Sunnudagur 1. september 2024
Síða 7

Gul viðvörun á Vestfjörðum

Kort Veðurstofu Íslands í kvöld.

Veðurstofa Íslands gaf í dag út gula viðvörun fyrir Breiðafjörð, Vestfirði og Strandir. Gildir hún til kl 2 í nótt en þó lengur á Ströndum eða til kl 5 í nótt.

Á Vestfjörðum og við Breiðafjörð er varað við norðan 13-20 m/s vindi og vindhviður staðbundið kringum 30 m/s, hvassast norðantil. Varasamt ökutækjum sem taka á sig mikinn vind.

Á Ströndum er varað við talsverðri eða mikilli rigningu, Vatnsborð í ám og lækjum mun vaxa talsvert og vöð og árfarvegir geta því orðið varasöm. Einnig aukast líkur á aurskriðum og grjóthruni, ferðamenn ættu að forðast brattar fjallshlíðar segir í viðvörun Veðurstofunnar.

Klukkan 18 í dag, föstudag, hafði verið tilkynnt um grjóthrun og aurskriður utan við Suðureyri í Súgandafirði, í Tungudal innan við Ísafjörð, í Breiðadal í Önundarfirði.

Guðrún – Ættarsaga frá Vestfjörðum

Höfundur bókarinnar Brynja Svane er fædd á Ísafirði en ólst upp á Íslandi og í Danmörku. Hún var áður prófessor í frönskum bókmenntum við Háskólann í Uppsölum og hefur gefið út fjölda fagbóka, fyrir utan sjö skáldsögur á árunum 2012-2023.

Árið 1777 gerir Danakonungur kaup við ekkjuna Guðrúnu á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp.

Danir gátu þar með aukið við saltvinnslu á staðnum en ekkjan hlaut að víkja af staðnum.

En hver var hún og hvað varð um þessa konu. Í sögunni fylgjum við Guðrúnu og börnum hennar fyrstu árin eftir makaskiptin við kónginn. Þetta er frásögn af verslunarstað í vexti og fjallar um baráttuna við að lifa af í óblíðri náttúru.

Skáldsagan Guðrún er söguleg skáldsaga um fjölskyldu og samferðamenn hennar á 18. öld á norðanverðum Vestfjörðum.

Tölulegar upplýsingar um nýafstaðna Ólynpíuleika

Ólympíuleikar eru risastórt verkefni. Flóknar reglur gilda um ýmsa þætti og flókið er að standa fyrir keppni í mörgum íþróttagreinum samtímis. Undirbúningur leikanna tekur mörg ár og halda þarf vel utan um verkefnið svo vel gangi.

Inside the Games er vefmiðill sem fjallar um ólympísk málefni. Í vikunni var þar að finna nokkrar skemmtilegar staðreyndir um nýafstaðna Ólympíuleika í París og eru nokkur dæmi nefnd hér fyrir neðan. Þau gefa ágæta mynd af umfangi leikanna.

  • 760 keppnislotur voru haldnar, í 32 ólympískum íþróttagreinum
  • keppendur unnu til næstum 850 verðlauna
  • verðlaunahafar voru af 86 þjóðernum
  • 42 met voru slegin, þar á meðal 10 heimsmet og 32 ólympíumet
  • seldir voru yfir 9,5 milljónir miða á viðburði leikanna
  • áhorfendur komu frá 222 þjóðum
  • 62% miðakaupenda voru franskir
  • þegar flest var þá voru 11.804 þátttakendur í Ólympíuþorpinu
  • 150 tímapantanir á hverjum degi í hárgreiðslu og handsnyrtingu í þorpinu
  • 90 manns vann við fataþvott á hverjum degi í þorpinu
  • a.m.k sjö bónorð voru borin fram á leikunum
  • 45.000 sjálfboðaliðar vinna við Ólympíuleikana og Paralympics
  • 4.200 starfa fyrir skipuleggjendur við verkefnin
  • 10.500 keppendur tóku þátt frá 206 Ólympíunefndum og 182 Paralympics samböndum
  • 32 keppnisgreinar á Ólympíuleikum og 22 á Paralympics.

Ólympíuleikarnir í París gengu vel, viðburðirnir voru algerlega frábærir og umgjörðin öll hin glæsilegasta. Bryddað var upp á ýmsum spennandi nýjungum sem gera má ráð fyrir að verði þróaðar áfram fyrir næstu leika sem fram fara í Los Angeles árið 2028.

Afar umfangsmiklir kirkjudagar framundan

Ísafjarðarkirkja. Mynd: kirkjukort.net

Kirkjudagar þjóðkirkjunnar hefjast nú um helgina með kveðjumessu frú Agnesar M. Sigurðardóttur biskups Íslands í Dómkirkjunni í Reykjavík sunnudaginn 25. ágúst kl. 11:00.

Síðan færast kirkjudagarnir yfir í Lindakirkju þar sem þeir verða settir formlega kl. 16:00 sama dag.

Til gamans má geta þess að 75 einstaklingar sjá um 40 málstofur, sem fara fram síðdegis og á kvöldin alla vikuna.

Því til viðbótar koma 50 sjálfboðaliðar auk annars starfsfólks að fjölskylduhátíðinni sem er laugardaginn 31. ágúst.

16 kórar af öllu landinu hafa skráð sig til leiks í Sálmafossinum sem verður föstudaginn 30. ágúst. og munu þeir ásamt einsöngvurum syngja úrval úr nýju sálmabókinni. Meðal þeirra kóra sem þar koma fram er kór Ísafjarðarkirkju

Því má gera ráð fyrir að yfir 600 manns komi að dagskrá kirkjudaganna með einum eða öðrum hætti í tæplega 100 dagskráratriðum.

Útselur við Ísland

Niðurstöður talninga á útsel við Ísland haustið 2022 liggja nú fyrir.

Stærð íslenska útselsstofnsins hefur verið metin reglulega frá 1982 með talningum á kópum að hausti. Í talningunni árið 2022 var heildarkópaframleiðslan metin vera 1551 kópar.

Mikilvægasta kæpingarsvæðið var líkt og áður Breiðafjörður með um 62% af kópunum.

Út frá þessari kópatalningu er stofnstærð útsels árið 2022 metin 6697 dýr. Það þýðir um 27% fækkun í stofninum frá fyrstu talningu sem fór fram árið 1982, en jafnframt um 6,8% fjölgun frá árinu 2017 þegar talning fór síðast fram.

Breytingin á stofnstærð milli áranna 2005 og 2022 var þó ekki tölfræðilega marktæk sem þýðir að stærð stofnsins stendur í stað.

Útflutningsverðmæti sjávarafurða: fjórðungs aukning á milli ára í júlí

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 28,5 milljörðum króna í júlí samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum um vöruviðskipti sem Hagstofan birti á dögunum. Það er nokkuð myndarleg aukning frá júlí í fyrra, eða sem nemur um 26% í krónum talið. Þar sem gengi krónunnar var um 2% veikara nú í júlí en í sama mánuði í fyrra er aukningin aðeins minni í erlendri mynt, eða um 24%.

Þetta kemur fram á radarnum, mælaborði sjávarútvegsins.

Aukning í mjöli og lýsi

Ofangreinda aukningu má rekja til nokkurra vinnsluflokka. Ber fyrst að nefna fiskimjöl og lýsi, sem hvort um sig var óvenju fyrirferðarmikið miðað við júlímánuð. Þannig nam útflutningsverðmæti fiskimjöls um 4,4 milljörðum króna í mánuðinum, sem er um 70% aukning á milli ára á föstu gengi. Útflutningsverðmæti lýsis nam svo rúmlega 3,4 milljörðum króna í júlí, sem er hátt í þreföldun á milli ára. Eins var dágóð aukning í útflutningsverðmæti frystra flaka (33%) og ferskra afurða (14%). Á móti vóg talsverður samdráttur í útflutningsverðmæti á heilfrystum fiski, eða sem nemur um 32%.

199 milljarðar króna jan – júlí 2024

Á fyrstu sjö mánuðum ársins hafa verið fluttar út sjávarafurðir fyrir rúma 199 milljarða króna. Það er tæplega 1% aukning miðað við sama tímabil í fyrra á föstu gengi. Mest hefur aukningin orðið í útflutningsverðmæti lýsis, en verðmæti þess er komið í 17 milljarða króna á fyrstu sjö mánuðum ársins, samanborið við 12 milljarða á sama tímabili í fyrra. Það jafngildir rúmlega 42% aukningu á milli ára á föstu gengi. Eins er nokkuð myndarleg aukning í útflutningsverðmæti ferskra afurða. Útflutningsverðmæti þeirra er komið í 54 milljarða króna, sem er um 10% aukning á milli ára á föstu gengi. Eldislax er til dæmis flokkaður sem útflutningur á ferskum afurðum. Þá jókst útflutningsverðmæti frystra flaka um 6% á sama kvarða og saltaðra og þurrkaðra afurða um 2%.

Suðurtangi: aðalskipulagsbreytingar staðfestar

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt endanlega breytingar á aðalskipulagi Suðurtanga. Atvinnulóðum á svæðinu er fjölgað vegna mikillar eftirspurnar og er markmiðið að tryggja atvinnulífi á Ísafirði nægt
rými til vaxtar og þróunar, draga úr hagsmunaárekstrum á milli mismunandi atvinnugreina og auka öryggi.

Tillagan var samþykkt til auglýsingar í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar þann 11. júní 2024 og sendar Skipulagsstofnun til athugunar.

Skipulagsstofnun fór yfir framlögð gögn og gerði ekki athugasemd við að skipulagstillagan
verði auglýst skv. 31. gr. skipulagslaga þegar brugðist hefur verið við eftirfarandi atriðum:

  • Taka þarf mið af áherslum gildandi Landsskipulagsstefnu 2024-2038.
  • Neðstikaupstaður er innan verndarsvæðis í byggð. Bent er á að verndarskilmála þarf að
    taka upp sem hverfisverndarákvæði í greinargerð aðaslskipulagstillögunnar eftir því sem
    við á. Einnig er minnt á að taka mið af þeim við gerð deiliskipulags.

Skipulags- og mannvirkjanefndar gerði breytingar á aðalskipulagstillögunni á fundi sínum 15. ágúst og tók tillit til athugasemda Skipulagsstofnunar og sendi málið til bæjarráðs sem fer með valsvið bæjarstjórnar í sumarleyfi hennar.

Trap í Steinshúsi laugardaginn 24. ágúst

Það verða stórtónleikar í Steinshúsi á Langadalsströnd í Ísafjarðardjúpi laugardaginn 24. ágúst kl. 20:00 þegar hljómsveitin TRAP frá Ísafirði mætir og spilar það besta frá 7. og 8. áratugnum.

Hljómsveitarin TRAP var stofnuð í Gagnfræðaskólanum á Ísafirði árið 1969. Meðal hljómsveitarranna eru Rúnar Þór Pétursson og Rúnar Vilbergsson.

Ókeypis aðgangur og allir velkomnir á meðan  húsrúm leyfir.

Vikuviðtalið: Gerður Björk Sveinsdóttir

Ég er fædd í Reykjavík árið 1977 og er elst fjögurra systkina. Þegar ég var sex ára gömul fluttumst við fjölskyldan í Stykkishólm þar sem ég bjó öll mín uppvaxtarár. Frá þeim tíma á ég ótrúlega margar góðar minningar og vini, þar sem nóg var um að vera fyrir alla. Snæfell á fljúgandi siglingu og allir æfðu körfu, ég æfði auðvitað körfu eins og hinir en var aldrei neitt sérstaklega góð í henni, mín íþrótt voru frjálsar, hástökk, langstökk og spretthlaup, þar fékk ég aðeins að skína og nota ég auðvitað hvert tækifæri til að monta mig af því.

Þar var líka mjög virkt tónlistarstarf og æfði ég og spilaði á þverflautu með lúðrasveit Stykkishólms. Árið 1988, þegar ég var ellefu ára fór ég með lúðrasveitinni til Rostoc í Austur Þýskalandi, það var svo sannarlega mikil upplifun, bæði var ég að fara erlendis  í fyrsta skiptið og eins fékk ég að upplifa það að fara til Þýskalands áður en múrinn féll. Þessi ferð situr mjög fast í minningunni.  Fjölskyldan mín fór öll með í ferðina, mamma saumaði nokkur dress á okkur krakkana og ég held svei mér þá að það hafi verið byrjað að pakka niður í tösku um mánuði áður en við lögðum af stað, svo mikil var eftirvæntingin.  

Í Stykkishólmi blómstruðu líka ólík trúarbrögð sem við krakkarnir tókum virkan þátt í, við mættum í Fíladelfíu söfnuðinn þar sem við fengum jesúmyndir og hlustuðum á orð guðs. Við tókum einnig þátt í messum hjá kaþólsku nunnunum á St. Franciskuspítalanum þar sem við gengum um í hvítum kuflum með reykelsi. Þetta var bara hluti af okkar menningu og uppvexti og er ég þakklát fyrir það og ekki má nú gleyma stúkustarfinu í Stykkishólmi en þar hélt Árni Helgason um taumana þar sem hann hélt uppi öflugu starfi, þar sem krakkarnir í hólminum tókum virkan þátt.

Í Stykkishólmi fékk ég líka að spreyta mig á fjölbreyttum vinnustöðum, ég stóð við færiband og pillaði rækju og vann í skelinni hjá Sigurðu Ágústssyni. Ég vann líka í kræklingi í aukavinnu meðfram vinnu hjá Sýslumanni í Stykkishólmi þar sem ökuskírteinin voru enn plöstuð í plastvél og unnin í ritvél. Vegabréfin voru líka búin til á staðnum við frekar frumstæð skilyrði myndi einhver segja.

Það var smá flandur á mér í framhaldsskóla, á þessum tíma var í boði að taka fyrsta árið í Stykkishólmi sem ég gerði en fór svo suður til Reykjavíkur þar sem ég tók annað árið í Ármúla, þriðja árið tók ég á Akranesi þar sem ég bjó á heimavist en fór svo aftur suður og tók fjórða árið í Ármúla, en til að flækja þetta enn meira þá var námið mitt í Ármúla metið inn á Akranesi og útskrifaðist ég þaðan.  Eftir menntaskólann lá leið mín til  Austurríkis þar sem ég bjó í eitt á og lærði þýsku, vann á lúxushóteli í Austurrísku Ölpunum og starfaði svo sem þjónn á glæsilegum golfvelli við Salzburg. Ég er mjög þakklát fyrir það að hafa fengið að upplifa aðra menningu og tungumál fyrir tíma internets og snjallsíma.

Þegar heim var komið kynnist ég manninum mínum, Davíð Páli Bredesen en hann er uppalinn á Patreksfirði en var á þessum tíma á sjó frá Rifi á Snæfellsnesi. Við ákváðum fljótlega að flytja til Patreksfjarðar og bjuggum við þar árin 1999 – 2004 og á þeim tíma vann ég fyrst hjá sýslumanni og svo við kennslu við grunnskólann, þar sem ég var umsjónarkennari 8. bekkjar og kenndi jafnframt samfélagsfræði í 10. bekk, þó svo að reynslan í skólanum hafi verið mjög góð áttaði ég mig á því að ég myndi ekki fara í kennaraháskólann og fann út að ég væri örugglega góð í einhverju viðskiptafræðitengdu enda alltaf haft gaman að stærðfræði og raungreinum.

Árið 2002 eignumst við dóttir okkar hana Rakel Jónu, fæddist hún á sjúkrahúsinu á Patreksfirði og er ein af síðustu börnum sem fæðast þar. Árið 2004 fæðist eldri sonur okkar, Ísak Ernir á Landspítalanum í Reykjavík en þá vorum við flutt á Álftanes og ég byrjuð í námi í viðskiptafræði við háskóla Íslands.

Árið 2008 klára ég námið og hef störf hjá endurskoðunarfyrirtækinu Deloitte og samhliða því fer ég í mastersnám í reikningshaldi og endurskoðun við háskóla Íslands sem ég lýk árið 2011.

Á þessum tímapunkti var orðið ansi mikið að gera hjá mér og Davíð var komin á sjó fyrir vestan þar sem hann keyrði á milli heimilis og vinnu reglulega. Við áttum von á þriðja barninu okkar honum Ólafi Inga og gátum vel hugsað okkur að hægja aðeins á lífinu og hafði það líka áhrif að tengdamóðir mín hún Bára Pálsdóttir lagði hart að okkur að koma aftur vestur á Patreksfjörð. Við tókum því ákvörðun um að bjóða í hús sem var eign ríkiskaupa og var ekki í hefðbundnu söluferli heldur var tilboðum í eignina skilað inn fyrir ákveðna dagsetningu og hæsta tilboði tekið. Við buðum 18,1 milljón í húsið óséð og fengum (sprengdum markaðinn á þeim tíma, sem betur fer hefur mikið breyst síðan þá), nú voru góð ráð dýr og ekki annað í boði en að setja allt af stað og skipuleggja flutning vestur.

Haustið 2011 flytjum við vestur og höfum ekki séð eftir því í eina mínútu. Hér höfum við komið okkur vel fyrir og eigum góða vini. Samfélagið er einstakt þar sem samkenndin er mikil og ef að eitthvað bjátar á þá eru allir tilbúnir til þess að rétta fram hjálparhönd. Hér er líka mikil hefð fyrir félagsstarfsemi og eru flest allir virkir félagsmenn í einhverjum félagsskap. Það er til dæmis alveg einstakt starf sem er unnið hjá Slysavarnardeildinni Unni sem er ein fjölmennasta slysavarnardeild landsins með ótrúlega dreifan aldur og mikla nýliðun. Lions klúbburinn er annað dæmi um mjög virkan félagsskap sem er ómetanlegur fyrir samfélagið og hefur styrkt fjöldamörg verkefni á svæðinu.  Það eru auðvitað mikið meira í gangi og eru þetta bara tvö dæmi um öflugan félagsskap á svæðinu.

Það er líka svo gaman að því hvað þorpin hér á sunnanverðum Vestfjörðum eru ólík og hvert og eitt með sinn sjarma og karakter fyrir utan þá stórfenglegu náttúruparadísir sem eru hér allt um kring.

Fljótlega eftir að ég flyt vestur fer ég að líta í kringum mig hvað sé í boði fyrir mig að gera, ég sé auglýst starf skrifstofustjóra Tálknafjarðarhrepps sem ég sæki um og fæ. Í þrjú ár keyrði ég yfir til Tálknafjarðar þar sem ég kynntist Tálknfirðingum og lærði inná stjórnsýsluna. Þar öðlaðist ég dýrmæta reynslu sem hefur svo sannarlega komið sér vel.

Árið 2016 sé ég auglýst starf verkefnastjóra samfélagsuppbyggingar hjá Vesturbyggð sem mér fannst ótrúlega spennandi enda mikið um að vera á svæðinu og í mörg horn að líta. Ég fékk það starf og hef verið hjá Vesturbyggð sem nú er orðið sameinað sveitarfélag Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar síðan þá. Þegar þetta er ritað hef ég sinnt þremur störfum hjá Vesturbyggð, fyrst sem verkefnastjóri, svo árið 2019 tek ég við starfi sviðsstjóra stjórnsýslu og fjármálasviðs og núna síðast í vor tek ég við sem bæjarstjóri sameinaðs sveitarfélags og líður mér pínu þannig að hringnum hafi verið lokað, frá því að ég hóf störf sem skrifstofustjóri Tálknafjarðarhrepps.

Starf bæjarstjóra finnst mér bæði fjölbreytt og krefjandi en fyrst og fremst finnst mér það ótrúlega skemmtilegt og er engin dagur er eins. Ég hef nú ekki sinnt starfinu lengi en mörg verkefni þekki ég vel úr mínu fyrra starfi og þekki stjórnsýsluna orðið ansi vel, það sem breytist er nálgunin. Í starfinu fæ ég líka tækifæri til að hitta mikið af skemmtilegu fólki og kynnst því góða starfi sem unnið er í sveitarfélaginu.

Fyrir um tveimur árum fórum við hjónin að stunda golf af einhverju ráði og er ég orðin forfallinn golfsjúklingur sem ætti kannski að skila sér í lægri forgjöf en ég er að reyna að læra að vera  þolinmóð þar sem sagt er að góðir hlutir gerist hægt, en þolinmæði er kannski ekki mín sterka hlið, allavega ekki þegar kemur að sjálfri mér.   Ég hef líka mjög gaman að því að ganga á fjöll og ætla mér að gera meira af því en göngurnar hafa aðeins þurft að víkja fyrir golfáhuganum undanfarið.   Mér finnst líka voða notalegt að leggjast upp í sófa að loknum strembnum degi og horfa á svo sem eins og eitt stykki þátt þar sem ég þarf ekki að hugsa neitt. Annars hef ég bara almennt gaman af lífinu, verja tíma með fjölskyldunni og fólkinu í kringum mig.

Fá Vestfirðingar þá að selja laxeldisleyfin?

Frá undirritum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.

Ríkið hefur lagt Keldnalandið inn í fyrirtækið Betri samgöngur ohf. sem það á með nokkrum sveitarfélögum. Mun allur ábati af þróun og sölu landsins renna óskertur til verkefna samgöngusáttmálans á höfuðborgarsvæðinu. Í kynningarefni sem birt var í gær vegna svokallaðrar uppfærslu sáttmálans segir að gert sé ráð fyrir að ábatinn af sölu og þróun svæðisins verði um 50 milljarðar kr. á samningstímanum.

Öll fjárhæðin rennur til samgönguverkefna á höfuðborgarsvæðinu. Við sem búum á Vestfjörðum og eigum okkar hlut í ríkiseigninni fáum ekkert af söluverðmætinu til verkefna hjá okkur. Öll landsbyggðin fær ekkert.

Jæja, hvernig er það þá með eign ríkisins, vestfirsku firðina utan netlaga, þar sem búið er að úthluta leyfum fyrir laxeldi í sjó? Ef sú ógeðfellda tillaga ráðherra Vinstri grænna frá því á síðasta vetri, að breyta leyfunum í ótímabundin leyfi, sem leyfishafa mega selja hæstbjóðanda verði hrint í framkvæmd á þann veg að ríkið seldi leyfin, væri þá ekki rétt og í samræmi við ráðstöfun Keldnalandsins að allar tekjur af sölu eldisleyfa á Vestfjörðum renni til samgönguframkvæmda á Vestfjörðum? Það hlýtur að vera.

Þá er það spurningin : hvað væri líklegt að fengist fyrir leyfin. Þar höfuð við ekki mikið við að styðjast í viðskiptum innanlands. En í Noregi hafa nokkur uppboð farið fram eins og lesa má á bb.is. Verðið er um 4 m.kr. fyrir hvert tonn í framleiðslu.

Hafa verður í huga að eldisskilyrði í Noregi eru mun betri en á Íslandi. Vaxtarhraði eldisfisksins er mun meiri þar sem sjórinn er hlýrri. Svo eru fyrirtækin sem kaupa heimildir mun stærri í Noregi en hér á landi og þau hafa fyrir heimildir sem fengust án uppboðs og þau geta því dreift verði keyptra heimilda á tekjur af þeim heimildum sem fyrir eru. Bæði þessi atriði gera það að verkum að ætla má að verð hér á landi verði mun lægra en í Noregi. Andstæðingar laxeldis hér á landi svo sem hjá verndarsjóði villtra laxastofna og íslenska náttúruverndarsjóðsins eru ósammála þessu og halda því fram að verðið hér á landi sé það sama og í Noregi. Svo þetta er umdeilt.

165 milljarðar króna eða 330 milljarðar króna

Í fjörðum Vestfjarða er burðarþolsmatið 82.500 tonn fyrir sjókvíaeldið. Að því gefnu að það verði allt laxeldi má því ætla að það fengjust 330 milljarðar króna fyrir söluna miðað við 4 m.kr. pr. tonnið. Ef til varúðar er gert ráð fyrir aðeins helmingi þess, fengjust samt 165 milljarðar króna. Svo fengjust að auki árlegar greiðslur eldisfyrirtækjanna sem munu nema háum fjárhæðum, svo sem fiskeldisgjald o.s.frv.

Jafnvel þótt aðeins sé horft til lægri upphæðarinnar þá munu 165 milljarðar króna duga fyrir öllum samgönguframkvæmdum, þar með talið jarðgöngum, sem sett hefur veri fram krafa um og örugglega verða samt eftir myndarlegur afgangur.

Kostnaður við fimm jarðgöng á Vestfjörðum sem lögð eru til í jarðgangaáætlun ríkisstjórnarinnar, er um 80 milljarðar króna. Það eru göng í gegnum Klettháls, Mikladal, Hálfdán, breikkum Vestfjarðaganga og göng til Súðavíkur. Þá eru samt eftir helmingur væntanlegs söluandvirðis. Nóg eftir fyrir veg um Veiðileysuháls og Naustaskörð, um Arnarfjörð frá Bíldudal að Dynjandisheiði og meira og meira. Og samt nóg eftir.

Er það þá ekki leiðin að stofna ohf. um eldisleyfin og þá rennur andvirðið allt til framkvæmda á Vestfjörðum. Og allir kátir?

-k

Nýjustu fréttir