Fimmtudagur 16. janúar 2025
Síða 7

Sóknaráætlun samþykkt fyrir næstu fimm ár

Vestfjarðastofa hefur staðfest sóknaráætlun fyrir Vestfirði árin 2025-2029.

Sóknaráætlun er aðgerðaráætlun til fimm ára í senn sem felur í sér stöðumat, framtíðarsýn og markmið segir í inngangi áætlunarinnar.

Fyrsta sóknaráætlunin var gerð 2015 og er þetta sú þriðja í röðinni. Heildarfjármagn í síðustu fimm ára áætlun var um 600 m.kr. og þar af voru 230 m.kr. merktar sérstökum áherslu verkefnum.

Vakin er athygli á því að síðan sú síðasta kom út, sem var fyrir árin 2020-2024, hafa merkir áfangar náðst: Dýrafjarðargöng, láglendisvegur í Gufudalssveit og endurbygging vegar um Dynjandisheiði sem reyndar er enn ólokið. „Þó veldur djúpum vonbrigðum fálæti gagnvart vetrarþjónustu og viðhaldi vega og tilfærsla jarðgangna á Vestfjörðum í biðflokk.“

Þá segir að flutnings- og dreifikerfi raforku á Vestfjörðum hafi batnað á tímabilinu en að tækifærin sem það felur í sér líða fyrir skort á virkjuðu vatnsafli innan Vestfjarða og viðkvæmri flutningslínu inn á svæðið.

Á þessu ári verður varið 53 m.kr. til áhersluverkefna sóknaráætlunar. Mestu fé verður varið til þess að gera svæðisskipulag Vestfjarða eða 15 m.kr. Til Bláma fara 10 m.kr. og Visit Westfjords og Vestfjarðaleiðin fá 7,5 m.kr.

Ísafjarðarhöfn: 771 tonna afli í desember

Ísafjarðarhöfn á góðviðrisdegi seint í november. Þá voru engin fiskiskip í höfn en vel skpað í skútuhöfninni. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Til Ísafjarðarhafnar barst í desember afli einvörðungu af botnstrollsveiðum. Það voru togaranir Páll Pálsson ÍS og Júlíus Geirmundsson ÍS sem lönduðu í mánuðinum. Páll Pálsson ÍS fór 7 veiðifeðir og kom með 602 tonn að landi. Júlíus Geirmundsson ÍS landaði einu sinni afurðum og var með 169 tonn.

Patreksfjörður : 378 tonn

Á Patreksfirði var útgerðinni öðru vísi háttað en á Ísafirði. Þar liggur áherslan meira á línuútgerð. Línubáturinn Núpur BA landaði fimm sinnum í síðasta mánuði og var samtals með 229 tonn. Togarinn Vestri BA landaði þrisvar og kom með 121 tonn.

Tveir minni línubátar reru í mánuðinum, Sindri BA og Agnar BA og voru þeir samtals með 28 tonna afla.

Suðureyri : 217 tonn

Á Suðureyri er öflug línubátaútgerð og allir afli sem kom að landi í desember var af línubátum.

Þar var Einar Guðnason ÍS með mestan afla 140 tonn í 12 róðrum. Hrefna ÍS var með 52 tonn í 7 róðrum og Eyarröst ÍS 18 tonn eftir 5 róðra. Auk þeirra lönduðu Viktoría ÍS og Gjafar ÍS afla samtals nærri 7 tonnum og fóru hvor um sig einn róður.

Félagatal, lottótekjurnar og hreina samviskan

Gísli Jón Kristjánsson.

Nú geysast fram á ritvöllinn Þórir Guðmundsson og Ásgerður Þorleifsdóttir og eru að reyna að halda því fram að önnur félög, en þau sem þau stýra, séu með sín félagatöl röng og fái þess vegna hærri greiðslur úr sameiginlegum sjóðum.

Byrjum á byrjuninni. Umræddar greiðslur eru afar lágar og rangar félagsskráningar hafa lítið sem ekkert að segja um rekstur félaganna og úthlutun lottótekna. Raunar eru umræddar reglur afar lélegar að mörgu leyti.

Til dæmis ættu skráningar og iðkendur að taka mið af ástundun innan ársins. Íþróttagreinar sem eru stundaðar eingöngu örfáa mánuði ættu eðli málsins samkvæmt að fá lægri greiðslur.

Geta Þórir Guðmundsson og Ásgerður Þorleifsdóttir fullyrt að þeirra skráningar séu 100% réttar? Því við lauslega athugun nú í morgun fundust strax nokkrir iðkendur, bæði í körfuknattleik og skíðum, sem ekkert tengjast umræddum greinum.

Knattspyrnufélagið Hörður tók upp nýtt kerfi, Abler, á árinu 2024 og allir sem eru skráðir í það kerfi eru iðkendur hjá félaginu og skráningar því réttar. Að biðja um gamlar upplýsingar frá ÍSÍ og fara með það í fjölmiðla er einfaldlega viljandi rangfærslur hjá aðilum.

Það er frítt að æfa handbolta hjá Herði. Sjálfboðaliðar fjármagna reksturinn alveg. Keppnisferðir kosta ekkert og öll eru velkomin á æfingar.

Öll félögin innan Ísafjarðarbæjar hafa skráð börn sem stunda íþróttir hjá þeim í félagatal. Börn sem hafa verið í boltaskóla hafa til dæmis verið félagsmenn jafnt hjá Herði sem og öðrum íþróttafélögum. Hvorki körfubolti né skíði eru þar undanþegin.

Er ekki tilefni til að aðilar slíðri sverðin, vinni að samstarfi og uppbyggingu eigin félaga frekar en niðurrifi annarra? Það eru allir velkomnir að koma á æfingar, taka þátt í starfinu og verða skráðir iðkendur – þó það hafi nánast engin áhrif á greiðslur lottótekna. Um er að ræða upphæðir á hvern iðkanda langt undir þúsund krónum.

Staðreyndin er sú að síðastliðið haust fór fram tímaúthlutun í íþróttahúsinu á Torfnesi. Héraðssamband Vestfjarða benti á að eitt félag var verulega hlunnfarið þar. Vestri körfubolti hafði fengið of marga tíma og núna hafa aðilar samþykkt að laga það og koma í betri farveg. Nú síðast í gær lofaði formaður körfuknattleiksins friði og góðum samskiptum en í dag halda þessar árásir áfram.

Sigurður Hreinsson formaður HSV á hrós skilið fyrir að leiðrétta það óréttlæti sem félagið varð fyrir af hálfu Ísafjarðarbæjar. Hann er sjálfboðaliði sem hefur unnið þrekvirki við að leiðrétta mistök starfsmanns Ísafjarðarbæjar. Finnst forráðamönnum félaganna það í lagi að verðlauna sjálfboðaliða fyrir gott starf með stöðugum árásum?

Er ekki mál að árásunum linni og við einbeitum okkur að því að byggja upp frekar en að berja hvort annað niður?

Gísli Jón Kristjánsson

Ballestargrjót

Ballestargrjót, kjölfestustein, úr norsku síldarskipi sem kom á Eyri við Ingólfsfjörð á Ströndum.

Áhugamenn um bergtegundir telja að um grágrýti sé um að ræða.

Áður en norsku og sænsku skipin lögðu yfir hafið til að sækja síldarafurðir frá Íslandi var jafnan borið grjót í lestarnar sem kjölfesta til þess að tryggja stöðugleikann – var því svo kastað fyrir borð þegar komið var til hafnar.

Þannig hafa slíkir „flökkusteinar“ borist upp á land.

Af vefsíðunni sarpur.is

Karlar læra að mála myndir

Ert þú  forvitinn um myndlist? Gunnar Jónsson, myndlistarmaður frá Ísafirði, býður körlum á öllum aldri að taka fyrstu skrefin í myndlist með sérstakri áherslu á vatnslitamálun.

Vatnslitamálun er einn af lykilþáttum myndlistar, þar sem hún býður upp á óendanlega möguleika til að tjá stemningu, tilfinningar og flæði. Með sérstakri stjórn á vatni, litum og áferð er hægt að þróa verk sem  fanga náttúruna, andrúmsloftið og hið ósagða á einstakan hátt.

Á þessu 6 vikna námskeiði, sem hefst á vorönn, fá þátttakendur einstakt tækifæri til að læra grunnatriði vatnslitatækni í afslöppuðu umhverfi þar sem þáttakendur fá grunnleiðsögn um liti, skugga, form og tjáningu með vatnslitum.

Hvort sem þú hefur enga reynslu eða hefur aðeins dundað við myndlist áður, þá er þetta námskeið fyrir þig segir í frétt frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða

Byggðastofnun og Dalabyggð í samstarf um uppbyggingu atvinnuhúsnæðis

Í síðasta mánuði skrifuðu Byggðastofnun og Dalabyggð undir viljayfirlýsingu um uppbyggingu atvinnuhúsnæðis í Búðardal.

Um er að ræða tilraunaverkefni af hálfu Byggðastofnunar þar sem markmiðið er að reisa atvinnuhúsnæði á stað þar sem vöntun á fjárfestingu í atvinnuhúsnæði hefur hamlað framþróun og mun stofnunin leggja til allt að 150 m.kr. í verkefnið.

Víða um land er mikil eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði en framboð takmarkað, hvort sem er til eigu eða leigu. Ástæður eru eflaust margar en einna helst að byggingakostnaður er víða mun hærri en vænt endursöluvirði umræddra bygginga. Slíkt leiðir af sér að lánastofnanir eru tregar til að fjármagna slík verkefni og framkvæmdaaðilar sjá litla arðsemi í þeim.

Við val á byggðakjarna var litið til þátta eins og lýðfræði, innviða, atvinnulífs og fleira. Eftir þá skoðun var ákveðið að hefja viðræður við Dalabyggð um mögulega uppbyggingu á atvinnuhúsnæði í Búðardal. Sveitarfélagið mun tryggja lóð vegna þeirrar uppbyggingar sem fyrirhuguð er, leggja til teikningar að umræddu atvinnuhúsnæði og leggja til gatnagerð og lagnir að lóð í skiptum fyrir eignarhlut í verkefninu. 

Grunnur að verkefninu er sú vinna sem þegar hefur átt sér stað í Dalabyggð varðandi áform um uppbyggingu atvinnuhúsnæðis sem grundvölluð hefur verið á þeim styrk sem fékkst úr C1 sjóði byggðaáætlunar á árinu 2023.

Dalabyggð hefur verið þátttakandi í Brothættum byggðum með verkefnið Dalauður frá árinu 2022. Áætlað er að því verkefni ljúki í árslok 2025.

Endur­nýt­ing á textíl í Vesturbyggð

Svanhvít Sjöfn Skjaldardóttir, formaður Rauða krossins í Barðastrandarsýslu, og Gerður Björk Sveinsdóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar við undirritun samnings

Vest­ur­byggð og Rauði krossinn í Barða­strand­ar­sýslu hafa gert með sér samstarfs­samning um söfnun og endur­nýt­ingu á textíl. Markmið samn­ingsins er að draga úr sóun og stuðla að sjálf­bærari nýtingu á textíl­efnum á svæðinu.

Samningurinn kemur í kjölfar nýrra laga sem gera sveitarfélögum skylt að halda úti sérstakri söfnun á textíl í grenndargáma. Í samningnum felst því að sveitarfélagið komi upp textílgámum á grenndarstöðum sínum á Bíldudal, Tálknafirði og Patreksfirði á árinu 2025. Þessi breyting bætir aðgengi íbúa að textílsöfnun með fjölgun söfnunarstaða.

Rauði krossinn mun sjá um að flokka textílinn sem safnast og reyna að hámarka magnið sem endurnýtist. Textíll sem ekki nýtist, til dæmis með endursölu, verður fluttur úr sveitarfélaginu til endurvinnslu annars staðar.

Nánari upplýsingar um komandi gáma munu birtast inn á heimasíðu Vesturbyggðar þegar þeir verða teknir í gagnið.

Ísafjörður: tímaúthlutun í íþróttahúsi breytt

Íþróttahúsið á Torfnesi.

Skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd Ísafjarðarbæjar samþykkti í gær lítilsháttar breytta miðlunartillögu stjórnar HSV um úthlutun tíma í íþróttahúsinu á Torfnesi. Auk stjórnar HSV komu formenn Vestra og Harðar að málinu.

Meginbreytingin er að tímarnir verða aftur 50 minútur í stað 60 minútna, sem ákveðið var í haust. Við það fjölgar tímum um 14 á viku. Fær Handknatteiksdeild Harðar 9 af þeim, blakdeild Vestra fær 2 tíma og körfuknattleiksdeild Vestra fær 3 tíma.

Formaður aðalstjórnar Vestra hafði lýst yfir óánægju með tillögu stjórnar HSV og vildi ekki breyta tímatöflu um miðjan vetur. Í svari formanns stjórnar HSV við gagnrýninni kemur fram að tillagan HSV sé mild og hafi óveruleg áhrif á starf deilda innan Vestra.

Á fund nefndarinnar í gær komu fulltruar frá HSV, Vestra og Harðar og virðist sem náðst hafi sameiginleg niðurstaða á fundinum.

Orkusveitarfélög: vilja tryggja raforku á sanngjörnu verði

Gerður Björk Sveinsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð.

Stjórnir Samtaka orkusveitarfélaga og Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum saman hittust sameiginlega á fjarfundi í byrjun desember og ræddu sameiginleg málefni. Stjórnirnar telja nauðsynlegt að vinna saman og samræma aðgerðir sínar. Einn fundarmanna var Gerður Sveinsdóttir, bæjastjóri í Vesturbyggð, en hún situr í stjórn samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum.

Vilja að orkumarkaði verði skipt í tvennt

Stjórnir beggja samtaka samþykktu samhljóða eftirfarandi ályktun:


Stjórn Samtaka orkusveitarfélaga og stjórn Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum hvetja nýkjörna þingmenn til að tryggja raforkuöryggi í landinu, þ.e. tryggja aðgengi að orku á sanngjörnu verði.


Samtökin telja að skipta verði orkumarkaðnum upp í tvo samkeppnismarkaði þar sem annar er fyrir almenning, sveitarfélög í landinu og minni fyrirtæki og hinn verði stórnotendur. Nú þegar orkuverð fer hækkandi þarf að tryggja heimilum raforkuöryggi með lögum. Huga þarf sérstaklega að rafkynntum svæðum.

Bretland: eldislax langmest seldi fiskurinn

Eldislax er langvinsælasti fiskurinn sem matvara í Bretlandi samkvæmt því sem fram kom á vef SalmonBusiness á aðfangadag. Hlutdeild eldislaxins er 48% af kældum sjávarvörum seldum í landinu. Salan jókst um 9% milli ára sem er nærri tvöfalt meira en aukingin sem varð almennt í sölu á sjávarafurðum.

Heildarsalan á eldislaxi nam liðlega 200 milljörðum ísl. króna og var hlutdeild eldislaxins 28% af sölu á öllum sjávarafurðum á Bretlandsmarkaði. Næst eldislaxinum í sölu var heitsjávarækja sem var þó aðeins um fjórðungur af sölu á eldislaxinum.

Það er einkum skoskur eldislax sem stendur undir framboðinu en þar voru framleidd um 185 þúsund tonn á síðasta ári. Tavish Scott, framkvæmdastjóri samtakanna Salmon Scotland segir í viðtali við Salmon Business að skýringin á vinsældum eldislaxins sé að heilnæma vöru sé að ræða. Hann segir að laxeldið hafi mikla þýðingu fyrir Skotland. Um 2.500 bein störf séu við framleiðsluna og um 10.000 störf önnur sem byggja á laxeldinu eða samtals um 12.500 störf.

Eldislax er einnig vaxandi útflutingsvara frá Bretlandi. Á síðasta ári hafði verið flutt út eldislax fyrir um 130 milljarða króna. Stærstu erlendu markaðarnir voru í Frakklandi og Bandaríkjunum en veulega aukning var í sölu til Asíulanda.

Nýjustu fréttir