Föstudagur 6. september 2024
Síða 70

Aukinn áhugi á lánveitingum frá Byggðastofnun

Frá undirritun samningsins við evrópska fjárfestingasjóriðinn um bakábyrgðir við Byggðastofnun vegna lána til lítilla og meðalstórra fyrirtækja í dreifðum byggðum landsins.

Byggðastofnun segir að merkja megi vaxandi áhuga á lánum frá Byggðastofnun eftir undirritun samkomulags stofnunarinnar við Fjárfestingabanka Evrópusambandsins í síðustu viku.

Samningurinn tekur til bankaábyrgðar vegna lána til lítilla og meðalstórra fyrirtækja í landsbyggðunum. Samkomulagið nú tekur við af öðru samkomulagi sem gerði það að verkum að hægt var að stofna nýja lánaflokka, sér í lagi lán til kynslóðaskipta í landbúnaði en í gegnum þann lánaflokk hefur Byggðastofnun veitt 31 ungum bændum lán til að hefja búrekstur.

Nú verður auk þess hægt að veita enn frekari lán með sveigjanlegri skilmálum til stuðnings atvinnurekstri kvenna, til umhverfisvænna verkefna, auk lána til fiskvinnslu og útgerða í viðkvæmum byggðarlögum.

Gert er ráð fyr­ir að styðja við að minnsta kosti 50 lít­il og meðal­stór fyr­ir­tæki á Íslandi, en sam­komu­lagið við Byggðastofn­un er fyrsta ábyrgðarsam­komu­lagið á Íslandi sem stutt er af In­vestEU áætl­un­inni. „Innviðaupp­bygg­ing í dreifðum byggðum er krefj­andi og kostnaðar­söm. Ábyrgðar­kerfi In­vestEU veit­ir Byggðastofn­un nauðsyn­leg úrræði til að bjóða mik­il­væga og hag­kvæma láns­mögu­leika í lands­byggðunum til að jafna lífs­kjör allra lands­manna,“ sagði Arn­ar Már Elías­son, for­stjóri Byggðastofn­un­ar, við und­ir­rit­un samn­ings­ins.

OV varar við heita vatninu í Tungudal

Frá borstæðinu í Tungudal. Mynd: Eggert Stefánsson.

Orkubú Vestfjarða hefur varað fólk við heita borholuvatninu í Tungudal. Vatnið sé um 58 gráður á Celsius en hitastigið sé breytilegt og því beri að hafa varann á sér við notkun á vatninu.

„Hitastigið á frárennslinu er aðallega háð því hversu miklu vatni er dælt upp úr borholunni en einnig því magni af köldu vatni sem dælt er niður í holuna hverju sinni. Borunin stendur enn yfir og því má einnig búast við því að hitastig heitu uppsprettunnar geti breyst.“ segir í tilkynningu Orkubúsins.

„Hitastigsbreytingar á vatninu geta verið skjótar og það borgar sig þess vegna að fara varlega í kringum frárennslið. Við biðjum því fólk að gæta sérstaklega að börnunum.“

Mikill áhugi er á borholunni og vatninu sem frá henni rennur. „Við erum ótrúlega ánægð með það heita vatn sem hefur fundist í Tungudal. Það er gaman að sjá áhugann og spenninginn hjá bæjarbúum, gestum og gangandi. Fólk stoppar og virðir fyrir sér borinn, heitu vatnsbununa, svarfið og heita lækinn sem rennur frá verkstaðnum. Það er spennandi að velta því fyrir sér hvernig best sé að nýta vatnið til framtíðar og það er líka spennandi að fá að njóta þess núna, dýfa höndunum í vatnið eða jafnvel baða sig í því.“

Pétursey ÍS 100

Línuveiðarinn Pétursey ÍS 100 var 91 tonn að stærð, smíðuð árið 1902 í Kristiansund í Noregi. Var hún eign hlutafélagsins Vísis frá Súgandafirði, en gerð út frá Ísafirði. Pétursey hafði áður verið gerð út frá Hafnarfirði en var seld þaðan árinu áður en hún fórst.

Pétursey lagði af stað þann 10. mars 1941 frá Vestmannaeyjum, en þar hafði hún tekið kol, áleiðs til Fleetwood með fiskfarm. Þegar hún átti ófarinn fimmtung leiðarinnar til Barra Head, eða 300 mílur suður af Vestmannaeyjum mætti hún vb. Dóru frá Hafnarfirði, er þá var á heimleið. Var þá komið besta veður. Síðan spurðist ekkert til hennar.

3. september sama ár var vélbáturinn Svanur frá Keflavík, staddur um 18 mílur út af Garðsskaga, og sá þá fleka í sjónum, sem merktur var íslenska fánanum. Innbyrtu þeir flakið og létu fara svo um það, að sem minnst rask yrði á því. Flutti Svanur flakið síðan til Reykjavíkur, þar sem Friðrik Ólafssyni, skólastjóra Stýrimannaskólans, og Sveini Sæmundssyni, yfirlögregluþjóni, var falið að rannsaka það. Við rannsóknina kom í ljós, að skothríð hafði dunið á stýrishúsinu, sérstaklega á bakborða. Voru víða brot úr sprengikúlum í þakinu og á þeim voru stafir. Flakið var 3 m á lengd og 1½ m á breidd.

Síðar kom í ljós að þýski kafbáturinn U-37 undir stjórn Asmus Nicolais Clausen hafði sökkt Pétursey, þann 12. mars við 59,33°N og 12,16°V. Pétursey reyndist vera síðasta skipið af 55 sem kafbáturinn sökkti, því eftir þessa ferð var hann gerður að kennslu og þjálfunarbát.

Af vefsíðunni legstadaleit.com

Íbúar velja nafn á sameinað sveitarfélag

Á fyrsta fundi nýrrar bæjar­stjórnar sameinaðs sveit­ar­fé­lags Tálkna­fjarð­ar­hrepps og Vest­ur­byggðar var samþykkt að unnin verði skoð­anan­könnun meðal íbúa um nafn á nýtt sveit­ar­félag þar sem kosið verði á milli nafn­anna, Barðs­byggð, Kóps­byggð, Látra­byggð, Suður­fjarða­byggð, Tálkna­byggð og Vest­ur­byggðar

Könnunin fer fram í gegnum vefinn betraisland.is og er opin dagana 11. til 17. júní. Niðurstöðurnar verða notaðar til hliðsjónar við ákvörðun bæjarstjórnar um nafn á Sameinað sveitarfélag Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar.

Íbúar sveitarfélagsins sem verða 16 ára á árinu og eldri geta tekið þátt í könnuninni.

Hér má finna hlekk inná könnunina.

Allt bóknám í boði í fjarnámi hjá Menntaskólanum

Menntaskólinn á Ísafirði.

Allir bóknámsáfangar sem kenndir eru í MÍ eru  einnig í boði í fjarnámi. Í fjarnámi er notað fjarkennslukerfið Moodle en þar setja kennarar inn námsáætlanir og verkefni.

Nemendur geta skilað inn úrlausnum verkefna sinna þar sem og tekið gagnvirk próf. Fjarnámið fer því alfarið fram á netinu.

Í kennslu við Menntaskólann á Ísafirði er lögð áhersla á leiðsagnarnám sem felst í því að nemendur fá stöðugar upplýsingar um stöðu sína í námi til að geta bætt sig. 

Leiðsagnarmat (e. Formative Assessment) er kennsluaðferð þar sem nemendur eru metnir jafnt og þétt alla önnina með það að markmiði að nota niðurstöðurnar til að bæta námsárangur og kennslu. Leiðsagnarmatið er námsmat til að læra af og getur bæði verið skriflegt og munnlegt. Kennarinn gefur nemandanum leiðandi umsögn sem nýtist nemendum við áframhaldandi nám.

Hverri önn er skipt niður í þrjár námslotur. Eftir tvær fyrstu loturnar er gefið lotumat.

Matvælaráðherra fær tvo aðstoðarmenn

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,

Þau Bjarki Hjörleifsson og Pálína Axelsdóttir Njarðvík hafa verið ráðin sem aðstoðarmenn Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra.

Bjarki er fæddur 1989 og ólst upp í Stykkishólmi. Hann vann sem sjálfstæður atvinnurekandi í matvælageiranum á árunum 2013–2018 og útskrifaðist með BA próf í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands 2019.

Bjarki var kosningastjóri hjá Vinstri grænum í Norðvestur kjördæmi árin 2017 og 2021. Hann var einnig skrifstofustjóri á flokksskrifstofu Vinstri grænna árin 2019–2020 og vann sem sérfræðingur hjá þingflokki Vinstri grænna frá 2020 til 2024.

Pálína er fædd árið 1991 og ólst upp í Gnúpverjahreppi. Hún útskrifaðist sem stúdent frá Kvennaskólanum árið 2011, er menntuð í sálfræði og útskifaðist með BSc gráðu frá Háskóla Íslands árið 2016 og MSc í félagssálfræði árið 2019. Á árunum frá 2020 til 2022 starfaði hún sem sérkennslustýra og vann sem ráðgjafi hjá Attentus frá 2023-2024.

Pálína hefur hefur unnið sjálfstætt við efnissköpun og miðlun á samfélagsmiðlum frá árinu 2015 en hún hefur unnið sveitastörf frá unga aldri og deilt þeirri reynslu sinni á Instagram þar sem hún hefur eignast fjölda fylgjenda síðan 2015.

Ferðafélag Ísfirðinga: Ingjaldssandur

— 1 skór —

Róleg og notaleg ganga með sögustundum.
Laugardaginn 15. júní

Skráning óþörf, bara mæta, ókeypis í ferðina.

Fararstjórn: Halla Signý og Helga Dóra Kristjánsdætur frá Brekku.
Mæting kl. 10:00 við Bónus á Ísafirði. Farið þaðan á einkabílum.


Fyrsta stopp er við brúna á Hálsi og gengið niður að fossinum Ósóma og þeir sem vilja geta gengið undir fossinn. Þaðan liggur leiðin að vegamótunum að bænum Hrauni.
Gangan hefst frá vegmótum Hraun/Sæból og gengið sem leið liggur niður veginn að Sæbólskirkju, á leiðinni eru stutt stopp og sagt frá staðháttum og menningarsögu staðarins.  Komið við í Sæbólskirkju og sagt frá sögu hennar.  Frá kirkjunni er gengið inn í Sandvík og til baka að Sæbóli.


Bæir á Ingjaldssandi: Fremst er Hraun, þá Brekka. Ef gengið er niður veginn að Sæbóli er næst komið að Álfadal, þá samkomuhúsið Vonarland, Ástún og neðst eru Sæból.


Vegalengd: 4,3 km, göngutími: 4 klst.

Um sölu á hjúkrunarheimilinu Eyri

Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar.

Leiguleiðin var nauðsyn

Á eftirhrunsárunum var ríkissjóður í spennitreyju. Gat ekki tekið meiri pening að láni. En gamalt fólk hélt áfram að eldast, biðlistar eftir rými á hjúkrunarheimilum héldu áfram að lengjast og fólk festist inni á sjúkrahúsum á meðan á þeirri bið stóð.

Þá voru góð ráð dýr. Eitt úrræði var að fá pening að láni með óbeinum hætti. Í tilviki hjúkrunarheimila var uppleggið þannig að sveitarfélög voru fengin til að byggja húsin gegn löngum leigusamningum. Þannig var hægt að byggja ný heimili án þess að taka lán. Þetta fyrirkomulag var einnig í stíl við þær hugmyndir sem þá voru á lofti um að færa málefni aldraðra alfarið frá ríki til sveitarfélaga.

Fyrirkomulagið er úrelt

En nú er hrunið orðið fjarlæg fortíð og fallið hefur verið frá því að færa hjúkrunarheimili yfir til sveitarfélaga. Eftir sitja hinsvegar þau sjö heimili sem byggð voru samkvæmt þessari leiguleið. Í tilviki Eyrar er heimilið rekið af Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, en húsnæðið er rekið af Ísafjarðarbæ.

Þetta er tímaskekkja. Rekstur fasteigna er ekki hluti af kjarnastarfsemi sveitarfélaga. Bærinn hefur um langa hríð reynt að losna undan þessu enda skuldirnar þungar, leigugreiðslurnar duga ekki fyrir kostnaði og svo er bærinn ekki sérlega góður eigandi fasteigna. Þessu hefur verið tekið fálega af ríkinu, meðal annars vegna þess að þá gæti ríkið fengið öll hin heimilin sem svipað er ástatt um í fangið.

Hjúkrunarheimili hafa verið byggð eftir þeirri reiknireglu að ríkið borgar 85% og sveitarfélög 15%. Það fyrirkomulag hefur ekki ýtt undir nægjanlega fjölgun hjúkrunarrýma. Viðbygging með tíu nýjum rýmum var hugsuð eftir því fyrirkomulagi. Það hefði verið afkáralegt að hafa þrjár einingar með einu eignarformi en þá fjórðu með öðru.

Stefnubreyting ríkisins opnar nýja kosti

Þetta breyttist í vor. Þá var gefin út skýrsla sem heitir Breytt fyrirkomulag fasteigna vegna hjúkrunarheimila.  Þar var opnað á að ríkið færi í auknum mæli að breyta markaðsfyrirkomulagi við nýbyggingar, en einnig að núverandi hjúkrunarheimili yrðu seld til einkaaðila. Þjónustan yrði í sömu höndum og áður, í tilviki Eyrar hjá heilbrigðisstofnuninni.

Í kjölfarið hefur Ísafjarðarbær skoðað hvaða lausnir eru í stöðunni og haldið marga fundi með hagaðilum, þar á meðal stjórnendum Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Nú hefur bæjarstjórn ákveðið að hefja söluferli á hjúkrunarheimilinu. Byggir fyrirkomulagið á því sem gert var á Seltjarnarnesi ekki fyrir löngu. Síðar mun koma í ljós hvort nægilega góð tilboð muni fást í eignina og þá hvort af þessu verður.

Málið flækist aðeins vegna þess að á sínum tíma höfðu Ísafjarðarbær og ríkið ekki alveg sömu sýn á bygginguna í einu veigamiklu atriði. Kröfulýsing ríkisins gerði ekki ráð fyrir sameiginlegum sal fyrir einingarnar þrjár, en það taldi Ísafjarðarbær þörf á að byggja. Það gerði bærinn því á eigin reikning, en hefur leyft heilbrigðisstofnuninni að nota salinn þrátt fyrir það. Gera þarf upp þau mál í samhengi við söluna.

Þjónusta við íbúa breytist ekki nema til batnaðar

Verði af sölunni mun það engar breytingar hafa í för með sér fyrir íbúa hjúkrunarheimilisins eða starfsfólk þess, nema þá í því að í stað Ísafjarðarbæjar verði húsið í eigu aðila sem hafa það sem sína sérhæfingu að eiga, viðhalda og sinna húsnæði. Á grundvelli þessa gætum við farið að sjá öflug leigufélög hasla sér völl, sem eykur fjölbreytni í húsnæðismarkaði og atvinnulífi.

Skuldahlutfall Ísafjarðarbæjar mun lækka talsvert verði af þessari sölu en gera má ráð fyrir að það muni lækka úr 134% niður í 115%. Ísafjarðarbær fjármagnaði bygginguna með lánum og hafa leigutekjur frá ríkinu ekki dugað fyrir afborgunum og hefur bærinn því greitt með rekstrinum. Árið 2022 28 m.kr. tap á rekstri Eyrar og 33 m.kr. tap í fyrra. Þetta er fjármagn sem mætti nota í skemmtilegri verkefni í þágu bæjarbúa.

Gylfi Ólafsson, Í-lista, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar

Uppfært kl 11:30 12.6. lagfært orðalag.

Hvalur hf. fær leyfi til hvalveiða

Hvalveiðibátur á siglingu.

Bjarkey Ol­sen Gunn­ars­dótt­ir mat­vælaráðherra hef­ur veitt Hval hf. veiðileyfi til veiða á langreyðum.

Leyfið gild­ir fyr­ir veiðitíma­bilið 2024 og verður leyfi­legt veiðimagn 99 dýr á svæðinu Græn­land/​Vest­ur-Ísland og 29 dýr á svæðinu Aust­ur-Ísland/​Fær­eyj­ar eða sam­tals 128 dýr.

Frá þessu grein­ir Stjórn­ar­ráðið í til­kynn­ingu.

Vestfjarðagöngin lokuð

Vestfjarðagöngin er lokuð. Rúta bilaði í einbreiða hluta ganganna og eru viðgerðarmenn komnir á staðinn og unnið er að því að koma rútunni af stað. Farþegar eru í rútunni og amar ekki að þeim.

Lögreglan á Vestfjörðum segir að upplýsingar verði birtar á vef Vegagerðarinnar þegar göngin opnast að nýju.

Nýjustu fréttir