Síða 7

Sjávarspendýraráðið: aukin áhersla á velferð dýranna

Á mánudaginn var fundur í Nammco, sem er samstarf 11 landssvæða á Norður Atlantshafi um rannsóknir og skynsamlega nýtingu sjávarspendýrastofna. Einkum er þar um að ræða hvali, seli og rostunga. Sáttmáli aðildarríkjanna var undirritaður í Nuuk á Grænlandi á árinu 1992.

Á fundinum, sem haldin var í Tromsö í Noregi, var einkum rætt um öruggari og skjótvirkari aðferðir við aflífun dýrana. Þátttakendur skiptust á upplýsingum um aðferðir og veiðarnar og ræddu um leiðir til þess að gera þær öruggari og stytta veiðitímann sem mest hverju sinni. Lögð var áhersla á að nota bestu fáanlega tækni og þjálfa veiðimenn sem best.

Þátttakendur voru úr hópi veiðimanna, dýralækna og vísindamanna frá Karabíska hafinu, Kanada, Grænlandi, Færeyjum, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Álandseyjum, Íslandi og Japan.

Vikuviðtalið: Sigurður Bjarki Guðbjartsson

Ég heiti Sigurður Bjarki Guðbjartsson, fæddur árið 1965 í Bolungarvík og ólst þar upp. Því hef ég og mun alltaf líta á mig sem Víkara þó meirihluta æfinnar hafi ég búið á Ísafirði. Æskuárin í Víkinni einkenndust eins og víða í öðrum sjávarbæjum af miklu frjálsræði. Það var mikill uppgangstími, mikið af framkvæmdum og nýbyggingum sem nýttust okkur krökkunum óspart til leikja þó trúlega oft í óþökk húsbyggjenda. Eða höfnin með sitt iðandi mannlíf, trillur og bátar að koma og landa, nú eða bara grípa veiðistöng og fara niður á bryggju að veiða. Þó aflinn væri einungis ófrínilegir marhnútar var það aukaatriði. Um leið og maður hafði aldur til var haldið út á vinnumarkaðinn. Fyrst í frystihúsið eins og flestir unglingar gerðu. Síðar lá leiðin í Vélsmiðju Bolungarvíkur þar sem ég kláraði námssamning og útskrifaðist sem vélvirki.

Þegar ég kynntist fyrri konu minni Bergþóru Borgasdóttur flutti ég til Ísafjarðar hvar við hófum saman búskap. Og hér er ég enn tæpum 40 árum síðar. Saman eigum við þrjú börn, Hákon Óla, Evu Karen og Guðný Ósk. Seinni kona mín er Pannipha Khotsombat frá Tælandi. Hún á einnig þrjú börn svo fjölskyldan er dágóður hópur og má segja nokkuð fjölþjóðlegur því auk Íslands og Tælands er tengdadóttir mín frá Þýskalandi og tengdasonur frá Frakklandi.

Það er ýmislegt sem ég hef tekið mér fyrir hendur í gegnum tíðina hér á Ísafirði.  Verið véla og verkstæðismaður hjá Vegagerðinni, stundað leigubílahark, rekið hjólbarðaverkstæði, unnið við framleiðslu á sáraroði hjá Kerecis. En í dag þekkja mig líklega flestir sem Bjarki í Thai Tawee. En árið 2020 keyptum við Pannipha Thai Tawee sem er tælenskur veitingastaður hér á Ísafirði. Fyrri eigendur þau Grétar og Edda höfðu náð að skapa staðnum góðan orðstír og leggjum við Pannipha okkur fram um að viðhalda honum. Reyndar gætum við þetta ekki ein og erum við með þrjár afburða manneskjur í vinnu. Enda tala ég oft um þau sem listafólkið hér á Thai Tawee. Árið 2023 var prófdómari ökuprófa hér að láta af störfum og lagði þungt að mér að sækja um. Lét ég til leiðast og var ráðinn. Hef ég séð um framkvæmd ökuprófa hér á svæðinu síðastliðið eitt og hálft ár meðfram rekstrinum á Thai Tawee.

Svona í lokin langar mig til gamans að segja frá hvað gamall kunningi minn sagði við mig fyrir ekki svo löngu síðan. Hann sagði: Þú ættir að hugsa þig vandlega um ef þú ætlar að skipta um starfsvettvang. Þú réðir þig sem snjómokstursmann hjá Vegagerðinni og strax fyrsta veturinn var brjáluð óveðurstíð með snjóflóði í Súðavík og fleira. Síðar ferð þú að reka hjólbarðaverkstæði og það kemur bankahrun og fjármálakreppa örstuttu síðar. Nú síðast kaupirðu veitingastað og tíu dögum eftir að þú tekur við staðnum kemur Covid19 til Íslands með allt sem því fylgdi. Þannig ef þú ert að spá í að skipta um starfsvettvang held ég þú ættir ekki að sækja um vinnu hjá t.d. Landsvirkjun. Það er aldrei að vita hvað gæti gerst!

Atvinnuvegaráðuneyti skoðar að banna hrefnuveiðar í Djúpinu

Samtök ferðaþjónustunnar og Hvalaskoðunarsamtök Íslands hafa ritað bréf til atvinnuvegaráðherra og farið fram á að Ísafjarðardjúp verði skilgreint sem griðasvæði hvala og að ráðherrann setji reglugerð um það.

Í bréfinu kemur fram að tilefnið er að veitt hefur verið leyfi til fimm ára til hrefnuveiða og að hrefnuveiðimenn hafi lýst því yfir að veiðarnar muni fara fram í og við Ísafjarðardjúp. Aðeins sáust tvær hrefnu í Djúpinu við rannsóknir á síðasta ári sem fram fóru frá júní til september.

Nú hefur ráðuneytið ritað bréf og óskar umsagnar um tillögu um griðarsvæði hvala í Ísafjarðardjúpi.

Bæjarráð Bolungavíkur ræddi málið í vikunni.

Bæjarráðið var sammála um að skoðaðir verði möguleikar þess að koma í veg fyrir árekstra milli hvalaskoðunar og hvalveiða. Bæjarráðið telur svæðisráð strandsvæðiskipulags Vestfjarða sé tilvalin vettvangur til að ræða umræddar tillögur og gefa umsögn.

Af því tilefni ítrekaði bæjarráðið áskorun á ráðherra um að skipa nýtt svæðisráð við fyrsta tækifæri.

Ísafjörður: svæðisráðið rétti vettvangurinn

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar ræddi í síðustu viku sams konar erindi frá Sjóferðum ehf, þar sem óskað var eftir jákvæðum undirtektum Ísafjarðarbæjar, vegna erindis Samtaka ferðaþjónustunnar og Hvalaskoðunarsamtaka Íslands, dags. 24. febrúar 2025, til ráðherra, þess efnis að Ísafjarðardjúp, allt frá mynni þess, verði skilgreint griðarsvæði hvala með reglugerð settri af ráðherra.

Bæjarráðið bókaði að Ísafjarðarbæjar geti „tekið undir að hvalveiðar og hvalaskoðun eigi illa samleið ef ekki er hugað að sambúð þessara atvinnugreina. Bæði minnkar það sem af er tekið, en einnig geta veiðarnar, löndun og verkun haft neikvæð áhrif á upplifun ferðamanna. Ein leið er að stofna griðarsvæði eins og bréfritarar leggja upp með, en einnig má hugsa sér aðrar takmarkanir í tíma eða rúmi.“

Þá vísaði bæjarráðið til þess að svæðisráð um strandsvæðaskipulag væri rétti vettvangurinn til þess að fjalla um þetta efni:

„Í þessu samhengi er einnig tilefni til að minnast á frumvarp um skipulag haf- og strandsvæða sem lagt var fram á Alþingi fyrr í mánuðinum. Þar er kveðið á um að svæðisráð geti starfað eftir að strandsvæðaskipulag hefur verið samþykkt. Bæjarráð telur eftir á að hyggja bagalegt að hvalveiðar hafi ekki teknar til skoðunar í svæðisskipulaginu sem samþykkt var fyrir nokkrum misserum. Svæðisskipulag er rétti vettvangurinn til að ákveða hvar og undir hvaða skilyrðum hvalveiðar eigi að leyfa.“

Vesturbyggð: Brák byggir sex íbúðir

Frá Patreksfirði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur samþykkt að greiða stofnframlög vegna bygginga á sex leiguíbúðum á Patreksfirði. Það er Brák íbúðarfélag hses sem byggir.

Heildarframlag Vesturbyggðar eru 34.878.816 kr. sem eru 12% af byggingakostnaði. Það skiptist þannig að þar af eru 9.608.970 kr. opinber gjöld og beint fjárframlag eru 25.269.846 kr.

Gert er ráð fyrir framlaginu í fjárhagsáætlun Vesturbyggðar fyrir árið 2025.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun leggur fram 18% af byggingarkostnaði.

Jarðhiti jafnar leikinn

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um styrki vegna átaksins Jarðhiti jafnar leikinn, sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, kynnti nýlega.

Um er að ræða stærsta jarðhitaátak sem farið hefur verið í hér á landi á þessari öld, en alls verður einum milljarði króna varið í átak til leitar og nýtingar jarðhita á árunum 2025-2028.

Áhersla er lögð á stuðning við nýtingu jarðhita til almennrar húshitunar á svæðum þar sem nú er notuð raforka og/eða olía til húshitunar. Um 10% heimila landsins eru á svo nefndum köldum svæðum og ver ríkissjóður árlega rúmlega 2,5 milljörðum króna til niðurgreiðslu húshitunar á þeim.

Styrkirnir sem nú hafa verið auglýstir verða veittir til sveitarfélaga, orkufyrirtækja eða aðila sem vinna í þeirra umboði. Við styrkveitingar verður m.a. horft til þess að nokkur þekking sé þegar til staðar á jarðhita viðkomandi svæðis og að vísbendingar séu um að finna megi heitt vatn sem hægt sé að nýta beint inn á hitaveitu, eða volgt vatn í nægilegu magni svo nýta megi á miðlæga varmadælu á svæðum.

Styrkupphæð fyrir hvert verkefni getur numið allt að tveimur þriðju af heildarkostnaði verkefnisins gegn mótframlagi umsækjanda. Verkefnin geta snúið að því að hefja nýtingu þar sem það á við, eða að frekari rannsóknum með vísan í fyrri niðurstöður.

Byggðastofnun með styrki vegna starfa á landsbyggðinni

Með aðgerð sem nefnist B.7. byggðaáætlun er markmiðið að búsetufrelsi verði eflt með fjölgun atvinnutækifæra og auknum fjölbreytileika starfa á landsbyggðinni.

Ríkisstofnanir sem hafa aðsetur á höfuðborgarsvæðinu geta sótt um styrkina vegna starfa utan svæðisins eða starfa sem hafa verið færð frá höfuðborgarsvæðinu frá og með 1. nóvember 2024.

Styrkjum er ætlað að koma til móts við ferðakostnað og leigu á aðstöðu í vinnustaðaklösum. Ekki verða veittir styrkir vegna tímabundinnar fjarvinnu eða blendingsstarfs, þ.e. starfs sem unnið er bæði utan og innan höfuðborgarsvæðisins.

Veita má styrk til stofnunar vegna starfs til allt að þriggja ára. Hámarksstuðningur við hvert starf getur numið allt að 2 milljónum króna á ári.

Byggðastofnun mun annast umsjón með úthlutun styrkja og gerð samninga og verður árangur af verkefninu metinn fyrir lok árs 2025.

Púkinn fer fram dagana 31. mars-11. apríl

Púkinn, barnamenningarhátíð Vestfjarða, verður haldin í þriðja sinn dagana 31. mars-11.apríl.

Á hátíðinni verður fjöldi spennandi viðburða fyrir vestfirsk börn. Hryggjarstykki hátíðarinnar að þessu sinni eru valdeflandi leiklistarsmiðjur, þar sem unnið verður eftir aðferðum Theatre of the Opressed, undir handleiðslu Birgittu Birgisdóttur sem heimsækir krakka á miðstigi í grunnskólum á Vestfjörðum.

Hátíðin sem áður er í góðu samstarfi við List fyrir alla og munu hinir hæfileikaríku Frach bræður fara víða með tónleikadagskrána Árstíðir, en á þeim stöðum sem þeir verða ekki býður List fyrir alla upp á Eldblómið í maí. UngRIFF hefur þegar heimsótt bæði Reykhóla og unglingastigið á Flateyri, Suðureyri og Þingeyri.

12 verkefni fengu styrk úr Púkasjóðnum til að bjóða upp á vandaða barnamenningu.

Katerina Blahutova kemur með Sæskrímslabúrið inn í grunnskólana á Bíldudal og Ísafirði. Trumbur, tröll og jötnar fara fram í grunnskólanum á Drangsnesi og Emil Kohlmayer verður með vinnustofur í sviðslistum fyrir krakka í Vesturbyggð. Aðrir viðburðir sem hlutu styrk en verða haldnir utan skóla eru: Vestfirska þjóðsagnagerðin sem haldin verður á Galdrasýningunni á Hólmavík, Þjóðsögustofan sem haldin verður í Bókasafni Vesturbyggðar, Púkapodcast – hlaðvarpsgerð fyrir ungmenni, verður í Edinborgarhúsinu á Ísafirði, Ævintýraheimur myndskreytinga, verður í Listasafni Ísafjarðar, Námskeið í frásagnarlist með Ragnheiði Þóru Grímsdóttur verður á Reykhólum, Langspilssmiðjur með Eyjólfi Eyjólfssyni á Hólmavík, Safnabingó Minjasafns Egils Ólafssonar, Furðuverur á flandri í Bókasafninu í Bolungarvík og Tröll segja sögur á Bókasafninu á Ísafirði.

32% lækkun á ráðlögðum grásleppuafla

Hafrannsóknastofnun ráðleggur að veiðar á grásleppu fiskveiðiárið 2024/2025 verði ekki meiri en 2760 tonn. Er það um 32% lækkun milli ára.

Ráðgjöfin byggir að mestu á stofnvísitölu úr stofnmælingu botnfiska í mars 2025 en einnig frá árinu á undan. Vísitala þessa árs var sú næst lægsta síðan að mælingar hófust 1985. Vísitala síðasta árs var einnig lág og vel undir langtíma meðaltali.

Stofnvísitölur hrognkelsa sveiflast milli ára, sem endurspegla að hluta til óvissu í mælingunum. Vegna þessa vegur stofnvísitala sama árs 70% á móti 30% vægi vísitölu fyrra árs við útreikning ráðlagðs hámarksafla.

Að teknu tilliti til þess leggur Hafrannsóknastofnun jafnframt til að upphafsaflamark fiskveiðiárið 2025/2026 verði 662 tonn.

Utanhúsviðgerðir á lögreglustöðinni á Patreksfirði

Framkvæmdasýslan-Ríkiseignir (FSRE), auglýsir í dag eftir tilboðum í utanhússviðgerðir að Aðalstræti 92 á Patreksfirði fyrir hönd Ríkiseigna. Húsið hýsir núna lögregluna og sýslumannsembætti Vestfjarða. Verk þetta felur í sér að niðurrif á klæðningu, sprunguþéttingar, endurnýjun glugga og lagfæringar á þaki. Byggja þarf viðbót við anddyri að byggingunni. Áætlað er að verktími verði um 7 mánuðir eða frá 1. maí 2025 þar til 15. október 2025. 

Útboð þetta er aðeins auglýst innanlands.  Tilboðum skal skilað fyrir 10. apríl n.k. kl 12.

Arctic Fish: ársskýrslan 2024 birt í gær – 390 m.kr. hagnaður

Arctic Fish birti ársskýrslu sína fyrir árið 2024 í gær.

Á árinu 2024 slátraði Arctic Fish 10.667 tonnum af laxi og seldi félagið afurðir fyrir um 12 milljarða. Hagnaður félagsins eftir skatta nam 390 milljónum króna.

„Nú þegar við gerum upp árið 2024 er tími til að horfa til baka á tímabil vaxtar, lærdóms og árangurs. Félagið er enn í uppbyggingarfasa með öllu sem því fylgir. Á sama tíma er mikilvægt að tryggja arðbærann rekstur með kostnaðaraðhaldi og skilvirkni í rekstri.

Þær umbætur sem við náðum á árinu 2024 hefðu ekki verið mögulegar án eldmóðs og ástríðu starfsfólksins, sem knýr Arctic Fish áfram á degi hverjum. Saman náðum við ýmsum mikilvægum áföngum, þar á meðal metháum framleiðslutölum í seiðaeldinu okkar, frábærum árangri í baráttunni við laxalús og fyrsta heila rekstrarárinu í vinnslunni okkar í Bolungarvík.

Við stöndum því á sterkum grunni og stefnum á áframhaldandi sjálfbæran vöxt.” – Sagði Stein Ove Tveiten, forstjóri Arctic Fish Holding.

Nýjustu fréttir