southampton.

Le Bellot í Sundahöfn. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Tap fyrir toppliðinu

Mynd: Vestri/Facebook

Vestri tapaði 0-5 fyrir toppliði Völsungs í 2. deild kvenna í dag er liðin mættust á Húsavík.

Völsungur leiddi 1-0 í hálfleik eftir mark frá Kristu Eik Harðardóttur á 39 mínútu.

Í seinni hálfleik héldu heimastúlkum engin bönd og bættu þær við fjórum mörkum; tveimur frá Höllu Bríeti Kristjánsdóttur og sitthvoru markinu frá Hörpu Ásgeirsdóttur og Ólínu Helgu Sigþórsdóttur.

Vestri er eftir leikinn í 12 sæti eftir fimm leiki með 1 stig og mætir næst KH laugardaginn 15. júní á Kerecisvelli.

Markaveisla á Torfnesi

Felix Rein Grétarsson skoraði fyrsta mark leiksins. Mynd Hörður/Instagram

Hörður frá Ísafirði vann stórsigur á Afríku í 5. deild karla í gær en leikar fóru 10-1 fyrir heimamenn.

Felix Rein Grétarsson skoraði fyrsta mark leiksins og jafnframt sitt fyrsta mark í vetur á 14 mínútu en það reyndist eina mark fyrri hálfleiks.

Í seinni hálfleik opnuðust allar flóðgáttir. Helgi Hrannar Guðmundsson skoraði annað mark Harðar á 48 mínútu og fjórum mínútum síðar bætti Gautur Óli Gíslason þriðja markinu við.

Helgi Hrannar var svo aftur á ferðinni á 64 mínútu og Jóhann Samuel Rendall skoraði svo fimmta marka Harðarmanna fjórum mínútum síðar.

Harnarmenn voru hvergi nærri hættir. Jóhann Samuel skoraði aftur á 72 mínútu áður en Gabríel Heiðberg Kristjánsson bætti tveimur mörkum í röð á 80 og 82 mínútu.

Lið Afríku náði að klóra í bakkann á 84 mínútu með marki Anass Nikolai Ninir áður en Hreinn Róbert Jónsson bætti við tíunda marki heimamanna á 89 mínútu leiksins.

Með sigrinum skaust Hörður aftur upp í þriðja sæti B-riðils 5. deildarinnar með 9 stig á meðan Afríka vermir enn botnsætið án stiga.

Næsti leikur Harðar er laugardaginn 15. júní er liðið mætir Smára en leikurinn fer fram í Fagralundi í Kópavogi.

Við Djúpið: fjölbreytt dagskrá framundan

Hátíðarpassi tónlistarhátíðarinnar Við Djúpið veitir aðgang að öllum tónleikum hennar á bestu kjörunum. Hægt er að kaupa passan strax á netinu eða við innganginn á tónleikum. Miða sala á viddjupid.is, sjá hlekk í bio.

Það er ekki nema rúm vika í að talið verði í fyrstu tónleika hátíðarinnar í ár. Þá fer í hönd spennandi tónleikavika á Ísafirði. Hér er yfirlit yfir alla tónleikadagskrána.

17. júní – mánudagur

Undanfarin ár hefur skapast sú hefð að tónlistarhátíðin Við Djúpið hefjist á lýðveldisdeginum. Fyrstu tónleikarnir eru huggulegir útitónleikar í blómagarðinum. Þar stíga á stokk Ísfirðingarnir Svava Rún Steingrímsdóttir, Skúli Mennski og Pétur Ernir Svavarsson. Kl. 20 opnar hátíðin svo formlega á spennandi kammertónleikum þar sem meðlimir Orchester um Trappenhaus koma fram og leika verk eftir Claude Debussy, Philippe Gaubert, Paul Hindemith og fleiri.

👉 17:00: Pikknikk-tónleikar í blómagarðinum á Austurvelli (Facebook)

👉 20:00: Opnunartónleikar í Hömrum (Facebook)

18. júní – þriðjudagur

Það er óvíst hvað verður á efnisskrá tónleikanna í Hömrum kl. 20 á þriðjudagskvöldi hátíðarinnar. Þar bregst strengjakvartett nefnilega við neyðartilfellum af öllu tagi. Þinn eigin Bráðakonsert býður áheyrandanum að fá bót meina sinna, því hljóðfæraleikararnir bregðast við bráðatilfellum tónleikagesta með klassískri innspýtingu við hæfi. Í hádeginu fáum við harmonikutóntóna frá Bosníu-Hersegóvínu í Bryggjusal Edinborgarhússins.

👉 12:15: Harmonikutóntónar á hádegistónleikum í Bryggjusal (Facebook)

👉 20:00: Bráðakonsert í Hömrum (Facebook)

19. júní – miðvikudagur

Miðvikudagurinn er tileinkaður tónlist frá Ameríku. Í hádeginu leikur bandaríska píanótríóið Antigone þrjú ólík verk eftir tónskáld fædd á 20. öld og aldamótaárinu 2000. Um kvöldið verða á dagskrá tvö verk eftir bandaríska tónskáldið Ellis Ludwig-Leone. Um er að ræða söngvasveiginn False We Hope fyrir söngkonu, strengjakvartett, píanó og hljóðgervil. Eliza Bagg syngur, kvartett úr Orchester im Treppenhaus leikur ásamt tónskáldinu sem spilar á hljómborð. Á tónleikunum er strengjakvartetti tónskáldsins Speech after the Removal of the Larynx (ísl: Tal eftir að raddböndin hafa verið fjarlægð) ofið saman við söngvasveiginn.

👉 12:15: Made in America í Bryggjusal Edinborgarhúss (Facebook)

👉 20:00: False We Hope í Hömrum (Facebook)

20. júní – fimmtudagur – sólstöður

Það verður vetrarlegt á sumarsólstöðum við Djúpið. Þegar sól er hæst á lofti minnumst við vetrarins á hátíðinni. Í hádeginu frumflytur Sæunn Þorsteinsdóttir í Evrópu nýtt verk Veronique Vöku, Neige éternelle (ísl: Elílfur snjór). Verkið er samið fyrir Sæunni og var frumflutt í Bandaríkjunum fyrr á þessu ári.

Um kvöldið nær hátíðardagskráin ákveðnu hámarki. Orchester im Treppenhaus ásamt ísfirsku sópransöngkonunni Herdísi Önnu Jónasdóttur flytja Vetrarferðina eftir Franz Schubert í nýlegri útsetningu hljómsveitarstjórans Thomasar Posth og Fynns Großmanns. Útsetningin hefur ekki hljómað oft á tónleikum og aldrei fyrr á Íslandi.

👉 12:15: Elífur snjór í Bryggjusal (Facebook)

👉 20:00: Vetrarferðin í Hömrum (Facebook)

Þýska kammersveitin Orchester im Treppenhaus kemur fram sem heild og í minni hópum á fjölmörgum tónleikum hátíðarinnar.

21. júní – föstudagur

Föstudagurinn er tileinkaður nýrri tónlist. Um kvöldið leikur Cauda Collective þrjú ný strengjatríó og tvo nýlega kvartetta eftir meðlimi Errata tónskáldahópsins. Í hádeginu sama dag bjóða tvífararnir og vinirnir Halldór Smárason og ameríska tónskáldið Ellis Ludwig-Leone upp á dagskrá með sönglögum og fleiru þar sem þeir para saman tónsmíðar sínar. Þar sem hádegistónleikarnir duga sennilega ekki til verður framhald síðkvölds í brugghúsinu Dokkunni.

👉 12:15: Tvífarar í Bryggjusal (Facebook)

👉 20:00: Endurfundir í Hömrum. (Facebook)

👉 22:00: Tvífarar, framhald, á Dokkunni (Facebook)

22. júní – laugardagur

Lokadagur hátíðarinnar hefst á tónleikum kl. 12 þar sem nemendur á námskeiðum hennar koma fram í Hömrum. Aðgangur er ókeypis.

Síðdegis, kl. 17, er svo komið að lokum hátíðarinnar en þá stíga listamenn hennar á stokk í fjölbreyttum hópum og við heyrum meðal annars Holberg-svítu Griegs, kafla úr píanókonserti eftir Beethoven og nýja spennandi tónlist.

👉 12:00 Nemendatónleikar í Hömrum

👉 17:00 Lokahátíð í Hömrum (Facebook)

Byggðastofnun gerir samkomulag við evrópska fjárfestingarbankann um bakábyrgðir

: Hrund Pétursdóttir forstöðumaður fyrirtækjasviðs Byggðastofnunar, Arnar Már Elíasson forstjóri Byggðastofnunar, Thomas Östros, varaforseti EIB Group og Lucie Samcová - Hall Allen, sendiherra ESB

Evrópski fjárfestingasjóðurinn hefur undirritað samning um bakábyrgðir við Byggðastofnun vegna lána til lítilla og meðalstórra fyrirtækja í landsbyggðunum.

Ábyrgðir EIF, sem njóta stuðnings InvestEU áætlunar Evrópusambandsins, munu gera Byggðastofnun kleift að veita allt að 3,2 milljarða króna í formi nýrra útlána með sveigjanlegri skilmálum. Fjármagninu er einkum ætlað að styðja við unga bændur, viðkvæm byggðarlög og konur í frumkvöðlastarfsemi. Gert er ráð fyrir að styðja við að minnsta kosti 50 lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi. 

Við undirritun samkomulagsins á Sauðárkróki sagði Arnar Már Elíasson, forstjóri Byggðastofnunar: “Ísland er eitt af dreifbýlustu löndum heims með aðeins 4 íbúa á hvern ferkílómeter. Því til viðbótar býr um 80% þjóðarinnar á höfuðborgarsvæðinu sem leiðir af sér víðfeðm svæði þar sem fáir eða enginn býr. Innviðauppbygging í dreifðum byggðum er krefjandi og kostnaðarsöm. Ábyrgðakerfi InvestEU veitir Byggðastofnun nauðsynleg úrræði til að veita mikilvæga og hagkvæma lánamöguleika í landsbyggðunum til að jafna lífskjör allra landsmanna”.

Thomas Östros, varaforseti EIB Group, tók undir þetta:

“Eitt af markmiðum EIB Group er að styðja við lítil og meðalstór fyrirtæki. Með því að útvíkka InvestEU áætlun Evrópusambandsins til EFTA ríkja er EIF að útvíkka ábyrgðakerfið til Íslands. Frumkvöðlar í landbyggðunum standa frammi fyrir áskorunum, bæði umhverfis og fjárhagslegum og því erum við ánægð að styðja við Byggðastofnun í að efla lánamöguleikana.”


Samkomulagið við Byggðastofnun er fyrsta ábyrgðasamkomulagið á Íslandi sem er stutt af InvestEU áætluninni.

Lucie Samcová – Hall Allen, sendiherra ESB á Íslandi sagði að: “Í nú um þrjá áratugi hafa íslensk fyrirtæki, háskólar, rannsóknarstofnanir og aðrir tekið þátt í mismunandi áætlunum á vegum Evrópusambandsins. Árangurshlutfall þessara aðila er mjög hátt og eru þeir mikils metnir af alþjóðlegum samstarfsaðilum. Ábyrgðasamkomulagið sem við skrifum undir við Byggðastofnun í dag er fyrsta samkomulagið um bakábyrgðir InvestEU áætlunarinnar á Íslandi. Ég hlakka til að sjá hvernig það mun hjálpa litlum fyrirtækjum í landsbyggðunum að vaxa og dafna”.

Þetta er annað ábyrgðasamkomulag Byggðastofnunar og EIF.  Fyrra samkomulagið (COSME Loan Guarantee Facility) bætti aðgengi íslenskra fyrirtækja í landsbyggðunum að fjármagni með um 100 lánum að fjárhæð 4,3 milljörðum króna á árunum 2021-2023.

Evrópski fjárfestingasjóðurinn (EIF) er hluti samstæðu Fjárfestingarbanka Evrópu (EIB). Markmið hans er að styðja lítil og meðalstór fyrirtæki með aðgengi að fjármagni.  EIF hannar og þróar fjármögnunarleiðir og ábyrgðir sem eru sérstaklega sniðin að þörfum þessara fyrirtækja.  Í þessu hlutverki sínu endurspeglar sjóðurinn markmið Evrópusambandsins um stuðning við nýsköpun, rannsóknir og þróun, frumkvöðlastarfsemi, vöxt og sköpun starfa. 

Ísafjörður: um 140 m.kr. í ný bílastæði við höfnina

Hollenska skipið Nieuw Statendam við Sundabakka í gær. Skipið er 299 metra langt. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Hafnarstjórn Ísafjarðarhafna hefur falið Hilmari Lyngmó, hafnarstjóra að undangengnu útboði að semja við Verkhaf ehf í Súgandafirði um gerð bílastæða og rútustæða við Hrafnatanga/Kríutanga á Suðurtanga á Ísafirði.

Um er að ræða um 3.500 fermetra stæði fyrir rútur og leigubíla. Áætlaður kostnaður er um 120 m.kr. og malbik því til viðbótar er um 20 m.kr.

Að sögn Hilmars Lyngmó eru framkvæmdir hafnar og er búist við því að þeim ljúki með malbikun í lok ágúst.

Samið verður við verktaka á einingarverðum útboðs síðasta árs, að teknu tilliti til vísitöluhækkunar. Áætlaður heildarkostnaður er undir útboðsmörkum segir í fundargerð hafnarstjórnar.

Tilkynna á merktan fugl

Ljósm. Erling Ólafsson

Merkingar eru mikilvæg aðferð við rannsóknir á fuglum. Með merkingum má fá upplýsingar um ferðir fugla innanlands og ferðalög milli landa. Þá eru merkingar á ungum oft eina leiðin til að komast að því hve fuglar ná háum aldri eða hvenær þeir verða kynþroska og fara að verpa. Loks geta merkingar gefið ýmsar aðrar stofnvistfræðilegar upplýsingar, svo sem um dánartíðni, dánarorsakir, aldursdreifingu í stofni, stofnstærð og fleira.

Ef þú finnur merktan fugl vinsamlega tilkynntu það til Náttúrufræðistofnunar Íslands í tölvupósti á netfangið fuglamerki@ni.is eða í síma 5900500. Þeim sem tilkynna um merktan fugl eru sendar um hæl upplýsingar um hvar og hvenær fuglinn var merktur, aldur hans og fjarlægð frá merkingastað.

Upplýsingar sem þurfa að koma fram:
– Númer á merkinu (og merkingastöð)
– Hvaða fuglategund (ekki nauðsynlegt, ef þú ert ekki viss)
– Hvar fannst fuglinn
– Hvenær fannst fuglinn
– Hvernig var fuglinn (t.d. nýdauður, bara fótur með merki fannst o.s.frv.)
– Finnandi (nafn, netfang, heimilisfang, sími)

Prjónagleðin hefur vaxið með hverju árinu

Erna Jónmundsdóttir. MYND RÓBERT DANÍEL JÓNSSON

Næstkomandi helgi dagana 7.-9. júní verður Prjónagleðin haldin í áttunda sinn í Húnabyggð. Í nýjasta tbl. Feykis birtum við viðtal við Ernu Jónmundsdóttur sem uppalin er í Bolungarvík en hefur búið á Blönduósi í 19 ár með eiginmanni sínum, Róberti Daníel Jónssyni, og þremurbörnum. „Handavinna var sennilega það fag í grunnskóla sem mér fannst leiðinlegast og náði t.d. aldrei tökum á prjónaskap. Tókst með herkjum að prjóna einn nálapúða og svo orm sem var 20 cm langur, byrjaði í 20 lykkjum en endaði í 37! Var sem sagt í laginu eins og kaffipoki áður en hann var saumaður saman.

Það var ekki fyrr en ég flutti norður sem áhuginn kviknaði á að prjóna og nú þarf ég helst alltaf að vera með einhver verkefni í takinu, “ segir Erna.

„Öðru hvoru megin við áramótin 2015/2016 bað Arnar Þór Sævarsson, sem þá var bæjarstjóri á Blönduósi, mig um að taka sæti sem varamaður í stjórn Textilsetursins. Beiðninni fylgdi að það væri lítið sem ekkert um forföll og ég yrði þarna nánast bara að nafninu til. Bað mig þó um að mæta á næsta fund stjórnar. Á þeim fundi lagði Jóhanna Erla Pálmadóttir þáverandi framkvæmdarstjóri Textilsetursins fram þessa hugmynd um að koma á fót árlegri prjónahátíð í bænum að fyrirmynd Strykkefestival í Fanø í Danmörku. Stutta útgáfan er sú að stjórn og varamenn voru skipaðir í undirbúningsnefnd og vikulegir fundir fram í júní,“ segir Erna.

„Það var algjört ævintýri að fá að taka þátt í að byggja þessa hátíð upp undir dyggri stjórn Jóhönnu sem bar hitann og þungann af öllu verkefninu. Fyrsta árið voru Norðurlandabúar í meirihluta gesta og heimamenn sáust varla. Það hefur þó heldur betur breyst og nú hefur Íslendingum fjölgað mjög og hátíðin stækkað og vaxið með hverju árinu.“

„Það eru algjör forréttindi að fá alla þessa flottu kennara til okkar, bæði innlenda og erlenda. Á síðasta ári kom t.d. prjónahönnuðurinn Lene Holme, sem er hálfgerð „rokkstjarna” í prjónaheiminum. Námskeiðin og fyrirlestrarnir hafa verið mjög fjölbreytt og skemmtileg. Fyrstu árin var eingöngu stílað inn á námskeið í prjónaskap en síðar bættust við önnur námskeið, svo sem í hekli og fjöldi námskeiða í TextilLabinu á Blönduósi. Sama á við um söluaðila sem mæta með allt milli himins og jarðar sem tengist prjónaskap og handavinnu.“

Svona stór viðburður hefur líka gríðarlega góð áhrif á samfélagið, bæði gott umtal og eins kaup gesta á vörum og þjónustu heimafólks.

Þegar Erna er spurð um uppáhalds viðburð tengdan prjónagleðinni á hún rosalega erfitt að gera upp á milli viðburða. Erna reynir alltaf að fara á 1-2 námskeið og þau hafa öll farið fram úr væntingum. Að labba um á Garntorgi, skoða og snerta garn, það er mjög ljúft. „Tala nú ekki um að sjá allt þetta fallega handverk sem fólk klæðist, það eitt og sér er mjög skemmtilegt. Svo er bara ótrúlega notalegt að sitja og spjalla í kaffisölunni.“

„Ef ég á að velja einn uppáhaldsviðburð þá var það prjónagjörningurinn Own your own time VI á Prjónagleðinni 2017 en þá stóðu 82 prjónarar í hring og prjónuðu saman í eina klukkustund. Veðrið hafði verið hálf leiðinlegt þessa helgi en rétt áður en viðburðurinn hófst stytti upp og sólin fór að skína, “ segir Erna.

Hvað stendur upp úr á svona hátíð? „Gleðin. Nafn hátíðarinnar Prjónagleði á svo sannarlega við. Þarna koma saman hundruðir manna með sama áhugamál og markmið allra er að njóta þess saman.

Þó að það sé alltaf gaman að sjá ný andlit þykir mér líka mjög vænt um að sjá andlit kennara, söluaðila og gesta sem hafa fylgt okkur frá upphafi og mætt ár hvert, “ segir Erna að lokum. 

Af vefsíðunni feykir.is

Íslenska lýðveldið 80 ára

Íslenska lýðveldið var stofnað á Þingvöllum þann 17. júní 1944 og fagnar því 80 ára afmæli á árinu. Af því tilefni skipaði Katrín Jakobsdóttir þáverandi forsætisráðherra nefnd sem unnið hefur að undirbúningi viðburða til að halda upp á tímamótin. Nefndin er skipuð fulltrúum forsætisráðuneytisins, menningar- og viðskiptaráðuneytisins, skrifstofu Alþingis, skrifstofu forseta Íslands og Þingvallaþjóðgarðs.

Íslendingar höfðu á seinni hluta 19. aldar og snemma á 20. öld smám saman fengið aukið sjálfstæði með stjórnarskrá árið 1874 sem veitti Alþingi löggjafarvald, heimastjórn árið 1904 og loks fullveldi árið 1918. Með stofnun lýðveldis hér á landi árið 1944 lauk sambandi Íslands og Danmerkur sem staðið hafði yfir í aldir og var því stjórnarfari sem við þekkjum í dag komið á.

Sérstök hátíðardagskrá í tilefni af 80 ára afmæli lýðveldisins hefur þannig verið sett upp með fjölda viðburða. Á þessu vefsvæði er að finna yfirlit með upplýsingum um viðburði og verkefni sem munu fara fram í tilefni af lýðveldisafmælinu en þar má meðal annars nefna útgáfu bókar um þjóðhátíðarljóð, hátíð á Hrafnseyri, þjóðhátíð á Þingvöllum, gönguferðir um þjóðlendur, opið hús á Bessastöðum og Alþingi auk menningarviðburða um allt land. Hátíðahöldin ná hámarki 17. júní, þegar 80 ár eru liðin frá stofnun lýðveldis á Íslandi, með dagskrá og kórasöng um allt land.

Nýjustu fréttir