Síða 7

Framsókn: Sigurður Ingi vill leiða flokkinn áfram

Fram kom í ræðu Sigurðar Inga Jóhannssonar, fomanns Framsóknarflokksins á miðstjórnafundi flokksins,sem nú stendur yfir á Akureyri, að hann vildi halda áfram að leiða flokkinn.

Í framhaldi af slæmri útkomu flokksins í Alþingiskosningunum í lok nóvember sl. sagðist Sigurður Inga hafa ferðast um landið og haldið um 40 fundi og niðurstaðan væri að hefja uppbyggingarstarf með stefnumótunarvinnu og málefnastarfi.

„Í Framsókn eru rúmlega 12.000 félagsmenn og í því fólki eigum við mikinn auð. Ég vil efla starf Framsóknarflokksins í samstarfi við fólkið og við ætlum að hlusta á fólkið okkar. Þess vegna munum við leita til hins almenna flokksmanns um ráð og nýjar hugmyndir með því að spyrja hvað megi betur fara í flokksstarfinu, hvaða áherslur viljum við sjá og hvernig við getum gert starf okkar öflugra og aðgengilegra? Við munum vinna úr tillögum flokksfólks í framhaldinu og leggja fram til umræðu og afgreiðslu á næsta flokksþingi.“

Um stefnuna sagði Sigurður Ingi:

„Framsókn er flokkur framkvæmda og atvinnu og þeirrar velferðar sem verðmætasköpunin býr til. Við lítum ekki á stjórnmál sem keppni í því hver getur talað hæst, heldur sem vettvang til að skapa raunverulegar breytingar til batnaðar.“

530 þús kr. í styrki til félagasamtaka vegna fasteignaskatts

Kiwanisklúbburinn Básar.

Ísafjarðarbær hefur samþykkt að veita alls 530 þúsund króna styrk til greiðslu á fasteignaskatti til félagasamtaka.

Fimm félagasamtök sóttu um styrk að undangenginni auglýsingu.

Styrkur til Oddfellowhússins á Ísafirði er 130 þúsund krónur. Átthagafélag Snæfjallahrepps fékk 104 þús. króna styrk vegna Dalbæjar. Kiwanisklúbburinn Básar fékk 130 þúsund króna styrk og Grunnvíkingafélagið á Ísafirði 36 þúsund króna styrk.

Styrkurinn rennur til greiðslu fasteignaskatts, en ekki lóðarleigu, fráveitu, vatnsveitu eða sorpgjalda.

Thai Tawee Ísafirði: fimm ára

Bjarki og Pannipha. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Um mánaðamótin voru rétt fimm ár síðan Sigurður Bjarki Sigurvinsson og eiginkona hans Pannipha tóku við rekstri Thai Tawee, tælenskum veitingastað í Neistahúsinu. Þau keyptu staðinn af Grétari Helgasyni sem hafði rekið hann þrjú ár. Bjarki sagði í samtali við Bæjarins besta að innan tveggja vikna hafi covid19 verið komið til sögunnar og loka þurfti staðnum skömmu síðar í mánaðartíma. Á þeim tíma ríkti alger óvissa um hvað verða mundi og láta þurfti hvern dag nægja sína þjáningu.

Úr faraldrinum rættist um sumarið og var mikið að gera þar sem ferðamannastraumur Íslendinga var fyrst og fremst innanlands. Bjarki segir að fljótlega hafi verið ráðið að beina viðskiptunum sem mest í sölu yfir borðið til viðskiptavina sem tóku matinn heim. Það hafi gert gæfumuninn.

Nú eru þessir erfiðleikar að baki og reksturinn gengur vel að sögn Bjarka. Alls eru fimm heilsárstörf sem byggjast á þessa vinsæla veitingastað. Sumarmánuðina er opið alla daga vikunnar en annars er opið alla daga nema sunnudaga.

Sparisjóður Strandamanna í formlegar sameiningarviðræður

Stjórnir Sparisjóðs Höfðhverfinga hf. og Sparisjóðs Strandamanna hf. hafa samþykkt að hefja formlegar viðræður um mögulega sameiningu sjóðanna.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem send hefur verið út. Þar segir að leiði viðræðurnar til sameiningar sjóðanna verði til öflugur sparisjóður sem muni styðja vel við einstaklinga og fyrirtæki á sínum starfssvæðum sem eru aðallega í Eyjafirði og á Ströndum, jafnframt því að sækja á nýja markaði.  Fjárhagsstaða hvors sjóðs um sig er sögð sterk, báðir sjóðirnir hafi góð eiginfjárhlutföll sem og góða lausafjárstöðu.  Sameiningu sjóðanna er fyrst og fremst ætlað að hefja markaðssókn með stækkun efnahagsreikningsins.

Stærstu eigendur Sparisjóðs Höfðhverfinga eru KEA og Sænes (Grýtubakkahreppur) en eignarhald Sparisjóðs Strandamanna er dreift á fjölda einstaklinga.  Hvor sjóður um sig er með yfir 130 ára samfellda rekstrarsögu, auk þess sem báðir sjóðirnir breyttu félagsformi sínu í hlutafélag á liðnu ári.  

Gangi sameiningin eftir mun KEA strax í kjölfar sameiningarinnar leggja sjóðnum til aukið hlutafé til fyrsta áfanga í vexti sameinaðs sjóðs sem og að leggja til enn meira hlutafé síðar til frekari vaxtar skapist þær aðstæður.  Þannig verður til strax í kjölfar sameiningar mjög öflugur og vel fjármagnaður sparisjóður.  

Jóhann Ingólfsson formaður stjórnar Sparisjóðs Höfðhverfinga fagnar þessu skrefi sjóðanna sem eru minnstu sparisjóðirnir í dag en saman gætu þeir myndað sterkan grunn til vaxtar.  Mikilvægt sé að stækka og efla sparisjóðina til þess að mæta sterkar inn á bankamarkaðinn og viðhalda eðlilegri flóru fyrirtækja á þessum markaði.  „Við teljum góðan hljómgrunn í samfélaginu fyrir vexti sparisjóðanna, það sýna viðhorfskannanir sem við höfum látið gera.  Vonandi verði þetta upphafið að frekari sameiningum eða stækkunum sparisjóðanna í heild sinni því þeir munu verða til framtíðar áhugaverður og öðruvísi valkostur fyrir fólk og fyrirtæki á bankamarkaði.“

Víðir Álfgeir Sigurðarson formaður stjórnar Sparisjóðs Strandamanna segir að tækifæri séu í sameiningu sjóðanna, nauðsynlegt er að þróa áfram og auka samstarfs sparisjóðanna með hagsmuni eigenda og samfélagsins sem þeir vaxa uppúr að leiðarljósi.  Stórauknar kröfur um regluverk og eftirlitsumhverfi, þrátt fyrir smæð og einfaldan rekstur sjóðanna, er að gera rekstrarumhverfi þeirra flóknara.  Áfram verði unnið að auknu samstarfi sparisjóða í gegnum Samband Íslenskra Sparisjóða.  Vonir standa til að með sameiningu verði til öflugur sparisjóður með dreifðu eignarhaldi, sem styðji vel við nærsamfélagið og byggir áfram á þeirri hugmyndafræði sem sparisjóðirnar hafa alltaf staðið fyrir frá því þeir voru stofnaðir fyrir rúmlega 130 árum.

Ferðamálastofa semur við Maskínu um landamærarannsókn og brottfarartalningar

Brottfarir í janúar 2025

Ferðamálastofa bauð í byrjun febrúar út rekstur á landamærarannsókn og brottfarartalningum í Keflavík. Niðurstaða útboðsins er að Maskína tekur við rekstri rannsóknanna frá og með 1. apríl næstkomandi.

Landamærarannsóknin er ein af lykilstoðum í ferðamálatölfræði á Íslandi. Hún veitir meðal annars upplýsingar um ákvörðunarferli ferðamanna þegar kemur að Íslandsferð og ferðavenjur þeirra hér á landi, ásamt viðhorfi til þátta sem snerta ferðaþjónustuna. 

Brottfarartalningar notaðar til að varpa ljósi á þjóðernaskiptingu þeirra sem yfirgefa landið frá Keflavíkurflugvelli. Um er að ræða könnun þar sem farþegar eru spurðir um þjóðerni áður en þeir ganga inn í öryggisleit. Hlutfallsleg skipting brottfararfarþega er svo umreiknuð í farþegafjölda á þjóðerni út frá tölum Isavia um heildarfjölda brottfara.

Vorjafndægur

Jafndægur eru tvisvar á ári, um 20.-21. mars og 22.-23. september. Tímasetningin hnikast örlítið milli ára, eftir því hvernig stendur á hlaupári. Jafndægur miðast við að þá er sólin beint yfir miðbaug jarðar, og þá er stefna frá miðju jarðar í sólmiðju hornrétt á snúningsás jarðar. Þessi atburður er því á tilteknu augnabliki innan dagsins. Um vorjafndægur eru dagur og nótt álíka löng og lengist dagurinn um 6-7 mínútur á hverjum degi.

Stundum er sagt að á jafndægrum séu dagur og nótt jafnlöng, sem er nærri lagi, en þetta er ekki alveg svo einfalt. Í fyrsta lagi er bjart nokkru fyrir sólarupprás og eftir sólarlag, en jafnvel tíminn milli sólarupprásar og sólarlags er ekki nákvæmlega 12 klst. á jafndægrum.

Ástæða þessa fráviks er af tvennum toga. Í fyrsta lagi miðast sólarupprás og sólarlag ekki við augnablikið þegar sólmiðjan fer niður fyrir sjónbaug (láréttan sjóndeildarhring), heldur er miðað við fyrstu og síðustu geisla sólar, þ.e. efri rönd sólkringlunnar. Í öðru lagi veldur ljósbrot í lofthjúpi jarðar því að við getum séð í sólina þar til sólmiðjan er komin um 1,1° niður fyrir sjónbaug.

Í Almanaki Háskólans má t.d. sjá að tíminn milli sólarupprásar og sólarlags á vorjafndægrum er um 12 klst. og 14 mínútur, en tveimur dögum fyrir jafndægur er dagurinn nær 12 klst.

Aflasamsetning botnvörpu- og dragnótaskipa

Fiskistofa hefur birt skýrslu yfir aflamsetningu allra botnvörpu- og dragnótaskipa með og án eftirlits frá 1. Janúar 2024.

Skýrslaner birt í 3 tímabilum til að afmarka gögnin og á upphafssíðu hennar eru settar fram notkunarleiðbeiningar.

Sjóeftirlit Fiskistofu er stór hluti af lögbundnu hlutverki stofnunarinnar þegar snýr að eftirliti með fiskveiðum og árið 2024 voru eftirlitsmenn Fiskistofu á sjó í 739 daga.

Farið var í 127 veiðiferðir með fiskiskipum og voru flest þeirra á veiðum með botnvörpu og dragnót.

Í skýrslunni má sjá hvort mismunur er á aflasamsetningu eftir því hvort eftirlitsmaður er um borð eða ekki.

Landssamband smábátaeigenda telur 26% eignarhlut nægjanlegan

Bíldudalshöfn.

Drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um strandveiðar sem verið hefur í samráðsgátt stjórnvalda hefur fengið 96 umsagnir nú þegar frestur til að skila inn umsögnum er liðinn.

Meðal þeirra sem sendu inn umsögn er Landssamband smábátaeigenda en þar segir, eftir að gerð hefur verið grein fyrir þeim breytingum sem gerðar hafa verið á reglugerðinni á liðnum árum:

„Af framangreindu má álykta að á öllum stigum breytinga hafi það verið markmið löggjafans að koma í veg fyrir að sömu aðilar gerðu út fleiri en einn strandveiðibát.
LS hefur á aðalfundum sínum viljað skerpa á ákvæðinu auk þess að tryggt yrði að raunverulegur eigandi væri lögskráður á bátinn. Samþykkt síðasta aðalfundar var engin undantekning:
„LS leggur til að skipstjóri strandveiðibáts skuli eiga minnst 26% í fyrirtæki sem gerir út strandveiðibát og það skráð í hlutafélagaskrá. Jafnframt að vera þinglýstur minnst sem 26% eigandi af sínum hlut í bátnum og jafnframt prókúruhafi. LS leggur áherslu á að ríkt eftirlit verði með eignarhaldi á bátum.“

Þar sem nú liggur fyrir að veiðidagar til strandveiða verði 48 leggur LS til að 4. mgr. reglugerðarinnar orðist svo:
„„Einungis er heimilt að veita hverri útgerð, eiganda, einstaklingi eða lögaðila, leyfi til strandveiða fyrir eitt fiskiskip. Enginn eigenda lögaðila sem á bát með strandveiðileyfi getur átt aðild að nema einu strandveiðileyfi.

Uppbygging hjúkrunarheimila færist til ríkisins

Hjúkrunarheimilið Eyri á Ísafirði. Það er fyrirhuguð 10 rúma viðbygging.

Ríkið og sveitarfélögin hafa gert samkomulag um breytingar á fyrirkomulagi á uppbyggingu hjúkrunarheimila með fyrirvara um að Alþingi samþykki nauðsynlegar lagabreytingar og breytingar á fjárlögum.

Í samkomulaginu felst að ábyrgð á fjármögnun vegna uppbyggingar hjúkrunarheimila verður alfarið á ábyrgð ríkisins frá og með 1. júlí 2025 eða frá og með gildistöku á breytingum á núgildandi 32. gr. laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu og 5. mgr. 9. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra.

Frá 1. júlí 2025, ef fyrirhugaðar lagabreytingar ganga eftir, bera sveitarfélög framvegis ekki lengur ábyrgð á fjármögnun vegna uppbyggingar og leigu hjúkrunarheimila, auk þess sem sveitarfélögum verður ekki lengur skylt að úthluta lóðum án greiðslu gatnagerðargjalda.
Þegar sveitarfélög úthluta lóðum undir hjúkrunarheimili verður það hins vegar áfram gert án lóðarleigu og án byggingarréttargjalda enda er um almannaþjónustu að ræða. Samkomulag þetta hefur þó ekki áhrif á ábyrgðar- og kostnaðarskiptingu hjúkrunarheimila sem eru í byggingu.

Áætlað er að fjárhagslegt umfang verkefnisins geti orðið um 1,6 ma. kr. árlega en það miðar við áætlaða þörf á 1.600 hjúkrunarrýmum næstu 15 ár.

Samningsaðilar eru sammála um að taka þurfi afstöðu til eignarhalds og ábyrgðarskiptingar milli ríkis og sveitarfélaga hvað varðar eldri hjúkrunarheimili. Samningsaðilar munu því setja á fót stýrihóp sem falið verður að útfæra nánar skiptingu á eignum milli ríkis og sveitarfélaga.
Gengið er út frá því að þar sem um sameiginlegt eignarhald ríkis og sveitarfélaga er að ræða muni
eignarhlutur sveitarfélaga í eldri hjúkrunarheimilum færast yfir til ríkisins til að einfalda verka- og
ábyrgðarskiptingu með sambærilegum hætti og gert var með eignarhlut ríkisins í grunnskólahúsnæði þegar það færðist yfir til sveitarfélaga. Ríkið mun þá jafnframt alfarið taka yfir viðhaldsskyldu á slíkum eignum sem sveitarfélög bæru annars í samræmi við eignarhlutdeild í viðkomandi eign.

Torfnes: íþróttasvæðið stækkað

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti í vikunni að lóðin við Seljalandsveg 29, Ísafirði verði felld út og íþróttasvæðið á Torfnesi stækkað sem því nemur.

Jafnframt var samþykkt að heimila endurskipulagningu á deiliskipulagi íþróttasvæðsins.

Nýjustu fréttir