Föstudagur 6. september 2024
Síða 71

Vestfjarðagöngin lokuð

Vestfjarðagöngin er lokuð. Rúta bilaði í einbreiða hluta ganganna og eru viðgerðarmenn komnir á staðinn og unnið er að því að koma rútunni af stað. Farþegar eru í rútunni og amar ekki að þeim.

Lögreglan á Vestfjörðum segir að upplýsingar verði birtar á vef Vegagerðarinnar þegar göngin opnast að nýju.

Hvalveiðar leyfðar

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, matvælaráðherra. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra hefur veitt Hval hf. veiðileyfi til veiða á langreyðum.

Leyfið gildir fyrir veiðitímabilið 2024 og verður leyfilegt veiðimagn 99 dýr á svæðinu Grænland/Vestur-Ísland og 29 dýr á svæðinu Austur-Ísland/Færeyjar eða samtals 128 dýr.

Ákvörðun um veiðimagn er innan marka ráðgjafar Hafrannsóknastofnunar frá 2017 og tekur mið af varfærnum vistkerfisstuðlum Alþjóðahvalveiðiráðsins.

Ákvörðunin byggir á varúðarnálgun og endurspeglar auknar áherslur stjórnvalda á sjálfbæra nýtingu auðlinda segir í tilkynningu Matvælaráðuneytisins.

Vesturbyggð: samþykkja ásætuvarnir með koparoxíði

Laxeldi Arctic Fish í Arnarfirði.

Skipulags- og umhverfisráð Vesturbyggðar  lagðist í janúar gegn því án undangengins umhverfismats að notaðar yrðu ásætuvarnir í eldiskvíum í Arnarfirði  sem innihalda ECONEA® (Tralopyril) og Zinc Pyrithione. Aðrir umsagnaraðilar töldu ekki þörf á umhverfismati en Skipulagsstofnun ákvað í framhaldinu að umhverfismat skyldi fara fram.

Elfar Steinn Karlsson, byggingarfulltrúi hjá Vestfurbyggð bendir hins vegar á að Vesturbyggð hafi í febrúar 2022 fallist á ásætuvarnir með koparoxíði í Patreks- og Tálknafirði án undangengis umhverfismats.

Skýringin á mismunandi afstöðu felist í öðrum efnum nú og að  meiri óvissa sé um langtíma áhrif þeirra efna sem nota á sem ásætuvarnir á lífríki fjarðarins sem og mögulegra sammögnunaráhrifa vegna fjölda eldissvæða í Arnarfirði.

Vilja hækka framlag til Vesturafls og fjölsmiðjunnar

Velferðarnefnd Ísafjarðarbæjar hefur falið starfsmönnum velferðarsviðs að vinna drög að nýjum samningi við Vesturafl og fjölsmiðjuna. Bæjarráð hefur einng rætt málið og  fól bæjarstjóra að kanna mögulega aðkomu annarra sveitarfélaga til samstarfs. Er þar rætt um Bolungavíkurkaupstað og Súðavíkurhrepp. Miðað við íbúafjölda um síðustu áramót yrðu kostnaðarhlutföll nýs samnings þannig að 80,24% kæmi í hlut Ísafjarðarbæjar og Súðavíkur en framlag Bolungarvíkurkaupstaðar yrði 19,76%.

Fyrir liggur erindi Vesturafls og fjölsmiðjunnar frá apríl sl þar sem farið er fram á aukið framlag til að mæta launahækkunum og gera starfsemina samkeppnishæfa um laun.

Í fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir 2024 er gert ráð fyrir kr. 10.718.000 í styrk til starfseminnar. Skiptist fjárhæðin í kr. 8.735.904 til Vesturafls og s kr. 1.969.536 til fjölsmiðjunnar.

Í minnisblaði sviðsstjóra velferðarsviðs kemur fram að starfsfólk félagsþjónustu velferðarsviðs telji að starfsemi Vesturafls og sú þjónusta sem þar er veitt hafi verið mikilvæg sem félagslegt úrræði og stuðningur sem liður í geðrækt og ekki síður hvatning til virkni í gegnum Fjölsmiðjuna. Er lagt til að óskað verði eftir upplýsingum um launa- og rekstrarkostnað Vesturafls/Fjölsmiðju þannig að fram komi skýrt skilgreind þörf fyrir aukið framlag sem sveitarfélagið geti tekið afstöðu til. Jafnframt verði rætt um hlutfallslega þátttöku Bolungarvíkurkaupstaðar.

Alþingi: þingmaður heldur því fram að Arnarlax hafi greitt tugi milljarða króna í arð

Gísli Ólafsson, allþm.

Gísli Ólafsson, alþm. (P) hélt því fram úr ræðustól á Alþingi í gær að eigendur Arnarlax hefðu borgað sér tugi milljarða króna í arð á hverju ári. Þetta sætir tíðindum þar sem Arnarlax hefur aldrei greitt út arð síðan félagið var stofnað árið 2009. Fram kemur i ársskýrslu Arnarlax fyrir síðasta ár að ekki verði greiddur arður fyrir það ár þrátt fyrir 1,5 milljarðs króna hagnað þar sem stefna fyrirtækisins væri að byggja það upp og auka þannig virði hlutabréfa þess. Arðgreiðslur væru seinni tíma viðfangsefni. Kjartan Ólafsson, stjórnarmaður í Arnarlax staðfestir að aldrei hafi verið greiddur arður.

Í ræðu sinni vísaði Gísli fyrst til frétta um að stærsti hluthafi Arnarlax hefði greitt sér 48 milljarða króna í arð og sagði síðar í ræðunni að Arnarlax hefði borgað sér tugi miljarða króna í arð á ári.

Ekki kom fram hvaða fréttir þingmaðurinn var að vísa til, en í gær birtist á heimildin.is frétt með fyrirsögninni: Eigandi Arnarlax greiðir út 48 milljarða króna arð. Verður að telja líklegt að átt sé við þá frétt.

Við athugun á þessu máli kemur í ljós að átt er við norska fyrirtækið SalMar, sem á um 52% í Arnarlax. Hluthafar SalMar ákváðu að greiða 3,7 milljarða norskra króna í arð. Það var sem sé ekkert greitt í arð hjá Arnarlax. En alþingismaðurinn var ekki í vafa um hver fréttin var og rauk upp í ræðustól í geðshræringu yfir „hömlulausum gróða örfárra einstaklinga á kostnað samfélagsins.“

Heimildin (áður Stundin) hefur áður leikið þennan leik að segja fréttir af stórum eldisfyrirtækjum í Noregi og setja þær fram eins og um fréttir af íslenskum fyrirtækjum sé að ræða þar sem þau eru að hluta til í eigu norskra fyrirtækja. Sérstaklega er lagt upp úr því að vekja hneykslan og setja laxeldið hér innanlands í slæmt ljós. Þarna er einmitt verið að gefa í skyn óverðskuldaðan ofsagróða fárra og spila á tilfinningar.

Allt rangt

En allur þessi málatilbúnaður er rangur. Eigendur Arnarlax eru ekki að fá ofsagróða upp í hendurnar í gegnum arðgreiðslur. Þeir hafa þvert á móti ákveðið að halda áfram að byggja fyrirtækið upp og styrkja efnahag þess með því að láta ágóðann vera inn í fyrirtækinu. Það á við um alla hluthafa Arnarlax, enginn þeirra fær greiddan arð og þeir hafa allir, þar með talið SalMar samþykkt þetta. Væntanlega kemur að því, ef áfram gengur vel, að eigendur fái arð af eign sinni en það bíður betri tíma.

Það eru eigendur risafyrirtækisins SalMar í Noregi, næst stærsta framleiðanda eldislax í heiminum, sem fá greiddan arð af starfsemi þess fyrirtækis. Sú greiðsla kemur frá SalMar en ekki Arnarlax. Framleiðsla SalMar í Noregi var um 234 þúsund tonn á síðasta ári og tekjurnar um 360 milljarðar króna. Tekjur Arnarlax voru í fyrra um 25 milljarðar króna eða um 0,6% af tekjum SalMar. Hagnaður Arnarlax var um 1,5 milljarðar króna fyrir skatta. Það er ósannindi hjá þingmanninum að „Arnarlax hefði borgað sér tugi milljarða króna á ári í arð“, ósannindi sem Heimildin hefur ýtt af stað með óvandaðri ófrægingarfrétt um laxeldi.

Það er mikið áróðursstríð í gangi hér á landi gegn laxeldi í sjó og það er ástæða til þess að hafa verulegar áhyggjur af fréttaflutningnum. Það er of mikið af villandi og röngum fréttum í gangi til þess að það sé tilviljun ein.

-k

Fréttin á vef Heimildarinnar í gær.

Háskólasetur Vestfjarða: Sumarvísindaport í dag

Þriðjudaginn 11. júní kl.12.10 verður SumarVísindaport í kaffistofu Háskólasetursins. Þá mun Dr. Laborde ásamt þremur PhD nemum kynna verkefni sem þau hafa verið að vinna að varðandi Baskasetrið í Djúpuvík. Þar heyrum við um Spánverjavígin og hvernig saga Baska og Íslendinga tvinnast saman í gegnum bátasmíði og tónlist. Í nútímasamfélagi getur listasetur eins og Baskasetrið í Djúpuvík, sem helgar sig sögu og listum, verið hreyfiafl til að hjálpa okkur að skilja hvernig menning, saga og listir hafa áhrif á nútímamanninn.
Dr. Denis Laborde er þjóðfræðingur og starfar sem forstöðumaður við Frönsku vísindastofnunina. Hann er sérfræðingur í baskneskri tónlist og hvernig hún getur gert okkur kleift að skilja flóknar tilfinningar og samfélög manna.

Bolungavíkurhöfn: 1.481 tonn í maí

Góðviðrisdagur í Bolungavíkurhöfn og fáir bátar í höfninni. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Heildaraflinn sem barst á land í Bolungavíkurhöfn í maí var 1.481 tonn.

Strandveiðin var mikil í mánuðinum og 54 bátar voru með 573 tonn. Sjóstangveiðibátar lönduðu 16 tonnum. Önnur skip og bátar voru með 908 tonn.

Togarinn Sirrý ÍS fór 5 veiðiferðir og koma með 527 tonn af bolfiski. Dragnótabátarnir voru þrír sem lönduðu í mái. Ásdís ÍS var með 240 tonn, Þorlákur ÍS er aftur kominn á veiðar og var með 81 tonn og Rifsarinn SH landaði tvisvar samtals 29 tonnum.

Línubátarnir Fríða Dagmar ÍS og Jónína Brynja ÍS reru hvor um sig 9 róðra og Fríða var með 73 tonn og Jónína 64 tonn. Tryggvi Eðvarðs SH fór tvo róðra og kom með 32 tonn.

Siggi Bjartar ÍS var fyrst á grásleppuveiðum og fór svo á handfæri. Samtals landaði hann 20 tonnum.

Lambagras

Lambagras er ein af algengustu jurtum landsins.  Það vex á melum, söndum og þurru graslendi.  Það vex jafnt á láglendi sem hátt til fjalla, víða í 1100-1200 m hæð á Tröllaskaga. Það hefur hæst fundizt í 1440 m hæð á Hvannadalshrygg. Lambagrasið blómgast fremur snemma á vorin. Það myndar sérkennilegar, ávalar þúfur með langri og sterkri stólparót niður úr, og er raunar auðþekkt á þeim. Stundum hefur þó komið fyrir að menn villist á vetrarblómi og lambagrasi, en vetrarblómið hefur tvískipta frævu og gjörólík laufblöð. Nokkuð algengt er að sjá lambagras með hvítum blómum.

Lambagrasþúfurnar eru alsettar blaðsprotum og leggstuttum blómum um blómgunartímann. Blómin eru um 8-10 mm í þvermál og álíka löng. Krónublöðin eru bleik, nagllöng og frambreið með skoru eða bug í endann. Bikarinn er krukkulaga, 5-7,5 mm á lengd, grunnskertur með fimm sljóum tönnum, rauður í endann, en ljósari og oft grænn neðan til, hárlaus nema með randhárum í vikunum milli bikartannanna. Fræflar eru tíu, ein fræva með þremur stílum. Aldinið er aflangt, sívalt hýði um 7-10 mm langt, með útstæðum tönnum, stendur út úr bikarnum. Fræin eru dökkgráleit eða svört, nýrlaga eða kringluleit, um 1 mm í þvermál. Laufblöðin eru í þéttum hvirfingum, striklaga, venjulega 3-8 mm á lengd, í skugga oft miklu lengri eða allt að 15 mm, 1-2 mm á breidd, broddydd, með örsmáum tannhárum á röndunum. Stönglarnir eru marggreindir, neðan til oft þaktir leifum af gömlum blaðhvirfingum fyrri ára.

Af vefsíðunni floraislands.is

Snæfjallahátíð um Jónsmessuna

Tónlistarhátíðin Snæfjallahátíð verður haldin í Dalbæ og í Unaðsdalskirkju á Snæfjallaströnd 21. -23. júní.

 Fram koma ;

Kira Kira
Kraftgalli
Kvæðakórinn
Línus Orri
Dúllurnar
Súrillur og Dókur
Venus Volcanism
Ari Árelíus
Hermigervill

Fleiri tónlistaratriði og nákvæm dagskrá mun bætast við þegar nær dregur.

Þetta verður tjaldútilega enda ekkert gistiheimili eða slíkt á svæðinu og verður tjald-gjald innifalið í miðaverðinu.
Hátíðin er haldin langt frá mannabyggðum og mikilvægt er að fylla bílinn af eldsneyti á Hólmavík, til að komast aftur til baka.
Ein heit máltíð verður í boði á dag, innifalið í miðaverði. Að öðru leyti er mikilvægt að hafa með sér nesti og jafnvel prímusa og áhöld til að útbúa sér mat. Engin verslun er á svæðinu og því milvægt að byrgja sig vel upp áður en komið er á svæðið, síðasti séns er á Hólmavík.
Þó komið sé sumar þá er hátíðin haldin ansi norðanlega og því er talsvert kaldara (ferskara) veður en á Suðurlandi. Takið því með hlý föt og regnföt. Gott er að skoða veðurspá áður en haldið er af stað segir í tilkynningu frá þeim sem að hátíðinni standa.

Rúmlega 200 sóttu um 16 stöðugildi

Svæðisstöðvar íþróttahéraðanna eru átta um allt land og eru tvö stöðugildi á hverri stöð. Rúmlega 200 einstaklingar sóttu um störfin 16 sem auglýst voru.

„Við fengum umsóknir frá mörgum flottum og frambærilegum einstaklingum í stöðu starfsfólks svæðisstöðva íþróttahéraðanna um allt land. Afar vel hefur gengið að ráða í stöðurnar og nú eru aðeins tvö stöðugildi eftir,“ segir verkefnastjórinn Hanna Carla Jóhannsdóttir. Hún hefur stýrt fyrstu skrefum, innleiðingu og skipulagi svæðisstöðvanna.

Hanna Carla segir að á undanförnum vikum hafi verið tekin viðtöl við umsækjendur og verið frábært að sjá hversu margir sýndu störfunum áhuga. Nú sé búið að ráða í 14 stöðugildi af 16 og vonir bundnar við að ráða í störfin sem eftir eru bráðlega.

Fyrstu skrefin voru unnin með tengiliðum sem tilnefndir voru frá hverju íþróttahéraði í ráðningarferlinu í samstarfi við Hagvang. Næstu skref í ferlinu tengjast praktískum atriðum á borð við aðgengi að gagnasöfnum og staðsetningu viðkomandi starfsmanns á hverjum stað. Í ágúst verður fundað um þjónustusamninga við íþróttahéruð og aðgerðaráætlun mótuð fyrir hvert svæði.

Eftirfarandi 14 einstaklingar voru ráðnir í eftirfarandi stöður:

Höfuðborgarsvæðið: Íris Svavarsdóttir / Sveinn Sampsted

Vesturland: Álfheiður Sverrisdóttir / Heiðar Már Björnsson

Suðurnes: Petra Ruth Rúnarsdóttir / Sigurður Friðrik Gunnarsson

Austurland: Jóhann Árni Ólafsson / Jóhanna Íris Ingólfsdóttir

Suðurland: Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir / Rakel Magnúsdóttir

Vestfirðir: Birna F. S. Hannesdóttir

Norðurland eystra: Hansína Þóra Gunnarsdóttir / Þóra Pétursdóttir

Norðurland vestra: Halldór Lárusson

Nýjustu fréttir