Föstudagur 6. september 2024
Síða 72

Lambagras

Lambagras er ein af algengustu jurtum landsins.  Það vex á melum, söndum og þurru graslendi.  Það vex jafnt á láglendi sem hátt til fjalla, víða í 1100-1200 m hæð á Tröllaskaga. Það hefur hæst fundizt í 1440 m hæð á Hvannadalshrygg. Lambagrasið blómgast fremur snemma á vorin. Það myndar sérkennilegar, ávalar þúfur með langri og sterkri stólparót niður úr, og er raunar auðþekkt á þeim. Stundum hefur þó komið fyrir að menn villist á vetrarblómi og lambagrasi, en vetrarblómið hefur tvískipta frævu og gjörólík laufblöð. Nokkuð algengt er að sjá lambagras með hvítum blómum.

Lambagrasþúfurnar eru alsettar blaðsprotum og leggstuttum blómum um blómgunartímann. Blómin eru um 8-10 mm í þvermál og álíka löng. Krónublöðin eru bleik, nagllöng og frambreið með skoru eða bug í endann. Bikarinn er krukkulaga, 5-7,5 mm á lengd, grunnskertur með fimm sljóum tönnum, rauður í endann, en ljósari og oft grænn neðan til, hárlaus nema með randhárum í vikunum milli bikartannanna. Fræflar eru tíu, ein fræva með þremur stílum. Aldinið er aflangt, sívalt hýði um 7-10 mm langt, með útstæðum tönnum, stendur út úr bikarnum. Fræin eru dökkgráleit eða svört, nýrlaga eða kringluleit, um 1 mm í þvermál. Laufblöðin eru í þéttum hvirfingum, striklaga, venjulega 3-8 mm á lengd, í skugga oft miklu lengri eða allt að 15 mm, 1-2 mm á breidd, broddydd, með örsmáum tannhárum á röndunum. Stönglarnir eru marggreindir, neðan til oft þaktir leifum af gömlum blaðhvirfingum fyrri ára.

Af vefsíðunni floraislands.is

Snæfjallahátíð um Jónsmessuna

Tónlistarhátíðin Snæfjallahátíð verður haldin í Dalbæ og í Unaðsdalskirkju á Snæfjallaströnd 21. -23. júní.

 Fram koma ;

Kira Kira
Kraftgalli
Kvæðakórinn
Línus Orri
Dúllurnar
Súrillur og Dókur
Venus Volcanism
Ari Árelíus
Hermigervill

Fleiri tónlistaratriði og nákvæm dagskrá mun bætast við þegar nær dregur.

Þetta verður tjaldútilega enda ekkert gistiheimili eða slíkt á svæðinu og verður tjald-gjald innifalið í miðaverðinu.
Hátíðin er haldin langt frá mannabyggðum og mikilvægt er að fylla bílinn af eldsneyti á Hólmavík, til að komast aftur til baka.
Ein heit máltíð verður í boði á dag, innifalið í miðaverði. Að öðru leyti er mikilvægt að hafa með sér nesti og jafnvel prímusa og áhöld til að útbúa sér mat. Engin verslun er á svæðinu og því milvægt að byrgja sig vel upp áður en komið er á svæðið, síðasti séns er á Hólmavík.
Þó komið sé sumar þá er hátíðin haldin ansi norðanlega og því er talsvert kaldara (ferskara) veður en á Suðurlandi. Takið því með hlý föt og regnföt. Gott er að skoða veðurspá áður en haldið er af stað segir í tilkynningu frá þeim sem að hátíðinni standa.

Rúmlega 200 sóttu um 16 stöðugildi

Svæðisstöðvar íþróttahéraðanna eru átta um allt land og eru tvö stöðugildi á hverri stöð. Rúmlega 200 einstaklingar sóttu um störfin 16 sem auglýst voru.

„Við fengum umsóknir frá mörgum flottum og frambærilegum einstaklingum í stöðu starfsfólks svæðisstöðva íþróttahéraðanna um allt land. Afar vel hefur gengið að ráða í stöðurnar og nú eru aðeins tvö stöðugildi eftir,“ segir verkefnastjórinn Hanna Carla Jóhannsdóttir. Hún hefur stýrt fyrstu skrefum, innleiðingu og skipulagi svæðisstöðvanna.

Hanna Carla segir að á undanförnum vikum hafi verið tekin viðtöl við umsækjendur og verið frábært að sjá hversu margir sýndu störfunum áhuga. Nú sé búið að ráða í 14 stöðugildi af 16 og vonir bundnar við að ráða í störfin sem eftir eru bráðlega.

Fyrstu skrefin voru unnin með tengiliðum sem tilnefndir voru frá hverju íþróttahéraði í ráðningarferlinu í samstarfi við Hagvang. Næstu skref í ferlinu tengjast praktískum atriðum á borð við aðgengi að gagnasöfnum og staðsetningu viðkomandi starfsmanns á hverjum stað. Í ágúst verður fundað um þjónustusamninga við íþróttahéruð og aðgerðaráætlun mótuð fyrir hvert svæði.

Eftirfarandi 14 einstaklingar voru ráðnir í eftirfarandi stöður:

Höfuðborgarsvæðið: Íris Svavarsdóttir / Sveinn Sampsted

Vesturland: Álfheiður Sverrisdóttir / Heiðar Már Björnsson

Suðurnes: Petra Ruth Rúnarsdóttir / Sigurður Friðrik Gunnarsson

Austurland: Jóhann Árni Ólafsson / Jóhanna Íris Ingólfsdóttir

Suðurland: Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir / Rakel Magnúsdóttir

Vestfirðir: Birna F. S. Hannesdóttir

Norðurland eystra: Hansína Þóra Gunnarsdóttir / Þóra Pétursdóttir

Norðurland vestra: Halldór Lárusson

Hvalatalningar sumarsins hafnar

Hér má sjá talningarsvæðin.

Nú í byrjun sumars hófust viðfangsmiklar hvalatalningar við landið, þegar rannsóknarskipið Árni Friðriksson lagði í hann frá Hafnarfirði.
Þessar talningar eru hluti af svokölluðum NASS talningum (North Atlantic Sighting Survey), en þær hafa verið framkvæmdar reglulega síðan 1987, og eru talningar sumarsins þær sjöundu í seríunni. Auk Íslands taka Noregur, Færeyjar, og Grænland þátt í talningunni, en auk þess eru Kanada og Skotland með álíka talningar á sama tíma.

Á meðfylgjandi mynd má sjá talningarsvæðin. Fyrsti leggurinn á Árna Friðrikssyni er á svæði IR en þessi leggur er samnýttur með rannsóknum á karfa, áður en hann heldur áfram á svæðum IMN, IMW, IMS og IME, en þau svæði eru samnýting með rannsóknum á útbreiðslu makríls.

Bjarni Sæmundsson dekkar síðan svæðin IDS, og IDW1-4 þegar hann leggur af stað í júlí. Færeyjar dekka FM, FDE, og FDW, en Noregur NME og NMN auk þess sem þeir verða með sérstaka hrefnutalningu í Barentshafi.

Grænlendingar verða með flugtalningu meðfram ströndum Grænlands. Skotar dekka síðan svæðið merkt SCANS24.

Hvað er samfélagsleg nýsköpun?

Hvað er samfélagsleg nýsköpun? Vestfjarðastofa leitast við að svara því á fundi á Teams þann 12. júní kl. 12. Stefanía Kristinsdóttir fjallar þar um samfélagslega nýsköpun og hversvegna hún er mikilvæg fyrir dreifðar byggðir. 

Hér á landi hefur umræðan um mikilvægi samfélags frumkvöðla verið takmörkuð og og aðgerðir til að veita þeim stuðning þar af leiðandi verið takmarkaðar. Innan samfélaga er iðulega að finna verkefni sem hið opinbera og einkageirinn nær ekki yfir. Verkefni sem eru á hendi frumkvöðla sem vilja gera gagn og styðja við þróun á sínu svæði. Samfélags frumkvöðlar stefna að sameiginlegum ávinningi samfélagsins og eru því mikilvægir þar sem þeir bera oft kennsl á tækifæri og áskoranir sem stjórnvöld og rótgróið atvinnulíf takast ekki á við.

Vestfjarðastofa er þáttakandi í verkefninu MERSE, Business Models Empowering Rural Social Entrepreneurship voicing the rural norm. Markmiðið MERSE er að þróa viðskiptamódel, stuðningskerfi og aðstæður fyrir samfélags-frumkvöðla sem annað hvort vilja stofna eða þróa samfélagsdrifin verkefni í dreifðum byggðum. 

Baskasetur opnað í Djúpavík

Það var mikið um dýrðir í Djúpavík um síðustu helgi þrátt fyrir veðurham síðustu daga. Alþjóðlegt málþing um tengsl Íslendinga og Baska var haldið í verksmiðjunni í samstarfi Baskavinafélagsins við Albaola á Spáni, Haizebegi í Frakklandi og Háskólasetur Vestfjarða að vistöddum sendiherrum Frakklands og Spánar.

Intelligent instrument Lab sá um tónlistardagskrá þar sem m.a. var leikið á hljóðfæri sem gerð voru úr rusli á staðnum og einnig var leikið á baskneska ásláttarhljóðfærið txalaparta og í öðrum tanki var opnuð sýning Baskaseturs þar sem gefur m.a. að líta eftirgerð af txalupa, léttabáti Baska sem fluttur var á staðinn á milli veðra og var boðið upp á baskneska smárétti, súpu og drykki.

Einnig var boðið upp á leiðsögn um fornleifasvæðið við Hveravík.

Myndir: Ólafur J. Engilbertsson.

Síðasta vísitasía biskups Íslands var í Bolungavík

Biskup Íslands í Hólskirkju. Mynd: Einar K. Guðfinnsson.

Síðasta vísitasíumessa biskups Íslands fór fram á sjómannadaginn í Hólskirkju í Bolungarvík.

Biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir er fyrrverandi sóknarprestur í Bolungarvíkurprestakalli og kvaddi hún söfnuð sinn á sjómannadegi árið 2012 þegar hún tók við embætti biskups Íslands.

Kirkjan var þétt setin nú á sunnudaginn þegar biskup prédikaði og blessaði söfnuðinn.

Sr. Fjölnir Ásbjörnsson þjónaði fyrir altari en hann þjónar nú sem prestur í Bolungarvík, sem tilheyrir nú Ísafjarðarprestakalli.

Karlmenn mynduðu kórinn eins og ávallt þennan dag og sungu þeir einnig í kirkjugarðinum þegar kransar voru settir á minnismerki um drukknaða og horfna.

Hjónin Kristján L. Möller og eiginkona hans Oddný Jóhannsdóttir afhentu kirkjunni gjöf að upphæð kr. 2,5 milljónir en það var að mestu ágóði af sölu jólaóróa með mynd af Hólskirkju og nágrenni hennar sem þau gáfu út.

Formaður sóknarnefndar Einar Jónatansson þakkaði þessa veglegu gjöf.

Biskup Íslands þakkaði öllum þeim sem koma að kirkjustarfi í Bolungarvík, presti, sóknarnefnd, organista og kór, meðhjálpara og ræstitæknum, þeim sem taka grafirnar og sjá til þess að öllu leyti að kirkjustarf og athafnir gangi vel fyrir sig.

Réttindabarátta strandveiðimanna og sjávarbyggða – rökin fyrir frjálsum handfæraveiðum

Strandveiðitímabilið hófst í byrjun maí sl. í sextánda sinn. Mikil veiði hefur verið enda mikið af fiski á öllum miðum handfærabáta og útlit fyrir stöðvun veiða mánaðamótin júní-júlí auki matvælaráðherra ekki aflamagn til strandveiða og tryggi 48 veiðidaga í sumar. Í fyrra voru veiðar stöðvaðar 11. júlí og hittiðfyrra 21. júlí. Ekkert hefur orðið af kosningaloforðum VG, sem farið hefur með matvælaráðuneytið allt kjörtímabilið, um að efla strandveiðar og sagði: „Nýta má strandveiðar til að efla jafnrétti og stuðla að nýliðun í sjávarútvegi. 

Matvælaráðherra tekur ákvörðun um strandveiðar í reglugerð, en þar veitir ráðherrann heimild til veiða á handfæri 12 daga í mánuði á tímabilinu maí, júní, júlí og ágúst, það aflamagn sem ráðstafað er til strandveiða hvert ár. Samkvæmt ákvörðun ráðherra er það einungis 10.000 tonn af þorski, sama magn og í fyrra. Hver bátur má hafa fjórar handfærarúllur (4 krókar á rúllu) og ekki má veiða meira en 650 kg í þorskígildum af kvótabundnum tegundum að undaskildum ufsa í hverri veiðiferð, sem ekki má vara lengur 14 tíma. Það jafngildir 774 kílóum af slægðum þorski fyrir hvern veiðidag.

Strandveiðar hafa sannað gildi sitt  

Strandveiðar hafa svo sannarlega sannað gildi sitt en um 700 bátar hafa að verið gerðir út á strandveiðar undanfarin ár. Strandveiðiútgerð hefur aukið fjölbreytni í sjávarútvegi á landsbyggðinni. Öll umgjörð strandveiða er gangsæ. Allur landaður afli strandveiðibáta er veginn á hafnarvog, engin heima- og endurvigtun er leyfð sem getur fylgt mikil hækkun ísprósentu.  Aflinn er seldur á markaðsverði á fiskmörkuðum, en ekki á lægra verði Verðlagsstofu skiptaverðs sem útgerðir með vinnslu njóta. Bæði þessi atriði geta augljóslega aukið mikið bókhaldslega arðsemi fyrirtækja.

Strandveiðar eru umhverfisvænar, valda minnstu raski í hafrýminu, hafa minnsta kolefnissporið. Þær eru hagkvæmar og hámarka verðmæti aflans og hafa reynst hinum dreifðu sjávarbyggðir gríðarlega vel, og hleypt lífi í brothættar byggðir víða um land yfir sumartímann. Veiðarn­ar lífga upp á bæj­ar­lífið í sjávarbyggðum landsins og land­an­ir smá­bát­a vekja for­vitni bæði bæj­ar­búa og er­lendra ferðamanna. Strandveiðimenningin hefur endurnýjað tengsl landsmanna við fiskveiðar og hafið, sem er mikilvægt fyrir eyju í Norður-Atlantshafi.

Réttindabarátta strandveiðimanna og sjávarbyggða

Strandveiðar veita fjölbreyttum hópi strandveiðimanna tækifæri til handfæraveiða og atvinnufrelsi til að stunda þá vinnu sem þeir kjósa yfir sumarið.

Baráttan fyrir frjálsum handfæraveiðum er réttindabarátta. Þetta er barátta fyrir jafnræði og atvinnufrelsi en takmarkanir á atvinnufrelsi mega ekki ganga lengra en nauðsyn krefur. Þetta er einnig barátta fyrir búseturétti í sjávarbyggðum landsins, sem byggist á atvinnufrelsi og nálægð við sjávarauðlinda.

Í 75. gr. stjórnarskrá lýðveldisins Íslands segir: „Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.“

Takmörkun á atvinnufrelsi verður að byggja á almannahagsmunum. Verndun fiskistofna þarf að ná til veiðarfæra sem ógna fiskistofnun, ekki þeirra sem ekki ógna þeim. Handfæraveiðar á bát með nokkrum krókum á fjórum rúllum ógna ekki fiskistofnum við landið. Takmörkun handfæraveiða með 10.000 tonna þorskafla er skerðing á atvinnufrelsi sem gengur lengra en nauðsyn krefur og því gegn atvinnufrelsi í landinu.

Handfæraveiðar smábáta búa við náttúrulegar takmarkanir veðurs og sjólags, auka takmörkunar á veiðidögum, lengdar veiðiferðar og magns í veiðiferð. Hér er ekki um ólympískar veiðar að ræða, takmarkanirnar sjá til þess.

Núverandi strandveiðikerfi var sett á í kjölfar álits Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá 2007, sem sagði að stjórnkerfi fiskveiða bryti á jafnræði borgaranna samkvæmt mannréttindasamningi Sameinuðu þjóðanna.

Strandveiðikerfi með 48 veiðidögum, sem aldrei nást vegna lítilla aflaheimilda, nær hvorki markmiði sínu um jafnræði né fjölda veiðidaga. Takmörkun á krókaveiði í skjóli verndunar fiskistofna sem stendur ekki ógn af krókaveiðum réttlætir ekki takmörkun á atvinnufrelsi. Það eru ekki almannahagsmunir. Handfæraveiðar ógna ekki fiskistofnum.

Réttur til handfæraveiða á stoð í réttarvitund almennings og er aldagamall. Í Jónsbók frá 1281, lögbók Íslendinga í árhundruð, segir: „Allir menn eigu at veiða fyrir utan netlög at ósekju.“ Þennan rétt ber að virða.

Sjávarbyggðirnar byggja tilvist sína á fiskveiðum og nálægð við fiskimið og auðlindir hafsins. Þetta er barátta fyrir rétti íbúa sjávarbyggða, þar sem byggð hefur alla tíð byggst á fiskveiðum, til sjálfsbjargar og fyrir jöfnum búseturétti. Frjálsar handfæraveiðar og efling strandveiða virða þennan rétt.

Fiskiveiðistjórnarkerfið nær ekki markmiðum sínum

Markmið laga um fiskveiðistjórnun er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu nytjastofna á Íslandsmiðum og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Kvótakerfinu var komið á til að vernda fiskistofna fyrir ofveiði.

Verndunin hefur ekki leitt til uppbyggingar fiskistofna. Kvótakerfinu var komið á fót til árið 1984. Aflamark í þorski var þá lækkað í um 200.000 tonn til að byggja upp þorskstofninn. Í dag –  40 árum síðar – eru veiðiheimildir í þorski um 200.000 tonn. Á áratugunum fyrir kvótakerfið var þorskveiði á Íslandsmiðum um 400.000 tonn á ári, og mun hærri á sum árin. Árangurinn af kvótakerfinu þegar kemur að uppbyggingu þorskstofnsins er því enginn. Nákvæmlega enginn. Þetta árangursleysi ætti að leiða til umræðu og endurskoðunar á vísindunum sem kvótakerfið byggir á og kvótakerfinu sjálfu. Enginn áhugi er á því hjá ráðandi öflum og umræða og gagnrýni á vísindin og kerfið þekkist ekki í helstu fjölmiðlum landsins.

Frjálsar handfæraveiðar stuðla að markmiði fiskveiðistjórnarlaga með því að tryggja atvinnu og byggð í landinu. Þær hleypa nýju lífi í brothættar sjávarbyggðir og styrkja dreifða byggð í landinu með sjálfstæðum smáútgerðum og fjölbreyttari útgerð. 

Kvótakerfið, sem sett var til verndar fiskistofnum, á að ná til þeirra veiðiaðferða og veiðarfæra sem ógna fiskistofnunum. Handfæraveiðar með önglum ógna ekki fiskistofnum og ber því að gefa frjálsar, eins og áður sagði. Rökin fyrir núgildandi takmörkun handfæraveiða eru ekki fyrir hendi og ættu handfæraveiðar að vera fyrir utan kvótasetningu. Handfæraveiðar veita upplýsingar um ástand fiskistofna við strendur landsins sem ætti að nýta betur. Mokveiði undanfarnar vikur og sjálfátt þorsks veita upplýsingar um ástand þorskstofnsins. Kominn er tími á strandveiðirall líkt og togararall og netarall.

Sátt um fiskveiðistjórnarkerfið mun nást með sanngjörnu veiðigjaldi og aðgengi að fiskveiðiauðlindinni með frelsi til handfæraveiða með náttúrulegum og eðlilegum takmörkunum. Breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu í átt að réttlæti fyrir þjóðina og sjávarbyggðir landsins verða að byggja á jafnræði og atvinnufrelsi. Það verður gert með því að virða rétt almennings til handfæraveiða við Íslandsstrendur.

—————-

Höfundur er þingmaður Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi. eyjolfur.armannsson@althingi.is

Eyjólfur Ármannsson

Ferðafélag Ísfirðinga: Fransí Biskví í Haukadal á miðvikudaginn

Gönguferð og sögustund  — 1 skór —

Miðvikudaginn 12. júní

Skráning óþörf, bara mæta.

Gönguformaður og sögumaður: Elfar Logi Hannesson.
Mæting kl. 19.00 við Bónus á Ísafirði, 19.45 við íþróttamiðstöðina á Þingeyri og 20:00 við Kómedíuleikhúsið í Haukadal.
Gengið verður á slóðir frönsku sjómannanna í Haukadal Dýrafirði. Þeir frönsku voru árlegir gestir í yfir tvær aldir í Haukadal. Víst gjörðist þar margt sögulegt svo úr varð meira að segja sérstakt tungumál, Haukadalsfranska.
Að göngu lokinni verður boðið inní Kómedíuleikhús í Haukadal hvar hægt verður að fá sér hressingu á einstaklega kómísku verði.
Vegalengd: ekkert til að hafa áhyggjur af, áætlaður göngutími: á áætlun,  hækkun: tekur ekki að nefna hana.

Verð: 2.400 kr. fyrir félagsmenn FFÍ. 3.000 kr. fyrir aðra.

Jónsósómi II – engin skuldsetning vegna 984 m.kr. hafnarframkvæmda í Vesturbyggð

Jón Kaldal hefur dregið til baka þá röngu fullyrðingu sína að laxeldisfyrirtækin hafi farið í mál við sveitarfélögin vegna hafnagjalda. Það eru engin dæmi um slíkt. Þessu er öfugt farið. Tvisvar hafa sveitarfélög höfðað mál á hendur laxeldisfyrirækjunum vegna hafnagjalda. Öðru málinu var vísað frá dómi enda tilhæfulaust. Því var ekki áfrýjað. Í hinu málinu var gjaldskrá eldisfyrirtækja hækkuð töluvert og fyrirtækin mótmæltu henni. Annað fyrirtækið greiddi ekki hækkunina og hitt greiddi með fyrirvara um lögmæti breytingarinnar. Sveitarfélagið Vesturbyggð höfðaði mál fyrir dómstólum og krafðist þess að fá hækkunina greidda. Laxeldisfyrirtækið var í héraðsdómi sýknað af kröfum sveitarfélagsins. Því hefur verið áfrýjað til Landsréttar.

Hins vegar lítur það ekki vel út fyrir sveitarfélagið, þar sem dómurinn segir að lög heimili ekki álagningu aflagjalds á eldisfiski. Sé það svo verður aflagjaldið að byggjast á samningum milli sveitarfélagsins og eldisfyrirtækisins. Annars staðar á landinu eru ekki neinar deilur um hafnagjöldin milli fyrirtækjanna og sveitarfélaga. Í Bolungavik var opnað laxasláturhús í fyrra og þar er skriflegur samningur milli kaupstaðarins og eldisfyrirtækjanna. Niðurstaðan málsins fyrir dómstólum mun því ekki hafa nein áhrif á tekjur Bolungavíkurhafnar. Það sama mun vera upp á teningunum á Austfjörðum. Engar deilur eru þar milli laxeldisfyrirtækisins og sveitarfélaganna.

Engin skuldsetning – eigið fé jókst um hálfan milljarð kr.

Jón Kaldal, talsmaður íslenska náttúruverndarsjóðsins, Icelandic wildlife fund, er samt ekki af baki dottinn og segir í svargrein sinni á visir.is við grein minni Jónsósómi á föstudaginn var um dóm Héraðsdóms Vestfjarða: „Forsvarsfólki Vesturbyggðar var eðlilega brugðið. Sveitarfélagið hefur skuldsett sig verulega til að bæta hafnaraðstöðuna í þágu sjókvíaeldisins“. Honum er mikið í mun að kasta rýrð á laxeldisfyrirtækin og draga upp þá mynd að þau fari illa með sveitarfélögin fjárhagslega. Það er liður í áróðurherferðinni gegn laxeldinu.

Af þessu tilefni tók ég saman upplýsingar um hafnaframkvæmdir og rekstur í Vesturbyggð síðustu 10 árin.

Reksturinn hefur gengið afar vel, einkum síðustu árin eftir að laxeldið á Vestfjörðum komst vel af stað. Rekstrarniðurstaðan varð jákvæð í 9 ár af síðustu 10 árum. Árin 2021 og 2022 varð afgangurinn nærri helmingur af tekjunum. Í fyrra lækkaði afgangurinn um liðlega 100 m.kr. einkum vegna hækkandi rekstrarkostnað. Um 50% hækkun útgjalda milli ára vekur athygli, en engar skýringar eru gefnar á því.

Efnahagurinn hefur ekki síður blómgast á þessum tíu árum. Eigið fé hafnasjóðs jókst úr 26 m.kr. í lok árs 2014 í 571 m.kr. í lok árs 2023. Það hefur 22 faldast á tímabilinu. Heildarskuldirnar voru 225 m.kr. fyrir 10 árum en nú 233 m.kr. Það er töluverð raunverðslækkun að teknu tilliti til verðbólgu.

Fullyrðing Jóns Kaldals þess efnis  að sveitarfélagið hafi skuldsett sig verulega til þess að bæta hafnaaðstöðuna í þágu sjókvíaeldisins eru staðlausir stafir.

Góður afgangur af rekstri, eigið fé 22 faldast, skuldir heldur lækka að raungildi.

Handbært fé frá rekstri 335 m.kr. umfram kostnað

Heildarframkvæmdir Vesturbyggðar í höfnunum fjórum í sveitarfélaginu síðustu 10 árin eru samkvæmt ársreikningum sveitarfélagsins 984 m.kr. Þá eru það allar framkvæmdir, en ekki bara þær sem eru vegna laxeldisins. Þar af var hlutur ríkisins 507 m.kr. og sveitarfélagið greiddi 477 m.kr.

Þetta kemur fram í töflu II og þar er einnig handbært fé frá rekstri hvers árs. Eins og sjá má var það verulega hærra en hlutur sveitarfélagsins í framkvæmdakostnaði hvers árs eða samtals 812 m.kr. Handbært fé var því 335 m.kr. umfram það sem þurfti til að standa undir öllum útgjöldum hafnanna.Enda lækka skuldir hafnasjóðs að raungildi þrátt fyrir nærri milljarð króna í framkvæmdir.

Tafla II. Framkvæmdir, hlutur sveitarfélags í þeim og handbært fé frá rekstri.

Tekjur af laxeldi eru uppistaðan

Þegar skoðaður er hlutur laxeldisins í tekjum hafnasjóðs kemur í ljós að þær eru uppistaðan í þessari góðu afkomu, þar af er aflagjaldið langstærsti tekjuliðurinn. Árið 2022 var t.d. aflagjald af eldisfiski 195,3 m.kr.sem var 54% af öllum tekjum. Aflagjöld af öðrum fiski var 37,4 m.kr. þannig að eldisfiskurinn gaf 84% af öllum aflagjöldum þess árs. Laxeldisfyrirtækin greiða svo önnur hafnagjöld eins og aðrir notendur hafnanna en heildargreiðslur þeirra eru ekki birtar. En víst er að án laxeldisins hefði ekkert orðið eftir af 168m.kr. rekstrarafgangi hafnasjóðs það árið.

209 m.kr. í fiskeldisgjald

Til viðbótar má geta þess að Vesturbyggð hefur fengið á fjórum árum samtals 209 m.kr. styrki úr Fiskeldissjóði í ýmsar þarfar framkvæmdir í sveitarfélaginu. Þeir peningar koma frá laxeldisfyrirtækjunum sem greiða fiskeldisgjald í ríkissjóð. Þriðjungi þess er ráðstafað til sveitarfélaga þar sem laxeldið er stundað.

Dómurinn: lítil áhrif á fjárhag

Jón Kaldal vísar í ummæli fyrrverandi bæjarstjóra Vesturbyggðar sem segir um dóm Héraðsdóms Vestfjarða: „En ef niðurstaðan verður með sambærilegum hætti hefur þetta þannig áhrif á helstu tekjur sveitarfélagsins af fiskeldi verða engar“

Þessi staðhæfing er mjög vafasöm. En fyrst, ef sveitarfélagið vinnur málið, þá munu tekjurnar hækka þar sem fyrirtækið sem ekki hefur greitt skv. gjaldskrárhækkuninni mun þá þurfa að greiða hana. Hvað hún  er mikil liggur ekki fyrir. Ég myndi giska á a.m.k. 20% og tekjuaukinn gæri þá verið 7-8%. Það munar um þá fjárhæð en veldur engum straumhvörfum. En að sama skapi ef málið tapast þarf hafnasjóður að endurgreiða því fyrirtæki sem hefur greitt hækkunina með fyrirvara um lögmæti. Það gæti gróft metið verið svipuð fjárhæð. Engu að síður fjárhæð sem munar um, en fjarri öllu lagi að halda því fram að tekjur sveitarfélagsins af fiskeldi verði engar.Eftir sem áður verða tekjurnar miklar. Það er meira áhyggjuefni fyrir bæjarstjórann fyrrverandi hvernig stendur á um 70 m.kr. hækkun útgjalda til reksturs hafnasjóðanna á síðasta ári sem er 50% hækkun.

Þjónusta en ekki skattheimta

Hafa verður í huga að gjaldtaka hafnasjóða er til að standa undir þjónustu en er lögum samkvæmt ekki bein skattheimta eins og t.d. útsvar og fasteignaskattur. Það þýðir að hafnagjöldin eiga að borga kostnað við rekstur og framkvæmdir hafnanna. Laxeldið á eðlilega að greiða þann kostnað sem af starfseminni hlýst. Að sama skapi á eldið ekki að greiða umfram þann kostnað. Sem dæmi má nefna að næstu 4 árin er gert ráð fyrir um 100 m.kr. árlega í hafnaframkvæmdir. Miðað við greinargerð sem fylgir fjárhagsáætlun eru það fyrst og fremst framkvæmdir vegna aðstöðu smábáta, en Patrekshöfn er stærsta höfn landsins þegar kemur að strandveiðum.Lítið er að finna sem rekja má til laxeldisins. Sú staða að hafnasjóður er um langt árabil rekinn með tekjum langt umfram það sem þarf getur skapað kröfu frá notendum hafnanna um lækkun gjalda.

Laxeldið borgar vel

Niðurstaðan er skýr. Laxeldið hefur síðustu 10 árin skilað miklum tekjum til hafnasjóðs Vesturbyggðar og örugglega mun meiri tekjum en nemur þeim útgjöldum sem höfnin hefur orðið fyrir vegna eldisins.

Það er ósanngjarnt og ósatt af Jóni Kaldal að reyna að sverta laxeldisfyrirtækin vegna samskipta þeirra við sveitarfélögin, en hann mun líklega halda áfram að reyna. Það verður okkar hvimleiði þakleki svo vitnað sé í biblíuna.

-k

Nýjustu fréttir