Laugardagur 19. apríl 2025
Heim Blogg Síða 7

Ísafjörður: tónleikar í Hömrum föstudaginn 11.apríl

Bræðurnir Mikolaj Ólafur , Nikodem Júlíus og Maksymilian Haraldur Frach bjóða á F.Chopin Tónlistarhátíðina föstudagskvöldið 11. apríl kl. 19:30 í Hömrum.
Á dagskránni verða perlur sígildar tónlistar m.a. verk eftir Chopin, Bach og þáttur úr fræga ballettinum um Rómeó og Júlía eftir Prokofiev.

Mikolaj, Maksymilian og Nikodem eru allir nemendur við Tónlistarakademíuna í Kraká og hafa hlotið verðlaun í ýmsum alþjóðlegum tónlistarkeppnum, en eins og mörgum er kunnugt eru þeir fæddir og uppaldir á Ísafirði og hafa margir fylgst með þroska þeirra allt frá bernsku. Þeir eru því sérstakir aufúsugestir hér.

Aðgangur ókeypis.

Tónleikarnir eru styrktir af Vestfjarðastofu. 

Auglýsing

MÍ: nemendur í Danmörku

Frá Damnörku. Mynd: M.Í.

Tíu nemendur MÍ í stálsmíði brugðu sér til Fredericiu í Danmörku þar sem þeir dvelja þessa vikuna hjá EUC Lillebælt, samstarfsskóla MÍ. Dagskrá hópsins er þétt og góð að sögn Alexíusar Jónassonar, kennara sem fylgir hópnum. Hafa nemendurnir m.a. fengið að vinna hagnýtt verkefni sem er að smíða eldstæði, undir handleiðslu Michaels kennara við EUC.

Nemendurnir byrjuðu á að fá kynningu á verkefninu og teiknuðu síðan smíðastykkið í Inventor-teikniforritinu. Þegar því var lokið hófust nemendur handa við að skera niður parta í laser og eftir það tóku við æfingar í rafsuðu og var góðum tíma varið í þær. Nemendur kláruðu síðan að skera parta, valsa og beygja og að lokum var komið að samsetningu.

Auglýsing

Atvik – á ferð um ævina

Ísfirðingurinn og menningarfrömuðurinn Njörður P. Njarðvík hefur oft verið hvattur til að skrifa ævisögu sína, enda komið víða við á fjölbreyttri og áhugaverðri ævi.

En hann hefur ævinlega vikist undan slíkum hvatningum. Það hefur þó hvarflað að honum að gaman gæti verið að skrifa um ýmislegt minnisstætt sem hefur haft áhrif á hann bæði til góðs og ills.

Og nú, þegar hann er kominn hátt á níræðisaldur, hefur hann loks látið verða af því að festa á blað eftirtektarverð atvik á ferð um ævina í þessari þokkafullu minningabók.

Njörður P. Njarðvík - NB Forlag


Njörður P. Njarðvík (1936) er prófessor emeritus í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands. Hann hefur sent frá fjölda bóka ljóð, skáldsögur, barnabækur, ævisögur, kennslubækur og fræðirit auk þýðinga. Njörður hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir bækur sínar og störf

Auglýsing

Goðdalir er samstarfsverkefni skólanna á Drangsnesi og Hólmavík

Goðdalir er samstarfsverkefni Grunnskóla Drangsness og Grunnskólans á Hólmavík.


Um er að ræða frumsamið leikrit sem verður sýnt 10. og 11. apríl í Samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi, kl. 17 báða dagana.

Goðdalaverkefnið hefur verið í gangi síðan í haust. Í kjölfar þemasmiðja um goðafræði var Kristín Ragna Gunnarsdóttir rithöfundur fengin til að vera með ritsmiðju þar sem nemendur komu með hugmyndir um tengsl goðafræðinnar við nútímann.

Hugmyndir úr ritsmiðjunni voru svo nýttar til að skrifa leikrit fyrir leikhópinn sem telur 23 nemendur frá 2. – 9. bekk. Það er Kolbrún Erna Pétursdóttir leikkona sem samdi leikritið og leikstýrir hópnum. Þá hafa nemendur saumað fjölda búninga fyrir leikritið úr endurunnum efnum og lært gamalt handverk í leiðinni.

Inn í verkefnið fléttast svo samstarf við Árnastofnun þar sem skólarnir tóku þátt í verkefninu „Hvað er með ásum“ og fengu bæði námsefni í myndlist og fræðslu um nýja handritasýningu Árnastofnunar, „Heimur í orðum“. Í mars fengum við svo Hrafnkel Örn – Kela til að vera með slagverkssmiðju sem við nýtum okkur í leikritinu.

Verkefnið er styrkt af Barnamenningarsjóði og slagverkssmiðjan er styrkt af Púka – barnamenningarhátíð.

Auglýsing

Fundur um atvinnuþróun á Vestfjörðurm

Byggðastofnun í samvinnu við Landshlutasamtökin stendur fyrir fundaröð undir yfirskriftinni „Atvinnuþróun í landsbyggðunum“.

Á fundunum verður farið yfir atvinnuþróun í landshlutunum, lánamöguleika Byggðastofnunar vegna atvinnurekstrar og styrki Byggðaáætlunar.

Fundirnir verða haldnir á samskiptaforritinu Teams og að þeim loknum gefst tækifæri til að bóka fund með byggðaþróunarfulltrúa og/eða lánasérfræðingi Byggðastofnunar.

Hlekk á fundinn má finna hér: Kl. 13:00 – Vestfirðir: https://fb.me/e/2UtQN1Hpx

Auglýsing

Tillaga um nýtt rekstrarleyfi fyrir 2.400 tonn í Norðurbotni í Tálknafirði

Matvælastofnun hefur unnið tillögu að rekstrarleyfi fyrir Arctic Smolt hf. vegna fiskeldis á landi í Norðurbotni í Tálknafirði.

Um er að ræða nýtt rekstrarleyfi fyrir 2.400 tonna hámarkslífmassa vegna seiðaeldis á laxi og regnbogasilung. Rekstaraðili er með leyfi fyrir allt að 1.000 tonna hámarkslífmassa að Norðurbotni.

Framkvæmdin var tilkynnt til Skipulagsstofnunar sem mat það svo að fyrirhuguð framkvæmd væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Framkvæmdin væri því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Athugasemdir við tillöguna skulu vera skriflegar og sendar Matvælastofnun.

Auglýsing

Ofanflóðasjóður: framkvæmdir í Vesturbyggð og Ísafjarðarbæ

Varnargarður á Patreksfirði nokkru utar við Stekkagil. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Á þessu ári eru framkvæmdir á vegum Ofanflóðasjóðs í gangi í tveimur sveitarfélögum á Vestfjörðum.

Á Patreksfirði verður lokið við endanlegan frágang bráðavarna í Stekkagili og varnargarða ofan hafnar. Á Bíldudal er fyrirhugað að hefja lokaáfanga í uppbyggingu varna fyrir byggðina árið 2025.
Á Flateyri er unnið að endurbótum varna.

Hins vegar hafa framkvæmdir ekki hafist við varnir á Patreksfirði undir Stekkagili, við Sigtún og í efri hluta Litladalsár og einnig við varnargarða á Tálknafirði undir Geitárhornum.
Þá hafa ekki framkvæmdir hafist undir Bakkahyrnu í Hnífsdal.

Fyrirsjáanlegar framkvæmdir

Fyrirsjáanlegar eru endurbætur á vörnum á þessum stöðum:

Á Patreksfirði er verið að prófa virkni snjósöfnunargrinda á fjallstoppi til þess að styrkja varnir ofan og við höfnina. Virkni hingað til er takmörkuð.
Á Flateyri er verið að prófa virkni snjósöfnunargrinda á fjallstoppi til þess að draga úr snjósöfnun í upptakasvæði ofan byggðar. Prófun lofar góðu.
Í Bolungarvík: Varnargarðar hafa valdið auknu vindálagi á hús í byggð undir görðunum og til greina kemur að reisa vindveggi til þess að bregðast við því.

Þessar upplýsingar koma fram í svari umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á Alþingi við fyrirspurn
frá Degi B. Eggertssyni um ofanflóðasjóð.

Auglýsing

Oddi hf: miklar líkur á því að vinnsla leggist af

„Miklar líkur eru á því að vinnsla Odda hf. leggist af verði þær álögur sem drögin gera ráð fyrir að veruleika. Enginn vafi er á því að sú niðurstaða mun skila ríkinu margfalt minni tekjum en er í dag.“ segir í umsögn Odda hf á Patreksfirði í samráðsgátt stjórnvalda um áform um hækkun veiðigjalda.

Hækkunin muni draga úr getu fyrirtækisins til nauðsynlegra fjárfestinga, sem hafi verið um 240 m.kr. á ári frá 2020. Fjárfestingarnar styrki grundvöll fyrirtækisins og auki skattspor þess.

Sjóðstreymi félagsins á síðustu fjórum árum eftir eðlilega viðhaldsfjárfestingu og fjármagnskostnað hafi að meðaltali verið 86 m.kr. á ári. Boðuð hækkun veiðigjaldsins um 60 m.kr. sé um 64% af lausu fé félagsins og verði eftir hækkun 140 m.kr.

„Fram hjá þessum staðreyndum verður ekki horft við mat á getu meðalstórra sjávarútvegsfyrirtækja í brothættum byggðum til að greiða hærra veiðigjald til ríkisins. Miklar líkur eru á því að vinnsla Odda hf. leggist af verði þær álögur sem drögin gera ráð fyrir að veruleika. Enginn vafi er á því að sú niðurstaða mun skila ríkinu margfalt minni tekjum en er í dag.“ segir í umsögninni.

Oddi hf leggur til að frítekjumark verði hækkað margfalt og það verði þrepaskipt. Breytingin á frítekjumarkinu í frumvarpsdrögunum sé aðeins um 5,5 m.kr. sem þýðir að um 55 m.kr. af 60 m.kr. hækkun veiðigjaldsins kemur til greiðslu. Það sé allt of lítið breyting.

Bent er á að í Odda hf. eru starfandi um 75 manns í vinnu í þorpi sem telur 700 íbúa eða um 20% af vinnumarkaði í beinum störfum að ótöldum afleiddum störfum. Fyrirtækið biðlar til stjórnvalda að gefa sér tíma að skoða málið betur, fresta breytingum í eitt ár, láta gera ítarlega úttekt á áhrifum af áætlaðri gjaldtöku á rekstur minni og meðalstórra fyrirtækja, sveitarfélaga og samfélaga.

Auglýsing

Vestfirðir: íbúafjölgun umfram landsmeðaltal

Súðavík. Sveitarfélagið er til húsa í þessu húsi. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson..

Íbúum með lögheimili á Vestfjörðum hefur fjölgað um 0,3% síðustu fjóra mánuði, sem er umfram landsmeðaltalsfjölgun á sama tíma. Fjölgunin á landsvísu var 0,2% frá 1. desember 2024 til 1. apríl 2025.

Mest var fjölgunin á Suðurlandi 0,6% og síðan 0,3% á höfuðborgarsvæðinu og á Vestfjörðum. Veruleg fækkun varð á tveimur landssvæðum. Á Suðurnesjum fækkaði íbúum um 0,8% og um 0,7% á Austurlandi.

Á Vestfjörðum fjölgaði um 22 íbúa og þar af varð 13 manna fjölgun í Súðavík sem gerir 5,8% fjölgun á þessum fjórum mánuðum. Er það mesta hlutfallslega fjölgunin á landinu á þessum tíma.

Þá fjölgaði um 8 manns í Vesturbyggð en í Strandabyggð fækkaði um 6 manns.

Auglýsing

Hvalárvirkjun: seinkun í Hæstarétti hefur ekki áhrif

Sú ákvörðun Hæstaréttar að seinka málflutningi fyrir réttinum til haustins hefur ekki áhrif á undirbúning Vesturverks segir Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi HS Orku og Vesturverks.

Hún segir að verið sé að ljúka skipulagsferli fyrir undirbúningsframkvæmdum, sem eru einkum slóðagerð vegna jarðvegsrannsókna á Ófeigsfjarðarheiði og uppsetning  smærri vinnubúða. Búið er að auglýsa deiliskipulagsbreytingar vegna undirbúningsframkvæmdanna og verið að vinna úr tveimur umsögnum sem bárust frá Náttúrufræðistofnun og Minjastofnun.

Í sumar verður unnið að fornleifaskráningu á framkvæmdasvæðinu í samræmi við umsagnirnar og að undirbúningsframkvæmdum eftir því sem unnt verður.

Næsta skref verður að sækja um framkvæmdaleyfi til sveitarstjórnar Árneshrepps fyrir undirbúningsframkvæmdunum.

Birna sagði að miðað við áætlanir Vesturverks ætti seinkunin fyrir Hæstarétti ekki að valda seinkun á framvindu málsins. Verði niðurstaða Hæstaréttar neikvæð mun það ekki hafa úrslitaáhrif á áform um byggingu Hvalárvirkjunar en getur þó orðið til þess að breyta þarf tilhögun virkjunarinnar fari svo að vatnasvið hennar skerðist í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar.

Auglýsing

Nýjustu fréttir